149. löggjafarþing — 57. fundur.
kosningar til sveitarstjórna, 1. umræða.
frv. AIJ o.fl., 356. mál (kosningaaldur). — Þskj. 434.

[15:18]
Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um lækkun kosningaaldurs í 16 ár við kosningar til sveitarstjórna. Ég ætla ekki að ganga svo langt að lesa alla greinargerðina sem málinu fylgir. Ég ætla ekki einu sinni að lesa allan listann yfir meðflutningsmenn en verð þó að nefna að við erum 21 þingmaður sem stöndum að málinu, sem er að mér skilst ekki met en það er ansi vel í lagt. Þriðjungur þingheims ber hér fram mál um lækkun kosningaaldurs sem snýst ekki aðeins um að ungmenni fái rödd til að hafa áhrif á samfélagið heldur beina aðkomu að ákvörðunartökunni í sama mæli og við sem eldri erum.

Það fer vel á því að byrja slíkar breytingar á sveitarstjórnarstiginu, enda eru sennilega fáir sem þekkja málefni sveitarfélaga betur en sá aldurshópur sem um ræðir.

Þetta mál er þingheimi ekki með öllu ókunnugt. Við ræddum það á síðasta löggjafarþingi, í tæpar tíu klukkustundir raunar, þannig að þingheimur hefur haft margt um málið að segja. Til upprifjunar má nefna að 1. gr. frumvarpsins, sem kveður á um hina eiginlegu lækkun aldurs, var samþykkt í 2. umr. fyrir rétt tæpu ári með 43 atkvæðum, einu atkvæði gegn og níu hjásetum. Fyrir ári var því mikill stuðningur við málið en ekki náðist að ljúka því vegna þess að of stutt þótti til kosninga á þeim tímapunkti. Tveir mánuðir voru til kosninga þegar við ræddum þetta mál síðast. Nú eru þrjú ár og því er, að mati þess sem hér stendur, ekkert því til fyrirstöðu að ganga frá breytingunum á þessu þingi og fara síðan í framhaldinu í þá vinnu sem þarf til að sómi sé að framkvæmdinni.

Hugmyndir um lækkun kosningaaldurs frá 18 árum niður í 16 eru ekki nýjar af nálinni. Mál þess efnis hafa verið borin fram á Alþingi frá 133. löggjafarþingi — það eru 11 eða 12 ár síðan slíkt mál kom hingað fyrst — og eru hluti af áhyggjum sem fólk í stjórnmálum hefur af lýðræðislegri þátttöku ungmenna og því almennara áhyggjuefni okkar hvernig við tryggjum fjölbreytileika þar sem ákvarðanir eru teknar um samfélagið.

Við höfum kannski meiri reynslu af því að ræða kynjabreiddina í því samhengi en aldur skiptir líka máli. Við höfum ólíka sýn á heiminn eftir því á hvaða æviskeiði við erum. Svo að ég vitni í nýja skýrslu Alþjóðaþingmannasambandsins kemur í ljós þegar skoðuð eru löggjafarþing allra lýðræðisríkja að einungis 2,2% þingmanna eru undir þrítugu. Hér eru það Norðurlöndin sem skera sig nokkuð úr, eins og gjarnan vill verða. Noregur er í efsta sæti með 13,6% þingmanna undir þrítugu og Svíþjóð í öðru sæti með 12,3%. Ísland stendur sig hins vegar engan veginn. Að loknum síðustu kosningum voru þrír þingmenn undir þrítugu en eins og gengur hafa þeir elst þannig að nú er aðeins einn eftir. Ef við reiknum það yfir í prósentur er það 1,6% þingmanna undir þrítugu. Það er undir heimsmeðaltali. Það er ansi hreint lítið, svo að ekki sé fastar að orði kveðið.

Við stöndum ekki jafn illa og þau þjóðþing heimsins sem hafa engan þingmann undir þrítugu, en þau eru eitt af hverjum þremur í heiminum. Við náum því hins vegar ef þetta kjörtímabil rennur sitt skeið á enda, eins og til stendur, og síðasti þingmaðurinn undir þrítugu nær því að verða þrítugur. Þá munum við verma eitt af botnsætunum á listanum.

Hins vegar vill svo vel til að nú erum við með í salnum ungan og sprækan varamann, hv. þm. Bjart Aðalbjörnsson, sem kemur okkur tímabundið yfir heimsmeðaltal, sem sýnir hvað þetta er á vissan hátt viðráðanlegt vandamál.

Lækkun kosningaaldurs er engin töfralausn á því. Þetta er einn af þeim þáttum sem við þurfum að líta til, til að auka áhuga fólks á því að taka þátt í lýðræðisferlinu með okkur sem störfum í því. Hins vegar sýna rannsóknir að ef fyrsta kosningaþátttaka fólks tekst vel og fólki finnst það uppskera eftir væntingum og fær jákvæða upplifun af því að taka þátt eru meiri líkur á því að fólk haldi áfram að vera virkir kjósendur.

Breytingar af þessu tagi geta haft jákvæð áhrif á samsetningu samkundunnar. Við nefnum í greinargerðinni tilraunaverkefni sem fór fram í Noregi einhvern tíma eftir árið 2000 þar sem kosningaaldur var lækkaður í 16 ár í 20 sveitarstjórnum fyrir kosningar. Það varð til þess að þeim sveitarstjórnarfulltrúum snarfjölgaði sem náðu kjöri á aldursbilinu 18–24 ára. Þetta var ekki einungis vegna lækkunarinnar sem slíkrar heldur vegna þess að stjórnmálaöfl bregðast jafnvel ómeðvitað við þeim áheyrendum sem úti eru í samfélaginu.

Það er hægt að nefna nokkur ríki til viðbótar. Austurríki var fyrsta landið til að stíga þetta skref. Það var árið 2007 þegar kosningaaldur var lækkaður niður í 16 ár í öllum kosningum en kjörgengisaldur hélt áfram að vera 18 ár, eins og raunar er lagt til í þessu frumvarpi. Svo var gerð tilraun með lækkun kosningaaldurs við þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands árið 2014 sem þótti takast það vel að aldurinn var lækkaður almennt í skoskum kosningum stuttu síðar. Þá má nefna nýjustu þróunina sem færir okkur til Eistlands og Möltu. Maltverjar samþykktu árið 2014 að lækka kosningaaldurinn fyrir sveitarstjórnarkosningar sem fóru fram ári síðar og samþykktu á vordögum 2018, um það leyti sem við fjölluðum um þetta mál síðast, að lækka allan kosningaaldur í 16 ár. Eistneska þingið lækkaði kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum 2015 og það var kosið eftir þeim í fyrsta sinn 2017.

