149. löggjafarþing — 126. fundur.
dýrasjúkdómar o.fl., 3. umræða.
stjfrv., 766. mál (innflutningur búfjárafurða). — Þskj. 1872, nál. m. brtt. 1913.

[17:22]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég flyt nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Nefndarálitið með breytingartillögu er frá meiri hluta atvinnuveganefndar. Nefndin hefur fjallað um málið á ný að lokinni 2. umr. Meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á mikilvægi þess að frumvarpið verði samþykkt svo að Ísland uppfylli skuldbindingar sínar gagnvart EES-samningnum. Meiri hlutinn telur þó nauðsynlegt að mótvægisaðgerðir samkvæmt fyrrgreindri aðgerðaáætlun komist til framkvæmda hið fyrsta. Hvað gildistöku laganna varðar liggur fyrir samkomulag milli þingflokka um að fresta henni til 1. janúar 2020, m.a. til þess að betra tóm gefist til að vinna að aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Leggur meiri hlutinn því til breytingu þess efnis.

Meiri hlutinn telur æskilegt að reglulega verði helstu hagsmunaaðilar upplýstir um framvindu þeirra aðgerða sem settar eru fram í þingsályktuninni um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.

Með vísan til alls framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

12. gr. orðist svo:

Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020 nema 4., 10. og 11. gr. sem öðlast þegar gildi.

Undir álitið skrifa hv. þingmenn, sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Líneik Anna Sævarsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson.[17:24]
Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil við 3. umr. hnykkja sérstaklega á mikilvægi þess sem kemur fram í nefndaráliti á milli 2. og 3. umr. þar sem það er rammað inn að gildistöku laganna sé frestað til 1. janúar 2020. Þar inni er atriði sem ég held að sé mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra leggi sig fram um að sinna þannig að vel sé. Það er samráð við hagsmunaaðila, hvort sem þar er um að ræða aðila í matvælaframleiðslu eða þá sem eru einhvers staðar í heilbrigðisumhverfinu, hvort sem það eru læknar, sýklafræðingar eða hver svo sem stéttin er. Þeir hópar verði kallaðir að borðinu og fái tækifæri til að fylgjast með framgöngu málsins á öllum stigum og sérstaklega með áherslu á innleiðingu svokallaðra mótvægisaðgerða sem er, ef ég man rétt, 17 eða 18 atriða pakki þar sem ætlanin er að reyna að fyrirbyggja eins og kostur er með þeim leiðum sem þar er boðið upp á að sýkingarhætta og það að sjúkdómar og ónæmar sýklalyfjaveirur berist hingað til lands vegna afnáms frystiskyldunnar. Sem ég verð að viðurkenna að ég er enn bjartsýnn á að menn finni leið til að afturkalla á haustþingi. Þó að frumvarpið geri ráð fyrir að gildistakan verði 1. janúar 2020 er ég þess fullviss að þingflokkar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna muni áfram í gegnum sumarið og haustið leita allra leiða til að vinda ofan af þeirri ákvörðun sem hér er römmuð inn hvað það varðar að opna fyrir innflutning á ófrystu kjöti.

Ég vil ítreka mikilvægi þess að hagsmunaaðilar séu kallaðir að borðinu og að á sjónarmið þeirra verði hlustað, sérstaklega ef svo fer að einhver þeirra atriða sem ætlast er til að ná fram með aðgerðaáætluninni séu annaðhvort ekki að gera sitt gagn eða ekki hafi tekist að innleiða og koma í framkvæmd á þeim tíma sem menn ætluðu sér.[17:27]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni af ræðu hv. þm. Bergþórs Ólasonar er rétt að taka fram að frestun gildistökunnar er ekki háð neinum skilyrðum, þ.e. samkomulag var í tengslum við samkomulag um þinglok um að fresta gildistöku frumvarpsins til 1. janúar. Það var ekki háð neinum skilyrðum og það er ekkert ef í því. Það þýðir þá að það frumvarp sem hér er til afgreiðslu verður samþykkt á þessu vorþingi og það mun taka gildi 1. janúar enda, eins og menn þekkja úr forsögunni, nauðsynlegt vegna dóma sem hafa gengið og óþarfi að fara ítarlega út í þá forsögu alla.

