149. löggjafarþing — 56. fundur.
skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu, 1. umræða.
frv. SDG og JónG, 147. mál. — Þskj. 147.

[16:40]
Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Forseti. Ég flyt hér ásamt hv. þm. Jóni Gunnarssyni mál sem áður var lagt fram á 141. löggjafarþingi og þá af Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, þáverandi forseta Alþingis. Það er rétt að geta þess að bæði ég og hv. þm. Jón Gunnarsson ákváðum nánast samtímis að tímabært og raunar nauðsynlegt væri að endurflytja þetta mál; við sammæltumst því um að flytja það saman.

Það sem gerst hefur frá því að þetta mál var fyrst lagt fram er á mjög margan hátt til þess fallið að renna stoðum undir mikilvægi þess að Alþingi ráðist í þessa lagabreytingu sem fyrst. Markmið laganna, eða þessa frumvarps, er að tryggja ábyrgð Alþingis á gerð skipulagsáætlana og þátttöku í veitingu framkvæmda- og byggingarleyfa á Alþingissvæðinu. Með orðinu Alþingissvæðið er átt við nánasta umhverfi þinghússins hér í miðbæ Reykjavíkur.

Á undanförnum árum hafa orðið gríðarlega miklar breytingar í miðbæ Reykjavíkur og því miður eru þær ekki allar til bóta og Reykjavíkurborg hefur á margan hátt gengið fram með hætti sem að mínu mati og margra annarra er mjög skaðlegur umhverfinu hér í miðborginni. Þetta hefur verið drifið áfram af sífellt aukinni hagnaðarvon vegna hækkandi fasteignaverðs og ásóknar í að nýta sem mest svæðið hér í miðborginni. Þá hefur verið gengið á sögulegt umhverfi, gengið á menningarverðmæti og þarf ekki að leita langt til að finna dæmi um slíkt. Það er nóg að líta hér yfir götuna þar sem menn hafa verið að moka burtu hugsanlega elsta kirkjugarði landsins, þar sem Reykvíkingar voru bornir til grafar í hátt í 1000 ár, fólkið sem byggði þessa borg og þróaði. En dæmin eru hins vegar miklu fleiri. Ég ætla ekki að rekja þau öll hér enda ekki tími til þess. En allt í kringum þinghúsið verða menn mjög áþreifanlega varir við þessa þróun, ekki bara þegar þeir fara fram hjá framkvæmdasvæðum og sjá þau, heldur upplifa þingmenn það nú nánast daglega að heyra mikil högg og þrumur og upplifa manngerða jarðskjálfta vegna þessara framkvæmda allra sem, eins og ég nefndi, eru drifnar áfram af sífellt aukinni hagnaðarvon sem gengur út á það að auka byggingarmagnið jafnt og þétt og ganga á þessa annars fíngerðu og lengst af hófstilltu byggð sem einkennir miðbæ Reykjavíkur.

En hvað sem því öllu líður hljóta að gilda eða eiga að gilda sérstakar reglur um nánasta umhverfi Alþingis. Til að skýra það með dæmum getum við gert okkur í hugarlund hvort það yrði látið viðgangast í nokkru nágrannaríkja okkar að ráðist yrði í framkvæmdir á borð við það sem nú stendur yfir hér bara fáeinum metrum frá þinghúsinu, án þess að Alþingi, þingið sjálft, löggjafinn, hefði eitthvað um það að segja. Aðkoma þingsins að þessum málum hefur ekki verið önnur en sú að senda erindi til Reykjavíkurborgar rétt eins og hver annar umsagnaraðili og þau erindi hafa verið lítilsvirt, virt að vettugi ítrekað. Og til að bæta gráu ofan á svart og sýna vald sitt hefur meira að segja borgin í andstöðu við vilja þingsins hent grjóti hér ekki í þinghúsið en rétt að því sem mikið lýti er að. Auðvitað hafa menn ólíkar skoðanir á því á hvað fari vel í umhverfinu og hvað síður. En það hlýtur að vera eðlilegt að gera þá kröfu að Alþingi, löggjafinn sjálfur, hafi meira um það að segja hvernig nánasta umhverfi þinghússins þróast en raun hefur borið vitni. Enda er staða þingsins tryggð með mjög áþreifanlegum hætti í stjórnarskrá, m.a. varðandi ákvæði um friðhelgi þingsins og að ekki megi raska starfsfriði Alþingis.

