149. löggjafarþing — 56. fundur.
störf þingsins.

[15:00]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera húsnæðismálin að viðfangsefni mínu hér í dag í ljósi þess að átakshópur forsætisráðherra um aðgerðir á húsnæðismarkaði skilaði tillögum sínum í gær.

Fjölmargir komu að þeim átakshópi og heildarniðurstaðan er 40 tillögur í sjö flokkum. Eins og við öll þekkjum hafa húsnæðismál verið í hnút undanfarin ár og óþarfi að fjölyrða hér um þær fjölmörgu fréttir af vandræðum okkar Íslendinga og þeirra sem hér búa í þeim málum og þá sérstaklega unga fólksins. Þrátt fyrir mikla uppbyggingu undanfarin misseri og mikla áherslu á nýtt húsnæði bendir enn ekkert til að það framboð sem nú er að myndast muni henta tekju- og eignalágum.

En nú fer fólk vonandi að sjá til lands. Meðal tillagna þessa breiða átakshóps er stuðningur við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög, öruggari leigumarkaður fyrir leigjendur og þá er einnig lögð rík áhersla á mikilvægi skilvirkra almenningssamgangna. Ljóst er að þær leiðir sem farnar hafa verið hingað til í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis skila sér ekki til þessa hóps. Hann hefur orðið út undan á húsnæðismarkaði. Þá þurfum við að leita annarra leiða, t.d. með þessum sterku, óhagnaðardrifnu húsnæðisfélögum eins og lagt er til. Eins með því að bæta stöðu leigjenda, svo að þeir sem vilja frekar búa í leiguhúsnæði eigi þess kost og að það sé raunverulegt val. Þannig þarf að gæta að réttindum leigjenda og tillögur um leiguvernd ættu að vera vel til þess fallnar, en gæta þarf þó að því að breytingar á húsaleigulögum verði ekki til þess að hækka leiguverð eða draga úr framboði á leigumarkaði.

Mikil áhersla er lögð á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga til að bæta stöðuna á húsnæðismarkaði og ljóst er að þar er enn verk að vinna. Ég tel þó að þessar tillögur séu afar mikilvægt gagn í þeirri vinnu sem fram undan er til að tryggja fólki öruggt húsnæði, bæta leigumarkaðinn og auka framboð á hagkvæmu húsnæði.

Það vekur jafnframt sérstaka athygli og ánægju hversu breið sátt virðist vera um niðurstöður hópsins. Sérstaka ánægju vakti að sjá að þeir aðilar sem nú sitja við samningaborðið í erfiðum kjaraviðræðum virðast (Forseti hringir.) vera ánægðir með þessar tillögur. En aðalmálið er að þær nái sem flestar fram að ganga og verði til þess að bæta hag lág- og millitekjufólks.



[15:03]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Í morgun hlustaði ég á Í bítið hjá þeim Heimi og Gulla eins og ég geri svo gjarnan þegar ég er að taka mig til á leið í vinnu. Gestur þeirra að þessu sinni var Helgi Gunnarsson, prófessor í félagsfræði og helsti sérfræðingur okkar í afbrotafræði. Hann hefur verið að vinna að skýrslu með norrænum kollegum sínum um fíkniefnasölu á netinu. Þeir hafa verið að safna saman gögnum frá því seint á árinu 2017 fram til ársins 2018. Tilgangurinn var í rauninni að reyna að komast að því hversu umfangsmikil slík sala er. Hvar fer salan fram? Þeir vita um neysluna, en markaðurinn hefur ekki verið þeim eins opinn.

Við höfum oft talað um og vitum um þann mikla vanda sem steðjar að unga fólkinu okkar og öllum öðrum sem hafa ánetjast fíkniefnum. Ópíóíðafaraldurinn hefur valdið tugum ungmenna ótímabærum dauða og við förum ekki varhluta af neinu slíku. En ég verð að segja að það sem vakti mesta furðu mína er hversu ofboðslega umfangsmikil fíkniefnasala er á netinu. Þeir fundu 30 lokaða hópa og þegar þeir komust inn í þá voru þar tugir og upp í mörg þúsund einstaklingar á því sem hann sagði að væri eiginlega markaðstorg. Þarna gat að líta opinn markað af öllum þeim fíkniefnum sem nöfnum tjáir að nefna og við getum látið okkur detta í hug, eins og þessi ágæti maður nefndi. Nú er verið að uppfæra þetta, tækniþróunin er gríðarleg, þeir eru með öpp, þeir eru með hvaðeina til þess að reyna að ná í unga fólkið okkar. Þess vegna segi ég: Það er okkar að grípa tækifærið strax, reyna að vera með einhverjar forvarnir. Við vitum hvað er í gangi, við vitum hvar salan fer aðallega fram og við eigum að geta tekið betur á því að svona lagað gerist ekki, a.m.k. ekki í þeim hryllilega mæli sem raun ber vitni samkvæmt skýrslunni.



