149. löggjafarþing — 38. fundur.
sérstök umræða.

staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu.

[15:43]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Flugrekstur er kerfislega mikilvægur í hagkerfi landsins. Fjárhagslegir burðir íslensku millilandaflugfélaganna skipta þjóðarbúið miklu máli, varða efnahagslegan stöðugleika og flugöryggi. Ferðaþjónustan er okkar stærsta atvinnugrein og stendur hún undir 42% af útflutningsverðmætum þjóðarinnar. Ferðaþjónustan á því allt undir góðum og öruggum flugsamgöngum,

Bæði íslensku millilandaflugfélögin, Wow og Icelandair, hafa glímt við rekstrarerfiðleika á árinu sem rekja má til aukinnar samkeppni, auk þess sem olíuverð hefur hækkað mikið um tíma, eða allt að 50%. Í júlímánuði birti Icelandair afkomuviðvörun sem vakti hörð viðbrögð markaðarins. Hlutabréf í fyrirtækinu lækkuðu mikið og forstjóri félagsins sagði af sér.

Í byrjun október var Primera flugfélagið gjaldþrota. Félagið var með áætlunarflug til og frá landinu og var í íslenskri eigu. Þrot félagsins olli mörgum einstaklingum og fyrirtækjum tjóni. Koma Wow flugfélagsins inn á íslenskan millilandaflugmarkað árið 2011 var mikilvæg fyrir hagkerfið. Fjöldi ferðamanna hefur aukist verulega og þeir sem koma til landsins koma aðallega með vélum frá Icelandair og Wow.

Umfjöllun fjölmiðla um flugfélagið Wow var lengi vel jákvæð og fyrirtækið var í miklum vexti. Viðsnúningur verður síðan til hins verra árið 2017. Engar fjárhagsupplýsingar voru birtar fyrr en um miðjan júlí 2018 og birti félagið ársreikning sinn mjög seint. Í ágústmánuði komu síðan fréttir af taprekstri og að félagið væri að fara í skuldabréfaútboð. Í tengslum við skuldabréfaútboðið kom fram að eiginfjárhlutfall Wow hefði verið komið niður í 4,5% í júlí sl. Skuldabréfaútboðið dugði síðan ekki til. Ljóst var að Wow var komið upp við vegg og átti ekki laust fé til að standa við skuldbindingar sínar. Af þeirri ástæðu er síðan leitað til Icelandair um kaup á félaginu.

Hefði félagið farið í þrot á þessum tíma hefði það haft mikil áhrif en um 1.000 manns vinna hjá fyrirtækinu og flytur félagið um 37% allra farþega sem koma til landsins um Keflavíkurflugvöll. Afleidd áhrif yrðu umtalsverð.

Hliðaráhrif þessa máls hafa verið mikil. Peningastefnunefnd Seðlabankans gaf það út að ein ástæðan fyrir skarpri veikingu krónunnar undanfarið hafi verið óvissa um fjármögnun Wow. Eins og fram hefur komið hefur Icelandair nú keypt Wow en fyrirvörum vegna kaupanna hefur ekki verið aflétt. Hluthafafundur þarf að samþykkja kaupin en boðað hefur verið til hans innan fáeinna daga. Nú í hádeginu bárust þær fréttir að ólíklegt væri að fyrirvararnir yrðu uppfylltir fyrir fundinn og er það áhyggjuefni.

Herra forseti. Ljóst er að staða íslensku millilandaflugfélaganna er erfið. Samgöngustofa hefur eftirlit með rekstri flugfélaganna og vinnur samkvæmt reglugerð frá 2012 um flugrekstur og flugþjónustu innan EES. Reglugerðin fjallar um veitingu heimilda og leggur síðan áherslu á áhrif á flugfarþega, að þeir geti fengið endurgreitt og flugvélar séu í lagi. Reglugerðin fjallar hins vegar ekkert um þjóðaröryggi eða þjóðhagsvarúð. Samgöngustofa á að framkvæma reglulegt mat á fjárhagsstöðu flugrekenda.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig var eftirliti Samgöngustofu með flugfélaginu Wow háttað? Hvernig gat lausafjárstaða félagsins orðið með þessum hætti? Telur hæstv. ráðherra að Samgöngustofa sem eftirlitsaðili hafi þann mannafla og þá sérþekkingu sem þarf til að sinna svo kerfislega mikilvægu eftirliti?

Forstjóri Samgöngustofu hefur sagt að reynslumiklir menn stýri íslensku millilandaflugfélögunum. Frá því að þau orð féllu í ágúst sl. hefur forstjóri Icelandair sagt af sér, flugfélagið Primera orðið gjaldþrota og líftími flugfélagsins Wow ræðst eftir nokkra daga.

Telur hæstv. ráðherra eðlilegt að eftirlitsaðili eins og Samgöngustofa gefi frá sér slíka yfirlýsingu? Telur ráðherra ekki eðlilegt að horft sé til þjóðaröryggis og þjóðhagsvarúðar þegar fjárhagslegir burðir íslensku millilandaflugfélaganna eru skoðaðir?

Og að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Liggur fyrir aðgerðaáætlun af hálfu ráðuneytisins ef niðurstaða hluthafafundar Icelandair verður sú að félagið telji það ekki fýsilegan kost að kaupa flugfélagið Wow?



