149. löggjafarþing — 38. fundur.
um fundarstjórn.

rannsókn á aksturskostnaði þingmanns.

[16:28]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég kem upp í fundarstjórn forseta vegna þess að forsætisnefnd ákvað á fundi sínum í dag að rannsókn á aksturskostnaði ásamt skýringum hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar leiði í ljós að hann hafi ekki brotið gegn siðareglum alþingismanna. Á sama fundi var ítrekuðum tillögum hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar um að vísa málinu til siðanefndar, um að siðanefnd yrði til ráðgjafar um þetta mál, um óhlutdræga málsmeðferð, hafnað. Sömuleiðis var ósk hans um að málið yrði sent, þ.e. skýrsla um málsmeðferðina, til GRECO einnig hafnað.

Á sama fundi voru hafðar uppi hótanir um að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, sem lagði fram rökstudda tillögu um að akstursgreiðslur til hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar yrðu skoðaðar, hvort um brot á siðareglum væri að ræða, yrði látinn sæta afleiðingum vegna þess, þ.e. að hann yrði sjálfur skoðaður fyrir það hvort slík ábending væri brot á siðareglum.

Ég vil að það komi fram í þessum ræðustól að það að láta flutningsmann rökstuddrar tillögur sæta afleiðingum fyrir hana (Forseti hringir.) er brot á siðareglunum sjálfum. Það er ólíðandi og það er ótrúlegt að þetta hafi komið fram í forsætisnefnd Alþingis.



[16:30]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er það sem maður óttaðist þegar við vorum að semja siðareglurnar á síðasta eða þarsíðasta kjörtímabili, alla vega þegar ég var á þingi, áður en ég hætti á sínum tíma. Ég sagði: Ég myndi ekki vilja vera með á þeim siðareglum ef það yrði raunverulega þannig að forsætisnefnd sjálf væri að afgreiða mál um eigin félaga þegar tillögur eða kvartanir kæmu til þeirra um hvort þeir hefðu brotið siðareglurnar. Það myndi bjóða þeirri hættu heim að meiri hlutinn vildi ekki kjósa eða taka ákvarðanir um að félagar þeirra í stjórnarmeirihlutanum hefðu brotið af sér. Jafnframt setti það minni hlutann í þá rosalega hættu, minni hluta sem á að hafa eftirlit með meiri hlutanum, stjórnarmeirihlutanum, að siðareglur yrðu notaðar í krafti meiri hluta forsætisnefndar sem agavald gegn minni hlutanum.

Það eru agalegar kringumstæður sem nú hafa komið upp. Ég nefndi þetta í forsætisnefnd á sínum tíma, þegar við vorum að semja siðareglurnar. Við fengum siðareglunefnd en forsætisnefnd vildi ekki vísa því þangað. (Forseti hringir.) Það segir í siðareglunum að málsmeðferð eigi að vera óhlutdræg. Því var hafnað að því yrði vísað til siðareglunefndar til þess að tryggja að enginn vafi væri um slíkt.



[16:31]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir með félögum mínum. Það er ekki ásættanlegt þegar koma fram ábendingar um að ekki sé farið rétt að, þegar nálgunin við afgreiðslu málsins hvítþvær þann sem ábendingin snýr að með því að reyna að láta þetta ganga sem einhvers konar ásættanlega niðurstöðu.

Staðreyndin er að þegar svona mál koma upp, þegar vandamál koma upp, hvers eðlis sem þau eru, er eðlilegt að fari af stað ferli sem tryggir að þeir sem hafa bein tengsl við viðkomandi eigi ekki síðasta orðið, alla vega að það sé einhver utanaðkomandi ráðgjöf sem hjálpar því fólki sem þarf að taka ákvörðunina að taka rétta ákvörðun.

Það að gera þetta með þeim hætti sem hefur verið gert hér er eiginlega (Forseti hringir.) vandræðalegt. Ég vonaði að siðferði Alþingis væri á hærra plani.



[16:32]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Hver sá sem les erindi hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar til forsætisnefndar, dagsett 14. nóvember sl., mun sjá að í bréfinu þjófkennir hann 62 þingmenn. (Gripið fram í: Já.)Það segir bókstaflega í bréfinu að ámælisvert sé hvernig ferðakostnaður allra þingmanna, nema náttúrlega hans sjálfs, hafi verið reiknaður út.

