149. löggjafarþing — 68. fundur.
staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum, fyrri umræða.
þáltill. GBr o.fl., 152. mál. — Þskj. 152.

[15:48]
Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum. Auk þess sem hér stendur eru meðflutningsmenn tveir valinkunnir þingmenn, Haraldur Benediktsson og Halla Signý Kristjánsdóttir. Tillagan hljóðar á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að ráðast í staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll fyrir Vestfjarðafjórðung sem taki mið af vaxandi ferðamannastraumi, aukinni matvælaframleiðslu, iðnaði og þörf fyrir flutning aðfanga og afurða, bæði innan lands og utan. Í könnuninni felist langtímaveðurfarsmælingar og mat á náttúrulegum aðstæðum. Þá verði hagkvæmni staðsetningar metin með þarfir fjórðungsins í huga þegar jarðgöng og vegaframkvæmdir hafa náð að skapa forsendur fyrir norður- og suðurhluta Vestfjarða sem eitt atvinnu- og búsetusvæði.“

Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu segir að tillagan sé lögð fram í því skyni að ýta undir umbætur hvað varðar flugsamgöngur á Vestfjörðum. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar voru vegasamgöngur í Vestfjarðafjórðungi frumstæðar og eru það raunar enn á því herrans ári 2019. Á þeim tíma var einungis um malarvegi að ræða sem voru fæstir uppbyggðir og lokuðust því í fyrstu snjóum. Fyrir vikið var komið upp fjölda lítilla flugvalla á Vestfjarðakjálkanum sem urðu mest 25 talsins í reglulegri notkun en þróunin hefur orðið sú að nú eru einungis sjö vellir á skrá hjá flugmálayfirvöldum.

Þrír stærri flugvellir voru gerðir við helstu þéttbýliskjarnana, þ.e. Ísafjörð, Þingeyri og Patreksfjörð. Staðarval mun hafa ráðist af landfræðilegum aðstæðum og þeirri framkvæmdagetu til jarðvinnslu sem í boði var á þeim tíma. Lítið eða ekkert tillit var hægt að taka til mikilvægra þátta eins og veðurs, vinda og blindaðflugs enda eru öll blindaðflug á Vestfjörðum fremur frumstæð og oft er ófært vegna misvinda.

Virðulegur forseti. Nokkuð bættar samgöngur á landi undanfarna áratugi hafa breytt stöðunni. Almenningur og fyrirtæki reiða sig á vegasamgöngur í auknum mæli, m.a. þar sem flugsamgöngur eru óáreiðanlegar vegna veðurs og lendingarskilyrða. Vesturbyggð hefur orðið afskipt þegar kemur að vegasamgöngum þótt nú hilli undir bjartari tíma að því leyti til. Akstursvegalengdir og heilsársfærð munu væntanlega halda áfram að þróast í jákvæða átt. Flugsamgöngur í núverandi mynd breytast eflaust með sama hætti.

Virðulegur forseti. Flug er erfitt í fjalllendi og fyrir því eru tvær meginástæður. Önnur ástæðan er misvindi þegar hvasst er en hin ástæðan er áhrif skyggnis og skýjahæðar á blindaðflug. Bæði vandamál má lágmarka með góðu staðarvali. Þar við bætast mjög auknar kröfur varðandi aðflug, fráflug og alla umgerð áætlunarflugvalla. Eina leiðin til að gera flugsamgöngur áreiðanlegri er að gera nýja flugvelli, eða nýjan flugvöll eins og hér er tillaga um, þar sem vel er hugað að staðarvali.

Nútímaflugsamgöngur fyrir fólksflutninga innan lands eru dýrar vegna smæðarinnar. Sem dæmi má nefna að umsvif og mannafli sem þarf til að búa 19 sæta flugvél til flugs er tiltölulega litlu minni en fyrir stærri tegundir flugvéla en kostnaður fyrir hvert sæti óneitanlega meiri fyrir minni flugvélar.

Þess má geta að nú fljúga vestur á firði minni vélar í ríkustum mæli og Flugfélag Íslands flýgur ekki lengur á stærri vél sem það hefur til umráða þar sem hún hentar ekki fyrir Ísafjarðarflugvöll.

Mikil fjölgun hefur verið á komum erlendra ferðamanna til landsins eins og kunnugt er. Þeir hafa þó að langmestu leyti farið um Keflavíkurflugvöll við komu sína til landsins. Líklegt er að í verulegum mæli megi hafa áhrif á þá þróun með breyttum áherslum og skipulagi. Skoða þarf vandlega hvort mögulegt sé að skapa landinu sterkari stöðu sem viðkomustað fyrir skilgreinda hópa ferðalanga, sem dæmi aðila sem njóta vilja náttúru landsins á friðsælum stöðum, t.d. á Vestfjörðum. Slíkir hópar myndu t.d. sækja í sjóferðir, siglingar, gönguferðir, jöklaferðir og sögu- og náttúruskoðun svo eitthvað sé nefnt. Með flugvelli miðsvæðis í fjórðungnum sem gæti tekið á móti 70–100 sæta farþegavélum væri hægt að fljúga beint inn á svæðið án viðkomu í Keflavík. Þar með væri dregið úr álagi á flugvöllinn í Keflavík og möguleikar alls landsins sem ferðamannalands betur nýttir.

Hvað sjúkraflutninga varðar hefur talsvert dregið úr viðbúnaði á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða samhliða því sem kröfur um markviss og skjót viðbrögð í heilbrigðisþjónustu aukast. Sjúkraflug mun um fyrirsjáanlega framtíð vera óhjákvæmileg og brýn þjónusta. Bættur áreiðanleiki í flugsamgöngum með nýjum, vel staðsettum flugvelli gæti haft grundvallarþýðingu ef aðstæður í heilbrigðisþjónustu breytast ekki þeim mun meira, sem er í raun þvert á þá þróun sem verið hefur á landsbyggðinni. Þess er þó að vænta að ný heilbrigðisstefna efli kjarna heilbrigðisstofnana úti á landi til verðugri verkefna.

Virðulegur forseti. Millilandaflugvöllur eykur möguleika til vöruflutninga og gefur aukið færi á að koma ferskum sjávarafurðum fljótt á markað erlendis. Í dag er sá kostur einungis tiltækur fyrirtækjum á suðvesturhorni landsins. Alþjóðaflugvellirnir á Akureyri og Egilsstöðum hafa einungis verið notaðir með takmörkuðum hætti til slíkra flutninga.

Með vaxandi uppbyggingu í fiskeldi á svæðinu auk hefðbundinnar vinnslu bolfisks er jafnframt athugunarefni hvort ekki skapist markaðslegar forsendur til flutnings á ferskum afurðum beint til kaupenda erlendis.

Virðulegur forseti. Núverandi aðstæður almennt til flugs hafa alla tíð verið frumstæðar á Vestfjörðum. Það er enginn fullbúinn flugvöllur á Vestfjörðum eins og sakir standa. Flugvallarstæði á Patreksfirði hefur þann kost að vera á stóru sléttlendi og því hægt að hafa umgjörð eins og öryggissvæði samkvæmt núverandi stöðlum. Þessi flugvöllur hefur hins vegar verið tekinn úr notkun og menn reiða sig á Bíldudalsflugvöll. Staðsetning á Bíldudal er eins góð og hugsast getur hvað varðar vinda en völlurinn er aðþrengdur hvað varðar blindaðflug og fráflug. Sá völlur verður því alltaf sjónflugsvöllur samkvæmt skilgreiningum. Hann er stuttur en þar sem tiltölulega litlar vélar fljúga á þetta svæði hefur hann talist allgóður til þessara nota. Á Þingeyri er enn einn sjónflugsvöllurinn og ekki er hægt að fljúga blindflug vegna fjalla í grennd. Enn fremur er brautin í vestanverðum Dýrafirði, nærri hæsta og krappasta fjallgarði á Vestfjörðum. Flugvöllurinn er því ófær vegna vinda í hvössum vestlægum áttum og auk þess myndar hið rómaða fjall Sandafell hindrun við flugtak til suðausturs sem þrengir fráflug.

Flugvöllur þessi var endurbættur fyrir allnokkrum árum til að þjóna sem varaflugvöllur fyrir Ísafjörð í hvössum og óhagstæðum áttum en flugrekandinn sem þjónar Ísafirði hefur ekki kosið að nota hann sem slíkan. Meta þarf sérstaklega kosti Dýrafjarðar í flugsamgöngum fyrir Vestfirði að áliti þess sem hér stendur og flutningsmanna með bættum samgöngum á milli suður- og norðursvæðis Vestfjarða. Flugvöllur í Dýrafirði yrði miðsvæðis með tilkomu Dýrafjarðarganga en núverandi staðsetning rýrir notagildið óneitanlega verulega.

Ísafjarðarflugvöllur er auðvitað sá flugvöllur sem við reiðum okkur mest á á Vestfjörðum og þangað eru komur tíðastar. Flugvöllurinn er barn síns tíma. Staðsetningin er óheppileg, bæði aðflug og fráflug eru afar aðkreppt og í austlægum áttum getur orðið mjög misvinda. Margir hafa flogið til Ísafjarðar og lýsa þeirri reynslu með ýmsum hætti, sem mikilli upplifun, skelfilegri lífsreynslu, allt að lífsháska og telja sig naumlega heimta úr helju þegar þeir stíga út úr flugvélinni. Völlurinn er notaður í flugheiminum sem dæmi um einn mest krefjandi lendingarstað í áætlunarflugi í heiminum. Flugáhugamenn horfa til Ísafjarðarflugvallar sem ævintýrastaðar með áhættuívafi. Þrátt fyrir þær staðreyndir hefur farþegaflug um Ísafjarðarflugvöll verið farsælt í gegnum tíðina, sem betur fer, og vonandi verður svo áfram meðan hann er í notkun.

Það þarf að finna aðra og betri staðsetningu, t.d. hefur verið nefndur norðanverður Skutulsfjörður, mynni hans, þar megi koma fyrir allt að 1.200 metra braut. Sú staðsetning er sambærileg við staðsetningu Bíldudalsflugvallar og leysir nánast öll vandamál varðandi vind. Bæði aðflug og fráflug yrði miklum mun rýmra. Leggja þarf mat á kostnað og ábata af byggingu flugvallar á þeim stað.

