149. löggjafarþing — 123. fundur.
félagsleg aðstoð og almannatryggingar, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 954. mál (framfærsluuppbót og meðferð atvinnutekna). — Þskj. 1655, nál. m. brtt. 1813.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:20]

[16:14]
Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er stigið eitt enn of lítið skref í afnámi krónu á móti krónu skerðingar. Samfylkingin styður að sjálfsögðu málið en minnir á að það þarf að gera miklu betur. Öryrkjar hafa ekki notið þess uppgangs sem hér hefur átt sér stað á undanförnum árum í sama mæli og mörg okkar hinna sem betur hafa það, þar á meðal við öll í þessum þingsal.

Nú þegar harðnar á dalnum í efnahagslífinu er nauðsynlegt að verja velferð þessa fólks. Það þarf aukið átak í þeim efnum. Þrátt fyrir að þessar breytingar sem eiga sér stað núna séu mikilvægar þurfum við líka að muna eftir þeim sem lifa eingöngu á lífeyri og hann þarf að hækka.

Við segjum já.[16:15]
Ásmundur Friðriksson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um breytingu á lögum um félagslega aðstoð. Ég held að hér sé stigið gott skref í að afnema krónu á móti krónu skerðingu. Það þarf að stíga fleiri skref til að bæta kjör þessa hóps. Það er góður vilji til þess. Í þessu frumvarpi eru líka margar góðar réttarbætur til öryrkja og við munum halda áfram að stíga þau skref ákveðið og þétt fram veginn.

Ég segi já.[16:15]
Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við Píratar styðjum þetta mál vegna þess að þetta er skref í rétta átt þótt það sé mjög lítið. Mér finnst rétt og þarft að segja hér að það er óþolandi hversu litlu fjármagni er varið í að minnka þær krónu á móti krónu skerðingar sem allir flokkar töluðu um að afnema alveg fyrir seinustu kosningar.

Það er ámælisvert að ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunasamtök fatlaðs fólks við vinnslu frumvarpsins. Þau hafa ekki fengið aðkomu að því hvernig afnám krónu á móti krónu skerðing er útfærð. Þetta er lítið fjármagn, 2,5 milljarðar, og það væri hægt að gera mun betur og er þarft að gera betur.

Að sjálfsögðu styð ég það litla skref sem verið er að taka. Vinnubrögðin við þetta eru ekki góð og ég hvet ráðherra til að gera betur næst og hafa samráð við þá aðila sem málið snýst um.[16:17]
Þorsteinn Sæmundsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um 65 aura frumvarp ríkisstjórnarinnar. 65 aurar verða enn þá teknir af hverri krónu hjá öryrkjum. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur virðist hafa fundið breiðu bökin þar sem öryrkjar eru. Það kemur fram bæði í þessu máli og fleirum. Öryrkjar eiga greinilega að fá að bera byrðarnar áfram og eiga enn eftir að fá að bíða eftir réttlæti um nokkra hríð í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Þetta er til skammar og það hefði t.d. verið mjög ódýrt að hækka þetta hlutfall, þótt ekki hefði verið nema upp í hálfa krónu. Það hefði verið mjög ódýrt og leikur einn að finna fé til þess arna. Það er því miður ekki gert.

Að sjálfsögðu segjum við já við þessu en við hefðum viljað taka miklu stærra skref.[16:18]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka nefndinni fyrir það hversu hratt hún vann þetta mál. Ég tek undir að vissulega hefði verið jákvætt ef málið hefði getað borið fyrr að en við vorum að bíða eftir niðurstöðum starfshóps sem skilaði af sér. Ráðherrann er algjörlega meðvitaður um að það hefði þurft að fá betra samráð en er engu að síður þakklátur fyrir starf nefndarinnar og hvernig hún kom að málinu.

Hér erum við að stíga gríðarlega mikilvægt skref til að hvetja fólk til aukinnar þátttöku á vinnumarkaði sem er einmitt kjarninn í þeirri skýrslu sem skilað var nýlega. Ég er sérstaklega ánægður líka með að ríkisstjórnin stígi hér skref til afnáms skerðinga sem meðvitað var tekin ákvörðun um á sínum tíma þegar genginn var þessi vegur gagnvart eldri borgurum. Undir forystu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar var meðvitað tekin ákvörðun um að skilja öryrkja eftir á þeim tíma og það er ánægjulegt að við skulum í dag vera að gera breytingar á því og stíga þetta skref.

Ég þakka nefndinni fyrir það hversu hratt hún brást við í þessu efni og að við skulum ná þessu skrefi hérna (Forseti hringir.) vegna þess að sannarlega var ekki gott að skilja þennan hóp eftir 2016.Brtt. í nál. 1813,1 samþ. með 48 shlj. atkv.

 1. gr., svo breytt, samþ. með 48 shlj. atkv.

Brtt. í nál. 1813,2 samþ. með 48 shlj. atkv.

 2. gr., svo breytt, samþ. með 47 shlj. atkv.

 3. gr. samþ. með 47 shlj. atkv.

Fyrirsögn  samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.