En aftur að samanburðinum við útlönd. Getur einhver ímyndað sér að nokkurn tímann hefði verið heimilað að grafa nánast upp að breska þinghúsinu til þess að koma þar fyrir hóteli þar sem menn mundu svo eiga von á stöðugum ferðum stórra bifreiða og auðvitað fólks án þess að breska þingið hefði haft eitthvað meira um það að segja en að geta sent inn erindi til skipulagsyfirvalda í London? Að sjálfsögðu hefði slíkt aldrei komið til greina. Ég hygg að ekkert löggjafarþing í Evrópu mundi láta bjóða sér það að borgaryfirvöld í höfuðstaðnum ákvæðu einfaldlega að þrengja að starfsemi þingsins og að því marki sem við sjáum hér bara fyrir utan gluggann, að nýframkvæmdirnar nái nánast upp að húsum þingsins. Ég held að það séu einhverjir fimm metrar eða svo sem vantar þar upp á.

Þessi samanburður við önnur lönd gerir það að mínu mati að minnsta kosti augljóst hversu veik staða Alþingis er hvað varðar umhverfi þingsins. Ég skora á þann sem getur bent mér á eitthvað annað að sýna fram á að annað þjóðþing í nágrannalöndunum mundi una við slíkt. Það var mat þáverandi þingforseta, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, að við þetta ástand yrði ekki unað og það fyrir allmörgum árum. Eins og ég nefndi í byrjun hefur það orðið æ ljósara hversu mikilvægt þetta framlag þáverandi þingforseta var og hversu mikil synd það er að frumvarpið skuli ekki nú þegar verið orðið að lögum, því það hefði getað gert þinginu kleift að standa vörð um nánasta umhverfi þingstarfanna.

Mikið er rætt um það, þegar skipulagsmál ber á góma, að þau séu alfarið í höndum sveitarfélaga og það hefur verið nefnt í þessu samhengi líka, að Reykjavíkurborg fari með skipulagsvaldið sem sveitarfélag og á einhvern hátt væri verið að ganga á hlut, ekki bara Reykjavíkur heldur jafnvel sveitarfélaga almennt, með því að gera breytingar þar á þó að þessi reitur sé auðvitað afskaplega lítill miðað við stærð Reykjavíkur í heild. En þá er þess að geta að með þessu er alls ekki brotið blað.

Ég nefndi hér dæmi frá útlöndum, en einnig má geta þess að skipulagsvald á Keflavíkurflugvelli og umhverfi hans er með sérstökum hætti og heyrir undir skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar. Það sama á við um Þingvelli, en þar hefur Þingvallanefnd sérstöku hlutverki að gegna varðandi skipulag í þjóðgarðinum. Í hvorugu tilvikinu getur sveitarfélagið eitt ráðið för. Ég geri ekki ráð fyrir að ég þurfi að rekja hér ítarlega ástæður þess. Að mínu mati liggja þær í augum uppi. En mér þykja ástæðurnar jafn augljósar í tilviki Alþingis, í tilviki löggjafans, sem gerir Reykjavíkurborg þann heiður að starfa hér og gera þar með Reykjavík að höfuðborg landsins. Það voru ekki allir sammála því á sínum tíma að sú ætti að verða raunin og töluvert var tekist á um það t.d. hvort Reykjavík eða Þingvellir ættu að vera höfuðstaðurinn en ákveðið af praktískum ástæðum að það skyldi vera Reykjavík. En því fylgja að sjálfsögðu skyldur á móti af hálfu borgarinnar, enda er Alþingi þing landsins alls, ekki bara þing Reykjavíkur og Reykvíkinga, og þar af leiðandi eðlilegt, sérstaklega í samanburði við þau fordæmi sem þegar eru til staðar, að þingið hafi eitthvað um það að segja hvernig nánasta umhverfi þess er skipulagt og eins og ég gat um áðan þörfin fyrir slíka aðkomu hefur á undanförnum árum orðið sífellt augljósari.

En tillagan er sú að ráðherra fari með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á Alþingissvæðinu en skipi fimm menn í skipulags- og byggingarnefnd Alþingissvæðisins. Tveir skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Alþingis, tveir samkvæmt tilnefningu Reykjavíkurborgar og einn af ráðherra án tilnefningar. Og þarna kemur það skýrt fram að ætlunin er alls ekki að setja Reykjavíkurborg, sveitarfélagið, alveg til hliðar í þessum málum. Reykjavíkurborg mun áfram hafa virka aðkomu að skipulagi svæðisins hér í gegnum þessa nefnd og allt það ferli sem ætti sér stað í framhaldinu vegna ákvarðana nefndarinnar. Þar má til að mynda nefna að skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar mun starfa með skipulags- og byggingarnefnd Alþingissvæðisins og sitja fundi hennar með málfrelsi og tillögurétt og byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar annast eftirlit með mannvirkjagerð á Alþingissvæðinu í samræmi við ákvæði laga.