Hvað varðar varakröfu hans að stilla sérstaklega upp einum þingmanni þá hefur verið farið yfir þetta mál, ekki bara einu sinni heldur þrisvar af hálfu bæði forsætisnefndar og skrifstofu þingsins. Það eru engin rök, hæstv. forseti, í þeim erindum sem borist hafa forsætisnefnd sem verðskulda að forsætisnefnd taki þetta mál þeim tökum sem beðið er um í bréfinu.

Ég lagði upphaflega til sjálfur — það er best að uppljóstra (Forseti hringir.) um það þótt trúnaður ríki um það sem gerist á forsætisnefndarfundum — að upphaflega erindið yrði endursent þingmanninum með ósk um að hann (Forseti hringir.) bæðist afsökunar á því. Við því var ekki orðið, en það hefði kannski (Forseti hringir.) betur verið gert þannig.

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn að virða hin knöppu tímamörk.)



[16:34]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér er heldur tregt að ræða þetta mál undir liðnum fundarstjórn forseta því að þessi umræða á að fara fram í forsætisnefnd. Samkvæmt lögum og stjórnskipulagi Alþingis fer forsætisnefnd með þetta mál. Það hefur hún gert, lagt í það mikla vinnu og afgreitt það með rökstuddri niðurstöðu upp á sex blaðsíður. Sú niðurstaða kann að vera önnur en sumir hefðu viljað sjá. En um þetta var full samstaða í forsætisnefnd, allra sem þar voru mættir fyrir utan eins manns, þ.e. fulltrúa Pírata í nefndinni sem stóð ekki að afgreiðslu málsins.

Ég hvet menn til þess að lesa hina efnislegu niðurstöðu málsins, (Gripið fram í.) ítarlegan, rækilegan rökstuðning, vel lögfræðilega útfærðan, og þá vinnu sem var lögð í að komast að þessari niðurstöðu þar sem báðum aðilum máls var gefið færi á að koma inn sínum sjónarmiðum, þar sem skrifstofan kom með sínar athugasemdir og lagði reyndar í heilmikla vinnu til að skoða hvort þarna væri eitthvað að finna. Niðurstaðan var alveg skýr: Það voru ekki efni til að hefja rannsókn á meintu siðareglurbroti. Það er skýr og afdráttarlaus niðurstaða og menn eiga að hlíta henni. Hún er í samræmi við það sem til er ætlast (Forseti hringir.) þegar siðareglumál eru reifuð.

Ég mótmæli því að forsætisnefnd sé borin sökum fyrir óvönduð vinnubrögð í málinu. Ég mótmæli því fyrir hönd forsætisnefndar.



[16:35]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Það sem veldur mestum áhyggjum í málinu er fordæmið sem verið er að setja. Í staðinn fyrir að senda málið til siðanefndar hefur forsætisnefnd tekið þá ákvörðun að siðareglur hafi ekki verið brotnar og ekki sé þess virði að rannsaka það neitt frekar.

Þetta skapar það fordæmi í framtíðinni að forsætisnefnd getur tekið slíka ákvörðun um brot á siðareglum, um mögulegt brot vina sinna, í staðinn fyrir að fara með það til óháðra aðila. Það er brot á siðareglum og veldur áhyggjum, sérstaklega í ljósi þess að svo er verið að hóta því að sá aðili sem kom fram með beiðnina sé með því að brjóta siðareglur og það verði sent siðanefnd, að hann sjálfur verði kærður fyrir brot á siðareglum. Það er mjög alvarlegt þegar þannig hótanir koma fram.

Ég væri til í að hæstv. forseti Alþingis (Forseti hringir.) kæmi hingað upp og útskýrði hvernig það er leyfilegt að koma með slíkar hótanir á fundi forsætisnefndar.