[15:05]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Um nýliðin áramót færðust málefni hinsegin fólks frá velferðarráðuneytinu yfir til forsætisráðuneytis, líklega í tengslum við yfirlýsingar um aðgerðir í þágu hinsegin fólks sem er að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Það vekur hins vegar athygli að þrátt fyrir þau fallegu orð eru Samtökin '78, einu hagsmunasamtök hinsegin fólks á Íslandi, verulega vanfjármögnuð og ef svo fer sem horfir stefnir í helmingsniðurskurð frá því sem samtökin fengu frá velferðarráðuneytinu í fyrra.

Heilar 6 millj. kr. þykir forsætisráðuneytinu viðeigandi að Samtökin '78 fái fyrir ómetanlegt starf sitt á sviði fræðslu og ráðgjafar til barna, ungmenna, aðstandenda, heilbrigðisstarfsfólks og áfram mætti telja. Þess má geta að á síðasta ári hlutu samtökin sérstaka viðurkenningu Barnaheilla fyrir fræðslu, félagsstarf og ráðgjöf um hinsegin málefni en það ár var viðurkenning Barnaheilla tileinkuð sérstaklega rétti allra barna til lífs og þroska og til jafnræðis.

Sem betur fer fyrir Samtökin '78 og fyrir fjölmarga skjólstæðinga samtakanna, fyrir heilbrigðisstarfsfólk og aðra þá sem málið snertir styður Reykjavíkurborg myndarlega við samtökin og heldur þannig lífi í þessari mikilvægu starfsemi, ef svo mætti segja. Stjórnvöld geta ekki endalaust talað á einn veg og forgangsraðað á annan. Þau geta ekki endalaust gert kröfu um og gengið út frá því að fólk beri ábyrgð, að einstaklingar beri ábyrgð á því að tryggja nauðsynleg og eðlileg mannréttindi í sjálfboðavinnu.

Málaflokkur hinsegin fólks átti að sögn að fá aukið vægi með tilfærslunni yfir í hið nýja ráðuneyti jafnréttismála. Ég vona að ekki sé ástæða til að óttast frekar að starfsemi enn einna frjálsra félagasamtaka sé stefnt í hættu af núverandi ríkisstjórn.



[15:07]
Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Nú er ár síðan ég tók fyrst sæti á Alþingi og hefur það verið áhugaverð reynsla að kynnast störfum þingsins. Þegar ég kom hér inn fyrir ári síðan var mikið rætt um að efla traust á þinginu og störfum þess. Ég fagnaði þeirri umræðu mjög enda höfum við lært af hinum ýmsu atburðum hér á Alþingi að það hefur reynst þingmönnum og ráðherrum erfitt að axla pólitíska ábyrgð.

Ég neita því ekki að þingmenn upp til hópa eru opnir fyrir málefnalegum umræðum og reyna að skilja allar hliðar mála. Hins vegar er ekki hægt að neita því að það er ákveðinn skortur á fjölbreytileika hér innan dyra. Án þess að draga í efa heilindi þeirra sem ég hef setið með á nefndarfundum eða í þingsal verðum við öll sem eitt að átta okkur á forréttindum okkar.

Ég talaði um það hér síðast þegar ég var í pontu að við þyrftum að geta sett okkur í spor unga fólksins til þess að geta byggt upp sjálfbært samfélag til framtíðar. Í dag kalla ég eftir því að við setjum okkur í spor fatlaðra, samkynhneigðra, fátækra, aldraðra og þeirra sem eru valdaminni. Vald er nefnilega vandmeðfarið og við sem valdhafar og þau okkar sem starfa fyrir fólkið í landinu berum mikla ábyrgð. Ábyrgðin felst í því að vera tilbúin að viðurkenna mistök. Það felur í sér að viðurkenna að við vitum ekki allt. Og fyrst og fremst felur það í sér skyldu til að hlusta og taka mark á þeim sem kjósa okkur til valda. Ef við gleymum okkur í forréttindunum okkar og valdi tel ég að við endum á því að taka ákvarðanir sem eru ekki samfélaginu í hag.