[15:48]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er þekkt að erfiðleikar hafa verið í flugrekstri hér á landi sem og annars staðar. Nokkur erlend flugfélög hafa farið í þrot og það er óvissa um stöðu annarra. Íslensku millilandaflugfélögin Icelandair og Wow air eru þjóðhagslega mikilvæg og standa að bróðurparti flugferða til og frá landinu. Það er mikilvægt að flugsamgöngur séu í traustum skorðum því að eins og kom fram hjá málshefjanda er ferðaþjónustan ein helsta stoð hagkerfisins og á hún mikið undir góðum flugsamgöngum.

Væntingar hafa verið um samruna félaganna en málið er auðvitað í höndum þeirra, m.a. er beðið eftir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins varðandi mögulegan samruna þeirra félaga, Icelandair og Wow air.

Hv. þingmaður sendi mér spurningar upphaflega sem ég ætla að reyna að halda mig við að svara. Hann bætti reyndar nokkru við sem ég get kannski komið inn á í lokasvari mínu.

Varðandi eftirlitshlutverk Samgöngustofu er það margþætt og nær til flestra þátta í starfsemi hennar. Regluverkið og framkvæmd eftirlitsins byggist að mestu á samræmdri evrópskri löggjöf og helstu þættir í því eftirliti lúta að eftirliti með því að flugrekendur uppfylli kröfur sem gerðar eru um öryggi í flugrekstri, þ.e. varðandi viðhald, þjálfun og aðra þætti sem snúa að flugrekstri. Að meginstefinu til hefur Samgöngustofa þvingunarheimildir til að tryggja fullnægjandi viðbrögð við athugasemdum sínum, t.d. með afturköllun eða takmörkun á útgefnum starfsleyfum eða réttindum, rekstrarfyrirmælum og að leggja á dagsektir eða beita öðrum viðurlögum. Fáar atvinnugreinar eru jafn háðar opinberum leyfisveitingum og eftirliti og flugiðnaður

Flugrekstrarleyfi er til að mynda bundið skilyrði um fjárhagslega getu, eignarhald og fleira. Samkvæmt reglugerðinni ber Samgöngustofu að hafa eftirlit með fjárhag íslenskra flugfélaga og felst venjubundið eftirlit í árlegum skilum gagna, svo sem áritaðs ársreiknings og rekstraráætlana. Ef tilefni er til getur Samgöngustofa framkvæmt tíðara eftirlit eða kallað eftir ítarlegri gögnum og er því beitt þegar þörf krefur.

Með sama hætti hefur Samgöngustofa eftirlit með tæknilegum flugrekstri sem fjallar um þau skilyrði sem flugrekandi þarf að uppfylla. Sambærilegar reglur fjalla um kröfur til lofthæfis og viðhalds um viðvarandi lofthæfi loftfara og flugtæknilegra framleiðsluvara, hluta og búnaðar og um samþykki fyrir viðhaldsstöðvum og starfsfólki á þessu sviði. Samgöngustofa sinnir margvíslegu eftirliti á grundvelli þessara reglugerða, svo sem með úttektum o.fl. Ef tilefni er til getur Samgöngustofa framkvæmt tíðara eftirlit eða sett takmarkanir á rekstur, t.d. með því að kyrrsetja vélar eða takmarka rekstrarleyfi.

Í samræmi við alþjóðlegar áherslur er eftirlit Samgöngustofu með flugrekendum áhættumiðað. Það felur í sér að eftirlit stofnunarinnar tekur mið af stöðu eftirlitsskyldra aðila og er aukið þegar þörf er á og dregið úr þegar leyfishafar sýna fram á að rekstur sé traustur og áhætta minni.

Varðandi þær heimildir sem Samgöngustofa hefur til aðgerða ef reksturinn er ekki sjálfbær þá varðar það flugrekstrarleyfið sem gefið er út á grundvelli þessarar reglugerðar, nr. 48/2012, um sameiginlegar reglur flugreksturs og flugþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Flugrekstrarleyfið er bundið ákveðnum skilyrðum, til að mynda um fjárhagslega getu, eignarhald o.fl. Ef afkoma flugrekanda leiðir til þess að fjárhagsleg geta versnar kann það að kalla á ítarlegra eftirlit af hálfu Samgöngustofu. Leiði slíkt eftirlit í ljós nauðsyn til að grípa til aðgerða getur stofnunin afturkallað flugrekstrarleyfið eða gefið út tímabundið flugrekstrarskírteini meðan leyfishafi endurskipuleggur rekstur sinn. Samgöngustofa hefur í eftirliti sínu jafnframt heimild til að rýna með reglubundnum hætti fjárhag félagsins og óska eftir ítarlegum gögnum um stöðu þess.

Einnig var spurt til hvaða aðgerða Samgöngustofa getur gripið ef heimild er til. Svarið við þeirri spurningu er að hægt er að setja nánari skilyrði um gagnaskil, rýni þeirra og takmarkað starfsleyfi eða jafnvel að afturkalla leyfið.

