149. löggjafarþing — 120. fundur
 11. júní 2019.
loftslagsmál, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 758. mál (styrking á stjórnsýslu og umgjörð). — Þskj. 1200, nál. 1728, breytingartillaga 1729.

[18:08]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Við ræðum hér áframhaldandi kerfisvæðingu loftslagsmálanna. Slík kerfisvæðing þessa málaflokks, eins og reyndar svo marga annarra, hefur ekki reynst vel, held ég að mér sé óhætt að segja, fram að þessu. Raunar virðist það vera einkenni á nútímastjórnmálum að því stærri sem málin eru, þeim mun yfirborðskenndari eru lausnirnar.

Við getum væntanlega öll verið sammála um að loftslagsmálin séu eitt af stærstu viðfangsefnunum þessi misserin og komandi ár og væntanlega áratugi. En séum við sammála um það hljótum við líka að geta verið sammála um að það þurfi að nálgast loftslagsmálin á þann hátt að það sé til þess fallið að skila raunverulegum árangri. En sú hefur ekki verið raunin.

Fyrir ekki svo löngu síðan, árið 2015, var samþykktur svokallaður Parísarsáttmáli í loftslagsmálum og ég tel að ég hafi verið þátttakandi í því og undirritað það skjal, enda vorum við Íslendingar, og erum, allir af vilja gerðir að taka þátt í þeim lausnum sem menn geta komið sér saman um. En því miður er fátt sem bendir til að sú lausn muni skila umtalsverðum árangri, raunar þvert á móti. Nú hefur verið sýnt fram á, með gögnum Sameinuðu þjóðanna sjálfra um loftslagsmál, að jafnvel þó að menn uppfylli Parísarsamkomulagið að öllu leyti á þeim tíma sem menn hafa sett sér til að klára það mál, muni áhrifin vera hverfandi, nánast engin hvað varðar loftslagsbreytingar eða losun gróðurhúsalofttegunda. Það hlýtur að vera áhyggjuefni en þess heldur er það áhyggjuefni að menn haldi áfram á sömu braut, haldi áfram með sýndaraðgerðum, með aðgerðum sem þeir telja til þess fallnar að láta líta út fyrir að verið sé að bregðast við loftslagsvá, án þess að aðgerðir skili nokkrum árangri sem heitið geti.

Það er áhugavert til að mynda að bera saman árangur Bandaríkjanna og Evrópulanda undanfarin ár í því að fást við losun gróðurhúsalofttegunda, sérstaklega áhugavert í ljósi þess að Bandaríkjamönnum hefur verið legið á hálsi fyrir að gera ekki sitt í þessu efni. Bandaríkin hafa að sjálfsögðu verið mjög lengi það land sem losar mest af gróðurhúsalofttegundum. En að auki bættist það svo við að bandarísk stjórnvöld sögðu sig frá Parísarsamkomulaginu.

En hver hefur raunin verið? Undanfarin ár hefur losun gróðurhúsalofttegunda í Bandaríkjunum minnkað umtalsvert meira en hjá mörgum, líklega flestum, Evrópuþjóðum. Hvernig stendur á því? Jú, það er ekki hvað síst vegna þess að Bandaríkin hafa í auknum mæli fært sig frá orkuframleiðslu með kolabruna og yfir í orkuframleiðslu með bruna á gasi, en gasframleiðsla, jarðgasframleiðsla, hefur aukist töluvert í Bandaríkjunum undanfarin ár með nýrri tækni sem upp á ensku er kölluð „fracking“. Ég verð að biðja herra forseta afsökunar á því að ég þekki ekki íslenska orðið á þeirri aðferð við gasframleiðslu. En afleiðingin hefur verið sú að gasframleiðsla Bandaríkjanna hafi aukist til mikilla muna og það hefur gert þeim kleift að draga mjög verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. En þetta er eitthvað sem menn vilja einfaldlega líta fram hjá, sem er ákaflega sérkennilegt í ljósi þess að sama fólk telur þetta mestu vá sem steðjar að mannkyninu. Það vill hins vegar ekki eða a.m.k. forðast það að líta til þeirra aðferða sem hafa skilað raunverulegum árangri í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en finnur upp sífellt nýjar sýndaraðgerðir og jafnvel, eins og er nú svo einkennandi, því miður, með stjórnmál nútímans og sýndarnálgunin á pólitíkina, finnur upp ný orð til að lýsa hlutunum eins og það leysi eitthvað.

Hér liggur fyrir frumvarp sem gengur einmitt fyrst og fremst út á þetta, að búa til nýjar nefndir, jafnvel ný orð, nýjan vettvang til að ræða málin og velta vöngum. Maður óttast í ljósi reynslunnar að þetta verði allt á sömu bókina lært og fram að þessu, að í stað þess að menn líti raunverulega til vísindanna og þeirra aðferða sem geta kannski skilað raunverulegum árangri í þessum efnum, muni þetta snúast um orðskrúð og nefndir til þess að menn geti vísað í það að þessi nefnd sé jú starfandi þarna og þessi markmið hafi verið sett. Þannig séum við að vinna á þessum vanda, þótt raunin sýni að lítið gangi við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Þetta atriði varðandi gasið tengist auðvitað umræðunni um orkuvinnslu á Íslandi. Við búum svo vel á Íslandi að framleiða raforku nánast algerlega eða 100% með endurnýjanlegum orkugjöfum, umhverfisvænum, endurnýjanlegum orkugjöfum. Það hefur oft á tíðum verið sérkennilegt að fylgjast með umræðunni um orkuvinnslu hér á landi þar sem þeir sem skilgreina sig sem umhverfisverndarsinna hafa sett út á það að hér væri virkjað, jafnvel þó að um sé að ræða virkjanir sem eru í samræmi við nýtingarkosti í rammaáætlun, og hafa oft og tíðum hreinlega sett út á allar virkjunarframkvæmdir. Það er sérstaklega sérkennilegt í ljósi þess að sú orka sem framleidd er hér gagnast auðvitað heiminum öllum hvað varðar baráttuna við losun gróðurhúsalofttegunda vegna þess að hún er unnin með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Hins vegar hafa menn lagst mjög gegn því, margir hverjir, þeir sem skilgreina sig sem umhverfisverndarsinna, að Íslendingar hæfu olíu- og gasvinnslu á Drekasvæðinu. Þeir hafa jafnvel reynt að bregða fæti fyrir þau áform þrátt fyrir að rannsóknir hafi sýnt að þar sé að öllum líkindum að finna umtalsvert jarðgas, náttúrulegt gas ekki hvað síst, sem gæti hjálpað þjóðum heims við að draga úr kolabrennslu og minnka um leið losun gróðurhúsalofttegunda.

