149. löggjafarþing — 74. fundur.
raddbeiting kennara.
fsp. BjG, 511. mál. — Þskj. 839.

[15:59]
Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það hefur löngum legið fyrir að röddin er atvinnutæki margra stétta, ekki síst kennara. Við eigum mikið undir því sem notum röddina í vinnunni að hún bregðist ekki.

Í ljósi þess að dómur féll á Akureyri varðandi íþróttakennara sem missti röddina vegna óboðlegra starfsaðstæðna, og má segja að það sé fordæmisgefandi dómur í sjálfu sér þar sem röddin er viðurkennd sem atvinnutæki, langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að efla megi fræðslu sem hluta af kennaranámi um rödd og raddbeitingu og æfingar fyrir talfæri kennara. Telur ráðherra ástæðu til að það verði gert núna þegar verið er að endurskoða kennaranámið? Og telur ráðherra að magnarakerfi ætti að vera staðalbúnaður í kennslustofu?

Valdís Jónsdóttir talmeinafræðingur hefur verið óspör á að láta okkur vita af því sem vinnum við að nota röddina, sérstaklega kennara sem hún hefur aðstoðað, hvað hægt sé að gera. Hún hefur verið óþreytandi við að reyna að koma á framfæri góðum ábendingum um þessi mál. Ég verð að taka undir með henni. Hávaði er skilgreindur sem skaðlegt hljóð og er talinn eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum nútímans. Hávaðamælingar í skólum sýna því miður, bæði í leikskólum, íþróttahúsum og sundhöllum, að kröfur um ómtíma eru ekki uppfylltar og hávaðinn er allt of oft yfir mörkum. Sjálf var ég í kennslustofu þar sem slysavarnafélagið lánaði okkur „eyra“ sem varð rautt þegar hávaðinn varð of mikill. Það er skemmst frá því að segja að eyrað var bara alltaf rautt. Hávaðinn fyrir kennara, fyrir nemendur og alla var allt of mikill. Þetta er líka nokkuð sem hægt er að leysa innan húss með aðgerðum, en veldur óneitanlega álagi á rödd þess sem miðlar. Kennarar eru líka líklegastir til að leita til læknis vegna raddvandamála og óþæginda þeim tengdum.

Í því samhengi langar mig að segja að mikil umræða hefur átt sér stað um PISA-könnunina og niðurstöðurnar og mögulegar ástæður fyrir þeim. Þar hafa fléttast inn í alls konar umræður og varðar m.a. ein af niðurstöðum Valdísar notagildi magnarakerfis í kennsluumhverfi. Þar eru niðurstöður sláandi. Þar kemur fram að megnið af börnum og ungmennum sagðist geta heyrt hvað kennari var að segja þegar hann notaði magnarakerfið.

Mig langar til að spyrja (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra um það sem ég nefndi áðan og hvort hún telji ekki að ekki einungis fræðsla þurfi að koma til heldur beinlínis að gera þurfi þetta að skyldu í kennaranáminu.[16:02]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og að koma hingað og ræða málefni kennara. Kennarar eru undirstaða skólakerfisins og eitt af stóru verkefnum þess ráðherra sem hér stendur er að bæta starfsumhverfi kennara í víðum skilningi og auka nýliðun í stéttinni. Til upplýsingar má geta þess að á morgun mun ég kynna aðgerðir stjórnvalda sem miða að því að efla kennaramenntun og bæta starfsumhverfi kennara.

Nú þegar er lögð áhersla á rödd og raddbeitingu og æfingar fyrir talfæri í leik- og grunnskólanámi við menntavísindasvið Háskóla Íslands og í Háskólanum á Akureyri með sérþjálfuðum kennurum. Jafnframt er raddbeiting kennd á námskeiði sem ætlað er tómstundafræðingum, uppeldis- og menntunarfræðingum og þroskaþjálfum. Einnig er lögð áhersla á raddvernd og -þjálfun á þessum námskeiðum. Í núverandi skipulagi fá íþróttakennaranemar þjálfun í raddbeitingu í grunnnáminu, fjórar kennslustundir. Í nýju og breyttu skipulagi meistaranámsins, sem tekur gildi með næstu kennsluskrá, munu nemendur síðan fá enn frekar markvissa raddþjálfun á fimmta námsári kennaranámsins. Tímasetningin er ákvörðuð út frá því að á þessum tíma fara kennaranemar í langt vettvangsnám. Áætlun um þessa þjálfun er í vinnslu og byggir m.a. á reynslu og endurgjöf frá nemendum okkar í vettvangsnámi þar sem þeir hafa fengið reynslu af því að starfa í íþróttasal dag eftir dag.

