149. löggjafarþing — 87. fundur.
kynrænt sjálfræði, 1. umræða.
stjfrv., 752. mál. — Þskj. 1184.

[18:37]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um kynrænt sjálfræði. Í frumvarpinu er lagt til að í íslenskri löggjöf verði kveðið á um rétt einstaklinga til að skilgreina sjálfir eigið kyn og miða þannig að því að tryggja að kynvitund hvers og eins njóti viðurkenningar. Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi. Framlagning þessa frumvarps er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að ríkisstjórnin vilji koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks með metnaðarfullri löggjöf um kynrænt sjálfræði í samræmi við nýútkomin tilmæli Evrópuráðsins vegna mannréttinda intersex fólks. Jafnframt kemur fram í stefnuyfirlýsingunni að í þeim lögum yrði kveðið á um að einstaklingar mættu sjálfir ákveða kyn sitt, kynvitund þeirra njóti viðurkenningar og að einstaklingar njóti líkamlegrar friðhelgi og jafnréttis fyrir lögum óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.

Með frumvarpinu er komið til móts við ný og breytt viðhorf til opinberrar skráningar kyns og stuðlað að réttarbótum trans og intersex fólks.

Lagt er til að sérhver einstaklingur sem náð hefur 15 ára aldri hafi rétt á að breyta skráningu á kyni sínu í þjóðskrá og að barn yngra en 15 ára geti með fulltingi forsjáraðila sinna fengið breytt opinberri skráningu kyns síns. Sú ákvörðun að breyta kynskráningu barns skal tekin með hagsmuni þess að leiðarljósi og vera í samræmi við vilja þess og þróun kynvitundar. Gert er ráð fyrir að breytingin verði ekki háð neinum skilyrðum, þá er ég að tala um breytingar á borð við skurðaðgerðir, lyfjameðferð, hormónameðferð, geðlæknismeðferð eða sálfræðimeðferð, en gildandi lög gera ráð fyrir ákveðnum skilyrðum. Jafnhliða breyttri skráningu kyns á umsækjandi rétt á að breyta nafni sínu og þær breytingar eru heimilaðar einu sinni, nema sérstakar ástæður séu til annars.

Herra forseti. Þá er lagt til í frumvarpinu að hlutlaus skráning kyns verði gerð heimil. Sú heimild felur í sér viðurkenningu á því að ekki falla allir einstaklingar undir tvískiptingu í kven- og karlkyn. Opinberum aðilum og einkaaðilum sem skrásetja kyn ber að gera ráð fyrir hlutlausri skráningu kyns og í vegabréfum skal tákna hlutlausa skráningu kyns með bókstafnum X. Jafnframt er lagt til að verði frumvarpið samþykkt taki lögin þegar gildi, en kveðið er á um að aðilar sem skrásetja kyn hafi 18 mánaða frest frá gildistöku laganna til að laga skráningarform, eyðublöð, skilríki og þess háttar. Ástæða þess er sú að frumvarpið kallar á talsverðar breytingar á skráningarkerfum Þjóðskrár Íslands og er það mat stofnunarinnar að hún geti ekki lagað starfsemi sína að ákvæðum frumvarpsins á skemmri tíma.

Þetta er gríðarlega mikil breyting og merkileg. Ég tók eftir því sem áhugamanneskja um þetta mál að spurt var í spurningaþættinum Útsvari á dögunum hver væri fleirtalan af fornafninu hán, sem er það fornafn sem við notum um einstaklinga sem hvorki eru hann né hún. Ég var heima hjá mér og ég tek fram að ég svaraði þessu rétt, fleirtalan er að sjálfsögðu þau. En liðsmenn þessa liðs, ég man ekki hvert það var, voru í töluverðum vandræðum og veltu þessu fyrir sér. Þau komu svo með svar, sem ég man ekki hvort var rétt, eða einhverja góða ágiskun. Það minnir okkur á að þetta frumvarp, verði það samþykkt, sem ég vona einlæglega, mun þýða miklar framfarir í löggjöf fyrir réttarstöðu þessa fólks og setja Ísland í fremstu röð, og ég kem aðeins að því á eftir, ásamt ríkjum á borð við Möltu sem hefur tekið forystu í þeim málum, og vonandi færa okkur ofar á regnbogakortinu yfir réttindi hinsegin fólks og vonandi líka verða til þess að umræða vakni í samfélaginu um hvað þetta þýðir og hvað við eigum við þegar við tölum um mannréttindi allra.