Í ljósi reynslu og íslenskrar flugsögu er tæpast skynsamlegt að veita fé til framkvæmda nema hægt sé að uppfylla nútímakröfur um aðflugs- og fráflugsferla, auk krafna um öryggissvæði og hindranafleti. Við val á staðsetningu flugvallar þarf alltaf að gera ráð fyrir slíku.

Virðulegur forseti. Flugsamgöngum við Vestfirði hefur í áranna rás verið sinnt við erfið skilyrði. Aðstæður fyrir hefðbundinn millilandaflugvöll sem uppfyllir allar kröfur um viðbúnað kunna að vera erfiðar á Vestfjörðum vegna fjalllendis og því er lagt til að aðstæður verði kannaðar vandlega og valkostum stillt upp í þeim efnum. Með þessari tillögu er farið fram á að gerð verði heildarúttekt á aðstæðum í fjórðungnum um uppbyggingu framtíðarflugvallar sem nýst geti íbúum og atvinnustarfsemi sem best og fengnir til þess aðilar sem hafa hina bestu yfirsýn og þekkingu. Ekki er loku fyrir það skotið að þegar liggi fyrir þekking um margvíslegar staðbundnar aðstæður sem nýst geti við úttekt á þeim atriðum sem til umfjöllunar eru. Bygging nýs flugvallar er umfangsmikil og kostnaðarsöm framkvæmd og vanda þarf vel til verka og undirbúnings.

Því er lagt til að þegar verði hafist handa við veðurfarsrannsóknir á þeim stöðum sem hugsanlega kæmu til greina. Á þessu stigi er lagt til að ráðist verði í langtímaveðurfarsmælingar á þremur stöðum, þ.e. í austanverðum Dýrafirði, í norðanverðu mynni Skutulsfjarðar og í innanverðu Ísafjarðardjúpi, eða á öðrum þeim stöðum sem sérfræðingar á því sviði telja ástæðu til að kanna nánar.

Virðulegur forseti. Með tillögunni er ekki verið að falast eftir miklum fjármunum til framkvæmda. Farið er fram á að veitt verði fé til að hefja veðurfarsmælingar sem geta svo sem nýst á öðrum sviðum einnig. Þess er vænst að hafinn verði undirbúningur fyrir framtíðina og að ekki verði staldrað við margvíslegar hindranir eða stöðuna eins og hún er í dag. Framtíðin er nefnilega óviss og viðhorf til samgangna, loftslagsbreytingar, ný tækni í flugi, breytingar á ferðahögum almennings, opnun nýrra gátta, tengsl við næstu granna okkar, t.d. Grænlendinga, sem hyggja á stóraukin umsvif í ferðaþjónustu kunna að breytast og þróast með öðrum hætti en við sjáum fyrir. Því er skynsamlegt að aðstæður hafi, fyrir þann tíma að við viljum hefjast handa og lag skapast, verið kannaðar til hlítar, sem flýtt gætu hugsanlegum framkvæmdum.

Virðulegur forseti. Að því sögðu vonast ég til að tillaga þessi fái vandaða umfjöllun og margar umsagnir fyrir atbeina virðulegrar umhverfis- og samgöngunefndar og nái því stigi að fá samþykkt á hinu háa Alþingi á vordögum.



[16:02]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir ágæta framsögu. Það má auðvitað segja að allar rannsóknir í þágu samgöngumála séu af hinu góða. Ég verð að viðurkenna að þarna er ein tillaga inni sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í, sem mér þykir stangast nokkuð á við þau markmið sem koma fram í greinargerð þingsályktunartillögunnar. Hún er að fram fari úttekt langtímaveðurfarsmælingar og mat á náttúrulegum aðstæðum við innanvert Ísafjarðardjúp, t.d. við Reykjanes, eins og segir í tillögunni.

Mér þætti áhugavert að heyra hvernig hv. þingmaður og meðflutningsmenn hans hugsa þá staðsetningu með tilliti til flutninga og ferðamannastraums. Ég held að meginatriðið hljóti að vera ef stæði finnst fyrir nýjan flugvöll að það sé tengt Ísafjarðarsvæðinu. Við erum með Bíldudalsflugvöll á sunnanverðum Vestfjörðum sem er sem betur fer þannig í sveit settur, alla vega síðast þegar ég vissi, að vera sá flugvöllur á Íslandi sem lokast sjaldnast vegna veðurs. Áherslan þeim megin held ég að hljóti að vera að styðja við að fjölga flugum og bæta þá þjónustu sem íbúar þar búa við. Við sjáum þann góða árangur sem náðist með því að styðja við að það væru tvö flug á dag í fyrra, sem er því miður fallið niður aftur.

Ég ítreka spurningu mína: Hvernig hugsar hv. þm. Guðjón Brjánsson könnunina á þeim eina valkosti af þremur sem snýr að mati á flugvallarstæði við innanvert Ísafjarðardjúp, t.d. við Reykjanes?



[16:05]
Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir andsvarið. Þarna eru lagðir til þrír staðir til könnunar og þeir gætu eflaust verið fleiri. Ég vona að fleiri staðir komi til skoðunar þegar að því kemur. Ég tel að málið sé brýnt og að kanna eigi vel staðarval fyrir nýjan flugvöll. Það er rétt að Reykjanes við innanvert Ísafjarðardjúp er kannski á jaðri þess að ná markmiðum með nýjum flugvelli fyrir Vestfjarðafjórðung. Það er lögð dálítil áhersla á að ekki sé raunhæft að í framtíðinni verði nema einn góður flugvöllur á Vestfjörðum. Það er ekki óeðlilegt að við stefnum að því að það verði einn góður flugvöllur aðgengilegur á Vestfjörðum.

Þetta er erfiður fjórðungur. Hann er mjög erfiður samgöngulega séð og fyrir flug. Út frá náttúrufarslegum aðstæðum telja kunnáttumenn varðandi flug að Reykjanes sé langhagstæðasti flugvöllurinn, ef menn stefna að því að gera góðan stóran flugvöll sem svarar öllum kröfum um aðgengi, stöðugleika, lendingaraðstöðu og víðerni. Þess vegna er þetta sett inn og væri fróðlegt ef farið verður í mælingar að sjá hvað kemur út úr því í samanburði við aðra kosti.



[16:07]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni svarið. Ég vil fyrst fá að segja að ég held að nauðsynlegt sé að við horfum til þess að það verði tveir flugvellir sem geti þjónað Vestfjarðasvæðinu. Annars vegar völlur sem horfir til þess að þjóna Ísafjarðarsvæðinu með forsvaranlegum hætti og hins vegar held ég að við eigum að horfa til þess að styðja við völlinn á Bíldudal, sem er jafn ágætur og hann er þótt hann verði ekki lengdur mikið frá því sem nú er.

Ég verð að segja að ég er enn þá jafn hissa á vangaveltu hv. þingmanns um mögulegan flugvöll við Reykjanesið. Ef við horfum landfræðilega á það eru þær vegabætur sem eiga sér stað á milli sunnanverðra Vestfjarða og norðanverðra með jarðgöngum og fleiri vegabótum á allt öðru svæði en um væri að ræða með alþjóðaflugvelli á Reykjanesinu.

Ég held að ef flugvallarstæði finnst á Ísafjarðarsvæðinu sem undirbyggir að geta verið alþjóðaflugvöllur sé sjálfsagt að skoða það en við verðum að hafa í huga að þarna verði tveir flugvellir, hið minnsta, sem þjóni svæðinu með forsvaranlegum hætti. Ég held að nýr flugvöllur við Reykjanes sé ekki svarið í þeim efnum þó að þar sé undirlendi sem er ekki víða að finna á hinum góðu Vestfjörðum.



[16:09]
Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki mjög klókur í landafræði en ég geri mér grein fyrir því hvar Reykjanes er. Það er ekki miðsvæðis á Vestfjörðum en er hins vegar sett inn hérna. Það er flugbraut við Reykjanes í Ísafjarðardjúpi og ég tel mjög fróðlegt allra hluta vegna að fyrir liggi veðurfarsmælingar með tilliti til flugöryggis í Reykjanesi, hvað sem framtíðin ber í skauti sér, við vitum svo lítið um hana. Ég geri mér grein fyrir því að við vinnum ekki að þeirri lausn að finna flugvöll sem gæti hentað ferðaþjónustu og atvinnurekendum, flutningum í lofti, fyrir alla Vestfirði. Auðvitað væri æskilegt að við gætum haldið úti flugbrautum allvíða. Bíldudalsflugvöllur þjónar hlutverki sínu með miklum ágætum, eins og komið hefur verið inn á, og stefnt yrði að því áfram. Menn hrósa happi yfir því að flug til Ísafjarðar hafi gengið vel í gegnum tíðina. Það eigum við að þakka frábærum flugmönnum sem kunna að meta aðstæður rétt og ætla sér ekki um of. Aðstæður eru mjög þröngar og erfiðar og hafa ratað í heimspressuna oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, þ.e. hversu ævintýralegt aðflugið er og hvers lags ævintýrastaður þetta er að lenda á. Eins og ég segi er keppikeflið að flugvöllur verði einhvers staðar miðsvæðis. Sérfræðingar skera úr um hvort slíkt sé raunhæft eða ekki.



[16:11]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að taka undir þessa þingsályktunartillögu enda er ég einn af flutningsmönnum hennar. Ég þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni, 1. flutningsmanni, fyrir framsöguna.

„Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að ráðast í staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll fyrir Vestfjarðafjórðung …“

Eins og segir í greinargerðinni er þessi tillaga lögð fram til að ýta undir að bæta flugsamgöngur á Vestfjörðum.

Áætlunarflug er til þriggja flugvalla á Vestfjörðum, þ.e. til Ísafjarðar í Skutulsfirði, til Bíldudals og Gjögurs. Þetta eru allt mikilvægar almenningssamgöngur Vestfirðinga og lífæð byggðanna stóran hluta ársins, eins og ástandið er núna í samgöngum í fjórðungnum. Brýnt er að standa vörð um þá þjónustu og það öryggi sem flugsamgöngur veita íbúum á Vestfjörðum.