Þessi dæmi sýna að gjarnan er byrjað á sveitarstjórnarstiginu sem, eins og ég nefndi, veitir þá þjónustu sem stendur ungmennum hvað næst. En þar að auki er, alla vega í okkar tilviki, lagatæknilega einfaldara að nálgast það verkefni. Til að lækka kosningaaldur almennt í öllum kosningum þyrfti stjórnarskrárbreytingu sem væri samþykkt á einu þingi. Síðu færu fram kosningar og svo samþykkt aftur á öðru þingi. Hér getum við stigið þetta skref og í framhaldinu séð til hvort við viljum stíga það varðandi forseta og alþingiskosningar.

Þátttaka ungs fólks í kosningum hefur verið til skoðunar um nokkuð langt skeið hér á landi. Íslenska kosningarannsóknin hefur frá árinu 1983 merkt að þátttaka fólks almennt er að minnka og sérstaklega þeirra sem eru í yngstu aldurshópunum. Hins vegar höfðum við engar opinbera mælingar á því fyrr en frá og með kosningunum 2014. Þær hafa leitt í ljós það sem kosningarannsóknin gaf til kynna, að í yngstu aldurshópunum er kjörsókn lægri en í þeim sem eru farnir að nálgast miðjan aldur og upp úr. Samhliða því hefur ýmislegt verið gert til að glæða þátttökuna. Ég nefni sem eitt dæmi átakið #égkýs sem teygir sig inn í alla skóla landsins og hefur sýnt góðan árangur. Reyndin er sú að kjörsókn eftir aldri í slíkum mælingum er að jafnast, skulum við segja. Yngstu hóparnir eru að taka við sér. Þarna hefur náðst að styrkja áhuga fólks á þátttöku.

Í tengslum við #égkýs hefur jafnframt verið kannað meðal framhaldsskólanema hvað það er sem fær fólk til að taka þátt í kosningum, hvað fær ungt fólk til að kjósa. Þar er einkum þrennt sem stendur upp úr. Í fyrsta lagi aukið aðgengi að stjórnmálum og upplýsingum um stjórnmál. Í öðru lagi bætt stjórnmálafræðsla á öllum skólastigum og í þriðja lagi meiri virðing fullorðinna í garð ungmenna. Þetta eru atriði sem komu jafnframt fram hjá ótal umsagnaraðilum sem skiluðu inn erindum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á síðasta ári. Þetta eru ábendingar sem við ættum að taka alvarlega, ekki bara varðandi afgreiðslu málsins heldur líka hvert og eitt, hvernig við umgöngumst starfið, hvernig við umgöngumst umbjóðendur okkar úti í samfélaginu.

Eitt af atriðunum er eitthvað sem þyrfti sérstaklega að skoða ef þetta frumvarp yrði að lögum og það er lýðræðisfræðslan. Mikilvægi hennar á öllum skólastigum verður seint vanmetið en það virðist vera nokkur misbrestur á að allir nemendur njóti sömu fræðslu eða jafn góðrar fræðslu þegar kemur að því. Þarna þarf átak, þetta þarf að stórefla, hvort sem er í gegnum formlegt nám eða aukinn stuðning við skuggakosningar og verkefni eins og #égkýs eða stuðning við aðra lýðræðislega starfsemi innan veggja skólanna, eins og t.d. nemendafélög. Lýðræði er ekki eitthvað sem við lærum heldur eitthvað sem við gerum. Þetta er iðnnám, verknám sem við þurfum að hjálpa börnunum okkar að temja sér með því að alast upp t.d. í lýðræðislegum menntastofnunum.

Það fer kannski ágætlega á því að vera að ræða þau mál árið sem barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna nálgast þrítugt. Barnasáttmálinn setur auðvitað þá skyldu á okkur að hlusta á öll börn, en ekki aðeins að hlusta heldur líka að hlýða, að gera það sem þau beina til okkar. Það er eitthvað sem er allur gangur á að gangi vel eða takist vel upp í stjórnmálunum og svo sem ekki bara umkvörtunarefni þeirra sem yngri eru heldur eru margir hópar sem ekki njóta sannmælis innan veggja Alþingis.

Það er spurning hvort breyting af því tagi, þar sem tveir árgangar fólks sem að lögum eru enn börn verða kjósendur, verða virkir þátttakendur í lýðræðisferlinu sem í því tilfelli skilar fólki í sveitarstjórnir, yrði til þess að raungera frekar þá hlustun sem ætti að eiga sér stað á milli stjórnmálamanna og barna.

Þá erum við komin að því sem er helsti ábati þess að fá nýjan og ferskan hóp kjósenda að kjörkössunum, sem er ávinningur fyrir stjórnmálin og fyrir það hvernig við byggjum upp samfélagið. Það hefur nefnilega sýnt sig á síðustu árum að þvert á það sem mýtan segir stundum hefur ungt fólk fullan áhuga á stjórnmálum en fær þeim áhuga útrás með óhefðbundnari hætti en við eigum að venjast. Við getum nefnt allar samfélagsmiðlabyltingarnar sem hafa átt sér stað á síðustu árum og gert drjúgt til að breyta samfélaginu. Þetta er kraftur sem hefðbundnu stjórnmálin þurfa líka ef þau eiga ekki að þorna upp til framtíðar. Þannig að jú, það er örugglega gott og vel fyrir nýja hópa að fá kosningarrétt en það er enn þá betra fyrir lýðræðið sjálft að fá fleiri raddir að borðinu.