Frumvarpið gengur út frá því að þeir einstaklingar sem frumvarpið tekur til eigi greiðan aðgang að þeirri heilbrigðisþjónustu sem þau þurfa á að halda og að óheimilt verði að gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklings 16 ára og eldri án skriflegs samþykkis.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir áframhaldandi starfsemi teymis Landspítalans sem hefur það hlutverk að veita skjólstæðingum 18 ára og eldri upplýsingar og ráðgjöf. Jafnframt er lagt til að starfsemi óformlegs teymis sérfræðinga á BUGL, sem veitt hefur börnum sem upplifa kynmisræmi nauðsynlega aðstoð undanfarin ár, verði lögfest. Enn fremur er gert ráð fyrir skipun sérfræðinefndar um breytingu á kynskráningu barna sem ætlað er að taka ákvarðanir um hvort veita skuli barni undir 15 ára aldri heimild til að breyta opinberri skráningu kyns síns án fulltingis forsjáraðila eða ef forsjáraðila greinir á um breytinguna. Auk þess eru lagðar til breytingar á nokkrum lögum sem tengjast efni frumvarpsins og lagt er til að lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda, nr. 57/2012, falli úr gildi. Þau lög voru auðvitað framfaraskref á sínum tíma en þetta er vonandi til marks um ákveðna breytingu í því hvernig við hugsum um réttindi fólks að nú tölum við um kynrænt sjálfræði en ekki um fólk með vanda. Það er alveg gríðarleg breyting sem felst hér í orðanotkun.

Virðulegi forseti. Mikilvægt er að sérstakt tillit verði tekið til réttinda barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Ýmis atriði sem lúta að því þurfa hins vegar frekari skoðunar við og því var það niðurstaða mín að gera ekki tillögu um sérstakt ákvæði sem varðar breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni í þessu frumvarpi. Hins vegar er lagt til í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins að ráðherra setji á fót starfshóp sem verði falið að semja frumvarp til laga um breytingar á lögum um kynrænt sjálfræði, verði þetta frumvarp samþykkt, þar sem mælt er fyrir um meginsjónarmið og reglur sem gilda skulu í slíkum tilvikum. Ég tel mjög brýnt að tryggja í öllu réttindi intersex barna og gæta að því um leið að ekki skapist óvissa fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Hér þurfa að gilda skýrar reglur með hagsmuni barnsins í forgrunni og er það markmið þeirrar lagalegu greiningarvinnu sem nú er fyrir höndum að tryggja að svo megi vera.

Jafnframt er gert ráð fyrir í ákvæði til bráðabirgða að ráðherra skipi starfshóp til að fjalla um og gera tillögur um breytingar á öðrum lögum sem nauðsynlegar eru til að tryggja réttindi trans og intersex fólks, þar á meðal barnalögum, nr. 76/2003, og lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996. Skulu báðir starfshópar skila niðurstöðum sínum og tillögum eins fljótt og auðið er. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að Alþingi ljúki meðferð þessa frumvarps þó að við séum ekki með öll verk unnin og setjum fleiri af stað til þess að við náum að stíga þetta mikilvæga skref, sem ég tel vera mikla réttarbót, og að sjálfsögðu verður svo að halda áfram meðan vinnunni er ekki lokið. Þetta er bara áfangi á þeirri leið.