Tölum um Ísafjarðarflugvöll sem er staðsettur í Skutulsfirði og er einn af þeim 25 flugvöllum sem hafa verið til og nýttir á Vestfjörðum. Hann var valinn á sínum tíma eins og aðrir staðir með tilliti til þeirra samgangna sem voru við þá staði, eins og Skutulsfjörð, það var bara út fjörðinn og varla stundum fært til Bolungarvíkur, hvað þá yfir á aðra staði. Nú er öldin önnur og staðsetningin á þessum flugvelli er mjög erfið og hefur þó nokkrum sinnum komið fyrir að allt að helmingur flugferða yfir mánuðinn hefur verið felldur niður. Í febrúar á síðasta ári var t.d. sú staða uppi. Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir. Hann er viðkvæmur fyrir sunnan-, austan- og suðaustanáttum þannig að það má varla blása mikið en hann er nokkuð góður í norðaustanáttum sem eru svo sem ríkjandi heima. Það er samt allt að breytast líka í þeim efnum og suðlægar áttir hafa verið ríkjandi, t.d. síðasta vetur og eins í vetur.

Staðsetning í þröngum firði skapar óhagstæð skilyrði og þá er ekki hægt að lenda. Þetta er náttúrlega eins og Vestfirðir eru, þeir eru mjög vogskornir og það er eins í flestum fjörðum. Ég held að það skipti máli að komast út úr fjörðunum eins og þeir sem hafa fagþekkingu benda á.

Vestfirðingar hafa bent á þetta og skorað á stjórnvöld að láta gera úttekt á nýjum flugvallarstæðum á Vestfjörðum sem gætu þjónað innanlandsflugi og mögulega millilandaflugi í framtíðinni. Nú er landslagið svolítið að breytast í samgöngum á Vestfjörðum með tilkomu Dýrafjarðarganga og nýs vegar um Dynjandisheiði. Það myndi stækka þjónustusvæði slíks flugvallar og nýr flugvöllur er mikilvæg forsenda í þeirri atvinnuuppbyggingu sem er fram undan í landshlutunum.

Það er alveg klárt, eins og með Bíldudalsflugvöll sem má nefna í því sambandi, að við erum ekki bara að tala um að almennt veðurfar á Vestfjörðum sé svo erfitt að ekki sé hægt að lenda þar, heldur er staðsetning flugvallanna þannig að veðurskilyrði innan fjalla gera aðflugið mjög erfitt og líka þegar verið er að taka á loft. Talað hefur verið um að Bíldudalsflugvöllur sé, miðað við notkun, opinn í 90% tilfella þegar á að fara að fljúga. Það eru ekki margir flugvellir sem geta staðist þá kröfu. Þetta er flugvöllur sem var gerður af heimamönnum en hann hefur sín takmörk. Bæði er hann of stuttur og ég held að ekki megi stærri vél en 18 sæta lenda þar. Stundum má samt ekki lenda nema níu manns séu í vélinni, það er takmarkað út af lengd brautarinnar. Ég vil bara undirstrika þetta með því að segja að það er möguleiki annars staðar á Vestfjörðum. Það eru ekki bara veðurfarslegar ástæður sem skerða möguleikana heldur líka landfræðilegar aðstæður.

Eins og hv. þm. Bergþór Ólason kom inn á er verið að benda á ákveðna staði eins og Reykjanes. Ég held að við séum ekkert að binda okkur við neitt, megum heldur ekki gera það heldur er bara nauðsynlegt að fara í nýja könnun á staðarvali fyrir flugvöll vegna nýrra samgangna. Sama hvaða þjónustusvæði verður fyrir valinu, hvort sem er Reykjanesið, í Dýrafirði, Bíldudal eða Arnarfirði, þurfa fagaðilar að koma þar inn og segja til um hvar sé best að koma. Margir flugmenn og fagaðilar í þessum efnum hafa skoðað málið og pælt í þessu og geta alveg sagt til um hvar sé best að byggja upp.

Þetta skiptir máli. Við erum að tala um að á Vestfjörðum er að byggjast upp atvinnuvegur sem þarf þjónustu. Við erum líka að tala um sjúkraflugið, í framlagðri heilbrigðisstefnu erum við að tala um að þjappa þjónustu jafnvel enn frekar saman. Við horfum á sjúkraflugið fyrir vestan sem nauðsynlegan þátt í því að geta sótt bráðaþjónustu hingað suður eða jafnvel til Akureyrar eða hvert sem því verður stýrt. Þó að það séu minni vélar sem þurfi styttri brautir og allt það hefur þetta verið erfitt. Ég held að þess vegna sé þetta mjög mikið öryggismál. Við þurfum líka að dreifa ferðamönnunum frekar um landið og nota þessa samgönguæð í það sérstaklega.

Ég hef ekki tölur um það en fjölgun hefur verið í sjúkraflugi á síðustu misserum vegna þess að dregið hefur verið úr viðbúnaði á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Ef við tölum samhliða um fæðingar hefur skilgreindum áhættufæðingum fjölgað auk þess sem aukinn ferðamannastraumur á vestfirskum vegum hefur líka kallað á aukið sjúkraflug.

Ég ætlaði bara að koma hingað til að taka undir tillöguna. Ég vonast til að hún fái góða og skjóta meðhöndlun inn í samgönguáætlun, það verði horft til framkvæmda því að nú erum við bara að tala um að það verði farið í veðurfarsathugun og ráðist í staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll, það sé þá tilbúið og í framhaldinu er hægt að fara fram með stærri framkvæmdir.



[16:19]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka flutningsmönnum fyrir að leggja fram þetta ágæta og áhugaverða mál. Við sem til þekkjum vitum að flug er erfitt víðast hvar á Vestfjörðum og við vitum líka að staðsetningar flugvalla í dag voru allar valdar út frá forsendum þess tíma þegar flugvellirnir voru lagðir. Þess vegna er full ástæða til að endurmeta hvort megi finna betri staðsetningar fyrir flugvellina þannig að hægt sé að nota flugsamgöngur a.m.k. að einhverju leyti sem almenningssamgöngur á því svæði, ekki aðeins með tilliti til innanlandsflugs heldur jafnvel, eins og hv. þm. Guðjón S. Brjánsson kom inn á, með tilliti til millilandaflugs.

Ég held þó að fremur ólíklegt sé að það verði, alla vega ekki í náinni framtíð, einhver lykilstærð í samgöngum til Vestfjarða. Hins vegar held ég, eins og kemur m.a. fram í greinargerð flutningsmanna, að með því að búa til þannig aðstæður að hægt sé að fljúga á 70–100 manna vélum vestur megi sjá fyrir sér að hægt væri að fara með stóra hópa héðan af höfuðborgarsvæðinu í dagsferðir vestur til þess að nýta það fallega svæði í ferðaþjónustu í meira mæli en nú er gert.

Það hefur aðeins verið rætt um þá þrjá punkta sem flutningsmenn nefna í greinargerðinni, þ.e. innanvert Ísafjarðardjúp, Skutulsfjörð og Dýrafjörð. Af þeim er augljóst, alla vega í huga heimamanna, að menn myndu skoða Ísafjörð eða Skutulsfjörð fyrst, eða mest.

En ég held að punktmælingar á hinum stöðunum geti líka gefið mikilsverðar upplýsingar um veðurfar og vindafar á svæðinu sem geta skipt máli til að mynda með tilliti til varaflugvall, sem við þurfum alltaf að huga að.

Hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir kom inn á sjúkraflugið í því sambandi og mikilvægi flugsamgangna með tilliti til heilbrigðisþjónustu á Vestfjörðum. Hafandi verið sjálfur í þeirri stöðu í gegnum tíðina að þurfa bæði að taka ákvarðanir um og fara í sjúkraflug á þeim stöðum hef ég orðið býsna góðan skilning á því hversu mikilvægt er að hægt sé að treysta því að hægt sé að fljúga, þess vegna í daglegu starfi í heilbrigðisþjónustu fyrir vestan, að hægt sé að koma skjólstæðingum sínum frá sér, að hægt sé að treysta því að þegar maður greinir vandamál að morgni verði hægt að koma sjúklingunum til þess staðar þar sem þeir geta fengið viðeigandi þjónustu innan nokkurra klukkutíma.

Þetta myndi bæta mjög mikið og sennilega myndi tíðni sjúkraflugs minnka ef það væri öruggur lendingarstaður einhvers staðar annars staðar en nú er, þ.e. þá væri í fleiri tilvikum hægt að taka ákvörðun um að senda sjúkling áður en hann væri kominn í bráðaástand. Þess vegna væri hægt að nota áætlunarflugið meira í þeim tilgangi en gert er í dag.

Ég held að tillagan sé allra góðra gjalda verð og mjög áhugavert innlegg í umræðuna um flug og heilbrigðisþjónustu og ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Ég hlakka til að fylgjast með afdrifum hennar í meðförum þingsins.



[16:25]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með þessa þingsályktunartillögu og vil undirstrika að ég styð það að hún verði tekin áfram og skoðuð og helst afgreidd frá þinginu. Ég vek líka athygli á því að það eru góðir þingmenn þessa kjördæmis sem m.a. eru flutningsmenn tillögunnar. Ég held að það sé mikilvægt og sýni bæði metnað og stórhug þeirra sem að málinu standa. Þetta sýnir það sem mér finnst líka skipta máli, að við horfum á landið allt sem eina heild. Við í Viðreisn höfum ítrekað sýnt þann vilja okkar, m.a. með því að sækjast eftir því að fá að sitja fundi landsbyggðarinnar með þingmönnum hennar.

Það er hagsmunamál fyrir samfélagið allt, hvort sem er úti á landsbyggðinni eða á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu, að við hugsum um landið okkar sem heild, að það verði byggilegt og fýsilegt fyrir okkur öll að búa þar sem við kjósum að búa. Hluti af því er að byggja upp samgöngur, hafa t.d. skoðun á því hvernig við viljum sjá Vestfirði eiga möguleika á því að halda áfram að þróast, vaxa og helst dafna.

