149. löggjafarþing — 64. fundur.
sérstök umræða.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:08]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að ræða um gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér til svara. Ég vona reyndar líka að þessi umræða hjá okkur í dag skili einhverju inn í frekari umræðu um mikilvægi nýsköpunar, sem ég held að við getum öll verið sammála um.

Ég spurði ráðherra í tengslum við þessa umræðu: Hver er staða nýsköpunar á Íslandi í alþjóðlegum samanburði? Hvaða aðgerðir telur ráðherra nauðsynlegt að ráðast í til að bæta nýsköpunarumhverfi á Íslandi? Svo spurði ég út í þá staðreynd, sem við höfum lengi vitað af, að fjöldi íslenskra einkaleyfa hefur verið lítill í samanburði við önnur lönd. Það hefur gjarnan dregið okkur niður í alþjóðlegum samanburði þegar rætt er um nýsköpunarlandið Ísland. Ég velti því fyrir mér hvort ríkisstjórnin hafi í hyggju að bregðast við með einhverjum hætti og þá hvernig.

Nýsköpun er einn af grunnþáttum stjórnarsáttmálans, enda kemur orðið fyrir í það minnsta 18 sinnum og í allflestum köflum stjórnarsáttmálans. Nýsköpun er líka mikilvæg alls staðar, bæði hjá hinu opinbera og í atvinnulífinu, hvort sem er í starfandi fyrirtækjum eða til þess að fjölga fyrirtækjum.

Ég held að við séum öll sammála um gildi nýsköpunar, en ég held við ættum öllu heldur að tala um nauðsyn. Nýsköpun er líka mjög fallegt orð, ég held að við getum öll verið sammála um það, en ég vonast til að við fáum eitthvað út úr því í dag hvernig nýsköpunarland við viljum vera, hvernig nýsköpunarumhverfi við viljum byggja á Íslandi.

Á vettvangi hæstv. ráðherra er unnin nýsköpunarstefna. Þess vegna finnst mér líka mikilvægt að taka umræðuna á þessum tímapunkti og vænti þess að það sem hér kemur fram geti orðið eitthvert fóður fyrir þá stefnu. Þrátt fyrir að við á Íslandi höfum sterkt atvinnulíf er það of fábreytt. Því þarf að breyta. Við þurfum fjölbreyttara atvinnulíf og fleiri sterkari stoðir. Efnahagur okkar má nefnilega aldrei byggja fyrst og fremst á einni atvinnugrein, vegna þess að við ætlum ekki að falla vegna falls einnar atvinnugreinar.

Ég tel mikilvægt að við förum vel yfir þetta mál og mikilvægi þess að hér sé mótuð nýsköpunarstefna sem byggir á sérstöðu Íslands. Ég held að nýsköpunarstefna Íslands geti aldrei orðið eins og nýsköpunarstefna Suður-Kóreu, Svíþjóðar eða Singapúr — nú nefni ég þau lönd sem standa fremst hvað varðar nýsköpun — og hefur aldrei verið eins, því að við eigum að byggja á sérstöðunni. En við eigum auðvitað að horfa til þess sem reynst hefur vel, bæði hér og erlendis.

Ég vil líka nota tækifærið og fagna framtaki Samtaka iðnaðarins og Viðskiptaráðs því að það er auðvitað nauðsynlegt að atvinnulífið komi með okkur í þessa vinnu.

Mig langar að nefna hér sem dæmi ýmislegt sem gengið hefur vel hjá okkur. Við í Vestnorræna ráðinu heimsóttum um daginn ORF líftækni, frábært nýsköpunarfyrirtæki sem selur ótrúlega mikið af íslenskum snyrtivörum. Þetta er erfðatæknifyrirtæki. Það selur flugfélögum íslenskar snyrtivörur. Fyrirtækið hefur meira að segja selt svo mikið að það hefur aldrei áður gerst á breska markaðnum að nú er selt meira af vörum frá þeim en af áfengi og tóbaki um borð í breskum flugvélum. Þetta litla fyrirtæki byrjaði sem lítill sproti á frumkvöðlasetri. Fjöldi fyrirtækja hefur orðið til í frumkvöðlasetrum á Íslandi. Ég fékk tölur um að 30 stærstu fyrirtækin sem starfað hafa á frumkvöðlasetrum hafi verið með veltu upp á tæpa 8 milljarða árið 2016. Þau eru með 390 starfsmenn þar sem kynjahlutfallið er mjög jafnt. Frá stofnun hafa þau fengið styrki upp á 1,8 milljarða, en á sama tíma hafa um 7 milljarðar komið frá einkafjárfestum. Það held ég að ætti að vera okkar nýja stóriðjustefna.

Klasar hafa einnig sannað gildi sitt og ég vænti þess að við ræðum um mikilvægi klasa og klasastefnu hér í dag. Þá vil ég leggja áherslu á að þrátt fyrir að Ísland sé eyja erum við ekkert eyland í þessari umræðu.

Það að vera hluti af EES, vera með EES-samningnum og vera hluti af því stóra markaðssvæði, skiptir auðvitað mjög miklu máli þegar kemur að þessum málum, bæði hvað varðar aðgang að markaði, aðgang að fjármögnun og ekki síst samstarf um rannsóknir og þróun á vettvangi Evrópusambandsins. Ég held reyndar að við ættum að horfa víðar en bara til Evrópusambandsins, fríverslunarsamningar og samstarf okkar við önnur ríki skipta miklu máli þegar við ætlum að byggja hér upp öflugt atvinnulíf.

