149. löggjafarþing — 60. fundur.
efling iðn- og verknáms.

[11:00]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við þekkjum þá umræðu að vöntun sé á iðnaðarmönnum. Það kemur reglulega fram í fjölmiðlum, „skortur á iðnaðarmönnum“ sjáum við sem fyrirsagnir í blöðum o.s.frv. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um að efla eigi iðn- og verkgreinar með stórsókn í menntamálum í þágu fjölbreyttara atvinnulífs og betra samfélags. Þetta eru að sjálfsögðu göfug markmið og yfirlýsingar en hvort það nægi til að breyta einhverju í tengslum við að auka áhuga á iðnmenntun verður tíminn að leiða í ljós. Ég vona svo sannarlega að svo verði. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins hefur kallað eftir réttmætri virðingu iðnnáms og að viðhorfsbreyting verði hér á landi gagnvart iðnnámi. Við þekkjum einnig að mun lægra hlutfall nemenda hér á landi skráir sig í iðnnám en innan ríkja Evrópusambandsins, Tölur frá 2007, minnir mig, sýna að það eru einungis um 14% hér á landi á sama tíma og það eru 50% í Evrópusambandinu.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að er: Hvernig sér ráðherra fyrir sér að fylgja því eftir sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum og hvernig er samstarfið milli ráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins í þá veru?



[11:02]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hér er vakin athygli á mjög mikilvægu máli sem við ræðum nú töluvert og færist í rétta átt en ég er þeirrar skoðunar að við gætum gert miklu betur. Iðnmenntun og iðnaður er einfaldlega grundvöllur nýsköpunar í landinu. Þessi ríkisstjórn og aðrar og þingið hefur forgangsraðað fjármunum til að efla menntakerfið í heild sinni og það á auðvitað að skila sér fyrir iðnmenntun sömuleiðis. Ég tel að frumvarp hv. þm. Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur skipti líka máli, ekki bara samkvæmt orðanna hljóðan og í framkvæmd, heldur einnig varðandi þá viðhorfsbreytingu sem hv. þingmaður nefnir og ég sjálf er mjög upptekin af.

Ég held að að hluta til sé ákveðin rót vandans einfaldlega viðhorf okkar sjálfra til þessarar menntunar og oft viðhorf foreldra þegar börn eru að velja sér nám. Það er auðvitað litað af því hvernig við höfum búið til kerfið, að það sé alltaf öruggara að klára fyrst stúdentspróf o.s.frv., jafnvel þó að krakkar séu fyrir löngu búin að ákveða að þau ætli sér að velja iðnmenntun og starfa á því sviði í framtíðinni. Ég held að viðhorfsbreyting sé algjört lykilatriði í þessu og þar skiptir máli hvernig við öll tölum, líka foreldrar, og sömuleiðis að kerfið sé ekki þannig að við séum raunverulega að mismuna eða lyfta annarri menntun á kostnað iðnmenntunar.

Nýsköpunarstefnan og menntastefnan munu þurfa að tala saman og munu tala saman. Það er algjört lykilatriði að það sem sagt er og lagt til í þessum stefnum falli saman í eitt. Það skiptir máli að þetta sé unnið saman. Ég get ekki annað sagt en að ég sé sammála þeim áherslum sem hv. þingmaður nefnir og ítreka það aftur að iðnmenntun og iðnaður er grundvöllur nýsköpunar. (Forseti hringir.) Ég held að við getum gert miklu betur í að tengja þessa þætti saman, að háskólagreinar, atvinnulífið og skólakerfið líka nái að vinna betur saman. (Forseti hringir.) Þetta allt skiptir máli.



[11:05]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og tek heils hugar undir það sem hún sagði. Hvað viðhorfsbreytinguna varðar er ég alveg sammála ráðherra að þetta skiptir líka máli á heimilunum, meðal foreldranna, að vekja einnig áhuga á iðnnámi. Það skiptir máli. Ég er sammála því.

Það er annað sem mig langar að koma aðeins inn á. Gerð var rannsókn við Háskólann á Bifröst á síðasta ári, minnir mig, þar sem spurt var um viðhorf til iðnnáms meðal nemenda og þeirra sem hafa starfað í greininni. Niðurstaðan er svolítið athyglisverð, að fram kom að margir ófaglærðir væru að starfa í þessum greinum, jafnvel eingöngu talandi tungumál í þeirra heimalandi, þ.e. erlendir starfsmenn. Og það var sammerkt hjá þessum viðtalshópi í rannsókninni að allir hefðu miklar áhyggjur af því að fólk væri að starfa í þessum geira sem væri ekki með tilskilin réttindi og verið væri að gjaldfella námið í raun og veru hvað þetta varðar. (Forseti hringir.)

Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig er opinberu eftirliti með þessu háttað? Það er afar mikilvægt í mínum huga að einstaklingar sem hafa löggildingu vinni í þessum greinum.



[11:07]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst aðeins nánar um það sem skiptir máli að gera. Við þurfum að horfa til uppbyggingar námsins og hvernig megi efla það og það þarf auðvitað að vera til sífelldrar skoðunar. Svo þarf að styrkja utanumhaldið með verk- og starfsþjálfun og það er kannski það sem hv. þingmaður nefnir líka hér. Svo þarf að bæta og einfalda aðgengi nemenda að verk- og starfsnámi. Við vitum að það eru ákveðnir flöskuhálsar þegar fólk er búið að klára menntunina en þarf að komast á samning til þess að fá einmitt löggildinguna.

Við erum með mjög öflug og sterk félög fyrir þessar iðngreinar sem halda mjög vel utan um þetta. Við vitum alveg líka að það eru ýmis störf unnin af fólki sem ekki hefur þessa löggildingu. Við höfum auðvitað líka þurft þær hendur vegna skortsins á slíkum starfskröftum. Það er Vinnumálastofnun sem hefur þetta eftirlit undir höndum. Nákvæmlega hvernig því er háttað þyrfti ég að fá að kanna betur til að vita stöðuna.