149. löggjafarþing — 42. fundur.
störf þingsins.

[15:02]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um að gera innanlandsflugið hagkvæmara. Það er því mjög ánægjulegt að starfshópur um uppbyggingu flugvalla og eflingu innanlandsflugs hefur skilað af sér góðum og áhugaverðum tillögum til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Starfshópurinn undir forystu hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar leggur m.a. áherslu á að jafna aðgengi allra landsmanna að þeirri þjónustu sem aðeins er í boði hér á höfuðborgarsvæðinu og gerðar eru tillögur um að niðurgreiða flugmiða í innanlandsflugi til íbúa sem búa á landsvæðum fjarri Reykjavík. Auk þess er lagt til að auka fjárhagslega sjálfbærni flugvalla sem eru varaflugvellir í millilandaflugi og að framlengja samning við Isavia um rekstur og uppbyggingu flugvalla næstu fimm árin.

Það hefur lengi verið ákall frá íbúum þeirra landsvæða sem búa fjærst höfuðborgarsvæðinu að litið sé á innanlandsflug sem hluta af almenningssamgöngum innan lands. Í dag er flug innan lands óheyrilega dýrt, allt frá 40.000–60.000 kr. fyrir einstakling fram og til baka til Reykjavíkur. Fólk þarf að sækja fjölbreytta þjónustu eins og heilbrigðisþjónustu, verslun og ýmislegt sem tilheyrir stjórnsýslunni sem er á höfuðborgarsvæðinu og allt sem tilheyrir menntun, menningu og allri stjórnsýslu.

Ég fagna því mjög að við séum að stíga þetta skref í að jafna aðgengi almennings í landinu að þjónustu á höfuðborgarsvæðinu og treysti því að tillögunum verði fylgt fast eftir af ráðherra samgöngumála og að ríkisstjórnin útfæri og fjármagni þessar tillögur fyrir árið 2020. Flugsamgöngur eiga að vera hluti af almenningssamgöngum (Forseti hringir.) í landinu og þetta er skref í rétta átt.



[15:04]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á ekki 1.100 milljónir fyrir fátækasta fólkið í landinu en hún á 1.500 milljónir til að hella í gjaldþrota ohf. sem vitað hefur verið mjög lengi að stefndi í gjaldþrot út af slæmum rekstri. Allt frá árinu 2011 var varað við að svona væri komið. En á meðan fátækasta fólk á Íslandi þarf enn um hríð að bíða eftir réttlæti af hálfu þessarar ríkisstjórnar finna menn 1.500 milljónir sem á að hella, við 3. umr. fjárlaga, í Íslandspóst ohf. án nokkurrar athugunar eða nokkurrar kröfu um að gerð verði úttekt á þessum rekstri. Það er engin krafa um það, það á bara að afhenda þessar 1.500 milljónir úr ríkissjóði.

Þetta er kannski dæmi um það hvernig þessi ohf.-rekstur, sem stofnað var til fyrir nokkrum árum, hefur gjörsamlega snúist í höndunum á mönnum. Þarna er kippt út fyrir sviga stórum rekstrarþáttum í eigu ríkisins — jú, með stjórnum yfir sér en án nokkurrar aðkomu kjörinna fulltrúa með atkvæði landsmanna á bak við sig. Við sjáum þetta líka í rekstri RÚV ohf. Þangað á að hella 500 milljónum núna, skýringarlítið.

Þetta er svo galið, herra forseti. Og á meðan þessu fer kemur fram Félag atvinnurekenda og sakar Íslandspóst, það sama fyrirtæki og við ætlum núna að fara að samþykkja að styrkja um 1.500 milljónir, um brot gegn sátt sem gerð var í febrúar í fyrra.

Ég verð að segja, herra forseti, að það veldur mér miklum áhyggjum að við séum hér að taka ákvörðun eins og þessa gagnrýnislaust og án þess að nokkur krafa sé gerð um að rekstur þessa fyrirtækis sé tekinn til einhverrar gaumgæfilegrar athugunar eins og blasir við að þurfi að gera. En á meðan bíður fátækasta fólkið á Íslandi eftir réttlæti í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.