Sjávarútvegurinn hefur staðið sig með eindæmum vel og ég held að við á Íslandi getum státað af því að vera með fremstu fyrirtæki á vettvangi sjávarútvegs og því höfum við fulla burði til að vera einhvers konar Sílikondalur sjávarútvegsins í heiminum.

Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að átta okkur á því að atvinnustefna okkar Íslendinga þarf í auknum mæli að snúa að því að nýta ekki náttúruauðlindir. (Forseti hringir.) Við þurfum að horfa til þess óþrjótandi hugarafls sem finnst hjá okkur, fólkinu sem byggir þetta land. Það getur verið alls konar.

Virðulegur forseti. Mig langaði að koma að fullt af atriðum, sem ég verð þá að koma að í næstu ræðu. En við skulum átta okkur á því að fjórða iðnbyltingin er í fullu fjöri og við Íslendingar eigum og ætlum að vera með í því fjöri.



[11:14]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni.

Nýsköpun er einfaldlega eitt stærsta hagsmunamál framtíðarinnar. Það er þannig að samfélög sem vilja vera samkeppnishæf við fremstu ríki heims mega ekki líta á nýsköpun sem eitthvað sem er notalegt að hafa heldur eitthvað sem er nauðsynlegt að hafa. Stundum ber á því í umræðu um nýsköpun að það sé eitthvað sem er svona frekar notalegt og ánægjulegt að hafa til hliðar en ekki eitthvað sem er okkur lífsnauðsynlegt. Með öðrum orðum, nýsköpun á ekki að vera álitin eitthvert hliðarverkefni heldur verkefni sem ber að setja í forgang. Það er það sem við erum að reyna að gera.

Nýsköpun er ein meginforsenda aukinnar verðmætasköpunar þjóðarinnar og nýsköpun í atvinnulífinu getur átt stóran þátt í að leysa þær samfélagslegu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á næstu árum, þá þannig að nýsköpun stuðli að því að við finnum lausnir á samfélagslegum áskorunum, en sömuleiðis að verðmætasköpun sem henni fylgir geri okkur kleift að standa undir þeim samfélagslegu áskorunum sem fram undan eru.

Stjórnvöld hafa á ýmsan hátt beitt sér fyrir því að auka veg nýsköpunar í landinu, m.a. með auknum framlögum í Tækniþróunarsjóð og auknum skattendurgreiðslum til fyrirtækja vegna rannsóknar- og þróunarverkefna. En við gerum okkur líka grein fyrir því að betur má ef duga skal ef við ætlum að finna okkur stað meðal fremstu þjóða á þessum vettvangi. Í því skyni er nú unnið að nýsköpunarstefnu fyrir Ísland á vegum ráðuneytisins með þverpólitískum samráðshópi.

Þegar nýsköpun hér á landi er skoðuð í alþjóðlegum samanburði má fyrst nefna að við eigum í góðu samstarfi við þjóðir beggja vegna Atlantshafsins um rannsóknir og þróun. Okkur hefur gengið vel að sækja styrki í erlenda samkeppnissjóði.

Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni að áhugi atvinnulífsins, frumkvæði, hugmyndir og aðgerðir atvinnulífsins skipta mjög miklu máli og er algjört lykilatriði. Ég fagna því mjög. Ég átti síðast fund með Viðskiptaráði nú í morgun, einmitt um þær tillögur sem það lagði fram.

Þegar rýnt er í tölfræði nýsköpunar má sjá að á árinu 2017 var 2,13% af vergri þjóðarframleiðslu varið í rannsóknir og þróun hér á landi og þar erum við aðeins yfir meðaltali Evrópuríkja. Á vettvangi Vísinda- og tækniráðs hefur þó verið sett það metnaðarfulla markmið að útgjöld til rannsókna og þróunar nái 3% af vergri þjóðarframleiðslu.

Annar mælikvarði á nýsköpunarframmistöðu okkar er svonefndur Global Innovation Index sem gefinn er út árlega og mælir nýsköpunarvirkni 126 ríkja. Á síðasta ári var Ísland í 23. sæti á þeim lista. Þar erum við í félagsskap með Eistlandi í 24. sæti og Nýja-Sjálandi í 22. sæti. Efstu sætin á þeim lista skipa hins vegar lönd sem við berum okkur gjarnan saman við og ættum að vilja geta gert í þessu samhengi líka, svo sem Sviss, Holland, Svíþjóð, Bretland, Bandaríkin, Finnland, Danmörk og Írland. Tölum sem byggja á erlendum greiningum má þó taka með nokkrum fyrirvara, sérstaklega í litlu hagkerfi eins og okkar þar sem einstakar breytingar geta haft mikil áhrif. Það er þó umhugsunarvert að á Global Innovation Index höfum við fallið um tíu sæti milli áranna 2017 og 2018, þ.e. úr 13. sæti í það 23.

Þegar rýnt er í tölurnar sem þar liggja að baki má sjá að við stöndum okkur vel á ýmsum sviðum og má gleðjast yfir að við skorum mjög hátt hvað varðar almenna innviði og stjórnmálalega umgjörð. Hins vegar kemur einnig fram að það sem kalla má skilvirkni nýsköpunar hér á landi minnkar heldur milli ára. Það er vísbending um að það starf og það fjármagn sem við beinum í nýsköpun skili sér einfaldlega ekki nægilega vel í fyrirtækjum í vexti og ekki nógu vel í útflutningi á afurðum sem byggja á hugviti og nýsköpun. Við erum m.a. ekki að skora nógu hátt í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að skráningum á einkaleyfum. Og það er nokkuð sem hv. þingmaður hefur nú þegar sett á dagskrá hér í þinginu og er málefni sem ég held að við ættum að reyna að gera enn betur í. Ég hef hug á að vinna að einhvers konar sterkari umgjörð utan um það hvað varðar regluverkið á næstu misserum. Að mörgu leyti snýst þetta nefnilega líka um viðhorf okkar og þekkingu á þessum málum hér á landi.

