149. löggjafarþing — 34. fundur.
staða Íslandspósts.

[13:44]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Staða Íslandspósts er mjög alvarleg. Í núverandi fyrirkomulagi sinnir Íslandspóstur alþjónustu og í staðinn fær hann einkarétt. Hagnaður af einkaréttinum á að standa undir kostnaði alþjónustunnar. Á undanförnum árum hefur einkaréttarþjónustan, þ.e. bréfasendingar, minnkað stöðugt og þar af leiðandi hefur hagnaðurinn af einkaréttinum átt erfiðara með að greiða fyrir kostnaðinn af alþjónustunni þannig að sama gjald sé fyrir póstþjónustu um allt land. Fækkun bréfasendinga hefur verið mætt með hækkun á gjaldskrá.

Póst- og fjarskiptastofnun segir að Íslandspóstur hafi fengið tekjutap af einkarekstri að fullu bætt í gegnum gjaldskrárbreytingar og það eigi að geta fjármagnað alþjónustuna. Þrátt fyrir það liggur fyrir þinginu breytingartillaga fyrir fjárlög 2019 sem hljóðar upp á 1,5 milljarða kr. lánveitingu til að bregðast við því sem er kallað lausafjárvandi Íslandspósts. Bæði fjárlaganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd hafa hins vegar skoðað málið og það lítur út fyrir að vera nokkuð flóknara en einhver lausafjárvandi, sérstaklega vegna þess að fyrir þinginu liggur frumvarp um afnám einkaréttarins.

Miðað við þær aðstæður vil ég spyrja hæstv. ráðherra mjög einfaldrar spurningar, því að bæði lánið og frumvarpið sem þingið hefur fyrir framan sig segja bara eina sögu. Þegar það verður tap á rekstri kemur til kasta ríkisins að redda málunum. Þegar allt er einkavætt er kostnaðurinn skilinn eftir hjá skattgreiðendum. Í núverandi fyrirkomulagi er kostnaðarjöfnun á milli svæða greidd af notendum. Í því framtíðarfyrirkomulagi sem liggur fyrir þinginu er sá kostnaður greiddur af skattgreiðendum á meðan hagnaðurinn er markaðsvæddur. Er það málið, hæstv. ráðherra? Er verið að einkavæða gróðann og ríkisvæða tapið? Sjáum við fyrstu merki þess í láninu sem er búið að veita Íslandspósti og er það stefna stjórnvalda í þeim málaflokki?



[13:46]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skil alls ekki spurningu hv. þingmanns. (Gripið fram í.)Fyrir þinginu liggur frumvarp á vegum sveitarstjórnar- og samgönguráðuneytisins sem fer með regluverkið í kringum póstþjónustuna. Eins og menn þekkja er hlutabréfið og rekstrarleg ábyrgð hjá fjármálaráðuneytinu.

Það stendur ekki til að selja Íslandspóst. Frumvarpið snýr fyrst og fremst að því að afnema einkarétt og búa til möguleika til þess að það sé hægt á markaðslegum forsendum, eins og t.d. í Svíþjóð þar sem pósturinn er enn til og rekur alla þá þjónustu innan þessarar markaðslegu reglna. Þar er óþarfi að koma með fjármuni inn til póstsins til að halda uppi þjónustu í öllum byggðum landsins. Í Noregi aftur á móti hafa þeir tekið upp nákvæmlega sama fyrirkomulag, að afnema einkaréttinn, og þar hefur niðurstaðan orðið sú, kannski er hún líkari því sem er á Íslandi, stórt land, dreifbýlt, að inni í alþjónustukvöðinni hefur verið skilgreint, eins og í frumvarpinu við þessa breytingu, að menn geti sótt greiðslur þar sem póstfyrirtækin á markaði greiða fyrir þann hluta. Ef ekki er farin sú leið, og sú leið var ekki farin í Noregi, er það úr ríkissjóði, til að tryggja lágmarksþjónustu. Það er enginn að tala um að markaðsvæða nokkurn skapaðan hlut annan en rekstur fyrirtækisins, þ.e. það að geta tekið alþjónustuna á markaðslegum forsendum myndi þýða að kostnaður skattgreiðenda við að halda uppi alþjónustu á ákveðnum svæðum yrði minni.

Umhverfið í þessu frumvarpi er þannig úr garði gert að fleiri gætu hugsanlega boðist til þess að gera þetta á markaðslegum forsendum þannig að aldrei kæmi til greiðslna úr ríkissjóði til að halda uppi þjónustunni. Ég held að hv. þingmaður hafi misskilið frumvarpið. Það er akkúrat verið að breyta fyrirkomulaginu þannig að aðrir og fleiri geti hugsanlega gert betur, verið með betri þjónustu fyrir minni pening.



[13:48]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Einkarétturinn á að standa undir kostnaðinum af alþjónustunni. Lánið sem liggur fyrir framan okkur segir að hann geri það ekki nema þá að lánið sem við eigum að afgreiða sé ekki á þeim forsendum, það sé á einhverjum öðrum forsendum. Það er annað hvort. Lagt er til í þessari þriðju pósttilskipun Evrópusambandsins, sem var innleidd hérna, að einkaréttur ríkisins á póstþjónustu yrði afnuminn og markaðurinn opnaður, eins og sagt er í greinargerðinni eða útskýringunum með frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að veiting póstþjónustu í atvinnuskyni verði ekki leyfisskyld heldur háð skráningu.

Ef alþjónusta verður ekki veitt á markaðslegum forsendum er lagt til að ríkisvaldið tryggi hana með því að fá einn eða fleiri aðila til að sinna alþjónustunni gegn því að kostnaður vegna byrðar sem í því felst verði bættur úr ríkissjóði. Verið er þá að setja þá byrði á skattgreiðendur, sem er ekki eins og er núna þar sem einkarétturinn á að standa undir þeim framlögum sem alþjónustan kostar. Það er þannig með fyrirtækið núna, með þessi dótturfyrirtæki sem sinna ýmissi þjónustu sem er smáhagnaður af hér og þar, ekki af þessari þjónustu, alþjónustunni, þar er kostnaðurinn. Þar eiga skattgreiðendur að borga enn. Það sem er annars staðar má vera á markaði.



[13:50]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Tilgangur þess að hafa einkarétt hafa menn haldið fram að sé sá að hann ætti að geta staðið undir alþjónustunni. Hann hefur augljóslega ekki gert það, enda hefur fjöldi bréfa farið úr 80 milljónum niður í 20 meðan dreifingin er hinn fasti kostnaður. Það þarf að fara á sömu svæði. Þess vegna hafa menn verið að fækka póstburðardögum. Nú eru bara tveir opinberir póstburðardagar á öllu Íslandi.

Hver greiðir þegar kostnaður við bréfasendingar hækkar stöðugt? Það eru auðvitað skattgreiðendur. Það er hægri vasinn og vinstri vasinn. Það skiptir auðvitað engu máli. Hvernig ætlar hv. þingmaður að tryggja að allir landsmenn sitji við sama borð og fái þjónustu ef ekki er farin þessi leið með alþjónustu? Enn og aftur og ég sagði það þrisvar sinnum þegar ég var að tala fyrir þessu máli í þinginu: Þetta er ekki innleiðing á Evróputilskipun. Póstpakkinn, ef við köllum hann svo, er ekki kominn inn í EES-samninginn. Við erum að gera þetta vegna þess að við teljum að það sé rétt skref að breyta markaðnum (Forseti hringir.) á nákvæmlega sama hátt og gert hefur verið í allri Evrópu. Við erum síðasta landið sem er með einkarétt.