Eins og ég nefndi var fyrir ári síðan fjallað um málið og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skilaði nefndaráliti til 2. umr. Gerð er grein fyrir þeirri umfjöllun í greinargerð svo að ég ætla ekki að fjölyrða um hana en ein breyting kom frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og var samþykkt í þingsal á vordögum 2018. Hún hefur verið tekin upp í frumvarpið og snýr að tengslum kosningarréttar og kjörgengis. Það þótti bjóða upp á of miklar flækjur, vekja upp of margar spurningar, ef einstaklingar sem hvorki eru sjálfráða né fjárráða, eins og 16 og 17 ára fólk er, gætu tekið sæti í sveitarstjórnum. Hér er því lagt upp með að rétturinn til að kjósa færist niður í 16 ár en rétturinn til að verða kosinn haldist 18 ár.

Umræðan í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var að mér sýnist býsna góð og geta nefndarmenn væntanlega vitnað um hana í síðari ræðum í dag. Þar var lögð nokkur áhersla á þá þætti sem ég hef nefnt, varðandi það t.d. að kosningaþátttaka sé lærð hegðun þannig að við þurfum að byggja betur inn í skólakerfið að taka þátt í lýðræði þar. Og síðan, sem ég held að sé mögulega eitt af grundvallaratriðunum, mikilvægi fræðslu, sem í dag er ekki nógu markviss af hálfu stjórnvalda og þarf að bæta.

Síðast þegar málið var til umræðu var nokkuð rætt að kannski væri hreinlega, betri áferð á því, ef allur aldur, allir þröskuldar sem fólk kemst yfir væru á sama aldursári, hvort ekki væri til að flækja lífið að fólk fengi kosningarrétt 16 ára en væri ekki kjörgengt fyrr en 18 ára. Hægt er að telja upp ýmis önnur tímamót sem hitta á önnur afmæli. Það er hollt að minnast þess að lögræði, það að vera fullorðinn að lögum, og kosningaaldur hafa ekki fylgst að nema síðan árið 1997. Hér á landi hefur þetta lengst af verið aðskilið. Ég velti því stundum fyrir mér hvort það að þetta hafi verið sami aldur þennan tíma sé hluti af ástæðunni fyrir því hvað stjórnmálamönnum gengur illa að tileinka sér þau sjónarmið barnasáttmálans að við eigum að hlusta á börn í störfum okkar, því að sömu mörk eru á milli þess að vera fullorðinn og barn og að vera beinn aðili að kosningu kjörinna fulltrúa. Ég held að hreinlega væri hollt fyrir okkur að rífa þetta í sundur, að grugga þau mörk. Við þurfum að temja okkur nýja starfshætti.

Herra forseti. Ég held ég hafi þau orð ekki mikið fleiri. Ég held að málið skipti miklu. Þetta er lítið grundvallaratriði. Málið undirstrikar að ungt fólk er í framvarðasveit nýrra hugmynda. Þess vegna skiptir svo miklu máli að ungmenni fái það öfluga verkfæri sem kosningarrétturinn er, til þess að hafa áhrif inn í stjórnmálin og með því bæta samfélagið sem þau munu erfa.



[15:41]
Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem upp í andsvar af því að ég kemst ekki í ræðu. Ég þarf að fara að sækja börnin mín en mig langaði að koma upp og þakka kærlega fyrir að fá aftur að vera á málinu. Ég myndi segja að það væri stórkostlega stórt skref, grundvallarskref í lýðræðisþróun í hinum vestrænu ríkjum, að hleypa 16 ára ungu fólki á kjörstað. Eitt sem var rætt í nefndinni og var bent á er að í lýðræðissögu mannkynsins hefur oft verið tengt saman að ef maður er skattlagður, ef ríkið tekur af manni skatt er rétt að hann hafi eitthvað með það að segja hvernig þeim skatti er varið. Þetta var eitt af grundvallarþemum í sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjanna á sínum tíma, ef við fáum ekki að koma að ákvarðanatöku ríkisins, fáum ekki að koma að löggjafanum í okkar fylkjum o.s.frv. er ekki rétt að þið skattleggið okkur. Var slagorðið ekki: „No taxation without representation“? Engin skattlagning án þess að við séum representuð? Ég sletti því fram. Ég held að þetta sé orðið íslenskt orð í dag, með leyfi forseta.

Mig langaði að þakka fyrir þetta og taka þá saman að þetta mál var komið í 3. umr. og búið að eiga alveg heilan dag, eina átta klukkutíma, að vísu skipt í tvo daga, í 3. umr. Það var alveg á lokametrunum. Það var einmitt búið að að breyta málinu aðeins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem ég sat og fylgdi málinu eftir með hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, sem var framsögumaður málsins, þannig að ég býst við því að málið eigi eftir að renna vel í gegn. Við erum nýlega, eins og ég segi, síðasta vor, búin að fara yfir öll atriðin, búin að samþykkja í þingsal þær breytingar sem eru komnar inn í frumvarpið. Ég held að allir þingmenn, minnir mig, það voru kannski einhverjir á gulu en nánast allir þingmenn greiddu atkvæði með þeim breytingum þannig að ég óska þingheimi til hamingju með málið og þakka aftur fyrir að fá að taka þátt.



[15:43]
Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum hlý orð og þakka honum stuðninginn sem hann sýnir málinu með því að vera í meðflutningi á því. Hann nefnir tengsl skattlagningar og réttinda. Þetta er einmitt svo gott dæmi um það hvað við getum nálgast málið frá mörgum ólíkum sjónarmiðum, af því að það er mjög margt sem mælir með breytingum af slíku tagi en það er mjög margt ólíkt eftir því hvernig við erum innréttuð. Mér finnst þetta frekar vera spurningin um sífellt aukna aðkomu ungmenna að stjórnmálum (JÞÓ: Þar er ég sammála líka.) — já, ég ætla ekki að segja að við séum ósammála. En barnasáttmálinn segir að við eigum að taka tillit til skoðana barna í samræmi við þroska þeirra og það þýðir að þetta trappast upp. Á einhverjum tímapunkti er kannski hægt að setja strik, hér er lagt til við 16 ár, þar sem það hvað við hlustum mikið á þau trappast upp í að við veitum þeim formlega aðkomu.

Af því að þingmaðurinn nefndi atkvæðagreiðslur í mars 2018 er rétt að nálega allir þingmenn studdu þetta mál í atkvæðagreiðslu á einn eða annan hátt. Við vorum með atkvæðagreiðslu um breytingargreinina sjálfa sem 43 þingmenn studdu, en svo vorum við með tvær breytingartillögur um frestun gildistöku. Ef við lítum svo á að þeir þingmenn sem studdu breytingartillögurnar hafi stutt megintilgang frumvarpsins þá studdu þetta frumvarp allir þingmenn nema einn. Ég tek því undir með þingmanninum og held að við getum verið nokkuð bjartsýn og brett upp ermarnar inn í vorið.