[15:06]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Á þessum síðustu og verstu tímum virðist stundum vera dálítið djúpt á góðum fréttum en ein góð birtist í dag og hún er sú að í byrjun þessa árs voru 43.736 innflytjendur búsettir á Íslandi eða 12,6% landsmanna. Þetta er aukning frá síðasta ári þegar þeir voru 10,6%. Það er gaman að sjá hversu margir kjósa að gera Ísland að heimili sínu og veri þetta fólk allt velkomið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Þetta fólk er alltaf mjög vanmetið. Innflytjendur eru hryggjarstykkið í mörgum undirstöðuatvinnugreinanna. Hér væri t.d. varla ferðaþjónustan án þessa fólks. Innflytjendur vinna jafnframt mikið af ósýnilegu störfunum sem halda samfélaginu gangandi. Ég nefni bara leikskólana sem eru reknir oft af konum á lágum launum sem eru af erlendu bergi brotnar eða fólkið sem þrífur spítalana fyrir allt of lág laun.

Því miður er þessi margbreytileiki samfélagsins ekki endurspeglaður í þingsal. Fyrir ári síðan snerust pólitískir vindar og við misstum Pawel og Nichole, fengum í staðinn Miðflokkinn. Það voru ekki góð býtti. Ísland er frjálst og fullvalda ríki sem stólar á alþjóðakerfið. Til framtíðar þurfum við opnari landamæri og sérstaklega þurfum við reglur sem auðvelda fólki utan EES-svæðisins að setjast hér að. Þegar Ísland varð fullvalda bjuggu hér 90.000 manns. Í byrjun þessarar aldar vorum við rétt um 280.000. Núna erum við 350.000 en það er ekki innfæddum Íslendingum að þakka því að náttúruleg fjölgun er búin að dragast svo mikið saman að við stólum á aðflutta íbúa landsins til að halda áfram að fjölga. Samkvæmt miðspá mannfjöldaspár Hagstofunnar verðum við ekki nema 436.000 (Forseti hringir.) eftir 50 ár. Við þurfum að vera fleiri. Við þurfum jafnvel stefnu um hvernig við verðum (Forseti hringir.) milljón til þess að Ísland verði fjölmennara, fjölbreyttara og betra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:09]
Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Við getum deilt endalaust um það hvort glasið er hálffullt eða hálftómt, en við hljótum þó að fagna því þegar góðar fréttir berast af stöðu ríkissjóðs sem nýlega keypti upp skuldabréf af Seðlabanka Íslands, samtals að fjárhæð 24 milljarðar, þannig að heildarskuldir ríkisins eru núna 843 milljarðar eða rétt um 30% af landsframleiðslu. Hrein staða ríkissjóðs á grundvelli laga um opinber fjármál, þ.e. þegar sjóður og innstæður hafa verið dregnar frá heildarskuldum, nemur því um 653 milljörðum. Þetta eru 23% af vergri landsframleiðslu og hafa algjör umskipti orðið í ríkisfjármálunum á undanförnum árum sem er sérstakt gleðiefni. Það er gleðiefni, ekki síst fyrir unga fólkið sem horfir upp á að við sem eldri erum erum hætt að gefa út víxla. Við erum hætt að taka út lífskjör komandi kynslóða. Við erum þvert á móti farin að byggja aftur upp. Það eru gleðifregnir og það er eitthvað sem við eigum að lofa okkur sjálfum, en ekki síst yngra fólkinu, að við munum halda áfram að gera af trúmennsku.

Hrein staða þjóðarbúsins hefur aldrei verið betri en núna, 13,13% af landsframleiðslu. Þetta eru gleðitíðindin, þetta er það sem við eigum að hafa í huga. Þetta skiptir máli núna hér síðar í dag og hugsanlega fram í nóttina þegar við tökumst á (Forseti hringir.) og hefjum lokaafgreiðslu á fjárlögum ársins 2019.



