149. löggjafarþing — 116. fundur
 4. júní 2019.
vátryggingarsamningar, 2. umræða.
stjfrv., 763. mál (upplýsingagjöf). — Þskj. 1214, nál. 1639, breytingartillaga 1640.

[15:43]
Frsm. efh.- og viðskn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, með síðari breytingum. Nefndin hefur fjallað um þetta mál og fengið á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og frá Fjármálaeftirlitinu. Nefndinni bárust umsagnir frá Fjármálaeftirlitinu og Samtökum fjármálafyrirtækja, auk minnisblaðs frá ráðuneytinu.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vátryggingarsamninga, einkum um atriði sem varða upplýsingagjöf og upplýsingaskyldu milli dreifingaraðila vátrygginga og vátryggingartaka. Frumvarpinu er ætlað að innleiða í íslenskan rétt tiltekin ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2016/97 um dreifingu vátrygginga, samanber einnig 764. mál á yfirstandandi þingi, frumvarp til laga um dreifingu vátrygginga sem verður væntanlega tekið fyrir hér á eftir.

Ákvæði 1. málsliðar 4. efnismgr. 10. gr. frumvarpsins, sem breytir 9. gr. laga um vátryggingarsamninga, mælir fyrir um heimild Fjármálaeftirlitsins til að setja reglur um mat og eftirlit þegar vátrygging er seld með vöru eða þjónustu sem hluti af pakka eða í sama samningi. Í umsögn sinni og á fundi nefndarinnar bentu fulltrúar Fjármálaeftirlitsins á að óþarfi væri að mæla fyrir um slíka reglusetningarheimild í lögum þar sem stofnunin tæki viðmiðunarreglur á borð við þessar upp með dreifibréfi og slóð á enska útgáfu þeirra á vefsíðu sinni en ekki með sérstakri reglusetningu. Í skýringum við þessa grein kemur fram að reglurnar myndu byggjast á viðmiðunarreglum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar (EIOPA). Nefndin tekur undir þessa ábendingu og leggur til að 1. málsliður 4. efnismgr. 10. gr. falli brott. Aðrar breytingar sem nefndin leggur til eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita Óli Björn Kárason formaður, Brynjar Níelsson, Þorsteinn Víglundsson, Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson framsögumaður, Smári McCarthy og Silja Dögg Gunnarsdóttir.