Varðandi spurninguna, sem var þá nr. 4, um aðgerðaáætlun ef upp kæmi sú staða að millilandaflug stöðvaðist eða drægist verulega saman, þá var samráðshópi nokkurra ráðuneyta falið af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja mat á þörf fyrir viðbúnaðaráætlun vegna kerfislega mikilvægra fyrirtækja. Jafnframt var samráðshópnum falið að vinna viðbúnaðaráætlun ef slík þörf væri fyrir hendi. Drög að skýrslu nefndarinnar liggja nú fyrir ásamt viðbúnaðaráætlun vegna flugrekstrar og áhrifa á ferðaþjónustu. Hins vegar liggur fyrir að möguleg niðurstaða í samruna Icelandair og Wow air mun hafa áhrif á niðurstöðu umræddrar skýrslu og þess viðbúnaðar sem þörf er á.

Að lokum spurði hv. þingmaður hvort stjórnvöld hefðu uppi áætlanir um að stíga inn í ef innlent félags stefndi í rekstrarstöðvun vegna fjárhagsvandræða. Líkt og áður hefur komið fram fylgjast stjórnvöld náið með stöðunni á flugmarkaði. Stöðvist rekstur flugfélags, hvort sem um er að ræða erlent eða innlent félag, eru stjórnvöld viðbúin. Ljóst er að flugmarkaðurinn hefur breyst hratt á undanförnum árum og viðbúnaður stjórnvalda hefur tekið mið af því. Stjórnvöld hafa þó ekki uppi áætlanir um að stíga inn í rekstur einstakra flugfélaga eða taka að sér að reka slík félög. Mörg ríki í Evrópu hafa farið í slíkar aðgerðir á undanförnum árum. Í flestum tilvikum hefur slíkt leitt til (Forseti hringir.) mikils kostnaðar fyrir skattgreiðendur án þess að tekist hafi að bjarga þeim félögum.



[15:54]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ferðamannaiðnaðurinn hefur stækkað umtalsvert á undanförnum árum. Þessi sístækkandi atvinnugrein er auðvitað mjög jákvæð fyrir okkur því að hún hefur heldur betur aukið hagsæld okkar. En því miður gerist það nú eins og oft áður hefur gerst hér á landi að stjórnvöld eru ekki undirbúin. Þau virðast fljóta sofandi hjá straumi ferðamanna sem iðar um allt land. Þau hafa ekki markað sér neina stefnu þrátt fyrir fögur fyrirheit ríkisstjórnar þess efnis. Þau hafa ekki markað neina leið fyrir íslenska ríkið til varnar íslenskum almenningi sem lendir í því með reglubundnum hætti að horfa á hvernig hagnaður er einkavæddur og, það sem verra er fyrir almenning, tapið er ríkisvætt.

Vitanlega óttast almenningur í dag að svo fari einnig með ferðamannaiðnaðinn sem blásinn hefur verið upp með fordæmalausum hætti.

Ríkisendurskoðun skilaði af sér afar gagnlegri skýrslu fyrir rúmlega ári síðan þar sem fram kom að ábyrgðar- og hlutverkaskipting innan stjórnsýslu ferðamála sé óskýr og ekki að öllu leyti í samræmi við gildandi lög um skipan ferðamála. Finnur Ríkisendurskoðunar að því að stjórnvöld hafi enn ekki sett sér nýja sameiginlega stefnu um málefni ferðaþjónustunnar til framtíðar.

Aðspurð í glænýju svari ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til þingsins segir að hún hafi starfað eftir ferðamálaáætlun 2011–2020 þó að í ársgamalli skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem áður var komið inn á, komi fram að sú áætlun sé ýmist uppfyllt eða hafi úrelst þar sem aðstæður eru gjörbreyttar og því til lítils gagns. Enn er engin stefna. Ferðamál, þar á meðal stefna er varðar millilandaflug og eftirlit með því, eru í algjörri óvissu og svo virðist, þrátt fyrir váleg tíðindi undanfarnar vikur er varðar rekstur íslenskra flugfélaga, sem engin áætlun sé heldur í gangi nú.

Herra forseti. Það er vægast sagt mikið kæruleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar.



[15:56]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þessa umræðu sem snýr að flugmálum, aldrei leiðinlegt að tala um þau. Hér er verið að ræða um aðkomu Samgöngustofu að rekstri flugfélaga á Íslandi. Ég vil bara koma inn á það að ég efast um að fylgst sé jafn vel með nokkurri annarri atvinnugrein hér á landi eða almennt í heiminum af eftirlitsaðilum og þessari grein. Löggjöf og reglugerðir og aðrir slíkir þættir eru hvergi meiri, held ég að sé óhætt að segja, en í flugrekstri.

Hér er spurning um hvert inngrip manna eða stofnana eigi að vera í slíkan rekstur þegar kemur að þeim dæmum sem hér eru rakin. Reyndar var flugrekstrarleyfi Primera gefið út af hjá dönskum og lettneskum stjórnvöldum. Það sneri ekki beint að íslenskum stjórnvöldum. En það má kannski koma fram að Wow fór aldrei í þrot. Það var gripið inn í það ferli áður en kom að því.

Hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fór mjög vel og á miklum hraða í gegnum það flókna eftirlit sem er í gangi og hvaða kröfur þarf að uppfylla á mörgum sviðum í flugrekstri. Lykilatriði í flugrekstri, aðalatriðið, er öryggi, öryggi er haft að leiðarljósi í öllu því sem þar fer fram. Þar er líka komið að rekstrarafkomu félaganna og öðrum slíkum þáttum.

