149. löggjafarþing — 30. fundur.
aðgerðir gegn skattsvikum.

[15:37]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Í byrjun árs 2017 skipaði þáverandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, starfshóp til að greina umfang og áhrif skattsvika á íslenskan þjóðarbúskap og hvernig mætti minnka svarta hagkerfið. Starfshópurinn skilaði viðamikilli skýrslu fyrir tæpu einu og hálfu ári.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvernig staðið sé að úrvinnslu hugmynda og tillagna þeirra, sem eru margar og margar hverjar mjög merkar, hver staðan sé og hvernig unnið sé að þeim verkefnum í fjármálaráðuneytinu.

Formaður nefndarinnar dró þetta saman í fjögur meginatriði í lokaorðum með skýrslunni og myndi ég vilja biðja hæstv. ráðherra að víkja sérstaklega að hverjum flokki fyrir sig í svörum sínum.

Það er í fyrsta lagi einföldun virðisaukaskattskerfisins og fækkun skattþrepa, helst í eitt skattþrep, samhliða lækkun skattsins sem myndi draga úr undanskotum.

Í öðru lagi kröfur um hæfisskilyrði einstaklinga til að gerast innheimtumenn ríkisins á virðisaukaskatti og almennt hæfi einstaklinga til að stofna hlutafélög og stunda viðskipti með þeirri ábyrgð sem því fylgir.

Síðan voru tillögur sem snúa að keðjuábyrgð fyrirtækja, t.d. í byggingariðnaði, og einnig til að mæta þeim áskorunum sem voru og eru enn í ferðaþjónustunni vegna vaxtar.

Í fjórða lagi voru settar fram tillögur um takmörkun á notkun reiðufjár. Ástæða þess er nefnd hér, innkaup og flutningur fjármuna milli landa í stórum stíl á ekki að tíðkast með notkun reiðufjár. Notkun reiðufjár er mikilvægt hjálpartæki í svartri atvinnustarfsemi og þar með undanskotum frá sköttum.

Mér þætti vænt um að (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra svaraði þessum spurningum.



[15:39]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er þannig með skattkerfið og skilvirkni þess að það er í sjálfu sér viðvarandi verkefni að gæta að því að við náum settum markmiðum. En hér er komið inn á skýrslu sem skilað var fyrir þó nokkru síðan og rakin er til starfshóps sem settur var á laggirnar snemma árs 2017 og nokkur atriði nefnd.

Varðandi virðisaukaskattinn og hvort við ættum að ganga lengra með tillögur í vaski komu fram tillögur á síðasta sumri um að þrengja bilið milli þrepanna og auka með því skilvirkni í virðisaukaskattskerfinu. Við höfum í millitíðinni séð miklar breytingar á starfsumhverfi í ferðaþjónustu, einkum með sveiflum í gengi og töluvert miklum launahækkunum. Og nú eru til skoðunar aðrar leiðir í því efni.

En segja má að verkefninu varðandi þéttingu virðisaukaskattskerfisins sé ekki lokið. Sú vinna heldur áfram í fjármálaráðuneytinu. Það væru þá einkum þeir geirar sem eru alfarið undanþegnir virðisaukaskatti sem kæmu þar til skoðunar. En ég verð að halda því til haga að við höfum gert talsverðar breytingar til þéttingar á virðisaukaskattskerfinu á undanförnum árum.

Varðandi hæfi til að stofna félög og það sem snýr að félagaréttinum í heild sinni verður það að vera til skoðunar í öðrum ráðuneytum. Við höfum verið að skoða það sérstaklega sem snýr að keðjuábyrgðinni. Það er sömuleiðis mál sem tengist kennitöluflakki og bæði þessi mál reyndar, með félögin og keðjuábyrgðina. Við höfum rætt það áður í þinginu. Síðan er alltaf matsatriði með reiðuféð. Þessi tillaga kom fram, hún er ekki til skoðunar í fjármálaráðuneytinu í dag og er ágætt að rifja upp (Forseti hringir.) hversu mikið 5.000 kr. hafa rýrnað í raun og veru frá því að þær voru teknar upp en 10.000 kr. seðillinn er sá nýjasti og ekki mjög hár í alþjóðlegum samanburði.



[15:42]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka svörin. Mig langar að spyrja aðeins nánar út í virðisaukaskattinn. Ég held að hæstv. ráðherra hafi orðað það þannig að verið væri að þétta virðisaukaskattskerfið, væntanlega þá í þeirri meiningu að koma í veg fyrir leka og undanskot. Mig langar til að þýfga hann aðeins um stefnu ríkisstjórnarinnar en ekki síður Sjálfstæðisflokksins hvað varðar það að stefna að einu þrepi í virðisaukaskatti.

Nú vill þannig til að formaður þeirrar ágætu nefndar sem skilaði þessu áliti er trúnaðarmaður innan Sjálfstæðisflokksins og hefur starfað þar lengi og ég hygg að hann hafi þarna m.a. verið að koma á framfæri þeirri stefnu sem hefur verið innan flokksins varðandi virðisaukaskattskerfið. Mér þætti vænt um ef það kæmi fram hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé fallinn frá því að stefna að einu þrepi virðisaukaskatts eða hvort hér sé um að ræða tímabundið hlé.



[15:43]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er góð hugmynd að ná þrepunum í virðisaukaskattskerfinu betur saman. Ég held hins vegar að óraunhæft sé að tala um það í útfærslu nema við séum í leiðinni að ná fram lækkun á skattbyrði. Nú er ég bara að reyna að tala sem raunsæismaður en ég held að við náum ekki saman um slíka kerfisbreytingu nema samhliða skattalækkun. Það þyrfti þá að fela í sér að við værum að fara í eitt þrep sem lægi undir 20% í skatti. Við erum ekki að vinna að því í augnablikinu, önnur mál eru í forgangi hjá okkur og við sjáum ekki í langtímaáætlun í ríkisfjármálum að það væri það svigrúm til skattalækkana í virðisaukaskattskerfinu sem myndu þurfa að fylgja slíkri breytingu. En það myndi þá gerast samhliða, að við færum upp með neðra þrepið og tækjum inn í virðisaukaskattskerfið greinar sem eru þar fyrir utan í dag.