149. löggjafarþing — 57. fundur.
endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda, 1. umræða.
frv. JónG o.fl., 136. mál. — Þskj. 136.

[14:01]
Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

Flutningsmenn ásamt framsögumanni, Jóni Gunnarssyni, eru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason, Páll Magnússon, Vilhjálmur Árnason, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Ólafur Ísleifsson, Ólafur Þór Gunnarsson og Willum Þór Þórsson.

Í kaflanum um markmið og gildissvið segir að markmið laga þessara sé að styðja við mannvirkjagerð og aðrar framkvæmdir félagasamtaka til almannaheilla og hvetja til þess að þau efli starfsemi sína eða bæti aðstöðu sína. Undanþegin gildissviði laga þessara er mannvirkjagerð eða aðrar framkvæmdir þar sem lögbundin starfsemi hins opinbera mun fara fram.

Endurgreiða skal félagasamtökum til almannaheilla fjárhæð sem nemur virðisaukaskatti sem þau hafa greitt vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda sem miða að því að efla starfsemi eða bæta aðstöðu samtakanna.

Í II. kafla um umsókn og skilyrði endurgreiðslu segir í 3. gr., með leyfi forseta:

Umsókn um endurgreiðslu byggingar- og framkvæmdakostnaðar skal send ríkisskattstjóra. Endurgreiðslubeiðni ásamt fylgigögnum skal berast áður en framkvæmd hefst. Ríkisskattstjóri skal taka ákvörðun um hvort skilyrði til endurgreiðslu sé uppfyllt innan 60 daga frá því að öll gögn hafa borist.

Í 4. gr. segir:

Við mat á því hvort endurgreiða skuli hlutfall af byggingar- og framkvæmdakostnaði skal eftirfarandi skilyrðum vera fullnægt:

a. að framkvæmd þjóni sannanlega þeim tilgangi að efla starfsemi félagasamtakanna eða bæta aðstöðu þeirra,

b. að fyrir liggi sundurliðuð kostnaðaráætlun og áætlun um fjármögnun,

c. að fyrir liggi skrifleg staðfesting sveitarfélags um að viðkomandi framkvæmd falli ekki undir lögbundnar skyldur sveitarfélaga,

d. að endurskoðað kostnaðaruppgjör liggi fyrir að framkvæmd lokinni.

Sé skilyrðum 1. mgr. ekki fullnægt er heimilt að hafna endurgreiðslubeiðni eða eftir atvikum endurkrefja félagið eða félagasamtökin um hana.

Verði breyting á áætluðum kostnaði, samanber b-lið 1. mgr., eftir að framkvæmdir hefjast skal senda ríkisskattstjóra nýja kostnaðaráætlun.

Í III. kafla um endurgreiðslu segir í 5. gr.:

Endurgreiðsla nemur fjárhæð virðisaukaskatts vegna mannvirkjagerðar eða annarra framkvæmda.

Í 6. gr. segir:

Ríkisskattstjóri ákvarðar endurgreiðslu samkvæmt lögum þessum. Ákvörðun um endurgreiðslu skal byggjast á endurskoðuðu kostnaðaruppgjöri.

Eigi síðar en 12 mánuðum eftir verklok skal senda ríkisskattstjóra greinargerð með sundurliðun byggingarkostnaðar. Skal greinargerðin staðfest af löggiltum endurskoðanda og stjórn.

Endurgreiðsla fer fram að framkvæmd lokinni enda hafi ákvæði 2. mgr. verið uppfyllt. Frá endurgreiðslu skal draga vangreidda skatta og gjöld til ríkis og sveitarfélaga.

Í 7. gr. segir:

Endurgreiðsla samkvæmt lögum þessum er óháð því hvort félagasamtökin hafa fengið styrk frá sveitarfélagi eða öðrum aðila til framkvæmdarinnar.

Í IV. kafla um reglugerðarheimild og gildistöku segir í 8. gr.:

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara þar sem m.a. verði kveðið á um framkvæmd endurgreiðslna samkvæmt lögum þessum, heimildir ráðherra til að fresta endurgreiðslum sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni, skilyrði endurgreiðslna, umsóknir, afgreiðslu umsókna og ákvörðun um endurgreiðslu.

Gert er ráð fyrir að gildistími laga þessara verði frá 1. janúar 2019, segir svo í 9. gr.

Í greinargerð frumvarpsins segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

Frumvarp sama efnis var lagt fram á 145. löggjafarþingi (896. mál) og aftur nokkuð breytt á 148. löggjafarþingi (599. mál) en náði ekki fram að ganga og er því endurflutt nú.

Markmið frumvarpsins er að styðja við og stuðla að uppbyggingu á vegum félagasamtaka til almannaheilla. Lagt er til að tekið verði upp sérstakt kerfi endurgreiðslna sem nemi virðisaukaskatti vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda á vegum félagasamtaka til almannaheilla. Endurgreiðsla er bundin því skilyrði að um sé að ræða framkvæmdir sem bæta aðstöðu viðkomandi félags. Endurgreiðsla getur aldrei orðið vegna framkvæmda þar sem lögbundin starfsemi hins opinbera mun fara fram.

Flest félög sem starfa að almannaheillum, svo sem björgunarsveitir og íþróttafélög, eru utan virðisaukaskattskerfisins og eiga því ekki möguleika á að fá endurgreiðslu innskatts vegna framkvæmda við mannvirkjagerð. Með endurgreiðslukerfi því sem hér er lagt til myndi ríkissjóður veita félagasamtökum til almannaheilla fjárhagslegan stuðning við að byggja upp aðstöðu fyrir starfsemi sína.

Stuðningurinn er gagnsær og einfaldur. Fordæmi fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts eru fyrir hendi, t.d. vegna kvikmyndagerðar og vegna vinnu iðnaðarmanna við íbúðarhúsnæði.

Í frumvarpinu er lagt til að endurgreiddur verði sá kostnaður sem nemur virðisaukaskatti vegna mannvirkjagerðar eða annarra framkvæmda á vegum félagasamtaka til almannaheilla. Beiðni um endurgreiðslu verður að berast áður en framkvæmdir hefjast og verður metið hvort framkvæmd uppfylli skilyrði fyrir endurgreiðslu. Með umsókn skulu fylgja gögn, svo sem kostnaðaráætlun, sem gefi glögga mynd af umfangi verksins, hvernig fjármögnun verði háttað, staðfestingu fjármögnunaraðila o.fl. Einnig skal liggja fyrir skrifleg staðfesting viðkomandi sveitarfélags um að mannvirkjagerð og aðrar framkvæmdir falli ekki undir lögbundnar skyldur sveitarfélaga.