Herra forseti. Lengi vel var íslensk löggjöf um málefni hinsegin fólks mjög framarlega þegar við bárum okkur saman við önnur lönd en hún hefur ekki fylgt eftir þeirri öru þróun sem átt hefur sér stað í þeim málefnum undanfarin ár, líkt og komið hefur fram í opinberum, alþjóðlegum úttektum. Ég nefndi regnbogakortið áðan. Stafar það einna helst af því að íslensk löggjöf hefur ekki fylgt eftir þeirri þróun sem hefur orðið á málefnum trans og intersex fólks, m.a. vegna þess að enn er krafist sjúkdómsgreiningar og læknismeðferðar til að fá kyni og nafni breytt opinberlega.

Ég nefndi áðan löggjöfina á Möltu, frá árinu 2015, um rétt fólks til að skilgreina kyn sitt sjálft, en hún var einn helsti hvatinn að undirbúningi þessa frumvarps. Þá hafa Danir, Norðmenn og Svíar breytt lögum sínum til að stuðla að bættri stöðu trans og intersex fólks og hefur þing Evrópuráðsins sent frá sér ályktun um stöðu þessara einstaklinga og sett fram tilmæli um ýmsar ráðstafanir til að bæta þá stöðu sem við tökum tillit til í frumvarpinu.

Vilji er fyrir hendi til að koma á áþekkum réttarbótum hér á landi. Minn metnaður stendur til þess að við getum aftur komið Íslandi í fremstu röð þegar kemur að málefnum hinsegin fólks. Ég tel að við eigum fullt erindi þangað og ég tel og vona að breið pólitísk samstaða sé um þær réttarbætur sem felast í frumvarpinu og sömuleiðis að við náum sameiginlega að vinna að þeim áföngum sem eftir eru á þeirri leið og eru boðaðir í bráðabirgðaákvörðun, sem ég nefndi áðan, á þessu kjörtímabili.

Ég hef nú þegar gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og legg því til að lokinni þessari umræðu að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.[18:46]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hæstv. forsætisráðherra fyrir þetta að mörgu leyti metnaðarfulla frumvarp. Ráðherra fór vel yfir málið og ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mjög mörg orð um það í bili. Þó vil ég segja að þetta samrýmist stefnu Samfylkingarinnar og hnykkja á stuðningi þingflokksins við málið.

Frumvarpið felur auðvitað í sér mjög miklar réttarbætur og er til þess fallið að Ísland taki forystu hvað varðar kynrænt sjálfræði og viðurkenningu trans fólks. Í heimi þar sem fólk er enn þá beitt misrétti, andlegu og líkamlegu ofbeldi, einfaldlega vegna þess að það elskar einhvern eða er með einhverjum hætti, skiptir máli að sýna gott fordæmi. Ég mun því með ánægju taka þátt í að gera þetta stóra skref í áttina að réttlátara og betra samfélagi að veruleika.

Sjálfsákvörðunarréttur allra kynja til að stjórna lífi sínu og líkama er auðvitað grundvallarréttur sem við verðum að tryggja. Hér á Íslandi hafa verið stigin mjög mörg mikilvæg skref, ekki síst vegna þrotlausrar baráttu samtaka á borð við Samtökin '78 og Trans Ísland. En við megum hins vegar ekki gleyma því að við eigum enn mjög mörg óstigin skref og baráttunni er auðvitað aldrei lokið. Eins og við höfum jafnvel séð hjá nágrönnum okkar er alltaf hætta á bakslagi. Líka hér á Íslandi horfum við fram á að hugsanlega sé verið að þrengja að réttindum minnihlutahópa með nýju frumvarpi um hatursorðræðu þannig að við þurfum alltaf að vera á varðbergi.

