149. löggjafarþing — 64. fundur.
samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.

[10:31]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil ræða við hæstv. menntamálaráðherra um frumvarp sem er til meðferðar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, sem ég sit í, það er frumvarp til laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Ég vil byrja á að hrósa hæstv. menntamálaráðherra fyrir að koma fram með þetta frumvarp og bregðast með jafn skjótum hætti við ákalli því sem varð vegna #metoo-hreyfingarinnar innan íþróttahreyfingarinnar, og ganga hreint til verks með að tryggja að við getum öll búið bæði börnunum okkar og okkur sjálfum sem kjósum að taka þátt í íþróttastarfi öruggt umhverfi fyrir hvers kyns einelti, áreitni og ofbeldi. Mér þykir það mjög mikilvægt framfaraskref í þessa átt og vildi halda því til haga hér í upphafi.

Ég er með nokkrar spurningar til hæstv. ráðherra. Sú fyrsta snýr að öðru sem mér þykir mikið framfaraskref í þessu frumvarpi. Það er að nú er gerð krafa um að þeir sem starfa í íþróttastarfi megi ekki hafa gerst brotlegir við XXIII. kafla almennra hegningarlaga, þ.e. kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga, og sömuleiðis við lög um meðferð ávana- og fíkniefna. Hvað það varðar hefur verið mikið til umræðu aðgengi að sakaskrám og hvernig því skuli best háttað til að tryggja að allir þeir sem starfa á þessum vettvangi hafi ekki gerst brotlegir við lög sem er líka m.a. ætlað að vernda börn.

Hvað þann kafla varðar rak ég augun í eitt sem mér þætti eðlilegt að þarna væri líka til staðar; skilyrði um að viðkomandi mætti ekki hafa gerst brotlegur við líkamsmeiðingakafla almennra hegningarlaga, þ.e. alvarlegar líkamsmeiðingar, jafnvel manndráp. Ég velti fyrir mér þegar við skoðum hvernig staðið skuli að því að athuga sakaskrár; ef maður á að senda inn sakavottorð og svo fær maður annaðhvort rautt og grænt ljós til baka, hvort ekki þyrfti líka að setja inn ákvæði (Forseti hringir.) um þessi alvarlegu brot gegn friðhelgi manna.



[10:34]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála. Það er ánægjulegt að greina frá því að bæði íþróttahreyfingin og æskulýðshreyfingin brugðust mjög hratt og örugglega við og við náðum á tiltölulega stuttum tíma að fara yfir stöðuna og sjá hver vandinn væri. Það er talsvert ákall eftir því og sér í lagi að fá hlutlausan aðila sem getur mögulega miðlað málum. Varðandi lagaákvæði sem gilda um samskiptaráðgjafann tökum við fyrirmyndina líka frá íþróttalögum og göngum eins langt og við mögulega getum hvað það varðar.

Virðulegur forseti. Mér finnst sú athugasemd sem kemur fram í máli hv. þingmanns um líkamsmeiðingar og annað slíkt eitthvað sem við ættum að skoða í nefndinni. Við höfum fengið mjög jákvæða umsögn og talsvert góðar athugasemdir við frumvarpið þannig að ég tel að við gætum skoðað það betur.

Virðulegur forseti. Það sem er mikilvægast og mjög ánægjulegt er að þegar upp kemur hreyfing á borð við #églíka á Íslandi bregst grasrótin hratt og örugglega við. Þarna tel ég að samspil hennar og stjórnvalda og löggjafans sé að takast. Mjög vel hefur tekist til og ég vil hrósa þeim íþróttakonum sem náðu að móta samstöðu og því að við séum komin með útkomu.



[10:35]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil taka undir hvert orð hæstv. menntamálaráðherra, það er frábært að sjá þessar jákvæðu umsagnir sem hafa verið að koma inn. Ég hef séð það sjálf í meðförum nefndarinnar á málinu og tek undir það að vissulega er þetta eitthvað sem við ættum að skoða í meðförum nefndarinnar og það má svo sem útvíkka líka þessa hugsun yfir á önnur svið. En ég velti fyrir mér einni athugasemd sem hefur komið fram í umsögnum við málið og hvort við hæstv. menntamálaráðherra séum ekki sammála um að í því máli þurfi að gera bragarbót. Það varðar samráð við fulltrúa ungs fólks, samráð við fulltrúa barna við gerð lagasetningar sem þessarar. Auðvitað er þetta ekki eina málið þar sem það á við, t.d. er núna aðgerðaáætlun gegn ofbeldi í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og þar skortir líka upp á samráð við börn, samráð við ungt fólk sem löggjöfin á við um.

Ég velti fyrir mér hvort hæstv. menntamálaráðherra hafi einhverjar hugmyndir um hvernig megi betur standa að slíku samráði í framtíðinni. Umboðsmaður barna hefur bent á að það hafi skort (Forseti hringir.) upp á samráð við talsmann barna við gerð frumvarpsins, og við hyggjumst gera bragarbót á því innan nefndarinnar, en ég spyr hvort hún hafi einhverjar hugleiðingar um það hvernig við stöndum betur að þessu í framtíðinni og heyrum sjónarmið barna (Forseti hringir.) þegar við semjum lög um þau.



[10:37]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég tel að það sé mjög gagnleg ábending sem kemur hér fram varðandi lagasetningu er viðkemur börnum og ungmennum, hvernig við aukum samráðið og bætum það. Ég hefði talið að nefndin sem við skipuðum hefði verið í sambandi við fulltrúa umboðsmanns barna og ég fagna því að allsherjar- og menntamálanefnd ætli að fá umsögn hans um frumvarpið því að það skiptir máli.

Varðandi það hvernig við getum unnið að þessu og bætt þetta fyrirkomulag er það hreinlega að hafa umboðsmann barna oftar með í ráðum og setja það inn í verkferilinn þegar við erum að undirbúa frumvörp. Ég held að ekki eigi að vera erfitt að sinna því og að það sé til bóta. Þessi löggjöf nær náttúrlega til þeirra. Mikil vinna fór í þetta á vegum íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar og æskulýðshreyfingin er náttúrlega í mjög miklum tengslum við ungt fólk og börn. En ég fagna því að nefndin ætli að taka þetta til sín.