Telji ríkisskattstjóri viðkomandi framkvæmd falla undir skilyrði laganna gefur hann út vilyrði til félagasamtakanna um endurgreiðslu. Félagasamtökum er skylt að tilkynna breytingar á kostnaðaráætlun og leggja fram endurskoðað kostnaðaruppgjör þar sem fram komi skipting kostnaðar. Þá er sú krafa gerð að eigi síðar en 12 mánuðum eftir að framkvæmd lýkur leggi félagasamtök, sem njóta endurgreiðslu virðisaukaskatts, fram sérstaka greinargerð með sundurliðun byggingarkostnaðar. Skal greinargerðin staðfest af löggiltum endurskoðanda og stjórn viðkomandi félagasamtaka. Endurgreiðsla getur ekki komið til framkvæmda fyrr en að loknum framkvæmdum og skilum á greinargerð um byggingarkostnað.

Virðulegi forseti. Það verður seint ofmetið mikilvægi sjálfboðaliðastarfs á Íslandi. Ég er sannfærður um að umfang þess er miklu meira en gengur og gerist hjá öðrum þjóðum. Það er einhvern veginn samofið þjóðarsálinni það mikilvæga starf sem hefur skapast hér og eflaust á þar stóran þátt fámenni þjóðarinnar sem býr í stóru landi. Sparnaður samfélagsins hleypur alveg örugglega á milljörðum króna ef borið er saman við það ef ríkið þyrfti að standa undir þeim kostnaði af þeim háu gæðum sem sjálfboðaliðastarf gegnir á Íslandi. Sennilega verður aldrei hægt að meta slíkt starf til fjár.

Félagsstarfsemi er styrkt með ýmsum hætti, af almenningi, fyrirtækjum og hinu opinbera. Þetta fyrirkomulag styður enn frekar það fólk sem sinnir þessum mikilvægu störfum til frekari afreka. Það er liður í því að efla starfsemi slíkra samtaka, stór liður í því, vegna þess að oftast er það þannig að það að koma húsi yfir starfsemi sína er kannski sá erfiðasti hjalli sem félagasamtök á þessum vettvangi standa frammi fyrir, en þegar þeim áfanga er náð hefur margsýnt sig hversu mikilvægt það er fyrir starfsemina og hversu öflugt starfið verður oft í framhaldi af slíku.

Með því að samþykkja frumvarp það sem hér er flutt af þingmönnum margra flokka, flestra flokka á þingi, felst viðurkenning Alþingis á þessari mikilvægu starfsemi, á þeim mikilvægu störfum sem það fólk sinnir án þess að þiggja fyrir það nokkra þóknun.

Ég legg til að að máli mínu loknu, virðulegi forseti, verði málinu vísað til efnahags- og viðskiptanefndar þingsins.

Ég legg jafnframt áherslu á það við nefndina að skoðað verði hvort möguleikar séu á að heimila að líta til verkefna sem framkvæmdir eru þegar hafnar við þrátt fyrir ákvæði 3. gr. frumvarpsins. Ég veit að það er umdeilt, en það eru verk í gangi hjá félagasamtökum þar sem þetta myndi skipta miklu máli og hvet nefndina til að líta alveg sérstaklega til þess þáttar.



[14:11]
Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér, um endurgreiðslu til félagasamtaka til almannaheilla, hygg ég að sé dæmi um frumvarp sem hægt er að vonast til, a.m.k. fyrir fram, að ágæt samstaða náist um í þinginu að afgreiða. Auðvitað á það eftir að fara í gegnum nálarauga efnahags- og viðskiptanefndar og nálaraugu annarra þingmanna hér og kann að taka breytingum. En við sem stöndum að frumvarpinu vonumst til þess að menn horfi til þess hver tilgangurinn er. Ef menn sjá aðra möguleika á að ná sama tilgangi hygg ég að þeir sem að frumvarpinu standa séu meira en reiðubúnir til að skoða þau mál.

Við getum horft til þess árangurs sem við Íslendingar höfum náð á öllum sviðum, það er eiginlega alveg sama hvert við lítum. Við getum horft á árangur í efnahagslegu tilliti. Við höfum náð því að skipa okkur í hóp þeirra þjóða þar sem lífskjör eru best. Við getum horft á íþróttir þar sem við stöndum milljónaþjóðum framar. Við getum horft til lista og menningar. Það þarf ekki að fara mörgum orðum í þessum sal um frammistöðu landsliðs okkar í fótbolta, bæði karla og kvenna, ekki bara fullorðna landsliðsins svokallaða heldur ekki síður unglingalandsliðanna. Við urðum vitni að því fyrir nokkrum dögum hvernig ný kynslóð afreksíþróttamanna er að hasla sér völl á sviði handboltans. Sumir eru ekki komnir með bílpróf, hvað þá meira, og eru komnir í landslið og spila þar jafnfætis bestu íþróttamönnum á sviði handboltans. Þar var frammistaðan langt umfram þær væntingar sem ég hafði, en það vekur manni vonir um að innan skamms verði aftur vor í íslenskum handbolta.

Þannig getum við farið yfir allan völlinn í íþróttum: Í golfi þar sem Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur sett sitt mark á alþjóðlegar keppnir. Við erum að ná árangri í frjálsum íþróttum, fimleikum o.s.frv. Það er einhvern veginn þannig að þegar maður hittir vini og kunningja frá öðrum löndum eiga menn erfitt með að skilja hvernig í ósköpunum við höfum náð þessum árangri á sviði íþrótta, en ekki síður á sviði lista og menningar. Við virðumst stunda einhvers konar fjöldaframleiðslu á listamönnum, hvort heldur er í bókmenntum, myndlist, kvikmyndum o.s.frv., tónlist ekki síst.

Líkt og framsögumaður vék að áðan er ónefndur hlutur björgunarsveita sem vinna hér ótrúlegt starf. Það stendur hans hjarta nálægt, enda hygg ég að hann hafi lagt mjög þung lóð á þær vogarskálar þegar björgunarsveitirnar sameinuðust undir regnhlíf Landsbjargar. Það er alveg ljóst að það starf sem björgunarsveitirnar vinna á hverju ári án þess að fá fyrir það greitt sérstaklega sparar ríkinu, okkur skattgreiðendum, gríðarlegar fjárhæðir. Þá verður hitt ekki metið til fjár þegar lífi og limum er bjargað.

Að einhverju leyti er þetta frumvarp einhvers konar skilaboð til þessa fólks sem er alltaf reiðubúið að koma og aðstoða okkur hin þegar við lendum í vandræðum. Þetta eru skilaboð til þeirra frá okkur hér í þingsal um að við ætlum að segja: Takk fyrir.