Í mörgum löndum hefur lagaumhverfi sem tryggir réttindi hinsegin fólks verið bætt mikið án þess að nóg hafi miðað til þess að breyta viðhorfum samfélaga. Hér á Íslandi hafa á hinn bóginn viðhorf til hinsegin fólks tekið stakkaskiptum á örfáum árum, en löggjafinn hugsanlega verið svolítið seinn á sér og dregið lappirnar. Þess vegna er ýmislegt sem við þurfum að bæta í þessum málum. Við megum alls ekki sofna á verðinum. Samfara þessum skrefum sem við vonandi stígum fleiri á næstunni þurfum við að viðhalda vitundarvakningu og fræðslu í málaflokknum.

En þó að þetta frumvarp um kynrænt sjálfræði sé gott er það ekki fullkomið. Það tryggir t.d. ekki nauðsynlega vernd barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Það er að vísu rætt í bráðabirgðaákvæði að fyrirhugað sé að setja á laggirnar starfshóp til að fjalla um málefni þeirra þannig að réttarbætur þessara barna dragist ekki á langinn. En ég skora á þingið að fjalla í meðförum málsins svolítið um þetta, a.m.k. að setja nefndinni einhver tímamörk. Þótt vissulega sé talað um „eins fljótt og unnt er“ hefur það sýnt sig að það getur verið æðiteygjanlegt hugtak. Ég hefði viljað sjá það skýrara.

Herra forseti. Grundvöllur opins lýðræðissamfélags er umburðarlyndi og virðing fyrir jafnrétti og mannlegri reisn. Þótt við séum hvergi nærri búin í þessari baráttu held ég að með samþykkt þessa frumvarps séum við a.m.k. einu skrefinu nær réttlátara samfélagi. Ég hlakka til að tjá mig meira um þetta mál þegar það kemur aftur úr nefnd.[18:50]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þetta er gleðidagur. Það er mér mikil ánægja að standa í ræðustóli Alþingis og fagna því metnaðarfulla frumvarpi sem hér er komið fram, frumvarpi sem mun, þegar það verður að lögum, hafa í för með sér gríðarlega mikilvægar réttarbætur hvað varðar rétt einstaklinga til að skilgreina kyn sitt sjálfir. Þetta mun standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi, meiri gerast réttarbæturnar varla. Þetta mun skipa Íslandi í fremstu röð í þessum málaflokki öllum, málaflokki hinsegin fólks. Það er kominn tími til vegna þess að við höfum allt of lengi setið eftir hvað það varðar og lagaleg staða ekki verið í neinu samræmi við félagslegar aðstæður og samfélagslegan skilning og vilja til þessara mála. Þetta er mjög gott.

Þessi gleðilega staða er ekki síst að þakka einstaklingum úr samtökunum Trans Ísland, Intersex Ísland og Samtökunum '78 sem hafa verið óþreytandi í því að tala fyrir nýjum viðhorfum í þessum málaflokkum. Það er ómetanlegt í réttindabaráttu og fyrir minnihlutahópa að hafa svona öflug samtök, öfluga málsvara á bak við sig, ekki bara fyrir þessa minnihlutahópa heldur fyrir samfélagið allt. Þessi réttindi eru ekki bara fyrir þessa einstaklinga sem þeirra njóta, þótt klárlega sé það mikilvægast, heldur er gríðarlega mikilvægt fyrir Íslendinga alla að við stígum þetta skref.

Málið er komið út úr samráðsgátt stjórnvalda. Þangað bárust ríflega 30 umsagnir. Ég fór ekki yfir þær allar en þær sem ég sá voru jákvæðar og í versta falli hlutlausar, það voru eins konar tæknilegar umsagnir, og það er algerlega frábært.