[15:45]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir þetta mál og fagna því að það er fram komið núna. Það var smávandræðagangur í vor og smáhræðsla við að samþykkja það og ganga alla leið. Það var kannski vegna þess að verið var að taka undir umsagnir nokkurra sveitarfélaga og aðila sem sendu inn af því að það væri svo stutt til kosninga. Ég held að undirstaðan í þessu sé bæði fræðsla og undirbúningur, en nú höfum við þrjú ár sem skiptir gríðarlega miklu máli. Þetta hefur lengi verið mál, þ.e. lækkun á kosningaaldri, sem hefur fengið stuðning í Framsóknarflokknum og Félag ungra Framsóknarmanna hefur fylgt því. Ég var t.d. að leita í gögnum og fann stuðning — þetta kemur fyrst fram 1976 og mikill stuðningur var við það að lækka aldurinn niður í 18 ár. Við höfum fengið hvatningu frá okkar ungliðahreyfingu hvað þetta varðar enda er náttúrlega svo margt sem styður við það, við erum alltaf að stefna í þessa átt.

Barnasáttmálinn hefur að geyma réttindi sem eru mjög víðtæk, eins og t.d. segir um frelsi til félaga-, skoðana-, tjáningar- og trúfrelsis og miðar að því að koma börnum að samtalsborði hvað varðar ákvarðanatöku í þeirra lífi. Þá er svo gott að byrja einmitt í sveitarfélögunum því að þátttaka í samfélagi skiptir gríðarlega miklu máli. Þetta er einmitt það nærsamfélag sem börn fara fyrst að taka þátt í, allt sem snýr að málefnum þeirra hvað varðar íþróttafélög og annan félagsskap sem skiptir máli. Þau verða að komast að þessu borði og þau hafa svo sem gert það núna í ungmennaráðum sem eru starfandi víða um land í flestum sveitarfélögum. Þar er aldursbilið 13–17 ára og það hefur verið virk þátttaka hjá flestum og góð og hefur skilað sér í því að þau hafa komið með bæði tillögur og ábendingar sem aðrir taka kannski ekki eftir. Ég held að þetta skipti líka máli þegar kemur að öðrum kosningum, hvort sem er til Alþingis eða forseta. Þátttaka í lýðræði er lærð hegðun og þá er þetta góður skóli til þess.

Við höfum farið yfir þær umsagnir sem bárust í fyrra og hafa flestar tekið undir þetta, sérstaklega frá ungliðahreyfingum, t.d. Sambandi íslenskra framhaldsskólanema sem hefur rætt frumvarpið og telur þetta mjög jákvæða réttarbót fyrir ungmenni. Þau hafa gengið fram með, eða eins og var verið að tala um hér áðan, t.d. skuggakosningar sem var mjög góð þátttaka í fyrir alþingiskosningar. Fólk sem fylgdist með því var mjög ánægt með það, bæði krakkarnir sjálfir og eins líka þeir sem fylgdust með því. Ég held að það skipti máli að við byrjum einhvers staðar. Við eigum alltaf að vera að víkka út frelsi til að hafa skoðanir og áhrif. Fyrst vorum við bara með karla yfir fertugu og sérstaklega þurftu þeir að eiga eitthvað. Konur fengu að vera með ef þær voru forsjáraðilar fyrir búi og síðan smátt og smátt. Ég held að mjög eðlilegt sé að það endi þannig að þeir sem taka þátt í samfélaginu — 16 ára unglingar sem eru farnir að greiða skatta mega hafa áhrif á hvernig samfélagið virkar.

Ég held að fræðsla skipti líka miklu máli og að við nýtum þann tíma sem er að næstu kosningum til að undirbúa og miða að því að ungu fólki sé veitt þessi fræðsla. Það var smávegis hræðsla líka, heyrði maður, í fyrra með hvernig ætti að koma að með þá sem væru í kjöri, hvernig þeir myndu hafa áhrif á ungmennin og kennarar bentu á að þetta gæti orðið til þess að kosningaáróður færi að birtast í skólunum. Ég held að með samstilltu átaki sé hægt að koma í veg fyrir það. Krakkarnir fá bæklinga heim til sín og í gegnum alla samfélagsmiðla þannig að skólinn hlýtur að geta verið undantekning á því.

Mig langaði til að koma hér upp til að taka undir þetta mál og fagna því. Ég vona að málið gangi nú í gegn. Við höfum þá tíma fram að næstu sveitarstjórnarkosningum til að undirbúa okkur undir það.



[15:51]
Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þar sem þingmaðurinn nefndi þróun kosningarréttarins langaði mig rétt að nefna að 1915, þegar konur fengu kosningarrétt og hluti karla sem áður höfðu ekki haft hann, fór hlutfall þeirra íbúa sem voru á kjörskrá úr rétt um 15% upp í um 30%. Síðan hefur það hlutfall hækkað stigvaxandi. Á þessum tíma var kosningaaldurinn 25 ár, lækkaði síðan í skrefum í 21, 20 og loks 18 árið 1984 og er hlutfallið þá komið upp í 75%. Kjörskráin er þannig farin að endurspegla þjóðina miklu betur en hún gerði þá. Þessi litla viðbót sem við erum að ræða hér verður bara áframhald á þeirri þróun sem ég held að sé af hinu góða.

Ég má til með að taka undir það sem þingmaðurinn nefnir með hvatningu frá ungmennunum sjálfum. Þetta er náttúrlega fjölbreyttur hópur eins og allir aðrir en samtök ungmenna — ekki bara ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna heldur líka Ungmennafélag Íslands eða Landssamband ungmennafélaga, fjöldinn allur af samtökum úti í samfélaginu — kalla eftir þessu og hafa hvatt okkur áfram á þessari leið. Við þurfum að hlusta á það ákall. En við þurfum líka að styrkja þessi samtök til þess að þau geti haldið áfram að sinna sínu mikilvæga hlutverki.