Lykill að því er samgöngumál sem eru einn stærsti parturinn, auðvitað heilbrigðismál líka, sem óbeint og beint tengjast samgöngumálum, og menntamálin. Samgöngumálin eru lykilþáttur fyrir Vestfirði, ekki bara þingmenn kjördæmisins heldur okkur öll sem höfum tekið þátt í umræðunni um samgöngumál síðustu 20 árin í þinginu. Við þekkjum að þau eru lykillinn að því að gera svæðið lífvænlegt fyrir Vestfirðinga sem vilja búa þar og dvelja. Þess vegna er mikilvægt að Dýrafjarðargöngin eru farin af stað og vel það. Þau eru komin langleiðina en það þarf að klára líka þann enda eins og við vitum og við þurfum að fullklára, ekki bara segja A, við þurfum að þora að segja líka B og C og allt stafrófið helst til þess að það verði byggilegt.

Hér erum við að ræða um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum. Ég hef fundið það á ferðalögum mínum um Vestfirði þar sem ég hef rætt mikið við heimamenn að það er brýnt að fara í málið og í rauninni ekki annað en ábyrgt ef á að fara að setja þangað meira fjármagn, eins og segir m.a. í þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Í ljósi reynslunnar og íslenskrar flugsögu er tæpast skynsamlegt að veita fé til framkvæmda nema hægt sé að uppfylla nútímakröfur um aðflugs- og fráflugsferla …“

Þar er Isavia dregið inn. Í því sambandi tel ég gríðarlega mikilvægt að við breytum einmitt svolítið starfsemi Isavia og setjum fyrirtækinu eigendastefnu. Það er kominn tími til að ríkisstjórnin setji fram eigendastefnu sem felur í sér ábyrgð gagnvart landsbyggðinni, gagnvart Vestfjörðum, gagnvart alþjóðafluginu, m.a. á Akureyri og síðan á Egilsstöðum. Það er gríðarlega mikilvægt að við förum að ýta verkefninu af stað enda verður stuðningur fyrir Isavia að víkka út sitt víða samfélagslega hlutverk. Það skiptir að mínu mati máli og ég myndi styðja þetta mál.

Heimamenn segja mér að það sé einmitt fýsilegt að skoða fleiri kosti en Ísafjarðarflugvöll sem er barn síns tíma eins og komið hefur fram. Menn eru að tala um Hnífsdal eða Skutulsfjörð á því svæði. Einnig hafa aðrir staðir verið nefndir, t.d. Þingeyri. Ég hef reynslu af því að sitja í svonefndri Rögnunefnd sem hafði það hlutverk að kortleggja m.a. flugvallarstæði í nágrenni Reykjavíkur. Lengi hefur verið talað um Hólmsheiði. Síðan kom í ljós eftir fullnaðarkönnun nefndarinnar að Hólmsheiði var bara ekki fýsilegur kostur. Þá var hægt að ýta þeim kosti út af borðinu, hætta að tala um hann.

Þess vegna tel ég mikilvægt að nóg fjármagn verði sett í könnun þannig að hægt verði að klára þetta á skemmri tíma á einhverjum árum, eins og sumir hafa talað um, helst á þeim tveimur árum, þeim lágmarkstíma sem hægt er að framkvæma haldbæra könnun og taka þá inn þá kosti sem hugsanlega koma til greina og setja í þá fjármagn. Þetta er gríðarlega mikilvægt, ekki síst fyrir Vestfirði til að ýta við viðskiptalífinu. Við sjáum það líka ef það verður beint millilandaflug en ekki síður þarf að tengja flugvelli markvissar og reglulegar við millilandaflugvöll. Við sjáum ekki bara ágætlega sterkan sjávarútveg heldur ekki síður fiskeldið sem er að vaxa og þá þurfa að vera greiðar samgöngur við markaði.

Varðandi stjórnsýsluna skiptir líka máli að samgöngur séu greiðar en skortur á því hefur einmitt stuðlað að því að uppbygging atvinnulífs hefur ekki verið sem skyldi eða hefði getað orðið á norðanverðum Vestfjörðum líka, svo ég tali nú ekki um heilbrigðisþjónustuna. Það er ekkert hægt að mæla gegn því að við reynum að koma upp öflugum heilbrigðisstofnunum. Við þingmenn Viðreisnar fundum það þegar við fórum um Norðausturkjördæmið að til að mynda Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík er að gera gríðarlega mikilvæga hluti, tengja sig með nýjum hætti og nota nýja tækni. Það var ánægjulegt að finna hvað heimafólkið var stolt af þessari stofnun sem þjónar stóru svæði. Það er ekkert óeðlilegt að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða geri það líka en þá verða að vera greiðar samgöngur.

Þess vegna bendi ég á að samgöngur við norðurhluta Vestfjarða verði að vera sem fyrst komnar í lag til að þær geti sinnt suðurhlutanum sem skyldi. Þá er ekki síður að við höfum greiðar flugsamgöngur líka að norðan, frá Ísafirði suður til Reykjavíkur þar sem þjóðarsjúkrahúsið er. Við í Viðreisn leggjum áherslu á að horfa á okkur sem samfélag í heild með mismunandi áherslum. Það eru meira að segja mismunandi áherslur íbúa í Hafnarfirði gagnvart íbúum í Reykjavík eða á Seltjarnarnesi. Auðvitað eigum við að reyna að mæta þeim ólíku þörfum sem eru víða um landið og ákallið er betri samgöngur að vestan. Þetta er einföld krafa og hún er bæði skýr og skiljanleg.

Það er líka hægt að nefna þau sóknarfæri sem eru í ferðaþjónustu. Þó að það sé tímabundið einhver samdráttur í ferðaþjónustunni getur landið okkar tekið við fleiri ferðamönnum. Við sjáum ákveðin sóknarfæri, eins og ég hef áður nefnt, á norðaustursvæðinu með tengingu við Akureyri, Húsavík og það svæði allt, Þingeyjarsýslurnar, en ekki síður Ísafjörð og Vestfirði alla sem hægt er að beina ferðamönnum til, enda magnað svæði sem hefur margt fram að færa, ólíkt að sumu leyti, sem er ákjósanlegt til að byggja upp fjölbreytta og öfluga ferðaþjónustu. Til þess þarf enn og aftur, virðulegur forseti, flugvöll þar sem hægt er að treysta á reglubundnar flugsamgöngur, ekki eins og oft hefur verið þegar tíðni flugs hefur fallið niður í allt að 50–70% að vetrarlagi. Auðvitað er þá erfitt að treysta á svona samgöngumáta. Þetta er bara ekki boðlegt og ég hlýt að leyfa mér, þó að ég sé búsett hér, að segja það líka fyrir fólkið fyrir vestan. Það er ekki hægt að bjóða Vestfirðingum upp á þetta. Við getum talað um málið, tekið fyrsta skrefið, klárað m.a. þessa þingsályktunartillögu þar sem verður farið í kortlagningu á vandanum. Ég vil meina að hæstv. samgönguráðherra gæti líka ákveðið það bara á sínum forsendum í gegnum samgönguáætlun, aðeins að horfa til lengri tíma og ákveða það sjálfur en við viljum ekki bíða allt of langan tíma með að afgreiða þetta mál hér.

Þessu máli verður að ýta áfram hvernig sem við gerum það. Ýmsir hér í salnum eru ekkert endilega mjög elskulegir gagnvart Evrópusambandinu en Evrópusambandið setur kröfur um 90% lendingartíðni. Ég held að ég sé nokkurn veginn viss um að það sé krafan varðandi flugöryggi á völlum. Þetta er eðlileg krafa sem við eigum að gera fyrir okkar samfélag hér og treysta og styðja. Gerum þetta vel, vöndum okkur, setjum meiri kröfur á Isavia, látum Isavia verða ábyrgt fyrir meira en bara Keflavíkurflugvelli. Setjum fyrirtækinu nýja eigendastefnu, förum í greiningu, kortlagningu, fýsileikakönnun á því hvaða flugvallarstæði er best fyrir vestan þannig að við getum byggt upp samgöngur sem auka öryggi fólksins, hvort sem er heilbrigðisöryggi eða annað öryggi í því samfélagi. Það er hægt að gera með því að kanna fýsileika þeirra flugvallarstæða sem til staðar eru.

Þess vegna ítreka ég það að við í Viðreisn styðjum þessa tillögu til þingsályktunar og vonum að þingmenn í umhverfis- og samgöngunefnd dvelji ekki allt of lengi við hana. Margt liggur fyrir, ótal gögn eru til og þess vegna hvet ég hana til þess að fara mjög rösklega yfir þessa tillögu.



[16:35]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum. Hún kemur ágætlega inn í þá miklu umræðu sem á sér stað núna og ég varð vör við í liðinni kjördæmaviku. Þar brunnu samgöngumálin mest á fólki.

Samgöngurnar eru, eins og ég hef svo margoft sagt, grunnur að velferð í samfélaginu. Þær eru grunnurinn að því að við getum byggt upp sterkt og öflugt samfélag. Ef samgöngur eru ekki í lagi þýðir lítið að vera að tala um eitthvað annað, sterkt heilbrigðiskerfi, menntakerfi o.s.frv. eða að stækka atvinnusvæði. Tillagan er ágætisliður inn í þetta.

Að tillögunni standa hv. þingmenn Guðjón S. Brjánsson, Haraldur Benediktsson og Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmenn Norðvesturkjördæmis, og finnst mér hún hið prýðilegasta framtak hjá þeim. Þau fara ágætlega yfir stöðuna og lagt er til að í staðarvalskönnuninni verði tekið mið af vaxandi ferðamannastraumi, auknum matvælaframleiðsluiðnaði og þörf fyrir flutning aðfanga og afurða, bæði innan lands og utan. Í könnuninni munu felast langtímaveðurfarsmælingar og mat á náttúrulegum aðstæðum.

Þá benda flutningsmenn á að hagkvæmni staðsetningar verði metin með þarfir fjórðungsins í huga þegar jarðgöng og vegaframkvæmdir hafa náð að skapa forsendur fyrir norður- og suðurhluta Vestfjarða sem eitt atvinnu- og búsetusvæði. Gríðarlega mikilvægt er að við horfum á málið út frá því sjónarhorni og get ég tekið undir það með flutningsmönnum að við séum að efla atvinnu- og búsetusvæði til að styrkja byggð um allt land og þá þurfi að hafa tengingar góðar á milli svæðanna.