[16:37]
Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað yfirgengilegt að hlusta á málflutning hv. þingmanna Pírata í þessu máli. Forsætisnefnd tók þetta mál upp að þeirra beiðni, samkvæmt þeirra óskum, rannsakaði málið, komst að niðurstöðu og hefur kynnt þá niðurstöðu. Að þurfa svo eftir að sú niðurstaða er fengin, að hlusta á þetta klif aftur — hv. þingmönnum væri sæmra að skammast sín, biðjast afsökunar á röngum sakargiftum og þjófkenningum heldur en að halda klifinu áfram eftir að niðurstaða er komin. (Gripið fram í.)



[16:38]
Birgir Ármannsson (S):

herra forseti. Ég vildi í tilefni af umræðunni hafna þeim ásökunum sem hér hafa verið hafðar uppi á hendur forsætisnefndar þingsins, sem ég held að hafi tekið erindi hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar alvarlega og fjallað um það á málefnalegum forsendum.

Ég reyndar á ekki sæti í forsætisnefnd en hefði talið út frá mínum forsendum að þetta erindi hafi verið tilefnislaust og tilhæfulaust frá upphafi. Ég verð ekki var við annað en að forsætisnefnd hafi tekið þetta alvarlega, fjallað um það út frá þeim reglum sem gilda hér innan húss og komist að niðurstöðu. Ég held að menn verði að sætta sig við hana. Jafnvel þó að Píratar hafi hugsanlega viljað fá fram aðra niðurstöðu held ég að þeir verði að sætta sig við að undir þeirra sjónarmið tók enginn í forsætisnefnd og undir þeirra sjónarmið taka staðreyndir málsins ekki. (Gripið fram í.)

Það eru ekki efni til þess að taka afstöðu með þeim hætti sem Píratar gera. Það er alls ekki efni (Forseti hringir.) til þess. Ásakanirnar eru tilhæfulausar og tilefnislausar og vonandi er þetta mál þar með úr sögunni.



[16:39]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér voru bornar alvarlegar ásakanir á einn þingmann og raunar allan þingheim. Þær ásakanir voru teknar alvarlega. Málið hefur verið unnið mjög vel og vandlega í forsætisnefnd, farið ofan í það og krufið vel. Ég hélt að við værum komin að punkti þar. Það er ekkert í málinu sem bendir til þess að hægt sé að fara með það eitthvað lengra. Ég lít svo á að það sé fullrannsakað, þetta liggur allt ljóst fyrir. Allir fulltrúar í forsætisnefnd, fyrir utan einn, voru sammála því. Það er ekkert þarna á bak við sem hægt er að gera tortryggilegt og ég bið menn um að láta af ásökunum og látum hérna inni.



[16:40]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Það sem við erum að lýsa hér er að forsætisnefnd glataði mörgum tækifærum í dag. Hún glataði tækifæri til að virkja siðanefnd, sem hefur aldrei verið virkjuð, og kastaði þannig að rýrð á málsmeðferðina frekar en að styrkja hana með trúverðugum rökum um að rétt hafi verið að málum staðið.

Á sama tíma er þeim hv. þingmanni sem bar fram kvörtunina sem tekin var fyrir í dag hótað afleiðingum gjörða sinna, sem er brot á siðareglum eitt og sér. Því skal haldið til haga.

Tillögu hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar um að fá ráðgjöf, meira að segja bara ráðgjöf, frá siðanefnd, sem er utanaðkomandi aðili, um hvernig væri hægt að standa vel að málsmeðferð erindisins, til þess einmitt að traust geti ríkt um niðurstöðuna, var líka hafnað.

Þetta var meðferð glataðra tækifæra hjá forsætisnefnd. Það er það sem við vekjum athygli á sem og því að ólíðandi er að hóta þingmönnum með afleiðingum gjörða sinna þegar þeir fylgja eigin sannfæringu og senda inn kvörtun (Forseti hringir.) eða ábendingu um mögulegt brot á siðareglum.