Eitt skref í að efla þessa ábyrgð væri t.d. að opna nefndarfundi. Í nefndum Alþingis eru nefnilega málin rædd, en þar skortir gríðarlega á fjölbreytileika á fundum. Í gær sat ég t.d. fund þar sem voru fimm karlar og tvær konur. Heyrir þetta til undantekninga því að í öðrum nefndum situr kannski bara ein kona. Og það er bara ein breyta. Ég ætla ekki að alhæfa um kynhneigð, fjárhagsstöðu eða aldur þessa fólks. En eitt er víst að þarna liggur vald og það er, á meðan nefndarfundir eru lokaðir, ekki gagnsætt og erfitt að hemja það. Leynd skapar óvissu og óvissa skapar vantraust. Á meðan kerfið er sett upp á þennan hátt verðum við að verða öflugri í (Forseti hringir.) því að muna að valdi og forréttindum fylgir ábyrgð.



[15:10]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að segja örlítið um jafnræði í samgönguáætlun. Nú borgum við öll í sameiginlega sjóði á jafnræðisgrundvelli, sérstaklega til samgönguáætlunar þar sem þeir sem nota borga, t.d. í gegnum bensíngjald.

Fyrir þinginu liggur samgönguáætlun þar sem fjármunum er skipt á ákveðinn hátt á milli svæða. Það er að vissu leyti skiljanlegt að fé rati síður á höfuðborgarsvæðið en út á land þar sem vegir eru lengri og kostnaður við framkvæmdir vegna langra vega er mikill. Samt sem áður verður mest af bensíngjaldinu til á stórhöfuðborgarsvæðinu. Við skiljum einhvern mun þar á milli.

Sú sviðsmynd sem blasir við okkur í tillögum meiri hlutans vegna veggjalda skekkir það jafnræði sem fram kemur í samgönguáætlun. Þar er hlutfall samgönguframkvæmda á stórhöfuðborgarsvæðinu minnkað ef horft er til þeirra fjármuna sem við greiðum í sameiginlega sjóði.

Það fjármagn mun verða tekið af stórhöfuðborgarsvæðinu og fært annað. Í staðinn þurfa íbúar á stórhöfuðborgarsvæðinu, allt til Borgarness og Selfoss, og þeir sem nota það aðallega, að borga veggjöld aukalega. Þeir þurfa sem sagt að borga aukinn skatt vegna þessara lífsnauðsynlegu framkvæmda eins og hæstv. samgönguráðherra hefur orðað það.

Ekki er nóg með að það jafnræði sem birtist í samgönguáætluninni sé eins skekkt og raun ber vitni, að vissu leyti skiljanlega, heldur minnkar jafnræðið. Höfuðborgarbúar fá hlutfallslega minna úr sameiginlegum sjóðum ef tillagan um veggjöld verður að veruleika og þurfa síðan að borga meira með veggjöldum.

Það er skekkjan í því jafnræði sem ég var að tala um að veggjöldin færðu okkur. Ég hafna henni.



[15:12]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nýjustu mælingar sýna að hlutfall koltvísýrings í lofthjúpi jarðar er komið upp í 410 parta af milljón. Þetta er hlutfall sem hefur ekki sést í 800.000 ár í það minnsta samkvæmt ískjarnasýnum. Loftslagsvandinn fer vaxandi. Við vitum þetta. Við vitum líka u.þ.b. hvernig lausnin lítur út. Það sem við þurfum að gera er að draga verulega úr losun koltvísýrings. Losun jarðarbúa er um 21 milljarður tonna koltvísýringsígilda árlega. Þar af bera Íslendingar ábyrgð á um 4 milljónum tonna. Þetta ætlum við að minnka niður í sem nemur 3 milljónum tonna fyrir árið 2030. Ríkisstjórnin lofar árangri í loftslagsáætlun sinni.