Hér voru ungmennaráð sveitarfélaganna nefnd. Það er einmitt eftirtektarvert að þau sveitarfélög sem eru jákvæðust í umsögnum sínum í garð þessara breytinga, eins og þær birtust fyrir ári, eru einmitt sveitarfélögin sem standa sig best í því að (Forseti hringir.) vera með virk ungmennaráð sem hlustað er á. Mér dettur í hug sveitarfélagið Hornafjörður sem á fulltrúa í salnum núna.



[15:53]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek bara undir þetta, það skiptir máli. Ég starfaði í sveitarfélagi vestur í Bolungarvík áður en ég kom hingað á þing og iðulega komu krakkar úr skólunum með sínar hugmyndir. Ég man eftir einum sjö ára sem kom með teikningu af vatnsrennibrautargarði sem er orðinn að veruleika í Bolungarvík. Það var fyrir frumkvæði þessa drengs sem nú er kominn á kosningaaldur og getur kosið í alþingiskosningum. Þetta skiptir allt máli og ég held einmitt að þegar ungmennin finna að þau hafi þessi áhrif fari þau að veita samfélaginu meiri athygli, hvað er að gerast í kringum þau, hvort og hvernig þau geta haft áhrif sem skipta máli. Ég tala nú ekki um ef málið snertir þau sjálf, þá koma þau til með að mynda sér skoðun um það fyrr.



[15:55]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara efnislega í þetta mál. Eins og komið hefur fram hjá mörgum hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls fór fram gríðarlega mikil og góð umræða um málið á síðasta þingi þannig að við búum nokkuð vel að rökræðum, rökum með og á móti, og getum sótt í þann sjóð. Þá fjallaði hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mjög vel um málið, fékk til sín fjölda gesta, hlustaði á ólík sjónarmið og tók tillit til ýmissa þeirra. Við stöndum því vel að vígi til að einhenda okkur í málið.

Það sem ég vildi undirstrika í máli mínu, þó að hér hafi aðrir hv. þingmenn komið inn á það, er að með framlagningu málsins núna er búið að mæta einni í það minnsta háværustu röksemdunum gegn samþykkt frumvarpsins í fyrra, nefnilega þeirri að of skammur tími væri til stefnu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Við ræddum það í þaula og leitt er að sjá að við þessa umræðu eru ekki margir sem tóku þátt í að gagnrýna frumvarpið á þeim tíma, en þess þá heldur að ég ítreki þá afstöðu mína hér í pontu, af því að ég þykist vita að áhugafólk um þetta muni lesa yfir þessar umræður af miklum áhuga, að tíminn var of knappur. Við sem töldum að rétt væri að samþykkja frumvarpið sýndum við því engu að síður ákveðinn skilning að það væri nú kannski helsti gallinn. Svo fór það eins og það fór. Einmitt vegna þeirrar gagnrýni sem kom á þeim tíma tel ég svo mikilvægt að málið hljóti góða afgreiðslu núna og að því verði lokið á þessu þingi.

Þá hafa þeir aðilar sem um véla, koma að næstu sveitarstjórnarkosningum, eins góðan tíma og hægt er að hafa til að undirbúa sig; menntamálaráðuneytið með þeirri fræðslu sem eðlilega hefur verið kallað eftir að það fari í og nauðsynlegt er að hún fari fram, sveitarstjórnir víða um land, dómsmálaráðuneytið kemur að öllum kosningum o.s.frv., að ég tali ekki um þau samtök og aðila sem starfa með ungmennum. Því er rétti tíminn til að samþykkja svona breytingar núna og ég vonast til þess að þeir sem gagnrýndu tímaskortinn í fyrra sjái í það minnsta að hann er ekki bara ekki fyrir hendi núna, heldur sé beinlínis viðsnúningur á því og að þetta sé orðinn mikill kostur núna.

Vissulega eru þingmenn hér sem voru einfaldlega á móti breytingunni. Það er bara heiðarleg afstaða. Ég krefst þess ekki að allt fólk sé samsinna mér í öllum málum. Við tökum þá umræðu væntanlega, bæði innan hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og í þingsal þegar þar að kemur, en við getum í það minnsta sparað okkur stóran hluta hennar hvað varðar tímafaktorinn og að ég tali nú ekki um að við erum búin að ræða þetta dálítið í þaula.

Að mínu viti er málið nánast komið það langt að það megi bara fara að greiða atkvæði um það. Ég játa að ég er kannski örlítið að tala á léttari nótum en ég vonast til að það verði góð og efnisleg afgreiðsla. En á einhverjum tímapunkti þurfum við einfaldlega að greiða atkvæði og að þau falli hér í salnum eftir skoðunum okkar.

Ég hlakka til að taka þátt í vinnu hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um þessi mál.



[15:59]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér í pontu til að lýsa yfir ánægju minni með að frumvarpið skuli vera komið fram á þingi. Ég vil líka nota tækifærið til að þakka sérstaklega flutningsmanni fyrir að hafa endurflutt málið. En ég vil ekki síður þakka framsögumanni málsins á síðasta þingi, þegar málið var síðast til umræðu, fyrir þrautseigjuna. Ég held að málið sé komið í þann búning að okkur sé ekkert að vanbúnaði að klára það fljótt og vel. Ég held að ekki þurfi að fjölyrða almennt um efnið, því fylgir bæði ítarleg greinargerð og fyrir liggja ítarlegar umræður um málið allt.

Ég vil þó benda á eitt: Ég held að það sé ekki bara mikilvægt að lækka kosningaaldur vegna þess hve mikilvægt er að ungt fólk taki þátt í stjórnmálalífi og vegna þess að 16 ára einstaklingur er orðinn nógu vel þroskaður til þess, og því rétt að gera þetta í áföngum, heldur ekki síður vegna þess að þjóðin er alltaf að eldast. Þeim sem eldri eru fjölgar á kostnað þeirra sem yngri eru. Þess vegna er mikilvægt að við bætum í þann enda svo að við lendum ekki í vanda þess vegna. Að sjálfsögðu á að hlusta á raddir hinna eldri og vísari, en kerfið má ekki vera þannig að hinir eldri ákveði alltaf allt fyrir hina yngri sem eiga að taka við.

Nú er hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé farinn að átta sig á því að það er engin (Forseti hringir.) spurning hérna, heldur misnotaði ég aðstöðu mína til að koma þessum almennu sjónarmiðum á framfæri.



