149. löggjafarþing — 98. fundur.
virðisaukaskattur, 1. umræða.
frv. efh.- og viðskn., 871. mál (varmadælur). — Þskj. 1405.

[22:25]
Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum, um varmadælur.

Í 1. gr. segir: „Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis.“ Í greinargerð kemur fram að í frumvarpinu sé lagt til að heimilt verði að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis.

Tímabundin heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts er til staðar en í gildisákvæði þeirra laga sem eru í gildi kemur fram að þau falli úr gildi að fimm árum liðnum frá gildistöku þeirra. Lögin voru birt 5. júní 2014 og falla því að óbreyttu úr gildi 5. júní næstkomandi. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, sem ég tel ekki ástæðu til að fara mjög ítarlega yfir að svo komnu máli, hefur sú ráðstöfun að endurgreiða varmadælur skipt verulegu máli víða um land enda hefur húshitunarkostnaður víða á landsbyggðinni verið mjög sligandi fyrir afkomu heimila, sérstaklega á svokölluðum köldum svæðum.

Vegna þess mikla kostnaðar sem leggst á heimili hefur verulegum fjármunum ríkisins verið ráðstafað til ýmissa aðgerða til að minnka orkukostnað notenda á þeim svæðum á landinu þar sem hann hefur verið mestur. Þetta hefur m.a. verið gert með heimild til að niðurgreiða húshitunarkostnað, svo sem þegar íbúð sem ekki er á veitusvæði hitaveitu er hituð með raforku með það að markmiði að tryggja öllum landsmönnum aðgang að orku á viðráðanlegu verði, samanber lög um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar. Einnig hefur verið gripið til aðgerða, líkt og lagt er til í frumvarpi þessu, sem felast í endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis.

Hæstv. forseti. Ég hygg að ég þurfi ekki að fylgja frumvarpinu frekar úr hlaði og vísa til greinargerðarinnar. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað beint til 2. umr. að lokinni þessari.



Frumvarpið gengur til 2. umr.