149. löggjafarþing — 31. fundur.
framlög til öryrkja.

[15:39]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég kem upp í ræðustól með óbragð í munni. Ég fékk ekki einu sinni sólarhring til þess að fagna frumvarpi þar sem hætta á að skatta styrki, því ótrúlega óréttlæti sem viðgengist hafði hérna árum saman. Arður og auðsöfnun er meiri en það sem öryrkjar fá frá ríkinu. Er það vegna þess að þeir eru svo fjársjúkir að þeir eigi forgang í boði þessarar ríkisstjórnar fram yfir raunverulega veikt og slasað fólk?

Samráðshópur um endurskoðun almannatrygginga, sem ég er í, fundaði í morgun. Mér var skapi næst að mæta ekki en ég hef aldrei skorast undan því að mæta þar sem ég á að vera og talað er um að gera eigi eitthvað, að hjálpa. En ég trúi því ekki lengur. Ég trúi því ekki vegna þess að þegar búið er að lofa einhverju lemur maður ekki á þeim sem liggja veikir eða slasaðir með því að skerða þá um 1,1 milljarð. Það var búið að lofa þessu og þetta á alltaf að vera bara fyrsta þrepið. En þetta er búið að taka tvö ár.

Hæstv. fjármálaráðherra talar um að búið sé að auka um 30 milljarða í þetta kerfi, að það sé 75% aukning. Og hverju hefur það skilað? Fyrir meiri hluta öryrkja 205.000 kr. útborgað — 205.000. En viðmið velferðarráðuneytisins um það sem fólk þarf að lágmarki eru 223.000 fyrir utan húsnæðiskostnað. Það eru öll ósköpin.

Að halda því síðan fram að þetta sé bara allt í lagi — ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann að draga þetta til baka? Ætlar hann að sjá til þess að þetta verði ekki að lögum?



[15:41]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög rík þörf fyrir málefnalega umræðu um stöðu öryrkja í landinu, þróun örorkulífeyriskerfisins, þróun einstakra bótaflokka, þá staðreynd sem ég hef rakið hér í dag að orðið hefur gríðarleg fjölgun öryrkja í landinu, m.a. vegna stoðkerfisvandamála. Það bárust reyndar ágætisfréttir í vikunni af þeim þætti málsins, að það virðist vera að með auknu aðgengi að sjúkraþjálfun sé okkur að takast að forða mörgum frá því að enda á örorku með betri forvörnum. En við höfum líka séð mikinn vöxt í andlegum sjúkdómum og öðrum þáttum sem okkur hefur ekki tekist nægilega vel að takast á við.

Sá þáttur þarf að vera hér til umræðu. Við þurfum að geta rætt um kerfisbreytingarnar. Það sem mér finnst eiginlega standa upp úr eftir orð hv. þingmanns er þetta: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að við fjármögnum kerfisbreytingarnar ef við eigum strax núna um áramótin að verja öllu því sem tekið hefur verið til hliðar til þess að fjármagna réttindaaukningu fyrir öryrkja ef við ætlum að ráðstafa því öllu núna strax, eins og hv. þingmaður virðist ganga út frá, án þess að gera breytingar á kerfinu?

Þá verður ekkert eftir í kerfisbreytingarnar, ekki neitt, sem þýðir að ef kerfisbreytingar án fjármögnunar eiga sér stað munu sumir fá meira og aðrir fá minna.

Er það það sem hv. þingmaður er að tala um, að við ráðstöfum sem sagt öllu svigrúmi í ríkisfjármálunum?

Ég er oft einn að tala um það hér að fjármunir eru af skornum skammti. Og ólíkt því sem margir þingmenn halda er ekki endalaust til í ríkissjóði til að mæta væntingum allra í landinu. Ef við ráðstöfum öllu svigrúminu í fjármálaáætluninni til þess að auka réttindin í núverandi kerfi, hvar ætlar hv. þingmaður að fá peningana (Forseti hringir.) til að fara í kerfisbreytingarnar?



[15:44]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að svara hæstv. ráðherra með því að vitna orðrétt í það sem félags- og jafnréttismálaráðherra sagði á þingi fyrr ekki svo löngu. Þar segir hann, með leyfi forseta, og það kemur skýrt fram:

„Ég ítreka, eins og hv. þingmaður kom inn á, að við erum með á næsta ári 4 milljarða, nýja, inn í þetta kerfi. Ég hef sagt það, bæði opinberlega og við hagsmunasamtök, bæði Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp, að útfærsla á því hvernig við ráðstöfum því fjármagni yrði unnin í samstarfi við þessi samtök. Það liggur fyrir að við erum með 4 milljarða, við getum notað þá til þess að draga úr þeim skerðingum sem hv. þingmaður kom inn á, …“

Hann segir þetta orðrétt. Hann ætlar að nota 4 milljarða — (Gripið fram í: Í kerfisbreytingar.) nei, ekki í kerfisbreytingar. Orðrétt, hann ætlar að tala við hagsmunasamtök og nota fjármunina núna um áramótin. Það eru hvergi kerfisbreytingar inni í þessu.

Þetta er ekki nema einn þriðji af kerfisbreytingunum, þá á eftir að tala um — eigum við að tala um skerðingarnar? Eigum við að tala um hvað mikið fer í skerðingar, hvað mikið er skert, (Forseti hringir.) hvað ríkið fær í þeim? Hvernig væri að koma þeim tölum upp hérna líka?



[15:45]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður misskilur málið algjörlega. Að sjálfsögðu er ráðherrann að tala um að í nýju kerfi verði dregið úr skerðingum og til þess er fjármögnun. Að sjálfsögðu er hann að tala um það. Að sjálfsögðu hefur ráðherrann verið að vinna sína vinnu með þeim hætti að það fengist endanleg niðurstaða í málið núna um áramótin. Vilji okkar hefur staðið til þess frá árinu 2016, en því miður er ekki kominn botn í vinnuna. Þegar við erum að setja saman fjárlög fyrir næsta ár þá erum við að horfa á hvenær raunhæft sé að áætla að kerfisbreytingin, sem 4 milljarðarnir eiga að fjármagna, taki gildi. Við horfum bara raunsætt á stöðuna og segjum: Tillögurnar eru ekki komnar fram. Það er mjög óraunsætt að ætla að þær taki gildi 1. janúar, en við getum haft vonir um að það verði eftir fyrsta ársfjórðung og frá og með þeim tíma eru 4 milljarðar á ári inn í framtíðina tryggðir í áætlunum okkar. Af þessu erum við stolt.

Við erum stolt af því að hafa undirbúið fjárlög ríkisins til næstu ára með þeim hætti að fjármagna þessar breytingar vegna þess að þetta skiptir máli ofan á þá 1,1 milljón á ári sem að meðaltali fer í dag út í örorkubætur. (Forseti hringir.) Þetta snýst ekki um hvort við höfum enn þá verk fyrir höndum. Þetta snýst um að standa við það sem áður hefur verið sagt og (Forseti hringir.) hv. þingmaður misskilur það til hvers 4 milljarðarnir voru ætlaðir.