149. löggjafarþing — 61. fundur.
Brexit.

[15:17]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Brexit er dæmi um þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem hvorki stjórnmálamenn né hagsmunaöfl gengu hreint til verks heldur var augljóslega logið að bresku þjóðinni. Eftir standa stjórnmálamennirnir og reyna að leysa úr því viðfangsefni sem þar er. Það er best að koma hreint fram.

Við sjáum Theresu May reyna að ná fram meiri hluta í breska þinginu fyrir samningnum, en hann kolféll fyrir nokkrum vikum. Og það er sama við hvern við tölum, hvort sem það eru breskir þingmenn eða sendifólk á vegum breskra yfirvalda, líkurnar aukast á hörðu Brexit.

Af því að nú eru bara sjö vikur í að hugsanlega hart Brexit verði að veruleika spyr ég hæstv. ráðherra: Hefur ríkisstjórnin haft eitthvert plan? Liggur fyrir áætlun íslensku ríkisstjórnarinnar í þá veru að gæta íslenskra hagsmuna ef og þegar af hörðu Brexit verður? Við sjáum að hæstv. menntamálaráðherra hefur t.d. allt aðra sýn á Brexit en norski kollegi hennar sem varar beinlínis norska stúdenta við því að fara til Bretlands vegna óvissu um þátttöku Bretlands í samruna- og samvinnuáætlunum næstu árin innan ESB. Hvað veit hæstv. ráðherra menntamála og ríkisstjórnin meira en norskur kollegi ráðherra í ríkisstjórn Noregs?

Þess vegna skiptir miklu máli að íslenska ríkisstjórnin lýsi því skýrt við þingið hvernig áætlunin lítur út ef af hörðu Brexit verður. Hvernig verða íslenskir hagsmunir varðir, til að mynda í sjávarútvegi, af því að við vitum að breskar hafnir eru eins konar „millistopp“ þegar íslenskar sjávarafurðir eru settar á evrópskan markað? Hvernig getum við treyst og tryggt íslenska hagsmuni þannig að afurðir verði ekki tollaðar í yfirtolla og þar af leiðandi ekki lengur samkeppnishæfar á erfiðum mörkuðum?

Hvernig er verið að gæta íslenskra hagsmuna? Hver er áætlunin og hvernig hefur verið rætt um það í ríkisstjórn ef af hörðu Brexit verður?



[15:19]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það kom mér á óvart að sjá yfirlýsingu norska menntamálaráðherrans í ljósi þess að íslenskir ráðherrar og íslensk stjórnvöld hafa átt samskipti við starfsbræður sína og starfssystur í bresku ríkisstjórninni. Ég átti mjög góðan fund með forsætisráðherra Bretlands, Theresu May, nú í haust, í lok október, þar sem m.a. var rætt um, og við sammæltumst um, að réttindi íslenskra borgara og breskra ríkisborgara yrðu áfram tryggð með óbreyttum hætti. Það sama hefur verið rætt hvað varðar réttindi námsmanna sem hafa verið ólík að því leyti að ekki gilda nákvæmlega sömu reglur í Bretlandi og annars staðar í Evrópusambandinu, t.d. hvað varðar gjaldtöku, en það hefur hins vegar verið rætt um að þessi réttindi, eins og þau hafa verið, haldist tryggð. Ég get fullvissað hv. þingmann um að hæstv. utanríkisráðherra og utanríkisráðuneytið hefur unnið að því að við værum tilbúin með ólíkar sviðsmyndir til þess að tryggja öll réttindi og greiðar leiðir á milli Íslendinga og Breta enda miklir viðskiptahagsmunir undir. Bretland vegur mjög þungt þegar kemur að viðskiptahagsmunum Íslendinga þannig að að þessu hefur verið unnið.

Við höfum verið að miða við ólíkar sviðsmyndir af því að óvissan hefur verið mikil og það er sérstakt umhugsunarefni nú þegar við erum að nálgast þennan dag — ég man ekki nákvæmlega hve margir dagar eru til þessarar lokadagsetningar sem hv. þingmaður nefndi. Óvissan er enn mjög mikil, hvort bráðabirgðalending næst eða hvort það stefni hreinlega í hart Brexit. Ég get fullvissað hv. þingmann um, og ég tel að hv. utanríkismálanefnd hafi átt að vera upplýst um það, að unnið hefur verið að undirbúningi fyrir ólíkar sviðsmyndir. En það liggur fyrir að Brexit án samnings verður erfiðara í framkvæmd, (Forseti hringir.) líka fyrir okkur, en Brexit með samningi.



[15:21]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Nú fara að renna á mig tvær grímur. Ég er nefndarmaður í utanríkismálanefnd þingsins og ég hef óskað eftir því að á miðvikudaginn komi utanríkisráðuneytið til þess að fara yfir þetta. Ég verð að segja eins og er að það er eins og ekkert plan sé í gangi. Brexit er líklega eftir sjö vikur. Ekkert almennilegt plan er í gangi. Fyrirspurnum okkar þingmanna frá Viðreisn, m.a. um sjávarútvegsmálin, er ekki svarað. Hvorki dómsmálaráðherra né utanríkisráðherra svara neinu er tengist Brexit. Æ ofan í æ er bara beðið um frest úr forsetastól.

Hefur ríkisstjórnin ekki unnið heimavinnuna sína í þessu máli? Gríðarlegir íslenskir hagsmunir eru í húfi. Ég vil fá að vita: Var eitthvað undirritað þegar rætt var við Theresu May um þessi mál? Það er örugglega fínt að spjalla við hana en var eitthvað undirritað?

Og síðan til viðbótar því sem ég hef verið að segja og við í Viðreisn viljum segja, með tilliti til þess sem kom fram hér á undan er tengist ESB og hugsanlega aðild okkar að ESB, eigum við að sjálfsögðu (Forseti hringir.) að treysta þjóðinni til að greiða atkvæði um samning en ekki eitthvert óljóst rugl eins og við sjáum í Bretlandi. Íslenska þjóðin á skilið að fá (Forseti hringir.) samning um aðild að Evrópusambandinu og við eigum að treysta henni til að greiða atkvæði um slíkan samning.



[15:23]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég átta mig ekki á því hvað hv. þingmaður er að fara. Við Theresa May gáfum út sameiginlega yfirlýsingu um réttindi borgaranna sem birtist opinberlega. Hv. þingmaður þarf ekkert að draga það í efa. Það kann vel að vera að breska ríkisstjórnin sé ekki með neitt plan sem gerir auðvitað plön annarra flóknari. Ég held að hv. þingmaður ætti að vita það, ef hún hefur fylgst með umræðunni í Bretlandi, að það er kannski meiri óvissa um hvert planið er þar.

Íslenska ríkisstjórnin er búin að fylgjast með þessu. Hv. þingmanni ætti að vera vel kunnugt um að utanríkisráðuneytið er búið að teikna upp ólíkar sviðsmyndir og eiga óteljandi samtöl, hvort sem er við sína kollega í embættismannastétt eða stjórnmálastétt. Sama á við um okkur ráðherra. Okkar markmið er auðvitað fyrst og fremst að tryggja hagsmuni og réttindi Íslendinga.

Hv. þingmaður hlýtur að átta sig á því að við erum hér í samskiptum við ríki þar sem enn er töluverð óvissa um hvernig Brexit verður háttað. Augljóslega er íslenska ríkisstjórnin ekki með neitt eitt plan því að við vitum ekkert hver niðurstaðan verður í Bretlandi. (ÞKG: Ekki tilbúin …?)