En frá því að sérstök umræða átti sér stað um loftslagsmálin sl. haust hefur u.þ.b. 1/20 af tímanum sem við höfum fram til ársins 2030 liðið. Það er auðvitað mikilvægt að allar aðgerðir komist á fulla ferð og að Alþingi sé jafnframt upplýst um framvinduna. En við þurfum meira en bara handaveifingar. Við þurfum einhvern mælanlegan árangur. Það hefur komið fram töluverð gagnrýni á árangurinn sem hefur sést til þessa, m.a. í formi könnunar á vegum Gallup þar sem 75% Íslendinga gefa viðleitni stjórnvalda og sveitarfélaga til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda meðaleinkunn eða lægri. Það hefur heldur ekki enn þá verið svarað fyrir gagnrýni sem kom fram í áðurnefndri sérstakri umræðu, sem lýtur að því að einstök markmið loftslagsáætlunar ríkisstjórnarinnar eru ekki tölusett upp á áætlaðan samdrátt á losun CO2-ígilda.

Það er nauðsynlegt að við hér á Alþingi tökum þennan málaflokk í algjöra gjörgæslu og tryggjum að við náum tilætluðum árangri vegna þess að við höfum ekki um margar aðrar plánetur að velja. Ef við klúðrum þessu núna er voðinn vís (Forseti hringir.) þannig að ég legg til að við stöndum okkur betur.



[15:14]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa mikilli ánægju með það að Reykhólahreppur hefur tekið þá erfiðu ákvörðun að setja inn á aðalskipulag sitt veglínu, ÞH-leið, um Teigsskóg og að þá sé hægt að fara að byrja á að framkvæma á þessu svæði sem í raun og veru hefur verið haldið í gíslingu í hátt í 20 ár. Stjórnvöld og opinberir aðilar hafa ekki getað komist að niðurstöðu um hvar veglína á að liggja í gegn á þessu viðkvæma svæði sem er í raun og veru allt ein náttúruperla, eins og Vestfirðir eru auðvitað allir. Við erum samt komin lengra á öðrum svæðum á Vestfjörðum með að leggja varanlega vegi. En þarna eru vegir sem eru ekki boðlegir á 21. öldinni, hvorki fólki né þeim fyrirtækjum sem eru þar til staðar.

Það má vissulega deila um hvaða vegstæði er best og að komið sé í veg fyrir að raska umhverfinu. Við getum haldið áfram að deila um það næstu 20 ár en það skilar ekki miklu fyrir þessa byggð og þetta snýst ekki bara um íbúa næsta nágrennis þessa svæðis heldur alla Vestfirði. Þetta verður þjóðbraut eftir að Dynjandisheiðin verður löguð og Dýrafjarðargöngin komin í gegn.

Hefði ég ein mátt ráða hefði ég kannski valið einhverja aðra leið fyrir 15–20 árum en þetta hefur verið í höndum þeirra aðila sem ráða og fjalla um þetta. Við erum búin að fara hring eftir hring og höfum skoðað ótal valkosti, kostnaðarmetið og skilgreint fram og til baka og einhvern tímann verður að höggva á hnútinn. Ég er stolt af hreppsnefnd Reykhólahrepps að hafa haft kjark til þess. Nú göngum við bara saman og náum sátt um (Forseti hringir.) að leggja veg um þetta svæði sem löngu er kominn tími til. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:17]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þann 15. október sl. átti ég orðastað við hæstv. landbúnaðarráðherra um innflutning á fersku kjöti í tilefni af nýjum dómi Hæstaréttar um að bann við innflutningi á fersku kjöti frá aðilum innan EES-svæðisins væri ólögmætt.

Sá dómur kom nú reyndar engum á óvart, nema hugsanlega einum eða tveimur fyrrverandi landbúnaðarráðherrum. Hæstv. landbúnaðarráðherra sagði m.a., með leyfi forseta, þegar ég spurði um þessi atriði:

„Þá er alveg rétt að þetta hefur legið fyrir í allnokkurn tíma, stefna ríkisstjórnar 2009–2013 og sömuleiðis frá 2013–2016 var sú að halda uppi vörnum í málinu og það var á þeim tíma ekkert gert til undirbúnings annarri niðurstöðu en þeirri að lögin héldu. Nú blasir niðurstaðan við og þetta er flókið úrlausnarefni. Það er það.“

Enn fremur sagði hæstv. ráðherra Kristján Þór Júlíusson, með leyfi forseta:

„Í mínum huga snýst málið núna númer eitt, tvö og þrjú um það að fá viðbótartryggingar gagnvart salmonellusýkingum sem nágrannaríki okkar hafa fengið. Það mun taka einhvern tíma að ná því. Sömuleiðis að reisa varnir gagnvart kampýlóbaktersmiti. Bæði þessara mála eru í vinnslu.“

Í skriflegu svari við fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra um kostnað vegna banns við innflutningi á fersku kjöti kom fram að beinn útlagður kostnaður vegna málaferla væri rúmar 47 millj. kr. Í svarinu kemur einnig fram að Eftirlitsstofnun EFTA hafi fyrr í þessum mánuði samþykkt umsókn íslenskra stjórnvalda um að þeim verði heimilt að setja sérstakar viðbótartryggingar vegna salmonellu í kjúklingakjöti, hænueggjum og kalkúnakjöti.

