149. löggjafarþing — 60. fundur.
norðurskautsmál 2018.
skýrsla ÍNSM, 526. mál. — Þskj. 856.

[12:33]
Frsm. ÍNSM (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég flyt skýrslu Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál fyrir árið 2018. Á liðnu ári bar hæst þrettándu þingmannaráðstefnuna um norðurskautsmál sem haldin var í Inari í Finnlandi. Á tveggja ára fresti heldur þingmannanefndin ráðstefnu um norðurskautsmál og var fyrsta þingmannaráðstefnan haldin í Reykjavík 1993, það eru ekki margir sem vita það.

Á ráðstefnum þingmannanefndarinnar kemur saman stór hópur þingmanna og sérfræðinga frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum, félagasamtökum og fleirum sem láta sig málefni norðurslóða varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar hverju sinni er að framfylgja samþykktum þeirrar ráðstefnu alla leið til Norðurskautsráðsins.

Á ráðstefnu þingmannanefndarinnar voru að þessu sinni fjögur meginþemu valin til sérstakrar umræðu. Í fyrsta lagi var sjónum beint að loftslagsbreytingum á norðurslóðum og hvernig draga megi úr neikvæðum afleiðingum þeirra. Í öðru lagi var fjallað um stafrænt norðurskaut og hvernig tryggja megi að íbúar norðurskautssvæðisins geti verið virkir þátttakendur í hinum stafræna heimi. Í þriðja lagi fór fram umræða um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og hvernig tryggja megi að íbúar norðurskautsins njóti góðs af auknum umsvifum á svæðinu. Í fjórða lagi var rætt um velferð með áherslu á þær nýjungar sem nýta má til að tryggja velferð íbúa norðurskautsins.

Í yfirlýsingu ráðstefnunnar er eins og ávallt fyrirmælum beint til ríkisstjórna á norðurskautssvæðinu, til Norðurskautsráðsins og stofnana Evrópusambandsins. Í yfirlýsingunni eru yfir 40 atriði og ég mun fjalla frekar um efni þessarar ráðstefnu síðar í ræðunni.

Á árinu fagnaði þingmannanefndin 25 ára afmæli og gaf af því tilefni út bækling um starfsemi nefndarinnar. Af öðrum málum sem voru áberandi í umræðunni hjá nefndinni á árinu má nefna versnandi samskipti milli Rússlands og Bandaríkjanna, stefnu aðildarríkjanna í málefnum norðurskautsins, mikilvægi þess að standa vörð um rétt íbúa norðurslóða til að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt og eflingu Norðurskautsráðsins.

Aðeins almennt um þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál, fáein orð: Meginefni þessarar nefndar eru í raun að skipuleggja þingmannaráðstefnuna sem haldin er annað hvert ár og fylgja eftir samþykktum hennar, eins og vikið var að hér áðan, fylgjast með störfum Norðurskautsráðsins o.fl. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári, þ.e. hin íslenska þingmannanefnd ásamt öðrum þingmannanefndum, og venjulega er það formaðurinn sem situr þá fundi. Þetta gerist þá það ár sem ekki er ráðstefna þar sem nefndirnar í heild taka þátt. Það gerist sem sagt annað hvert ár, en árið sem líður á milli hittast þessar nefndir fyrst og fremst í formi þess að formennirnir koma saman.

Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastafulltrúa. Nokkur samtök frumbyggja og þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta áheyrnarfulltrúa í nefndinni með rétt til þátttöku í umræðum, svo sem Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið, og síðan koma einstök lönd oft að sem gestir, síðast voru það t.d. bæði Kína og Singapúr, en þau hafa auðvitað engan atkvæðisrétt.