[16:42]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að koma hingað upp til að segja af eða á um innihald málsins heldur benda á að siðanefnd hefur aldrei komið saman frá því að siðareglur þingmanna voru settar nema til að veita álit sitt þegar kom að því að breyta átti siðareglum í kjölfar #metoo. Mér finnst það í sjálfu sér athyglisvert. Það vekur athygli mína að siðanefnd hafi aldrei verið notuð. Ég held að fullt tilefni sé til þess að leita ráðgjafar hjá þeirri nefnd, sem er að ég held ágætlega skipuð. Ef þetta er ekki tilefni til þess, þegar við erum að fást við eitthvað sem varðar okkur sjálf, okkur öll 63 sem erum hérna inni, þá veit ég ekki alveg hvenær það á að vera.

Ég held að það hefði einmitt verið kjörið tækifæri núna, þó ekki væri nema fyrir þann einstakling sem sat hvað mest undir ásökunum, (Forseti hringir.) að fá algerlega hlutlaust mat á því hvort ásakanirnar voru (Forseti hringir.) tilhæfulausar eða ekki. Það er svo vont að standa eftir með já-bræðurna í kringum sig og hafa ekki fengið (Forseti hringir.) þetta hlutlæga mat. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[16:43]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Mér finnst það þreytandi en pínulítið áhugavert mynstur sem birtist stundum hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þegar þeir verða agalega hneykslaðir yfir því einhver tali við einhvern eða bendi á hluti. Þeir verða þeir ægilega hneykslaðir yfir því að tiltekið orð hafi verið notað og finnst að það hljóti að grafa undan trúverðugleika þess málflutnings fyrr en síðar.

En mig langar að vekja athygli á orðum virðulegs forseta áðan þegar hann sagði að ekki væri ástæða til að hefja rannsókn á meintu siðareglubroti. Það sagði virðulegur forseti.

Sömuleiðis eru engir 62 þingmenn þjófkenndir í erindi Björns Levís Gunnarssonar. Ég er einn af þeim 62 þingmönnum, óhjákvæmilega, nema hann hafi ekki átt við mig heldur bara alla aðra, og ég sé ekki að ég sé þjófkenndur. (Gripið fram í: Það stendur í bréfinu.)

Það sem stendur eftir er að forsætisnefnd hafnar því að leita til siðanefndar sem var hugsuð til þess að hægt væri að hafa trú á slíku ferli. Af hverju mátti ekki kalla hana saman? Af hverju mátti ekki fá hana í þetta? Af hverju þurfti að henda málinu út öfugu og áður, eins og virðulegur forseti sagði, en rannsókn var einu sinni hafin á því?



[16:44]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég skal nefna nokkrar staðreyndir í þessu máli, sem er að finna í gögnum málsins. Það er einmitt gott að skoða gögn málsins sem eru á vefsíðu Alþingis. Í þeim kemur fram að á umræddum tíma hafi siðareglur fyrir alþingismenn gert þingmenn ábyrga, með leyfi forseta:

„Þingmenn skulu sjá til þess að endurgreiðsla fyrir útgjöld þeirra sé í fullkomnu samræmi við reglur sem settar eru um slík mál.“

Í sömu reglum um segir, með leyfi forseta:

„Þegar alþingismaður þarf að fara meira en 15.000 km í starfi sínu skal hann fá afnot af bílaleigubíl sem skrifstofa Alþingis leggur til.“

Hv. þm. Ásmundur Friðriksson viðurkennir í Kastljóssviðtali, og það fylgir endurskrift af þeim texta með þeim gögnum sem eru á vef Alþingis og eru opinber öllum, að skrifstofan hafi komið til hans og sagt honum að fara á bílaleigubíl en hann hafi ekki viljað það. Hann heldur því áfram að senda inn ósk um endurgreiðslur sem hann svo fær. Það er klárt brot. Þetta er bara brot (Forseti hringir.) samkvæmt reglunum. Það er öllum landsmönnum ljóst sem vilja skoða það. (Forseti hringir.) Þetta eru gögn málsins. Látum gögn málsins tala sínu máli.