Herra forseti. Allt þetta mál hefur verið með miklum eindæmum af hálfu íslenskra stjórnvalda, neytendum til tjóns (Forseti hringir.) og leitt til ónauðsynlegra útgjalda og fyrirhafnar af hálfu ríkisins. (Forseti hringir.) Nú er mál að linni og krefjast verður þess að hæstv. landbúnaðarráðherra (Forseti hringir.) leggi fram án tafar frumvarp til að kippa þessu ólögmæta ástand í rétt horf.



[15:19]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Á aðventunni á síðustu dögum þingsins fyrir jól brast hér á orðræða um samskipti okkar við umheiminn, afstöðu og viðmót gagnvart þeim sem eiga á brattann að sækja í veröldinni, eiga jafnvel hvergi vísan samastað, oft kallaðir flóttamenn. Tilefnið var fregnir af því að Ísland ætlaði að vera eitt þeirra landa sem gerðust aðilar að alþjóðasamþykkt um farendur sem undirrituð var í Marrakesh þann 11. desember. Þingmaður Miðflokksins lýsti því í ræðustól að samningur þessi væri varhugaverður og kynni að leiða til hins mesta ófögnuðar fyrir þjóðina. Yfir landið myndi flæða nánast óstjórnin öll af fólki af ýmsum kynþáttum með ófyrirséðum afleiðingum og jafnvel geta vegið að fullveldi Íslands.

Sami tónn var sleginn hjá þessum flokki í atkvæðagreiðslu um veitingu ríkisborgararéttar á lokadegi þingsins. Að minnsta kosti hluti flokksins greiddi ekki atkvæði með frumvarpinu um 26 nýja ríkisborgara. Það er dapurlegt og umhugsunarefni að þau viðhorf sem endurspeglast í afstöðu þessa flokks er að finna hér og hvar í samfélaginu, þessi viðhorf sem fyrst og fremst eru sprottin af skilningsleysi, vanþekkingu og fordómum.

Við teljum okkur vera upplýsta þjóð en á þessu sviði þurfum við að gera betur, að fræða og kynna almenningi samhengið, stóru myndina, orsakir og afleiðingar og hlutskipti fólks sem er að leita að tryggari framtíð fyrir sig og börn sín.

Hér hafa stjórnvöld ríkum forystuskyldum að gegna. Nú eru tæplega 250 milljónir manna á faraldsfæti í heiminum utan síns heimalands og hafa aldrei verið fleiri. Hlutfall innflytjenda á Íslandi er ört að nálgast meðaltal nágrannalanda okkar í Evrópu. Við erum gestrisin en við stöndum okkur hins vegar alls ekki eins vel í því verkefni að laga innflytjendur að samfélagi okkar og okkur að þeim vissulega. Þess sjást merki í félagslegri þjónustu, í skólunum og á vinnumarkaði.

Á dagskrá þingsins síðar í dag, virðulegur forseti, er tillaga Samfylkingarinnar um mótun löngu tímabærrar stefnu í málefnum innflytjenda sem vonandi fær málefnalega og yfirvegaða umfjöllun í þinginu.



[15:21]
Bjartur Aðalbjörnsson (Sf):

Virðulegi forseti. Stefna Samfylkingarinnar er skýr um jöfn tækifæri allra. Samneysla að fyrirmynd jafnaðarmanna þar sem gæðunum er dreift þannig að öllum sé tryggt lífsviðurværi er leiðin. En angar frjálshyggjunnar hafa á undanförnum áratugum grafið undan þessari samneyslu. Samfélagið hefur í auknum mæli verið sniðið að þeim sem meira eiga. Vasar þeirra ríku dýpka og þeir sem ekki vita aura sinna tal koma auðnum fyrir í buxnavösum afskekktra eyríkja til þess eins að komast hjá sinni ábyrgð í samneyslunni.