Þess ber að geta að þingmannanefndin hefur á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að eiga frumkvæði að margs konar verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmdar. Þau eru orðin það mörg að ég get með engu móti talið þau upp, en ætla að telja hér upp eitt atriði vegna leiðréttingar í skýrslum sem ég þarf að koma að. Í upphafi formennskutíðar Íslands árið 2004 var gefin út skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu. Hún var kölluð á ensku, með leyfi forseta: Arctic Climate Impact Assessment. Í texta skýrslunnar, þessarar sem ég er að flytja, stendur:

„Spár skýrslunnar gefa til kynna að um næstu aldamót verði norðurskautshafsvæðið íslaust að sumarlagi.“

Síðan stendur:

„Þá færist mörk gróðurlendis æ norðar með hlýnandi loftslagi.“ — Hér á auðvitað að standa: gróðurlenda. Rétt skal þetta vera þannig: „Þá færist mörk gróðurlenda norðar með hlýnandi loftslagi.“ Það er mikilvægt að þessi leiðrétting komi hér fram.

Þetta var almennt um þingmannaráðstefnuna, þannig að fólk hafi í huga að annað hvert ár eru það formenn aðildarlandanna, ef svo má að orði komast, sem hittast. Hitt árið hittast þeir að vísu líka en þá fer hin eiginlega þingmannaráðstefna fram með þátttöku allra nefnda í fullum skrúða.

Aðeins um skipan Íslandsdeildar. Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2018 Ari Trausti Guðmundsson, sem var formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Líneik Anna Sævarsdóttir varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Björn Leví Gunnarsson, þingflokki Pírata. Varamenn eru Halla Signý Kristjánsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Smári McCarthy. Ritari Íslandsdeildar, og hefur verið langs tíma, var Arna Gerður Bang.

Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Þegar formenn hittast, annað hvert ár, situr öll Íslandsdeildin ráðstefnur nefndarinnar á tveggja ára fresti. Og eins og títt er um svona nefndir kemur Íslandsdeildin saman eftir þörfum. Formaður gerir þá grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og nefndarmenn fá jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins. Íslandsdeildin hélt þrjá fundi á árinu 2018 og svo tók hún auðvitað þátt í ráðstefnunni stóru í Finnlandi, þar sem nefndirnar mæta í heild, svo að ég endurtaki það einu sinni enn.

Á árinu tók einn fulltrúi nefndar þátt í formannafundi í Kiruna í maí 2018. Af hálfu Alþingis var það Líneik Anna Sævarsdóttir í mínum forföllum og svo ritarinn, Arna Gerður Bang. Hlutverk þess fundar var m.a. að undirbúa ráðstefnuna síðar um árið og ræða þær áherslur þessarar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem átti að halda haustið 2018, sl. haust, og um leið drög að ráðstefnuyfirlýsingu. Á þessum fundi tók Líneik Anna Sævarsdóttir þátt í umræðum um umbreytingar á samfélögum á norðurslóðum. Hún tók þátt í umræðum um að skýr stuðningur við Parísarsamkomulag Sameinuðu þjóðanna yrði að koma fram á ráðstefnu um loftslagsmál. Enn fremur greindi hún frá því að komin væri ný ríkisstjórn á Íslandi og sagði að málefni norðurslóða yrðu áfram í forgangi. Hún sagði að málefni norðurslóða hefðu fengið aukna athygli innan Alþingis og sem dæmi um það hefði sérstök umræða verið hér á þingi um málefni norðurslóða haldin að frumkvæði formanns, Ara Trausta Guðmundssonar, með þátttöku hæstv. utanríkisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem hefði þá tekið þátt í töluvert umfangsmiklum umræðum um þetta mikilvæga mál. Þá væri undirbúningur fyrir formennskutíð Íslands í Norðurskautsráðinu hafinn á Íslandi, en Ísland tekur við af Finnum nú í vor og verður í því hlutverki til ársins 2021. Síðar á árinu tók formaður þingnefndar þátt í kynningu Finna á þessari formennsku, sem haldin var í Helsinki í boði ríkisstjórnar Finnlands.

Mig langar að fara aðeins nánar í hvað gerðist á þingmannaráðstefnunni þar sem allir nefndir tóku þátt í fullum skrúða, eins og ég sagði. Hún var haldin í Inari í Finnlandi í september sl. Þar sátum við þá, sá sem hér stendur, Ari Trausti Guðmundsson, og Líneik Anna Sævarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson og Arna Gerður Bang. Fyrsti hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um stafrænt norðurskaut, þ.e. hvernig mögulegt er að búa norðurslóðir undir hina svokölluðu fjórðu iðnbyltingu og hvernig tryggja megi að íbúar norðurskautsins geti verið virkir þátttakendur í hinum stafræna heimi. Björn Leví Gunnarsson lagði m.a. til að bætt yrði við málsgrein í yfirlýsingu ráðstefnunnar um hvernig styðja mætti við þróun stafrænnar tækni fyrir tungumál á norðurslóðum með því að veita aðgang að rannsóknum, tækni og menntun um tölvuvæðingu tungumála. Það var samþykkt.

