149. löggjafarþing — 89. fundur
 8. apríl 2019.
eigendastefna Isavia.

[15:29]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Isavia hefur mikla sérstöðu sem upphaf og endir alls í flugi hér á landi. Fyrirtækið starfar í samræmi við almenna eigendastefnu ríkisins frá því í ágúst 2012 og þar er lögð áhersla á skil ásættanlegrar afkomu og viðhald tekjumyndandi eigna frá fyrirtækjum í eigu ríkisins.

Ég veit að við hæstv. ráðherra erum sammála um að sú almenna stefna uppfyllir ekki kröfur eigendastefnu félags með jafn mikla sérstöðu og áhrif og Isavia hefur. Ég veit þetta vegna þess að ríkisstjórnin skrifaði í stjórnarsáttmála sinn að slík stefna yrði mótuð.

Fáir aðilar hafa tækifæri til að hafa jafn mikil áhrif á þróun ferðaþjónustu á Íslandi og Isavia. Félagið hefur verið mikið í fréttum undanfarið í kringum gjaldþrot og fall WOW en núna síðast í áskorun Ásthildar Sturludóttur, bæjarstjóra Akureyrar, til stjórnvalda. „Ísland er,“ sagði Ásthildur, með leyfi forseta, í nýrri grein sinni:

„eins og hús þar sem öllum er boðið að troðast inn og út um einar dyr.“

Í greininni kallar bæjarstjórinn eftir nauðsynlegri uppbyggingu flugvallarins á Akureyri sem alþjóðlegrar flugstöðvar sem taki á móti áætlunarflugi.

Og þá kem ég að spurningum mínum. Ég hefði gjarnan viljað eiga orðastað hér við hæstv. ráðherra ferðamála um stöðu á mótun eigendastefnu ríkisins í flugumferðarmálum og tengsl við ferðaþjónustuna. Á opnum fundi atvinnuveganefndar í síðustu viku sagði ráðherra þá vinnu vera í gangi hjá fjármálaráðuneytinu og vísaði umræðunni þangað.

Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvað líður vinnu við mótun eigendastefnu Isavia og hvenær má vænta niðurstöðu? Getur hæstv. ráðherra upplýst mig og þingheim um hvaða áhersluatriði þar eru lögð til grundvallar þeirri vinnu, umfram þá kröfu að skila ásættanlegri afkomu?



[15:31]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það megi segja að ef Isavia getur verið mikill örlagavaldur um þróun ferðaþjónustu í landinu þá hljóti fyrirtækið að hafa staðið sig afskaplega vel á undanförnum árum, ef marka má ofboðslega mikinn uppgang í ferðaþjónustu þar sem fjölgun í komum ferðamanna hefur mælst í tugum prósenta ár eftir ár — en nú eru hins vegar aðeins breyttir tímar.

Til að svara spurningunni um eigendastefnu er hún í vinnslu og er henni ætlað að verða ítarlegri en almenn eigendastefna og taka mið af þeim markmiðum sem við viljum sérstaklega ná fram á því starfssviði sem félagið starfar. Meðal atriða sem ég tel að við þurfum að líta til þegar skoðuð er eigendastefna fyrir Isavia eru þættir eins og það að hve miklu leyti við ætlum að fela félaginu að annast um verkefni sem það hefur ekki haft beinar skyldur til að sinna fram til þessa.

Það getur komið til þess að menn líti þá og í því sambandi sérstaklega til innanlandsflugvallakerfisins í landinu. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér hefur stundum þótt að hér á þinginu hafi menn ekki verið reiðubúnir til að horfast beint í augu við þann kostnað sem fellur til vegna þess að Ísland er tiltölulega strjálbýlt land og það fellur til mikill kostnaður við að halda úti mörgum öflugum innanlandsflugvöllum. Þann kostnað er ekki hægt að fela með því að stinga honum inn í hlutafélag, þótt það gangi ágætlega af öðrum sökum. Ég ætla í seinna svari mínu að koma aðeins nánar að Akureyri sérstaklega.



[15:34]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég er svolítið að upplifa að við séum ekki að tala um nákvæmlega sömu hlutina. Hér var ekki verið að ýja að því að með nýrri og breyttri eigendastefnu væri ekki að eiga sér stað samdráttur í fjölgun ferðamanna eða að Isavia hefði ekki staðið sig vel í því að fjölga ferðamönnum heldur eingöngu verið að nefna þá staðreynd að á meðan á fjölguninni stóð var töluvert talað um að mögulega þyrftum við einhvern veginn, þ.e. ríkið með okkar eignarhald, m.a. Isavia, að hafa áhrif á það hvernig ferðamenn við vildum fá inn og þá í gegnum hvaða kanala; um hvaða flugvelli væri að ræða.

Mig langar að velta því aðeins upp og ég er ánægð með að ráðherra ætlar að koma nánar að Akureyri. En ég er líka að velta því fyrir mér hvort í þessari vinnu við nýja eigendastefnu ríkisins varðandi Isavia eigi ekki líka að leggja drög að (Forseti hringir.) þróun stefnumörkunar í ferðaþjónustu almennt og því tengt hvort hæstv. ráðherra sé ekki sammála því að það væri eðlilegt að (Forseti hringir.) ráðherra ferðamála ætti menn í stjórn þess félags.



[15:35]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki lykilatriði hvernig velst inn í stjórnina hjá Isavia. Ég held að við höfum engin sérstök dæmi um það að skipan stjórnarinnar hafi valdið vandkvæðum.

Mig langar til að segja varðandi Akureyri að í gegnum tíðina, sérstaklega hvað varðar alþjóðaflugið, hefur það ekki liðið fyrir aðstöðuskort. Það hefur einfaldlega ekki verið til að dreifa neinu beinu alþjóðlegu flugi. Meðal annars af þeirri ástæðu var komið á laggirnar fyrir nokkrum árum sérstökum flugþróunarsjóði, fjármunir eyrnamerktir því að efla þetta hlið inn í landið. Það hefur tekist þannig að við höfum haft bróðurpartinn af árinu regluleg flug inn á svæði sem hafa skilað jákvæðum áhrifum fyrir Norðurland allt. Þetta finnum við þegar við heimsækjum þar ferðaþjónustuaðila, ekki bara á Akureyri heldur um allt Norðurland. Og í kjölfarið af þeirri breytingu sem orðið hefur (Forseti hringir.) með þessu er orðið mjög aðkallandi að leysa aðstöðumálin á Akureyrarflugvelli. Þau eru algerlega óboðleg eins og sakir standa.