Það er hins vegar rétt sem hv. þm. Bergþór Ólason gerði grein fyrir, það er líka gert ráð fyrir að um verði að ræða reglubundna upplýsingagjöf af hálfu ráðuneytis til hagsmunaaðila og eftir atvikum annarra sem málið varðar, sem er auðvitað mjög mikilvægt og skiptir máli varðandi framfylgd þeirrar aðgerðaáætlunar sem við ræddum fyrr í dag að það gangi vel. Ábendingar hagsmunaaðila og sérfræðinga á þessu sviði varðandi það hvernig gengur að hrinda þeirri aðgerðaáætlun í framkvæmd eru mikilvægar. Í raun og veru er sjálfsagt að ganga þannig frá að ráðherra og stofnanir hans geri með reglubundnum hætti grein fyrir þeirri stöðu mála því að það er auðvitað eins og menn þekkja í þinginu afar mikilvægt að áætluninni verði fylgt vel eftir.[17:30]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Við erum að tala um ferska kjötið, mál sem er búið að velkjast í áraraðir í íslensku stjórnkerfi. Hér hafa flokkar verið í ríkisstjórn og líka í stjórnarandstöðu sem hafa verið að móast við eðlilegum kröfum þess efnis að við förum eftir alþjóðaskuldbindingum en ekki síður því að við þurfum auðvitað að uppfylla það sem Hæstiréttur segir og fara eftir því sem hann kveður upp úr með. Hluti af því er þetta mál sem tengist ferska kjötinu. Eðlilega hafa komið upp ákveðin varúðarsjónarmið sem tekið hefur verið tillit til. Við samþykktum fyrr í dag aðgerðaáætlun. Ég sit í atvinnuveganefnd og vil meina að hún hafi unnið þar gott starf. Allir eru meðvitaðir um að við þurfum að gæta að neytendum og matvælaöryggi. Við þurfum að huga að bændum, búfjárstofnum og auðvitað lýðheilsu okkar Íslendinga.

Í frumvarpinu er ekki ógn gagnvart þeim þáttum sem ég talaði um. Þetta er ekki ógn ef rétt er að málum staðið og eins og Alþingi útbjó það núna vil ég meina að þetta sé rétt skref og þótt fyrr hefði verið. Það sem ég kem hins vegar hingað upp með er að mér finnst miður að sjá hvernig vinnubrögð — þetta mál tengist því hvernig við erum búin að vera í þinglokum á síðustu dögum og ég fagna því sérstaklega að formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins hafi dregið það sérstaklega fram í andsvari áðan að gildistakan er ekki háð einhverjum skilyrðum. Mér hefur þótt miður að upplifa það — ég gerði þó ekki neitt veður úr því af því að ég tel mikilvægt að forsætisráðherra og ríkisstjórnin hafi ákveðið svigrúm til framgangs, en ég setti þetta mál, ferska kjötið, sem eitt af þeim málum sem ég vildi að nytu framgangs í þinginu og að ef því yrði breytt yrði haft samráð við fleiri en Miðflokkinn.

Af því að að vissu leyti er ákveðinn yfirgangur og þrjóska, við getum líka sagt staðfesta, til staðar þar, var eftirgjöfin af hálfu ríkisstjórnar fullkomin gagnvart Miðflokknum. Ég veit að Miðflokksmenn kætast ef ég segi að Miðflokksmenn hafi tekið ríkisstjórnina að vissu leyti á ippon. Þó að ég sé bara fjári foxill, kannski ekki í fyrsta og ekki í annað sinn, er það þannig að þetta mál mun taka gildi og verða að lögum 1. janúar 2020, óháð því hvaða spil Miðflokkurinn mun reyna að draga upp á lokametrunum.

Það sem mér finnst líka skipta máli varðandi meðferð málsins alls er að í þessu máli erum við að gera kröfu til okkar sjálfra varðandi lýðheilsu, búfjárstofna, bændur og neytendur, eitthvað sem ég hefði svo gjarnan viljað sjá jafnvel í fiskeldinu. Þó að mörg mjög mikilvæg og jákvæð skref hafi verið tekin fram á við hvað varðar auknar kröfur um náttúruvernd og umhverfisvernd varðandi fiskeldið hefði ég viljað sjá það sama gert þar eins og er verið að gera hér. Við erum að gera mjög strangar kröfur til okkar sjálfra, okkar Íslendinga, hvernig við hlúum einmitt að þessum þáttum, búfjárstofnum og bændum en ekki síður neytendum, hvernig við tryggjum líka neytendum öryggi þeirra þegar þeir bæði kaupa sína vöru og hafa líka aðgang og val. Það verður ekki tekið af neytendum og við erum að tryggja það hér líka með því að uppfylla skilyrði EES-samningsins sem við undirgengumst á sínum tíma, mjög farsælt framfaraskref sem við þurfum auðvitað að fylgja eftir. Það er ekki eins og sumir vilja sem hér eru inni, þeir vilja taka ákveðin mál og setja þau í herkví til þess eins að veikja undirstöður þess mikilvæga samnings.

Mér finnst miður hvernig, eins og ég segi, á síðustu metrum þinglokasamninga er verið að nota mál. Það var verið að reyna ákveðinn hælkrók á ríkisstjórnina og alla aðra flokka í þinginu varðandi kynrænt sjálfræði. Á það var sem betur fer ekki hlustað, en það segir mjög mikið þegar verið er að nota svona mál til að knýja sitt fram. Mér finnst það ekki í anda samtals, samræðu eða málefnalegra stjórnmála.