[16:46]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Það vekur furðu mína að hver stjórnarþingmaðurinn á fætur öðrum kemur í pontu og talar um að þingmenn í forsætisnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri þörf á því að skoða frekar hvort kollegar þeirrar eða vinir hafi brotið siðareglur. Er það ekki dálítið furðuleg niðurstaða? Hefði ekki verið heilbrigðara að láta utanaðkomandi aðila, eins og siðanefnd, skoða málið til þess að enginn vafi væri um það? Þetta er ekki til þess að skapa traust. Ég skil ekki að slíkt þyki í lagi. Til hvers er siðanefnd ef forsætisnefndin ætlar að taka það að sér að vera alltaf að skoða brot kollega sinna og vina og taka ákvarðanir um hvort siðareglur hafi verið brotnar eða ekki? Er það framtíðin? Á kannski bara að senda það til siðanefndar ef stjórnarandstöðuþingmaður hefur brotið af sér? Á þá að nota siðanefndina? [Háreysti í þingsal.]



[16:47]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Í fyrsta lagi liggur ljóst fyrir að þetta mál hefur ekkert með meiri hluta eða minni hluta að gera, samanber það að öll forsætisnefnd, að frátöldum einum manni, stóð saman að afgreiðslu málsins, flokkar bæði úr meiri hluta og minni hluta.

Í öðru lagi er rétt að hér komi fram að þetta er í annað sinn sem forsætisnefnd tekur í reynd sama mál fyrir og eyðir í það umtalsverðum tíma og niðurstaðan er sú sama í bæði skiptin, síðastliðinn vetur og aftur núna. Það reyndist ekkert meira í erindinu heldur en frá því í vor.

Ég harma það að hv. þm. Jón Þór Ólafsson skuli koma upp með efnisatriði og reyna að gera áfram viðkomandi þingmann tortryggilegan. Hann er einn af svokölluðum heimanakstursþingmönnum og það er rétt að nokkrir þeirra voru enn að nota eigin bíla eftir að tilmæli um að taka bílaleigubíla við 15.000 km mörkin voru komin fram, en skrifstofan hefur útskýrt hvernig það mál er vaxið, að innleiðingin hafi verið í gangi, og það er ekkert síður við það að sakast að forsætisnefnd og skrifstofan höfðu ekki sett skýrar reglur um notkun slíkra bíla. Það er því algerlega augljóst mál að þeir þingmenn voru (Forseti hringir.) í góðri trú hvað þetta varðar.

Varðandi siðanefndina (Forseti hringir.) er hún til ráðgjafar ef forsætisnefnd hefur eitthvað til að senda henni, ef það eru rök til þess að skoða þurfi betur meint alvarlegt mál. Það er alltaf í höndum forsætisnefndar hvort hún lýkur málum (Forseti hringir.) með einföldum hætti eða virkjar siðareglunefndina, ef talið er tilefni til slíks. Það var einróma niðurstaða forsætisnefndar, (Forseti hringir.) sem vann þetta með lögfræðingum og skrifstofunni, að það væru ekki slík tilefni og niðurstaðan ber það með sér.



[16:49]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Takk fyrir það. Bara ein yfirlýsing í byrjun: Sá þingmaður sem hér stendur er ekki stuðningsmaður stjórnarmeirihlutans á Alþingi (SJS: Nú?) og tilheyrir honum ekki. (SJS: Hvað segirðu?) Ég veit þetta er áfall fyrir marga og áfallahjálp verður veitt síðar, en þetta er samt svona.

Það er hins vegar stórlega ámælisvert, eins og ég tók fram áðan, þegar 62 þingmenn eru þjófkenndir í einu bréfi. Sá sem hér stendur tekur því ekki mjög vel ef hann er þjófkenndur, hefur aldrei gert og mun ekki gera. Ef hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hefur þá trú að sá sem hér stendur hafi misfarið með opinbert fé er nærtækast að kæra hann til lögreglu, þ.e. þann sem hér stendur. Ef það er trú manna að hann hafi brotið lög og seilst í sjóði landsmanna er um að gera að kæra viðkomandi til lögreglu. Það er rétta leiðin. En að vera með dylgjur, eins og búið er að vera með í málinu frá byrjun, og sætta sig síðan ekki við lýðræðislega niðurstöðu í forsætisnefnd, halda þessu áfram og lemja sína eigin trommu til að koma þeim sem hér vinna illa, (Forseti hringir.) hlýtur náttúrlega að vera framlenging á því eineltisfyrirbæri sem viðgengst í þessum (Forseti hringir.) flokki. Er ekki rétt að kalla til vinnusálfræðinginn aftur? (Gripið fram í.)