Þar komu fram nokkur atriði sem mig langaði að nefna og þarf að huga að í vinnunni við þetta frumvarp. Það hefur komið fram í máli hæstv. forsætisráðherra og síðan hjá hv. þm. Loga Einarssyni að það sem frumvarpið kannski gerir ekki er að tryggja rétt barna til líkamlegrar friðhelgi. Hann er ekki verndaður í þessu frumvarpi. Það eru ástæður fyrir því en þetta er stórmál vegna þess að flest brot á líkamlegri friðhelgi þegar kemur að kyneinkennum eru framkvæmd þegar einstaklingarnir eru enn á barnsaldri. Það er því svolítið erfitt að segja að við höfum náð fullkomnum árangri eða góðum árangri fyrr en við klárum þetta. Það skiptir máli, einnig þegar maður lítur til þess að barnaverndarnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem fer með eftirlit með framkvæmd barnasáttmálans, beinir tilmælum til aðildarríkja um að virða líkamlega friðhelgi intersex barna, hverfa frá framkvæmd læknisfræðilegra óþarfainngripa í líkama þeirra og virða sjálfsákvörðunarréttinn. Evrópuráðið hefur gefið út tilmæli vegna nákvæmlega sömu atriða, þ.e. mannréttinda intersex fólks, og það er vísað sérstaklega til líkamlegrar friðhelgi barna. Evrópuþingið samþykkti nú síðast í febrúar ályktun um réttindi intersex fólks og hvatti sérstaklega til þess að vernda líkamlega friðhelgi barna.

Það ber því allt að sama brunni. Það er alltaf lögð mest áhersla á börnin og það er ekki tilviljun. Þess vegna veltir maður fyrir sér hvort það sé kannski ástæða til að skoða enn frekar, núna þegar þingið er með frumvarpið til meðferðar, hvort hægt sé að koma þessu máli að aftur hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Hæstv. forsætisráðherra fór yfir það í framsöguræðu sinni áðan af hverju frumvarpið er klárað svona, með því að setja bráðabirgðaákvæði og taka það út fyrir sviga og setja í hendur starfshóps. Störf hins óformlega starfshóps sem kom málinu af stað, málinu sem þetta frumvarp er byggt á, töfðust vegna skiptra skoðana innan hópsins um þetta ákvæði, ákvæðið sem fjallar um breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Það tókst ekki að ná einingu um málið þar en við erum samt að tala um nokkurra ára vinnu. Þá verður niðurstaðan að mati sérfræðinga að þetta atriði þarfnist nánari skoðunar. Ég hef fullan skilning á því sjónarmiði sem kemur fram í máli hæstv. forsætisráðherra að vilja frekar taka þetta mál áfram og geyma hitt. Spurningin er bara: Hvað er hægt að skoða meira? Hvað getur orðið til þess í vinnu þessa starfshóps að þessu máli verði ýtt úr vör? Er allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis ekki alveg eins vel til þess fallin að taka vel á málinu? Ég efast um að í þessari skoðun komi fram einhverjar upplýsingar sem ekki hafa komið fram síðustu tvö árin. Þetta snýst bara um að taka ákvörðun. Ég vonast því til þess að allsherjar- og menntamálanefnd skoði málið og síðan eiginlega til vara velti ég fyrir mér hvort þá þurfi ekki að setja þessum starfshópi mjög skýr tímamörk svo hann taki ekki önnur tvö, þrjú ár í að klára málið. Það er eitt af því sem ég myndi vilja hvetja hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að skoða.

Annað er það sem umsagnaraðilar hafa saknað úr frumvarpinu og ég sé ekki að hafi verið bætt inn í þeirri mynd sem það kemur hér og það er skráningin. Það vantar skráningu á inngripum varðandi kyneinkenni barna og ég átta mig ekki á því af hverju hún er ekki lögbundin í þessu frumvarpi. Það er sem sagt engin tölfræði til hér á landi um umfang þessara inngripa. Það þyrfti að setja inn að læknar og aðrir sem gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum barna skuli halda skrá yfir þær. Við erum að tala um börnin og það er nú ekki ólíklegt að þetta tengist væntanlegri vinnu starfshópsins en engu að síður er þetta svo gríðarlega stórt mál.