Svipaðar niðurstöður höfum við verið að í sjá fleiri greiningum, svo sem í nýlegri norrænni rannsókn á stuðningskerfi nýsköpunar og í skýrslu McKinseys frá árinu 2012. Þær greiningar eru að mínu mati ábending um að við þurfum að fara vel yfir hvernig við verjum fjármagni til nýsköpunar hér á landi, vegna þess að í stuðningi hins opinbera í nýsköpun eru ótrúlega háar fjárhæðir. Ég hef alltaf sagt að við þurfum að ná betri yfirsýn yfir það í hvað þessir peningar fara. Eru þeir allir á réttum stað? Eru þeir að vinna það gagn sem við viljum að þeir vinni? Það er einn af þeim stóru meginþáttum í þessari nýsköpunarstefnu, að þar er einmitt verið að skoða það. Í kjölfarið munum við þá væntanlega fara í einhverjar breytingar á því umhverfi til að ná betri niðurstöðu.

Við viljum hlúa að því frjóa umhverfi sem fyrirfinnst meðal frumkvöðla í atvinnulífinu og meðal þeirra sem stunda rannsóknir, þróun og skapandi greinar og við þurfum að beita okkur fyrir vexti slíkra sprota á alþjóðlegum mörkuðum.



[11:20]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Með leyfi:

„Ísland getur orðið fremst meðal jafningja, land þar sem hugvitsdrifin nýsköpunarfyrirtæki geta ekki bara orðið til heldur líka vaxið og orðið að burðarásum í hagkerfinu.“

Þessi orð hv. þm. Jóhönnu Vigdísar Guðmundsdóttur í nýlegri grein ramma mjög vel inn raunveruleikann. Við Íslendingar eigum sannarlega dæmi um það, til að mynda í sjávarútvegi, hvernig vel hefur tekist til að nýta þekkingu sem safnast hefur í gegnum tíðina til að finna nýjar og betri leiðir til að gera hlutina.

Við þurfum hins vegar að horfa til framtíðar og er ljóst að þar þurfum við að spýta í lófana og horfa vítt yfir sviðið, ekki síst til ungu kynslóðarinnar. Og þar þurfum við að horfa til menntakerfisins. Við eigum að kenna frumkvöðlahugsun alveg niður í leikskóla og við eigum tvímælalaust að vera fyrir löngu farin að kenna forritun sem eitt af grunntungumálunum. Öðruvísi breytum við ekki framtíðinni.

Ekki er síður mikilvægt að auka veg og vanda iðnmenntunar og iðnþekkingar. Þá sýnir reynslan hér og erlendis að mikilvægt er að hafa tryggt aðgengi að þolinmóðu fjármagni, styrkjum og auðvitað ráðgjöf og má sannarlega gera betur þar. Auðvitað hefur margt gott verið gert, mörg verkefni sem hafa skilað miklu. Má þar nefna, að öðrum ólöstuðum, nýsköpunarkeppni grunnskólanna, Verksmiðjuna, rekstur Fab lab-smiðja í framhaldsskólunum og fjölmörg nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefni í grunnskólunum.

Þetta þarf hins vegar að verða hluti af grunninum, hluti af því sem við lærum. Þar þurfum við að gera mun betur ef við ætlum okkur að vera samkeppnishæf í nýsköpun, í fyrirtækjum, en sömuleiðis til að Íslendingar séu samkeppnishæfir á alþjóðlegum atvinnumarkaði í framtíðinni. Við hljótum að vilja að Íslendingar geti nýtt sér tæknina til þess að skapa í stað þess að vera passífir neytendur.



[11:22]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og að ráðherra skuli taka þátt í henni. Við höfum séð mjög mörg dæmi undanfarin 20 ár um það hvert nýsköpun getur fleytt okkur. Við höfum séð fyrirtæki eins og Marel, Völku, Skagann, 3X og Kerisis spretta upp. Þau eiga eitt sameiginlegt, öll þessi fyrirtæki, þau hafa sprottið upp af þekkingu Íslendinga á sjávarútvegi. Ég held að ég hafi heyrt í þingræðu í fyrrahaust spá um að sá iðnaður sem sprettur upp af sjávarútvegi muni innan skamms tíma skapa okkur meiri gjaldeyristekjur en sjávarútvegurinn sjálfur. Það er í sjálfu sér tvennt sem til þarf að koma til þess að nýsköpun blómstri og verði sá burðarás og þá sá sproti sem við viljum, þ.e. að ríkið taki utan um iðn- og tæknimenntun. Eins og fram kom í svörum menntamálaráðherra áðan er ekki alveg skýrt, t.d. hvað iðnnema varðar, hvort á að greiða þeim leið í gegnum skóla með því að greiða fyrir starfsnám, en það er eitt af því sem er nauðsynlegt.

Annað er að af kannski 100 sprotafyrirtækjum sem stofnuð eru lifa tíu og við eignumst eitt Marel. Þetta eru bara hver 100. Hvað þarf til? Það þarf að aðstoða fyrirtækin, t.d. með því að lækka tryggingagjöld eins og við Miðflokksmenn höfum lagt til en ríkisstjórnin hefur ekki hlustað. Það eru ýmis skilyrði sem ríkið getur skapað til að aðstoða við þá þróun vegna þess að auðvitað er hún farseðill okkar inn í framtíðina og trygging fyrir því að hér verði fjölbreyttara og gróskumeira atvinnulíf.