Það er alveg ljóst að það mun þurfa að auka orkuframleiðslu á komandi árum. Orkuþörf heimsins eykst um u.þ.b. 2% á ári og hefur gert í alla vega 40 ár, að jafnaði. Það mun reynast óframkvæmanlegt að verða við þessari auknu eftirspurn eftir orku eingöngu með vindmyllum og slíkum aðferðum. Raunar gerði ég vindmyllur að sérstöku umtalsefni í umræðu um þriðja orkupakkann og tel ástæðu til að koma inn á þær í seinni ræðu um þetta mál sem við ræðum hér, enda hefur reynst erfitt að sýna fram á að vindmylluvæðingin sé til þess fallin að draga raunverulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Vindmyllur eru almennt framleiddar úr stáli sem er unnið í Kína með brennslu kola og með gríðarlegri notkun á steinsteypu og öðrum efnum sem ýta undir og auka við losun gróðurhúsalofttegunda og ekki hefur verið sýnt fram á að vindmyllurnar nái á líftíma sínum að vinna það upp.

En það er erindi í sérstaka ræðu. Ég nefni þetta eingöngu í framhjáhlaupi til að leggja áherslu á það og undirstrika að í loftslagsmálum, í þessu stóra viðfangsefni sem loftslagsmálin eru, þurfa menn í auknum mæli að temja sér að líta á hlutina heildstætt, skoða heildaráhrif þeirra aðgerða sem ráðist er í og líta á hlutina til lengri tíma. Í rauninni á það sama við í þessu eins og svo mörgum stórum málum, menn þurfa að reyna að meta heildaráhrifin til að geta tekið skynsamlegar ákvarðanir sem eru til þess fallnar að skila einhverjum árangri sem heitið geti.

Af því að ég nefndi gasnotkun og vindmyllur má setja það í samhengi með því að benda á að gastúrbína framleiðir jafn mikið magn og vindmyllur með einungis 1/200 af því hráefni, þ.e. málmum og öðru sem þarf til að framleiða túrbínurnar, sem þarf í vindmyllurnar til að þær skili sömu orku. Eingöngu eitt af fjölmörgum dæmum sem mætti nefna um að það þurfi að setja þessa hluti í samhengi, sé mönnum alvara með að ná árangri á þessu sviði.

Ísland hefur svo sannarlega lagt sitt af mörkum á undanförnum árum og áratugum. Við framleiðum, ef ég man rétt, u.þ.b. tífalt meira af orku hér en meðalþjóðir í Evrópu og við gerum það á umhverfisvænan, endurnýjanlegan hátt. Þess vegna hefur verið afskaplega sérkennilegt, eins og ég gat um áðan, að fylgjast með því hvað umræðan, oft og tíðum frá umhverfisverndarsinnum eða fólki sem skilgreinir sig sem umhverfisverndarsinna, hefur verið neikvæð í garð íslenskrar orkuframleiðslu. Það sama á auðvitað við um álframleiðsluna. Mikið af þeirri orku sem við framleiðum hér á landi fer í að framleiða ál sem svo er flutt út. Ál er einstaklega umhverfisvænn málmur á ýmsan hátt, léttur málmur, til að mynda eyða farartæki sem framleidd eru úr áli frekar en þyngri málum umtalsvert minna af eldsneyti fyrir vikið og losa þannig minna af gróðurhúsalofttegundum. En ál er líka hægt að endurvinna nánast endalaust og það skilar sér mjög vel til endurvinnslu. Þegar það hefur lokið hlutverki sínu á einum stað er það jafnan endurunnið og fær nýtt hlutverk í framhaldinu. Álframleiðsla á Íslandi losar líklega um einn tíunda af því sem sams konar framleiðsla myndi losa í Kína, enda eru álver í Kína, og þeim fer fjölgandi, keyrð áfram af orku sem yfirleitt og jafnvel nánast alltaf er framleidd með kolabruna. Þess vegna er sú staðreynd að við skulum framleiða tiltölulega mikið ál á Íslandi um leið áminning um að við leggjum raunverulega mikið af mörkum til að fást við þá vá sem kann að stafa af loftslagsbreytingum.

En til að ná raunverulegum árangri þurfum við að gera betur. Þess vegna væri eða hefði verið gagnlegt að ræða meira um raunverulegar lausnir en það sem birtist í þessu frumvarpi, sem eru nýjar nefndir og jafnvel ný heiti hlutanna. Lausnin mun m.a. felast í því, eins og ég gat um í upphafi, að heimurinn færi sig í auknum mæli frá kolabruna en einnig í tækniframförum.

Í því samhengi er mjög áhugavert að líta til þeirra framfara sem hafa orðið við framleiðslu orku með sorpbrennslu. Nú er mikið talað um plast og margir sjá ofsjónum yfir plasti og virðast telja að allt það plast sem notað er hér á Íslandi endi í hafinu. Það er nú ekki svo. Reyndar er yfir 90%, jafnvel allt að 95%, af því plasti sem flýtur um heimshöfin komið úr aðeins tíu ám, tíu fljótum heimsins, og ekki mikið um að plast sem notað er hér á Íslandi endi í hafinu, sem betur fer. Með tækniframförum er nú hægt að brenna plast á jafnvel umhverfisvænni hátt en gas. Í slíkum lausnum kann að felast gríðarlegt tækifæri, til að mynda í þeim löndum sem ég nefndi áðan, þar sem þessi tíu stórfljót eru, þar sem plast hrúgast upp og losunin eykst ár frá ári vegna fólksfjölgunar og aukinna efnahagslegra umsvifa í þessum löndum, ef menn einfaldlega nýta tæknina til að brenna þetta plast, breyta því fyrst í eldsneyti, í nokkurs konar gas, og brenna það svo á jafn umhverfisvænan hátt og jafnvel umhverfisvænni hátt en jarðgasið.