Ég vil síðan rétt koma inn á það sem hv. þingmaður sem kom hingað á undan mér í ræðustól fór svolítið hratt yfir, varðandi stjórnvöld, sofandahátt og að ekki sé mörkuð stefna og annað. Það hefur aldrei verið unnið jafn mikil stefnumótandi vinna og sú sem verið er að vinna núna á vegum íslenskra stjórnvalda varðandi ferðaþjónustu og einkum þá flugrekstur. Það hefur aldrei verið lögð jafn mikil vinna í slíka þætti (Forseti hringir.) eins og er nákvæmlega í gangi þessa stundina, svo því sé haldið til haga.



[15:58]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þetta er áhugavert. Varðandi upplegg málshefjanda í þessu máli þá eru þetta mikið til einfaldar spurningar sem hefðu kannski betur átt heima í munnlegri fyrirspurn til ráðherra. En í spurningunum felst samt ákveðinn misskilningur sem ég held að þurfi að leiðrétta, þ.e. að þetta sé einhvers konar samkeppnismál sem eigi að lenda inni á borði hjá Samgöngustofu.

Það er bara ekki rétt. Það er Samkeppniseftirlitið sem fer með slík mál. Ef við hættum að horfa á þetta félag sem bara flugfélag og byrjum að horfa á það sem fyrirtæki er alveg ljóst að ef fyrirtæki geta ekki rekið sig fara þau á hausinn.

Markaðurinn ræður klárlega við að bregðast við þegar op myndast vegna gjaldþrots. Það er bara þannig. Það er auðvitað eðlilegt. Og hér komum við inn á stærð þessara flugfélaga, að þegar fyrirtæki eru orðin of stór til að falla, á Samkeppniseftirlitið með einhverjum hætti að undirbyggja að hlutirnir séu með réttum hætti þannig að minni þjóðhagsleg hætta verði af slíku. Ef það hefur ekki nægar heimildir til þess þurfum við að útvega því þær heimildir.

Þannig að ég held að svar hæstv. ráðherra hafi bara verið ágætt. En ég vil frekar tala aðeins um, varðandi flugrekstur á Íslandi, að það er ástæða til að fara að fylgjast betur með eldsneytisnotkun flugvéla. Nú er um 30% munur á eldsneytisnotkun milli tveggja sambærilegra jafn stórra flugvéla sem er í notkun hvor hjá sínu flugfélaginu. Það er nokkuð sem veldur okkur ákveðnum hagsmunaskaða út á við eða álitshnekki.

Og svo eru auðvitað öryggisþættirnir sem búið er að margreifa í þessum þingsal. Þar hugsa ég helst um mikilvægi þess að tryggja með þar til gerðri braut að hægt sé að lenda öllum flugvélum sem eru á leiðinni til landsins á morgnana.



[16:01]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Þessa umræðu hérna er hægt að nálgast út frá ansi mörgum sjónarhornum, enda er umræðuefnið eins og það er sett fram af hv. þm. Birgi Þórarinssyni mjög vítt og það hefur endurspeglast svolítið í þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar.

Það sem mig langar að koma inn á er að mér finnst mjög mikilvægt það sem hér hefur komið fram um að samráðshópi nokkurra ráðuneyta hafi verið falið af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja mat á þörf fyrir viðbúnaðaráætlun fyrir kerfislega mikilvæg fyrirtæki, að það sé þörf á því að vinna að svona viðbúnaðaráætlun. Þetta tel ég að sé mjög mikilvægt og raunar mikilvægt í ýmiss konar samhengi að svona viðbúnaðaráætlun liggi fyrir um kerfislega mikilvæg fyrirtæki. Það segir sig sjálft að við hljótum að vilja hafa einhverja áætlun um þau ef við höfum áhyggjur af stöðu þeirra.

En ég held að það sé fleira sem hér væri hægt að líta til og taka undir þegar þetta er rætt. Hv. þm. Birgir Þórarinsson nefndi einmitt orðið þjóðaröryggi. Ég held að það skipti máli t.d. í miklu víðara samhengi, ekki bara að því er varðar þá mikilvægu atvinnugrein sem ferðamannaiðnaðurinn er heldur hreinlega mikilvæg aðföng til landsins, svo sem matvæli og annað. Ég held að þetta skipti allt saman mjög miklu máli. Ég vil bara þakka hæstv. ráðherra fyrir svör um það hvernig á þessari vinnu er haldið. (Forseti hringir.) Ég hlakka til að hlusta á frekari umræðu, sem ég hugsa að geti farið svolítið út um víðan völl.



[16:03]
Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Birgi Þórarinssyni, og ráðherra fyrir þessa umræðu. Það er sannarlega tímabært að ræða flugrekstur enda er hann og hvers kyns starfsemi tengd fluginu sannarlega orðinn snar þáttur í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Þessi starfsemi öll kallar á mikinn fjölda vel menntaðs og sérhæfðs starfsfólks. Hv. þingmaður gerði að sérstöku umtalsefni eftirlit af hálfu Samgöngustofu með ýmsum þáttum í flugrekstrinum og verð ég að leyfa mér að segja að mér þykja svör ráðherra hafa einkennst af nokkru raunsæi og skynsemi. Það verður ekki séð að það þjóni neinum hagsmunum að opinberir aðilar komi í einhverjum mæli að rekstri félaga, eins og ráðherra gat um. Eins rakti hann takmarkaðan árangur í nágrannalöndunum á liðnum árum af slíkri viðleitni. Við þetta þarf að búa.

