149. löggjafarþing — 49. fundur.
aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 157. mál (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð). — Þskj. 157, nál. m. brtt. 654.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:38]

[11:33]
Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér greiðum við atkvæði um að framlengja bráðabirgðaákvæði sem veitir samtökum aðila vinnumarkaðarins heimild til að gera með sér samkomulag um að víkja frá ákvæðum laga um hvíldartíma og næturvinnu þeirra starfsmanna sem vinna við notendastýrða persónulega aðstoð. Best hefði verið ef ráðuneytið hefði verið búið að finna framtíðarlausn á þessu vinnufyrirkomulagi. En svo er ekki þannig að mig langar til að ítreka mikilvægi þess að á næsta ári verði mörkuð skýr stefna um framtíðarstarfsumhverfi þessarar mikilvægu þjónustu svo við þurfum ekki að standa hér aftur eftir ár og samþykkja bráðabirgðalög um þjónustuna.



[11:34]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við göngum hér til atkvæða, eins og hv. þm. Halldóra Mogensen kom að, um bráðabirgðaákvæði vegna þjónustu við fatlað fólk, svokallaðrar NPA-þjónustu. Nefndin þrengir upprunalega ákvæðið verulega frá því sem var. Nú er það eingöngu bundið við NPA-þjónustu, við 11. gr. laganna, og við styttum einnig þann tímafrest sem aðilar sem að málinu koma og ráðuneytið hafa til að bæta úr þeim ágöllum sem eru á lögunum þannig að þau nái vel utan um þá þjónustu. Því að auðvitað er það grundvallaratriði að þeir starfsmenn sem starfa við þessa þjónustu njóti sömu réttinda og sömu verndar að lögum og aðrir starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði.



[11:35]
Vilhjálmur Árnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil nefna eitt varðandi það mál sem við greiðum atkvæði um, að þessi undanþága sem við erum að framlengja snýr að báðum hópunum, bæði þeim sem þiggur þjónustuna og þeim sem veitir hana. Það er mikilvægt að undanþágan sé ívilnandi fyrir báða aðila og sé hagkvæmari. Það er nauðsynlegt í báðum tilvikum, bæði til þess að þeir sem veita þessa þjónustu geti átt betra með að veita hana og sinnt hlutverki sínu betur, og að það komi hagsmunum þeirra betur sem þurfa að þiggja hana. Þess vegna er mjög mikilvægt að fundin sé lausn þannig að réttindi allra í þessu máli séu tryggð. En vegna eðlis þeirrar þjónustu sem við ræðum hér, notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, liggur í augum uppi að það verður að fara eitthvað út fyrir núverandi vinnuverndarlöggjöf og þarf að finna sameiginlegar leiðir í því sem fyrst.



Brtt. í nál. 654,1 samþ. með 57 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AlbG,  AFE,  AKÁ,  ATG,  ÁsgG,  ÁslS,  ÁsF,  BÁ,  BirgÞ,  BjG,  BjarnB,  BLG,  BHar,  BN,  EBS,  GBr,  GIK,  GuðmT,  HSK,  HallM,  HKF,  HarB,  HVH,  HHG,  IngS,  JónG,  JÞÓ,  JSV,  JÞÞ,  KGH,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LiljS,  LínS,  LE,  NTF,  OH,  ÓGunn,  ÓÍ,  ÓBK,  PállM,  SDG,  SÁA,  SPJ,  SnæB,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  UMÓ,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞKG,  ÞorS,  ÞorstV,  ÞórE.
6 þm. (AIJ,  LRM,  RBB,  SIJ,  SMc,  ÞórdG) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[11:37]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Hér liggur fyrir frumvarp til breytinga á lögum um aðbúnað og hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þ.e. undanþáguákvæði hvað varðar vinnutíma starfsmanna sem veita notendastýrða, persónulega aðstoð. Þetta bráðabirgðaákvæði hefur í raun verið við lýði það tilraunatímabil frá því að farið var að veita notendastýrða, persónulega aðstoð, sem lögfest var á hinu háa Alþingi í vor og tók gildi 1. október. Enn hefur ekki tekist að búa svo um hnútana að hagsmunir þjónustuaðila séu tryggðir í samræmi við vinnutímatilskipun EES og ESB, þaðan sem svo margt gott kemur, þannig að farið er fram á framlengingu bráðabirgðaákvæðis í eitt ár. Við viljum hvetja ráðuneytið og stjórnvöld til að nýta þennan tíma vel og ganga þannig frá málum að ekki þurfi að koma til frekari bráðabirgðaákvæða. Það er mikið í húfi: réttindi einstaklinga með fötlun. Það er baráttumál sem er hægt og bítandi að nást í gegn.



 1. gr., svo breytt, samþ. með 57 shlj. atkv.

Brtt. í nál. 654,2 (ný 2. gr.) samþ. með 57 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.