Það má auðvitað fylgja sögunni að það er alls konar annað sorp sem mætti brenna í leiðinni. En plastið hefur verið það sem er mest mengandi og losar mest af gróðurhúsalofttegundum. Með því að innleiða þessa nýju tækni við sorpbrennslu væri hámarkslosunin vegna plastbrennslu en allt hitt sorpið losar umtalsvert minna af gróðurhúsalofttegundum á hverja orkueiningu en meira að segja gas. Raunar er heimilissorp að jafnaði umhverfisvænasti orkugjafinn þegar menn brenna það í nútímasorpbrennslum og framleiða með því orku eða rafmagn. Það er til að mynda nýlega búið að reisa mjög stóra sorpbrennslu í Ósló sem sér þeirri borg fyrir miklu af orkuþörf borgaranna þar. Þó að Norðmenn skorti ekki orku almennt, eins og menn þekkja vel, og eigi hana á ýmsu formi hafa þeir með því að nýta tæknina, nýta framfarir í tækni, séð tækifærin í því að brenna sorpi og framleiða með því tiltölulega umhverfisvæna orku.

Hvers vegna líta menn ekki til slíkra lausna? Hvers vegna líta menn ekki til þess sem vísindalega og raunverulega virkar og skilar árangri en halda sig í staðinn við sýndaraðgerðir og nýjar nefndir og starfshópa? Ég óttast að það sé einmitt af þeirri ástæðu sem ég gat um í upphafi ræðu minnar, að það sé eðli stjórnmála nútímans að þeim mun stærra sem viðfangsefnið er, þeim mun meiri athygli sem viðfangsefnið fær í fjölmiðlum, þeim mun mikilvægara telji menn að þær aðgerðir sem þeir boða eða vilja ráðast í séu til þess fallnar að vekja athygli, vera sýnilegar, sýna fram á dyggðir viðkomandi stjórnmálamanna eða -hreyfinga. Þar af leiðandi henti mun verr inn í þessa pólitísku umræðu, henti verr en að fljóta með straumnum eða jafnvel sigla á straumnum sem felst í umræðu um þessi mál, að leita hinna vísindalegu og raunverulegu lausna, enda geta þær verið flóknar. Þær geta tekið tíma og oft á tíðum auðvitað orkað tvímælis. En ef okkur er alvara með að takast á við þann vanda sem aukin losun gróðurhúsalofttegunda er, þá mun það ekki takast nema við leyfum okkur að leita lausna sem raunverulega virka.

Ég ætla að nefna í lok þessarar fyrstu ræðu minnar um þetta mál, og vil taka að fram að ég mun fara betur í margt af tæknilegum hliðum málanna í seinni ræðum, að ég ætla að nefna sérstaklega þá miklu umræðu sem hefur orðið hér á landi um aðgerðir í loftslagsmálum sem felast í því að moka ofan í skurði. Það hefur ekki verið sýnt fram á að þetta virki og raunar hafa margir vísindamenn lýst miklum efasemdum um að þetta geri tilætlað gagn. En þetta er sýnilegt. Það er hægt að láta taka myndir af sér að moka ofan í skurð og halda því fram að með því sé verið að leggja sitt af mörkum til að fást við loftslagsvána. Í raun kann vel að vera að þetta hafi öfug áhrif. Auðvitað losar votlendi metan, sem er 23 sinnum áhrifaríkari loftslagstegund en koltvísýringur, svoleiðis að það eru talsverðar líkur á því að í a.m.k. einhverjum tilvikum séu menn með þessum aðgerðum að auka losunina.

Þetta er eitt dæmi af mörgum um hið sama, allt of margir vilja aðgerðir sem hægt er að fá mynd af, hægt er að haka við að verið sé að bregðast við loftslagsvánni, án þess að þær skili endilega tilætluðum árangri og geti jafnvel haft öfug áhrif við það sem að er stefnt.

Það er hins vegar alveg ljóst að landgræðsla og trjárækt er eitt af mikilvægustu tækjunum sem við höfum í því að fást við losun gróðurhúsalofttegunda. Það ætti að vera eitthvað sem menn gætu náð góðri samstöðu um, að auka verulega við landgræðslu og trjárækt á Íslandi. (Forseti hringir.)

Ég held að ég sé ekki hálfnaður með ræðu mína, herra forseti, og bið um að verða settur aftur á mælendaskrá.



[18:28]
Forseti (Jón Þór Ólafsson):

Forseti verður við því og bendir jafnframt þingmönnum á að „fracking“ er víst þýtt sem vökvabrot á íslensku. Það er alla vega svo á Vísindavef Háskóla Íslands.



[18:28]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að lýsa því að ég er sammála því hjá hv. þingmanni að Parísarsamkomulagið hefði mátt vera róttækara en það náðist þó sögulegt samkomulag allra þeirra þjóða sem stóðu að því.

Ég er líka sammála hv. þingmanni með að líklega er ofuráhersla lögð á endurheimt votlendis þegar kemur að loftslagsbreytingum og aðgerðum gegn þeim þegar meira mætti tala um og leggja til aðgerðir til að draga beint úr losun lofttegunda.

En hv. þingmanninum talað um kerfisvæðingu loftslagsmálanna. Við þurfum einmitt á kerfislægum viðbrögðum að halda. Við þurfum á kerfisbreytingum að halda til að sporna við afleiðingum loftslagsbreytinganna.