Í greinargerðinni er tekið fram að tillagan sé lögð fram í því skyni að ýta undir það að bæta flugsamgöngur á Vestfjörðum. Það eru nokkrir flugvellir á Vestfjörðum. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi sem formaður samgönguráðs að fara um allt land, skoða flugvelli og samgöngumannvirki og eiga samtal og samráð við forsvarsmenn sveitarfélaga og landshlutasamtaka og ýmissa stofnana. Við fórum um Vestfirði líkt og önnur svæði. Lukkan var með okkur, við fórum á gríðarlega fallegum degi, það var bjart og fallegt og gott veður, sem er ekki alltaf raunin á okkar góða landi. Eins og Vestfirðir eru fallegir í góðu veðri og birtu ganga oft yfir dimm él og miklir vindar og eflaust flókið að setja niður flugvelli. Ekki kann ég það.

Farið er ágætlega yfir hvernig flugvellirnir eru og hvernig háttaði til með uppbyggingu þeirra. Segir að þrír stærri flugvellirnir hafi verið gerðir við helstu þéttbýliskjarnana, þ.e. Ísafjörð, Þingeyri og Patreksfjörð, og að þar hafi staðarvalið ráðist af landfræðilegum aðstæðum og getu til framkvæmda og jarðvinnslu á þeim tíma þegar farið var í framkvæmdirnar. Þannig æxlast hlutirnir stundum hjá okkur.

Það var lítið hægt að taka tillit til þátta eins og veðurs og vinda og blindaðflugs, enda eru blindaðflugin öll frekar frumstæð á Vestfjörðum, líkt og kemur fram. Það er oft ófært vegna misvinda, eins og segir sig sjálft, af háu fjöllunum og þröngu dölunum og fjörðunum.

Þó hefur ýmislegt breyst á undanförnum árum og áratugum og sem betur fer erum við að stíga skref fram á við. Það sem hefur gerst í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú er við völd er að gríðarlega miklu hefur verið bætt í samgöngur og einnig er sérstök áhersla á Vestfirði í samgönguáætlun sem var samþykkt í þarsíðustu viku. Vestfirðir fengu ákveðinn forgang og þangað fara um 35 milljarðar í samgöngubætur.

Ég held að allir séu sammála um allt land um að gríðarlega aðkallandi sé að bæta ástandið þar og samgöngur allar.

Í greinargerðinni er farið yfir hvernig flugvellirnir eru sem eru í boði núna og eru notaðir. Þar er víðast hvar þröngt og erfitt að lenda vegna fjalla, veðurs og aðstæðna og oft er ófært, eins og ég kom að áðan og hv. þingmenn hafa farið yfir á undan mér. Þess vegna velti ég fyrir mér, og tek fram að ég er ekki sérfræðingur í flugi: Er þetta raunhæfur kostur? Er raunhæft að ætla að setja niður fleiri flugvelli? Væri raunhæfara ef við ætlum að tryggja samgöngur og auka fjölda ferða að leggja meiri áherslu á og setja meiri þunga í að laga vegina hraðar? Eigum við að bora göt í gegnum fleiri fjöll? Já, ég held að við eigum að gera það.

Ég er ekki þar með að segja að við eigum ekki að leggja áherslu á flugið. Flugið er okkur ákaflega mikilvægt að svo mörgu leyti. Við vitum það sem búum á afskekktum stöðum og langt frá höfuðstöðvunum þar sem mesta þjónustan er, flókna heilbrigðisþjónustan, að gríðarlega mikilvægt er að geta notað sjúkraflug. Það hefur bjargað mörgum.

Mér leist ágætlega á það sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, 11. þm. Suðvest., talað um áðan, að ef ferðir yrðu tíðari myndi létta á flutningum í sjúkraflugi. Mér finnst rökrétt að draga þá ályktun að ef ferðir eru tíðari sé jafnvel hægt fyrr og í tíma að grípa inn í og senda fólk með almennu flugi í flóknari aðgerðir eða til annarrar umsýslu og umönnunar en er í boði í héraði.

Við verðum samt að horfa á það að við séum að nýta flugið og flugvellina. Vegna þess að við settum minna í samgöngurnar á tímabili, af ástæðum sem við þekkjum öll, hafa lendingarstaðir einn af öðrum dottið út, af því að þeir hafa ekki fengið eðlilegt viðhald og umhirðu eins og gengur. Þeir hafa ekki staðist öryggiskröfur og þess vegna dottið út af skrá. Þetta finnst mér umhugsunarefni inn í framtíðina. Ég held að ekki sé tímabært að hugsa um það en vil samt að við höldum því til haga. Það er mjög mikilvægt að við höfum sem flesta lendingarstaði á landinu.

Það kemur t.d. inn á ferðaþjónustuna. Þá er hægt að ferðast með minni hópa á minni vélum eða hvernig sem verkast vill. Hægt er að fara í dagsferðir fljúgandi til Vestfjarða og svo til baka þess vegna. Það er fullt af möguleikum í boði sem við þurfum að vera opin fyrir.

En það er mjög aðkallandi að við höfum öryggisþáttinn yfir og allt um kring og ávallt efstan, líkt og er í nýsamþykktri samgönguáætlun. Við þurfum að hafa hann efstan og fremstan á blaði þegar við ræðum samgöngur. Það er mjög aðkallandi að auka öryggi íbúa Vestfjarða og ef þetta er leiðin til þess er ég meira en tilbúin að styðja þá tillögu.

Mér finnst það skynsamlegt sem stendur í tillögunni, með leyfi forseta:

„Í ljósi reynslunnar og íslenskrar flugsögu er tæpast skynsamlegt að veita fé til framkvæmda nema hægt sé að uppfylla nútímakröfur um aðflugs- og fráflugsferla, auk krafna um öryggissvæði og hindranafleti. Við val á staðsetningu flugvallar þarf alltaf að gera ráð fyrir slíku. Flugsamgöngum við Vestfirði hefur í áranna rás verið sinnt við erfið skilyrði. Aðstæður fyrir hefðbundinn millilandaflugvöll sem uppfyllir allar kröfur um viðbúnað kunna að vera erfiðar á Vestfjörðum vegna fjalllendis og því er lagt til að aðstæður verði kannaðar vandlega og valkostum stillt upp í þeim efnum.“

Þetta finnst mér ákaflega skynsamleg nálgun, að kanna hlutina áður en farið er lengra. Í rauninni ættum við alltaf að vera í slíku ferli og erum það að einhverju leyti. Við erum að kanna mögulegar framkvæmdir inn í framtíðina og hvernig við ætlum að gera það.

Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að breyta fyrirkomulagi á rekstri flugvallanna, að millilandaflugvellirnir verði allir undir hatti Isavia; með Keflavíkurflugvelli verði Akureyri, Reykjavík og Egilsstaðir. Rekstrarforminu verði breytt og þá verði meiri fjármunir sem við getum komið inn í það.

Mér finnst þessi tillaga allrar athygli verð og mun fylgjast spennt með framgangi hennar í þinginu og í ferlinu hér í gegn.



[16:45]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum þar sem flutningsmenn eru hv. þingmenn Guðjón S. Brjánsson, Haraldur Benediktsson og Halla Signý Kristjánsdóttir, öll hv. þingmenn úr Norðvesturkjördæmi.

Ég kem beint af flugvellinum inn í þessa umræðu. Ég er mjög ánægður með að þessi tillaga sé komin fram, enda sjálfur ættaður af Vestfjörðunum og hef fylgst mjög vel með þar, flogið mikið um þessa flugvelli og þekki aðstæður ágætlega.

Ég verð að hrósa greinargerðinni með plagginu. Hún er mjög góð og tekur vel á efninu. Ég ætla rétt að hlaupa í gegnum nokkra punkta sem koma fram í henni. Það er rétt sem kemur fram, að vellirnir sem voru allt að 25 talsins á sínum tíma voru lagðir og byggðir upp vítt og breitt um Vestfirðina. Það fór eftir aðgengi að efni og hvar væri hægt að leggja brautir, eins og skemmtileg braut í Súgandafirðinum ber vott um og ýmsar skemmtilegan aðstæður, en þeir voru aldrei almennilegir blindflugsflugvellir. Þessir vellir þurftu á sjónflugsskilyrðum að halda og þar með nýttust fæstir vel.

Þess vegna er næsta vers í málinu hvernig við tryggjum aðflugið inn að völlum ef við finnum góða staðsetningu fyrir flugvöll á Vestfjörðum. Svo sannarlega hefur verið mikil umræða um það síðustu ár eins og með Ísafjarðarflugvöll þar sem eru erfiðar aðstæður og lítið pláss. Þar þurfa menn að fara í sjónflugi inn Skutulsfjörðinn og oft í erfiðum aðstæðum. Eins og kemur fram í greinargerðinni er lagt til að gera veðurfarsathuganir við norðanvert mynni Skutulsfjarðar.

Það sem ég myndi leggja til að væri áhersla á í þessu dæmi er að við Íslendingar þyrftum að verða aðilar að Geimvísindastofnun Evrópu, ESA, og EGNOS-gervihnattaleiðsögunni. Ég held nefnilega að Vestfirðir gætu grætt alveg gríðarlega á því ef við kæmumst inn með drægi, gervihnattaleiðsögu, yfir Vestfirði. Í dag fáum við þetta yfir á austurhluta landsins. Við getum ekki tekið það alveg niður í harðagrjót en fyrir mánuði, í byrjun janúar, var ákveðið aðflug á Húsavík sem byggir á gervihnattaleiðsögunni. Það er verið að skoða Akureyri, Egilsstaði og Hornafjörð og væntanlega þarf að skoða þennan austari hluta landsins en drægið nær ekki yfir vestari hluta landsins. Þetta eru 26 gervihnettir sem byggjast á Galileo-kerfinu. Við erum bara þannig staðsett að þegar við ætluðum að fara inn í Geimvísindastofnunina 2008, rétt fyrir hrun, drógum við til baka umsókn okkar um að komast inn í hana. Á sama tíma fóru Norðmenn inn í hana og nú er búið að koma upp gervihnattaleiðsögu yfir öllum Noregi. Finnarnir hafa gert það á síðustu árum í gegnum Norðurskautsráðið, þeir lögðu mikla áherslu á þessi mál og hafa á allra síðustu árum náð að bæta gervihnattaleiðsögu í kerfið. Það hefur gríðarlega mikið að segja en við erum svolítið á eftir og þetta myndi nýtast okkur í vísinda- og rannsóknastörfum og mörgu öðru í tækniframförum, fjórðu iðnbyltingunni og slíkum hlutum.