Það skiptir líka máli, þegar kemur að starfi íþróttafélaga, að þetta er ekki bara spurningin um „að framleiða afreksíþróttamenn“, þetta er líka spurningin um það hvers konar uppeldisstarf er unnið, ómetanlegt uppeldisstarf, á vegum íþróttafélaganna og í raun fleiri frjálsra félagasamtaka, að ógleymdum mínum gömlu félögum í skátahreyfingunni.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, fá að vitna í orð Viðars Halldórssonar, dósents í félagsfræði við Háskóla Íslands. Hann sagði í samtali við mbl.is í maí á síðasta ári, orðrétt:

„Ég held því fram að við séum að upplifa gullöld íslenskra íþrótta. Í íþróttafélögum erum við að ná báðum markmiðum sem snúast um afrek og keppni og einnig uppeldi og félagsfærni. Við erum með mjög sérstakt íþróttastarf að því leyti að við erum ekki að slíta í sundur afreksstarf og uppeldisstarf eins og gert er nánast í öllum löndum í kringum okkur.“

Og Viðar Halldórsson bendir á að munurinn á Íslandi og löndunum í kringum okkur sé sá að erlendis séu atvinnumannafélög sem taka efnilegu krakkana úr hverfafélögunum og setja þau inn í atvinnumannaskipulag sem eigi að leiða til árangurs í framtíðinni. Þetta gerum við ekki hér. Ég hygg að það sama megi segja um íþróttafélögin og björgunarsveitirnar, og ég er í raun sannfærður um að starf þeirra verður aldrei metið til fjár. Það óeigingjarna sjálfboðaliðastarf foreldra og annarra sem koma að íþróttafélögunum verður aldrei metið til fjár. Og aftur er þetta frumvarp eins konar skilaboð frá okkur hér: Takk fyrir, við erum reiðubúin til að styðja við það mikilvæga starf sem þið innið af hendi. Við teljum það mikilvægt og við viljum aðstoða. Við viljum að sameiginlegur sjóður okkar aðstoði ykkur við að byggja upp það starf sem þið innið af hendi.

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi vonumst við flutningsmenn til þess að frumvarpið fái góðan hljómgrunn. Ég tel mig nokkuð öruggan um að svo sé. Það kemur til efnislegrar meðferðar að lokinni þessari umræðu. Hvort það breytist í meðförum þingsins á eftir að koma í ljós. Það væri auðvitað hægt að fara aðrar leiðir, við erum ekki svo fastheldin á það. En markmiðið er skýrt og það er að styðja við starfsemi félaga sem vinna að almannaheillum, vinna á sviði æskulýðs- og íþróttastarfs og björgunarsveita. Ég vonast til þess að þingmenn sláist í för með okkur flutningsmönnum í þessari ferð sem verður okkur öllum til heilla.



[14:22]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Hv. þingmaður og 1. flutningsmaður, Jón Gunnarsson, fór ágætlega yfir efni og tilgang frumvarpsins í framsögu sinni. Markmiðið er að styðja við mannvirkjagerð og aðrar framkvæmdir félagasamtaka til almannaheilla og vera þannig hvetjandi þáttur til eflingar á þeirri starfsemi sem um ræðir og möguleika þeirra á að bæta aðstöðu sína og viðhalda þeim mannvirkjum sem fyrir eru.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur glöggt fram að þetta er vilji þingsins. Fór hv. þm. Óli Björn Kárason jafnframt vel yfir þann vilja sem er í þinginu til þess að efla almannaheillastarf, ekki síst þar sem það hvílir að stórum hluta á sjálfboðaliðastarfi. Í greinargerð með frumvarpinu er dregið fram að mál þessa efnis hefur verið lagt ítrekað fyrir þingið. Það var lagt fyrir á síðasta þingi og er endurflutt nú.

Hv. atvinnuveganefnd lagði fram viðlíka mál á 145. löggjafarþingi. Málið hefur tekið einhverjum breytingum frá þeim tíma, aðallega er varðar umbúnað og framkvæmd sem snýr að sveitarfélögunum, og kemur fram í 4. gr. að fyrir skuli liggja skrifleg staðfesting sveitarfélags um að viðkomandi framkvæmd falli ekki undir lögbundnar skyldur sveitarfélaga.

Inntakið í frumvarpinu er alveg það sama og markmiðið það sama þó að það hafi ekki náð fram að ganga í hin skiptin, eins og glögglega kom fram í máli hv. framsögumanns. Eins og fram kemur í greinargerð falla flest félög sem starfa að almannaheillum undir gildissviðið og er farið ágætlega yfir það, eins og björgunarsveitirnar og íþróttafélögin. Þau eru utan virðisaukaskattskerfisins, að stórum hluta undanþegin að meginstarfsemi, og eiga því ekki möguleika á að færa innskatt á móti útskatti eða fá endurgreiðslu innskatts vegna mannvirkjagerðar.

Ég get rakið þetta mál enn lengra aftur, en ég hef í þrígang flutt mál af sama meiði með þrengra gildissviði sem beinst hefur að íþrótta- og æskulýðsfélögum í þeim sama tilgangi. Markmiðið sem snýr að íþróttunum er auðvitað forvarnaþátturinn, að efla forvarnir. Hv. þm. Óli Björn Kárason vitnaði í ræðu sinni til orða dósents við Háskóla Íslands, Viðars Halldórssonar. Hann hefur ítrekað bent á mikilvægi skipulagðrar íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í tengslum við forvarnir og forvarnagildi hennar. Það er auðvitað mjög mikilvægur liður í því máli sem við ræðum hér.

Í tillögunni, sem ég lagði upphaflega fram á þingi árið 2013 í formi þingsályktunartillögu, sem lögð var fram af stjórnarflokkunum sem þá voru, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, var lagt til að fela hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að taka til endurskoðunar virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar og leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á þeim lögum. Það var tvíþætt, að íþrótta- og ungmennafélög yrðu undanþegin virðisaukaskatti af starfsemi sinni að öllu leyti, en það sem snýr að samkeppni felur í sér ákveðið flækjustig þegar kemur að fjáröflun, sem er mjög mikilvæg íþróttafélögum. Það verður að viðurkennast að í umfjöllun hv. efnahags- og viðskiptanefndar kom glögglega fram að það er snúið í raun og framkvæmd. En tilgangurinn er auðvitað sá sami, að efla og virða allt það góða sjálfboðaliðastarf sem starf íþróttafélaganna á Íslandi hvílir á.

Seinni liður tillögunnar sneri að þeim þætti sem við ræðum hér, því frumvarpi sem er á dagskrá, að íþrótta- og ungmennafélög hafi heimild til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af byggingu íþróttamannvirkja á íþróttasvæðum sínum, vinnulaunum og efniskaupum.

Árið 2013 var rætt um þennan þátt í nafni forvarna og uppbyggingar og umgjörð þess mikilvæga félagslega hlutverks sem felst í starfsemi barna og unglinga. Í umfjöllun um málið var kallað eftir útvíkkun á því vegna þess að komið er inn á mikilvægt barna- og unglingastarf, uppeldisstarf og forvarnagildi í starfsemi skátanna, í starfsemi KFUM&K og fleiri æskulýðsfélaga. Jafnframt var umsögn frá samtökum Almannaheilla um allt það óeigingjarna starf sem fer fram og hefur samfélagslega ótvírætt gildi.