[11:24]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu og fagna þeim áherslum sem komu fram hjá ráðherra sem minnti okkur á að unnið sé að nýsköpunarstefnu í Stjórnarráðinu, sem er löngu tímabært og vonandi að við náum að hrinda henni í framkvæmd sem fyrst. Þegar hún lítur dagsins ljós vona ég að við tökum sérstaklega á sjóðakerfinu. Mig langar að nefna tvo þeirra sem dæmi. Rannsóknasjóður úthlutaði nú í janúar 61 styrk sem er 17% hlutfall miðað við fjölda umsókna. Nýsköpunarsjóður námsmanna veltir 80 milljónum á ári til að styrkja nemendur sem sinna grunnrannsóknum í sumarvinnu. Með því að stórefla þessa tvo sjóði eina sér myndum við ná að búa til mjög frjóan jarðveg fyrir unga vísindamenn til að fara að skapa, þróa og nýskapa.

Mig langar örlítið að víkja að hlutverki hins opinbera við að fóstra grunnrannsóknir sem e.t.v. myndu ekki njóta framgangs í höndum einkaaðila. Hagnýtingarmöguleikinn stendur nefnilega stundum í vegi fyrir rannsóknum sem eru mjög mikilvægar þegar upp er staðið. Símarnir sem við erum með í vösunum væru ekki til án rannsókna opinberra háskóla í Bandaríkjunum. Sílikondalurinn væri hálftómlegur án opinbers fjár.

Eitt örstutt varðandi það hvernig hið opinbera getur með sinni nýsköpun lagt lóð á vogarskálarnar: Orð mín hér fara eftir að ég lýk máli mínu í vinnslu í tölvu Alþingis í gegnum talgreini. Það er ótrúlega spennandi þróun (Forseti hringir.) þar sem þessi fánýta auðlind sem malið í okkur kann að virðast vera fer í gegnum mylting og verður að jarðvegi fyrir nýsköpun á sviði máltækni, sem er eitt af þeim sviðum sem Ísland þarf að leggja mikla áherslu á.



[11:27]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þetta er ágæt umræða, það er gott að við tökum hana sem oftast. Ég þakka fyrir hana. Það er alltaf ánægjulegt að ræða um nýsköpun en það væri samt ánægjulegra ef meiri sýnilegur árangur væri í þeim málaflokki, við höfum öll hug á að bæta það, en allar þessar góðu hugmyndir verða að komast til framkvæmda.

Þegar við hugsum um samanburðinn við önnur lönd komum við ekki jafn vel út og við myndum óska okkur. Það er einkum í útflutningi, menntun og þroska hagkerfisins þar sem við skorum lágt á Global Innovation Index, þ.e. nýsköpunarkvarðanum. Því ber að fagna, og ég geri það, að Auðna-Tæknitorg tók til starfa nýlega til að stuðla að aukinni tækniyfirfærslu frá háskólasamfélaginu. Það er stórt skref sem hjálpa mun á öllum þessum veikleikasviðum.

En það er margt sem þarf að gera til að efla nýsköpun á Íslandi og hlúa að hagkerfinu okkar til að fleiri öflug fyrirtæki rúmist sem framleiða verðmætar vörur til útflutnings. Við eigum nokkur slík fyrirtæki en ég held að það komist fyrir nokkur í viðbót. Að bæta við fjórðu stoðinni í atvinnuvegi landsins hlýtur að byggjast á því að við búum til nýsköpunarstefnu, sem nú er verið að vinna vel að, en líka almennt iðnaðarstefnu sem fjallar um hvernig fyrirséð er að atvinnuvegirnir á Íslandi eigi að byggjast upp til framtíðar. Slík stefna gæti t.d. lagt áherslu á að auka nýsköpun í orkugeiranum til að Ísland geti verið fremst í heiminum í útbreiðslu endurnýjanlegra orkugjafa í tengslum við loftslagsbreytingar.

Við ættum sem land að setja okkur það markmið að flytja út loftslagslausnir til annarra landa vegna þess að við erum þrátt fyrir allt töluvert betur sett en flest lönd varðandi það. Við höfum ekki endalausar auðlindir til að vinna með varðandi atvinnuþróun og nýsköpun þannig að við verðum að vera mjög (Forseti hringir.) dugleg að velja markvisst hvað eigi að lifa og hvað eigi kannski síður að lifa, og skila okkur þeim niðurstöðum sem við viljum.



[11:29]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur þessa mikilvægu umræðu um nýsköpun og hæstv. ráðherra þakka ég fyrir innlegg hennar og ég ætla um leið að hrósa hæstv. ráðherra fyrir að taka af skarið með þá stefnumótunarvinnu sem er í gangi í hennar ráðuneyti.

Ef rýnt er í fjárlög undanfarin ár höfum við verið að setja meira fé til rannsókna og þróunar, bæði í gegnum sjóði og með ívilnandi aðgerðum, og mér finnst skilningur á mikilvægi nýsköpunar fyrir verðmætasköpun og ekki síður fyrir aðkomu stjórnvalda vera að aukast. Hæstv. ráðherra kom inn á tvo mælikvarða, vísbendingu um hvar við stöndum gagnvart öðrum þjóðum, landsframleiðslumælikvarðann þar sem við erum rétt yfir meðaltali Evrópuþjóða en eigum þó nokkuð í land með að ná 3% markmiði Vísinda- og tækniráðs. Hins vegar er heimslisti nýsköpunar, Global Innovation Index, forseti, þar sem við skörum síst fram úr. Við erum í 23. sæti og langt á eftir þjóðum sem við gjarnan vildum flokka okkur með. Hvað veldur? Skortur á fjárframlögum? Skortur á ívilnandi aðgerðum? Þekkingarskortur? Smæð hagkerfisins, skilvirkni fjármagnsins og eftirfylgni verkefna, veikir innviðir eða er það skortur á stefnu að við erum ekki nær þjóðum á borð við Svíþjóð, Noreg og Danmörku? Ég held að hluti af því sé að skýra, opinbera stefnu hefur vantað.