Markmið stjórnvalda á hinn bóginn þegar kemur að flugrekstrinum hlýtur fyrst og fremst að vera að tryggja að farið sé að ýtrustu kröfum um öryggi. Vil ég í því efni taka undir með hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni sem býr að sérþekkingu á þessu sviði.



[16:05]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það er rétt að þakka hv. málshefjanda, hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir að taka þetta mál upp. Hægt er að skoða það frá margvíslegum sjónarhólum, ef svo má segja. Ég hjó t.d. eftir því að hv. þingmaður vakti máls á því í inngangsorðum sínum að m.a. hefði íslenska krónan veikst vegna þeirra erfiðleika sem steðjuðu að flugfélaginu. Það vekur mann til umhugsunar um hvað við búum að mörgu leyti við brothætt kerfi þegar erfiðleikar eins félags geta valdið miklum sveiflum í gjaldmiðlinum.

Það vekur líka athygli á því að þegar við erum með fyrirtæki sem orðin eru mjög stórir fiskar í lítilli tjörn getur buslugangurinn orðið talsverður þegar eitthvað gerist í rekstri þessara félaga. Þess vegna held ég að sé afar brýnt að við getum treyst því að stjórnvöld fylgist með og séu á varðbergi gagnvart hræringum sem komið geta til. Það hefur svo mikið útslag ef eitthvað gerist í samfélagi okkar, hvort sem við horfum á gengið, hvort sem við horfum hreinlega bara á atvinnuleysistölur eða hvað myndi gerast í ferðaþjónustunni ef félag á borð við Wow air eða Icelandair — ja, það eru náttúrlega fyrst og fremst þessi tvö félög sem eru undir hjá okkur — fara skyndilega á hliðina. Forði okkur frá því. Það er mjög áríðandi að við getum treyst því að vel sé fylgst með. Að Primera Air fari á höfuðið veldur kannski ekki stórum skaða í því landi sem fer með eftirlit með því flugfélagi. Það horfir öðruvísi við hér og við verðum að haga okkur í samræmi við það.



[16:08]
Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Það er vitanlega mjög mikilvægt að opinberar stofnanir, hvað sem þær heita og hvert sem hlutverk þeirra er, hafi tæki og tól til að sinna sínu eftirliti og að sjálfsögðu líka um leið að sinna þeirri framtíð sem þær eiga að byggja upp og hafa eftirlit með.

Ég held að það sé mikilvægt að taka þessa umræðu. Við getum að sjálfsögðu nálgast málið út frá alls konar sjónarhornum og -hólum. Það sem mig langar að nefna hér er að það er mikilvægt að móta langtímastefnu í flugmálum líkt og Miðflokkurinn ályktaði um á landsþingi sínu í apríl 2018. Við höfum séð mikla uppbyggingu, sérstaklega í Keflavík. Fyrir stuttu fögnuðum við 9.000.000 farþeganum, ef ég man rétt, sem sýnir hversu gríðarlega mikil umferð er um flugvöllinn. Við þurfum að gera meira, við þurfum að tryggja það líka að sá fjöldi véla sem lendir á Íslandi geti lent annars staðar á landinu séu aðstæður þannig. Þar af leiðandi minni ég á tillögu hv. þm. Sigurðar Páls Jónssonar varðandi Alexandersflugvöll.

Það er líka mjög mikilvægt að við horfum ekki bara á farþegaflutninga þegar við tölum um mikilvægi innanlandsflugs því að vöruflutningar eru orðnir stór þáttur í fluginu. Gaman væri í rauninni að vita ef hæstv. ráðherra hefur þær upplýsingar hjá sér hversu stór hluti af millilandafluginu eru vöruflutningar, sér í lagi þegar kemur að ferskum afurðum, sjávarafurðum að sjálfsögðu, sem við vitum að eru fluttar út um allan heim á hverjum einasta degi. Reyndar er það þannig, held ég, hæstv. forseti, að þegar við tölum um öryggismál í flugi að það er líklega einna hættulegast að fara til og frá flugvellinum, þ.e. Reykjanesbrautin er líklega það hættulegasta við að fljúga til og frá Íslandi í dag. Sú braut þarf miklu meira fjármagn. Þar er verið að setja allt of lítinn plástur og í raun er sorglegt að sjá að ekki sé meiri metnaður þegar kemur að því að setja meira fjármagn í það.

Flug og flugmál, flugöryggi er eitthvað sem við eigum að ræða hér reglulega í þinginu og, eins og ég sagði í upphafi míns máls, við eigum að leggjast öll á árarnar við að búa til stefnu til langframa



[16:10]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni þessa mikilvægu umræðu um flugrekstur íslensku millilandaflugfélaganna og hæstv. ráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, fyrir innlegg hans í umræðuna. Mikilvægi og umfang ferðaþjónustunnar hefur aukist verulega á undanförnum misserum, ekki síst í gjaldeyrisöflun, og eru farþegaflutningar auðvitað kjarnaþáttur í þessum uppgangi og veittri þjónustu. Að þessu leytinu til er um að ræða þjóðhagslega eða kerfislega mikilvæg fyrirtæki og er umfangið þannig að áhrifin verða meiri á hagkerfið.