Þingsályktunartillagan náði ekki fram að ganga þannig að málið var endurflutt af sömu flutningsmönnum og flokkum í formi lagafrumvarps sem fól í sér tvær lagagreinar þessa efnis, annars vegar um undanþáguna og hins vegar um endurgreiðslu til mannvirkjagerðar, endurgreiðslu virðisaukaskatts. En markmiðið og tilgangurinn, forvarnastarfið, er það sama, til eflingar barna-, unglinga- og æskulýðsstarfi. Málið hlaut þegar jákvæðar undirtektir og augljóslega einnig frá íþróttahreyfingunni og ungmennafélögum víðs vegar um landið og samtökum þessara aðila. Alls bárust 17 umsagnir um málið á þeim tíma. Eðlileg gagnrýni kom fram frá Viðskiptaráði, ríkisskattstjóra og Samtökum atvinnulífsins um áherslu á einföldun virðisaukaskattskerfisins sem tekjuöflunarkerfis. Það færi gegn þeim markmiðum þar sem kerfið ætti að vera, eins og almennt gildir, einfalt, gagnsætt og almennt. Þá var jafnframt vísað til stjórnarsáttmála þess tíma þar sem lögð var mikil áhersla á að fara í vinnu til að efla skattkerfið og einfalda til að auka skilvirkni þess.

Það á alltaf við. Sem formaður hv. fjárlaganefndar get ég auðvitað ekki annað en virt þau sjónarmið sem eru fullgild og eiga alltaf við. En það má vega og meta mögulegar færar leiðir og markmiðin þegar þau stangast á. Það er óhjákvæmilegt. Þegar kemur að almannaheillastarfi er þetta mál ekki flokkspólitískt í eðli sínu. Það eru allir sammála um það gildi sem félagsstarf til almannaheilla hefur og er fullur vilji til að efla og styðja við það, eins og markmiðið er með því frumvarpi sem við ræðum hér, um að efla barna-, unglinga- og æskulýðsstarf í forvarnaskyni. Það er mjög mikilvægt og óumdeilt og snýr að mörgum þáttum. Þegar við metum samfélagslegan ábata getur það skilað umtalsvert meiri sparnaði en það að kljást við aukið flækjustig í skattkerfinu. Auk þess má tryggja með umbúnaði laga að flækjustig aukist ekki eða reyna að koma í veg fyrir að það þurfi að gerast. Að flækja kerfið kostar einhverja vinnu og samantekt á gögnum og utanumhaldi, en við eigum að geta haft umbúnaðinn þannig. Það verður verkefni hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Hv. þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Óli Björn Kárason, fór ágætlega yfir það áðan og er mikilvægt að nefndin fari yfir það í faglegri umfjöllun og skoði allar tillögur og leiðir og athugasemdir sem koma munu við málið sem snýr að þessum þætti.

Auðvitað er óhjákvæmilegt að það gangi á tekjurnar þegar verið er að endurgreiða virðisaukaskatt, en við verðum að vega og meta ábatann á móti. Ábatinn og forvarnagildið í skipulögðu barna-, unglinga- og æskulýðsstarfi verður örugglega seint metið hreinlega til fjár. Um það er hins vegar ekki deilt, og það staðfesta fjölmargar rannsóknir, að það dregur verulega úr líkum á hvers kyns frávikshegðun.

Þeim þætti sem snýr að íþróttastarfi, sem ég tel mjög mikilvægt markmið í þessu samhengi, eru gerð skil í greinargerð með málinu í þrígang á fyrri stigum þegar málið var lagt fram. Þar kemur til að mynda fram að ungmenni sem ekki taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi eru líklegri til að nota vímuefni en þau sem eru virkir þátttakendur í skipulögðu starfi á vettvangi félagasamtaka. Það hefur mikið verið rannsakað í íþróttunum. Þar kemur m.a. fram að þegar börn og unglingar taka þátt í skipulögðu starfi, og það er mjög mikilvægt að starfið sé skipulagt, hefur sú þátttaka jákvæð áhrif á námsárangur, sjálfsmynd, sjálfsvirðingu, líkamsmynd, heilsu og almenna líðan. Því er um félagslegan og beinan heilsuábata að ræða og til framtíðar er væntanlega minna álag á heilbrigðiskerfið en ella þar sem þessar rannsóknir sýna jafnframt að aukin hreyfing dregur úr tilfellum alvarlegra sjúkdóma, leiðir til færri tapaðra vinnustunda fyrir vinnumarkaðinn, færri veikindadaga og þar með aukinnar framleiðni. Það er auðvitað mikilvægt að við horfum til þessa ávinnings. Hvort hægt er að meta hann alfarið í krónum er mögulega erfiðara, en á sama tíma vinnum við að því að hafa umbúnaðinn þannig að hann flæki ekki virðisaukaskattskerfið.

Eins verð ég að nefna, virðulegi forseti, að virkilega jákvæð þróun hefur orðið á liðnum áratugum á þátttöku foreldra í starfi barna og unglinga. Hún hefur aukist til muna á vettvangi íþróttanna og er það mjög jákvæð þróun. Það er mjög mikilvægt þegar kemur að möguleikum foreldra og tíma sem þeir verja með börnum sínum sem enn og aftur hefur gríðarlega þýðingu þegar kemur að heilbrigðu uppeldi barna og unglinga. Fjölmargar rannsóknir staðfesta að samvera foreldra með börnum og unglingum er ekki síst mikilvæg í því efni.

Ég segi því að við eigum að horfa til þess í allri mannvirkjagerð hvernig við hönnum mannvirkin, hvernig við hugsum þau sem félagsmiðstöðvar fyrir skipulagt starf og samveru, félagslegan vettvang og samveru foreldra, barna og unglinga.

Eins og ég kom að hlaut þetta mál mjög jákvæðar undirtektir. Af umsögnum Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, er ljóst að þau vilja að gildissvið tillögunnar verði víkkað, að það verði ekki einangrað við íþróttirnar heldur nái til allra félagasamtaka, eins og lagt er til með því frumvarpi sem við ræðum hér. Þá leiðir maður hugann að því að það hefur lengi verið í deiglunni að klára almenna löggjöf um almannaheillageirann, þriðja geirann.

Í þriðja sinn sem við flutningsmenn lögðum fram þetta mál gagnvart íþróttahreyfingunni fékk það reyndar framgang. Eftir umfjöllun í hv. efnahags- og viðskiptanefnd var nefndarálit allra hv. þingmanna sem sæti áttu í nefndinni samþykkt með frávísunartillögu, eins og það heitir, þar sem nefndin lagði til að vísa málinu til hæstv. ríkisstjórnar, sem þá samanstóð af tveimur flokkum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Ég ætla að vísa í nefndarálitið, með leyfi forseta. Þar kemur eftirfarandi fram:

„Síðustu ár hefur verið unnið að endurskoðun á reglum um virðisaukaskatt og vörugjöld í því skyni að einfalda og bæta skilvirkni kerfisins. Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði stýrihóp í því skyni. Nefndin leggur til að þessar tillögur verði teknar til skoðunar hjá stýrihópnum …“

Í sjálfu sér hafa ekki orðið nein upplýst afdrif málsins frá þeim tíma.

Ég vona að málið fái faglega (Forseti hringir.) umfjöllun í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég er svo sem ekkert í vafa um. Ég læt máli mínu lokið, virðulegi forseti.



[14:37]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir ágæta ræðu og yfirferð. Mér finnst líka rétt að halda því til haga í þessari umræðu að þáttur hv. þm. Willums Þórs í þessu máli er mjög mikill. Í raun má eiginlega kenna honum um þetta allt saman. Upphafið liggur hjá honum og ég vildi bara fá að þakka honum hans hlut. Ég vona að við förum að sjá einhvern ávöxt af nokkuð löngu ferli sem þetta hefur verið í.