Vinna ráðherra er því fagnaðarefni og hæstv. ráðherra ræddi stuðningsumhverfið og betri nýtingu fjármagnsins og að efla samvinnu opinbera geirans, þar með talið sveitarfélaganna og einkageirans, atvinnulífs, stofnana og skóla. Ég er sammála hæstv. ráðherra en til þess þurfum við stefnu og aðferðafræði á borð við opinbera klasastefnu sem m.a. þær þjóðir sem ég taldi upp hafa beitt með mjög árangursríkum hætti.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það sé hluti af þessari stefnumótunarvinnu (Forseti hringir.) sem er í gangi og hvet um leið hæstv. ráðherra til að huga að opinberri klasastefnu.



[11:32]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta er afar brýn og þörf umræða og ber að þakka málshefjanda, hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, fyrir það. Hér hafa komið fram mörg sjónarmið og góðar ábendingar og ég held að það sé án nokkurs vafa að nýsköpun er nauðsyn. Framtíð samfélags okkar byggist á því að okkur takist vel til við að byggja upp nýjar atvinnugreinar sem byggja á nýsköpun, á hugviti og eru arðsamar og skapa verðmæt störf. Það er auðvitað gott að eiga sterkan sjávarútveg og öfluga ferðaþjónustu og reka stóriðnað af ýmsu tagi, en við þurfum miklu fjölbreyttara atvinnulíf. Það er eftir miklu að slægjast. Það nægir að nefna hið fræga fyrirtæki sem við erum öll stolt af, CCP, sem var selt á dögunum til Suður-Kóreu fyrir 46 milljarða íslenskra króna. Það gefur vísbendingu um það eftir hverju er að slægjast í nýsköpuninni.

Það sem er að mínu mati stærsta viðfangsefni okkar núna er að tryggja að þau nýsköpunarfyrirtæki sem verða til og ná tilteknum árangri geti vaxið og haldið sig sem lengst og helst alltaf á Íslandi. Þar skiptir mestu að almenn skilyrði til rekstrar slíkra fyrirtækja séu með þeim hætti að hægt sé að vera hér. Við blasir að fyrirtæki af því tagi þurfa fyrst og fremst stöðugleika og aðgengi að mörkuðum. (Forseti hringir.) Meðan við erum með blessaða krónuna og vaxtakjör eins og þau eru verður alla tíð mjög erfitt fyrir hin mörgu litlu fyrirtæki að verða stór og stolt.



[11:34]
Ólafur Ísleifsson (U):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Bryndísi Haraldsdóttur, fyrir mikilvæga umræðu og eins þakka ég hæstv. ráðherra fyrir þátttöku hennar. Ég ætla að víkja að einum þætti sem hv. málshefjandi hefur gert að umræðuefni, bæði í framsögu og í ágætri grein í Morgunblaðinu í morgun, en það er þáttur menntakerfisins. Við getum séð fyrir okkur eins konar keðju. Keðjan er svona: Það er þekking sem leiðir af sér nýsköpun, nýsköpun leiðir af sér aukna framleiðni og aukin framleiðni leiðir af sér aukinn hagvöxt. Við vitum hvað það þýðir: Bætt lífskjör og aukin velferð. Við erum stödd í innsta kjarna mála.

Herra forseti. Í vissum skilningi má líta á háskóla sem framleiðslufyrirtæki sem framleiðir þekkingu. Aðferðafræði í hverri grein er undirstaða þeirrar þekkingaröflunar. Háskólar verða að ástunda gagnrýna hugsun, draga fyrri niðurstöður óhikað í efa og spyrja spurninga. Þeir eru ekki verndað starfsumhverfi þar sem fólk getur verið óhult fyrir sjónarmiðum eða skoðunum sem því falla ekki geð og baráttuvísindi hvers konar eiga ekki erindi inn fyrir veggi í háskóla. Þekkingaröflun, reist á viðurkenndum aðferðum og frjálsri og gagnrýninni hugsun, er aðalsmerki hvers háskóla og þannig gegna þeir best hlutverki sínu. Það er mikilvægt að efla gæðaeftirlit með rannsóknum á háskólastigi og hlúa að rannsóknum, akademískum jafnt sem þeim sem stundaðar eru í atvinnulífinu sjálfu, (Forseti hringir.) með öllum ráðum.



[11:36]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja síðari ræðu mína á að þakka fyrir góða umræðu og hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að hafa haft frumkvæði að henni. Þó að þjóðir sem ekki eru ríkar að auðlindum, eins og t.d. Danmörk og Singapúr, hafi sannarlega meiri þörf fyrir að vera virkari í nýsköpun sjáum við það auðvitað í meiri áherslu á nýsköpun og stuðning við frumkvöðla. Ísland er svo heppið að vera í þeirri stöðu að vera ríkt að auðlindum en það er styrkleiki og tækifæri til að byggja á þekkingu okkar á auðlindum okkar, bæði tæknilausnir en ekki síður hvað varðar vöruþróun og þróun þjónustu með nýrri tækni eða lausnum.