[15:11]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að tala um öryrkja og bága stöðu þeirra núna rétt fyrir jólin í þessari ræðu en ég finn mig knúinn til að tala enn einu sinni um Klaustursmálið.

Vegna umræðu sem fór fram í dag vil ég taka það sérstaklega fram að þegar hv. þingmaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, segir að það sé almenn umræða á þingi eins og sú sem fór fram á þeim vettvangi, eins og hann vill orða það, á þessum bar, þá er það ekki svo og hefur aldrei verið í það ár sem ég er búinn að vera hérna. Ég hef aldrei heyrt svona umræðu. Að klína því yfir á alla aðra er með ólíkindum. Að sitja undir þeirri umræðu er eiginlega stórfurðulegt og þeim til skammar sem ætla að reyna að réttlæta það. Það er ekki hægt að réttlæta þetta.

Nú hefur Öryrkjabandalagið, kvennahreyfingin þar, sent frá sér harðorða yfirlýsingu. Ég á rætur í Öryrkjabandalaginu og Sjálfsbjörgu. Ég hef aldrei á þeim vinnustöðum sem ég hef verið á upplifað svona umræðu. Ég hef aldrei farið héðan út og verið á bar þetta ár sem ég hef verið hérna. Ég fer bara yfirleitt aldrei á bar.

Fyrir utan þetta hlýtur það að drekka í vinnutíma að vera eitt það alvarlegasta sem við gerum og það er öllum til skammar. Ég hef aldrei orðið var við það hér, nema í þessu tilfelli.

Við skulum hafa á hreinu að skömmin er þeirra og allar tilraunir til að reyna að koma því yfir á okkur munu mistakast og við munum aldrei líða það. Þeir geta horft í spegil. Þeirra er skömmin og þeir eiga að taka á sínum málum. Komið þeim ekki yfir á okkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:13]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ven mig á að spara stóru orðin því að ég vil leyfa fólki að njóta vafans. Síðasta sólarhringinn hefur hins vegar þingheimur í tvígang orðið vitni að málflutningi sem verðskuldar stór orð. Þeir sem orðin eiga hafa annaðhvort ekki lesið það sem þeir gagnrýna eða þeir vísvitandi segja ósatt. Um er að ræða annars vegar ræðu hv. þm. Jóns Þórs Þorvaldssonar í gær og hins vegar tölvupóst sem þingmenn fengu frá CSPII um samkomulag á vegum Sameinuðu þjóðanna um örugga, skipulagða og reglulega fólksflutninga, á ensku „Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration“.

Nú á greinilega að búa til og næra þá fáránlegu hugmynd að sjálfstæði Íslands stafi ógn af Sameinuðu þjóðunum. Ég hvet þingmenn til að bera saman gagnrýni póstsins við efni samkomulagsins því að það sýnir innrætið best. Óheiðarleikinn hlýtur að ganga fram af hverjum sem les. Hv. þingmaður sagði hér í gær að samkomulagið myndi opna landamæri Íslands fyrir nánast öllum jarðarbúum og vegið væri að vestrænu samfélagi. Þetta er sama orðræða og var í aðdraganda setningar nýrra útlendingalaga, að sjálfsögðu eintóm vitleysa og augljóslega svo.

Ég hef fengið mig fullsaddan af því að í hvert sinn sem útlendinga ber á góma stökkvi til popúlistar og valdhyggjusinnar, veifi fána allra Íslendinga og berji sér á brjóst fyrir að standa vörð um sjálfstæði Íslands. Hvílíkt bull. Þetta samkomulag snýst um að takast heildstætt á við raunveruleg vandamál sem fylgja miklum fólksflutningum innan ramma laga og aðstæðna hvers ríkis, eins og kemur skýrt fram í samkomulaginu þegar það er lesið. Greinilega er þörf á því að ræða þetta meira hér, get ég þó tekið undir.