Mig langar að heyra aðeins frá hv. þingmanni vegna þess að hann staðhæfði að útblástur koltvísýrings, sem er ein mest mengandi lofttegundin og mesti skaðvaldurinn þegar kemur að loftslagsbreytingum, hafi minnkað meira í Bandaríkjunum en í Evrópu. Mig langar að fræðast um það hvaða gögn hv. þingmaður hefur undir höndum til að kasta þeirri staðhæfingu fram.



[18:29]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi kerfisvæðinguna er rétt að taka skýrt fram að ef kerfisvæðingin fæli það í sér að kerfið færi að virka þannig að raunverulega drægi úr losun gróðurhúsalofttegunda væri það jákvæð kerfisvæðing. En sú kerfisvæðingu sem við horfum hins vegar upp á núna er öll, eða a.m.k. að allt of miklu leyti, á þeim forsendum sem ég gat um áðan. Það eru stofnaðar nefndir og samráðshópar og búin til markmið án þess að menn hafi í rauninni lausnirnar til að ná þeim markmiðum, eins og Parísarsamkomulagið er því miður allt of gott dæmi um.

En af því að hv. þingmaður spyr hvaðan ég hafi tölurnar hef ég þær m.a. frá Sameinuðu þjóðunum og Orkustofnun Bandaríkjanna. Auðvitað er þetta mjög mismunandi á milli Evrópulanda, enda nefndi ég að þetta ætti við um sum Evrópulönd, en til að mynda Þýskaland, sem leggur mikla áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, hefur ekki náð þeim árangri sem að hefur verið stefnt. Þrátt fyrir gríðarlega og dýra fjárfestingu í ekki hvað síst vindmyllugörðum gengur Þjóðverjum erfiðlega að draga úr kolabruna, m.a. reyndar vegna þess að tekin var upp sú stefna í Þýskalandi að loka kjarnorkuverum landsins, hverju einasta kjarnorkuveri í Þýskalandi. Á sama tíma kaupa menn svo til Þýskalands raforku úr kjarnorkuverum í Frakklandi, sem sýnir hvað þetta eru oft miklar sýndaraðgerðir. Og á sama tíma: Þegar Þýskaland gerir upp loftslagsbókhald sitt lítur það ekki til áhrifanna sem verða annars staðar, til að mynda í Kína, vegna framleiðslu þar á stálinu sem fer í vindmyllurnar og er framleitt nánast eingöngu með kolabruna.

(Forseti (JÞÓ): Forseta láðist að nefna að þar sem þrír hv. þingmenn óska eftir að veita andsvör styttist andsvar í eina mínútu í síðara andsvari.)



[18:32]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir svörin. Ég myndi gjarnan vilja fá í seinna andsvari nákvæmlega hvaða skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum hann er að vísa í vegna þess að í glænýrri grein í World Economic Forum frá því í janúar á þessu ári sýna nýjustu tölur um útblástur landa að Kína trónir efst á toppnum með 29% meiri útblástur koltvísýrings í heiminum, ef frá eru talin losun frá flugi og skipaumferð. Þar á eftir, annað mest mengandi landið, eru Bandaríkin, sem eru enn þá ábyrg fyrir 15% af útblæstri koltvísýrings. Þriðja landi í röðinni er Indland sem er ábyrgt fyrir 7% af mengandi útblæstri. Önnur lönd koma þar á eftir með um 2% af útblæstri á heimsvísu. Það eru Rússland, Japan og Þýskaland.

Þannig að ég klóra mér enn þá svolítið í hausnum yfir þeirri fullyrðingu hv. þingmannsins um að vel hafi gengið hjá Bandaríkjunum (Forseti hringir.) að draga úr losun vegna þess að staðreyndin er Bandaríkin eru ekki aðilar að Parísarsamkomulaginu (Forseti hringir.) og yfirlýst stefna núverandi Bandaríkjaforseta sýnir svart á hvítu (Forseti hringir.) að á þeim bæ er ekki mikill vilji til þess að standast alþjóðlegar skuldbindingar þegar kemur að loftslagsmálum.



[18:33]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt því nú ekki fram að Bandaríkin væru hætt að losa gróðurhúsalofttegundir heldur að dregið hefði úr losun þar frá því þegar hún var í hámarki. Ég lýsti því að það væri ekki hvað síst vegna þess að menn væru farnir að nýta gas í auknum mæli frekar en kol við að framleiða orku.

En það er rétt sem hv. þingmaður segir að Kína er komið fram úr Bandaríkjunum og styttist væntanlega í að Indland geri það líka, svoleiðis að þar er þetta vaxandi vandamál. En ég geri ekkert lítið úr því að Bandaríkin, þetta mikla iðnveldi, losa að sjálfsögðu gríðarlega mikið af gróðurhúsalofttegundum og ég ætla ekki að verja loftslagsstefnu ríkisstjórnar Bandaríkjanna. Ég er eingöngu að benda á þá staðreynd að það hefur dregið úr losun Bandaríkjanna, þrátt fyrir að þeir séu ekki aðilar að Parísarsamkomulaginu, ekki hvað síst út frá því að þeir nota í auknum mæli gas frekar en kol. Það sýnir að gasbruni á kostnað kolabruna virkar.



[18:35]
Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna. Hann fór vítt og breitt yfir þetta stóra mál sem er náttúrlega það stórt að það er að mörgu leyti ofar mínum skilningi, enda erum við að tala um lofthjúp jarðar.

Ég hef lýst því að ég hef verið svolítið í tregur í taumi í þessu máli hvað varðar það í fyrsta lagi að kyngja þeirri staðreynd, sem er orðin viðurkennd á alheimsvísu, að við eigum við vanda að stríða og hvernig við getum brugðist við henni. Maður hefur svolítið vera að bíða eftir einhverri aðgerðaáætlun sem er að hluta til í þessu frumvarpi. Gott og vel.