Það eru þó ekki aðeins tækifæri til nýsköpunar í atvinnulífi heldur eigum við líka að líta til nýsköpunar í stjórnsýslunni, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Skemmtilegt dæmi um slíkt má finna í Blábankanum á Þingeyri þar sem samþætt hefur verið þjónusta ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila, og sömuleiðis búið til rými til nýsköpunar. Þessa þurfum við að horfa til og er einmitt tækifærið fyrir jafn lítið land og Ísland að nýta smæðina.

Við eigum að vera óhrædd við að hugsa stórt og horfa til reynslu annarra landa hvað varðar að beita jafnvel skattkerfinu til að stuðla að uppbyggingu nýsköpunar. Við þurfum að skapa nýsköpunarstefnu sem stuðlar að sköpun heilbrigðs vistkerfis fyrirtækja og samfélaga.

Herra forseti. Það er svo margt í þessari umræðu sem gagnlegt væri að ræða ítarlegar en í grunninn eru skilaboðin þau að nýsköpun er hverju landi lífsnauðsynleg og okkur ber skylda til að gera betur til að styrkja hana. Í því samhengi hlýt ég að nefna, eins og áður hefur komið fram, vinnuna við nýsköpunarstefnu Íslands sem er í vinnslu en mikilvægt er að hún endurspegli þær áskoranir sem tengjast fjórðu iðnbyltingunni og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, en sömuleiðis skiptir mjög miklu máli að fjármagn verði sett í hana til að fylgja henni eftir.



[11:38]
Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir umræðuna. Það sem mig langar að tala um er nýsköpun í sjávarútvegi og landbúnaði. Við vitum að sjávarútvegurinn hefur keyrt áfram stóran hluta af nýsköpun á Íslandi í gegnum fjárfestingar- og tækniþörf. Þar af leiðandi hefur hvatinn verið mikill þar. Hið sama hefur gerst nýverið í landbúnaðinum.

Icelandic Startups hefur í samstarfi við Íslenska sjávarklasann komið á fót svokölluðum viðskiptahraðli til sjávar og sveita og er þetta gert með fyrirtækjum og stofnunum, þ.e. í samstarfi við IKEA, Matarauð Íslands, HB Granda og Landbúnaðarklasann. Í morgun var t.d. kynningarfundur á þessum viðskiptahraðli til sjávar og sveita þar sem voru kynnt tvö ný fyrirtæki sem hafa sprottið upp úr matvælageiranum, Codland og Lava Seas.

Þetta er fyrsti viðskiptahraðallinn sem einblínir á nýjar lausnir og sjálfbæra verðmætasköpun í landbúnaði og sjávarútvegi. Viðskiptahraðlar eru svo sem ekki óþekktir á Íslandi, þeir hafa verið til í ferðamannaiðnaðinum og eins í orkugeiranum, að mér skilst, og eru mörg hundruð aðilar á hverju ári sem vilja nýta sér þessa hraðla.

Mig langar að nefna eitt gott dæmi um það sem nýsköpun getur gert. Það er fyrirtækið Heilsuprótein sem er í eigu KS og Mjólkursamsölunnar þar sem nýttar eru 50 milljónir lítra af mysu í um 350 tonn af próteini og bráðum 1,5 milljónir lítra af etanóli. Þarna er verið að nýta efni sem annars hefði farið í sjóinn þannig að þarna er líka verið að leysa ákveðið umhverfismál með miklu betri hætti en annars hefði verið. Það eru mjög mikil tækifæri í að fullvinna alls konar afurðir til sjávar og lands og má þar nefna þörunga og ýmis tækifæri í matvælavinnslu eins og ég kom inn á. (Forseti hringir.)

Það verður gaman að fylgjast með hvernig þessi viðskiptihraðall til sjávar og sveita mun vaxa á næstunni.



[11:41]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu eins og aðrir hafa gert hér og lýsi því svo sem yfir sem leikmaður að staða nýsköpunar er allgóð í landinu. Það er auðvitað hægt að skoða það með rauntölum en ég geri það huglægt og byggi það á að vera nokkuð kunnugur henni. Það eru mjög fjölbreytt verkefni í svona litlu þjóðfélagi sem blasa við og ég vil taka fram að hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sem hefur verið skýrt, hefur verið mjög mikilvægt. Hún hefur unnið mjög gott starf. Það eru mörg lítil fyrirtæki í landinu, það er kannski sérstaða Íslands. Þá kemur á móti að það er töluverður styrkur af klösunum og Klasasetri Íslands og nú er verið að mynda klasastefnu á Alþingi, sem er líka mikilvægt. Þetta eru þúsundir starfa og það er ekki aðeins að þetta sé mikilvægt fyrir atvinnulíf í landinu, heldur er það ákveðin útrás á sköpunarafli sem ég dáist að í raun og veru.

Ég tek undir orð hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur um að við þurfum að hyggja að því að dreifa kröftunum ekki of mikið, leggja áherslu á sérhæfingu, stærðar vegna og aðstæðna vegna hér á Íslandi. Ég legg líka áherslu á að það er stöðug þörf á því að endurskoða umhverfi og markmið nýsköpunar. Ég fagna því þess vegna að verið er að vinna að því að setja þá stefnu fram á vegum ríkisstjórnarinnar.

Það er líka þörf á því að auka ráðgjöf, það liggur í hlutarins eðli, efla styrkumhverfið og síðast en ekki síst, tryggja betri aðgang að upphafsfjármagni eftir að styrki þrýtur. Þar geta bankar komið að málum, ríki og fyrirtæki og við þekkjum Startup-kerfið sem verið hefur hér viðloðandi.