Ég fór að fylgjast með þessum málum fyrir alvöru fyrir ríflega tveimur árum og þá var þetta eitt af því sem kom mér svo ótrúlega nöturlega á óvart. Þetta risamál, þetta risainngrip í líf einstaklinga, var eiginlega ekki talið þess virði að halda yfir það almennilega tölfræði. Þetta er með svo miklum ólíkindum. Ástæðan virðist vera sú leynd sem hefur hvílt yfir þessum málaflokki, sem er eiginlega fáránleg þversögn í sjálfu sér vegna þess að leyndinni er viðhaldið með skorti á aðgengilegum upplýsingum. Ég tek því heils hugar undir ábendingar sem hafa komið fram þess efnis að þeir sem gera slíkar varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum barna skuli halda yfir þær skrár og veita landlækni árlega upplýsingar um inngripin og eðli þeirra og aldur þeirra sem undirgangast slíkar breytingar. Þetta er lykilatriði.

Í umsögnunum eru gerðar alls konar tillögur um breytingar á orðalagi, fyrst og fremst til þess ætlaðar að eyða úreltum sjúkdómsheitum, og ég heyri ekki og skynja ekki annað en það sé fullur vilji til þess að eitthvað fari í gegn. Það verður væntanlega eitt af því sem verður farið vel yfir í samráði og samvinnu við þá einstaklinga sem best þekkja til.

Síðan langar mig aðeins í lokin til að tala um kerfi. Það er umsögn frá Þjóðskrá Íslands sem, eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á, leiddi m.a. til þess að frestur til þeirra aðila til að (Forsrh.: Laga sig að.) aðlagast, ég þakka hæstv. ráðherra, fór úr sex mánuðum yfir í 18 vegna þess að kveðið er á um töluverðar breytingar. Það er svolítið verið að tala um, eðli málsins vegna, breytingar á hinum ýmsu lögum, þar með talið mannanafnalögum. Það er tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir nema einni breytingu. Einstaklingur getur breytt kynskráningu og þar með nafni einu sinni. Maður veltir fyrir sér af hverju sá varnagli er. Það er eins og það sé gert til að þetta passi að mannanafnalögum. Ég mæli sterklega með því að við notum frekar tækifærið og tökum þann lagabálk og hendum honum upp í loftið og fáum gjörbreyttan niður þar sem tekin eru af öll tvímæli um að þeir sem ráða eiga nöfnum einstaklinga eru þeir sjálfir og aðrir ekki. Takmarkanir á því verði felldar niður. Ég er spennt fyrir því að sjá það samofið þessari umræðu í meðförum nefndarinnar.

Eins og þetta er núna er hægt að skipta um kynskráningu einu sinni, hins vegar þarf að rökstyðja það ef gera á það oftar. Ég get ekki skilið það öðruvísi en svo að það sé þjóðskrá sem taki afstöðu til þess sem mér finnst svolítið sérkennilegt. Ég velti fyrir mér, ef menn telja á annað borð að þessar hömlur þurfi að vera, hver það er sem tekur ákvörðun um hvort aðstæður séu slíkar að það eigi að leyfa skráningu aftur. Helst af öllu myndi ég vilja sjá þennan varnagla eða þessi höft hverfa algjörlega. Ég hef mjög litla trú á því að fólk leiki sér að því að skipta um kyn einu sinni í viku eða svo.

Þetta var samansafn yfir það sem ég myndi vilja sjá nefndina fjalla um en það er örugglega eitthvað fleira. Aftur fagna ég þessu frumvarpi gríðarlega. Það er ómetanleg réttarbót. Ég er stolt af því að það skuli vera komið fram og ég lýsi fullum stuðningi þingflokks Viðreisnar við málið og hlakka til þess, og við gerum það öll í þingflokknum, að taka þátt í því að koma málinu á endastöð í meðförum þingsins.[19:00]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa reifað málið. Ég vil í fyrsta lagi segja það um þá tillögu hv. þm. Loga Einarssonar að það sé rétt að setja tímamörk á þá starfshópa sem skipaðir verða að ég get tekið undir hana. Ég held að það sé ekki óeðlilegt þegar hv. allsherjar- og menntamálanefnd er búin að fara yfir málið að hún geri tillögu að slíkum tímamörkum.