Þarna kristallast enn á ný í því máli sem hér er til umræðu hvað akkúrat þetta gæti gert mikið eins og á Vestfjörðunum og bara almennt fyrir öryggi í landinu þar sem við getum þá sett upp aðflug eins og fyrir Landhelgisgæsluna. Nýju þyrlurnar verða með slíkum búnaði sem gæti nýtt sér gervihnattaleiðsöguna. Þá breytast svolítið öryggismálin í samfélaginu þar sem þyrlurnar gætu búið til aðflug vítt og breitt um landið þar sem engin aðflug eru í dag. Bara gervihnettir eru uppi, aðflugin eru byggð á þeim, það er enginn búnaður á jörðu niðri. Þetta verður miklu einfaldara ferli og ódýrara að gera þetta. Þetta finnst mér eiginlega vera stóra málið fyrir Vestfirði. Ef gerð yrði heildarúttekt á staðarvali fyndist mér hún þurfa að koma inn í þá umræðu til að við gætum hámarkað þetta mál. Ég hef talað um það hér síðan ég byrjaði á Alþingi og sagt löngum áður að við þyrftum að komast inn í Geimvísindastofnun Evrópu til að við gætum byggt á þessari tækni. Ég hef ekki skoðað það sérstaklega með Vestfirði eða heyrt neitt hvað við gætum gert með Þingeyrarflugvöll og Staffell miðað við að við hefðum gervihnattaleiðsöguna. Aðflugin verða allt öðruvísi. Það er hægt að fljúga ferla í beygjum og annað á milli fjalla og dala og í fjörðum landsins. Það væri mjög áhugavert eins og með Þingeyrarflugvöll bara að fá það fram í þessu samhengi.

Auðvitað þekkjum við það að við Þingeyrarflugvöll er helsti fjallgarður Vestfjarða, Kaldbakurinn og það sem þar er. Þetta væri stóra málið sem ég myndi vilja sjá bætt við þessa þingsályktunartillögu vegna þess að ég er mjög hrifinn af tillögunni um að þetta verði skoðað vel. Ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægt — ég kem svo illa undirbúinn í þessa umræðu beint af flugvellinum að ég gat t.d. ekki tekið saman fjölda sjúkrafluga á Vestfjörðum á síðustu árum. Ég gerði myndrænt plagg um það 2015 en get bara sagt að ég man ekki alveg töluna. Þau eru töluvert mörg. Öll alvarlegustu tilvik landsins fara til Reykjavíkur, á Landspítalann. Landspítalinn er með 10% erfiðustu tilvikanna á landsvísu, hvort sem það eru alvarleg hjartaáföll, hjartasjúkdómar, heila- og taugaskurðlækningar, alvarlegir áverkum eða fyrirburar. Þess vegna þurfum við að tryggja þetta sem allra best og þess vegna held ég að gervihnattaleiðsagan sé eitt af því sem við þurfum að skoða vel í þessu samhengi.

Varðandi það sem kemur fram um stærð flugvéla, talað er um 70–100 sæta vélar, held ég eins og staðan er í dag, hvað sem framtíðartæknin segir okkur, að menn ættu bara að skoða miðlungsþotur, 150 sæta vélar, hvað þyrfti að gerast til þess að möguleiki væri að lenda slíkum vélum.

Vegna fraktflutninga sem væru vegna sjókvíaeldis á suðurfjörðunum þyrfti að vera með vélar sem eru svipaðar að stærð og 150 sæta millilandaflugvél, vél sem verður þá a.m.k. að geta borið 16–20 tonn af ferskum fiski, laxi í þessu tilviki. Sú burðargeta þarf þá að vera til staðar. Burðargetu brauta hefur oft vantað í umræðuna þegar við erum að ræða flugvelli landsins. Hún er mikilvæg í þessu tilviki og hvernig það allt saman er.

Síðan eru gríðarlegir möguleikar í ferðaþjónustunni og við þurfum að sjá hvaða möguleikar eru þar. Ég held að við séum ekki að fljúga þriggja, fjögurra, fimm tíma flug með 70–100 sæta vélum. Ég held að það sé frekar óraunhæft. Við þyrftum að skoða stærri vélar og þá þyrfti væntanlega að skoða þær í samhengi við fraktina. Þá þyrfti væntanlega brautir sem væru 2.200–2.500 metra langar sem við værum að skoða í þessu hlutfalli.

Svo tek ég heils hugar undir tillögu um veðurfarsathuganirnar á þeim þremur stöðvum sem lagðar eru til í tillögunni, að þau svæði séu skoðuð vel upp á nýtingarhlutfall. Nýtingarhlutfallið er alltaf lykilatriði í flugrekstri.

Ég sé að tíminn er farinn að styttast. Ég vil tala aðeins um Færeyjar varðandi gervihnattaleiðsöguna. Þannig háttar til að tekin var upp gervihnattaleiðsaga hjá Atlantic Airways, færeyska flugfélaginu, 2012 þegar það tók nýjar vélar í notkun. Félagið var kannski með 90% nýtingu á vellinum en þegar gervihnattaleiðsagan var tekin, og þetta eru nýjustu fréttir sem maður er að heyra af því, fór nýtingin í 99% á Vágaflugvelli, erfiðum flugvelli, sem er gott dæmi um hversu mikilvæg gervihnattaleiðsagan er og að fá hana inn í þessa umræðu. Hún hefur stóraukist þannig að eftir að SAS, samkeppnisaðilinn, fór að fljúga í samkeppni við Atlantic Airways í Færeyjum í vetur ákvað SAS að fara sömu leið og setja upp þennan búnað, þjálfa sína flugmenn til að framkvæma sömu aðflug vegna þess að félagið sá að það gat aldrei verið í neinni samkeppni við heimafélagið, Atlantic Airways, nema það væri með þetta í lagi.

Þetta er gríðarlega stórt og mikilvægt atriði í heildarsamhengi og ég held að gríðarlegir möguleikar séu akkúrat í þessari gervihnattaleiðsögu. Það er það sem ég sé helst að vanti inn í tillöguna.

Rétt í lokin verð ég að segja að aldrei hefur verið unnið jafn mikið að flugmálum á vegum stjórnvalda eða þingsins en á undanförnum tveimur árum. Það er nýkomin út skýrsla og ég var í formennsku fyrir starfshópi að skoða málin um íslenskt flug. Það er verið að vinna flugstefnu fyrir Ísland. Það er nýtt. Og í ríkisstjórnarsáttmálanum er talað um mótun eigendastefnu fyrir Isavia.

Ég verð að koma aftur í ræðustólinn ef ég fæ einhver andsvör, ég sé að tíminn er liðinn.



[16:56]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls undir þessum lið, enda held ég að ég hafi svo sem ekkert sérstaklega við þetta að bæta.

En þegar hv. þingmaður fór að ræða Geimvísindastofnun Evrópu vaknaði ég aðeins til lífsins því að ég hef haft mikinn áhuga á því að við sækjum um aðild að henni. Samþykkt var þingsályktunartillaga, sem kom frá Pírötum á sínum tíma, í október 2016 um að fela utanríkisráðherra að sækja um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu að undangenginni nánari skoðun á skuldbindingum samfara aðild.

Ég forvitnaðist um stöðu þeirra mála stuttu eftir að ég kom á þing haustið 2016 og ræddi þá við fulltrúa í ráðuneytinu sem sagðist vera að ýta þeim málum áfram. Ég veit líka að framkvæmdastjóri ESA kom hingað til lands í júlí 2017 og hafði þá áhuga á að hitta fólk úr stjórnsýslunni.

Ég verð að viðurkenna að hv. þingmaður er mun betur að sér í flugi en nokkru sinni ég og hvaða tengingu það nákvæmlega hefur varðandi staðsetningarval á flugvelli á Vestfjörðum átta ég mig ekki á, en mér finnst mikið hagsmunamál fyrir Ísland að verða aðili að þeirri stofnun. Ég hef meira verið að hugsa það út frá nýsköpun og tækni en ég efast ekki um að það geti líka verið út frá flugöryggismálum og slíku.

Það væri kannski ágætt að fá sýn þingmannsins á þá þætti. Svo held ég að við ættum að sameinast um að láta þessa þingsályktunartillögu verða að veruleika svo að Ísland verði aðili að Geimvísindastofnun Evrópu innan tíðar.



[16:57]
Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Eins og ég minntist á áðan er ég áhugamaður um Geimvísindastofnun Evrópu og þau mál sem heyra undir hana og sérstaklega gervihnattaleiðsögn, sem ég held að sé risamál fyrir Ísland. Þetta er miklu stærra mál en ég held að fólk almennt átti sig á og nota þess vegna öll tækifæri til að minna á mikilvægi í málum sem snúa að því.

Ég var með fyrirspurn rétt eftir að ég byrjaði á þingi um hvar þau mál væru stödd í stjórnkerfinu og annað. Ég var ekkert voða sáttur við svarið. Það var ekki nógu gott.

Vandamálið í því máli gæti mögulega verið að einhverju leyti að þrjú ráðuneyti koma að því. Við þurfum að fikra okkur áfram í því hvernig við ætlum að leysa það.

Ég held að mikill vilji sé á þingi fyrir því að við verðum aðilar að Geimvísindastofnun Evrópu. En málið fellur að einhverju leyti undir utanríkisráðuneytið, samgönguráðuneytið og fjármálaráðuneytið. Þar er eignarhaldið í dag, bréfið, Isavia, staðsett. Við þurfum einhvern veginn að ná þeirri niðurstöðu fram. En þetta er staðan.

