149. löggjafarþing — 57. fundur.
fullgilding heildarsamnings um efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Ekvador, fyrri umræða.
stjtill., 500. mál. — Þskj. 821.

[12:05]
utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Ekvador sem undirritaður var 25. júní 2018.

Í þingsályktunartillögunni er gerð grein fyrir helstu efnisþáttum fríverslunarsamningsins. Þar kemur fram að fríverslunarsamningurinn kveður á um gagnkvæma niðurfellingu og lækkun tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar og óunnar landbúnaðarvörur. Þannig munu tollar á hvers kyns sjávarafurðir og iðnaðarvörur, sem fluttar eru út frá Íslandi til Ekvador, falla niður frá gildistöku samningsins eða á aðlögunartíma og sama á við um helstu landbúnaðarvörur sem framleiddar eru hér á landi til útflutnings.

Útflutningur frá Íslandi til Ekvador hefur verið lítill í gegnum tíðina og nam tæpum 30 millj. kr. á árinu 2017. Er þar nær einungis um að ræða útflutning á iðnaðarvörum. Innflutningur frá Ekvador hefur einnig verið lítill en hann hefur þó aukist undanfarin ár og nam 600 millj. kr. á árinu 2017. Er þar að mestu um að ræða innflutning á ávöxtum og öðrum matvælum. Með gagnkvæmri niðurfellingu og lækkun tolla skapar samningurinn forsendur fyrir auknum viðskiptum á milli landanna. EFTA-ríkin Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss hafa gert 28 fríverslunarsamninga við alls 39 ríki, að samningnum við Ekvador meðtöldum.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. utanríkismálanefndar.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.