Samkvæmt nýrri skýrslu Oxfam eiga 26 ríkustu einstaklingar heims jafn mikinn auð og fátækari helmingur heimsbyggðarinnar. Til að koma í veg fyrir frekari misskiptingu auðs hér á landi þarf að breyta skattkerfinu og byggja það upp öllum til hagsældar.

Árið 2016 runnu 60 milljarðar fjármagnstekna til 330 einstaklinga. Sá tekjuhæsti í hópnum þénaði 3 milljarða í fjármagnstekjur. Það tæki lágtekjumann mörg hundruð ár að vinna sér inn slíka upphæð.

Stefna stjórnvalda á ekki að greiða leið þeirra ríku til að verða ríkari á kostnað þeirra fátæku. Háar tekjur á að skattleggja á réttlátan hátt. Fjalldalaregla Johns Rawls rammar þetta ágætlega inn. Þorsteinn Gylfason orðaði hana svona, með leyfi forseta:

„Fjöll mega ekki vera hærri né tignari en þarf til þess að dalirnir séu sem blómlegastir og byggilegastir.“

Virðulegi forseti. Í nýrri skýrslu Oxfam segir að ríkasta fólkið í heiminum og fyrirtæki þess séu beinlínis undirskattlögð. Það á við á Íslandi. Hér er fjármagnstekjuskattur lægstur á Norðurlöndunum, aðeins 22%, miklu lægri en tekjuskattur einstaklinga. Bæði Oxfam og OECD tala fyrir hærri fjármagnstekjuskatti til að jafna samfélagið sem og eignarskatti, svipuðum auðlegðarskattinum sem skilaði þegar mest lét 10 milljörðum í ríkissjóð.

Tækifæri til skattlagningar á þá sem mest eiga eru allt í kringum okkur.

Við jafnaðarmenn lítum á skattkerfið sem tekjujöfnunarkerfi þar sem þeir greiða mest sem eiga mest. Við teljum að skref til vinstri sé (Forseti hringir.) rétta skrefið, skref í átt að félagshyggju.



[15:24]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Tillögur átakshóps ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum líta vel út. Við fögnum þeirri samstöðu sem virðist hafa náðst um aðgerðir. Þær fara í mörgu saman við aðgerðaáætlun Samfylkingarinnar í málaflokknum sem við lögðum fram í haust og hefur verið til meðferðar í hv. velferðarnefnd þingsins frá því í nóvember. Viðbrögð aðila vinnumarkaðarins hafa verið jákvæð og vonandi leiða tillögurnar til þess að bæta líf og lífskjör almennings. Það má sérstaklega fagna þeirri réttarbót sem til stendur að gera varðandi leigjendur.

Mig langar þó að nefna nokkur umhugsunarverð atriði. Í tillögum átakshópsins er ekkert að finna um fyrstu kaup, en í tillögu okkar í Samfylkingunni er talað um startlán að norskri fyrirmynd með það að markmiði að auðvelda ungu fólki og barnafjölskyldum fyrstu kaup á húsnæði, fólki með lágar en öruggar tekjur sem fær ekki nægjanleg lán frá hefðbundnum bönkum. Slík lán hafa gefist vel í Noregi. Í þeim tillögum er heldur ekkert að finna um vaxtabætur eða leigubætur sem skipta gríðarlegu máli, sérstaklega fyrir lág- og meðaltekjuhópa. Það er ekkert að finna um fjármögnun, en margar tillögur snúa að sveitarfélögum og er ástæða til að spyrja hvort fjármagn fylgi skyldum.

Borgarlína er áberandi í tillögunum enda eru stórbættar almenningssamgöngur risastórt kjaramál og líka umhverfismál, en samkvæmt samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar á að leggja til brotabrot af því fjármagni sem þarf til uppbyggingar borgarlínu. Einhver kynni að segja að hinar ágætu tillögur átakshópsins séu eins konar ófjármagnaður óskalisti.



[15:26]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Í dag var 49 starfsmönnum sprota- og tæknifyrirtækisins Novomatic sagt upp störfum og jafnframt tilkynnt að fyrirtækið myndi loka starfsemi sinni hér á landi á þessu ári. Þetta er ein af mörgum fregnum sem við höfum fengið á undanförnum misserum um versnandi samkeppnisstöðu tækni- og sprotafyrirtækja og ekki síst ferðaþjónustufyrirtækja, ekki hvað síst vegna óstöðugleika íslensku krónunnar og þess óstöðuga og óásættanlega rekstrarumhverfis sem krónan skapar þessum fyrirtækjum.