Þá mættu gagnrýnendur kynna sér efnið í stað þess að misnota sjálfstæðiskennd og ættjarðarást Íslendinga til þess eins að marka sér pólitíska stöðu. Það að framleiða innstæðulausan ótta á kostnað mikilvægra verkefna við úrlausn erfiðra vandamála er ekki vörður um sjálfstæði Íslands og allra síst frjálslynd lýðræðisgildi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:15]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á skýrslu sem kom út í gær. Ég hef veitt forystu starfshópi á vegum samgönguráðuneytisins varðandi uppbyggingu flugvallarkerfis og eflingu innanlandsflugsins. Ég vek athygli á því að þetta er mjög í anda þess ríkisstjórnarsáttmála sem núverandi ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur kom fram með fyrir ári síðan þar sem m.a. er minnst á að á síðastliðnum árum hefur umfang flugs og flugtengdrar starfsemi aukist umtalsvert. Atvinnugreinin er íslensku hagkerfi mikilvæg og er grunnstoð uppbyggingar í ferðaþjónustu.

Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að unnið verði að því að gera innanlandsflugið að hagkvæmum kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar, að almenningssamgöngur verði áfram byggðar upp um land allt og að landsmenn eigi að hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum. Þetta er mjög í anda þess sem snýr að skosku leiðinni í því sem við samþykktum í þessum sal í júní sl. varðandi stefnumótandi byggðaáætlun þar sem eitt af markmiðunum snýr að þeim þáttum.

Hinn þátturinn sem skýrslan snýr að eru flugöryggismál almennt og uppbygging flugvallarkerfis landsins. Við sjáum það núna í umsögnum aðila við samgönguáætlun á hversu slæmum stað við erum varðandi þau málefni, til að mynda ef litið er til umsagna Isavia varðandi viðhaldsmál á flugvöllum landsins og hver staðan er, þar sem margir vellir eru komnir að mörkum þess að hægt sé að halda þeim opnum. Við sjáum þetta í umsögnum flugfélaganna, Icelandair, Wow air, um stöðu málanna og öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna.

Ástandið á flugvallarkerfi landsins er grafalvarlegt. Það hlýtur að vera eitt af markmiðum okkar hér að tryggja fjármögnun og uppbyggingu þess á komandi árum með þeim hætti að við getum tryggt það.

Nú er svo komið hjá okkur að ferðaþjónustan byggist á þessum grunninnviðum. Því er algjör forsenda að við förum í þetta verkefni og byggjum upp þá velli og tryggjum þá fyrir framtíðarhagsmuni Íslands.



[15:18]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Til að taka saman undir störfum þingsins hvernig við á þingi förum með mál eins og Klausturmálið sem var kært eða kvartað yfir í forsætisnefnd þá varðaði eitt atriði í því skjali sem kvartað var yfir mögulega ráðherraábyrgð, þ.e. að ráðherra hefði brotið af sér í starfi. Svo að landsmenn skilji hvernig þeim málum er háttað ætlaði forsætisnefnd að vísa til siðanefndar öllum atriðunum nema því sem varðaði ráðherraábyrgðina vegna þess að þau atriði áttu sér stað áður en siðareglurnar voru settar fyrir tveimur árum. Það er góð meginregla, alveg aftur til rómverska lýðveldisins fyrir meira en 2.000 árum síðan, að maður refsar ekki fólki afturvirkt, með afturvirkum lögum. Það er komið í reglur þannig að hvar situr það atriði? Forsætisnefnd vísaði þeim þætti, þ.e. þeim sendiherrakapli frá, en tók hin atriðin. Þau munu fara til siðanefndar.

Hvar er þá þessi ráðherrakapall, ábyrgð ráðherra að vera ekki að misnota aðstöðu sína hvað það varðar? Í sérstökum umræðum í gær sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson átti við hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur talaði hann um ráðherraábyrgð og landsdóm. Kom fram að hæstv. forsætisráðherra var ekki ánægð með landsdómsfyrirkomulagið en nefndi að á þeim tíma þegar hún var í ríkisstjórn samþykkti ríkisstjórnin að setja á fót stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hefði ábyrgð á eftirlitsskyldu gagnvart framkvæmdarvaldinu og ráðherrum sérstaklega og gæti farið í rannsókn og jafnvel sett á fót rannsóknarnefndir, sem hún nefndi, hvað það varðaði.