Nú hafa margar þjóðir heimsins tekið sig saman um aðgerðir gegn loftslagsvánni og félög hér heima og aðilar hafa líka fjallað um hvernig við getum gert okkur gildandi, jafnvel tekið forystu í loftslagsmálum til að koma okkur betur á kortið í sambandi við það hver við erum og fyrir hvað við stöndum. Mig langar að spyrja hvort þingmaðurinn sjái fyrir sér og hafi leitt að því huga, í einföldu og stuttu máli, hvernig við getum staðið að þeirri sérstöðu að skapa okkur forystu í loftslagsmálum á alheimsvísu.



[18:36]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að við hefðum ágætistækifæri til að vera a.m.k. leiðandi þjóð á því sviði, þó ekki væri nema í ljósi þess að við höfum á undan öllum öðrum þjóðum, svo að segja, náð að færa orkuframleiðslu okkar alfarið yfir í endurnýjanlega orkugjafa. Sú reynsla og þekking sem hefur byggst upp hér á Íslandi á því sviði getur að sjálfsögðu nýst þjóðum um allan heim og er byrjuð að gera það. Ýmis verkefni á sviði jarðvarma hafa til að mynda verið sett af stað með íslenskri aðstoð í Afríku og ekki hvað síst í Kína.

En eins og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir nefndi áðan losa Kínverjar núna umtalsvert meira af gróðurhúsalofttegundum en nokkur önnur þjóð. Það er mjög ískyggilegt, eiginlega óhugnanlegt að líta á gröf og línurit sem sýna vöxt slíkrar losunar í Kína. Langt umfram allar væntingar eða vonir manna frá því að farið var að gera þetta að alþjóðlegu viðfangsefni með samningum, til að mynda Kyoto, hefur Kína skotist langt umfram, ég held að mér sé óhætt að segja mestu svartsýnisspár hvað varðar losunina. En það er sérstaklega vegna gegndarlauss kolabruna við orkuframleiðslu í Kína, kolabruna sem er nýttur til framleiðslu í heimalandinu. Auðvitað er gífurleg uppbygging í þessu stóra landi en einnig er verið að framleiða varning sem er svo fluttur til Vesturlanda og þá fer kolabruninn og orkuframleiðslan ekki í loftslagsbókhald þeirra landa sem taka við varningnum heldur Kína sem framleiðir hann.



[18:39]
Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta svar. Þetta er athyglisvert mál allt saman. En mig langar í framhaldi af því að beina sjónum mínum að okkur á Íslandi í sambandi við kolefnisspor og annað slíkt.

Nú höfum við verið að ræða þau mál í sambandi við kolefnissporið. Mikill flutningur er á vörum á milli landa með skipum og flugvélum og eins á fólki. Hvernig sér þingmaðurinn fyrir sér að við yrðum sjálfbærari, t.d. í matvælaframleiðslu og öðru slíku, og minnkuðum kolefnisspor vegna innflutnings á matvælum þess vegna? Eins er þetta mjög viðkvæmt mál í sambandi við flugið og þá farþegaflug: (Forseti hringir.) Hvernig getum við mætt því í sambandi við kolefnisspor?



[18:40]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst að fyrra atriðinu varðandi framleiðslu hér heima og að við nýtum heimaframleiðsluna í auknum mæli, það á ekki hvað síst við um matvæli. Þetta er einmitt lýsandi dæmi um það sem hægt er að gera til að hafa raunveruleg jákvæð áhrif og ég hafði raunar hugsað mér að gera það að viðfangsefni sérstakrar ræðu síðar í umræðunni. Það er mjög áhugavert að skoða hversu miklu máli það skiptir fyrir umhverfið að við stöndum vörð um okkar eigin matvælaframleiðslu og þeim mun undarlegra að sjá hvernig vegið er að matvælaframleiðslunni á sama tíma af þeim sem í mörgum tilvikum telja sig vera málsvara umhverfisins.

Varðandi ferðamennina hefur mér alltaf þótt ákaflega sérkennilegt að skrifa losun vegna ferðamanna sem fljúga yfir landið eða lenda hérna á Ísland.

Ég næ því miður ekki að klára þetta en ég mun koma betur inn á það síðar.



[18:41]
Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er, eins og hv. þingmaður, aðeins hugsi yfir fyrri partinum af því frumvarpi sem hér er lagt fram. Nú blandast engum hugur um að loftslagsmál eru viðvarandi verkefni og hefur aldrei verið jafn áríðandi og nú að bregðast við.

Nú höfum við haft um nokkurra ára skeið, líklega frá árinu 2016, loftslagsráð. Sem er, eins og segir hér í 3. gr. og á bls. 2 í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Starfrækja skal loftslagsráð sem hefur það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum.“

Með frumvarpinu er boðuð sérstök verkefnisstjórn sem mótar tillögur að aðgerðum og hefur umsjón með að þeim sé hrundið í framkvæmd. Ég velti bara fyrir mér: Er þetta ekki sama verkefnið?

Og í öðru lagi: Við höfum hér Umhverfisstofnun, mjög sterka og öfluga stofnun, sem hefur verið efld mjög rækilega undanfarin ár og á að hafa eftirlit með loftgæðum o.s.frv. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi skilið þetta, því að ég skildi þetta ekki alveg. Er það verkefnisstjórnin sem hefur þá eftirlit með loftslagsráði sem hefur aftur eftirlit með ríkisstjórninni? Eða er því alveg þveröfugt farið?

Ég velti líka fyrir mér hvort annaðhvort verkefnisstjórnin sé þá að taka verkefni frá Umhverfisstofnun og/eða sé einhver yfirfrakki á þá stofnun, ásamt jafnvel loftslagsráði.

Þar sem ég skil þetta ekki alveg svona við fyrstu sýn langaði mig til að athuga hvort hv. þingmaður hefur tekið eftir þessu og hvort hann hefur mótað sér skoðun á því hvernig þetta virkar allt saman og vinni saman.



