149. löggjafarþing — 123. fundur.
kynrænt sjálfræði, 2. umræða.
stjfrv., 752. mál. — Þskj. 1184, nál. 1808, nál. m. brtt. 1825, breytingartillaga 1809.

[10:40]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði. Ég ætla að reyna í ræðu minni að stikla á stóru. Allnokkrar breytingar koma frá nefndinni og ég ætla í ræðu minni að gera grein fyrir þeim helstu — en svo er auðvitað hægt að kynna sér þær enn betur í nefndarálitinu sjálfu og í sérstöku breytingartillagnaskjali sem fylgir með nefndarálitinu.

Með þessu frumvarpi er kveðið á um rétt einstaklinga til að skilgreina sjálfir kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Það er megininntak málsins. Í frumvarpinu er fjallað m.a. um réttinn til þess að breyta opinberri skráningu á kyni sínu.

Við umfjöllun málsins kom fram að auðvitað væri um stóra og mikla ákvörðun að ræða þegar kæmi að þessum málum, ekki hvað síst þegar í hlut ættu börn eða ungmenni. Meiri hlutinn leggur á það áherslu að það sé mikilvægt að málefni transbarna séu ekki tengd við geðræn vandamál eins og kannski hefur verið tilhneiging til í umræðunni. Það komu fram sjónarmið um að allir einstaklingar undir 18 ára aldri ættu alltaf að vera skjólstæðingar BUGL til að geta breytt kynskráningu sinni hjá Þjóðskrá. Meiri hlutinn fellst ekki á þetta sjónarmið en er þó sammála og tekur undir mikilvægi þess að börn og fjölskyldur þeirra geti hins vegar leitað til teymis BUGL og annarra fagaðila eftir stuðningi við þjónustu. Þannig að það sé alveg skýrt að það sé ekki kvöð að gera það en aðgangurinn standi hins vegar opinn.

Þá eru lagðar til breytingar á frumvarpinu sem snúa að því að breyta aldursviðmiðum þar sem í frumvarpinu er fjallað um að börn og ungmenni sem hafa náð 15 ára aldri hafi rétt til að breyta skráningu sinni. Meiri hlutinn leggur til breytingartillögu þess efnis að miðað verði við 18 ára aldur. Nefndin fór mjög rækilega yfir þetta mál og það komu fram sjónarmið frá m.a. Barnaverndarstofu um að huga þurfi sérstaklega vel að ákveðnum hópi ungmenna. Meiri hlutinn telur þess vegna að aðkoma sérfræðinefndar að málefnum barna fram til 18 ára aldurs sé ekki óæskileg, að því gefnu að nefndin taki fullt tillit til aldurs og þroska barna og réttar þeirra til að taka ákvarðanir um eigið líf. Aðkoma sérfræðinganefndar getur einmitt veitt barni stuðning, til að mynda í þeim tilfellum þar sem barn eða ungmenni mætir andstöðu foreldra sinna.

Meiri hlutinn ítrekar að í þessum málum er mjög mikilvægt og ber að tryggja eftir fremsta megni sjálfsákvörðunarrétt barna í þessum efnum í samræmi við aldur þeirra og þroska, en að jafnframt þurfi að tryggja að börn njóti sérstakrar verndar og stuðnings þegar kemur að því að taka þessar ákvarðanir. Þess vegna, eins og ég segi, leggur meiri hlutinn til breytingar á 4. og 5. gr. frumvarpsins um að miðað verði við 18 ára aldur en bætir einnig við í bráðabirgðaákvæði II að starfshópi sem á að starfa samkvæmt frumvarpinu verði falið að skoða nánar hvort æskilegt sé að færa þessi aldursviðmið niður og hvernig sé hægt að gera það og ná þá bæði utan um það að vernda rétt barna, sérstaklega barna sem eru í mjög viðkvæmri stöðu, og tryggja sjónarmiðin um iðaða nálgun á þessu máli. Þótt framsögumaður minni hluta nefndarinnar muni auðvitað gera grein fyrir sínu nefndaráliti á eftir held ég að ég sé ekkert að segja of mikið með því að segja að í nefndinni hafi myndast nokkuð góð samstaða um þetta og um þau sjónarmið að þarna þyrfti að taka tillit til þeirra varúðarorða sem m.a. Barnaverndarstofa hafði uppi.

Það eru breytingartillögur við 9. gr. frumvarpsins en hún fjallar um sérfræðinefnd um breytingar á kynskráningu barna og við meðferð málsins var rætt um sérfræðiþekkingu þeirra sem eiga að skipa þessa sérfræðinefnd um kynskráningu barna. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að sérfræðinefndin verði skipuð fólki sem hafi sérþekkingu á viðfangsefninu og beinir því til ráðherra að tryggja að slík sérfræðiþekking verði til staðar í nefndinni.

Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um líkamlega friðhelgi. Við meðferð málsins voru gerðar athugasemdir við að frumvarpið tryggði ekki börnum undir 16 ára aldri líkamlega friðhelgi og vernd gegn ónauðsynlegum inngripum á kyneinkennum þeirra án samþykkis þeirra. Meiri hlutinn vill benda á að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að það eru skiptar skoðanir um aðgerðir sem fela í sér breytingar á kyneinkennum og að í greinargerð með frumvarpinu kemur einnig fram að það sé mikilvægt að halda umræðunni áfram. Því er lagt til í frumvarpinu ákvæði til bráðabirgða þar sem er gert ráð fyrir að ráðherra setji á fót starfshóp til að vinna að málefnum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og gera tillögur að úrbótum. Meiri hlutinn tekur undir þetta og telur ótímabært að gera tillögu um annað sem varðar breytingar á kyneinkennum þessara barna. Vegna þess að fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að þarna einfaldlega sé vinnunni ekki lokið. Meiri hlutinn leggur þess vegna, með hliðsjón af framangreindu, til breytingu á 11. mgr. frumvarpsins á þeim parti þegar um er að ræða að barn á aldrinum frá 16–18 ára þurfi jafnframt mat teymis Barna- og unglingageðdeildar þegar kemur að aðgerðum.