Ég ætla að draga fram álit hv. fjárlaganefndar í umfjöllun um ríkisfjármálaáætlun og reyndar líka um fjárlagafrumvarp þar sem kallað hefur verið eftir sviðsmyndum um áhrif þess á hagkerfið. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar kemur m.a. fram við ríkisfjármálaáætlunina í vor að á undanförnum árum hafi umsvif í íslenskum flugrekstri stóraukist. Fjöldi þotna sem fljúga til og frá Íslandi á vegum íslensku félaganna hefur verið frá 16 vélum 2010 í 47 árið 2017 og reiknað er með að félögin verður með 57 þotur í lok þessa árs.

Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu voru um 42% af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar og skiptast fyrst og fremst í tvo hluta af þjónustu innan lands og flugrekstri hins vegar sem vegur um 35–40% og leggur meiri hlutinn til að þetta verði til framtíðar greint nánar í hagskýrslum. Svo þungt vegur flugreksturinn í gjaldeyrisöflun.

Hæstv. ráðherra fór vel yfir hlutverk Samgöngustofu um eftirlit með flugrekstri og aðgerðir sem hún hefur til að grípa til við það eftirlit. En mikilvægast er að stjórnvöld séu með áætlun við slíkar aðstæður sem við höfum upplifað á síðustu mánuðum, að leggja reglulega mat á til hvaða viðbragða þarf að grípa við þær aðstæður. Eins er mikilvægt að við höldum okkur við það upplegg stjórnvalda að styrkja hagskýrslugerð um ferðaþjónustu.



[16:12]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli en með vaxandi ferðaþjónustu og auknum umsvifum íslensku flugfélaganna er auðvitað ljóst að stjórnvöld þurfa að vera meðvituð um stöðu flugfélaganna og sömuleiðis þau mögulegu áhrif sem gætu orðið ef illa færi. Eðli málsins samkvæmt er íslensk ferðaþjónusta mjög háð góðum flugsamgöngum og með tilliti til þess að ferðaþjónustan er orðin langstærsta atvinnugreinin sem skilar mestu gjaldeyristekjunum er þjóðhagslegt mikilvægi íslensku flugfélaganna augljóst.

Raunar er staðan orðin þannig, eins og komið hefur fram, m.a. á túristi.is, að hvergi annars staðar er vægi innlendra flugfélaga meira en á Íslandi. Við Íslendingar höfum allt of oft verið í þeirri stöðu að ákveðnar atvinnugreinar verða það stórar að þær ógni mögulega stöðugleika í íslensku samfélagi eða, eins og það er kallað, verða of stórar til að falla. Síðasta dæmið um slíkt er okkur öllum enn í fersku minni þegar bankakerfið hrundi og hafði verulegar afleiðingar fyrir okkur öll. Reynslan af því hruni hefur kennt okkur að það er mjög mikilvægt að vera með virkt eftirlit og skýrar heimildir til aðgerða. Stjórnvöld þurfa að teikna upp sviðsmyndir af því sem gæti gerst og gera áætlanir um að koma í veg fyrir að verstu sviðsmyndirnar geti orðið að raunveruleika.

Herra forseti. Staða íslensku flugfélaganna sýnir enn og aftur mikilvægi þess að íslensk stjórnvöld leggi enn meiri áherslu á að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi þar sem margar ólíkar greinar eru sterkar og mynda fleiri stoðir í stað þess að við séum aftur og aftur háð afkomu einnar greinar. Í því sambandi verð ég að minnast á nýlegar fréttir af nýsköpunarmælikvarðanum Global Innovation Index þar sem Ísland féll (Forseti hringir.) um tíu sæti. Við þurfum að setja mun meiri kraft í nýsköpun, skjóta fleiri stoðum undir íslenskt atvinnulíf, (Forseti hringir.) en kannski þurfum við að skipta um gjaldmiðil svo það heppnist vel.



[16:15]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Umræðan er nú komin út í ýmislegt tengt fluginu í þessari seinni ræðu, hún hefur þróast þannig hjá okkur í dag.

Efnahagslegt vægi flugsins og í tengslum við íslenska ferðaþjónustu er gríðarlegt á Íslandi. Flugfélögin flytja um 70–80% af erlendum ferðamönnum til landsins með íslenskur vélum. Um var að ræða yfir 500 milljarða í gjaldeyristekjur í fyrra þar sem ferðaþjónustan sjálf var kannski með sem er 320–322 milljarða innan lands en flugið 180 milljarða. Eins og fram kom áðan hefur flugið í sögulegu samhengi um áratugaskeið verið með um 35–40% af gjaldeyristekjum í ferðaþjónustunni. Flugið hefur alltaf verið með í því dæmi.

Mér þykir mjög ánægjulegt í þessari umræðu hversu margir eru farnir að tala um flugið í stærra samhengi sem tengist varaflugvöllum og kerfinu sem slíku til að tryggja öryggisþætti flugsins og flugöryggið. Ég held að við förum í þá vegferð á næstu misserum að tryggja þá hagsmuni betur og tökum það dýpra á næstunni.

En þessi umræða hefur breyst mikið í þingsal á ekki löngum tíma, á um tveimur árum, og því ber að fagna. Ég get ekki annað en verið sérstaklega ánægður með hvernig hún hefur þróast.

Saga flugs á Íslandi er að verða 100 ára gömul, verður það á næsta ári. Þann 3. september á næsta ári eru 100 ár frá því að fyrsta vélin fór í loftið í Vatnsmýrinni. Það er ótrúleg saga sem við getum verið stolt af og hefur flugið raunverulega verið ein af undirstöðum þessarar þjóðar í uppbyggingu hennar, hvað orðið hefur úr okkur á undanförnum áratugum. Þar hefur flugið (Forseti hringir.) verið í stóru hlutverki.