Síðan vil ég nefna það sem hér var reifað af hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson um bráðabirgðaákvæðið um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Það er hárrétt sem hv. þingmaður nefnir, að þau tilfelli eru ekki skráð sérstaklega og það ætti hugsanlega að vera hluti af bráðabirgðaákvæðinu að settar verði einhverjar slíkar reglur um það, samhliða því að setja skýr viðmið um inngrip. Samkvæmt óformlegum tölum sem hafa komið fram, t.d. hjá formanni Samtakanna '78, fæðast tvö til þrjú börn á ári með ódæmigerð kyneinkenni. En þetta er ekki opinber skráning og það er fullkomlega eðlilegt að farið sé yfir það af hálfu nefndarinnar hvort ekki sé rétt að það sé gert.

Ástæða þess að ég tók þá afstöðu að leggja ekki fram ákvæðið eins og það var á einhverjum tíma kynnt af þeim starfshópi sem var að vinna málið var að það kom fram gagnrýni á að hugtakanotkun væri óljós. Þar var talað um að til meðferðar eða inngrips ætti ekki að koma til nema ef brýnar heilsufarslegar ástæður krefðust þess og að það skorti þá á skilgreiningu um hverjar þær væru. Til þess hreinlega að gefa okkur tíma og skýra þessi hugtök betur í eins góðri sátt og hægt er, sérstaklega við heilbrigðisstarfsfólk sem taldi ákveðinni óvissu velt yfir á heilbrigðisstarfsfólk, töldum við að það væri mikilvægt að leggja málið fram og ná þeim áfanga og gefa okkur aðeins meiri tíma í þetta.

Síðan ræddi hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson aðeins um þetta með að breyta skráningu oftar en einu sinni. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni. Ég held að það sé enginn að breyta skráningu kyns sér til gamans. En það kann þó að vera, af því að það kallar ekki á neinar aðgerðir, að einhver hefði húmor fyrir því. [Hlátur í þingsal.] En við teljum náttúrlega í fyrsta lagi að fólk sé almennt ekkert að gera þetta nema einu sinni. Hins vegar er bent á það hér í greinargerðinni um 7. gr. að það geti komið upp sérstakar aðstæður. Við ætlumst til þess að fólk breyti þessu bara einu sinni, þ.e. gerum ráð fyrir því, en maður getur þó með sérstökum rökstuðningi viljað breyta aftur. Ástæða þess að við tökum það fram er að fólk getur t.d. lent í því að óttast um sitt líf vegna þess að það dvelur í löndum þar sem ekki er viðurkennt að vera með hlutlausa kynskráningu. Það er verið að vísa til tilvika af slíkum toga.

Ég get tekið undir með hv. þingmanni. Ég held t.d. ekki að þetta frumvarp, verði það að lögum, sem ég er mjög bjartsýn á eftir þessa umræðu, verði til þess að fólk fari unnvörpum að breyta kyni. Þetta snýst ekki um það. En hugsunin var sú að þetta væri í raun og veru bara það sem við mættum búast við, en að það þyrfti að vera varnagli svo að fólk gæti breytt slíkri skráningu til baka af einhverjum sérstökum aðstæðum.

Er þjóðskrá rétti aðilinn? Við töldum að þetta snerist fyrst og fremst um hina breyttu skráningu. Það er ástæðan fyrir að þetta er lagt til svona.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar. Ég þakka bara hv. þingmönnum kærlega fyrir og bind miklar vonir við þann einbeitta vilja sem hér kom fram til að ljúka málinu á þessu þingi og tek undir þann vilja. Mínar vonir standa líka til þess.Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.