Við leggjum hins vegar ekki til að bráðabirgðaákvæðið sem varðar intersex börnin verði sett í lög heldur að það verði áfram í bráðabirgðaákvæði en hins vegar að starfshópnum verði sett tímamörk og að hann eigi að skila af sér tillögum 12 mánuðum eftir gildistöku laganna.

Í 12. og 13. gr. er fjallað um teymi Landspítalans um kynvitund og breytingar á kyneinkennum og teymi Barna- og unglingageðdeildar um kynvitund og ódæmigerð kyneinkenni. Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að ekki ætti að binda í lög hvaða starfsstéttir ættu að vera í teymunum að öðru leyti en því að þau skyldu vera þverfaglega skipuð fagfólki með viðeigandi þekkingu og reynslu. Meiri hlutinn tekur undir að þessi teymi skuli vera þverfagleg og skipuð fagfólki en fellst hins vegar á að ekki sé rétt að til telja upp svo nákvæmlega hverjir það eru sem skuli vera í teymunum og leggur þess vegna til breytingartillögu þess efnis að það verði ekki bundið í lög að í teymunum skuli vera kynjafræðingur. Meiri hlutinn vill engu að síður vekja athygli á því markmiði sem lá til grundvallar lagafrumvarpinu, sem er að nálgast málefni trans- og intersex fólks ekki eingöngu út frá klínískum forsendum heldur ekki síður í hinu félagslega ljósi þessara mála.

Jafnframt var bent á það við meðferð málsins að það teljist ekki til verkefna sérhæfðra deilda sjúkrahúsanna að hlutast til um að skjólstæðingar njóti jafningjafræðslu í samvinnu við hagsmunasamtök. Meiri hlutinn tekur undir það að almennt tíðkast ekki á öðrum sviðum spítalans að fagteymi séu lagalega bundin því að eiga í samráði við hagsmuna- og sjúklingasamtök. Því er lögð til sú breyting hvað þetta varðar að fella það ákvæði út úr bæði 12. og 13. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn vill engu að síður árétta að teymin hafa heimild til að kalla umrædd samtök til samstarfs og ráðagerða og telur raunar æskilegt að það sé gert, þó að það sé ekki lagaskylda, enda geti slíkt samstarf verið afar mikilvægt til að tryggja sem besta þjónustu við þennan hóp.

Virðulegi forseti. Stærstu breytingarnar sem nefndin er að gera má segja að varði aldursskilyrði, að í stað þess að miða við 15 ára aldur til að breyta skráningu sinni verði miðað við 18 ára aldur, en að starfshópi verði falið að finna leiðir til að færa þennan aldur niður og þá í samvinnu Barnaverndarstofu, umboðsmanns barna og Samtaka hinsegin fólks. Það er mjög mikilvægt að þetta samtal verði og að þessir aðilar séu þar allir saman við borðið.

Ýmsar aðrar breytingar eru lagðar til. Sumar eru orðalagsbreytingar, aðrar eru til þess að gera lögin enn skýrari. Sumar leiða af því — eru bara breytingar sem þarf að gera til að halda því að þegar aldrinum er breytt á einum stað þarf að breyta aldursviðmiðum á öðrum stað. Svo hefur verið bent á það við meðferð málsins að það muni þurfa og sé verið að breyta ýmsum öðrum lögum til að þetta allt saman passi saman en það er viðbúið að það þurfi að breyta fleiri lögum í kjölfarið. Af því að við erum að gera stórar og veigamiklar breytingar er starfshópi, einmitt einnig í bráðabirgðaákvæði II, falið að halda áfram að fjalla um þær nauðsynlegu lagabreytingar sem kunna að koma upp á síðari stigum við þetta mál.

Ég hef gert grein fyrir stærstu og viðamestu breytingartillögunum við frumvarpið en eins og ég segi eru þær allnokkru fleiri og það er hægt að skoða þær í sérstöku breytingartillagnaskjali sem fylgir með frumvarpinu og auðvitað lesa um þær frekar í nefndarálitinu.

Að þessu nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar standa hv. þingmenn Páll Magnússon, formaður nefndarinnar, Steinunn Þóra Árnadóttir framsögumaður, Bryndís Haraldsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Þórarinn Ingi Pétursson. Við leggjum það til að með þeim breytingum sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur til verði frumvarpið samþykkt.



[10:57]
Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja að í þessu frumvarpi felast mikil tíðindi. Þetta er mjög mikilvæg réttarbót sem hefur lengi verið baráttumál trans og intersex fólks. Það snýst, eins og heiti frumvarpsins ber með sér, um kynrænt sjálfræði, að einstaklingur ráði sjálfur hvernig hann horfist í augu við eigin kyneinkenni og kyngervi. Ég held að það sé mikilvægt að taka strax fram að þetta er mjög mikilvægt mál í heild sinni, skiptir gríðarlega miklu máli og ber að fagna því að það sé komið hingað.

Þá vil ég næst þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir framsögu fyrir hönd meiri hlutans. Hún hefur unnið mjög vel að þessu máli og það hefur allt fengið mjög vandaða umfjöllun í nefndinni. Hér mæli ég fyrir minnihlutaáliti en það er rétt að taka fram strax í upphafi að minni hlutinn styður í öllum aðalatriðum, eiginlega má segja í öllum atriðum, álit meiri hlutans, að undanskildu því sem snýr að börnum undir 16 ára aldri. Að því lýtur álit minni hlutans.