Nemendur okkar sem fengið hafa þjálfun og kennslu í raddbeitingu hafa verið ánægðir og tala um gagnsemi þegar á vettvang sé komið. Af ofansögðu er ljóst að allir kennaranemar fá þjálfun og fræðslu í raddbeitingu. Til að efla fræðslu og þjálfun mætti bjóða upp á fleiri valnámskeið í raddbeitingu, raddvernd og framsögu fyrir alla nemendur menntavísindasviðs í grunn- og meistaranámi.

Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns um magnarakerfi og hvort það ætti að vera staðalbúnaður í kennslustofu er það mat mitt að stíga þurfi varlega til jarðar, þrátt fyrir að ég telji að það mjög áhugavert sem fram kemur í máli Valdísar Jónsdóttur talmeinafræðings, þ.e. að við leggjum meiri áherslu á kennslu í rödd og raddbeitingu í námi kennaranema.

En af því að kennsluhættir hafa verið að breytast umtalsvert á síðustu árum eða áratugum tel ég að við eigum að hafa þetta sífellt til endurskoðunar, vegna þess að við heyrum líka af börnum sem eiga erfitt með að vera í opnum rýmum vegna þess að þau telja að það séu hreinlega of mikil læti og vilja vera í öðru rými. Þarna þarf að sjálfsögðu að fara saman sú verkfærakista sem kennarar hafa til umráða og að við hugum að því hvernig börnunum okkar hentar best að læra, að námsumhverfi sé aðlaðandi og að það sé ákveðin ró en líka örvun.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að ég fagna því að við séum að ræða starfsumhverfi kennara út frá raddbeitingu og mikilvægi hennar. Það er mitt mat að við eigum að ræða málefni menntakerfisins oftar á Alþingi vegna þess að hér erum við að leggja grunninn að framtíðinni.

Hér áðan ræddum við áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar. Það er í mínum huga alveg ljóst að svarið við öllum þessum lykiláskorunum, eða þeim viðfangsefnum sem við stöndum frammi fyrir, er og verður menntun og aftur menntun og að leggja áherslu á læsi í víðasta skilningi. Þá komum við enn og aftur að mikilvægi kennarans. Það er kennarinn sem leggja mun grunninn að öllum þeim störfum sem við munum móta til framtíðar. Það verður sameiginlegt hlutverk okkar allra hér að hlúa enn frekar að starfsumhverfi kennara.[16:07]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu mikilvægt mál sem er raddbeiting kennara og raddvernd. Ég er sérstaklega ánægð að heyra að lögð sé mikil áhersla á báða þessa þætti í grunnnámi kennara. En raddbeiting og raddvernd þarf líka að vera hluti af símenntun.

Af því að við erum líka að ræða starfsumhverfi kennara er hljóðvist í kennslustofunni það sem hefur kannski mest áhrif frá degi til dags og að lögð sé áhersla á góða hönnun og hljóðvist þegar verið er að hanna kennslustofur og í rauninni allt kennsluumhverfi. Ég hef sjálf reynt það að í þeirri kennslustofu þar sem ég hóf minn kennsluferil var alveg afburðaslæm hljóðvist. Stofan var svo tekin í gegn fyrir þremur eða fjórum árum og ég fékk að koma þar inn og ræða við nemendahóp. Ég get ekki lýst breytingunni sem varð á starfsumhverfinu (Forseti hringir.) sem fylgir svona góðri hljóðvistarhönnun.[16:08]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Enn vil ég þakka hv. fyrirspyrjanda, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, fyrir að vekja máls á athyglisverðu efni. Það er afar mikilvægt að við horfum til allra þessara vinnuverndarmála þegar við metum það við hvaða aðstæður hinar mismunandi stéttir vinna. Ég held að í sambandi við vinnuvernd kennara og raddbeitingu komi kannski ekki síður til greina að skoða hvort það ætti hreinlega að vera í aðalnámskrá grunnskóla á einhverjum tilteknum tímapunkti, þ.e. í menntun barnanna, að kynna þeim raddbeitingu og kenna þeim hvernig er skynsamlegast að nota röddina og raddstyrkinn til að koma sínu máli fram og láta til sín heyrast á þann hátt sem hentar. Þá komum við aftur að því sem hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom inn á í sambandi við hljóðvistarpælingar.