Ég vil hins vegar aðeins eiga orðastað við hv. þingmann. Eins og ég sagði í ræðu áðan er sú hugmyndafræði sem lögð er fram í þessu frumvarpi auðvitað ekkert eina rétta leiðin. Ég hygg að við getum verið sammála um það, ég og hv. þingmaður. Menn hafa kannski bent á hvort það sé ekki betri fyrirmynd að innleiða einhvers konar ívilnunarkerfi með sama hætti og viðgengst við kvikmyndagerð. Það væri ágætt að heyra sjónarmið hv. þingmanns á því, ég er viss um að það verður eitt af því sem örugglega kemur til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég vil líka ítreka að ég er ekki tilbúinn til að skrifa undir það að ívilnanir af þessu tagi þýði endilega að ríkissjóður verði af mjög miklum tekjum. Það kunna einmitt að verða tekjutækifæri fyrir ríkissjóð vegna þess að ráðist verði í verkefni, ráðist í framkvæmdir, (Forseti hringir.) sem annars yrði ekki ráðist í. Og ríkið og ríkissjóður hefur tekjur af öðrum þætti, t.d. af launum og tryggingagjöldum.



[14:40]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni efnahags- og viðskiptanefndar kærlega fyrir spurningarnar og andsvarið og jákvæð orð. Við höfum rætt þetta, ég og hv. þingmaður, mikið í gegnum tíðina og á báða vegu, þessi markmið sem stangast á. Við ræddum það báðir í okkar ræðum, ég og hv. þingmaður, annars vegar skattkerfið og svo þann stuðning sem við viljum veita hér til almannaheilla eins og birtist í frumvarpinu.

Ég held að það sé afar mikilvægt að í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem hv. þingmaður veitir forystu, séu allar mögulegar leiðir skoðaðar. Hv. þingmaður nefndi kvikmyndagerð. Við þekkjum nýlegt dæmi sem var í þeirri frávísunartillögu að það ætti að skoða bókaútgáfuna. Þá var farin önnur leið en áformað var um endurgreiðslu virðisaukaskatts, að endurgreiða hluta kostnaðar. Það er sérstök nefnd sem fer yfir öll skjöl og reynt er að tryggja umbúnaðinn um það. Það er mikilvægt að skoða allar þær leiðir sem hafa verið farnar einmitt út frá því hvernig við skoðum stuðninginn í ljósi þess að skattkerfið okkar verði sem skilvirkast, gagnsæjast og einfaldast.

Ég vil jafnframt koma inn á það hér að þetta mál er í fullum takti við það sem kemur fram í stjórnarsáttmála um að efla íþrótta-, æskulýðs- og öldrunarstarf og skoða beitingu efnahagslegra hvata til eflingar lýðheilsu.



[14:42]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þegar maður stendur að framlagningu frumvarps fara aðilar úti í bæ að benda manni á ýmis atriði sem þurfi að athuga. Eitt af því sem kann að valda erfiðleikum við afgreiðslu þessa máls er að ekki liggur fyrir lögformleg skilgreining á því hvað telst félag til almannaheilla. Það er vandamál sem við þurfum að glíma við. Nú eru til fordæmi, m.a. í tekjuskattslögunum, þar sem ríkisskattstjóri getur skilgreint ákveðin félög sem almannaheillafélög. Það er kannski ekki nægilega skýrt. Við þurfum að huga að þessu og unnið hefur verið að frumvarpi um skilgreiningu og hvaða kröfur félög þurfa að uppfylla til að teljast til félaga til almannaheilla.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður telji að við meðferð frumvarpsins í efnahags- og viðskiptanefnd og í umræðum hér og síðar eigi þingmenn kannski að skoða það aðeins meira, gera þetta þrengra, miða t.d. bara við íþróttafélög til að byrja með, íþróttafélög og björgunarsveitir, og hafa það algerlega afmarkað, en með því fororði og þeirri stefnu og þeim ásetningi að við viljum síðan víkka þetta út eftir því sem reynsla kemst á ef við upplifum að þetta góða mál nái fram að ganga.



[14:44]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni andsvarið. Ég fagna því og kannski kemur ekki á óvart að formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar sé þegar farinn að huga að þeirri faglegu umfjöllun sem þarf að eiga sér stað. Ég kom inn á það í ræðu minni að frumvarp hefur lengi verið í undirbúningi en ekki hefur náðst að klára skilgreiningu á félagastarfsemi til almannaheilla almennt. Starfsemi íþróttafélaga er að fullu skilgreind gagnvart skattinum þannig að það er einfaldara að fara þangað inn. En ég hygg að ef gildissviðið á að vera það sem lagt er til í frumvarpinu, sem er í raun og veru jákvætt — bara viðbrögð við umfjöllun um málið árin á undan og eðlilegur framgangur í málinu — þurfum við að horfa til þessarar skilgreiningar gagnvart skattinum, í það minnsta. Ég geri ráð fyrir því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd muni skoða það. Það er auðvitað oft skynsamlegt að fara hægar af stað, sjá út frá því hvaða leið verður valin, hvort sem það er leiðin hér eða ekki.

Annað sem kom fram í máli hv. framsögumanns er gildistíminn. Nú hafa skapast ákveðnar væntingar. Þegar við höfum lagt þetta mál fram í þinginu hafa skapast ákveðnar væntingar og framkvæmdir fara af stað víða þannig að þetta þarf allt saman að skoða.

Ég vil ítreka í lokin, virðulegi forseti, að mér finnst (Forseti hringir.) það speglast mjög sterkt hver viljinn er í þessu máli. Vonandi náum við lengra með málið nú en fyrr.



[14:47]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og verð að viðurkenna að ég missti af flutningsræðunni. Þess vegna nota ég tækifærið og spyr hv. þm. Willum Þór Þórsson, einn af flutningsmönnunum, aðeins frekar út í þetta frumvarp.

Mig langar að byrja á að segja að ég er mjög hlynnt því sem ég hef oft kallað þriðja geirann, þ.e. almenn félagasamtök. Ég er mjög hlynnt því að opinberir aðilar vinni náið með slíkum samtökum og ég held að við náum þar oft miklu meiri árangri fyrir minni kostnað. Þess vegna held ég að hugmyndin á bak við þetta frumvarp sé býsna góð. Mig langar þó, vegna þess að við í þessum sal eigum líka að rýna til gagns, að velta upp ákveðnum spurningum.

Hér er talað um að undanþegin gildissviði þessara laga sé mannvirkjagerð eða aðrar framkvæmdir þar sem lögbundin starfsemi hins opinbera mun fara fram. Ég velti því þá fyrir mér: Erum við með einhverju móti að takmarka fjárfestingar í íþróttamannvirkjum sem kynnu líka að vera notuð af grunnskólum? Nú er það oft þannig að grunnskólar semja við íþróttafélög um að nýta aðstöðuna að hluta. Það sama gæti í rauninni líka átt við annars konar tómstundastarfsemi sem gæti flokkast undir að vera lögbundin starfsemi sveitarfélaga út frá æskulýðslögum.