Það er þannig í huga okkar í minni hlutanum að kjarninn í kynrænu sjálfræði felst í rétti einstaklingsins til að skilgreina kyn sitt og rétti allra til þess að njóta líkamlegrar friðhelgi og að eigin kynvitund einstaklingsins njóti viðurkenningar. Um þetta erum við öll sammála, meiri hlutinn líka. Í því felst ekki síst óskoraður réttur til sjálfræðis um eigin líkama og breytingar á kyneinkennum.

Það er lagt bann við því að gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklings 16 ára eða eldri án skriflegs samþykkis hans, samanber 11. gr. frumvarpsins. Til varanlegra breytinga teljast m.a. skurðaðgerðir, lyfjameðferðir og önnur óafturkræf læknisfræðileg inngrip. Og þá kemur að sjónarmiðum minni hlutans. Þrátt fyrir þetta gildi bannið ekki um börn undir 16 ára aldri. Síðan er ákvæði til bráðabirgða um að það skuli tekið til sérstakrar umfjöllunar.

Minni hlutinn leggur áherslu á að frumvarpið gerir ekki ráð fyrir því að börn yngri en 16 ára njóti grundvallarréttinda til kynræns sjálfræðis til jafns við aðra. Þeirra réttindi verði að bíða enn um hríð á meðan starfshópur, samkvæmt bráðabirgðaákvæði, ráði ráðum sínum, semji drög að frumvarpi og skili niðurstöðum sínum eftir 12 mánuði. Eftir þann tíma þarf að leggja fram frumvarp, Alþingi að fjalla um það o.s.frv. þannig að ég held að það sé varlega áætlað að þetta ferli allt saman muni taka a.m.k. eitt og hálft ár. Það telur minni hlutinn óviðunandi. Við teljum að réttur 16 ára barna og yngri sé freklega fyrir borð borinn í frumvarpinu og tökum heils hugar undir þau sjónarmið sem birtast í mörgum umsögnum við frumvarpið og umræðum við meðferð málsins.

Í minnihlutaálitinu er vitnað í umsagnirnar og ég ætla ekki að fara yfir þær allar en þó að vitna hér í nokkrar, fyrst frá Amnesty International, með leyfi forseta:

„Frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði, sem liggur nú fyrir Alþingi, skapar tækifæri til að vernda réttindi intersex barna og fullorðinna en í núverandi drögum að frumvarpinu er vöntun á mikilvægri vernd fyrir intersex börn. Þá sérstaklega hvað varðar ákvæði til að koma í veg fyrir ónauðsynlegar, óafturkræfar og inngripsmiklar aðgerðir á börnum sem fæðast með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni.“

Barnaverndarstofa segist telja, með leyfi forseta, „varhugavert að hægt sé að gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklinga undir 16 ára aldri og telur rétt að farið sé varlega í slíkar aðgerðir án samþykkis viðkomandi barna“.

Samtökin '78 gera, með leyfi forseta, „þó alvarlega athugasemd við það að frumvarpið tryggi ekki líkamlega friðhelgi barna undir 16 ára aldri og krefjast þess að við frumvarpið verði bætt ákvæðum þar að lútandi“.

Umboðsmaður barna telur, með leyfi forseta, „að til þess að tryggja börnum yngri en 16 ára með ódæmigerð kyneinkenni vernd og rétt til líkamlegrar friðhelgi færi betur á því að hafa ákvæði þess efnis í frumvarpinu sjálfu í stað þess að stofna starfshóp til að fjalla nánar um þetta álitaefni“.

Minni hlutinn hefur skoðað tillögur sem lagðar voru fram á sínum tíma af sjálfsprottnum starfshópi sem gerð er grein fyrir í greinargerð með frumvarpinu. Ég ætla ekki að lesa þær upp en þar var m.a. tillaga um að setja inn bann við aðgerðum á börnum með ódæmigerð kyneinkenni. Við tökum það lagaákvæði sem þar var lagt til að mestu leyti óbreytt upp. Við leggjum til nýja grein við frumvarpið undir heitinu „Breytingar á kyneinkennum barna með ódæmigerð kyneinkenni“. Þar er sagt í 1. mgr., með leyfi forseta:

„Ekki skal gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni ef mögulegt er að fresta þeim þar til barnið getur veitt upplýst samþykki sitt fyrir meðferðinni. Einungis er heimilt að ráðast í slíkar aðgerðir ef brýnar heilsufarslegar ástæður krefjast þess. Félagslegar, sálfélagslegar og útlitslegar ástæður geta ekki réttlætt slík inngrip í líkama barns.“

Ég ætla ekki að rekja ákvæðið frekar en síðan er lagt til að bráðabirgðaákvæðið verði fellt niður þar sem það verður þá óþarft því að þá er þegar búið að skipa málum með þessum hætti í lögunum sjálfum.

Minni hlutinn telur ekki forsvaranlegt að slá þessu á frest með þeim hætti sem meiri hlutinn leggur til. Kyngervi, kyneinkenni og sjálfsvitund fólks um hvað það er er eitt það persónulegasta sem hægt er að hugsa sér. Mannskepnan er með ýmsu móti. Hún er mjög margbreytileg að þessu leyti eins og í öðrum efnum. Við erum sem samfélag haldin þeirri þráhyggju að fólk verði að vera annaðhvort karl eða kona, að þar geti ekki verið neinn millivegur. Það virðist oft skipta miklu meira máli en hver manneskjan er. Þessu verðum við að breyta. Við þurfum auðvitað að ráðast að grunnrótum þessa vanda þannig að allt fólk geri sér grein fyrir því að fólk er bara eins og það er og það á líka að ráða því sjálft hvernig það vill vera.