[16:51]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég verð að gera athugasemd við hugtakið þjófkenningu þar sem það hefur aldrei verið neitt slíkt … (Gripið fram í.) — Í erindi hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar er ekki þjófkenning. Þar er hins vegar bent á að það eru dæmi, þekkt dæmi sem hefur verið fjallað um í fjölmiðlum meiri hluta ársins, um að ekki hafi verið farið alveg að reglum. (Gripið fram í.) Ef eitthvað fer úrskeiðis í slíku og ástæða er til að halda að kannski sé ekki búið að gera það upp þá er mjög eðlilegt að einhver sendi inn erindi og óski eftir því að það sé gert upp. Í því felst ekki þjófkenning. Í því felst beiðni um að hlutirnir séu skoðaðir og þetta var vissulega skoðað. Ég er ósammála niðurstöðunni, en gott og vel. Það eina sem ég harma varðandi málsmeðferðina er að siðanefnd hafi ekki verið notuð, sem var beinlínis sett á laggirnar til þess að takast á við svona (Forseti hringir.) mál þegar þau koma upp. Það mætti alveg gera það.



[16:52]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta segja sína sögu. Hv. 8. þm. Suðvest., Jón Þór Ólafsson, kom upp og benti á lýsandi dæmi sem hægt er að finna opinberlega um ástæður, um rök fyrir því að skoða þetta. En hérna koma hv. þingmenn upp og segja að það séu engin rök. Virðulegur forseti segir að sjálfsagt sé að nota siðanefndina ef eitthvað sé til staðar til að senda henni. Í þessari pontu og opinberlega meðal fjölmiðla er að finna hluti til að skoða. Ég veit þeir hafa verið kynntir hv. forsætisnefnd og virðulegum forseta. Athugasemdin snýr að þeirri fáránlegu hugmynd að engin rök séu til þess að málið verði skoðað betur af hálfu siðanefndar, að það sé ekkert að skoða, sem almenningur hlýtur að sjá í gegnum og hv. þingmenn mættu gjarnan hafa það í huga. Þetta var ekki eitthvert smámál sem fór inn um annað eyrað og út um hitt hjá almenningi. Þetta var stór málaflokkur, fólk var eðlilega mjög hneykslað vegna þess og gerir þá algeru kröfu til okkar að við förum vel með fé. Þegar við gerum það ekki (Forseti hringir.) þá öxlum við ábyrgð á því. Það sem gerðist í dag er birtingarmynd þess (Forseti hringir.) að Alþingi annaðhvort getur það ekki eða vill það ekki. Hvort heldur sem er er algjörlega, fullkomlega, óásættanleg niðurstaða. (Forseti hringir.) Það ætti að vera lexía dagsins og ekki síst til virðulegs forseta.



[16:53]
Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Það er sorglegt að við séum í þessari málstofu, eða hvað við eigum að kalla það, að hlusta á þvæluna frá Pírötum varðandi þetta mál allt saman. Það er vitanlega þannig að við erum með ákveðið kerfi á hlutunum á þinginu. Ef Píratar geta ekki sætt sig við það verða þeir að sjálfsögðu að eiga það við sig sjálfa. Menn eru hér með alls konar yfirlýsingar um að menn hafi jafnvel gerst þjófar og eitthvað slíkt, sem enginn fótur er fyrir. Þetta er hreint með ólíkindum.

Forseti Alþingis kom í pontu og benti á að það væru engin rök, það eru engin rök í fullyrðingum hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar um það sem lesa má á netinu og í fjölmiðlum o.s.frv. (Gripið fram í.) Engin rök. Samt þráast menn við.

Forseti minnti líka á að forsætisnefnd sá ekki ástæðu til að rannsaka málið. Svo spyr hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson: Af hverju að henda málinu út áður en rannsókn er hafin? Það var ekki ástæða til að rannsaka málið. Það var niðurstaða forsætisnefndar. Þess vegna er því ekki vísað til siðanefndar. Píratar, líkt og aðrir, verða einhvern tímann (Forseti hringir.) að læra að fara eftir reglum. (Gripið fram í.)