149. löggjafarþing — 31. fundur.
lækkun framlaga til öryrkja í fjárlögum.

[15:32]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég er með svipað erindi og kollegar mínir á undan mér. Í gær voru kynntar breytingartillögur meiri hluta við fjárlög. Meðal þeirra er sú fyrirhugaða breyting að draga úr hækkun framlags til örorkulífeyrisþega, úr 4 milljörðum í 2,9 milljarða. Um er að ræða lækkun á fjárveitingum upp á 1,1 milljarð kr.

Hv. formaður fjárlaganefndar sagði í viðtali við RÚV að um væri að ræða aðgerðir í aðhaldsskyni til að bregðast við kólnun hagkerfisins. Í morgun sagði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hins vegar í viðtali við mbl.is að sú skýring væri fullkominn misskilningur og að um væri að ræða lækkun á framlögum vegna kerfisbreytinga sem væru ekki tilbúnar.

Nokkuð er því á reiki um ástæðuna fyrir því að verið sé að draga úr fjárframlögum til örorkulífeyrisþega um rúman 1 milljarð.

Ríkisstjórn hæstv. ráðherra var búin að gefa Öryrkjabandalagi Íslands vilyrði fyrir því að þeir fjármunir færu í að bæta efnahagslega stöðu félagsmanna þeirra. Þá hefur hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra, bæði á fundum með ÖBÍ og í pontu Alþingis, einnig gefið vilyrði til Öryrkjabandalagsins um að sú upphæð, 4 milljarðar, gæti farið í að draga úr krónu á móti krónu skerðingum.

Öryrkjabandalagið hafði því fulla ástæðu fyrr á þessu ári til að vera í góðri trú um að hægt yrði að ráðstafa þessum 4 milljörðum til að draga úr skerðingum örorkulífeyrisþega.

Forseti. Örorkulífeyrisþegar hafa setið á hakanum þegar kemur að kaupmáttaraukningu og kjarabótum. Ráðherra virðist af svörum sínum áðan að dæma ekki vera sammála því að margir öryrkjar lifi í fátækt, en margir öryrkjar ná ekki endum saman þar sem bætur ná varla upp í lágmarkslaun, leigumarkaðurinn hefur hækkað upp úr öllu valdi og það er almennt orðið mjög dýrt að lifa í þessu landi. Launin þeirra duga ekki.

Króna á móti krónu skerðing festir öryrkja í fátæktargildru og hamlar m.a. þeim sem geta frá því að vinna og bæta kjör sín. Telur ráðherra ekki mikilvægt að auka efnahagslegt frelsi þessa hóps?

Forseti. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra í raun mjög einfaldrar spurningar, já- eða nei-spurningar: Er fólkið í landinu mikilvæg auðlind að fjárfesta í? Já eða nei?[15:34]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Svarið við þeirri spurningu er já — og varla þörf á að taka svona umræðu hér.

Það er rangt sem hv. þingmaður segir, að öryrkjar hafi setið eftir. Ef við skoðum þróun á kaupmætti bóta kemur einfaldlega upp önnur mynd. Ég var að rekja það í svari við annarri fyrirspurn að við höfum hækkað bætur almannatrygginga um 30 milljarða að raunvirði þegar horft er á fjárlagafrumvarpið á næsta ári. Með þessum nýjustu breytingum má segja að það séu 29 milljarðar. Þetta er raunhækkun á hverju ári héðan í frá, borið saman við árið 2010.

Fyrir hvern bótaþega hafa greiðslurnar hækkað um 1,1 milljón á mann. Það er þess vegna rangt sem hv. þingmaður heldur fram, að sá hópur hafi setið eftir. Við höfum hækkað bæturnar um 75%. Þetta verðum við að geta rætt, vegna þess að staðan og þróunin er ákveðinn grunnur sem umræðan í dag þarf að byggja á. Tíminn ætti ekki að fara í vitleysu eins og rangtúlkanir á þróuninni.

Við þurfum að fara að ræða það sem mestu skiptir og það er hvernig við getum gert þær nauðsynlegu breytingar sem Öryrkjabandalagið og félagsmálaráðuneytið, og ég held margir þingmenn hér, eru sammála um að þurfi að gera á kerfinu. Það eru vissulega ákveðnar fátæktargildrur í kerfinu. Það eru umbætur sem menn eru að uppistöðu til sammála um að eigi að gera og það sem meira er: Við erum tilbúin með fjármagnið.

Ef hv. þingmaður gæti snúið umræðunni aðeins meira í áttina að því sem raunverulega varðar kaup og kjör þessa hóps, hvað við getum gert til að teygja okkur til þeirra sem eru í veikastri stöðunni, í stað þess að snúa út úr því sem liðið er held ég að við værum að taka skref í rétta átt.[15:36]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég hélt að við værum einmitt að ræða hvernig við gætum teygt okkur til öryrkja til að bæta kjör þeirra. Það sem Öryrkjabandalagið biður um og það sem öryrkjar biðja um er að við afnemum skerðingar til að losa þá úr fátæktargildru, sem mér heyrist hæstv. fjármálaráðherra vera sammála um að sé fátæktargildra.

Hæstv. ráðherra virðist líka vera sammála því að fjárfesta eigi í fólkinu í landinu. Af hverju gerum við það ekki núna? Hefur hæstv. ráðherra reiknað út hvað fátækt kostar okkur á Íslandi? Eða er ráðherra ósammála því að það sé yfir höfuð fátækt á Íslandi? Ég er viss um að öryrkjar, sem ætla að mæta á þingpallana á morgun, eru mjög ósammála ráðherra, þeir öryrkjar sem lifa í fátækt.

Hvað kostar fátækt okkur? Hvað mun það kosta að halda öryrkjum í fátækt aðeins lengur þangað til þessar kerfisbreytingar eru tilbúnar? Hvernig reiknar hæstv. ráðherra út að það sé sparnaður að viðhalda skerðingunum? Hann hlýtur að telja þetta sparnað, eða hvers vegna erum við annars að þessu? Ég vil sjá excel-skjalið þar sem útreikningarnir hafa farið fram.[15:38]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki í hvaða heimi hv. þingmaður býr þegar því er haldið fram að hér skilji menn ekki stöðu þeirra sem minnstu hafa úr að spila til að draga fram lífið í landinu. Þegar við horfum nokkur ár aftur í tímann og lítum bæði yfir bótakerfi örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega er myndin sú að bætur hafa hækkað um rúmlega 70 milljarða á ársgrundvelli. Á næsta ári setjum við 150 milljarða út í þessi tvö stóru kerfi.

Fyrir ekkert mjög mörgum árum síðan stóð sú tala í 80 milljörðum og þá fjármuni nýtum við úr sameiginlegum sjóðum til að gera fleirum kleift að draga fram lífið. Já, margir hafa úr litlu að spila. Í hópi ellilífeyrisþega eru margir sem ekki hafa náð að nýta starfsævina til að byggja upp lífeyri og í hópi örorkulífeyrisþega eru fjölmargir sem munu ekki eiga þess kost að fara út á vinnumarkaðinn og geta ekki drýgt tekjur sínar með öðrum hætti. (Forseti hringir.) Þetta er fólkið sem við viljum styðja. Þess vegna stendur yfir vinna við kerfisbreytingarnar og þá vinnu höfum við fjármagnað í áætlun okkar.