Það var líka heilmikil umræða um þetta á Arctic Circle sl. haust. Þar voru málstofur um þau efni. Ég var erlendis vegna starfa NATO-þingsins þannig að ég náði ekki þeirri umræðu. En eins og ég kom inn á áðan er okkur gríðarlega mikilvægt á mörgum sviðum að komast þarna inn. Ég held með fjórðu iðnbyltinguna, tækni og vísindi — ég hef haldið þrjá, fjóra fundi í utanríkisráðuneytinu um þau mál með vísindasamfélaginu og ýmsum tæknistofnunum í landinu til að reyna að ýta undir þetta. Á síðasti fundi voru um 30 manns, þar var vísindasamfélagið á Íslandi komið að borðinu. Þetta er áhugavert.



[17:00]
Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að tala hratt, hver einasta sekúnda er svo dýrmæt í pontu. Ég fagna umræðunni um Geimvísindastofnun Evrópu og mögulega aðild Íslands að ESA.

Í liðinni kjördæmaviku fórum við Píratar m.a. til Húsavíkur. Við skoðuðum geimvísindasafnið á staðnum og fengum góða kynningu á því, sögu þess og aðdraganda frá Örlygi Hnefli — Hnefill? Ég kann ekki að beygja Hnefil. Hann heitir Örlygur Hnefill Örlygsson sem sýndi okkur safnið og sagði frá. Þetta var stórmerkilegt. Hann rakti þegar Neil Armstrong kom endurtekið til landsins þegar verið var að þjálfa geimfara og sýndi okkur hluti sem hann átti, peysu og alls konar. Það var mjög gaman að komast í tæri við þá hluti og söguna, sem er stórmerkileg.

Menn fóru til tunglsins 1969 en síðan þá hefur heldur betur verið framför í geimvísindum og hafa náðst margir stórir og merki áfangar í þeim efnum. Örlygur hrósaði okkur Pírötum fyrir að hafa lagt fram þingsályktunartillögu um aðild og sagði synd að tillagan fyrir tíu árum síðan hefði verið dregin til baka.

Ég hef ákveðið að beina þeirri spurningu til hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar hvort hann telji ekki að það sé eiginlega þverpólitískur stuðningur við þetta í þinginu.

(Forseti (BN): Forseti vill benda hv. þingmanni á að þágufallsmyndin er Hnefli.)



[17:02]
Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Ég hef trú á því að það sé þverpólitískur stuðningur við þetta mál í þinginu og að mikilvægi þess að við verðum hluti af Geimvísindastofnun Evrópu hafi verið að síast inn hjá fleirum.

Mögulega gætum við átt í góðu samstarfi þó að við verðum ekki orðin aðili einn, tveir og þrír. Ferlið og allt sem því fylgir getur tekið tíma. Ég held að þetta sé svolítið hulið mál en mikilvægið er mikið.

Ég var með fyrirlestur um þau mál í Könnunarsögusafninu á Húsavík í haust þar sem þetta fína safn Örlygs Hnefils Örlygssonar er árlega með ráðstefnu um málin. Þarna var fjöldi erlendra fyrirlesara og við ræddum málin. Þá hélt ég fína tölu um þetta.

Ég held að við eigum að drífa í að koma umsókn í góðan farveg þannig að við náum árangri fljótt og vel.

Ég held líka að það geti haft mikil áhrif að við erum á mótum tveggja kerfa, annars vegar er EGNOS sem er evrópski hlutinn og VAS sem er í Bandaríkjunum. Norður-Atlantshafið, norður eftir og yfir Grænlandi, er ekki með þetta hjá sér. Þetta er verkefni.

Mögulega þyrftu menn að ná einhvers konar samkomulagi þar á milli um hvernig menn ná yfir Atlantshafið. En ég held að mjög víða sé áhugi á málinu alþjóðlega. Þetta er líka hluti af björgun á hafi og ýmsu slíku.



[17:04]
Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni jákvæð og bjartsýn svör. Þess má geta að á meðan við Píratar vorum á Húsavík var fundur í utanríkisráðuneytinu með ESA. Ég heyrði það alla vega einhvers staðar.

Ég ætla að taka undir orð hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur um tenginguna við nýsköpun og eins hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar, en ekki bara við nýsköpun heldur líka við menntun. Það eru gríðarlega mikil menntunartækifæri í þessu. Þetta tengist allt saman. Eins og ég skil það er inngönguferlið mjög langt og strangt. Þetta er eiginlega lengsta inngöngupróf í heimi, ég held að það taki tíu ár að verða fullgildur aðili í sambandinu, og þess vegna er þeim mun meiri ástæða til að drífa í því.

Það er mikið rætt um fjórðu iðnbyltinguna og þetta gæti ekki tengst henni betur og meira. Svo er það þrívíddarprentun, en við samþykktum þingsályktunartillögu sl. vor um stafrænar smiðjur fyrir alla framhaldsskólanema. Þetta er allt samtengt.

Eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson minntist á er þetta okkur svolítið hulið málefni og það er miður því að þetta er raunverulegt, tunglið er þarna og pláneturnar og við getum gert miklu meira sem þjóð í því en bara að viðurkenna það.

Ég spyr hv. þingmann hvað hann telji að þetta geti tekið langan tíma.



[17:06]
Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Hvað tekur þetta langan tíma? Ég held að það þurfi ekki að taka allt of langan tíma í sjálfu sér að koma með umsóknina. Auðvitað þurfum við að samþykkja hérna inni að móta stefnu. Fyrir mér á þetta að vera hluti af þeirri flugstefnu sem við erum að móta akkúrat núna þar sem starfshópar, yfirhópur og þrír undirhópar, eru að skrifa skýrslu sem snýr að flugstefnu fyrir land og þjóð. Það er eitt af þeim stóru verkefnum sem ég vísaði í áðan sem hafa verið leidd áfram af núverandi ríkisstjórn.

Ég leyfi mér að ætla að við getum verið komin með gervihnattaleiðsögn í notkun á Íslandi á fimm til átta árum. Fyrir um hálfu ári talaði ég um tíu ár. Ég hef viljað flýta því ferli. Staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum er einmitt dæmi um það hversu stór þáttur þetta er, af því að rekstur flugvallar snýst um nýtingarhlutfallið sem ég minntist á áðan. Við finnum ekkert annað til að ná upp betri og frekari nýtingu á flugvöllunum en þetta kerfi. Það veitir gríðarlegt öryggi. Hægt verður að lenda í verra skyggni, lægri skýjahæðum, sem eykur öryggi vítt og breitt um landið, á minni stöðum, á flugvöllum um allt land, fyrir Landhelgisgæsluna og þyrlurnar. Þetta er stóra samhengið.

Eftir fimm til átta ár vil ég að þetta sé tilbúið. Ég held að það nýtist mikið í leit og björgun norður í höfum og þegar kemur skemmtiferðaskipunum. Það er svo mikið í gangi. Ég held að þetta sé dæmi um eitthvað sem við getum ekki vitað hvar endar ef við komum því á. Ég held að rannsóknir, vísindi og annað myndu hafa óhemjumikið gagn af því ef því yrði náð fram.



[17:09]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Mér fannst ég vera — ég ætla ekki að segja tilneydd — en mér fannst mikilvægt að koma upp og fagna tillögu hv. þm. Guðjóns S. Brjánssonar, Haralds Benediktssonar og Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, sem er vonandi bara fyrsta skrefið í að tryggja öruggan og traustan flugvöll á Vestfjörðum.

Það er þó ekki aðeins að hann yrði öruggari og traustari heldur er þetta líka einfaldlega svo mikið framfaramál fyrir það svæði, sem því miður hefur allt of lengi, bæði í lofti og á landi, átt við djöfullegar samgöngur að glíma, svo það sé bara sagt hreint út.

Eins og kemur fram í greinargerðinni eru líka mjög mikil tækifæri sem fylgja því að fá nýjan flugvöll. Þar má t.d. nefna ferðaþjónustuna og sömuleiðis ekki síður að með auknu laxeldi á Vestfjörðum gætu einmitt opnast tækifæri til að fljúga beint með fiskinn í stað þess að flytja hann á landi og minnka þar með álagið á vegunum.

En það er ekki síst, og líklega bara mikilvægast, að þetta er tækifæri til að tryggja bætta og öruggari þjónustu við íbúana sem treysta mjög á flugið, enda eru flugsamgöngur í raun þeirra almenningssamgöngur. Vissulega er hægt að fljúga sjónflug og í Skutulsfirði er alltaf flogið sjónflug en ég hugsaði þegar ég var að undirbúa þessa ræðu að það væri líka alveg pínkulítil eftirsjá að flugi í Skutulsfjörð og inn Djúpið. Ég man sérstaklega eftir einu flugi þar sem ég flaug með lítið, ókunnugt barn sem ég bauðst til að fljúga með, og það var óvenjumikill þrýstingur í Djúpinu og ég hef aldrei verið jafn glöð að fljúga með barn af því að ég var með hjartað í maganum á meðan barnið hrópaði upp yfir sig: Vúhú! Við erum í rússíbana! Það hjálpaði mikið. En staðreyndin er sú að flug í Skutulsfjörð er stundum vandasamt og ekki bara vegna veðurs heldur líka vegna birtuskilyrða, sérstaklega yfir vetrartímann, sem eru það erfið að ekki er hægt að fljúga t.d. yfir háveturinn nema í þriggja til fjögurra tíma glugga. Og bara þegar ekki er leiðinlegt veður.

Þetta er gríðarlega mikið öryggisatriði og eins og komið hefur verið inn á af fleiri hv. þingmönnum er þetta líka gríðarlega mikilvægt atriði fyrir sjúkraflug, björgunaraðila o.fl. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að farið sé í þetta staðarval. Mig langar að nefna aðeins það sem hv. þm. Þórunn Egilsdóttir kom inn á varðandi raunhæfi þess að skoða að byggja nýjan flugvöll eða lendingarstað á Vestfjörðum. Ég vil minna á að samgöngur á landi og í lofti eiga ekki að vera annað hvort. Það á ekki að útiloka hvort annað heldur eigum við einmitt að horfa til þess að byggja upp öruggar samgöngur, hvort sem er í lofti eða á landi.

