149. löggjafarþing — 65. fundur.
meðferð sakamála, 1. umræða.
frv. ÞorS o.fl., 234. mál (bann við myndatökum og hljóðupptökum í dómhúsum). — Þskj. 249.

[15:58]
Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Hæstv. forseti. Það er mér sönn ánægja að geta mælt fyrir frumvarpi sem lagt var fram á þingi í október sl., það hefur beðið þess að komast á dagskrá. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum, þ.e. um bann við myndatökum og hljóðupptökum í dómhúsum.

Sá sem hér stendur hefur allt frá því að hann settist fyrst á þing árið 2013 haft í huga að leggja frumvarpið fram aftur. Það var lagt fram fyrst á 141. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu, en ég hef svo sem ekki komið því í verk fyrr. Meðflutningsmenn mínir á þessu máli eru Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason, Þorgrímur Sigmundsson og Sigurður Páll Jónsson.

Þetta mál er í sjálfu sér mjög einfalt. Um er að ræða breytingu á 1. mgr. 11. gr. laga nr. 88/2008. 1. gr. þessa frumvarps hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi eða í dómhúsum. Dómari getur veitt undanþágu frá þessu banni ef sérstaklega stendur á, enda sé þess gætt að myndatökum og hljóðupptökum verði ekki beint að aðilum dómsmáls án samþykkis þeirra. Ef tekið hefur verið upp hljóð eða teknar myndir í þinghaldi án leyfis dómara er óheimilt að birta þær hljóðupptökur eða myndir. Einnig eru óheimilar myndatökur og hljóðupptökur af sakborningum, brotaþolum eða vitnum á leið í dómhús eða frá því án samþykkis þeirra.“

Hvatinn að því að þetta mál er nú endurflutt er einkum sá að þrenns lags aðilar verða fyrir óþægindum af myndatökum í og við dómsali. Það er í fyrsta lagi þeir sem kallaðir eru til vitnisburðar, í öðru lagi þeir sem kallaðir eru í skýrslutöku og/eða yfirheyrslu, jafnvel með réttarstöðu grunaðs, en eru engu að síður saklausir. Það er í mörgum tilfellum nóg. Þetta veit hæstv. forseti miklu betur en sá sem hér stendur að það er út af fyrir sig oft nóg að það birtist mynd af einhverjum manni á leið í dómsal eða frá til að viðkomandi sé stimplaður sekur um eitthvert athæfi sem hann hefur alls ekki komið nálægt. Þetta er sem sagt ein kveikjan að þessu.

Það er líka um það að ræða að þolendur, sem eiga oft mjög erfitt með að nálgast brotamann, verða fyrir óþægindum af því að vera í myndatöku eða teknir upp á leið að eða frá eða í dómsal.

Hin hliðin á þessum peningi er kannski sú að við höfum líka dæmi um að síbrotamenn virðast leggja upp úr því að af þeim séu teknar myndir á leið að eða frá dómhúsi, sem einhvers konar „status symbol“ eða yfirlýsingu um athæfi þeirra.

Á sama tíma er það svo að þegar myndir birtast sem eru teknar í eða við dómhús er það þannig með löggæslumenn sem fylgja viðkomandi til eða frá dómhúsi að andlit þeirra eru ekki hulin. Þeir sem hafa unnið með löggæslufólki í gegnum tíðina, og ég er svo heppinn að hafa gert það, vita að af þessu geta hlotist óþægindi og afleiðingar fyrir þá sem vinna þessi störf og eru þau ærið vandmeðfarin fyrir þó að ekki sé verið að leggja óþarfaathygli á menn og persónu þeirra við störf. Um þetta eru fjölmörg dæmi, því miður.

Málið er því brýnt og í sjálfu sér má segja að það sé orðið æ brýnna eftir því sem tímar líða og tækninni fleygir fram. Eins og við vitum er miklu auðveldara núna og minna fyrir því haft að taka upp mynd og hljóð hvarvetna, ekki síst í því viðkvæma umhverfi sem dómhús eru. Þetta ákvæði sem nú er lagt til að verði sett inn í lög um meðferð sakamála á sér hliðstæðu, bæði í norskri og danskri löggjöf.

Rétt er að taka það fram og það kemur fram í greinargerð, með leyfi hæstv. forseta:

„Ákvæðinu er ekki ætlað að ná til myndatöku og hljóðritunar sem fram fer á vegum dómstólsins sjálfs, og eru þar hafðar í huga þær upptökur sem eru eðlilegar við rekstur dómstólsins, svo sem hljóðritun á framburði vitna og hefðbundin notkun öryggismyndavéla. Þá er gert ráð fyrir því að dómari geti heimilað myndatöku og hljóðritun með sérstöku leyfi og er þar átt við upptökur er ekki snerta aðila dómsmáls, sem eru í dómhúsinu vegna málsins. Má hér hugsa sér myndatöku vegna almennrar fréttar um dómstólinn eða viðtals við dómara o.s.frv.

Í dönskum réttarfarslögum (d. retsplejeloven) er meginreglan sú að hljóðritun eða myndatökur eru bannaðar, samanber 1. mgr. 32. gr. laganna. Enn fremur eru myndatökur í dómhúsum bannaðar, nema með sérstöku leyfi, samanber 5. mgr. 32. gr. sömu laga. Sama gildir um myndatökur af grunuðum mönnum, sakborningum eða vitnum í sakamáli sem eru á leið til eða frá þinghaldi, samanber 6. mgr. sama ákvæðis.“

Þar kemur það einmitt fram sem kom fram í inngangsorðum mínum að þetta kann að valda aðilum máls erfiðleikum, þ.e. vitnum og sakborningum, sem ekki hafa fengið dóm. Og það er náttúrlega í sjálfu sér ekki nema eðlilegt að ekki sé reynt að gera fólki sem hefur annaðhvort réttarstöðu grunaðs eða sakbornings erfiðara fyrir en þörf er á. Nógu þungbært er þetta samt, ég tala nú ekki um sérstakt vitni og/eða þolendur að sama skapi.