Herra forseti. Hér hefur heyrst almenn hvatning til þess að nýsköpun sé efld með öllum ráðum, mikilvæg fyrir hefðbundna atvinnuvegi og nýja atvinnuvegi (Forseti hringir.) og það er gleðilegt að sjá hér samstöðu. Ég vil sjá framtíðarsetur og framtíðarþingnefnd til frambúðar.



[11:43]
Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir síðustu orð hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar um framtíðarþingnefnd til frambúðar. Við erum svo sem með framtíðarnefnd sem er á vegum forsætisráðherra í bili og hún starfar nokkuð vel, að ég tel.

Mér finnst gott að sú mýta hafi verið afskrifuð endanlega í umræðunni af mörgum hv. þingmönnum að hlutverk hins opinbera í nýsköpun sé að hafa skattana lága og sitja svo við hliðarlínuna. Virk aðkoma stjórnvalda við stefnumótun og stuðning við atvinnuvegi skiptir máli og auðvitað er ýmislegt sem þarf að gera. Við þurfum fyrst og fremst að búa til hvata fyrir fyrirtæki til að lengja framleiðslukeðjuna og flytja út fullunnar vörur. Það er í löngum virðiskeðjum sem nýsköpun nýtist best. Líka er gagnlegt að slá niður óþarfaaukagjöld á stofnun og rekstur fyrirtækja, laga samkeppnissjóðina, sameina suma og efla þá alla, heimila umbreytanleg skuldabréf þannig að áhættufjárfestingar verði álitlegri o.fl.

Ég vil líka meina að afskaplega gagnlegt væri ef hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra myndi taka við boltanum af utanríkisráðherra um að tryggja inngöngu Íslands í Geimferðastofnun Evrópu, ESA. Ég segi það vegna þess að Alþingi hefur ályktað um að við eigum að ganga í þau samtök og stofnun en utanríkisráðherra hefur því miður ekki gert neitt í málinu. Augljós ávinningur væri af því að við tækjum þátt í slíku samstarfi. Það eru fáar jafn einfaldar og ódýrar vítamínsprautur fyrir nýsköpun sem eru aðgengilegar okkur. Einnig væri gagnlegt að koma á nýjum þróunarbanka á borð við þá sem hafa þekkst erlendis og sem vinna að efnahagslegum markmiðum, veita m.a. ódýr lán til fyrirtækja (Forseti hringir.) til að byggja upp verðmætar útflutningsvörur o.fl. En kannski er mikilvægast í því að við hættum að trúa því að lækkun skatta sé eina leiðin til árangurs. Það er svo margt jákvætt sem hægt er að gera — gerum það.



[11:45]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu þar sem mjög margt mikilvægt hefur komið fram, m.a. að við höfum mikla þörf fyrir nýsköpun í samfélaginu til að auka framleiðslu og fjölbreytni og byggja þannig undir áframhaldandi velferð í landinu. Til þess þurfum við að tryggja aðstæður til að nýsköpun blómstri og til að fjárfesting í nýsköpun skili afrakstri til samfélagsins. Hér þarf því þolinmæði.

Nú er unnið að nýsköpunarstefnu fyrir Ísland og ég er svo heppin að fá að taka þátt í þeirri vinnu og höfum við miklar væntingar til þess ferlis sem þar er í gangi. Hvetjandi umhverfi fyrir nýsköpun er margþætt. Skólakerfið allt frá leikskóla til hæstu gráðu háskóla er í lykilhlutverki eins og nokkrir þingmenn hér hafa farið yfir. Þar skiptir góð grunnmenntun öllu máli, auk tækifæra til að prófa fjölbreytt viðfangsefni og nálægð við atvinnulíf. Þeir sem hljóta góða grunnmenntun geta tileinkað sér tækniþekkingu, þekkingu á forritun, líftækni og ótal margt fleira og tengt saman greinar.

Við megum aldrei gleyma því heldur að grunnur forritunar er tungumálið stærðfræði og þekking á rökhugsun en ekki öfugt. Nýsköpun getur sprottið úr öllum geirum samfélagsins, rótgrónum atvinnuvegum og opinbera geiranum. Hún byggir á því að fólk með frjóa hugsun og góða menntun kemur auga á ný tækifæri.

Ein af stóru áskorununum við mótun nýsköpunarstefnu er að tryggja samspil alls landsins við nýsköpun, fólks, atvinnulífs og náttúrulegra auðlinda. Nýsköpun er ekki einangrað fyrirbæri, nýsköpun fer fram í sambúð en ekki fjarbúð atvinnulífs og þekkingar, (Forseti hringir.) staðbundinnar og alþjóðlegrar þekkingar.



[11:48]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég held að að mörgu leyti stöndum við okkur afskaplega vel í því að hvetja fólk til nýsköpunar og hjálpum fólki gjarnan í fyrstu skrefunum. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra: Hvernig getum við aukið vöxt þessara fyrirtækja og tryggt að það sem er sett í þetta kerfi skili árangri? Það er auðvitað mjög margt sem þar kemur til en ég vil nefna að styrkir og aðstoð af ýmsu tagi er góðra gjalda vert og bráðnauðsynlegt en síðan þarf að búa þannig um hnúta að fjárfest sé í þeim fyrirtækjum sem eru komin á vaxtarskeið, að þau hafi tækifæri til þess. Sem betur fer höfum við ýmsa sjóði sem sinna því verkefni en gera þarf betur. Það dregur hugann að því að í umsjá ríkisins er Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins sem fjárfestir í fyrirtækjum og hefur gert það ágætlega en ég held að tími sé kominn til að endurskoða hlutverk hans í því augnamiði að hann verði meira að svokölluðum sjóðasjóði, þ.e. að hann fjárfesti, verði meðfjárfestir eða fjárfesti hreinlega í öðrum sjóðum sem fjárfesta svo aftur.