Annar hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um loftslagsbreytingar á norðurslóðum og hvernig mögulegt væri að draga úr neikvæðum afleiðingum þeirra. Ari Trausti Guðmundsson hélt erindi um efnið og svaraði spurningum fundargesta. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að auka menntun og skilning almennings á afleiðingum loftslagsbreytinga þar sem þekking væri besta vopnið í baráttunni. Þá sagði hann þingmenn m.a. geta lagt sitt af mörkum með því að stuðla að auknu samstarfi milli ríkja og alþjóðastofnana, styðja við gerð alþjóðlegra sáttmála, sem stuðla að sjálfbærri þróun, og efla löggjöf heima fyrir sem ynni gegn loftslagsbreytingum. Jafnframt lagði hann áherslu á mikilvægi þess að umræða um það hvernig draga mætti úr losun gróðurhúsalofttegunda, tryggja lífsskilyrði og miðla þekkingu á svæðinu væri heiðarleg og opin. Oddný G. Harðardóttir tók þátt í umræðum fyrir hönd Norðurlandaráðs og greindi frá því að á síðasta ári hefði ráðið gefið út leiðbeiningarit fyrir þingmenn um hvernig ná mætti markmiðum Parísarsamkomulagsins.

Þriðji hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, hvernig tryggja mætti að íbúar norðurskautsins nytu góðs af auknum umsvifum á svæðinu og að fyrirtæki fylgdu alþjóðlegum stöðlum í starfsemi sinni. Líneik Anna Sævarsdóttir tók þátt í umræðum um þetta, fyrir utan það að stýra fundi, og ítrekaði mikilvægi þess að varðveita merka menningararfleifð norðurslóða og viðkvæma náttúru. Þannig skapaðist tækifæri til að stuðla að raunverulegum breytingum þar sem ábyrgð fyrirtækja gagnvart íbúum norðurslóða væri skýr.

Fjórði hluti ráðstefnunnar var tileinkaður velferð og þá einna helst hvaða nýjungar mætti nýta til að tryggja velferð íbúa norðurskautsins. Guðjón Brjánsson, varaformaður Vestnorræna ráðsins, greindi frá samstarfi ráðsins við íslensku rannsóknarstofnunina Rannsóknir og greiningu um kortlagningu á högum ungmenna í því skyni að draga úr vímuefnaneyslu. Það kom fram í hans skýrslu hér á undan að Vestnorræna ráðið vinnur að því að koma málinu á dagskrá hjá Norðurskautsráðinu í formennskutíð Íslands.

Við undirbúning ráðstefnuyfirlýsingar var skipuð sérstök nefnd sem hittist nokkrum sinnum og fór yfir fram komnar athugasemdir og tillögur. Formaður, Ari Trausti Guðmundsson, var fulltrúi Íslandsdeildar í nefndinni og lagði m.a. áherslu á mikilvægi þess að styrkja samfélög á norðurslóðum og huga að málefnum hafsins, auk jafnréttismála og sjálfbærni. Hann lagði til á síðasta fundi nefndarinnar að bætt yrði við málsgrein um mikilvægi þess að bæta siglingakort og siglingakerfi á hafsvæðum norðurslóða og minntist enn fremur á þá tillögu Íslands, sem er reyndar bráðum tveggja ára, að komið yrði á fót eins konar frumbyggjaskóla, þar sem frumbyggjar norðurslóða gætu upplýst okkur hin um áherslur sínar í nýtingu náttúruauðæfa og menningu.

Þá er rétt að geta þess að að þessari ráðstefnu lokinni var boðað til næstu ráðstefnu þingmannanefndar um norðurskautsmál, hún verður þá reglum samkvæmt í Noregi árið 2020. Ég ætla hins vegar að skjóta því að í framhjáhlaupi að næsta skref er svokallaður formannafundur í Síberíu um miðjan febrúar nk.