Sá þáttur málsins sem varðar ráðherraábyrgð Gunnars Braga Sveinssonar, þá hæstv. ráðherra, á því að vera mögulega að skipa aðila sem sendiherra í skiptum fyrir greiða, á heima í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að frumkvæði formannsins, Helgu Völu Helgadóttur, samþykkt að kalla fyrir nefndina þá aðila sem um ræðir, Gunnar Braga Sveinsson, Sigmund (Forseti hringir.) Davíð Gunnlaugsson, Bjarna Benediktsson og Guðlaug Þór Þórðarson, hv. og hæstv., til að skoða það mál ofan í kjölinn.



[15:20]
Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Mig langar undir liðnum störf þingsins til að ræða raforkumál. Það er mikið rætt um orkupakka. Það er mikið rætt um þriðja orkupakkann en það sem mig langar frekar að ræða eru orkupakkar eitt og tvö og hver reynslan hefur verið af þeim reglum sem við innleiddum við lagabreytingarnar 2003 og 2005. Við eigum margt ógert í því að klára það verk sem við hófum þá og kannski er rétt að ræða það áður en við förum að innleiða fleiri orkupakka.

Megintilgangur þeirra breytinga sem þá voru innleiddar var að aðskilja framleiðslu á rafmagni og flutning á rafmagni. Það gerðum við og við bjuggum til kerfi utan um það með þeim hætti að við stofnuðum Landsnet og tókum meginflutningskerfið út úr Landsvirkjun, stofnuðum það félag. Síðan eigum við hér dreifiveitur, Rarik er einna stærst þeirra, og fleiri dreifiveitur eigum við. Þessar dreifiveitur og Landsnet starfa undir svokölluðum tekjumörkum og eru þar af leiðandi með gjaldskrár sem eru ákveðnar með ákveðnu skipulagi.

Reynslan af þessum breytingum hefur m.a. birst í því að þróun á flutningskostnaði rafmagns á svæði Rariks hefur frá þessum árum, 2005–2017, verið með þeim hætti að meðan vísitalan hefur hækkað um 82,5% hefur dreifikostnaður í þéttbýli á svæðum Rariks hækkað um 44% en dreifikostnaður hjá Rarik í dreifbýli hefur hækkað um 102%. Og hjá Orkubúi Vestfjarða um 117%.

Áskilnaður er í þessum lögum um að jafna þennan kostnað úr ríkissjóði og hefur það framlag úr ríkissjóði hækkað á þessum tíma um 300%. Það nær samt ekki markmiðum laganna og þarf væntanlega að hækka það um einar 800–900 milljónir til viðbótar, einungis til að ná markmiðum laganna.

Ég tel að það verði að rýna þetta fyrirkomulag og stokka upp þennan kapal á nýjan leik og sækja fram með nýjar lausnir, klára að losa eignarhald þessara mikilvægu félaga sem dreifa rafmagni og ná betri árangri (Forseti hringir.) en við höfum náð hingað til.



[15:22]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Í gær birtust upplýsingar um laun og starfskostnað þingmanna frá árinu 2007. Mig langar til að nota tækifærið til að hrósa þinginu fyrir að hafa loksins tekið annað skref í áttina að auknu gagnsæi og aðhaldi borgara gagnvart störfum þingmanna. Fyrsta skrefið var að birta þessar upplýsingar jafnóðum og þær urðu til. Þetta er skref nr. 2, að birta söguleg gögn.