En ég ætla svo sem ekki að orðlengja þetta. Ég hvet hv. þingmenn í umhverfis- og samgöngunefnd til að vinna málið hratt og örugglega. Með því er ekki verið að ákveða að byggja nýjan flugvöll heldur einfaldlega að taka fyrsta skrefið og kanna raunhæfi þess, taka fyrsta skrefið í að meta möguleikana. Ég held að það geri engum illt að taka það skref þótt vissulega voni ég í hjarta mínu að þetta verði einungis fyrsta skrefið af mörgum og að innan skamms munum við sjá nýjan flugvöll á Vestfjörðum.



[17:14]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðuna. Ég er ekki allt of bjartsýn og verð að segja að ég held að við sjáum ekki nýjan flugvöll á Vestfjörðum innan skamms. Ég er kannski of jarðbundin og ekki eins hátt í skýjum og félagar mínir sem hafa rætt þessi mál. Ég leggst að sjálfsögðu ekki gegn því að fram fari staðarvalsskoðun á hugmyndum um nýtt flugstæði fyrir flugvöll á Vestfjörðum, hvort sem verið er að tala um norðanverða eða sunnanverða Vestfirði. Mér finnst ástæða til að horfa til þess hvernig hlutirnir eru í dag. Eitthvað sem gæti hugsanlega orðið að 20 árum liðnum eða eftir enn lengri tíma finnst mér að megi ekki verða til þess að menn dragi lappirnar við að byggja upp það sem við höfum þó í dag. Við höfum fjóra flugvelli á Vestfjörðum, á Gjögri, Ísafirði, Þingeyri og Bíldudal. Því miður hefur viðhald þeirra ekki verið gott. Til dæmis er planið við flugstöðina á Ísafirði, sem er auðvitað stærsti flugvöllurinn, yfirleitt eitt drullusvað, ekki malbikað. Það eru orðin 60 ár síðan aðstaðan þarna var byggð upp. (Gripið fram í: Bílaplanið.) Bílaplanið. Á 60 árum, sem eru minn aldur, hefur öllum þeim stjórnvöldum sem hafa verið þennan tíma ekki enn tekist að aura saman fyrir malbiki á þetta blessaða plan. Það er til skammar.

Maður getur kannski ekki sagt að eitt eyðileggi fyrir öðru en einhver staðarvalsskoðun gæti kostað 20–30 milljónir. Mér fyndist þeim peningum vel varið í að malbika þetta plan. Auðvitað þurfa menn samt að hafa framtíðarsýn og skoða alla möguleika með það í huga að hafa möguleika á flugvelli þar sem hægt er að vera með blindflug og millilandaflug og styðja við atvinnuuppbyggingu og ferðaþjónustu og allt það sem við viljum sjá til framtíðar gerast á Vestfjörðum sem og í öðrum landshlutum.

Ég lagði fram fyrirspurn fyrir þremur árum um Þingeyrarflugvöll sem varaflugvöll fyrir Ísafjörð af því að mér fannst enginn áhugi á því að viðhalda þeim flugvelli sem varaflugvelli. Búið er að leggja mikla fjármuni í að byggja hann upp og það hefur verið hægt að fljúga á þann völl í þeim áttum þegar ekki er flugfært á Ísafjörð. Á sínum tíma urðu skemmdir í flugvellinum, frostlyftingar urðu á flugbrautinni árið 2013 sem ollu því að hún var ekki nothæf með góðu móti og hefði þurft að leggja fjármuni í að laga hana. Það var hins vegar aldrei gert af neinu viti og þess vegna gátu vélar ekki lent þar nema þær væru mjög léttar svo að nýting á þeim flugvelli hefur verið sáralítil og verið að dragast saman alveg frá þeim árum. Ég veit ekki hvort hann var nokkuð notaður á síðasta ári, ég hef ekki nýjustu upplýsingar um það.

Mér finnst mjög slæmt með innviðauppbyggingu eins og hefur verið gerð á Vestfjörðum að fjárfestingarnar séu ekki nýttar. Mér finnst að við sem tölum fyrir bættum samgöngum og öflugum samgöngum í lofti, á landi og á sjó verðum frekar að láta laga það sem þarf ekki eins mikla fjármuni í að gera, fremur en að einblína á það að í komandi framtíð gæti hugsanlega verið byggður nýr flugvöllur á Vestfjörðum sem gæti þjónað millilandaflugi, blindflugi og öllu því sem kröfur eru gerðar til varðandi flug stærri véla, flug allt árið og kannski við fleiri veðurskilyrði en hægt er í dag.

Þetta er góð framtíðarsýn en með þessari ræðu, sem þykir kannski frekar íhaldssöm og neikvæð, minni ég á veruleikann sem Vestfirðingar búa við í dag. Þó að við þingmenn fljúgum oft skýjum ofar, höfum bjartsýnina að leiðarljósi og horfum til þess að allt sé hægt að gera ef fjármunir eru til staðar verðum við líka að horfa á veruleikann eins og hann er og taka höndum saman um að reyna að afla fjármuna til að bæta úr innviðum þeim sem eru til staðar á Vestfjörðum í dag, hvort sem hann heitir Ísafjarðarflugvöllur, Þingeyrarflugvöllur, Bíldudalsflugvöllur eða Gjögurflugvöllur.

Margt gott er samt að gerast heilt yfir varðandi flugið, eins og kom fram hjá hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni. Ég bind vonir við að skoska leiðin verði að veruleika og að litið verði á flugið sem almenningssamgöngur. Ég bind jafnframt vonir við uppstokkunina á rekstri Isavia þar sem losnar vonandi um fjármuni til að byggja upp minni flugvelli vítt og breitt um landið, sérfélag um stóru flugvellina sem eru til staðar í dag og að millilandaflug við þá verði treyst. Það gæti þýtt að settir yrðu auknir fjármunir í minni flugvellina vítt og breitt um landið. Það er gífurlegt hagsmunamál fyrir landsbyggðina alla að hægt sé að bjóða upp á öflugar flugsamgöngur, ekki bara fyrir ferðamenn heldur líka fyrir íbúa viðkomandi svæða.

Sú keðja má ekki rofna og við eigum að standa vörð um það. Það sem ríkisstjórnin og þingmenn eru að vinna að í þeim málum tel ég vera á réttri leið og til fyrirmyndar. Ég mun að sjálfsögðu ekki leggjast gegn þessari þingsályktunartillögu um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum vegna þess að ég veit að þeir þingmenn sem flytja tillöguna gera það af góðum hug einum og vilja skoða hvaða möguleikar eru fyrir hendi. Við verðum að vera með opin augun fyrir þeim möguleikum sem við höfum í þeim efnum en gleyma ekki ástandinu í dag í þessum málum, ekki gleyma hvað við getum gert betur.



[17:22]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Forseti. Mér rennur blóðið til skyldunnar sem er sérstakur áhugamaður um flug. Við höfum hlustað hér á nokkra þingmenn, sem ég vil kalla flugþingmenn, tala af gríðarlegri reynslu og þá á ég auðvitað við landsbyggðarþingmennina sem búa á Vestfjörðum, á norðanverðu landinu og norðaustanverðu landinu, nota flug gríðarlega mikið og hafa af þessu reynslu.

En hvað um það, ég held fyrir víst, ef maður hefur fylgst með þróun flugs, bæði leiðsögutækninni, því sem er að gerast í orkuskiptum varðandi flug og ýmiss konar þróun í flugmálum, við getum talað um sjálfar vélarnar, jafnvel loftskip og annað slíkt, að í framtíðinni verði miklu meira um flug en við eigum að venjast núna. Það stafar einfaldlega af því að tíminn er dýrmætur og flug verður æ öruggara og það verður sennilega ódýrara með tímanum. Mjög líklegt er að við eigum eftir að sjá allt annað ástand eftir 30, 40, 50 ár en við eigum núna að venjast.

Mig langar að koma að því sem aðeins hefur verið talað um hér sem eru breytingarnar sem samgönguáætlunin hefur í för með sér í flugmálunum. Þegar Isavia verður nú gert skylt að kosta varaflugvelli landsins gerist það með þjónustugjöldum sem munu skila verulegum tekjum. Það sem gerist þá í kjölfarið er einfaldlega að þessir þrír flugvellir sem um ræðir verða bættir og efldir á alla lund þannig að flugöryggi í utanlandsflugi verður meira en ella. En svo verða til ruðningsáhrif sem menn hafa aðeins komið inn á. Það losnar á vissan hátt um það fé sem núna er sett í t.d. þá flugvelli og þá er hægt að fara að bera það í flugvelli eins og þá sem mikið eru notaðir núna, grunnnetið innan lands, hvort sem er Húsavík, Ísafjörður, Vestmannaeyjar eða hvað. Og aðrir flugvellir fá sinn skerf líka. Það verður því töluverð uppbygging og endurbætur og umbætur á öllu flugkerfi, jafnvel þeim flugvöllum sem eingöngu eru notaðir til flugkennslu. Við megum ekki gleyma því að flugkennsla á Íslandi er verulega öflugur atvinnuþáttur.

Mig langar að koma þessu að sem skýringu og minna á að þetta er samþykkt samgönguáætlun. Hér er ekki verið að tala um útfærslu á veggjöldum eða annað slíkt. Hér er verið að tala um samgönguáætlun sem er samþykkt í þessa veru.

Inn í þetta kemur svo auðvitað hugmyndafræðin um almenningssamgöngur, flug sem almenningssamgöngur, niðurgreiðslur og annað slíkt sem mér finnst vera sjálfsögð samfélagsþjónusta, rétt eins og margt annað sem er niðurgreitt. Ég var með ræðu fyrr í dag um sorpmál sem verða í eðli sínu niðurgreidd þjónusta við samfélagið að einhverju leyti. Það er alveg það sama með samgöngur, hvort sem er á landi, í lofti eða á sjó, sem gera það að verkum að landið allt er meira eða minna byggilegt.

Ég vil svo að endingu nefna að við í umhverfis- og samgöngunefnd munum taka þessari tillögu mjög vel — ég held að hún sé fullkomlega þverpólitísk — og sjá til þess að hún fái verðuga þinglega meðferð.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til um.- og samgn.