Ég gæti rakið fleira er varðar samskipti nefndarinnar við borgina, en allt ber það að sama brunni og er lýst í frumvarpinu og greinargerð með því og gengur út á að þetta sé samstarf þingsins og borgarinnar um skipulag þessa svæðis. Það eru því margar ástæður til að ætla að þessi breyting yrði til mikilla bóta, en fyrst og fremst er þetta að mínu mati til þess að undirstrika sérstöðu Alþingis, sérstöðu löggjafans, sem er ekki eins og hvert annað fyrirtæki, er ekki eins og hvert annað hótel, heldur er hluti af landinu öllu á vissan hátt. Þó að Reykjavík fái að njóta þess heiðurs að vera höfuðborg landsins þá þarf hún á móti að virða sérstöðu þingsins og veita því tækifæri til að hafa eitthvað um skipulag umhverfisins að segja.

Ég gæti rakið fleiri dæmi um það hvað aflögu hefur farið á undanförnum árum. Ég ætla að láta hjá líða að gera það í þessari ræðu. Ég hef skrifað töluvert um það að undanförnu og mun gera áfram, en þróunin hefur borið það með sér að skortur sé á virðingu fyrir mikilvægum atriðum er varða umhverfi þingsins, hvort sem þau eru fagurfræðileg, praktísk, varða aðgengi, varða öryggi og þar fram eftir götunum.

Ég á von á því að þetta mál fái sem greiðasta leið hér í gegnum þingið, að sjálfsögðu með eðlilegri málsmeðferð. Ég er ekki að ætlast til þess að þingsköp verði brotin til að klára þetta bara strax án umræðu, en það er knýjandi þörf fyrir að endurskoða með hvaða hætti skipulagi þessa svæðis skuli háttað og þarf ekki annað en að líta út um gluggann til þess að átta sig á því.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þetta mál gangi til hv. umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.



[16:55]
Ólafur Ísleifsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á að þakka flutningsmönnum fyrir árvekni þeirra í þessu máli. Ég hef kynnt mér frumvarpið og vil lýsa því að ég tek undir það í megindráttum.

Ég staldra við eitt atriði þó sem ég vildi gjarnan inna hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson eftir, en það varðar stjórn skipulags- og mannvirkjamála á Alþingissvæðinu sem hv. þingmaður gerði að nokkru umtalsefni í framsöguræðu sinni. Það sem ég staldra við er að gert er ráð fyrir að í fimm manna skipulags- og byggingarnefnd Alþingissvæðisins verði tveir skipaðir samkvæmt tilnefningu Alþingis, sem hlýtur að teljast eðlilegt í það minnsta, en síðan er gert ráð fyrir tveimur samkvæmt tilnefningu Reykjavíkurborgar og einum án tilnefningar.

Nú er það svo, eins og hv. flutningsmaður rakti, að á ýmsu hefur gengið í skipulagsmálum á vettvangi borgarinnar. Ef maður orðar það bara svona almennt er ekki að sjá að hægt sé að bera mjög mikið traust til borgaryfirvalda í öllu tilliti þegar kemur að skipulagsmálum og ekki síst hér í miðborginni.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann telji nægilega tryggilegt að þessi nefnd sé þannig samansett að aðilar sem hafa reynst, getum við sagt, a.m.k. á köflum, eilítið mistækir í skipulagsefnum — (Forseti hringir.) ekki þarf annað en líta út um gluggann, eins og hv. þingmaður nefndi í flutningsræðu sinni, til að sjá það.



[16:57]
Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Þetta er vissulega eðlileg og sanngjörn gagnrýni, held ég að mér sé óhætt að segja. En ég minni á að frumvarpið er flutt hér óbreytt frá framlagningu þess á 141. löggjafarþingi og tekur mið af því sem mætti kannski kalla meðalhóf og rúmlega það, eins og mál horfðu við á þeim tíma. Einnig tekur það mið af fordæmum annars staðar frá. En það er vissulega rétt sem hv. þingmaður segir að það sem hefur gerst í millitíðinni er kannski ekki til þess fallið að auka trú manns á að fulltrúar borgarinnar séu reiðubúnir — það fer að sjálfsögðu eftir því hvernig þeir veljast, en það er ekki alveg víst að ef þeir yrðu pólitískir væri það til þess fallið að greiða fyrir því að hlutirnir færðust til betri vegar.