Við fengum líka fréttir um það frá kvikmyndagerðarmönnum að þetta umhverfi væri algjörlega óásættanlegt til einhverrar langtímastefnumótunar eða -áætlanagerðar og að erfitt væri að laða hingað til lands aðila sem tilbúnir væru að ráðast í verkefni vegna þess að engin leið væri að sjá fyrir það rekstrarumhverfi eða þann kostnað sem af verkefnunum myndi hljótast.

Þessi ríkisstjórn segir hins vegar að íslenska krónan sé það besta sem sé í boði fyrir okkur. Ætla mætti að henni þyki þessi mynt sú besta í heimi og þetta snúist ekkert um skammstafanir, þetta snúist bara um stöðugleika. Þá sögu höfum við heyrt hér árum og raunar áratugum saman, en aldrei breytist neitt varðandi þennan margboðaða stöðugleika.

Getur verið að ástæðan sé sú að íslenska krónan magnar upp hagsveiflurnar, eins og svo ótal dæmi eru um, en jafnar þær ekki út eins og stuðningsmenn hennar fara svo gjarnan yfir á tyllidögum?

Ég held að það sé deginum ljósara þegar við horfum upp á að hér hefur lítill vöxtur orðið í tækni- og sprotageirum á undanförnum árum vegna þessa óstöðuga umhverfis, að við töpum hér verðmætum hálaunastörfum út úr hagkerfinu vegna þessa óstöðuga umhverfis, að kannski snúist vandinn á endanum einmitt um skammstafanir þær sem í boði eru á þeim gjaldmiðli sem við notum. Ég held að tími sé kominn til að breyta því.



[15:29]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú við upphaf vetrarþings tókum við dag til að fara yfir stöðuna í stjórnmálum. Þar kom svo sem ekki mikið á óvart. Hver lítur sínum augum á málin eins og gengur. Sjónarhornin eru misvíð og gleraugun misdökk. Einn telur ekki rétta tegund af fólki fara með völdin og annar fullyrðir jafnvel að erindi ríkisstjórnarinnar sé ekkert og hér ríki stöðnun og allt sé á heljarþröm.

Sama hve mikið ég legg mig fram get ég ómögulega áttað mig á því hvernig þessir hv. þingmenn sjá veröldina. Auðvitað erum við ekki sammála um hver á að stjórna en aldrei hefur verið settur viðlíka kraftur í innviðauppbyggingu og nú. Ákallið fyrir kosningar var jú að farið yrði í innviðauppbyggingu og eflingu samfélagslegra verkefna.

Hæstv. forseti. Aðgerðir til að bæta stöðu þeirra lægst launuðu eru komnar af stað og kynntar verða fleiri breytingartillögur á skattkerfinu til að koma til móts við þá sem hafa lægstu tekjur og lægri millitekjur. Samráð við hagsmunaaðila í kjaraviðræðum hefur aldrei verið meira og ánægjuleg eru viðbrögð við tillögum í húsnæðismálum sem kynntar voru í gær. Þær staðfesta yfirlýstan vilja ríkisstjórnarinnar til að finna lausnir á húsnæðisvanda þjóðarinnar og búa til raunhæfar lausnir.

En eftir stendur, eins og reyndar einn þingmaður hafði á orði, að við viljum flestöll, ef ekki bara öll, vinna landi og þjóð gagn og gera vel. Pólitíkin er þó á sérstökum stað. Samfélagið breytist hratt og það er sem betur fer ekki bara svart og hvítt. Pólitíkin hlýtur að snúast um samtal og samvinnu. Það sýnir sig nú að sú leið kemur okkur áfram.

Nú er gott að hafa sterkar rætur með sterkri félagshyggjutaug til að byggja á. Það er eftirspurn eftir skynsemi og raunsæjum lausnum sem milda allar öfgar. Áfram Ísland!



[15:31]
Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég vil gera tvennt að umtalsefni í dag, annars vegar fagna þeim tillögum sem litu dagsins ljós frá átakshópi í húsnæðismálum sem hæstv. forsætisráðherra skipaði. Margt gott er þar að finna og horfir til betri vegar ef við náum að hrinda því í framkvæmd. Eitt af þeim atriðum er m.a. í samræmi við frumvarp sem ég og nokkrir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðum fram um miðjan nóvember, þ.e. að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði úr 60% upp í 100%. Færð eru rök fyrir því að byggingarkostnaður muni lækka um 3% og að ríkissjóður muni í raun, þegar upp er staðið, ekki verða af neinum tekjum. Hugsanlega aukast tekjur ríkisins með þessu. Ég á von á því að þegar við fáum að mæla fyrir frumvarpinu muni það njóta mjög víðtæks stuðnings og menn muni leggja sig fram um það í þessum sal að greiða því framgang.

