149. löggjafarþing — 61. fundur.
endurgreiðslur vegna kaupa á gleraugum.
fsp. BjG, 507. mál. — Þskj. 832.

[17:10]
Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég hef lagt fyrir ráðherra fyrirspurn um upphæðir endurgreiðslna vegna kaupa á nauðsynlegum gleraugum fyrir sjúkratryggða einstaklinga samkvæmt reglugerð nr. 1155/2005 og spyr hann hvort hann hyggist endurskoða þær. Ég spyr hann einnig hvort ráðherra hyggist endurskoða fyrirkomulag endurgreiðslunnar þannig að miðað verði við tiltekinn hundraðshluta af kaupverði í stað fastrar krónutölu.

Ég hef þrisvar sinnum lagt fram frumvarp um breytingu á lögum er varðar endurgreiðslu vegna gleraugnakaupa barna. Þar hef ég fyrst og fremst verið að horfa til þess að sérstaklega yngstu börnin njóti þess að fá gleraugu án mikils tilkostnaðar, þ.e. þau sem þurfa á þeim að halda sem læknisfræðilegri meðferð. Þetta er fámennur hópur barna. Augu þeirra eða sjón þroskast ekki eðlilega nema þau noti gleraugu, sem eru gjarnan dýr. Þau börn þurfa slík gleraugu til að öðlast eðlilega sjón, má segja að þau sé ekki beinlínis hjálpartæki heldur hreinlega nauðsynleg.

Við erum að tala um mjög fámennan hóp á bilinu fjögurra til átta ára eða svo. Við þekkjum það sem eigum börn sem nota gleraugu að ýmislegt getur komið fyrir. Þó að gleraugnaumgjarðir séu jafnvel mjúkar og allt það skemmast þær oft og sjónglerin einnig þegar um ung börn er að ræða.

En hér er ég meira að spyrja hæstv. ráðherra um þetta — það er auðvitað alveg ótækt, ef við hugsum um það, að alveg frá því 2005 hefur reglugerðin ekki verið uppfærð, þ.e. endurgreiðsluliðurinn. Ég vona að ráðherrann sjái fyrir sér að endurgreiða þetta.

Í sambandi við ákvæði reglugerðarinnar kom fram í svari sem ég fékk frá ráðherra fyrir einhverju síðan, forvera hæstv. núverandi ráðherra, að þetta hafi komið til umræðu meðal starfsmanna Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar, sem starfa fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga við ráðuneytið, þar sem líka hafa verið ræddar útfærslur breytinga við barnaaugnlækna. Það eru í kringum 80% foreldra eða forráðamanna sem fá endurgreiðslur upp á 7.000 kr. Það er nú allt og sumt. Sem er náttúrlega frekar lítið. Viðtal var við konu, fyrir um einu og hálfu ári, sem á ungan dreng og tók hún það saman að hún hafi verið búin að eyða milljón í gleraugu á frekar stuttum tíma.

Ég spyr hæstv. ráðherra til viðbótar, af því að talað var um það í því svari sem ég fékk þá að skoða ætti stöðu þessa hóps með tilliti til hækkunar á endurgreiðslu og (Forseti hringir.) samkvæmt því sem kemur fram í svarinu átti sú vinna að fara fram í ráðuneytinu. Mig langar að bæta þeirri spurningu við hvort sú vinna hafi farið af stað.



[17:13]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnina og vil byrja á að segja að mér fannst mjög athyglisvert að skoða þetta mál þegar ég fór aðeins að skoða það. Rétt eins og þingmaðurinn bendir á hefur frumvarp verið lagt fram þrisvar sinnum á Alþingi um breytingu á þessu.

Árið 2005 var sett reglugerð um endurgreiðslur vegna gleraugna, líkt og þingmaðurinn benti á í fyrirspurn sinni, og miðaðist reglugerðin sérstaklega við börn en þó eru undantekningar varðandi fullorðna. Í reglugerð árið 2005 voru ákveðnar upphæðir til greiðslu og hafa þær ekki verið uppfærðar síðan. Að jafnaði er sótt um endurgreiðslu fyrir um 4.000 manns á ári í þennan pott, skulum við segja.