Ég ætla svo að gagnrýna sjálfan mig í leiðinni og frumvarpið út frá ábendingu hv. þingmanns með því að benda á að fulltrúar þingsins eru í raun í minni hluta í skipulagsnefnd Alþingis samkvæmt þessari tillögu, enda er oddamaðurinn, ef svo má segja, fimmti fulltrúinn, skipaður af ráðherra án tilnefningar. Það má alveg velta því fyrir sér hvort þróunin á undanförnum árum gefi okkur tilefni til að endurskoða þessi ákvæði. Ég er að minnsta kosti mjög opinn fyrir því í umræðu um þetta mál hér í þingsal og í vinnu í nefndinni í framhaldinu að menn meti hvort ástæða sé til að gera þetta með öðrum hætti. En svona var tillagan lögð fram á sínum tíma og hefði eflaust á þeim tíma þótt ganga nógu langt. En þróunin síðan er til þess fallin að vekja með manni ákveðinn ugg, vissulega.



[17:00]
Ólafur Ísleifsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og sömuleiðis fyrir að hafa opnað á það að hann gæti séð fyrir sér aðra skipan mála en þarna er gert. Áhættan er augljós, svo að ég leyfi mér að segja það, ef litið er á atburði liðinna vikna og mánaða, eins og þeir snúa til að mynda að Víkurkirkjugarði, helgireit Reykvíkinga, hvernig daufheyrst hefur verið við ábendingum sérfræðinga, áhugafólks o.s.frv., kirkjunnar manna og þau sjónarmið virt vettergis af hálfu borgaryfirvalda, þetta er náttúrlega mikið áhyggjuefni.

Ég fagna því að frummælandi í þessu máli hafi með ræðu sinni hér og nú, í svari við spurningu minni, komið þeim skilaboðum vel og rækilega á framfæri, til að mynda við þingnefnd, að hann gæti séð fyrir sér aðra skipan mála varðandi umrædda yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á Alþingissvæðinu.



[17:01]
Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Ég ítreka það bara að skilningur hv. þingmanns er réttur og ég reyni að hafa það almennt að leiðarljósi að vera tilbúinn til að skoða gagnrýni og ný viðhorf er varða þingmál. Ekki lét ég mér detta í hug að ætla að keyra málið í gegn án umræðu og þvinga þingmenn til að greiða atkvæði með tilteknum hætti. Það er fjarri mér, forseti. Vonandi fær þetta mál sem besta umræðu og við fáum góða rökræðu um það og gerum eftir atvikum, ef á þarf að halda, á því þær breytingar sem eru til þess fallnar að gera löggjöfina sem best úr garði. Alþingi þarf á því að halda, og kannski núna meira en nokkru sinni, að sýna að það vandi til verka, virði lög, virði starfsreglur, virði aðferðir við setningu laga og sýni að það vinni hlutina vel út frá rökum, út frá staðreyndum; taki mið af rökum, eins og hv. þingmaður benti á hér, en sé ekki bara vettvangur til þess að afgreiða fyrir fram ákveðnar tillögur og þvinga alþingismenn til þess að greiða atkvæði með tilteknum hætti. Vonandi verður vinnan við þetta mál sem allra best og gerir að verkum að það verði sem best úr garði gert.



[17:03]
Ólafur Ísleifsson (U):

Herra forseti. Eins og fyrsti flutningsmaður rakti í framsögu sinni þá hefur verið hér atburðarás sem er að öllu leyti dæmalaus í næsta nágrenni þinghússins. Og umgengnin um Víkurkirkjugarð, sögulegar minjar, ævafornan grafreit og annað af því tagi er, leyfi ég mér að segja, náttúrlega með endemum. Sömuleiðis hefur verið daufheyrst við áskorunum, ítarlegum umræðum, greinaskrifum. Þar hafa komið fram fornleifafræðingar, arkitektar, heiðursborgarar Reykjavíkur, sagnfræðiprófessorar og margt fleira fólk sem hefur flutt mál sitt af þekkingu, yfirvegun og skynsemi, en ekkert virðist duga til. Manni verður kannski hugsað til hugtaksins verktakalýðræði þegar svona stendur á.

