149. löggjafarþing — 55. fundur
 22. janúar 2019.
um fundarstjórn.

dagskrá fundarins.

[14:15]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Forseti hefur ekki gætt upplýsingaskyldu sinnar í samræmi við þingsköp varðandi það mál sem hefur verið sett á dagskrá hér næst, sem kemur kannski ekki á óvart þegar markmið málsins sem hann hyggst kynna á eftir er að brjóta þingsköp með svívirðilegum hætti.

Við gátum e.t.v. ekki vænst þess að Steingrímur J. Sigfússon forseti yrði sanngjarn forseti. En við gátum heldur ekki búist við annarri eins framgöngu og við höfum séð frá forseta að undanförnu. Þó hefur forsetinn sýnt á undanförnum árum að hann skeytir ekki um lög, jafnvel þegar þau varða þjóðarhagsmuni, né réttlæti þegar hann vill ná markmiðum sínum. En hvern gat grunað að hann myndi standa fyrir því að löggjafinn vanvirti lögin sem gilda um þingið sjálft?



[14:16]
Ólafur Ísleifsson (U):

Herra forseti. Mér þykir leitt að þurfa að segja það en þjösnaleg framganga forseta í þessu máli vekur óneitanlega athygli. Ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á því að við hv. þm. Karl Gauti Hjaltason höfum engar upplýsingar fengið um málsmeðferð á vettvangi forsætisnefndar. Einn daginn lesum við það í blöðunum að forseti ætli að beita sér fyrir setningu afturvirkra laga til að koma fram vilja sínum í málinu. Annan dag lesum við að hæstv. forseti ætli að nota ákvæði í þingsköpum til að handvelja fólk í sérstaka forsætisnefnd til að framkvæma ákvörðun sína sem hann kemur ekki sjálfur fram vegna vanhæfis. (Forseti hringir.) Ég hlýt að furða mig á þessum vinnubrögðum og vek um leið athygli á því að við höfum ekki notið andmælaréttar í þessari málsmeðferð allri annars en þess að fá að tjá okkur um hæfi forsætisnefndarmanna og siðanefndarmanna.



[14:18]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram. Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar eða haft neina aðkomu að því að ræða hvernig málinu á að vinda fram. Samt er búið að ákveða hvernig ljúka á þessu máli. Það er meira að segja búið að ákveða að setja upp tímalínu sem segir okkur að málinu eigi að vera lokið í apríl, ef ég man rétt. Mér finnst þetta ekkert annað en valdníðsla. Mér finnst mjög óþægilegt að standa hér en ég get ekki annað.



[14:19]
Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Nú er Bleik brugðið. Hér er verið að ræða þingsköp og eftir því sem ég kemst næst er engin heimild í þingsköpum fyrir því sem hér á að gera. Samkvæmt sögusögnum, þar sem okkur hafa ekki borist nein gögn um þetta, ætlar hæstv. forseti að hengja sig í 94. gr. þingskapa, sem ég sé ekki í fljótu bragði að hægt sé á nokkurn hátt að nýta til þessara verka. Hér er um valdníðslu að ræða. Ætli hann sér hins vegar að kjósa nýja forsætisnefnd fer um þá kosningu samkvæmt 3. gr. þingskapa. Við þá aðgerð kemur 6. gr. inn, að hægt er að kjósa nýja menn, en þá ógildist fyrri kosning.

Við hljótum að kalla eftir því á Alþingi að farið sé að þingsköpum. Við hljótum að kalla eftir því að farið sé að lögum. Þetta sætir furðu. Mig langar til að fá svör við því, ef rétt reynist að þingmenn hafi verið rannsakaðir í þeim tilgangi að sjá hvort þeir séu hæfir til að fjalla um þetta mál eða ekki, hver framkvæmdi þá rannsókn, á hvaða forsendum, með stoð í hvaða lögum það var gert og hvað var rannsakað.



[14:20]
Karl Gauti Hjaltason (U):

Herra forseti. Þótt ekki væri nema fyrir það að okkur, þessum tveimur óháðu þingmönnum utan flokka, sé haldið algjörlega í myrkrinu varðandi allar afgreiðslur í forsætisnefnd og þurfum að lesa það í fjölmiðlum hvað sé á döfinni, eins og til að mynda það að kjósa ætti varaminniháttarundirforsætisnefnd til að fara með þetta mál — þetta lásum við í blöðunum — er einnig furðulegt að horfa upp á hæstv. forseta koma fram í fjölmiðlum, eftir að hann er búinn að lýsa sig vanhæfan í þessu máli, og lýsa því yfir að nauðsynlega þurfi að kjósa nýja forsætisnefnd sem hefði það eina hlutverk að vísa kærumálinu til siðanefndar. Hann er sem sagt að mæla fyrir um hvað ókosinni forsætisnefnd beri að gera. Vanhæfur forseti er að gefa (Forseti hringir.) fyrirmæli um það hvað ókosin nefnd eigi að gera. Við, þessir óháðu þingmenn, höfum ekki fengið eitt einasta bréf síðan 18. desember um gjörðirnar. Allt þetta hefur gerst síðar.



[14:22]
Ólafur Ísleifsson (U):

Herra forseti. Ætla Sjálfstæðismenn að láta hæstv. þingforseta draga sig út í slíka ófæru? Sama mann og stóð fyrir því að draga formann Sjálfstæðisflokksins fyrir landsdóm? Enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði með því að nokkur maður, hvorki Sjálfstæðismaður né Samfylkingarmaður, færi fyrir landsdóm. Á hvaða vegferð er Sjálfstæðisflokkurinn ef hann samþykkir valdníðslu eins og þá sem hér er uppi? Ég ætla að segja við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins: Gjör rétt, þol ei órétt.



[14:23]
Una María Óskarsdóttir (M):

Hæstv. forseti. Það leiðindamál sem er nú á dagskrá, kosning tveggja nýrra varaforseta, er komið í öngstræti. Eftir því sem manni sýnist á að nýta 94. gr. þingskapalaga til að koma málinu áfram. Í 6. gr. þingskapalaga kemur fram að kosning forseta og varaforseta skuli gilda allt kjörtímabilið og ef eigi að breyta því eigi að koma fram ósk og beiðni frá meiri hluta þingmanna. Hún hefur augljóslega ekki komið fram, enda menn orðnir ansi þreyttir á þessu máli sem var samt vissulega ekki gott.

Síðan er þó það að nýta 94. gr. sem hingað til hefur verið notuð til annarra hluta en að víkja frá 6. gr. Þá má líka gera sér grein fyrir því, þeir sem hafa skoðað lögin, að það hefur ekki verið vilji löggjafans, enda hefur 94. gr. aldrei verið notuð á þann hátt.

Ég lýsi mikilli furðu yfir því hvernig þetta mál allt er komið og mér finnst framkoman óhefluð.