[16:17]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir með hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni um hvað það er ánægjulegt hversu margir þingmenn hafa orðið áhuga á flugmálunum, og ekki síst hann sjálfur.

Auðvitað eigum við sem eyja að vera með öflugan flugiðnað. Það er hreinlega þannig að hann er okkar helsta tenging dagsdaglega við umheiminn. Auðvitað fara skipin með gámana en fólkið vill fara hraðar yfir. Ef við ætlum að styðja við slíkan iðnað þurfum við í grunninn sterkara hagkerfi. Umræðan núna virðist vera farin yfir í það.

Við þurfum hagkerfi sem ræður við högg af ýmsu tagi en jafnframt hagkerfi þar sem öflug fyrirtæki á borð við Wow air, sem er og var öflugt fyrirtæki með erfiðan rekstrargrundvöll. Við þurfum að búa til góðan rekstrargrundvöll fyrir fyrirtæki sem vilja starfa í þessu landi. Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir nefndi gjaldmiðilinn sem þátt í því sambandi. Ég er algjörlega sammála henni.

Auðvitað hefði verið eðlilegra þegar uppgangurinn var að byrja að við tækjum þá afstöðu að láta gjaldmiðilinn ekki styrkjast eins mikið og raun bar vitni og nota frekar innflæði gjaldeyris sem jákvæðan hlut til að fara út í jákvæðar erlendar fjárfestingar, eins og mörg lönd hafa gert í svipuðum aðstæðum og við vorum í, og erum í því, þannig að ekki sé verið að búa til þrýsting á fyrirtæki sem borga í öðrum gjaldmiðlum en þau hafa tekjur í. Þannig gætum við styrkt hagkerfi okkar frekar en að styrkja krónuna.

Það er lykilatriði sem við virðumst einhvern veginn alltaf missa sjónar á þegar við förum að tala um þessa hluti. En eins og ég sagði í fyrri ræðu minni á öll umræða um flugfélögin sem slík og samkeppnisstöðu þeirra (Forseti hringir.) að vera í samhengi við samkeppnismál almennt.



[16:19]
Berglind Häsler (Vg):

Mig langar að nýta tækifærið og fagna langþráðum fréttum af innanlandsfluginu. Vitna ég þar í nýbirta færslu á Facebook hjá hæstv. ráðherra sem lýsir því yfir að senn sjáum við tillögur starfshóps um eflingu innanlandsflugs. Það er æsispennandi því að eins og við vitum flest eru flugfargjöld allt of há og þetta er mikið byggðamál svo jafna megi aðgengi íbúa landsins að grunnþjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu. Svo eru þetta líka gríðarleg útgjöld fyrir venjulega fjölskyldu vilji hún t.d. sjá uppsetningu á einhverju leikriti í Þjóðleikhúsinu.

Við þekkjum það öll þannig að þetta eru ótrúlega langþráðar fréttir.

Mig langar líka að nýta tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvort starfshópurinn hafi skoðað með hvaða hætti hægt sé að efla millilandaflug á Egilsstaða- og Akureyrarflugvelli sem hafa helst verið í umræðunni þessu tengt, svo dreifa megi ferðamönnum betur um landið.



[16:21]
Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Birgi Þórarinssyni, fyrir að taka þetta mál upp á þinginu enda um afar þýðingarmikið mál að ræða og getur skipt sköpum, bæði hvað varðar ferðaþjónustuna og einnig almennt fyrir þjóðarhag, hvernig skipast með íslensku flugfélögin.

Allt frá örófi alda eða frá því að mannskepnan reis upp á afturlappirnar hefur að því er virðist áreynslulaust flug fugla himinsins heillað þessa hægfara skepnu sem mannkynið sannarlega er ef horft er á líkamlega burði hennar. Þannig hefur maðurinn öfundað þau kvikindi sem flogið geta þöndum vængjum yfir þeim sem ekki hafa meðfædda hæfileika til að hefja sig til flugs. Síðar yfirvann maðurinn þá krafta sem héldu honum á jörðu niðri og í dag, rúmum 100 árum síðar, er flugið samtvinnað allri velferð og framförum í þjóðfélagi nútímans.

Ekki síður er flugið nátengt velferð okkar Íslendinga sem þjóðar því að nú er svo komið að flugferðir standa undir okkar helstu tekjulind, sem er ferðaþjónustan, sem hefur á örskömmum tíma skákað út öllum okkar helstu hefðbundnu atvinnuvegum sem héldu lífinu í þjóðinni um aldir. Þá má benda á að flugrekstur í landinu færir okkur fleira en ferðamenn því að mikil tækniþekking fylgir allri þjónustu og atvinnu í kringum greinina án þess að ég ætli að telja það allt upp hérna. Að auki höfum við miklar tekjur af flugumferðarstjórn á einu stærsta flugumferðarsvæði á jörðinni sem nær langt út fyrir næsta nágrenni landsins. Flugsamgöngur til og frá landinu og sá iðnaður og sú þekking sem hér safnast saman sem tengd eru flugi er okkur því afskaplega mikilvæg og hafa íslensk flugfélög að langmestu leyti sinnt þessum flugferðalögum við landið.