[16:02]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni hugleiðingar hans, þær voru góðar. Ég þakka einnig hlý orð í minn garð. Við höfum öll sem að þessu höfum staðið unnið ágætlega — ég er svo vanur því að ágætt sé betra en gott úr minni skólagöngu — undir forystu hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég sé ekki annað en að við eigum að geta unnið hratt og vel að þessu máli.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni hvað varðar mikilvægi þess að líta til aldurssamsetningar þjóðarinnar. Svo að ég leyfi mér nú aðeins að fara út fyrir nákvæmlega þetta mál gerðu í síðustu viku lýðfræðilegar breytingar í Bretlandi það að verkum að ef atkvæði eftir aldursflokkum hefðu fallið þá eins og þau féllu í Brexit-kosningunni var orðinn meiri hluti gegn Brexit. Að sjálfsögðu er þetta ákveðin hugarleikfimi, maður gefur sér að allir kjósi eins og í kosningunum og allir aldursflokkar kjósi eins, en þetta var einfaldlega vegna þess að ungu fólki, sem er með kosningarrétt, hafði fjölgað svo mikið á þessum dögum sem frá voru liðnir. Það er kannski eitt dæmi um það að ekki er hlustað á raddir unga fólksins, þess fólks sem þarf að búa lengst við þær ákvarðanir sem eru teknar en fær kannski ekki aðkomu að þeirri ákvarðanatöku.

Ég lýsi mig hjartanlega sammála góðum hugleiðingum hv. þingmanns.



[16:03]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég fagna framlagningu þessa frumvarps í dag, þetta er brýnt mál. Ég fagna líka þeirri kærleiksríku umræðu sem á sér stað milli þingmanna á þessu fimmtudagssíðdegi, á annars dökkum degi í sögu þingsins. Það er notaleg stund að vera hérna þar sem fólk sparar ekki hrósið. Ég vil taka undir og hrósa 1. flutningsmanni fyrir að halda málinu lifandi, hrósa þeim sem hafa tekið til máls, hrósa þeim sem eru meðflutningsmenn og þakka góð störf í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á síðasta þingi þegar málið var tekið til meðferðar. Ég vil líka hrósa þeim gestum sem mættu fyrir nefndina þá og lögðu sitt til málanna, því að allt það starf sem á sér stað í fastanefndum þingsins er ekki síður mikilvægt í störfum þingsins, þ.e. að þeir sem hafa skoðun á málunum, þeir sem vit hafa á, hafa beinna hagsmuna eða óbeinna að gæta, mæti fyrir fastanefndir þingsins og upplýsi okkur þingmenn um hvaðeina.

Það var einmitt það sem gerðist í meðferð málsins á síðasta þingi. Það varð mjög vönduð og góð umræða en ástæðan fyrir því að málið náði ekki fram að ganga var einhvers konar kúltúr á þinginu sem skapaðist þannig að ekki var hægt að bregðast við því með öðru en að láta málið bíða.

Sú umræða sem átti sér stað varð líka til þess að nú kemur frumvarpið með þeirri breytingu sem var ákveðin í nefndinni, þ.e. að til að vera kjörgengur til sveitarstjórna skuli einstaklingur vera lögráða. Umræðan um það var mjög góð vegna þess að talið var óheppilegt að einstaklingur væri kjörinn fulltrúi sem í rauninni hefði hvorki fjárráð né væri lögráða og viðkomandi þyrfti þá að fá lögráðamann sinn til að koma inn og undirrita skjöl þegar svo bæri undir. Það þótti ekki tækt.

Sveitarstjórnarstigið er að mínu mati til fyrirmyndar til að byrja slíka lýðræðisþróun vegna þess að sveitarstjórnarstigið fæst við nærumhverfi einstaklinga. Oft hefur verið talað um að ekki eigi að vera að fást við mál án viðfangsefnis, ekkert um okkur án okkar, hefur verið talað um varðandi marga þjóðfélagshópa. Ég held að það eigi einmitt við um þennan stóra hóp ungmenna sem með lögunum, nái frumvarpið fram að ganga, fær kosningarrétt frá 16 ára aldri.

Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar rétt áðan, þjóðin er að eldast og þess vegna er gott að við bregðumst við með því að tryggja að ungt fólk hafi nógu sterka rödd. Mér finnast það mjög góð rök. En við megum ekki sofna á verðinum og halda að þetta sé unnið bara með því að frumvarpið sé lagt fram aftur, af því að það voru einstakar raddir í þingsalnum sem töldu að þetta væri hið mesta óráð, að vernda yrði blessuð börnin fyrir hinni óskaplegu pólitísku umræðu sem á sér stað í kringum kosningar. Því er ég alfarið ósammála. Ég tel satt að segja að það væri frábært og þjóðþrifaverk ef við myndum byrja strax í leikskóla að þjálfa börnin okkar, bæði í rökræðum og lýðræði, að við kynntum fyrir börnunum okkar strax á leikskólaaldri hvað það skiptir miklu máli að að geta fært rök fyrir máli sínu, að geta útskýrt hvers vegna maður vill A eða B og jafnvel að hópurinn greiði atkvæði um A eða B o.s.frv. Ég veit að þetta er nú þegar iðkað í einum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Þar fá börnin á hálfs mánaðar fresti að greiða atkvæði um tvo rétti sem er í boði að hafa í hádegisverð í vikunni. Þarna fá börnin tækifæri frá tveggja ára aldri til að velja á milli þess hvort þau fá spagettí eða kjötbollur. Maður getur alveg ímyndað sér að fyrstu mánuðina og jafnvel árin verði röksemdafærslan fyrir atkvæðagreiðslunni ekki sérstaklega flókin. Það má ætla að hún sé oft „af því bara“ eða „mér finnst þetta gott“. En ef barnið er þjálfað í rökræðum mun það alltaf skila sér í virkari einstaklingum og samfélagslega meðvitaðri einstaklingum.