Þess vegna telur minni hlutinn ótækt að á líkömum ungra barna séu gerðar aðgerðir sem ráða örlögum þeirra í framtíðinni og geta valdið óbætanlegum skaða og vanlíðan til allrar framtíðar. Þetta verður auðvitað að stöðva.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Álit minni hlutans talar fyrir sig sjálft, en að því standa Jón Steindór Valdimarsson, sá sem hér stendur og er framsögumaður minnihlutaálitsins, Guðmundur Andri Thorsson og Helgi Hrafn Gunnarsson.

Mig langar að lokum að brýna og hvetja þingheim til að íhuga þetta mál mjög vandlega og ljá okkur í minni hlutanum lið og samþykkja breytingartillögur okkar.



[11:08]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér fjöllum við um gríðarlega mikilvægt jafnréttismál, algjört grundvallarmál sem varðar heimild einstaklinga til að fá sjálf að skilgreina kyn sitt. Við höfum nefnilega öll grundvallarrétt til lífs og líkama. Sá grundvallarréttur verður ekki frá okkur tekinn. Þetta eru þess háttar réttindi að það má ekki taka þennan rétt af fólki undir nokkrum einustu kringumstæðum. Í þessu felst sjálfsákvörðunarréttur einstaklinga yfir eigin líkama, þar á meðal kynrænt sjálfræði. Það frumvarp sem fjallað er um hér í dag er mikið gleðiefni, fyrir sumum svo sjálfsagt og svo auðsótt mál að það þarf eiginlega ekkert að ræða það. Samt er þetta svo stórt skref til að tryggja grundvallarmannréttindi hóps fólks sem til þessa dags hefur átt sitt kynræna sjálfræði undir ókunnugu fólki, undir starfsfólki heilbrigðisstétta eða jafnvel einhverju allt öðru fólki.

Já, fyrir sumum er þetta slíkt grundvallarmál að það á eiginlega ekki að þurfa að ræða það. Samt er svo mikilvægt að koma hingað upp, jafnvel á síðustu dögum þingsins þegar tíminn er orðinn naumur, bara til að vekja athygli á þessu máli og vekja athygli á því hvað mál sem eru sjálfsögð eru stundum risastór skref í mannréttindabaráttu fólks. Þess vegna er ég komin hingað upp, af því að ég fagna framlagningu þessa góða máls og ég vil fagna þeirri góðu vinnu sem hefur verið í nefndinni. En meðfram því að við samþykkjum þetta mál á Alþingi þarf að tryggja öryggi trans fólks í ríkum mæli. Því miður er staðan sú í nútímasamfélagi að trans fólk verður í ríkum mæli fyrir heimilis- og kynferðisofbeldi og er mikilvægt að tryggja vernd þess sem og auðvitað annarra. Það er líka mikilvægt að tryggja rétt trans barna, tryggja sjálfsákvörðunarrétt þeirra yfir lífi sínu og líkama.

Ég tek heils hugar undir umsögn Kvenréttindafélags Íslands sem áréttaði að aðeins með markvissri fræðslu í jafnrétti og kynjafræði væri hægt að ráðast á rót kynjamisréttis í samfélaginu. Aukin fræðsla þarf að eiga sér stað í skólakerfinu öllu en það þarf líka að vera aukin fræðsla innan heilbrigðiskerfisins, innan félagslega kerfisins, innan réttarkerfisins, innan alls samfélagsins.

Það þarf að tryggja öryggi trans barna. Það er gríðarlega mikilvægt að tryggja að ekki séu gerðar varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum barna ef mögulegt er að fresta þeim þar til barnið sjálft getur veitt samþykki sitt fyrir meðferðinni. Eins og sjá má á umsögnum hefur fjöldi samtaka og hagsmunaaðila sent frá sér umsögn þar sem tekið er undir ákall minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar um að veita trans börnum nauðsynlega vernd. Má þar nefna Samtökin '78, Amnesty International, Barnaheill, Barnaverndarstofu, Intersex á Íslandi, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Trans Ísland og loks umboðsmann barna. Allir þessir aðilar hafa sent frá sér einlæga beiðni til Alþingis um að veita trans börnum nauðsynlega vernd gegn óafturkræfu inngripi í líf þeirra og líkama.

Það getur enginn, herra forseti, ekkert foreldri, enginn, tekið þann grundvallarrétt af barni sínu að fá að ráða sjálft sínu kynræna sjálfstæði. Það skal einungis ráðast í aðgerðir eins og áður voru nefndar, óafturkræfar aðgerðir á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum ef brýnar heilsufarslegar ástæður krefjast þess, brýnar, líkamlegar heilsufarslegar ástæður. Félagslegar, sálfélagslegar og útlitslegar ástæður geta ekki réttlætt slík inngrip í líkama barns af því að við erum hér að tala um óafturkræfar aðgerðir.