Í Noregi svipar ákvæðum nokkuð til dönsku reglnanna. Myndatökur og hljóðritanir í þinghaldi eru bannaðar í sakamálum og einnig er bannað að hljóðrita eða taka myndir af sakborningi á leið eða til og frá dómhúsi eða þinghaldi, samanber 131. gr. a laga um þessi mál í Noregi. Heimilt er þar að víkja frá þessu ákvæði ef veigamikil rök mæla með því.

Það hefur færst mjög í vöxt að reynt sé að ná myndum af aðilum og vitnum í dómsmálum þegar þeir sinna erindum sínum eða eru kallaðir fyrir dómara í dómhúsum. Þetta á einkum við í opinberum málum. Síðustu ár hefur jafnvel verið tíðkað að beina myndavélum inn í dómsali þegar dyr eru opnaðir meðan á þinghaldi stendur, svo sem þegar nýtt vitni gengur í salinn. Leiðir það til þess að hinn ákærði og vitni þurfa jafnan að hafa vara á sér að þessu leyti meðan á þinghaldinu stendur í stað þess að einbeita sér að málsvörn sinni eða vitnaleiðslu. Þykja þessar aðstæður vera til þess fallnar að trufla málsaðila, enda hafa þær slæm áhrif á bæði sakborninga og vitni. Dæmi eru um að vitni hafi viljað koma sér undan því að bera vitni vegna þessa.

Eins og ég drap á áðan hefur tækninni fleygt mjög fram. Allir farsímar nánast og spjaldtölvur eru með innbyggðar myndavélar og myndavélar hafa bæði smækkað og orðið auðveldari í meðförum. Til dæmis er hægt að taka mynd af skjölum í dómsal eða skjölum í fórum sakborninga eða vitna í dómhúsi. Slíkar myndatöku geta haft óeðlileg áhrif á gang mála.

Meginreglan er náttúrlega sú, eins og vitað er, að þinghöld skulu háð í heyranda hljóði, samanber 10. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Sú regla er ekki skert með því að banna myndatökur af aðilum máls inn í dómhúsið eða nálægt því eins og tíðkast í Danmörku og Noregi. Sú takmörkun sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu sem hér er til meðferðar gengur ekki of nærri meginreglunni um opin þinghöld að mati þeirra sem flytja þetta mál.

Hæstv. forseti. Ég þykist vita að margir séu andstæðingar þessa máls í þjóðfélaginu. Ég þykist vita að t.d. blaðamannastéttin sé ekki mjög sátt við ákvarðanir af þessu tagi því að þetta takmarkar auðvitað möguleika fréttamanna til að flytja sem nákvæmastar fréttir eða nákvæmastar upplýsingar um allt sem kemur nálægt dómhúsum eða dómstólum. En ég verð að segja að við flutningsmenn frumvarpsins teljum að réttur eða málsástæður þeirra sem í hlut eiga, þ.e. grunaðra sakborninga, vitna eða þolenda, séu ríkari en fréttamiðla til að miðla fréttum af veru þessara aðila í eða við dómhús. Við höfum orðið þess vör undanfarin ár að fréttamennska verður æ ágengari og þar sem allir eru komnir með myndavélar í símana sína höfum við t.d. tekið eftir þessu í slæmum umferðarslysum þar sem vitni eða þeir sem koma að fyrst byrja á því að taka mynd og henda henni út í alheiminn áður en tekið er til við að huga jafnvel að þeim sem hafa verið á slysavettvangi eða hafa orðið fyrir slysi.

Þetta er kannski svona viðleitni í þá átt að vernda persónur og persónuleg réttindi og réttindi og friðhelgi til einkalífs þeirra sem verða fyrir þeirri reynslu að vera kallaðir fyrir dómara af þeim ástæðum sem ég hef greint hér að framan, sem sakborningar, vitni eða þolendur eða af hvaða ástæðum sem það er.

En ég hef líka heyrt, m.a. frá virtum lögmönnum, að þeir eru hlynntir ákvæði sem þessu og hafa tekið undir þann málflutning sem kemur fram hér í greinargerð. Ég er þakklátur fyrir það, hæstv. forseti, því að álit slíkra sem um fjalla og hafa vit á og þekkingu og reynslu eru mikils virði þegar mál sem þetta er flutt.

Að þessu sögðu tel ég að ég hafi gert þokkalega grein fyrir því hvernig í þessu máli liggur, af hverju það er komið fram, af hverju er nauðsynlegt að það fái greiða leið í gegnum þingið og vænti þess að það fái góða umfjöllun. Það kemur reyndar ekki fram í frumvarpinu til hvaða nefndar þingsins frumvarpið fer. Ég vænti þess að það fari til allsherjar- og menntamálanefndar og vænti þess að sú ágæta hv. þingnefnd taki málið og veiti því vandaða umfjöllun og að það megi ganga fram, því að auðvitað eigum við öll að geta sameinast um að vernda einmitt persónu þessara aðila sem ég hef gert að umtalsefni í ræðu minni.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.