Þess vegna er mikið fagnaðarefni að það skuli vera komið fram á Alþingi frumvarp til laga um skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu. Ég vil nota þetta tækifæri til að greina frá því að ég hef haft til undirbúnings tillögu til þingsályktunar sem er ætlað að sporna við þeirri óheillaþróun sem hv. flutningsmaður rakti svo vel í sinni framsöguræðu og mætti reyndar margt segja um. Þingsályktunartillagan er um að grípa til raunhæfra aðgerða, fela fjármála- og efnahagsráðherra að beita sér fyrir því að ríkið eignist Landssímahúsið við Austurvöll með því að leita samninga um kaup á húsinu, en að öðrum kosti að hefja undirbúning þess að ríkið taki þann hluta byggingarlóðar sem tilheyrir Víkurkirkjugarði eignarnámi. Tillagan er á lokastigi undirbúnings og ég er þakklátur hv. flutningsmanni þess frumvarps sem við erum að ræða hér nú fyrir stuðning hans við það mál.

Samkvæmt 36. gr. stjórnarskrárinnar er Alþingi friðheilagt. Þar segir að enginn megi raska friði né frelsi Alþingis. Fyrirhugaðar framkvæmdir og starfsemi á Landssímareitnum við Austurvöll þar sem rísa eiga stórt og mikið hótel og veitingastaðir með tilheyrandi umferð ferðamanna og hópferðabifreiða, mega með réttu teljast fela í sér röskun á þingfriði í andstöðu við umrætt ákvæði. Þetta má ekki viðgangast og er nauðsynlegt að Alþingi sendi skýr skilaboð. Ég tel að það geri það með því frumvarpi sem hér liggur fyrir og með þeirri þingsályktunartillögu sem ég er að boða í þessari ræðu þannig að það séu alveg skýr skilaboð inn í íslenskt samfélag að á Alþingi sætta menn sig ekki við að gengið sé fram með þeim hætti sem raun ber vitni.

Ég ætla að leyfa mér að nota þetta tækifæri og vitna í prófessor emeritus Helga Þorláksson í grein sem hann ritaði þar sem hann rekur að upphaf kirkjugarðs Víkurkirkju megi rekja hátt í 1000 ár aftur í tímann og þar hafi verið jarðað fólk á seinni hluta 19. aldar. Í greininni segir enn fremur, með leyfi forseta:

„En legsteinar molna og minningar hverfa. Þegar svo stendur á er gamall og góður siður að sýna kirkjugörðum virðingu, setja upp minningarmark um hina framliðnu og leyfa lifendum að njóta þess friðar sem hinum framliðnu er veittur.“

Það er mikil saga af samskiptum ríkis og Alþingis og borgaryfirvalda. Allt verður þetta rakið í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu. Eins og ég gat um í upphafi þá er undirbúningur hennar á lokastigi. Ég ætla að leyfa mér að lýsa þeirri von að hún komi fram alveg á næstunni og það gefist tækifæri til að mæla fyrir henni svo hún fái þinglega meðferð.



[17:09]
Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Eins og hv. þingmaður gat um styð ég áformaða tillögu hans, tel hana mjög tímabæra og raunar brýna. Það var áhugavert að heyra þingmanninn rekja það hvernig menn sæju fyrir sér að eðlilegt væri að sýna kirkjugörðum virðingu og hversu hrópleg mótsögn birtist í þeim orðum sem hv. þingmaður fór með og svo því sem við horfum upp á hérna út um gluggann.

Ekki alls fyrir löngu var ég staddur í Lundúnum og gekk þar fram á almenningsgarð, mjög fallegan og notalegan garð. Það sem mér þótti sérkennilegt við garðinn var að þar sneru mörg húsanna baki í garðinn. Það var eins og garðurinn hefði ekki verið skipulagður sem almenningsrými en hann naut sín mjög vel sem slíkur. Svo sá ég minnismerki sem sýndi að þetta var gamall kirkjugarður og þar var lögð áhersla að menn sýndu staðnum virðingu. Allir voru velkomnir í garðinn en það fór ekki fram hjá neinum sem sá þetta minnismerki að sýna ætti svæðinu virðingu.

Forseti. Þetta var í miðborg London þar sem fasteignaverð er margfalt það sem það er í Reykjavík, og er það orðið hátt í miðborg Reykjavíkur nú þegar, en þar lætur enginn sér koma það til hugar að grafa burtu þennan gamla kirkjugarð, þó að legsteinarnir séu horfnir, til að byggja meira aftan við húsin. Sá garður var ekki nærri því jafn gamall og kirkjugarðurinn hér, Víkurgarður, og hafði ekki í námunda nærri eins mikið sögulegt mikilvægi fyrir bresku þjóðina eins og sá garður hefur fyrir okkur Íslendinga.