Það að setja ákvarðanatöku með lögum í hendur foreldra um að skapa óafturkræf inngrip sem geta haft varanleg, neikvæð áhrif á líf og heilsu barnsins getur að auki haft óafturkræf neikvæð áhrif á samband barnsins við fjölskyldu sína. Enginn einstaklingur getur tekið ákvörðun um kyn annars einstaklings. Þar á bak við er algjör ómöguleiki, herra forseti. Ekkert foreldri er þess megnugt að taka ákvörðun um kyn barns síns. Það er bara ekki þannig. Þetta varðar algjöra sjálfsvitund þeirrar manneskju sem verið er að fjalla um. Enginn annar getur tekið þessa ákvörðun. Það að grípa inn í líkama annarrar manneskju á eingöngu að vera heimilt þegar um ótvíræða heilsufarshættu er að ræða en aldrei undir öðrum kringumstæðum. Mun ég þess vegna ekki samþykkja að einhvers konar slíkt ákvæði verði heimilað þarna. Mér er algjörlega óskiljanlegt að börn undir 16 ára njóti ekki slíkrar verndar af löggjafa Íslands, löggjafarsamkomunni.

Fyrir þá sem ekki hafa gengið í gegnum það að vera sjálfir í þeirri aðstöðu að vera trans einstaklingur eða fylgjast með trans einstaklingi fara í gegnum þetta ferli er þetta oft alveg óskiljanlegt. Margar spurningar geta kviknað: Hvaða er nú þetta? Er þetta tískufyrirbæri? Hvaða vitleysa er þetta? Hefur þú lent í vondum félagsskap? Hvernig dettur þér þetta í hug? Er þetta ekki bara eitthvað sem þú hefur lesið í blöðum eða bókum?

Allar þessar spurningar eru alveg skiljanlegar af því að við erum bara mannleg. Maður á ekki að draga sitt persónulega líf hérna inn en þar sem ég hef persónulega fylgst með nánum fjölskyldumeðlimi fara í gegnum þetta ferli er mér óskiljanlegt að við ætlum að samþykkja að foreldri, með allan sinn farangur, allt sitt sorgarferli og mannlega skilningsleysi, eigi að hafa eitthvað um þetta varanlega inngrip að segja. Ég skil það ekki ef við ætlum að fara þangað þvert gegn ábendingum allra þessara fagaðila. Samtökin '78, Amnesty International, Barnaheill, Barnaverndarstofa, Intersex á Íslandi, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Trans Ísland og umboðsmaður barna eru ekki bara einhver Jón og Gunna úti í bæ. Þetta er fólk sem veit hvað það er að tala um. Þetta er fólk sem kemur reglulega að þessum málum.

Ég bara verð að segja hér að þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli. Það skiptir svo miklu máli að við samþykkjum frumvarpið en heimilum ekki inngrip foreldra sem vita ekkert hvað barnið er að ganga í gegnum af því að þau geta aldrei vitað það. Við getum aldrei sett okkur fullkomlega í spor annars einstaklings. Það er okkur ómögulegt. Við getum aldrei algjörlega vitað hvað annar einstaklingur gengur í gegnum. Það er ekki búið að finna upp þá tækni að við getum búið um okkur í höfði og líkama annarrar manneskju.

Kyn er samofið sjálfri manneskjunni. Hún ein veit hver hún er. Enginn annar getur valið, ákveðið eða skipað fyrir um það. Við getum ekki leyft neinum að framkvæma óafturkræfa, líkamlega aðgerð á öðrum einstaklingi af því að manni finnst það bara, það má ekki gerast á Alþingi Íslendinga. Það að vera trans manneskja er ekki ákvörðun, ekki val, ekki frekar en ég hef það val að vera kona. Ég er kona, ég valdi það ekki, ég er það bara. Þetta er ekki val. Við höfum ákveðið að kalla það að einhver sé trans af því að manneskjan er í líkama sem við skilgreinum einhvern veginn öðruvísi, sem samfélagið hefur ákveðið að skilgreina öðruvísi. Það er ekki val hjá okkur, ekki ákvörðun. Þetta er svona og viðkomandi veit það bara frá byrjun. Sumir líta öðruvísi út og þá höfum við í okkar samfélagi ákveðið að kalla það fólk trans.

Þetta frumvarp er gríðarlega mikilvægt og ég hlakka til að greiða því atkvæði. Ég skora á þá sem áður voru að velta fyrir sér að styðja ekki nefndarálit með breytingartillögu minni hlutans að íhuga alvarlega að gera það núna. Það má skipta um skoðun eftir að málið hefur verið í meðferð Alþingis. Það er í boði að standa með kynrænu sjálfræði. Það er í boði að standa með börnum og veita þeim nauðsynlega vernd.



[11:22]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp sem fjallar um kynrænt sjálfræði. Það er svolítið fróðlegt að fara yfir umsagnir sem hafa borist. Þá vil ég fyrst nefna aðeins það sem kemur fram hjá Þjóðskrá Íslands og lýtur aðallega að kostnaði við nauðsynlegar breytingar sem þarf að gera á skráningarkerfum stofnunarinnar verði frumvarp þetta að lögum. Það er greinilegt að því fylgir töluverður kostnaður. Ég hef ekki orðið var við að ráð sé gert fyrir þeim kostnaði, hvorki í fjárlögum né fjármálaáætlun. Ég tel það ekki nægilega góð vinnubrögð þar sem ég sit í fjárlaganefnd. Það er alveg ljóst að þessu mun fylgja töluverður kostnaður. Ég held að það sé alveg ljóst, sérstaklega í ljósi þess að gert er ráð fyrir því að frumvarpið taki gildi strax, að mér sýnist.