Undir þessa skýrslu rita, auk formanns, Líneik Anna Sævarsdóttir og Björn Leví Gunnarsson. Ég vil nota tækifærið hér til að þakka nefndarmönnum og ritara fyrir gott samstarf og þeirra störf sem hafa verið mjög gefandi og að mínu mati árangursrík. Ég vil líka nota tækifærið hér að lokum til að minna á að samvinna um norðurslóðamál er gríðarlega mikilvæg. Eins og margoft hefur komið fram er norðurskautssvæðið lykilsvæði í þróun nánast allra heimsmála. Og allt sem eflir hvort sem er norræna samvinnu eða alþjóðlega samvinnu um norðurskautsmál, á jafnréttisgrundvelli að sjálfsögðu, er af hinu góða. Þar með, herra forseti, hef ég lokið máli mínu.



[12:48]
Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka formanni Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir góða skýrslu fyrir árið 2018. Ég hef persónulega mikinn áhuga á öryggismálum og fjarskiptum sem tengjast norðurslóðum. Við sjáum í allri umræðu hér, hvort sem er með Vestnorræna ráðinu, í skýrslu um það eða þeirri skýrslu sem ég flyt á eftir, hversu veigamikill þáttur norðurslóðir eru að verða almennt í landfræðilegum, pólitískum málefnum. Þau eru alls staðar rædd af miklum þunga, ekki síst í því starfi sem ég tek þátt í í tengslum við NATO-þingið.

Ég hef mikinn áhuga á ferðaþjónustu á norðurslóðum og öryggismálum og hef komið með fyrirspurn áður til Vestnorræna ráðsins sem snýr að skemmtiferðaskipum, ferðaþjónustu og slíkum þáttum, hvort þau málefni hafi verið tekin upp.

Við erum að tala um að það eru 3–4 milljónir íbúa á svæðinu norðan við heimskautsbaug. Þetta er gríðarlega erfitt svæði, þar eru að mörgu leyti erfiðustu lífsskilyrði á jörðinni og þess vegna er margt mjög áhugavert. Það eru miklir erfiðleikar að fást við, mörg verkefni, samanber öryggismál og fjarskipti. Ég vil tala meira um gevihnattaleiðsögu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort sú umræða hafi verið eitthvað inni í málefnum þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál, vegna þess að drægni gervihnatta nær ekki þetta norðarlega. Við sjáum að ákveðinn árangur hefur náðst í Noregi og Finnlandi en almennt er þetta ekki á hinum norðlægu slóðum, t.d. í Norður-Atlantshafi, á Íslandi og norður af Grænlandi. Við getum ekki nýtt bandarísku kerfin. Ég held það myndi bæta öryggið gríðarlega á þeim landsvæðum ef menn fengju þetta.



[12:50]
Frsm. ÍNSM (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka spurninguna. Samvinnan er mjög góð á milli allra ríkjanna á þingmannaráðstefnunni. Það er þó vissulega þannig að ákveðin atriði eru ekki rædd og ég skal koma að því á eftir.

Hvað varðar öryggismálin má skilja þau á tvo vegu en nú er ég að tala um öryggismál almennings og skipaumferðar o.s.frv. Það er bindandi samkomulag til um samstarf allra þessara ríkja að björgun og eftirliti á Norður-Íshafi. Unnið er að því að þróa hvers konar samstarf er um að ræða og koma á það einhverju skipulagi. Rætt hefur verið t.d. um björgunarmiðstöð á Íslandi. Því hefur verið veifað þótt engar ákvarðanir hafi verið teknar. Rússar hafa til að mynda komið upp búnaði og öðru slíku við Síberíustrendur sem tengist aðallega herstöðvum þeirra. Minna er um það á svæði Bandaríkjamanna og Kanadamanna. Þau mál eru svona, búið er að taka fyrstu skref en ekki meira.