Herra forseti. Það er því mikilvægt að rekstrarumhverfi íslensku flugfélaganna sé sem allra heilbrigðast og að eftirlit af hálfu stjórnvalda sé með allra vandaðasta móti svo ekki komi til óvæntra kollsteypa.

Yfir þessu þarf að vaka þar sem miklir þjóðfélagslegir hagsmunir eru undir. Þannig er mikilvægt að stjórnvöld hafi undirbúna og tilbúna viðbragðsáætlun ef út af bregður í þessum efnum.



[16:23]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra umræðuna og þeim þingmönnum sem tóku þátt. Ég hef ákveðnar efasemdir um að eftirlit Samgöngustofu með rekstri flugfélaganna hafi verið nægilegt, sérstaklega hvað varðar flugfélagið Wow. Það er ekki eðlilegt að svo kerfislega mikilvægur rekstur eins og rekstur Wow geti komið eiginfjárhlutfallinu niður í 4,5% um hábjargræðistímanum.

Ég vil því biðja hæstv. ráðherra að svara því hvort Samgöngustofa hafi gert álagspróf á Icelandair og Wow með tilliti til fjárhagsstöðu og eiginfjárhlutfalls. Spyrja má hvort þáverandi samgönguráðherra hafi haft upplýsingar um að Samgöngustofa væri ekki í stakk búin að takast á við fjárhagslegt eftirlit með flugfélögunum en samkvæmt niðurstöðu starfshóps sem ráðherra skipaði í mars 2017 til að vinna greiningu á verkefnum Samgöngustofu er þörf á að tryggja skýran aðskilnað á milli eftirlitsaðila og eftirlitsskyldra aðila í flugrekstri.

Hópurinn gagnrýndi t.d. alvarlega samskipti Samgöngustofu og Isavia sem hafi hvorki verið nægilega fagleg né formleg.

Herra forseti. Í þessari umræðu hefði einnig þurft að ræða aðkomu innlendra fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða, hver sé áhætta innlendra fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins á fyrirtæki í ferðaþjónustu ef niðurstaðan verður sú að verulega dregur úr starfsemi Wow. Eins og áður segir er flugrekstur íslensku millilandaflugfélaganna kerfislega mikilvægur og af þeim sökum verður eftirlitshlutverk hins opinbera að vera öflugt og í góðu lagi. Bankarnir eru kerfislega mikilvægir, eins og við þekkjum, og til samanburðar höfum við í dag öflugt eftirlit með fjármálastarfsemi sem er í höndum Fjármálaeftirlitsins. Fylgst er náið með rekstri bankanna, sett eru skilyrði er varða útlánavöxt, söfnun innlána (Forseti hringir.) og þess háttar. Það sama verður að gilda um flugreksturinn.



[16:26]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Hv. þm. Birgir Þórarinsson spurði nokkurra spurninga, m.a. um hæfi starfsfólks Samgöngustofu. Það er engin spurning í mínum huga að það hefur bæði þekkingu og getu til að sinna þessum verkum.

Eins er spurt hvort stofnunin hafi fylgt eftirliti sínu eftir núna undir lokin. Eins og ég fór yfir í fyrra svari mínu hefur Samgöngustofa allar þær heimildir og hefur nýtt þær til að fylgjast með eins vel og hægt er að mínu mati.

Það er alveg ljóst að við, stjórnvöld, höfum verið að vinna markvisst síðustu mánuði að því að skipuleggja starf eða meta stöðu kerfislega mikilvægra fyrirtækja. Niðurstaðan er sú að íslenskt efnahagslíf er miklu sterkara og fjölbreyttara en áður hefur verið, það hvílir ekki á einni stoð eða tveimur þannig að það þolir truflanir í rekstri einstakra fyrirtækja. Enda kom ég inn á það í inngangi mínum að ekki stæði til að fara inn í slík fyrirtæki. Hluti vinnunnar hefur líka falið í sér að meta hvernig við gætum þurft að bregðast við og hvort við þyrftum að bregðast við. Til hliðsjónar þeirri vinnu hafa viðbrögð annarra ríkja við svipuðum aðstæðum verið skoðuð varðandi mistök sem þau hafa gert.

Annars vil ég þakka málefnalega umræðu. Hún var mjög málefnaleg að öllu leyti nema einu. Hér var einn hv. þingmaður Samfylkingarinnar, Helga Vala Helgadóttir, með ábyrgðarlausar upphrópanir. Það var þó einn punktur sem var réttur hjá henni. Hún sagði að stjórnvöld hefðu ekki markað sér stefnu. Það er rétt. Aldrei hefur verið unnið að flugstefnu. Það var ein fyrsta ákvörðunin sem ég tók þegar ég kom inn í ráðuneytið. Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson, sem hefur mikla þekkingu á þessu máli, fór ágætlega yfir að við hefðum síðustu mánuði af ýmsum ástæðum lagt mikla vinnu í stefnumótun í flugi. Vonandi skilar það sér m.a. í því að millilandaflug verði aukið, sem hv. þm. Berglind Häsler var að spyrja um. (Forseti hringir.) En klárlega er staðan sú að flug hefur vaxið og er orðið mjög stór þáttur í efnahagslegu tilliti á Íslandi, undirstaða ferðaþjónustunnar. Það er mikilvægt að stjórnvöld fylgi því eftir, sem og undirstofnanir ráðuneyta.