[18:43]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég hef ekki áttað mig almennilega á því en þetta er það sem ég á við þegar ég tala um kerfisvæðingu þessa málaflokks. Búnar eru til nýjar verkefnisstjórnir, ráð, nefndir, stofur jafnvel, til þess að fjalla um þessi mál, án þess að sýnt sé fram á hvernig þetta nýja fyrirkomulag verði skilvirkara í því að finna raunverulegar lausnir eða hrinda þeim í framkvæmd. Eins og hv. þingmaður nefnir réttilega höfum við þegar stofnanir til að takast á við þessi mál og því þætti mér tíma þingsins betur varið í að ræða verkefni þeirra stofnana sem við höfum fyrir og hvaða aðferðir, hvaða verkefni, séu best til þess fallnar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fremur en að flækja málið með því að flagga nýjum verkefnisstjórnum til þess eins — eða það óttast ég að sé tilfellið — að geta sagt: Sjáiði, við erum að gera eitthvað. Við stofnuðum nýtt ráð, með einhverju nafni sem á að vera til þess fallið að sýna að menn séu raunverulega að ráðast í aðgerðir.

Þetta er auðvitað vandi á mörgum sviðum, að menn bregðast oft og tíðum við með því að flækja úrræðin, flækja umgjörðina, um lausn málanna, í stað þess að einbeita sér að lausnunum sjálfum og lausnum sem raunverulega virka. Hættan við þessar síauknu flækjur er líka sú að þetta kerfi verði sífellt óskilvirkara og jafnvel að það festist í einhverri hringhugsun með hugmyndir eins og að moka ofan í skurði, að það verði kerfislæg hugsun þar sem ein nefndin bakkar hina upp í því að viðhalda einhverju sem í raun kannski virkar ekki.



[18:46]
Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Það er reyndar líka annað sem ég hef aðeins velt fyrir mér, einmitt vegna þess sem hv. þingmaður sagði um að moka ofan í skurði: Nú hefur maður svo sem heyrt mismunandi sjónarmið um hvort það virkar eður ei. Spurningin er þessi: Þekkir hv. þingmaðurinn rannsóknir sem liggja að baki þeim staðhæfingum að það að moka niður í skurði komi í veg fyrir kolefnislosun?

Og þá hefur maður einkum heyrt af því að nú eigi að moka aftur ofan í eldri skurði, sem þegar hafa losað mikið af kolefni, til að búa til nýjar mýrar sem losa svo aftur meira kolefni. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann kannist við að hafa séð eða heyrt af rannsóknum sem styðja þessa kenningu um að moka niður í skurði.



[18:47]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef einmitt reynt að kynna mér þetta eftir fremsta megni og hafði hugsað mér að halda sérstaka ræðu um þetta mál, endurheimt votlendis eins og það er kallað, og þá tvær ef ein ræða dugar ekki til.

En svo að ég veiti nú hv. þingmanni stuttu útgáfuna þá liggja ekki fyrir rannsóknir að því marki að hægt sé að kveða upp úr um að þetta skili þeim árangri sem talsmenn þessarar aðferðar hafa haldið fram. Raunar hafa verið færð rök fyrir því og skrifaðar um það ágætisgreinar, m.a. í Bændablaðið, að þessar aðgerðir geti skilað öfugum árangri, þ.e. verið skaðlegar hvað varðar losun, til að mynda í dæmum eins og hv. þingmaður nefndi.

En ég mun fara betur yfir þetta í sérstakri ræðu.



[18:48]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar rýna aðeins í frumvarpið. Þar er fyrst rætt um aðgerðaáætlun og það er hið besta mál. Eins og við þekkjum eru loftslagsmálin orðin mjög stór málaflokkur og mikilvægur, bæði á landsvísu og almennt í alþjóðasamfélaginu. Við erum svo sannarlega minnt á loftslagsbreytingar og þær miklu afleiðingar sem þær hafa haft. Þannig að þetta mál er gott mál að mínu mati.

En það eru ýmis önnur atriði sem ég vil kannski koma inn á sem tengjast því. Eins og t.d. skattalega hlutverkið sem er ansi víðtækt að mínu mati og snýr að landsmönnum öllum og sérstaklega landsbyggðinni. Ég ætla að koma aðeins inn á það nánar á eftir, herra forseti.

Hér er sem sagt rætt um að ráðherra láti gera aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og tillögur í þeim efnum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu hér á landi. Eins og ég sagði er náttúrlega mjög mikilvægt að menn hafi aðgerðaáætlun. Hins vegar er jafnmikilvægt að sú áætlun sé raunhæf, henni sé fylgt eftir og hún beri árangur. Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga. Fögur fyrirheit duga ekki í þessum efnum. Það verður að vera markviss áætlanagerð um hvernig við ætlum að ná þessum markmiðum eins og t.d. hvað varðar Parísarsamkomulagið. Ég hjó eftir því að það segir hér, með leyfi forseta:

„Aðgerðaáætlunina skal endurskoða eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga og yfirlýstra markmiða stjórnvalda.“

Það er gott og vel að endurskoða þessa áætlun, fara yfir það hversu vel hafi til tekist, hvað megi bæta o.s.frv. Við gerð hennar, segir hérna jafnframt, „skal hafa samráð við hagsmunaaðila.“ Það er ekki tiltekið nánar hvað í þessu felst en ég held einmitt að það sé afar mikilvægt að það sé haft samráð við t.d. launþegahreyfinguna í landinu, hagsmunasamtök þegar kemur að húsnæðismálum og þessum þáttum sem varða vísitöluna. Vegna þess að skattlagning af þessu tagi kemur náttúrlega til með að hafa áhrif á vísitölu neysluverðs o.s.frv., ráðstöfunartekjur heimilanna. Þess vegna er að mínu mati t.d. afar mikilvægt að hafa samráð við Alþýðusamband Íslands, svo dæmi sé tekið. Hver eru áhrif þessarar skattlagningar sem birtist í kolefnisgjaldinu — sem ég fer nánar yfir á eftir — á heimilin í landinu? Það verður að meta, t.d. í ljósi þess hvaða árangri við erum að ná með þessum aðgerðum. Hverju er kolefnisskatturinn að skila? Er hann að skila þeim árangri í loftslagsmálum sem til er ætlast? Náum við að draga úr losuninni? Hefur skattlagningin þau áhrif að losunin minnkar?

