149. löggjafarþing — 41. fundur.
tekjuskattur, 2. umræða.
stjfrv., 335. mál (uppbætur á lífeyri undanþegnar skattlagningu). — Þskj. 403, nál. 563.

[14:25]
Frsm. efh.- og viðskn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti hv. efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (uppbætur á lífeyri undanþegnar skattlagningu).

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Öryrkjabandalaginu, auk þess sem umsagnir bárust frá Öryrkjabandalaginu og Landssamtökunum Þroskahjálp.

Með frumvarpinu er lagt til að uppbætur á lífeyri samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og uppbætur vegna reksturs bifreiðar samkvæmt 2. mgr. 10. gr. sömu laga, verði undanþegnar skatti og leiði ekki til skerðingar á lífeyrisgreiðslum almannatrygginga.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að við gerð þess hafi m.a. verið haft samráð við velferðarráðuneytið og ríkisskattstjóra. Sambærilegt mál kom til kasta nefndarinnar á 148. löggjafarþingi, en í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um það ákvað Alþingi að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram frumvarp sama efnis, samanber þingsályktun nr. 28/148, þar sem ekki þótti fyllilega ljóst hver jaðaráhrif af breytingunni kynnu að verða. Var ráðherra falið að ganga frá þeim þáttum m.a. svo tryggt væri að uppbæturnar sem um ræddi leiddu ekki til skerðingar á tekjum þeirra sem þær þæðu og yrðu þar með í reynd marklausar. Að mati nefndarinnar eru þessi atriði tryggð með fyrirliggjandi frumvarpi.

Í þeim umsögnum sem nefndinni hafa borist um málið er framlagningu frumvarpsins fagnað og hvatt til samþykkis þess enda muni það bæta stöðu lífeyrisþega sem bera mikinn kostnað vegna fötlunar eða sjúkdóma. Nefndin telur ljóst að skattlagning bóta af því tagi sem hér um ræðir samræmist ekki þeim tilgangi sem stefnt er að með bótunum enda um að ræða uppbætur sem eiga fyrst og fremst að stuðla að möguleika bótaþega á þátttöku í samfélaginu. Nefndin telur að um sanngirnismál sé að ræða sem miklu máli getur skipt fyrir þá sem í hlut eiga og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Þorsteinn Víglundsson var fjarverandi afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur þessu áliti.

Undir álitið rita Óli Björn Kárason, formaður nefndarinnar, Ólafur Þór Gunnarsson, framsögumaður, Þorsteinn Víglundsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Bryndís Haraldsdóttir, Smári McCarthy, Oddný G. Harðardóttir og Þórunn Egilsdóttir.

Herra forseti. Það er í rauninni mikið gleðiefni að við skulum vera komin á þann stað að klára þetta mál í þinginu eða því sem næst. Hér er um mikið réttlætismál að ræða. Þeir þingmenn sem vöktu máls á þessu, sem voru þingmenn Flokks fólksins á síðasta löggjafarþingi, eiga heiður skilinn fyrir að hafa ýtt þessu máli úr vör og þakkir fyrir að málið sé komið á þennan stað ásamt náttúrlega starfsfólki fjármála- og efnahagsráðuneytisins og ráðherra sem lagði málið fram.

Það er um það ágæt samstaða að ég tel, innan þings og í samfélaginu, að þær ívilnanir sem samfélagið leggur fram, ekki í þeim tilgangi að framfleyta fólki eða aðstoða við framfærslu heldur til að gera því kleift að taka þátt í samfélaginu, eigi ekki að teljast til tekna. Og þetta frumvarp er mikilvægur liður í því og ég fagna því sérstaklega að við skulum vera komin á þennan stað að klára afgreiðslu þess.



[14:30]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. og framsögumanni, Ólafi Þór Gunnarssyni, fyrir framsögu hans á þessu réttlætismáli. Í rauninni get ég sagt: Ég er hálfbljúg og ótrúlega full af þakklæti fyrir þær góðu undirtektir og þann augljósa vilja sem Alþingi Íslendinga hefur sýnt gagnvart þessu máli. Því að það er í fersku minni þegar við stóðum hér í vor og mæltum fyrir þessu máli þegar þingheimur allur tók undir það að hér væri um sanngirnis- og réttlætismál að ræða. Og svo sannarlega, ef við tökum saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum, er okkur ekkert ómögulegt. Hugsa sér að við skulum gefa fólkinu okkar, þeim þjóðfélagshópi sem hvað höllustum fæti stendur, þessa jólagjöf, þingheimur allur.

Við erum á ákveðnum tímamótum í dag í ólgusjó þar sem við höfum átt undir undir högg að sækja og ekki hefur verið litið til okkar með mikilli hlýju síðustu daga þrátt fyrir að fæst okkar hafi nokkuð til saka unnið. En á þessum tímapunkti, þegar við getum staðið svona hnarreist fyrir framan fólkið okkar, brosað með tindrandi augum og sagt: Sjáið þið bara, sjáið hvað við getum gert ef við tökum saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum, þá er okkur ekkert ómögulegt. Og sjáið bara, þó að litli Flokkur fólksins sé einungis búinn að vera hér í eitt ár og þetta sé annað löggjafarþingið okkar getum við komið ýmsu til leiðar þegar við bendum á augljósu málin sem hafa kannski ekki verið svo sýnileg.

Það skiptir máli að öryrkjar eigi málsvara á Alþingi eins og allir aðrir. Það skiptir máli að hafa staðið í þessum sporum og geta sagt með sannfæringunni og með lífsreynslunni: Svona er þetta. Sjáið þið tindinn. Þarna vorum við.

Við vitum hvað við erum að segja og okkur hefur verið tekið fagnandi. Það er satt sem ég segi, við getum gert þetta og við ætlum að gera það. Við munum gera það. Skulum gera það. Gleðileg jól. Þetta er jólagjöfin frá okkur öllum til ykkar fyrir þessi jól.