149. löggjafarþing — 49. fundur.
losun fjármagnshafta.

[10:32]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Þegar tilkynnt voru áform um losun fjármagnshafta og aðgerðir því samhliða má segja að þær hafi í grófum dráttum skipst í þrennt. Einn af meginliðunum var hvernig skyldi standa að losun svokallaðra aflandskróna og útlistað með nokkuð skýrum og nákvæmum hætti hvaða aðferð skyldi notuð í því. Það kom jafnframt fram að allar þessar aðgerðir þyrftu að haldast í hendur, það þyrfti að gæta jafnræðis og það þyrfti að tryggja að allir legðu sitt af mörkum til að heildarplanið gengi upp og réttlætanlegt væri að ráðast í þær aðgerðir sem boðaðar voru.

Um mitt ár 2016 kom hins vegar eitthvert bakslag í þennan þriðja lið sem varðar aflandskrónurnar og aldrei hefur fengist tilhlýðileg skýring á því hvers vegna það var. Í framhaldinu hófst mjög vandræðalegt ferli í losun aflandskrónueigna sem fólst m.a. í síendurteknum samningaviðræðum við eigendur þessa fjármagns, vogunarsjóði, ekki hvað síst þá sem höfðu keypt þessar eignir á umtalsverðum afslætti og ætluðu að hagnast á þeim, og sífelldri undanlátssemi því að þegar það sem stjórnvöld loks lögðu upp með hverju sinni var ekki samþykkt þá var einfaldlega gengið til viðræðna aftur.

Nú hefur komið fram að stjórnvöld hyggist losa um restina af þessum aflandskrónueignum. Með öðrum orðum, þeir sem tóku ekkert mark á stefnu íslenskra stjórnvalda, þeir sem hlustuðu ekki á áformin, þeir sem trúðu því ekki að stjórnvöld myndu standa við það sem þau sögðust myndu gera ef menn væru ekki tilbúnir til samninga, hagnast mest. Hvað segir þetta um trúverðugleika íslenskra stjórnmála, íslenska stjórnkerfisins? Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því og hvers vegna? Hvers vegna þessi stefnubreyting?



[10:35]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að áætlun stjórnvalda um afnám haftanna hefur gengið fullkomlega eftir. Það birtist í vaxandi trausti á íslenska ríkið og íslensk efnahagsmál. Ég vísaði í því samhengi til þess að lánshæfismatsfyrirtækin hafa stöðugt verið að hækka mat á Íslandi. Ég vísa til þess hvernig staðið var að umbúnaði við uppgjör gagnvart gömlu búunum og haftaafnámi í tengslum við það. Við höfum í grundvallaratriðum fyrst og fremst verið að leysa hér greiðslujafnaðarvanda sem var ógnvænlega stór en hefur smám saman verið að víkja og skuggi hans er orðinn tiltölulega stuttur. Þannig að ég vil halda því fram að þær aðgerðir sem eru næstar í haftaafnáminu séu eins konar lokaaðgerðir. Þær hafa ávallt verið fyrirséðar og eru í eðlilegu framhaldi af fyrri aðgerðum stjórnvalda sem allar hafa tekist vel.

Þegar hv. þingmaður segir að það sem hafi átt að gerast ef menn hlustuðu ekki á stjórnvöld hafi verið eitthvað allt annað en þetta, spyr ég: Hvað er hv. þingmaður að tala um? Er hv. þingmaður að tala um þjóðnýtingu eignanna? Er hv. þingmaður að tala um að við ætlum að halda hér restunum af höftunum út í hið óendanlega af því bara?

Þetta er allt í eðlilegu, rökréttu samhengi. Nú er komið að lokakaflanum. Við höfum ekki bara getu til að stíga það skref heldur er hægt að færa fyrir því rök að nú sé komið að því að við þurfum að stíga það skref, vegna þess að hinn undirliggjandi vandi hefur verið að víkja, greiðslujafnaðarvandinn hefur smám saman verið að hörfa og þar með helstu forsendur fyrir því að hafa höftin til staðar.



[10:37]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég tek að sjálfsögðu undir það með hæstv. fjármálaráðherra að á heildina litið hefur losun hafta og þær aðgerðir gengið vonum framar. En vegna þess að hæstv. ráðherra spyr skal ég rifja upp fyrir honum hvernig áformin varðandi aflandskrónurnar voru. Það var kynnt að þeir sem ekki tækju þátt í gjaldeyrisútboðum gætu ekki vænst þess að fara betur út úr því með því að sniðganga útboðin. Í framhaldinu, þegar Seðlabankinn hefur svo viðræður við tiltekna aðila sem voru ósáttir við það gengi sem þeim bauðst, voru skilaboðin frá stjórnvöldum þessi: Menn geta þá bara að hætt á það, ef þeir eru ekki tilbúnir í þau býtti, að sitja hér fastir árum, jafnvel áratugum saman.

Skilaboðin voru þau að ef menn væru ekki tilbúnir að taka þátt í því sem þyrfti að gerast til að hægt væri að losa höftin þá færu þeir ekki betur út úr því en aðrir. En nú er niðurstaðan sú að veðmál vogunarsjóðanna gekk upp. Þeir keyptu þessar eignir með umtalsverðum afslætti og stjórnvöld gáfust upp á endanum. Það var ekkert að marka það að menn yrðu læstir hér inni ef þeir létu ekki undan.



[10:38]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem sagt var var að menn myndu mæta afgangi. Þeir sem ekki tækju þátt í útboðum fengu engin skýr svör um það á hvaða tímapunkti þeir myndu fá aðgang að þessum eignum. Það voru meginskilaboðin. Í því fólst engin hótun um að menn myndu koma miklu verr frá því, enda ekki í sjálfu sér lögmætt að stilla mönnum þannig upp við vegg að stjórnvöld ætluðu að búa þannig um hnútana að hirða af mönnum eignir. Það var einfaldlega sagt: Þetta mun mæta afgangi. Og nú höfum við leyst það sem á undan þurfti að koma og ytri aðstæður hafa sem betur fer þróast okkur í hag. Ef það hefði farið á hinn veginn er ég sammála hv. þingmanni um að þá kynnu enn að vera uppi aðstæður sem leiddu til þess að við gætum ekki verið að stíga þetta skref. En sem betur fer hefur flest fallið okkur í hag. Greiðslujafnaðarstaðan er góð. Við sjáum það t.d. núna á viðskiptajöfnuði þriðja ársfjórðungs þessa árs að hann er einn sá mesti sem við höfum séð í sögunni þannig að hættumerkin eru ekki lengur til staðar.