Þetta eru allt mjög áleitnar spurningar sem þarf að svara. Mig minnir, herra forseti, að hér hafi verið fyrirspurn frá hv. þm. Ólafi Ísleifssyni þess efnis hvort væri hægt að segja til um hversu árangursrík þessi skattlagning er þegar kemur að losuninni. Ef ég man þetta rétt, er ekki hægt að slá því föstu hver árangurinn er. Það er í sjálfu sér eitthvað sem við þurfum að fara vel yfir því það er ekki forsvaranlegt að vera með skattheimtu af þessu tagi sem síðan er ekki hægt að segja fyllilega til um hvaða árangri skilar.

En þetta frumvarp er að mörgu leyti ágætt og það er gott að hafa aðgerðaáætlun, eins og ég segi. Við höfum ekki staðið okkur nægilega vel í þessum málaflokki, því miður. Við þurfum einnig að velta fyrir okkur hvaða væntingar við höfum til þessa frumvarps. Hér er þess getið að það eigi að skipa loftslagsráð sem hafi það hlutverk að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum og síðan eru verkefnin talin upp í frumvarpinu. Enn er hér talað um að tryggja skuli að í ráðinu eigi sæti fulltrúar atvinnulífsins, háskólasamfélagsins, sveitarfélaganna og umhverfissamtaka, auk annarra fulltrúa sem nauðsynlegt er talið að eigi sæti í ráðinu á hverjum tíma. Ég tel, herra forseti, eins og ég nefndi áðan, að það sé mikilvægt að þarna komi komi launþegahreyfingin að, einfaldlega vegna þess sem ég rakti hér áðan.

Síðan er fjallað um loftslagsstefnu ríkisins og að Stjórnarráðið skuli setja sér loftslagsstefnu og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins. Talað er um að stefna skuli innihalda skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun. Þetta er allt gott og blessað og er ég fylgjandi þessu. Þetta er ágætlega skilgreint. Fyrir utan það sem ég nefndi, að nauðsynlegt er, að mínu mati, að launþegahreyfingin eigi þarna sæti.

Síðan er hér kafli þar sem fjallað er um skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga og þar kemur fram að ráðherra láti reglulega vinna vísindalegar skýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi. Það er að sjálfsögðu mjög gott að þessar skýrslur séu unnar, sérstaklega til að fylgjast með árangrinum og hvað viðkomandi aðilar eru að gera í þessum efnum. Vísindalegar skýrslur eru að sjálfsögðu mjög mikilvægar í þessu sambandi. En mig langar aðeins að staldra við skýrslurnar er varða samfélag á Íslandi. Hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir rakti það áðan ágætlega í andsvari að þetta væri t.d. landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn og ýmsar greinar atvinnuvegarins. En þegar kemur að samfélaginu hugsar maður með sér að íbúarnir, landsbyggðin, fólkið sem býr á höfuðborgarsvæðinu o.s.frv., hafi aðkomu að þessu.

Ég held að það sé nauðsynlegt, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, að þetta verði metið, þ.e. hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafi og aðgerðir sem tengjast þeim hafi á landsbyggðina. Ég tel að við höfum sýnt fram á það í Miðflokknum að skattlagningunni er ekki jafnað sanngjarnt niður á landsmenn þegar kemur að kolefnisskattinum. Þetta þurfum við allt að ræða og hafa gögn um þessi mál til þess að reyna að haga því þannig til að árangurinn verði sem mestur en jafnframt verði horft til þess að landsmenn sitji allir við sama borð.

Gleymum því ekki, eins og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir nefndi, að það hafa ekki allir efni á því að kaupa sér rafmagnsbifreið. Þess vegna eru almenningssamgöngur mjög mikilvægar í þessum efnum. En til þess að árangur náist í því að við verðum kolefnishlutlaus 2040 verða almenningssamgöngurnar að vera þannig úr garði gerðar að þeir sem hafa ekki efni á því að eignast rafmagnsbifreið geti nýtt sér þær. Auðvitað á að hvetja sem flesta til að nýta almenningssamgöngur.

Í 4. gr. er fjallað um að Umhverfisstofnun sé heimilt að krefja stjórnvöld, stofnanir ríkisins, fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri, um gögn og upplýsingar sem varða sögulega og framreiknaða losun ásamt upplýsingum um stefnu og aðgerðir í loftslagsmálum í starfsemi þeirra. Svo segir hér neðar að þessi gögn sé skylt að afhenda Umhverfisstofnun og án þess að gjald komi fyrir.

Þetta rakti ég hér aðeins í andsvari við hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur. Mér finnst þetta vera svolítið óskýrt, herra forseti. Er hugsanlegt að það sé hægt að leggja með þessu þær kvaðir á lítil fyrirtæki með kannski tvo, þrjá, fjóra starfsmenn, að þau skili einhvers konar aðgerðaáætlun til Umhverfisstofnunar ef þess er óskað? Ég geri nú ráð fyrir að það sé ekki vilji löggjafans. Þetta þarf að koma skýrt fram og það kom fram í máli hv. þingmanns hér fyrr, framsögumanns, að þetta væri hugsað fyrir stærri fyrirtæki og ríkisfyrirtæki og ég geri ráð fyrir því að svo sé. Þetta finnst mér vera óskýrt í lögunum og ég varð ekki var við að þess sé neitt sérstaklega getið í greinargerðinni við hvað sé átt. Þar segir bara að hægt sé að breyta ábyrgð á gagnaskilum í reglugerð sem ráðherra setur. Þetta er að mínu mati eitthvað sem þarf að setjast betur yfir. Það er þannig í lagasetningu og lög verða ávallt að vera skýr og þess vegna er mikilvægt að setjast aðeins betur yfir þetta mál, að ég tel.