Þá velti ég fyrir mér hvort hvatinn gæti verið neikvæður í þeim skilningi að það sé frekar hvati til að fara stöðugt í að byggja hús. Í svona rekstri finnst mér við oft leggja of mikla áherslu á það og að það vanti fjármuni til að reka starfsemina sjálfa. Ég bið hv. þm. Willum Þór Þórsson að fara aðeins yfir það með mér. Kannski misskil ég málið eitthvað. Þarna kann að vera einhver hvati sem er ekki endilega jákvæður, þ.e. hvað varðar aukið samstarf, sérstaklega sé ég fyrir mér samstarf sveitarfélaga (Forseti hringir.) og ýmissa félagasamtaka sem sinna mjög brýnum og mikilvægum málum á sviði æskulýðsmála.



[14:49]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir andsvarið og mjög góðar spurningar. Þetta eru allt spurningar sem hafa komið upp í umfjöllun málsins undanfarin ár. Ég reifaði þá sögu í ræðu minni. Þetta með samnýtinguna og sveitarfélögin er flækjustig. Málið hefur batnað í gegnum tíðina eins og vill verða með mál þegar þau eru til umfjöllunar í þingi og nefndum.

Í c-lið 4. gr. frumvarpsins er reynt að nálgast þann þátt sem snýr að sveitarfélögunum en þar segir að það þurfi að liggja fyrir skrifleg staðfesting sveitarfélags um að viðkomandi framkvæmd falli ekki undir lögbundnar skyldur sveitarfélaga. Það er það sem hv. þingmaður kom inn á. Það getur verið neikvætt í þeim tilvikum þar sem um samnýtingu er að ræða og er ekki endilega þörf á því að byggja tvö hús eða tvo velli eða tvær félagsmiðstöðvar. Það er vissulega eitthvað sem þarf að skoða, hvort ekki sé hægt að tryggja í umbúnaðinum þar sem það á við að hvati til samnýtingar falli ekki út, þessi efnahagslegi hvati.

Ég fór jafnframt inn á það áðan í andsvari við hv. þm. Óla Björn Kárason að það segir í stjórnarsáttmála að beita eigi efnahagslegum hvötum til að efla lýðheilsu, forvarnir og almannaheillastarf.



[14:51]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er kannski helst þessi þáttur sem ég hef töluverðar áhyggjur af. Ég hef reyndar velt fyrir mér áður hvort við ættum bara að vera jákvæðari gagnvart endurgreiðslu virðisaukaskatts til sveitarfélaga. Er eðlilegt að sveitarfélög reki lögbundna þjónustu og að úr því verði einhver tekjustofn fyrir ríkið á sama tíma og við erum endalaust að ræða um tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga? Mér finnst alla vega full ástæða til að við veltum því upp í einmitt svona málum hvort endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna framkvæmda og uppbyggingar á samfélagslega mikilvægum byggingum ætti að vera að fullu, hvort sem það væru sveitarfélög eða frjáls félagasamtök og í einhverjum tilfellum kannski samstarfsverkefni þessara aðila. Ég held að við ættum að skoða það.

Ég þekki ágætlega til á sveitarstjórnarstiginu og í mínu sveitarfélagi höfum við margoft rætt um einhvers konar kommúnuhús, þá er ég að taka það úr skandinavískunni, einhvers konar allsherjarfélagsmiðstöð. Reynsla mín er sú að það er til alveg gríðarlega mikið af fasteignum hjá sveitarfélögunum. Það er oft einn af dýrustu rekstrarþáttum sveitarfélaganna að halda utan um þessar eignir, en þær eru notaðar samt á mjög takmörkuðum tíma. Ég er alveg sannfærð um að við gætum nýtt fasteignir hins opinbera mun betur og meira ef það væri meiri samnýting strax í upphafi. Mér finnst það oftar hafa verið verkefni okkar hjá sveitarfélögunum að reyna að tala einstök félagasamtök inn á að vinna saman og samnýta húsnæði eða nýta húsnæði sveitarfélaganna. Með því er ég ekki að segja að það sé ekki mikilvægt, oft þurfa þau að byggja utan um sig og sína starfsemi þannig að ég skil þessa hugsun, eins og ég sagði áðan, og ég tek undir það að við þurfum að styðja mjög við frjáls félagasamtök og það sem þau leggja til almannaheilla og mættum gera það miklu betur. En ég velti aftur fyrir mér samstarfi (Forseti hringir.) við sveitarfélög og hvort það væri hreinlega ástæða til þess að skoða enn auknar endurgreiðslur á virðisaukaskatti til sveitarfélaga þegar um mikilvæg mannvirki til almannaheilla er að ræða.



[14:54]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur þessar mikilvægu spurningar. Það vill oft verða þannig að aðferðafræði verður yfirsterkari markmiðunum sem við erum að reyna að ná fram með lagabreytingum eða nýjum lögum. Það finnst mér til að mynda eiga við í þessu tilviki þar sem hv. þingmaður dregur upp mjög skýra mynd af þessum samskiptum frjálsra félagasamtaka, ríkis og sveitarfélaga og mikilvægi þess að samnýta mannvirkin. Svo endar þetta í einhverri þraut um það hvernig kostnaðarskiptingin eigi að vera og hver á og má nota, í staðinn fyrir að horfa á það hver markmiðin eru með því að byggja og hverju við ætlum að ná fram með því að fara þessa leið.

Það má vera að þetta mál í umfjöllun hv. efnahags- og viðskiptanefndar sé einfaldlega tækifæri til að endurhugsa þetta og skoða fyrst markmiðið með þessu, eins og ég fór yfir í minni ræðu. Margt jákvætt hefur verið að gerast. Ef við horfum t.d. á mannvirkin í íþróttastarfseminni eru þau víða sprungin. Börn og unglingar eru að æfa fram undir miðnætti sem stenst varla reglur. Svo er annað mjög jákvætt í lýðheilsuþróuninni, áherslan á hreyfingu eldri borgara. Þeir þurfa líka að komast að. Og hvaða mannvirki eiga þeir nýta? Markmiðið er alltaf það sama, hvort sem í hlut eiga ríki, sveitarfélög, opinberar stofnanir eða frjáls félagasamtök. Við eigum að einblína fyrst á það og svo eigum við að teikna upp leiðina.



[14:56]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér örstutt til að lýsa yfir eindregnum stuðningi við markmið þessa frumvarps, frumvarps til laga um endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Flutningsmenn hafa nú þegar farið vel yfir markmið frumvarpsins og mikilvægi þess einmitt að horfa á markmiðið og útiloka engar leiðir í útfærslunni. Góð aðstaða og mannvirki almannaheillasamtaka hafa sýnt sig að geta breytt miklu á svo margan hátt í samfélögum, t.d. í íþróttaiðkun, og nægir að nefna samstarf íþróttahreyfingarinnar og sveitarfélaga um land allt fyrir tæpum 20 árum til að koma upp sparkvöllum. Það var engin smábylting sem við sáum þar. Margt mikilvægt hefur komið fram í umræðunni nú þegar og m.a. hefur verið bent á að frumvarpið sé í fullu samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem mikil áhersla er lögð á þýðingu almannaheillasamtaka á mörgum sviðum í samfélaginu; í forvörnum, í lýðheilsu, í ræktun lýðs og lands eins og við getum sagt.