Varðandi það sem ekki er rætt er hernaðaruppbyggingin sjálf, uppbygging Rússa á landsvæði þeirra, svör NATO og vesturveldanna með ýmsu móti, ég ætla ekki að rekja það heldur, við þekkjum það úr fréttum. Kínverjar eru að byggja upp sitt belti og braut og koma inn með ísbrjóta o.s.frv. Þar er auðvitað engin hernaðaruppbygging r en samt sem áður skynjar maður ákveðinn áhuga á svæðinu sem maður veit ekki hvert leitar og ástæða til að vera mjög vakandi yfir því. Allt tengist þetta svo stjórnun þessa hafsvæðis. Hver á að stjórna Norður-Íshafinu utan við (Forseti hringir.) 200 mílna lögsöguna?



[12:52]
Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þær kallast greinilega svolítið, á skýrslurnar hjá okkur í dag. Ég ætla að fara yfir það sem kemur fram í skýrslunni frá NATO-þinginu um vaxandi mikilvægi málefna norðurslóða, m.a. út frá loftslags-, efnahags- og öryggismálum. Hafísinn á svæðinu hefur hopað hratt sökum loftslagsbreytinga á undanförnum árum og slík þróun hefði ómæld áhrif á hefðbundið líf á svæðinu. Þá eru ný tækifæri að skapast varðandi opnun nýrra siglingaleiða í ferðaþjónustu og með auknu aðgengi að auðlindum. Jafnframt eru vaxandi áhyggjur af aukinni spennu milli norðurskautsríkjanna með auknu viðskiptalegu mikilvægi og landfræðilega pólitískum breytingum, ekki síst í ljósi aukinnar hernaðaruppbyggingar Rússa á svæðinu, sem hv. þingmaður minntist á. Það er einmitt hernaðarlegt mikilvægi við Síberíustrendur.

Nú hafa Rússar sett í gang og endurbyggt átta herstöðvar við norðausturleiðina, eins og við köllum hana, frá Evrópu til Asíu, sem hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna sem björgunar- og öryggismiðstöðvar fyrir svæðin.

Þetta er fín umræða í dag og menn koma víða við.

Mig langar að spyrja út í umræðu á vettvangi Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál sem snýr að jafnréttismálum, hvernig þau hafa verið tekin fyrir. Við Íslendingar höfum lagt mikla áherslu á jafnréttismál í alþjóðastörfum okkar og nefndum og öðru á erlendum vettvangi og líka á NATO-þinginu. Ég hef áhuga á að vita hvernig menn taka á þeim málum í þessu starfi.



[12:54]
Frsm. ÍNSM (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þær skýrslur sem við höfum flutt kallast allar meira eða minna á og eiga sjálfsagt eftir að verða fleiri. Það sýnir hversu víðfeðmt þetta mál er og hvað það grípur inn á mörg svið. Það er þetta lykilsvæði sem ég ræddi um áðan.

Það sem ekki er rætt, þ.e. hernaðaruppbyggingin, við skulum segja að það sé gert af innbyrðis tillitssemi milli stórveldanna og við sættum okkur við það í bili. Varðandi björgunarmálin hafa Rússar byggt upp herstöðvar sem eru um leið björgunarstöðvar af þeirra hálfu. Vestan hafs er miklu minna um það og þá er gat þarna á milli, sem sagt Grænland, Ísland, Norður-Noregur, hafsvæði okkar hér þar sem er fullt af skemmtiferðaskipum. Þá er stóra spurningin: Hvað gerum við í því? Það er með engu móti hægt að segja að það sé með góðum skikk.

Varðandi jafnréttismálin hafa þau verið á oddinum hjá íslensku nefndinni jafnvel í mörg ár. Ég vil meina að hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir eigi þar stóran hlut að máli. Þau mál eru líka viðkvæm. Ástæðan er einfaldlega sú menning sem hefur þrifist, og ég segi það ekki í neikvæðum tón því að hver þjóð á sína menningu og hver menningarþróun á sitt ferli. Sú menning sem hefur þróast byggir á skýrri verkaskiptingu karla og kvenna yfirleitt hjá frumbyggjaþjóðum og það þarf að nálgast af mikilli virðingu og með fræðslu. Annað fólk byggir þetta svæði líka, þ.e. fólk sem á sínar menningarlegu rætur. Þar held ég að jafnrétti sé víða brogað, víða ekki með góðu móti. Þau mál eru í deiglunni og (Forseti hringir.) það er skylda okkar að halda þeim gangandi áfram og þeim umræðum sem skapast innan norðurskautsráðsráðstefnunnar hverju sinni.