Ég vil að lokum benda á söngnám sem afar góða leið til að kenna raddbeitingu.[16:10]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Allt snýst þetta um að kunna að nota þindina. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni sem snýst um vinnuumhverfi kennara. Það er alveg ævintýralegt áreiti í kennslustofum og í umhverfi nemenda, það vita allir sem í hafa komist, bæði sjónrænt áreiti og áreiti í hljóðumhverfi, alveg ævintýralegt. Hávaðinn getur orðið alveg óskaplega mikill.

Ég held að flestir viti, sem hafa þurft að ná eyrum hóps, að til að ná eyrum hóps þarf stundum að tala lægra. Það þarf stundum að lækka röddina og stundum þarf að koma á kyrrð inni í hóp. Ég hef vantrú á rafvæddum samskiptum og er dálítið smeykur um að magnari sé til þess fallinn að skapa ákveðinn vegg og auka í raun á áreitið. (Forseti hringir.) Ég hef efasemdir um það og hef meiri trú á að þjálfa þindina.[16:11]
Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Herra forseti. Það er mjög gott að tala hérna um velferð kennara í kennslustofu og er mikilvæg umræða. Gott er að skoða skapandi lausnir, minni bekkir gætu verið augljós lausn á þessu sérstaka vandamáli. En ef á að ræða endurskoðun til bóta á kennaranámi má einnig skoða önnur atriði og þá sérstaklega að efla nám í fötlunarfræði í kennaranámi.

Kennarar vinna með mjög fjölbreyttum hópi barna og eru afar misjafnlega upplýstir um svokallaðar, með leyfi forseta, „neuro-diverse“-fatlanir, sem bitnar oft illa á menntun barna. Eftir minni bestu vitund, sem er nokkuð góð, er ekkert skyldunámskeið í fötlunarfræði í kennaranámi við Háskóla Íslands.

En aukin vitund og viðurkenning meðal kennara um fjölbreyttar fatlanir nemendahóps getur haft jákvæð áhrif á starfsumhverfi kennslustofunnar, bæði fyrir kennara og nemendur. Ég vil því benda hæstv. menntamálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, á að ekki má gleyma fjölbreytileikanum ef endurskoða á kennaramenntun í HÍ.[16:12]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að halda aðeins áfram þar sem frá var horfið hjá hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni, þ.e. með rafræna veggi. Ég tek undir þann málflutning en vil bæta aðeins við að það eru ákveðin kennslutæki sem við getum nýtt líka, sem eru hljóðbækur. Það er ekki á færi allra að lesa upp námsefni á þann hátt sem kemst vel til skila í hljóðbók. Alveg eins og það er ekki hver sem er sem getur verið prestur og tónað. Það getur ekki endilega hvaða kennari sem er komið frá sér efni á góðan og skiljanlegan hátt á hljóðbók eins og margir sem hafa hlustað á hljóðbækur hafa kannski áttað sig á, að ef lesarinn hentar ekki slaufar maður hljóðbókinni „med det samme“, afsakið slettuna. Þetta er nokkuð sem mér finnst eiga við hérna fyrir framtíðarhugmyndir um námsefnisþróun, að hljóðbækur séu teknar þar inn líka.[16:14]
Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem hafa komið með ansi skemmtilegar vangaveltur um þetta málefni.

