149. löggjafarþing — 40. fundur.
traust og virðing í stjórnmálum.

[15:13]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra. Spurningin er sáraeinföld: Hvað gerum við nú?

Við berum öll sameiginlega ábyrgð á því að Alþingi Íslendinga sé starfhæft og geti unnið þjóðinni gagn, að við séum manneskjur sem bera virðingu fyrir starfi sínu og fólkinu sem kaus okkur, en ekki síst að fólk geti borið virðingu fyrir okkur.

Til þess þurfum við m.a. að tileinka okkur gildi sem komu fram á þjóðfundinum 2010, heiðarleika, mannréttindi, jafnrétti, ábyrgð og virðingu.

Ég er ekki kominn hingað upp í ræðustól til að varpa ljósi á pólitískan ágreining milli flokka eða benda á það sem mér þykir mega betur fara við stjórn landsins. Auðvitað verðum við að geta átt áfram beinskeyttar umræður um það. En í dag tel ég nauðsynlegt að við byggjum brýr milli þeirra sem raunverulega vilja breyta menningunni, standa gegn mannfyrirlitningu, kvenfyrirlitningu og fordómum.

Ég tel að hæstv. forsætisráðherra geti leikið stórt hlutverk í því samtali sem hér þarf að eiga sér stað. Hún hefur þann trúverðugleika sem þarf til þess og ég treysti henni til þess.

Ég veit, herra forseti, að ég hef margoft vitnað í stjórnarsáttmálann einmitt til að draga upp þá mynd að það fylgi ekki alltaf gerðir orðum. En hér í dag vil ég þó í einlægni nefna hann vegna þess að ég tel að í honum felist mikilvæg yfirlýsing um það samstarf sem þarf að eiga sér stað milli fólks til að koma okkur úr þeim þungu aðstæðum sem við erum í í dag.

Herra forseti. Við í Samfylkingunni erum til í að leggja töluvert á okkur til að okkur takist þetta erfiða verkefni saman.



[15:15]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem snýst um það hvernig við getum sem þingmenn tekið þátt í því verkefni saman að standa vörð um þau gildi sem við viljum að einkenni samfélag okkar.

Við fögnuðum 100 ára afmæli fullveldis um helgina. Ég tel að það hafi verið gott tækifæri til að velta fyrir sér þeim gildum sem við viljum sem samfélag hafa að leiðarljósi. Þá vil ég nefna gildi á borð við lýðræði, fjölbreytni og virðingu fyrir réttindum allra. Sú orðræða sem hefur verið gerð að umtalsefni á undanförnum dögum var dapurleg, einkenndist af kvenfyrirlitningu og fordómum gagnvart ýmsum hópum, hvort sem er hinsegin fólki, fötluðu fólki eða öðrum hópum. Slík orðræða er í senn óverjandi og óafsakanleg.

En nú spyr hv. þingmaður: Hvað gerum við nú? Ég tel mjög mikilvægt að við höfum sem þingmenn sett okkur siðareglur, sem ég tel góðar. Ég tel mjög mikilvægt að forsætisnefnd hafi ákveðið að taka á málinu með þeim hætti sem hún hefur gert, og sú yfirlýsing verður birt hér á eftir, að vísa málinu áfram og kalla til þá ráðgefandi siðanefnd sem við Alþingi höfum ákveðið að skipa.

Það skiptir nefnilega gríðarlegu máli að Alþingi bregðist við, virði þá ferla sem við höfum sjálf sett okkur og taki þær siðareglur sem við höfum sjálf sett okkur saman til umræðu og hvernig við getum tryggt að þeim verði betur fylgt í framtíðinni.

Ég tel að allt þetta mál sýni okkur að við berum sameiginlega ábyrgð á því núna að fara yfir þær reglur, taka þær til umræðu í okkar hópi og tryggja að við getum sameiginleg hafið þessa mikilvægu samkomu fyrir samfélagið aftur til vegs og virðingar.



[15:17]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið og ég er sammála. Okkar bíður stórt verkefni. Síðustu dagar hafa haft gríðarleg áhrif á okkur og það eru opin sár sem þarf að græða. Ég vil taka það fram að ég treysti forseta, forsætisnefnd og siðanefnd mjög vel fyrir því starfi sem hún á fyrir höndum. En við þurfum líka að setjast niður hér saman og ræða hvaða áhrif þetta hefur á þingmenn, á þingstörfin, á stjórnmálin í heild sinni, á jafnréttisbaráttu kynjanna, á baráttu hinsegin fólks og fatlaðra, hvernig við getum tryggt að við sem þingmenn getum unnið áfram með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi, hvernig við getum aftur aukið traust og virðingu þingsins.

Ég held, herra forseti, að við verðum að taka það hlutverk alvarlega.



[15:19]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Mér hefur fundist mikil samstaða ríkja um það hér á þingi að mikilvægt sé að bregðast hart við þegar svona mál koma upp. Ég fagna því að forsætisnefnd komst að þeirri niðurstöðu sem okkur var kynnt áðan í orðum forseta þingsins.

Það er stórkostleg áskorun fyrir okkur öll, og við höfum oft rætt það í þessum sal, hvernig við getum byggt upp traust á stjórnmálum og Alþingi. Þetta atvik er ekki síst dapurlegt því að við vorum að sjá það traust þokast upp á við í þeim mælingum sem eru gerðar með reglubundnum hætti á trausti til Alþingis.

En síðan vil ég segja að við erum auðvitað öll hingað kosin til þess að standa við okkar sannfæringu og hvert og eitt okkar ber líka ábyrgð á sinni eigin hegðan. Við hljótum að gera þær kröfur um leið og við setjum okkur siðareglur að hvert og eitt okkar fari yfir þær siðareglur, taki það til sín að bera ábyrgð á sinni eigin hegðan, hvort sem við erum stödd í opinberum erindagjörðum eða hvar sem við erum stödd í almenna rýminu, því að við erum alltaf kjörnir fulltrúar, sama hvar við erum.