[12:57]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýrsluna. Það er mjög áhugavert starf sem er unnið í þessari þingnefnd og kannski ekki síst mikilvægt að hafa tækifæri til að vinna með þessum stóru þjóðum, sem eru miklir leikendur í alþjóðastjórnmálunum. Það er eitt að við séum í Norðurslóðaráðinu þar sem ráðherrar sitja og svo embættismenn sem fylgja eftir því starfi þar, en þarna er vettvangur þingmanna.

Mig langar að spyrja hv. þm. Ara Trausta Guðmundsson aðeins út í virknina hjá þingmönnunum. Ég hef talað fyrir því að það sé mjög mikilvægt að við Íslendingar notum rödd okkar á vettvangi norðurslóðamála, sem við svo sannarlega erum að gera þar sem við tökum við formennsku í Norðurskautsráðinu. En ég tel að við eigum mikla möguleika í því að vera norðurslóðaþjóð, eigum mikla möguleika í vísindum, rannsóknum og nýsköpun er tengjast þessum málaflokki. Ég myndi gjarnan vilja sjá öflugra samstarf ríkja um vísindi og rannsóknir. Evrópusambandið sýnir þessum málum aukinn áhuga og hefur mótað sér stefnu í norðurslóðamálum. Þó að Evrópusambandið sem slíkt sé ekki aðili að Norðurskautsráðinu er það áheyrnaraðili og á fulltrúa í þingmannasamstarfinu.

Nú er ég líka aðeins að kalla eftir því hjá hv. þingmanni hvernig honum finnst vesturveldið stóra, Bandaríkin, hafa staðið sig í því að koma á framfæri eða vera með skýra stefnu og framtíðarsýn er kemur að samstarfi þessara ríkja um norðurslóðamál.



[12:59]
Frsm. ÍNSM (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa tölu og spurningar. Virkni hjá þingmönnum, ef við tökum bara okkur hér, mætti auðvitað vera meiri. Eitt af því er að fræða almenning meira um hvað við gerum í norðurslóðamálum, ekki bara þingmenn heldur Íslendinga almennt og um ástandið o.s.frv., vera sýnileg út á við, bæði Vestnorræna ráðið, Norðurlandaráð og við í þingmannaráðstefnunni.

Við erum nú þegar í dálítið góðri stöðu með sumt af því sem hv. þingmaður nefndi, eins og varðandi nýsköpun. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur t.d. lagt fram plagg um það hvaða nýsköpunartækifærum hún hefur verið að vinna að sem gagnast á norðurslóðum.

Varðandi vísindi og rannsóknir er slíkt að mörgu leyti mikið í gangi hjá Norðurskautsráðinu. Það eru starfsnefndir á flestum sviðum vísinda, hvort sem eru náttúrufræðilegar rannsóknir eða félagsfræðilegar, og sífellt fleiri þjóðir koma að því. Það eru kínverskir vísindamenn, pólskir vísindamenn, meira að segja Singapúr hefur mikinn áhuga á norðurslóðarannsóknum, Japanir o.s.frv. Akkillesarhællinn er frekar samstarfið sjálft, þ.e. miðlun gagnkvæmt á þekkingu, miðlun gagnkvæmt á gögnum, svo að það ætti kannski að stofna alþjóðamiðstöð vísinda á heimskautasvæðinu til þess að auðvelda samskiptin, að auðvelda samvinnuna.

Bandaríkin eru ekki vel stödd í þessu og ég ætla að nota tímann í mínu síðara andsvari til að gera aðeins grein fyrir stöðunni þar. Það er því miður þannig að þeirra stefnumótun er veik og starfið er veikt.