Upphæðir hafa ekki verið hækkaðar frá þeim tíma og koma reglulega athugasemdir um hversu lágt hlutfallið er af gleraugnakaupum foreldra fyrir börn sín. Og eðlilega, vegna þess að þingmaðurinn hefur fylgt þessu máli mjög fast eftir við fleiri en einn ráðherra. En þó er það í fyrsta sinn sem þingmaðurinn fylgir þessu eftir við þennan sitjandi ráðherra og bið ég þingmanninn að skoða svörin í því ljósi.

Í gangi er vinna við að endurskoða reglugerð nr. 233/2010 um úthlutun á hjálpartækjum á vegum Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

Mín áætlun hefur staðið til þess að samhliða því sem þeirri vinnu lyki yrði farið yfir og endurskoðuð reglugerð frá 2005, sem er þessi umrædda reglugerð, um þátttöku ríkisins í kostnaði við gleraugu.

En eins og þingmaðurinn kom inn á er rétt að árétta að notendur sem miðstöðin sinnir fá úthlutað gleraugum og öðrum hjálpartækjum þeim að kostnaðarlausu.

Ég vil þó segja að þetta er sú vinna sem hefur verið í gangi og ég vil bæta við það hérna að ég held að ástæða sé til að að flýta þeirri vinnu eins og kostur er. Ég mun beita mér fyrir því á næstu vikum og mánuðum að það verði gert og að við leitum leiða til að koma betur til móts við þau börn sem þarna um ræðir.



[17:16]
Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svörin. Ég verð að segja að vissulega er þetta í fyrsta sinn sem við eigum orðastað um þetta málefni, en það er þó þannig, og það er kannski það sem hryggir mig, að í svarinu sem ég fékk á sínum tíma kemur fram að formleg vinna við endurskoðun hafi ekki farið fram, en í því segir, með leyfi forseta:

„Formleg vinna við endurskoðun á stöðu þeirra sem þurfa dýrari sjóngler hefur ekki farið fram en í markmiðaáætlun Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir að ákvæði fyrrgreindrar reglugerðar verði endurskoðuð og þar muni miðstöðin óska eftir aðkomu barnaaugnlækna og annarra þeirra sem best þekkja til. Ráðuneytið gerir ráð fyrir því að niðurstöður þeirrar vinnu liggi fyrir eigi síðar en undir lok fyrsta ársfjórðungs 2016.“

Ég gerði satt að segja ráð fyrir að við værum komin lengra í þeirri vinnu og ég hvet hæstv. ráðherra til þess núna, þegar við erum að byrja að vinna fjármálaáætlun, að í henni verði gert ráð fyrir — helst vil ég náttúrlega að gert sé ráð fyrir því að reglugerðin verði klárlega uppfærð til dagsins í dag og hvort ekki sé hægt að setja það inn með þeim hætti að það taki eðlilegum verðlagsbreytingum. Það er sérstakt að svona lagað geri það ekki. En að það nái inn, hvort svo sem heldur út frá því sem ég hef verið að reifa í máli mínu eða því sem ég hef lagt hér þrisvar fram, að hóparnir verði stækkaðir og víkkaðir.

Ég átta mig á að þetta kostar töluverða peninga, en ég hefði viljað sjá þó ekki væri nema þetta tvennt. Annars vegar að reglugerðin væri uppfærð og það kæmi fram í fjármálaáætlun og að þessi yngsti hópur sem þarf á þessu að halda, aukinni niðurgreiðslu vegna læknisfræðilegra ástæðna, (Forseti hringir.) verði líka tekinn inn í þá púllíu þegar við förum að ræða fjármálaáætlun.



[17:19]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Já, ég vil bara segja að ég tek hvatningu þingmannsins alvarlega og ég mun taka þetta mál upp og reyna að flýta því eins og kostur er. Þingmaðurinn hefur þurft að ýta á eftir þessu í allt of langan tíma. Þarna er auðvitað viðkvæmur hópur barna á ferð og rímar algerlega við þær áherslur og mikilvægi þess að grípa snemma inn í gagnvart þessum börnum þannig að þau geti fengið sem besta æsku og best tækifæri til að geta sótt fram í sínu lífi.

Ég vil því segja að ég tek þessa hvatningu með mér úr þessari umræðu og þakka hv. þingmanni fyrir að hafa tekið málið upp.