Síðan hefur aðeins verið komið inn á þörfina fyrir t.d. íþróttamannvirki. Ég veit ekki hvort til er nein samantekt á því en víða þar sem ég fer um er einmitt komið að uppbyggingu. Íþróttamannvirki eru sprungin, eru þannig að elstu börnin, þau sem er á framhaldsskólaaldri, fá tíma í íþróttahúsunum undir miðnætti. Kannski gætum við breytt því frekar en að breyta klukkunni. Og þörf er fyrir alls konar íþróttamannvirki, t.d. velli utan húss, hús og svo hefur verið komið inn á björgunarsveitirnar og fleira í því sambandi.

Eins er mikilvægt að horfa á markmiðið en ekki aðferðina við að ívilna þeim félögum sem vilja standa að þessu fjölbreytta starfi. Eru það endurgreiðslur? Er það beintengt virðisaukaskattinum eða eru einhverjar aðrar ívilnanir heppilegri? Einnig hefur verið bent á að margar útfærslur hafa leitt til þess að í rauninni hafa tekjur ríkissjóðs aukist en ekki tapast við að vinna svona mál vel.

Síðan langar mig að koma aðeins inn á að fyrir u.þ.b. ári átti ég samtal við hæstv. ferðamálaráðherra um afmörkun á almannaheillasamtökum. Þar hefur verið unnin töluverð vinna í gegnum árin til að skoða hvort sérstaka afmörkun þurfi í lögum á því hvað falli undir almannaheillasamtök. Það hefur reynst nokkuð snúið og það er örugglega eitt af því sem þarf að fara yfir við afgreiðslu frumvarpsins. Út úr þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram hafa m.a. komið ákveðnar ívilnandi aðgerðir til þessara félaga, m.a. það að styrkir sem fyrirtækjum er heimilt að verja til slíkra samtaka voru hækkaðir úr 0,5% í 0,75% og eru þá undanþegnir tekjuskattsstofni þeirra fyrirtækja. Eins hefur erfðafjárskattur af gjöfum til slíkra samtaka verið felldur niður. Það er mikilvægt að skoða einmitt hvernig var farið að því að afmarka þau samtök sem hér um ræðir. Ég hvet hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að horfa vítt og á heildarsamhengið í þessu. Það getur vel verið að heppilegt sé, eins og hér hefur verið nefnt, að byrja þröngt með þann möguleika að víkka frekar út skilgreininguna ef vel tekst til við útfærsluna.

Eins og áður sagði lýsi ég eindregnum stuðningi við markmið frumvarpsins, sem er að styðja við mannvirkjagerð og aðrar framkvæmdir félagasamtaka til almannaheilla og hvetja til þess að þau efli starfsemi sína eða bæti aðstöðu sína. Undanþegin gildissviði laga þessara er mannvirkjagerð eða aðrar framkvæmdir þar sem lögbundin starfsemi hins opinbera mun fara fram. Þarna kemur aftur ákveðin flækja, eins og einnig hefur verið komið inn á í umræðunni, og legg ég áherslu á að í meðferð þingsins á málinu verði einmitt horft á markmiðið en ekki hugsanlegar flækjur, reynt að greiða úr þeim eins og mögulegt er.



[15:02]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla líka að taka örstutt til máls. Það er búið að fara ágætlega yfir þetta góða mál og ég byrja á því, eins og fleiri, að lýsa yfir stuðningi við það. Einnig hafa verið viðraðir ákveðnir erfiðleikar sem felast í því að koma málinu í gegn.

Það vakti athygli mína — því að frumvarpið hefur verið lagt fram tvisvar sinnum áður, annars vegar af hálfu atvinnuveganefndar og í seinna skiptið af hálfu þingmanna — að aðeins barst ein umsögn um málið. Hún kom úr minni heimabyggð reyndar þar sem því var fagnað. Ég ætla að vona að þeir sem um ræðir og gætu átt heima hér sem þiggjendur slíkrar endurgreiðslu á virðisauka láti skoðun sína í ljós með því að senda inn umsagnir um málið.

Það vakti líka athygli mína að ríkisskattstjóri ákvað að senda ekki umsögn um málið. Sjálf lagði ég fram mál sem varðaði endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna sérhæfðs íþróttabúnaðar fyrir fatlaða einstaklinga. Þar hafði ríkisskattstjóri sterkar skoðanir. Eins og við þekkjum er það yfirleitt þannig að ríkisskattstjóri vill veita sem fæstar undanþágur á virðisaukaskatti sem er skiljanlegt af því að þær geta flækt kerfið að einhverju leyti. En mér finnst þetta áhugavert af því að væntanlega er um miklu meiri fjármuni að ræða en nokkurn tímann átti við um málið sem ég lagði fram. Kannski ég reyni að leggja það fram aftur. Þetta skiptir þá örfáu einstaklinga sem þar eiga undir miklu máli því að slíkur búnaður er oft dýr.

Vakin hefur verið athygli á c-lið 4. gr., hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir gerði það ágætlega og þau hv. þm. Willum Þór Þórsson fóru yfir að í minni sveitarfélögum getur hugsanlega myndast skynsemishugsun í því að nýta eitthvað saman. Ofan á það að almannaheillafélög eru ekki almennilega skilgreind getur reynst snúið hvernig við náum því fram. Eins og fólk hefur sagt held ég að við styðjum öll tilganginn. Það er vont ef hann nær ekki fram að ganga af því að okkur tekst ekki að skilgreina þá sem við viljum ná til.

Ég tek undir það sem hefur komið fram, til að mynda í umræðunni áðan, um gildi félagasamtaka og hvað við fáum út úr frjálsum félagasamtökum, hvað þau skipta gríðarlegu máli í samfélagi okkar á margan hátt, hvort heldur það eru ólaunaðar björgunarsveitir eða önnur samtök, sem ég veit stundum ekki hvernig við færum að án.

Það er mikilvægt að reyna að komast yfir að skilgreina þetta. Frumvarpið horfir kannski ekki til þess hver ábatinn er, eins og kom fram í andsvörum hjá hv. þingmönnum Willum Þór Þórssyni og Óla Birni Kárasyni, af því að fella niður virðisaukaskattinn, að hann skili sér í ríkissjóð aftur á einhvern annan hátt. Eins og við höfum oft rætt verður ábatinn af félagsstarfi aldrei metinn til fjár. Vissulega má segja að ef byggingar fara af stað sem annars færu ekki af stað skili þær einhverju í ríkissjóð á móti. En þetta hefur ekki verið kostnaðarmetið og mjög erfitt að gera það vegna þess að þörfin kemur ekki beinlínis fram í frumvarpinu, eða umfang þess sem við værum að tala um. Við vitum af einhverju en það er allt frekar óljóst.