Það þarf auðvitað að stíga fleiri skref. Til þess erum við með ýmsar fyrirmyndir, t.d. er hægt að líta til Bretlands þar sem hver sem er getur skoðað sundurliðun hverrar ferðar á vef IPSA, sem er sjálfstæð eftirlitsstofnun gagnvart þinginu eða Independent Parliamentary Standards Authority. Þar get ég t.d. séð að Damien Hinds fékk endurgreitt fyrir ferðalag á eigin bíl innan kjördæmis upp á 3,51 pund 18. maí 2018.

Í síðustu viku gerðist ýmislegt. Yfirlýsingar nokkurra þingmanna urðu opinberar og öllum á að vera augljóst að þær yfirlýsingar varða siðareglur þingmanna. Forsætisnefnd brást snarlega við og virkjaði siðanefnd samkvæmt siðareglum. Í síðustu viku afgreiddi forsætisnefnd annað mál þar sem einnig var um að ræða opinberar yfirlýsingar sem öllum má vera augljóst að varða einnig siðareglur þingmanna. Samt var því erindi vísað frá. Í gögnum málsins kemur augljóslega fram að það telst ekki vera hluti af starfi þingmanns að sinna kosningabaráttu og þar af leiðandi á hann ekki að geta fengið ferðir vegna kosningabaráttu endurgreiddar frá þinginu.

Ég hef áður spurt um gögn vegna ferða þingmanna í kringum kosningar. Þar kemur skýrt og greinilega í ljós að ferðir aukast marktækt fyrir kosningar. Eftir að hafa gengið í gegnum kosningar sjálfur hef ég ekki orðið var við að eftirspurn hafi verið eftir mér sem þingmanni heldur hefur verið eftirspurn eftir mér sem frambjóðanda. Það ætti því að vera augljóst öllum að slíkt getur ekki flokkast undir ferðir í tengslum við störf þingmanns. En þrátt fyrir gögn og opinberar yfirlýsingar um endurgreiðslur vegna kosningabaráttu vísar forsætisnefnd brott erindinu um að rannsaka slíkt sem brot á siðareglum. Fleiri fyrirspurnir um málið eru á leiðinni.



[15:24]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag er alþjóðlegur dagur jarðvegs. Jarðvegur er það sem allt líf nærist á og jarðvegur er mjög mikilvæg náttúruauðlind og hann er ekki hægt að endurnýta.

Ég treysti þér, máttuga mold.

Ég er maður, sem gekk út að sá.

Ég valdi mér nótt, ég valdi mér logn,

þegar vor yfir dalnum lá.

Með leyfi forseta, þetta sagði skáldið Guðmundur Ingi sem var bóndi og skildi þá hringrás sem lífið er. Okkur ber skylda að yrkja og varðveita jörðina og skila henni til komandi kynslóða.

Frjómoldin er aðeins þunn skel á yfirborði jarðar. Í henni nærum við meginhluta matvælaframleiðslu heimsins. En jarðarbúum fjölgar hratt og því miður er þessi mikilvæga auðlind jarðar að hopa og verða eyðimerkurmyndun að bráð.

Fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga sem hvetur landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðherra að gera tillögu til breytinga á lögum eða reglugerðum sem miða að því að koma á fót hvatakerfi þannig að landeigendur hafi ávinning af því að græða upp land og stöðva jarðvegsrof með uppskeru af túnum sem nýtist ekki í fóður.

Í loftslagsstefnu Íslands er það eitt af forgangsmálum að huga að landgræðslu eins og segir í aðgerðaáætlun fyrir árin 2018–2030, með leyfi forseta:

„Fáar þjóðir hafa eins góð tækifæri og Íslendingar til að draga úr losun vegna landnotkunar og efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi.“

Þar er nefnt sérstaklega að endurheimt votlendis sé veigamikill þáttur í að draga úr losun og að hægt sé að binda kolefni úr andrúmslofti með landgræðslu og skógrækt. Íslenskir bændur hafa sýnt landgræðslu og kolefnisbindingu mikinn áhuga. Landssamtök sauðfjárbænda hafa sett sér aðgerðaáætlun þar sem stefnt er að því að sauðfjárrækt skuli verða kolefnisjöfnuð fyrir árið 2027. Liður í því er landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis. Landgræðsla ríkisins hefur unnið markvisst að því að efla grasrótarstarf í landgræðslu og gróðurvernd og flytja verkefni frá landgræðslunni heim í héruðin undir samvinnuverkefninu (Forseti hringir.) Bændur græða landið. Það er dæmi um slíkt framtak.