Ég held að við eigum ekki að óttast að ungmenni landsins bíði skaða af því að verða upplýst um að á Íslandi starfi stjórnmálaflokkar sem hafi það að markmiði að efla hag almennings. Þrátt fyrir allt og þrátt fyrir þá sérstöku stöðu sem við erum í á þingi í dag og höfum verið í held ég að starf stjórnmálaflokka og vilji stjórnmálaflokka sé á einhvern hátt að reyna að koma að gagni fyrir samfélagið, fyrir almenning, þó að áherslur og sjónarhorn fulltrúa og stuðningsmanna ákveðinna stjórnmálaflokka séu mismunandi.

Það er eitt sem mig langar að segja að lokum í örræðu minni og það er að við verðum að muna eftir því í umræðunni að þrýsta á menntamálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið að gyrða sig í brók þegar kemur að fræðslu fyrir nýja kjósendur og þá hvort heldur sem er nýja kjósendur sem vegna aldurs eru að kjósa í fyrsta skipti eða þá sem fá að kjósa vegna ríkisborgararéttar eða flutnings til landsins. Sú fræðsla hefur verið í algjöru skötulíki og okkur ekki til sóma. Ég mun þess vegna samhliða því vinna hatrammlega að því að við eflum hvers konar fræðslu fyrir nýja kjósendur.



[16:12]
Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hóf ræðu sína á hróshring miklum. Ég vil hrósa henni fyrir það og þakka henni fyrir þá vinnu sem var unnin í málinu fyrir ári í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Það er alveg rétt sem þingmaðurinn segir, að á dökkum degi eins og þessum, þegar við vitum ekki alveg hvernig okkur á að líða í vinnunni, er dálítið gott að eiga eitt svona mál sem við stöndum að, 21 þingmaður, þvert á flokka, sem snýst um grundvallarbreytingu samfélaginu til bóta og sem við vitum að naut fyrir ári stuðnings 43 þingmanna í þingsal, mál sem var unnið í mikilli sátt í nefnd, sem tók breytingum þar sem hlustað var á ólík sjónarmið. Þetta mál nær að kristalla hvað þetta getur verið almennilegur vinnustaður þó að stundum séu dagarnir dökkir.

Þær breytingar sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gerði voru til bóta. Þetta er nokkuð sem við ræddum í 1. umr. fyrir ári, sem kom síðan í ljós við umfjöllun nefndarinnar að þyrfti að breyta, aðskilja kjörgengi og kosningaaldur, sem ég sé í nýrri skýrslu Alþjóðaþingmannasambandsins sem ég nefndi í framsöguræðu minni að er í rauninni almenna reglan í heiminum. Þar stendur að kjörgengi sé í 65% tilvika hærri aldur en kosningarréttur á þjóðþingum. (Forseti hringir.) Aðskilnaðurinn á milli þeirra tímamóta sem yrði með frumvarpinu er fullkomlega eðlilegur í hinu stóra samhengi.



[16:14]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki rétt að ég ætli að svara andsvari af því að spurningin var í rauninni engin en ég kem upp til að bregðast við þeim orðum að ekki þurfi að fara saman kosningarréttur og kjörgengi. Við erum nú þegar með mjög skýrt dæmi um slíkt í íslenskum lögum og það varðar þegar við kjósum okkur forseta, af því að þar hafa ekki allir sem hafa kosningarrétt heimild til að bjóða sig fram. Við erum því klárlega með slíkt fordæmi. Við erum auðvitað líka með slíkt fordæmi þegar kemur að kosningum til Alþingis. Það þarf að hafa óflekkað mannorð til að mega bjóða sig fram til Alþingis en fólk missir ekki kosningarréttinn sinn. Það er því ekkert sem segir að þetta verði að fara saman. Svo vorum við í fyrri tíð með þetta alls konar, þegar kosningarrétturinn fylgdi eignastöðu og konur höfðu ekki kosningarrétt o.s.frv. En ég fagna málinu og hlakka til að vinna það.



[16:16]
Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er mögulega á mörkunum með að vera með andsvar en ég stenst ekki freistinguna vegna þess að þingmaðurinn nefndi svo gott dæmi um það hvernig hægt er að vefa lýðræðisfræðslu inn í skólastarf. Dóttir mín var einu sinni á leikskóla þar sem deildirnar skiptust á að ráða einum matseðli í mánuði og hver deild greiddi atkvæði um það hvað yrði í boði þann daginn. Þetta er svo dásamlegt dæmi um það hvernig hugkvæmni kennara getur nýst á einfaldan og ódýran hátt til að kenna börnum lýðræði. Þarna fá þau ekki bara að standa frammi fyrir ákvörðun heldur fá þau að sjá hana verða að veruleika í sama mánuði. Þetta er alveg dásamlegt dæmi og sýnir hvað við eigum mikla bandamenn og mikla auðlind í kennarastéttinni þegar kemur að því að efla fræðsluþáttinn, sem ég er svo hjartanlega sammála þingmanninum um að þarf að vera sett fullt trukk í ef við samþykkjum þetta mál.



[16:18]
Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hafa bent á hversu ólík stemningin í þingsal er þeirri sem var hér í morgun og er það til marks um að aðeins eru örfáir einstaklingar á þingi sem varpa skuggum inn í þingsal. Þá hef ég gaman af því að upplýsa þjóðina um að vinnan sem skiptir máli innan þings, sem snýr að þingi og þjóð, gengur mjög vel og málefnalega fyrir sig að flestu leyti, þrátt fyrir örfáa einstaklinga.

Ég ætla að hafa þetta stutt en mig langar til að óska hv. þm. Andrési Inga Jónssyni innilega til hamingju með daginn og með að þetta mál sé komið aftur inn í þingsal. Ég var einmitt svo lánsöm að sitja á þingi í vor þegar málið var það langt komið að maður beið eftir að geta ýtt á takkann. En það var ástæða fyrir því að þurfti að fresta. Það er mjög ánægjulegt og mér finnst gaman að taka þátt í framvindu málsins aftur.