Ég styð frumvarpið en við getum ekki gefið okkur að ef við gefum eftir hér skili það sér aftur til ríkisins á einhvern annan hátt. Því hafa fleiri haldið fram í risastórum málum í þessum sal, sagt að þetta sé ekki tekjutap fyrir ríkissjóð vegna þess að það skili sér margfalt inn aftur. Burt séð frá því tel ég að þetta sé eitthvað sem við eigum að fjármagna og finna til þess leiðir svo það liggi fyrir. Það er ágætlega gerð grein fyrir því hverju félagasamtökin þurfa að skila og þetta þarf að gerast áður en þau fara í framkvæmdir o.s.frv., það getur ekki komið eftir á. Ég held að að það sé skynsamlegt. Félagasamtök eru alla jafna fjármögnuð af okkur, fólkinu í landinu. Við njótum afrakstursins, og börnin okkar, eins og hefur verið rakið. Því er ekki óeðlilegt að koma að því á óbeinan hátt.

Ég ætla ekki að hafa orð mín neitt miklu fleiri. Mér finnst málið áhugavert og vona að það finnist lausn á þeim agnúum sem hafa verið nefndir. Ég ítreka að ég vona að við fáum góðar umsagnir um málið. Það skiptir máli ef við eigum að leysa þann skilgreiningarvanda sem mér finnst helst vera uppi. Þá verður líka áhugavert að sjá umsögn ríkisskattstjóra og hvernig hann tekur á málinu.



[15:09]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit eiginlega ekki hvort ég get kallað þetta andsvar en ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir ræðu hennar og stuðning við málið og ætla að taka undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að við fáum gagnrýnar umsagnir um málið þegar kemur að skattalega hlutanum. Ég vil jafnframt draga það fram, af því að ég fór yfir það í ræðu minni að málið hefði áður verið lagt fram með þrengra gildissviði, að ríkisskattstjóri hefur sent inn umsögn. Þá sneri málið reyndar jafnframt að því að efla sjálfboðaliðastarf í landinu og undanþágur frá virðisauka sem íþróttafélög fá að stærstum hluta. Fjáröflun sjálfboðaliða og foreldra í kringum íþróttamót, þegar við tökum alla flokka og allar deildir, hleypur orðið á hærri fjárhæðum en hámarksfjárhæðin segir til um. Þá þarf að fara að skrá virðisaukaskattsnúmer og skila skýrslum. Það er kannski ekki endilega það sem foreldrarnir eru búnir undir þegar þeir eru að reyna að fjármagna starfsemina og ferðirnar og allt það sem fylgir.

Mig rekur minni til þess að ríkisskattstjóri hafi skilað umsögnum um þetta mál og Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð bentu á þessa agnúa gagnvart skattkerfinu. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að við fáum slíkar umsagnir við málið þegar við erum að finna leiðina.



[15:11]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, einmitt, ég man eftir þessu máli hv. þingmanns. Ætli það hafi ekki verið lagt fram á svipuðum tíma og ég lagði mitt mál fram um endurgreiðslu vegna tækjakaupa til fatlaðra einstaklinga. Þetta er stór pakki eða getur orðið það. Eins og ég sagði áðan vitum við ekkert um það. Við vitum ekki beinlínis hver þörfin er eða hverjir myndu nýta sér þetta. Hér var talað um að það yrði annars ekki byggt. Auðvitað þurfa félagasamtök alltaf á húsnæði að halda, allflest í stærri kantinum, sem myndu þá hugsanlega nýta sér þetta, en þau þyrftu jafnframt að geta fjármagnað það þó að þau fengju þessa 25% endurgreiðslu. En auðvitað skiptir hún gríðarlega miklu máli.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni í því að það er íþyngjandi fyrir foreldra, sem eru gjarnan með börnunum sínum eins og útspýtt hundskinn að reyna að safna fyrir hinum ýmsu atburðum sem börnin taka þátt í, að standa í virðisaukaskattsskyldum rekstri í því samhengi.

Þess vegna er mjög gott að um þetta komi umsagnir.

Ég hef áhyggjur af því að ríkisskattstjóri gagnrýni þetta og segi að þetta sé ómögulegt, eins og hann gerði við mitt mál. Mér finnst líka mikilvægt að við fáum umsagnir frá þeim aðilum sem telja sig myndu nýta þetta og gætu annars ekki farið af stað í byggingar sem eru kannski afar nauðsynlegar til þess að starfsemi þeirra geti haldið áfram að dafna.



[15:14]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir þetta svar. Kannski má segja að við séum að velta upp þeim atriðum sem mikilvægt er að gert verði í umfjöllun hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni, það er mikilvægt að þeir sem mögulega koma til með að nýta sér þetta taki ekki bara jákvætt undir málið heldur fjalli um það í umsögn sinni hvernig það komi til með að nýtast og hvaða aðrar leiðir eru mögulega færar.

Eins og við þekkjum, og ég kom inn á í ræðu minni, er stutt síðan við samþykktum hér frumvarp til laga um stuðning við bókaútgáfu þar sem fallið var frá áformum um endurgreiðslu á virðisaukaskatti og tekið tillit til sjónarmiða um skilvirkni virðisaukaskattskerfisins og lagt í ákveðna leið með að endurgreiða kostnað sem sérstakri nefnd er falið að fara yfir, taka á móti reikningum og umsóknum þar um.

Mér finnst það vera verkefni hv. efnahags- og viðskiptanefndar að skoða allar færar leiðir út frá þeim umsögnum sem berast, bæði frá þeim sem sjá sér fært að fara í uppbyggingu og viðhald og svo auðvitað frá þeim sem geta bent á leiðir eða gagnrýnt það að við séum með einhverju móti að ganga of nærri virðisaukaskattskerfinu eða flækja það eða gera það ógagnsærra.



[15:16]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir svarið. Ég tek undir að það er kannski mikilvægt, í ljósi þeirra viðbragða sem ríkisskattstjóri hefur komið á framfæri við okkur í nokkrum málum, að horfa á aðrar leiðir. Það er líka mikilvægt að umsagnaraðilar, og þeir sem málið varðar, sýni því þann áhuga að skila inn umsögnum og þá líka með hugmyndum að öðrum leiðum en bara þessari einu, ef við getum búist við því að virðisaukaskattsleiðin verði ekki einföld í framkvæmd eins og komið var inn á varðandi bókaútgáfuna.

Það er eflaust hægt að fara í þetta með einhverjar tilteknar fjárhæðir í ramma fjárlaga þar sem einhver nefnd metur og fer yfir þessi almannaheillafélög og annað, hvernig svo sem skilgreiningin á þeim endar.

Þetta er eitt af þeim málum sem ég held að þingheimur geti sameinast um að afgreiða og skiptir mjög marga máli, snertir á mörgu. Ég hvet nefndarmenn til að fara vel yfir þetta og ýta á eftir því að þeim verði send umsagnarbeiðni sem málið gæti átt við um.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.