[13:01]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hjó eftir því að við þurfum kannski alþjóðamiðstöð vísinda, (ATG: Norðurskautsvísinda.) já, norðurskautsvísinda. Mér fannst þetta hljóma virkilega vel og velti fyrir mér hvort það væri ekki mikið tækifæri fyrir okkur Íslendinga. Ég tek undir það, ég held að það sé vilji hjá öllum vísindamönnum að starfa saman, hvort sem þeir koma frá Rússlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Evrópusambandinu eða hvaðan það er. En stundum virðast alþjóðastjórnmál og pólitík þvælast svolítið fyrir. Það er kannski oft þá sem smærri ríki eins og Ísland geta spilað töluvert hlutverk.

Ég segi þetta kannski ekki síst vegna þess að ég hef fengið tækifæri til að sitja fundi SCPAR og heyra þar Rússana tala fyrir auknu samstarfi og vilja svo gjarnan deila með öðrum þjóðum aðgangi að rannsóknum og vísindum. Ég er að vona að með aukinni áherslu og sterkri rödd okkar og fleiri um mikilvægi rannsókna á norðurslóðum opnist líka meira af samkeppnissjóðum Evrópusambandsins, nákvæmlega tengt þessu máli. Evrópusambandið vill gjarnan líka opna fyrir það að aðrar þjóðir geti haft aðgang að þessum rannsóknarsjóðum. Það er eitt af þeirra helstu stefnumálum núna við næstu rammaáætlun. Þannig að spurning mín lýtur að því: Getur þingmannaráðstefnan — mér finnst þetta, virðulegur forseti, fyrirgefðu, svolítið ankannalegt nafn, það er talað um þingmannaráðstefnu, en þetta er þingmannasamstarf Norðurskautsráðsins og þar hafa ákveðnir aðilar áheyrnaraðild — það sem ég er að velta fyrir mér: Deilir þingmaðurinn þeirri sýn minni að þessi mikilvæga þingmannanefnd geti ýtt (Forseti hringir.) enn frekar undir aukið samstarf á sviði vísinda og rannsókna um norðurskautsmál? Og getur Ísland þar kannski spilað stórt hlutverk?



[13:04]
Frsm. ÍNSM (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú að svara þingmanninum beint: Já, þingmannanefndin getur gert það, ýtt undir vísindasamstarf o.s.frv. Ég lít svo á að við, þessi þrjú sem þar sitjum, höfum fengið hérna ákveðinn punkt í nesti til að fara að undirbúa næstu ráðstefnu. Það er ekkert flóknara en það.

Aðeins varðandi miðlunina, þegar ég er að tala um einhvers konar alþjóðamiðstöð megum við ekki gleyma því að það er háskólasamstarf norðurslóða. Það eru vefsíður, stórar og miklar, og það eru ráðstefnur vísindamanna og samstarfsnefndir. Ég er að tala um að reyna kannski að koma betra skipulagi á einhvers konar miðlæga samvinnu og gagnaskiptastofnun, ef við orðum það þannig. Þetta er ekki þróað hjá mér, ég bara slengi þessu fram.

Aðeins varðandi Bandaríkin. Þeirra þingmannanefnd er ekki til í raun. Það er ein mjög virk þingkona, Lisa Murkowski, þingmaður í Alaska, sem hefur leitt það allt saman, samstarf okkar þingmannanefndanna við Bandaríkin. Hún hefur tekið með sér hina og þessa á þessa fundi, en það hefur aldrei orðið til í bandaríska þinginu formleg þingmannanefnd eins og hér hjá okkur. Það er eina þjóðin sem hefur þannig búið um. Það finnst mér erfitt og ég ræddi sérstaklega við Lisu Murkowski núna í haust um að menn kæmu betra skikki á þetta.

Hitt er svo annað mál að stefna Bandaríkjanna í norðurslóðamálum var aðeins mótuð meðan þeir voru með formennskutíðina í Norðurskautsráðinu, en eftir að Trump komst til valda snýst þessi stefna eingöngu að mínu mati um að vinna auðlindir á norðurslóðum, þ.e. olíu, fara út í olíuvinnslu á ný í Alaska sem var búið að skrúfa fyrir, ganga inn á friðuð svæði, ganga inn á svæði sem frumbyggjar hafa (Forseti hringir.) talið sín o.s.frv. Það tel ég í fyrsta lagi ranga stefnu, en líka veika stefnu.