[17:11]
Ólafur Ísleifsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og vil taka undir með honum að það er auðvitað eins konar mælikvarði á siðferðisstig þjóðar hvernig hún umgengst reiti eins og við erum að fjalla um, ævaforna kirkjugarða. Ég bind miklar vonir við að málin tvö, þ.e. frumvarpið sem hann hefur mælt fyrir í dag og sú þingsályktunartillaga sem ég vonast eftir að mæla fyrir áður en langt um líður, fái gott brautargengi á Alþingi og víðtækan stuðning meðal þingmanna. Ég el þá von í brjósti að tillöguflutningurinn sendi skýr skilaboð inn í samfélagið til borgaryfirvalda, þar á meðal um það að á Alþingi uni menn ekki þeirri framvindu sem hefur orðið, og að hann megi verða fallinn til þess að veitt verði öflug viðspyrna og þeirri óheillaþróun sem hefur orðið í nánasta umhverfi Alþingishússins verði stöðvuð og henni snúið við. Ég vona að þessi reitur, Víkurkirkjugarður, fái þá friðun og njóti þeirrar friðhelgi sem honum ber.



[17:13]
Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og vona sannarlega að þessi verði raunin og fagna tillögu hans aftur. En fleira mun þurfa að koma til, því að það verður að segjast alveg eins og er að það er hálfvandræðalegt fyrir Alþingi að á sama tíma og gerðar eru athugasemdir við framkvæmdir í grennd og við erum að reyna að vinda ofan af þeim, áformar þingið sjálft að ráðast í byggingu gríðarstórs svarts eða grás kassa undir skrifstofur Alþingis á næsta horni. Því mun ég, og hef reyndar þegar gert, leggja til að þau áform verði endurskoðuð. Sú bygging er hönnuð af prýðisgóðum arkitektum, en hún á ekki heima á þessum stað.

Mikilvægt er að þingið fari fram með góðu fordæmi hvað varðar þróun miðbæjarins, ég tala nú ekki um ef þingið fellst á það með mér og hv. þingmanni og fleirum, að það eigi að fá sérstakt vald yfir umhverfi sínu til þess þá væntanlega að gera það betra en það er og gæta að því að nánasta umhverfi þingsins sé til þess fallið að tryggja ekki bara öryggi og eðlilegar greiðar samgöngur, heldur líka það umhverfi og það andrúmsloft sem er Alþingi sæmandi. Hér er um að ræða nokkra hluti, en allt helst þetta í hendur.

Sú tillaga sem ég hef mælt fyrir í dag, þ.e. þetta frumvarp, er til þess fallið að gera hitt sem þarf að ráðast í, það sem hv. þingmaður hefur nefnt, og það atriði sem ég nefndi í þessu andsvari, auðveldara.



[17:15]
Ólafur Ísleifsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Það er sannarlega mikil og merk saga sem liggur hér að baki. Hér fyrr á tíð var árvekni og viðspyrna af hálfu stjórnvalda í þeim málum sem lúta að þeim reit sem hér um ræðir. Ég ætla að greina frá því hér að það verður rifjað upp í greinargerð með þeirri þingsályktunartillögu sem ég hef greint frá, að ríkisstjórnin á árunum 1965–1966 greip inn í rás atburða sem ógnaði kirkjugarðinum, Víkurgarði, og kom í veg fyrir að mikil bygging, nánast sams konar þeirri sem nú er áformað að þar rísi, hótel, risi sunnan við Landssímahúsið.

Það verður sömuleiðis rifjað upp að skipulagsnefnd kirkjugarða undir forystu herra Sigurbjarnar Einarssonar biskups og Kristjáns Eldjárns þjóðminjavarðar hefði í mars 1965 vakið athygli borgarlögmanns á því að lög heimiluðu ekki að þarna yrði reist mannvirki nema samkvæmt sérstakri undanþágu ráðherra, að fengnu samþykki skipulagsnefndar kirkjugarða, sem var fyrirrennari núverandi kirkjugarðaráðs. Þessi saga er mikil og gefst mér ekki tími til að rekja hana nánar.

En ég ítreka þakkir mínar til flutningsmanna þessa frumvarps og ítreka sömuleiðis von mína um að þessi málatilbúnaður og tillöguflutningur á Alþingi muni hafa þá verkan sem ég gat um áður í máli mínu, að veita öfluga viðspyrnu og koma við viðsnúningi í þessu máli.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.