Þetta er náttúrlega mikið og spennandi lýðræðismál og í raun og veru mjög rökrétt vegna þess að við sjáum hreyfingu þess efnis bæði á Íslandi og erlendis, á alþjóðagrundvelli, þar sem börn eru í meira mæli að láta heyra í sér í pólitískum tilgangi og setja fram skoðanir sínar. Við sáum t.d. Gretu Thunberg, 15 ára stúlku, sem ávarpaði loftslagsráðstefnu í Póllandi og fordæmdi aðgerðaleysi á heimsvísu hvað varðar loftslagsbreytingar. Eins er sænsk stelpa sem fór í verkfall í mótmælaskyni gagnvart loftslagsaðgerðaleysi og Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir leiklistarnemi setti saman sýningu í LHÍ í um daginn sem gengur undir nafninu Krakkaveldi þar sem hún varpar fram spurningunni: Hvernig myndi þjóðfélagið líta út ef krakkar kysu og væru ráðherrar o.s.frv.? Ég fagna því. Sem foreldri fjögurra barna sjálf gerist það nánast daglega að þau, með leyfi forseta, ég biðst afsökunar á að sletta, „outsmart me“ í rökræðum. Börn eru ekki vitlaus. Svo er annað sjónarmið að börn þurfa í auknum mæli málsvara sem raunverulega er með málefni þeirra og skilning á heiminum á hreinu. Hver er betur til þess fallin en þau sjálf, að einhverju leyti?

Ég lýk máli mínu á þeim orðum og óska þingmönnum og þinginu til hamingju.



[16:21]
Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að þingmaðurinn nefndi loftslagsmál og það hvernig ungt fólk hefur undanfarið stigið fram og verið einhverjir öflugustu málsvarar alvöruaðgerða í loftslagsmálum. Þetta er svo kristaltært og gott dæmi um það hvernig langtímahugsunin, sem ætti auðvitað að vera í stjórnmálum, er miklu tamari því fólki sem mun upplifa þá framtíð sem langtímahugsunin þarf að taka tillit til.

Ég hef tekið þátt í fleiri kosningabaráttum en ég hefði viljað á síðustu árum en þetta hefur mér einmitt þótt einkenna þær heimsóknir sem ég hef átt í framhaldsskólum. Þar koma spurningarnar um loftslagsmál. Þar koma spurningarnar um dýravelferð og breyttar neysluvenjur og öll þau mál sem snerta langa framtíð, miklu frekar en hjá eldri hópum.

Það að stjórnmálin þurfi að takast meira á við slíkar spurningar gagnvart fólki með kosningarrétt held ég að muni þjálfa okkur betur í því að taka þau mál inn í stefnumörkun okkar.

Svo var nefnd fyrr í umræðunni Brexit-atkvæðagreiðslan. Þar var einmitt barátta um að lækka kosningaaldur. Eftir að Skotar höfðu reynt það í þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði var ákveðinn meðbyr með þeim breytingum hjá Bretum en hjá nógu litlum hópi til að það færi ekki í gegn. Það hefði þýtt allt aðra niðurstöðu í Brexit vegna þess að kynslóðin sem er að fara að hverfa af sviðinu (Forseti hringir.) tryggði það að Brexit varð ofan á en kynslóðin sem mun þurfa að lifa þann veruleika hefði ekki viljað það.



[16:24]
Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tek undir allt sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson sagði núna um loftslagsbreytingar. Þetta er ekkert grín. Við erum að horfa upp á mjög alvarlega hluti sem eru að gerast mjög hratt og við þurfum að virkja sem flesta. Samtakamátturinn getur verið mikill. Við ætlum t.d. ekkert að láta einn einstakling í Bandaríkjunum, sem situr í valdastóli þar, ráða örlögum þessa heims sem við búum í, þessarar jarðar. Það er um að gera að virkja unga fólkið.



[16:25]
Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Mig langar að leggja orð í belg í þessari umræðu um að færa kosningarrétt niður til 16 ára aldurs. Það er rétt að búið var að ræða þetta mjög mikið en ég tel að biðin á afgreiðslunni hafi skilað góðu af sér. Akkúrat núna er búið að gera breytingar á því sem Samband íslenskra sveitarfélaga gerði mestar athugasemdir við, að sjálfræðisaldur og fjárræðisaldur færu ekki saman við kjörgengi. Það hefur verið tekið tillit til þess, sem er mjög gott.

En mig langar líka til að leggja orð í belg hvað varðar tal um að einhverjir horfi á ungt fólk og telji að það hafi ekki vit á því sem verið er að fjalla um. Í sveitarstjórnum er verið að fjalla um nærumhverfið. Á Suðurlandi er öflugt ungmennastarf, alla vega á því svæði sem ég þekki best til, og án efa er það víðar um landið. Það er mjög gaman. Ungmennaráð Suðurlands er mjög öflugt en þar koma ungmennaráð sveitarfélaganna saman. Það er mjög gaman að segja frá því að þau eru með tveggja daga ráðstefnu á Selfossi í næstu viku þar sem okkur sveitarstjórnar- og alþingismönnum er boðið til þátttöku seinni daginn. Þau voru líka með þing í haust þar sem til umfjöllunar voru ákveðin áherslumál sem þau voru að fjalla um. Það voru t.d. atvinnumál, loftslagsmál og sorpflokkun, sem þau ræddu mjög ítarlega, og samgöngumál. Eitt þeirra hjartans mála fjallaði síðan um jafningjafræðslu og það sem beinist að forvörnum gegn fíkniefnum. Það mál ratar inn sem áhersluatriði í sóknaráætlun Suðurlands fyrir árið 2019. Settar voru 6 milljónir í að vinna að þessu málefni þeirra, sem snertir náttúrlega alla íbúa en er líka áherslumál þeirra.

Varðandi fræðsluna og annað slíkt hefur Samband íslenskra framhaldsskólanema undanfarin ár — og kannski er það það jákvæða sem tíðar kosningar hafa fært okkur — tekið þátt í verkefninu #égkýs með ríkinu en þar hafa skuggakosningar verið frá forsetakosningunum og síðan bæði í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. Þar hefur ungt fólk fengið að æfa sig í þessari lýðræðisþátttöku. Þau eru, eins og komið hefur fram, að kjósa í leikskólum og annars staðar og hafa í raun áttað sig á því að við erum alltaf að taka ákvarðanir af þessu tagi. Við erum alltaf að kjósa, við erum að stunda lýðræði, þó að við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því, á meðan við erum að velja, að við séum að viðhafa lýðræðislegar kosningar, lýðræðislegt val.

Ég tel þær umræður sem hafa verið um þessi mál síðustu ár hafa verið af hinu góða. Nú erum við komin með plagg, með frumvarp, sem er vel þroskað og vel ígrundað. Til hamingju með það.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til stjórnsk.- og eftirln.