Síðan er rétt að minnast á hina svokölluðu grænu skatta sem eru alla vega mikilvæg leið til þess að draga úr losuninni. Í þeim efnum er mikilvægt að þeir skili árangri. Hér var t.d. rætt sérstaklega um að flugvélarekstur, þ.e. flugsamgöngur, mengi verulega mikið og hafi veruleg áhrif í loftslagsmálum. En að sama skapi tel ég að það ætti að setja þær kröfur á flugfélögin eða flugvélaframleiðendur að þeir bæti þá bæta ráð sitt og bæti hreyfla og annað slíkt í þeim tilgangi að mengun verði sem minnst. Það á ekki að vera, að mínu mati, alltaf sú lausn að skattlagningin leggist fyrst og fremst á almenning heldur verða fyrirtækin að taka sig á í þessum efnum, eins og flugfélög og flugvélaframleiðendur.

Ég ætla næst, herra forseti, að víkja að kolefnisskattinum. Ég tel að hann sé ekki nægilega ígrundaður. Nú var það hluti af stjórnarsáttmálanum að koma á laggirnar loftslagsráði og aðgerðaáætlun. Gott og vel. Það sem líka hefur birst okkur frá þessari ríkisstjórn er verulega aukin skattheimta á þessu sviði, þ.e. kolefnisgjaldið. Þetta er nýr skattur á Íslandi og í frumvarpi til fjárlaga núna fyrir 2019 kemur fram að tekjur af kolefnisgjaldi séu áætlaðar um 5,9 milljarðar á þessu ári. Gjaldið hefur hækkað hjá þessari ríkisstjórn á mjög skömmum tíma um 50%, frá 2017. Þessar skatttekjur eru ekki allar eyrnamerktar aðgerðum í loftslagsmálum með beinum hætti. Í raun og veru rennur aðeins hluti þeirra til aðgerða í loftslagsmálum. Það er náttúrlega ekki forsvaranlegt, að vera skattleggja almenning svona þegar aðeins hluti af skatttekjunum rennur í þann málaflokk sem þeim er í raun og veru ætlað að renna í.

Eins og ég nefndi áðan hefur það komið fram hjá hæstv. umhverfisráðherra að það sé ekki hægt að segja til um það fyllilega hvort þessar aðgerðir í loftslagsmálum, skattheimtan, skili árangri. Það er eitthvað sem hefur ekki verið hægt að sýna nákvæmlega fram á. Ég hef talið, herra forseti, og við reyndar í Miðflokknum öllum, að hækkun kolefnisgjaldsins sé úr hófi. Við leggjum að sjálfsögðu áherslu á að þetta er mjög mikilvægur málaflokkur og mjög mikilvægt að sinna honum. Við verðum hins vegar að reyna að finna lausn sem skilar mestum árangri. Þar er ekki alltaf skattheimtan aðalatriðið. Það verður að horfast í augu við það.

Síðan er gert ráð fyrir enn frekari hækkun skattsins á næsta ári og að hann skili þá orðið 550 millj. kr. í tekjur að meðtöldum hliðaráhrifum virðisaukaskatts, þ.e. þessi hækkun. Kolefnisgjaldið nemur u.þ.b. 11 kr. á hvern lítra af bensíni og tæpum 13 kr. á hvern lítra af dísilolíu. Þessar álögur á eldsneyti koma sérstaklega illa niður á landsbyggðinni. Það er staðreynd. Það má því færa rök fyrir því að með kolefnisgjaldinu sé verið að skattleggja landsbyggðarfólk umfram aðra. Enda á rafbílavæðingin eins og við þekkjum hana mun auðveldara um vik hér á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni þar sem innviðir eins og hleðslustöðvar eru mun fleiri á höfuðborgarsvæðinu. Engu að síður hafa rafbílaeigendur kvartað yfir því að innviðir fyrir rafbíla séu engan veginn fullnægjandi í höfuðborginni. Hvað þá á landsbyggðinni. Innviðauppbyggingin er einfaldlega of skammt á veg komin.

Auk þess nota íbúar á landsbyggðinni í mun ríkara mæli bifreiðar knúnar með jarðefnaeldsneyti, þ.e. dísilolíu og bensíni, og aka meira vegna fjarlægðar og kaupa þar af leiðandi meira eldsneyti. Það má þannig færa góð rök fyrir því að þessi skattheimta, eins og ég lýsti henni hér, hækkun á lítra af bensíni og hækkun á lítra á dísilolíu, komi verr niður á landsbyggðinni en öðrum landsmönnum. Það er hins vegar alveg ljóst að það er eðlilegt að samfara hækkun á kolefnisgjaldinu eigi gjöld og skattar á umhverfisvænni starfsemi að lækka, ef markmiðið er að draga úr mengun. Svo er ekki, herra forseti. Það er rétt að halda því til haga.

Meginmarkmið kolefnisgjaldsins, eins og við þekkjum það, er að hvetja bæði heimili og fyrirtæki til að draga úr losun með því að skipta yfir í hreinni orku. Þetta þekkjum við. En í fyrsta lagi er alls ekki á færi allra að skipta yfir í rafmagnsbifreiðar, eins og ég nefndi áðan, einfaldlega vegna þess að það hafa ekki allir fjárráð til þess. Í öðru lagi henta rafmagnsbifreiðar síður á landsbyggðinni enn sem komið er, eins og t.d. í landbúnaði. Þá lýtur það sérstaklega t.d. að drægni bifreiðanna og fjölda hleðslustöðva. Kolefnisgjaldið leggst því með ólíkum hætti á íbúa höfuðborgarsvæðisins annars vegar og íbúa landsbyggðarinnar hins vegar.

Ég sé það, herra forseti, að tími minn er liðinn og ég hef ekki náð að klára þessa yfirferð mína og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.