Ég er á því að mikilvægt sé að þetta sé skylda í náminu, ekki að þetta sé bara eitthvað sem er í námskeiðaformi í mjög stuttan tíma. Það er gott að heyra að áætlun er í vinnslu og að auka eigi raddvernd og -þjálfun.

Hæstv. ráðherra og fleiri töluðu um mikil læti í stóru rými og annað slíkt. Það sem ég á við þegar ég tala um magnarakerfi — ég vil bara segja að ég hef prófað hvort tveggja og tala af reynslu í þessum málum — að mjög gott er að hafa það til að grípa í. Stundum erum við með stóra hópa og asi er í gangi og það þarf að leyfa asanum að vera en ná þarf til nemenda. Ég tek líka undir með hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni, stundum þarf maður að segja „usssss“, tala svona og það nær einmitt allri þeirri athygli sem kallað er eftir. Allt þetta á heima í kennsluumhverfinu, en það er þó þannig að það að geta á einhverjum tímapunkti haft aðgang að magnarakerfi skiptir miklu máli. Þess vegna finnst mér að kennarar eigi að geta haft aðgang að því og þess vegna spyr ég hvort þetta ætti að vera skylda.

Það eru auðvitað vangaveltur um eitt og annað um hvað valdi, af því að ég minntist í upphafi á niðurstöður nemenda okkar í PISA. Því hefur verið velt upp: Getur það verið vegna þess að nemendur heyra hreinlega ekki nægjanlega vel eða þá að börn nái ekki að þróa með sér mál vegna of mikils hávaða í leikskólum sem hefur þau áhrif að þau heyra ekki hvað kennararnir segja?

Við þekkjum það að talhljóðin okkar geta hreinlega drukknað í hávaða og gera það. Ég velti þessu fyrir mér af því að mér finnst að við eigum að vera lausnamiðuð og hafa tólin og verkfærakistuna fjölbreytta frekar en hitt og að kennarar læri að nýta sér það í því umhverfi sem þeir búa við hverju sinni.

Ég þakka fyrir þessa fínu umræðu.[16:16]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hefur komið fram varðandi símenntun og endurmenntun. Það er auðvitað mjög mikilvægt að kennarar hafi aðgengi að slíku og þegar við einblínum á raddbeitingu. Hvað varðar hljóðvist er það bara þekkt í sumu skólastarfi að börn vilja jafnvel ekki mæta í skóla ef of mikill hávaði er og þetta getur þróað ákveðinn kvíða hjá þeim og vanlíðan. Það er því stórmál, bæði fyrir kennarana og börnin, hvernig þetta er allt hannað.

Mér finnst mjög áhugavert að heyra ef við setjum þetta í samhengi við mögulegan árangur í alþjóðlega samanburðarprófinu, PISA, og hvort það sé hreinlega þannig að börnin heyri ekki nægilega vel í skólakerfinu okkar. Ég hefði áhuga á að skoða það frekar.

Það sem við erum að gera og ég vil taka það fram, virðulegur forseti, er að við erum að skoða allt menntakerfið okkar. Hvernig stendur á því að íslensk skólabörn mælast neðst af öllum börnum á Norðurlöndunum er varðar lesskilning? Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég tel að það sé meiri geta í kerfinu okkar.

Ég held að þetta snúi líka svolítið að hugarfari, þ.e. að börnin hafi jafnvel ekki fengið nægilega kynningu á þeim prófum. Við fórum í sérstaka kynningu núna þegar PISA-prófið var lagt fyrir. Þetta var gert á sínum tíma, svo ég nefni það, hjá Reykjavíkurborg fyrir prófið 2006–2007 og það skilaði strax miklum árangri. Það munaði verulega um.

En hvað varðar það málefni sem við erum að ræða, raddbeitingu, hljóðvist og magnara, tek ég undir með hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni, ég verð að viðurkenna að mér leist kannski ekki alveg nógu vel á svona magnarakerfi. Ég er hér til að hlusta og ætla að kynna mér þetta betur (Forseti hringir.) vegna þess að ég tel að við eigum að nýta öll þau verkfæri sem eru til staðar til að bæta starfsumhverfi kennara.