[15:27]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það lýsir ekki sérlegum búhyggindum þingsins að horfa helst bara til næstu daga eða jafnvel sífellt vera að bregðast við héraðsbresti sem er oft mjög fyrirsjáanlegur. Við erum að fara að takast á við brjálæðislegar breytingar á næstu áratugum. Störf munu breytast og önnur verða til og lykillinn að því að fóta sig í þessum nýju aðstæðum er að við eflum sköpunargáfu, kraft, tækniþekkingu, nýsköpun og rannsóknir. Annars mun okkur ekki farnast sérstaklega vel. Við þurfum að þroska einstaklinga sem geta tekist á við ný verkefni með nýrri tækni og horfa á menntakerfið í því ljósi. Það var auðvitað jákvætt skref að skipa framtíðarnefnd sem á að fjalla um helstu ógnir og tækifæri og ég fagna því. En um leið skil ég ekki niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar sem leggja til lækkun á fjárframlögum til rannsóknasjóða Vísinda- og tækniráðs um tæplega 150 milljónir milli umræðna.

Herra forseti. Hvað hefur breyst? Varla hefur framþróun og framtíðin breyst á þessum eina mánuði. Þessi niðurskurður þýðir 17% minna framlag og 25 störf ungra vísindamanna munu hverfa úr þessu umhverfi. Við verðum að setja nýsköpun, vísindi og rannsóknir á oddinn og ekki draga lappirnar. Samfylkingin mun því leggja fram breytingartillögu við afgreiðslu fjárlaga sem dregur þessa lækkun til baka og ég hvet þingmenn til að spá aðeins í framtíðina með okkur og styðja þá tillögu.



[15:29]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Utanríkismál og samskipti við aðrar þjóðir skipta okkur miklu máli. Við eigum allt okkar undir góðum og greiðum samskiptum við aðrar þjóðir. Við eigum að gera okkur eins gildandi og í okkar valdi stendur í samvinnu við aðrar þjóðir um verkefni sem varða heimsbyggðina alla. Í því samhengi vil ég nota tækifærið til að nefna tvennt. Í fyrsta lagi er það nauðsyn þess að við eigum öfluga utanríkisþjónustu, skipaða úrvalsfólki þar sem með eru auðvitað taldir sendiherrar okkar á erlendri grundu. Í lögum um utanríkisþjónustuna er starfsmönnum hennar skipt í fimm meginflokka og í fyrsta flokki eru ráðuneytisstjóri og sendiherrar. Í 14. gr. sömu laga kemur fram að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi um þá starfsmenn með þeirri veigamiklu undantekningu þó að heimilt er að víkja frá þeim reglum starfsmannalaganna sem kveða á um að laus embætti skuli auglýsa í Lögbirtingablaði.

Að mínu mati er sú undanþáguheimild óþörf. Hún skapar einungis hættu á að illa sé með farið, hættu á að önnur sjónarmið ráði í vali sendiherra en þau að fá þann hæfasta til starfsins hverju sinni. Af þeim sökum hyggst ég flytja frumvarp þess efnis að fella niður þessa undanþáguheimild úr lögum um utanríkisþjónustuna.

Hitt atriðið sem ég vil nefna er að ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákaflega mikilvægt samkomulag Sameinuðu þjóðanna um fólksflutninga, á ensku, með leyfi forseta, „Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration“, sem verður undirritaður í Marakess eftir nokkra daga. Auðvitað væri best ef utanríkisráðherra gæfi strax út yfirlýsingu um að Ísland muni undirrita samkomulagið. Orð sem voru látin falla hér í gær undir liðnum um störf þingsins um þann samning eru með miklum eindæmum.