Í umsögn Þjóðskrár Íslands segir, með leyfi forseta:

„Þjóðskrá Íslands hefur látið útbúa kostnaðarmat vegna nauðsynlegra breytinga á kerfum stofnunarinnar svo meðal annars verði hægt að skrá, miðla og gefa út skilríki með hlutlausu kyni. Um er að ræða tvíþættan kostnað, annars vegar vegna breytinga á skilríkjaskrá og framleiðslukerfum vegabréfa og svo hins vegar vegna þróunar þjóðskrár. Ljóst er að ekki verður hægt að fara í nauðsynlegar breytingar á framangreindum kerfum nema fyrir liggi fjármagn til slíkrar vinnu. Samkvæmt greinargerð sem fylgdi frumvarpinu mun forsætisráðuneyti hafa forgöngu, í samvinnu við Þjóðskrá Íslands og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, að tryggja fjármagn til þess að gera þær breytingar …“

Þetta er loforð um að fjármunir verði tryggðir. Ég held að það sé ekki í anda góðrar fjármálastjórnar að ekki sé búið að eyrnamerkja þetta sérstaklega í fjármálaáætlun, svo dæmi sé tekið. Mér sýnist Þjóðskrá leggja áherslu á að tíminn sé of knappur í þessum efnum. Það er umhugsunarefni í því sambandi, herra forseti, að við samþykkjum hér eitthvað sem kemur til með að kosta ríkissjóð örugglega þó nokkrar upphæðir og að ekki sé búið að ræða fjármálaþátt málsins. Ég tel það ámælisvert.

Ég vil aðeins víkja að 6. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um hlutlausa skráningu kyns. Þar segir, með leyfi forseta:

„Opinberum aðilum og einkaaðilum sem skrásetja kyn ber að gera ráð fyrir hlutlausri skráningu kyns, t.d. á skilríkjum, eyðublöðum og í gagnasöfnum, og skal skráningin táknuð á óyggjandi hátt. Í vegabréfum skal ávallt tákna hlutlausa skráningu kyns með bókstafnum X.“

Það er talið upp hvaða lönd hafa tekið upp þessa hlutlausu skráningu en ég hef áhyggjur þegar einstaklingar ferðast til ákveðinna landa. Ég þekki ekki úr nefndarvinnunni hvort það var eitthvað rætt að þessi hlutlausa skráning gæti valdið vandkvæðum þegar ferðast er til ákveðinna landa. Þá hef ég sérstaklega Miðausturlönd í huga. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að fá einhvers konar minnisblað um það, t.d. frá utanríkisráðuneytinu, hvernig gæti verið brugðist við því þegar einstaklingar með þessa skráningu ferðast til þessara landa. Við þekkjum hvernig þessum þáttum er háttað í arabalöndunum. Ég held að það sé nánast líflátssök í sumum arabalöndum að vera samkynhneigður og/eða svokallaður trans einstaklingur þannig að það væri mikilvægt að hér kæmi fram hvernig menn sjá fyrir sér að þetta gæti þróast. Vissulega er það í höndum viðkomandi einstaklinga sem kannski þekkja hvert er ráðlegt að ferðast og hjá hvaða löndum ber að sneiða vegna þessa.

Þetta er umhugsunarefni sem ég vildi koma á framfæri í þessari umræðu.

Síðan langar mig að koma inn á umsögn Landspítalans. Í henni segir að á göngudeild BUGL hafi transgender einstaklingum verið sinnt um árabil. Framan af voru þetta örfáar tilvísanir á ári en frá árinu 2015 hefur þeim farið ört fjölgandi. Mér finnst athyglisvert að tilvísununum hafi farið fjölgandi. Ég veit ekki hvort framsögumaður þekkir sérstaklega hvað liggur þar að baki en það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það ef þær liggja fyrir.

Síðan segir hér:

„Árið 2017 var ákveðið að stofna sér teymi fyrir þessa þjónustu, þar sem ljóst var orðið að nauðsynlegt væri að ákveðnir starfsmenn með til þess bæra þekkingu og þjálfun myndu halda utan um þennan hóp. Það sama ár voru 13 nýkomur í teymið, og 2018 voru þær 21.“

Þetta lýtur einnig að fjárveitingum og er sett svolítið í hendur ráðuneytisins þegar kemur að fjármögnun. Hér eru eiginlega komin tvö teymi og er spurning hvort það sé heppilegt í þessu sambandi. Ég varpa því aðeins fram.

Í umsögn Jafnréttisstofu er fjallað um þrjár spurningar sem hefur ekki verið varpað fram áður. Jafnréttisstofa segir neðarlega í sinni umsögn, með leyfi forseta:

„1) Er einstaklingi sem fæðst hefur karlkyns en upplifir sig sem konu heimilt að taka þátt í keppnisíþróttum í kvennaflokki?“

Ég hef ekki rekist á að þessum ábendingum Jafnréttisstofu hafi verið svarað, en þá væri ágætt að það kæmi fram í þessari umræðu. Síðan er spurt í öðru og þriðja lagi:

„2) Er einstaklingi sem er með skráð kyn sem ekki er í samræmi við útlit þess heimilt að nota búningsaðstöðu hvors kyns?

3) Er einstaklingi sem er með skráð kyn sem er ekki í samræmi við útlit þess heimilt að nýta sér kvennaathvarf?“

Þetta eru alveg gildar spurningar og væri ágætt að fá fram hér hvort þetta hafi verið íhugað. Væntanlega hefur það verið rætt í nefndinni og væri fróðlegt að fá hér fram hver niðurstaðan hafi orðið.