Hitt atriðið er að ég er mjög hugsi yfir því hvað þingmenn eiga að gera þegar ríkisstofnanir fara ekki að lögum. Til hvaða úrræða getum við gripið þegar ríkisstofnun eins og Ríkisútvarpið hefur í 13 mánuði ekki farið að lögum sem um það gilda? Þegar ég hef vakið athygli á þessu hér í þessum sal eru ekki margir sem virðast hafa áhyggjur af því að ríkisstofnun sem við þurfum öll að greiða til fari ekki að lögum. Á sama tíma er síðan upplýst að Ríkisútvarpið nýtir sér úrræði, sem voru til þess ætluð að styðja íslenska kvikmyndagerðarmenn með endurgreiðslu á kostnaði við kvikmyndagerð, með því að fá endurgreiddan kostnað við Áramótaskaup eða aðra innlenda dagskrárgerð. (Forseti hringir.) Það er alveg furðulegt að Ríkisútvarpið skuli með þeim hætti misnota tilgang þeirra laga að styrkja innlenda dagskrá og kvikmyndagerð og fara auk þess ekki að lögum sem um stofnunina gilda.



[15:33]
Elvar Eyvindsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að gera að umtalsefni stöðu grunnþjónustu í heilsugæslu og sjúkraflutningum í dreifðum byggðum og tek sem dæmi Rangárþing og Vestur-Skaftafellssýslu. Ég býst við að þetta eigi við víðar. Þessi þjónusta hefur verið sett undir hatt Heilbrigðisstofnunar Suðurlands þar sem hún er sett á herðar yfirstjórnar sem skipuleggur hana ásamt því að reka sjúkrahús á Selfossi með fjölbreyttri starfsemi. Sífellt er verið að rýra aðgengi að þessari þjónustu í heimabyggð. Sem dæmi má nefna að aldraður maður sem verið hefur í sjúkrahúsmeðferð óskaði eftir því að komast að á heilsugæslunni á Hvolsvelli sl. mánudag og hann fær tíma 10 dögum síðar, í næstu viku.

Þjónusta sjúkraflutninga fer einnig versnandi og nú síðast var tilkynnt um að aðeins verði bakvaktir í hlutastarfi á svæðinu. Treysta verður í æ auknum mæli á sjúkraflutninga frá Selfossi. Það er í hæsta máta ósanngjarnt að afrakstur heimamanna af auknum ferðamannastraumi á stórum ferðamannasvæðum skuli vera verri þjónusta á þessu sviði en var áður en ferðamannastraumurinn tók kipp.

Á Kirkjubæjarklaustri eru starfandi einn hjúkrunarfræðingur og einn læknir. Fyrir skömmu varð hörmulegt slys við mjög erfiðar aðstæður. Það tók langan tíma fyrir viðbótarfagaðila að komast á vettvang. Ég verð að segja að ég tek ofan fyrir því fólki sem er nægilega hugrakkt til að vinna við þessar aðstæður.

Þetta kerfi tel ég sýna að vilji löggjafans nær varla fram að ganga. Ég veit að vilji þingmanna stendur ekki til þess að þjónustan rýrni ár frá ári, en í raun fáum við því ekki ráðið. Ég velti því upp hvort eðlilegt sé að stór stofnun með marga ólíka rekstrarþætti sé látin vega og meta algjöra grunnþjónustu á fjarlægum stöðum á móti starfsemi sjúkrahúss, sem er reyndar staðsett á næstu hæðum fyrir neðan aðsetur stjórnendanna. Er það sanngjarnt og er það líklegt til að leiða til góðrar niðurstöðu?

Spurningin er: Eru til skárri lausnir? Er hægt að vinna með sveitarfélögunum og slökkviliðum þeirra í sambandi við rekstur sjúkraflutninga? Og ein spurning sem þyrfti að ræða miklu betur: Er hægt að finna leiðir til að heimamenn á þeim svæðum sem afla mikilla tekna í þjóðarbúið, eins og stórum ferðamannasvæðum, njóti þeirra í einhverjum mæli?