[15:31]
Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Virðulegur forseti. Samgöngumálin hafa verið í brennidepli þessa vikuna og síðast í gær kom út skýrsla starfshóps sem fjallaði um innanlandsflug og rekstur flugvalla með hliðsjón af áherslum ríkisstjórnarinnar undir forystu hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar. Aðgerðirnar sem hópurinn leggur til koma að mínu mati til með að leysa ýmsan vanda sem við hefur verið að etja, til að mynda varðandi millilandaflug, með því að varaflugvöllunum í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum er gefið aukið vægi. Það gefur væntingar um að þær framkvæmdir sem eru nauðsynlegar við þá velli fari af stað. Það mun styrkja vellina til að veita þá þjónustu og það öryggi sem þeir eiga að standa fyrir.

Ég vil einnig minna á mikilvægi þess að opna fyrir umferð lítilla og meðalstórra flugvéla til og frá landinu um Hornafjarðarflugvöll sem er bæði stuðningur við svæðið varðandi ferðaþjónustuna og svo mikið flugöryggisatriði fyrir vélar, til að mynda í ferjuflugi.

Innanlandsflugið á að vera einn liður í almenningssamgöngunum og er hluti af þessari skýrslu. Sú staðreynd að það sé hægt að fá flugfar til og frá landinu í gegnum Keflavíkurflugvöll fyrir sama verð og almennt fargjald aðra leiðina til Hornafjarðar, Ísafjarðar eða Egilsstaða er ekki boðlegt ástand. Því fagna ég innilega fyrir hönd landsbyggðarinnar að hin svokallaða skoska leið eða útfærsla af henni sé komin í vinnslu og lagt til að það fyrirkomulag taki gildi árið 2020. Aðgengi að þjónustu sem er stöðugt gerð miðlægari á höfuðborgarsvæðinu á að vera sjálfsagt fyrir alla landsmenn.

Til viðbótar má telja að leikhús allra landsmanna, t.d. Þjóðleikhúsið, hljómsveit allra landsmanna, Sinfóníuhljómsveitin, og flugvöllur allra landsmanna, aðalvöllurinn, Keflavíkurflugvöllur, sé á leið hér um og það er gott að við getum átt smápening fyrir gjaldeyri þegar við komum á Keflavíkurflugvöll.



[15:33]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Fréttaflutningur undangenginna daga minnir okkur svo ótvírætt á hversu langt við eigum enn til lands í jafnréttisumræðunni. Það sem maður verður auðvitað að segja sem karlmaður á þingi er að maður er eiginlega alveg ólýsanlega sorgmæddur yfir því að þessi umræða skuli hafa farið niður á þetta plan. Þetta undirstrikar það sem hefur verið svo mikilvægt stef í umræðunni á þingi, í #metoo og á rakarastofuráðstefnunni sem við stóðum fyrir í upphafi árs, í framlagi Íslands til HeForShe-átaks UN Women, einmitt um rakarastofuna, að karlar geri sig gildandi í jafnréttisumræðunni, að karlar standi upp í þessari umræðu og segi: Þetta getum við ekki látið líðast.

Svona orðræðu viljum við hvorki sjá líðast í stjórnmálunum né nokkurs staðar annars staðar. Við vitum auðvitað, ekki hvað síst einmitt í stjórnmálunum, að þetta er greinilega landlægt og þetta er ein af meginástæðum þess að konur endast að jafnaði mun skemur þar en karlar, þær mæta allt annarri og miklu vægðarlausari kvenfyrirlitningarumræðu á vettvangi stjórnmálanna. Þetta er ólíðandi og ég skora á alla karla á þingi að við tökum höndum saman um að segja: Nei. Hingað og ekki lengra. Þetta stoppar hér. Við getum ekki látið svona kvenfyrirlitningu, svona ótrúlegan — mann bara skortir orð til að lýsa þessu — líðast hér innan veggja Alþingis. Stopp, hingað og ekki lengra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)