Það minnir mig á að fyrir u.þ.b. ári lagði ég fram fyrirspurn um framtíð Nýsköpunarsjóðs og þá var von á skýrslu um það á næstu vikum. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja ráðherrann hvort sú skýrsla liggi fyrir eða hvort verið sé að taka ákvarðanir um breytingar á stöðu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.



[11:50]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og öllum hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu sem ég held að hafi verið mjög gagnleg og málefnaleg. Mig langar líka að nefna hér að ég held að það sé mikilvægt að við horfum til samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja og hvernig við getum unnið með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og notað þau í hvatakerfi okkar þegar kemur að nýsköpunarumhverfinu. Þegar við ræðum hvatana kom ráðherra inn á það, og við þekkjum það vel hér, að við vorum að hækka endurgreiðsluþakið svokallaða til rannsókna og þróunar og við ýttum enn frekar undir fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum. Ég held að þetta séu mikilvægir hvatar. Við þurfum samt að huga vel að því hver næstu skref verða. Er rétt að afnema þakið alveg eða eigum við frekar að huga að hækkun hlutfallsins? Hvernig er fjármununum best varið hvað þetta varðar?

Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni sem kom inn á menntakerfið sem aldrei er hægt að taka út úr umræðunni um nýsköpun og þarf alltaf að vera forsenda þess og eins það sem kom hér fram um grunnrannsóknir. Þó að við séum hér fyrst og fremst að horfa á hagnýtingargildi og nýsköpun eru grunnrannsóknir alltaf mikilvægur hlutur af því og þá spilar menntakerfið okkar og háskólaumhverfið mjög stóran hlut.

Við skulum líka muna eftir því að stærstu fyrirtæki heimsins í dag voru vart til fyrir 10–15 árum þannig að við gætum verið að tala um að stærstu fyrirtæki á Íslandi væru að gera eitthvað sem við vitum ekki einu sinni í dag hvað er.

Margt er vel gert, en það er margt sem má gera betur. Þá held ég að við þurfum fyrst og fremst að horfa til framtaksfjárfesta og hvernig við getum stuðlað að og byggt frekar undir framtaksfjárfestingar.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan og kom ágætlega fram í máli hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar um sérfræðiþekkinguna og sérstöðu Íslands. Horfum sérstaklega til þess. Sjávarútvegurinn hefur gert ótrúlega hluti og við eigum að byggja á því. Þá langar mig líka að nefna norðurslóðamál, hvaða tækifæri liggja hjá Íslandi í að vera miðstöð þekkingar og nýsköpunar (Forseti hringir.) á sviði norðurslóðamála.



[11:53]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Mig langaði að nýta þessar tvær mínútur í að draga nokkra hluti saman og bregðast við því sem ég get komið að í minni seinni ræðu. Við þurfum sem sagt að einbeita okkur að því að gera stuðningsumhverfi skilvirkara, minnka flækjustig og auka samstarf milli þeirra aðila sem mynda vistkerfi nýsköpunar hér á landi. Hér erum við m.a. að ræða um aukið samstarf milli opinberra aðila og fjárfesta í einkageiranum, sem og aukið samstarf við erlenda fjárfesta og sjóði sem og að tengja betur saman háskóla og atvinnulíf.

Hér er oft rætt um óþrjótandi hugvit annars vegar og auðlindir hins vegar og oft auðvitað saman en ég vildi leggja áherslu á að samspilið hér er mikilvægt og þetta hangir algjörlega saman. Það er ekki annaðhvort eða heldur gengur þetta óþrjótandi hugvit m.a. út á það að nýta þessar takmörkuðu auðlindir betur og betur, þ.e. gera meira úr því sama. Það skiptir auðvitað máli að öll almenn umgjörð sé hagfelld, regluverk sé skýrt, fyrirsjáanlegt og einfalt, að hér getum við gert betur, stjórnmálalegur stöðugleiki sé til staðar, heillandi samfélag, sem mér finnst nokkuð sem við ættum að gera meira út á, sérstaklega þegar kemur að erlendum sérfræðingum, t.d. eru ekki mörg lönd í heiminum þar sem er eins gott að samhæfa vinnu og fjölskyldulíf. Fyrir ungar konur sem vilja fara í nýsköpun eru ekki mörg lönd í heiminum, ef nokkur, þar sem jafn auðvelt er að vera kona. Ég held að þetta séu atriði sem við tökum sem of sjálfsögðum hlut en þurfum svolítið að nota sem hluta af okkar ásýnd eða ímynd og koma því vel á framfæri.

Stefnan á að líta dagsins ljós í maí og þess vegna er rétt röð að klára hana og fara svo í þessar aðgerðir.

Hugverkavernd er annað atriði sem mér finnst skipta máli. Hún þarf að vera sterk, menntakerfi gott eins og hér var komið inn á. Þegar rætt er um Sílikondal er verið að vísa til þess hvað við þurfum að fá hér. Við þurfum (Forseti hringir.) líka okkar klasa. Við erum auðvitað með marga sterkar klasa, sjávarútvegs-, orku-, ferðaþjónustu-, tækniklasa o.s.frv., (Forseti hringir.) en það er í miklu nánara samstarfi háskólasamfélags, frumkvöðla og atvinnulífs þar sem allt verður til. Þess vegna verð ég að taka undir með orðum hv. þingmanns (Forseti hringir.) um fjarbúð og sambúð, mér finnst það fanga umræðuna mjög vel. Við erum í of mikilli fjarbúð, okkur vantar meiri sambúð.