Ég gleymdi að nefna það, herra forseti, í sambandi við umsögn Þjóðskrár að hér segir, með leyfi forseta:

„Þjóðskrá Íslands hefur áður bent á að stofnunin telur að greiningarvinna og nauðsynlegar breytingar á kerfum stofnunarinnar muni taka að minnsta kosti tvö ár. Er sá frestur sem 17. gr. frumvarpsins kveður á um því of knappur að mati stofnunarinnar.“

Ég held að það sé mikilvægt að við tökum mið af þessum athugasemdum vegna þess að það er fyrst og fremst Þjóðskrá Íslands sem kemur til með að þurfa að fara í töluverða vinnu hvað þetta varðar. Í 17. gr. segir einmitt að lög þessi taki þegar gildi. Ég held að hér fari menn svolítið fram úr sér. Í svona máli, sem er mikilvægt mál eins og komið hefur fram, verður undirbúningurinn að vera góður og löggjafinn verður að taka tillit til athugasemda frá stofnuninni sem á að sjá um megnið af vinnunni þegar kemur að því að breyta þessari skráningu.

Mér finnst því nokkur álitamál varðandi þann þáttinn. Maður veltir svolítið fyrir sér hversu brýnt málið er. Þarna er rætt um að fjölgi í þessum hópi. Það væri svo sem gott að fá yfirlit um það hvað hugsanlega valdi því.

Síðan má spyrja varðandi t.d. fræðslu í grunnskólum hvernig þeim málum er háttað. Það finnst mér skipta máli. Að öðru leyti tel ég að þetta mál þarfnist betri og ítarlegri skoðunar. Ég treysti mér ekki til að styðja það eins og það liggur fyrir núna. Ég tel t.d. að það þurfi að svara spurningum sem Jafnréttisstofa hefur sent frá sér. Ég held að það sé svolítið mikilvægt, eins og t.d. með keppnisíþróttir. Það hefur valdið vandræðum eða kannski frekar álitaefnum á alþjóðavettvangi í íþróttakappleikjum. Að öðru leyti held ég að ég hafi lokið máli mínu um þetta efni. Eins og ég segi tel ég mikilvægt að skoða t.d. þetta sem ég nefndi með Jafnréttisstofu, að fá einhver svör við þeim spurningum sem þar eru settar fram. Að öðru leyti held ég að það sé nauðsynlegt að þetta mál sé skoðað nákvæmlega. Þarna eru mikil álitaefni, eins og með ung börn, sem hafa komið hér fram. En ég held að það sé mikilvægt að um þetta fari fram vönduð umræða, bæði í þingsal og í nefndinni.



[11:37]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þetta mál kemur hingað til 2. umr. og birtist eftir að umræður um þinglok eru hafnar. Mér finnst svolítið skrýtið að stjórnarmeirihlutinn ætli sér að klára svona stórt mál, á að því er virðist einum eða tveimur dögum, án þess að í rauninni hafi farið fram í samfélaginu nein veruleg umræða um það. Umræður um þessa hluti hafa verið töluvert miklar í mörgum löndum í kringum okkur, ekki hvað síst í Bretlandi þar sem má segja að umræða um sambærileg mál hafi verið meðal helstu pólitísku umræðuefnanna, og deilumálanna jafnvel, undanfarin tvö ár, þó að ekki sé þar gert ráð fyrir að ganga eins langt og hér er lagt til. Aðalatriðið er að þetta er stórt mál. Það varðar ýmis grundvallaratriði, grundvallarlagaspurningar, vísindi, velferð barna, heilbrigði og mannréttindi. Svoleiðis að ég hefði talið æskilegra að menn hefðu gengið í gegnum meiri umræðu um þetta mál í samfélaginu og hér á þinginu áður en það yrði afgreitt, enda hafa komið fram ýmsar athugasemdir og ábendingar um hluti sem þurfi að skoða sérstaklega eða laga.

Ég gat um það að þessi mál hefðu vakið mikla umræðu víða erlendis. Oft vill sú umræða því miður verða nokkuð heiftúðug. Það hefur t.d. verið ráðist mjög harkalega á marga þekkta femínista sem hafa lýst efasemdum um hvaða leiðir hafa ýmist verið farnar eða stefnt í að fara í þessum málaflokki og eins hafa heilbrigðisstéttir jafnan sætt ámæli, leyfi þær sér að koma með ábendingar um tengsl síns starfsvettvangs við mál sem þessi.

Aðalatriðið í þessu er auðvitað að tryggja velferð alls almennings og mannréttindi en transfólk margt hvert hefur bent á í umræðu um þessi mál að það sem kallað er á ensku „gate keeping“, sem ég hugsa að mætti þýða á íslensku sem hliðvörslu, sé mikilvægur þáttur í þessu, þ.e. að menn virði hversu stór ákvörðun þetta eðli máls samkvæmt er. Því þurfi eitthvert lágmarksferli til að taka til að mynda ákvörðun um að skipta um kyn og fyrir vikið að þeir sem þá leggi í það ferli njóti þá stuðnings og auðvitað virðingar og réttinda í samræmi við það.

Ég ætla að grípa aðeins niður í umsögn frá Landspítalanum og nefna nokkrar greinar þessa frumvarps sem spítalinn gerir athugasemdir við, eða Ragna Kristmundsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur, fyrir hönd spítalans. Varðandi 3. gr. segir í umsögn Landspítalans, með leyfi forseta:

„Við leggjum til að 1. mgr. verði eftirfarandi: „Sérhver einstaklingur nýtur, í samræmi við aldur og þroska, óskoraðs réttar til:““

Afsakið, forseti. Ég ætlaði að sleppa þessu, þetta er orðalagsbreyting. Þar sem ég ætlaði að byrja á er athugasemd við 4.–5. gr. en þar segir, með leyfi forseta:

„Við teljum ekki æskilegt að börn yngri en 18 ára geti breytt kynskráningu án þess að undantekningalaust sé leitað umsagnar sérfræðinga á þessu sviði, og að umsækjendur séu í þjónustu hjá transteymi BUGL. Við erum sammála því að ekki þurfi að gera kröfu um að viðkomandi hafi undirgengist ákveðna meðferð, en um er að ræða stóra og afdrifaríka ákvörðun, sem rétt er að taka í samráði við sérfrótt fagfólk. Ýmsar ástæður geta legið að baki því að einstaklingur upplifi ósamræmi milli líkamlegs kyns og kynvitundar, og varla skaðlegt að fá aðstoð fagfólks við að greiða úr þeim og komast að bestu mögulegu niðurstöðu.“

Svo er það 9. gr. og athugasemdir við hana. Þar segir:

„Við mælum með nánari útlistun á kunnáttu og reynslu þeirra aðila sem sæti eiga í nefndinni, þar sem ekki er gefið að aðilar sem tilheyra þessum tilteknu starfsstéttum hafi hana til að bera. Einnig mættu þetta vera aðrir fagaðilar, það sem máli skiptir er að viðkomandi hafi þekkingu á geðheilbrigði barna og unglinga og málefnum transgender einstaklinga.“

Loks er athugasemd við 13. gr. í umsögn Landspítalans:

„Við teljum ekki æskilegt að binda í lög hvaða starfsstéttir eigi að vera í teyminu, að öðru leyti en því að það skuli vera þverfaglegt og skipað fagfólki með viðeigandi þekkingu og reynslu. T.d. er í núverandi texta ekki minnst á hjúkrunarfræðinga, en teymisstjórar teymisins hafa frá stofnun þess verið hjúkrunarfræðingar, og það hefur gefist vel.

Við setjum jafnframt spurningarmerki við það að binda í lög að kynjafræðingur eigi að vera í teyminu. Kynjafræðingar eru ekki heilbrigðisstétt og við teljum ekki þörf á að bæta slíkum við í teymið. Nær væri að veita meira fjármagn í teymið til að hækka starfshlutfall félagsráðgjafa og fá inn t.d. iðjuþjálfun og listmeðferð. Ef á að halda því til streitu að ráða inn kynjafræðing þarf að koma skýrt fram hvaða hlutverki viðkomandi á að gegna á spítalanum, auk þess að veita fjármagn fyrir ráðningunni.

Að vera manneskja fædd með ódæmigerð kyneinkenni hefur hingað til ekki verið gild tilvísunarástæða á geðdeild. Börnum sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni hefur hins vegar ekki verið vísað frá BUGL ef þau glíma við geðrænan vanda, og það mun ekki breytast. Ef ætlast er til að BUGL taki að sér þjónustu og ráðgjöf við þennan skjólstæðingahóp sérstaklega þarf að veita til þess fjármagn, þar sem þá þyrfti að bæta við mannafla og þekkingu.

Að hlutast til um að skjólstæðingar njóti jafningjafræðslu telst ekki til verkefna sérhæfðra deilda sjúkrahúss, enda hafa hagsmunasamtök sinnt því með ágætum hingað til.

Teymið hefur ávallt, og mun áfram, vinna í samræmi við alþjóðlegar verklagsreglur World Professional Association for Transgender Health, sem unnar eru í samráði við transfólk um víða veröld. Vandséð er hverju lögbundið samráð við hagsmunasamtök transfólks á Íslandi myndi bæta við.“

Það er ekki meira um þetta að segja, herra forseti, en að þetta hljóta að vera ábendingar sem taka þurfi tillit til við frekari vinnslu þessa máls.

Ég ætla hér að lokum að nefna stuttlega klausu úr athugasemdum transteymis Landspítalans vegna þessa frumvarps en þar segir, með leyfi forseta:

„Núverandi lagafrumvarp virðist samið með nýlega löggjöf frá Möltu frá 2015 sem fyrirmynd. Þessi löggjöf er mun frjálslegri en sambærilegar löggjafir í nágrannalöndum okkar.“ — Hér er það dregið fram eina ferðina enn að hér er verið að ganga mun lengra en nágrannalönd hafa gert. — „Það er nýmæli í lögunum að menn leitast við að sleppa hefðbundnum greiningum og vinna út frá því. Þess ber þó að gæta að heilbrigðisyfirvöld á Möltu hafa litla reynslu af meðferð á transgender fólki. Maltverjar með kynama hafa til þessa orðið sér úti um hormóna á svarta markaðnum og leitað aðgerðar í Serbíu á eigin kostnað. Lögin voru sett 2015 en engin meðferð er enn komin í gang. Þetta varð til þess að heilbrigðisyfirvöld á Möltu buðu fulltrúum úr meðferðarteymi LSH, þeim Óttari Guðmundssyni og Elsu Báru Traustadóttur, til að koma og ræða við heilbrigðisstarfsfólk og heilbrigðisyfirvöld hvernig best sé að koma einhvers konar meðferðarstarfi á laggirnar. Læknar lýstu því yfir að þeir gætu ekki starfað samkvæmt þessum lögum þar sem erfitt væri að veita erfiða og krefjandi meðferð án greiningar.“

Þetta hlýtur að vera áhugavert í samhengi við þetta frumvarp hér sem mun byggt á þessari löggjöf frá Möltu.

Ég ætla að láta vera að rekja fleiri umsagnir, en þær eru allmargar og bent er á ýmis atriði sem varða heilbrigðisþjónustu, varða skráningu, fjármögnun, siðferðisleg álitamál, varða réttindi einstaklinga og heilbrigði barna. En þegar þetta er allt saman tekið og stærð og umfang þessa máls hefði ég talið æskilegra að menn gæfu sér betri tíma til að bregðast við þeim ábendingum sem fram eru komnar og kynnu að koma fram í framhaldinu. Ég hvet hv. þingmenn til að nálgast málið með þeim hætti.