Ég vil einnig undirstrika að ég tel skipta máli að Alþingi Íslendinga fari eftir því sem Hæstiréttur segir, fari eftir því sem Mannréttindadómstóll Evrópu segir þótt hann sé ekki að tala í þessu máli, en í öðrum málum. Mér finnst vont þegar tónar sem hér eru slegnir, hvort sem er af hálfu ríkisstjórnar eða tiltekinna flokka í þinginu, eru þannig að það megi bara fara eftir hentugleikum og hentisemi hverju sinni, pólitískri skoðun hverju sinni, hvort framfylgja eigi niðurstöðum Hæstaréttar. Þess vegna tek ég undir með ríkisstjórninni, þetta er rétt skref. Eðlilega þurfti að fara yfir atriði og ábendingar sem við þurftum að fara vel yfir. Það var gert og að hluta til erum við búin að afgreiða þann þátt. Mér finnst vont að sjá að einn flokkur umfram annan geti fengið breytingar á svona málum með yfirgangi sínum og óbilgirni eins og var í þessu máli. Hægt er að kalla það staðfestu, en í svona málum finnst mér það vera óbilgirni og yfirgangur.

Þetta er eitthvað sem ég vona að við, allir stjórnmálaflokkar, tökum fyrir á næsta þingi. Ég tel að kominn sé tími til að við förum gaumgæfilega yfir allt sem heitir málþófstæki. Við þurfum að koma betra skikki og brag á starfsemi þingsins.[17:37]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég skal ekki tala lengi því að eins og forseti veit er ég allur af vilja gerður að liðka fyrir framgangi þingstarfa. Ég kemst þó ekki hjá því að segja nokkur orð um þetta stóra mál því að það er risastórt mál. Raunar hefði verið tilefni til að ræða það miklu meira í þinginu en tækifæri gefst til nú á lokasprettinum, kannski næstsíðasta degi þingstarfanna. Þetta er mál sem varðar grundvallarhagsmuni einnar undirstöðuatvinnugreinar landsins, greinar sem hefur verið undirstöðuatvinnugrein byggðar og raunar lífs í landinu frá upphafi. Þetta mál er því miður aðeins enn einn áfanginn af allt of mörgum sem hafa leitt til þess að vegið hefur verið að þessari undirstöðuatvinnugrein.

Nú má segja að íslenskur landbúnaður sé að takast á við ógnir úr mörgum áttum samtímis. Gerðar eru sífellt meiri kröfur varðandi aðbúnað og starfshætti í íslenskum landbúnaði og þeim fylgt eftir af mikilli festu, mætti jafnvel segja hörku. Á sama tíma hefur verið gerður tollasamningur við Evrópusambandið sem reyndist okkur Íslendingum einstaklega óhagfelldur. Um leið eru neysluhættir að breytast með þeim hætti að það gerir rekstur íslenskra búa og íslenskra matvælaframleiðenda erfiðari og svo bætist við þetta stóra högg sem felst í því frumvarpi sem hér er ætlast til að Alþingi leiði í lög.

Hvað líður athugasemdum hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, sem voru mjög gagnlegar á ýmsan hátt eins og ég kem inn á aðeins á eftir, um gildistökuna og það að gildistakan sé ekki skilyrðum háð er það rétt, en ég vona að sem flestir muni nýta tímann til að leita leiða til að finna betri niðurstöðu, betri lausn á þessu máli sem gefur okkur þá kost á að bæta fyrir þau mistök sem Alþingi myndi gera með samþykki þessa máls, afturkalla málið og samþykkja nýtt og betra mál, hugsanlega með einhverjum hliðaraðgerðum sem væru nauðsynlegar til að gera okkur það kleift. Sú vinna verður vonandi unnin, ekki aðeins af íslenskum matvælaframleiðendum heldur einnig ríkisstjórninni, ráðuneytunum og stjórnarflokkunum.

Af því ég nefndi áðan að ræða hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur hefði verið gagnleg fannst mér hún gagnleg vegna þess að hún lýsti einlægri afstöðu. Ég geri ekki lítið úr því að hv. þingmaður, formaður Viðreisnar, hafi lýst einlægri afstöðu þess flokks og allt í ræðu hv. þingmanns var í samræmi við það sem ég hef heyrt frá þeim flokki. Það sem hefur hins vegar valdið mér verulegum áhyggjum í umræðu um málið er að mér hefur þótt ríkisstjórnarflokkarnir þrír allir, að því marki sem þingmenn þeirra hafa treyst sér til að tjá sig um málið, vera að færast yfir á Viðreisnarlínuna og það kann ekki góðri lukku að stýra þegar landbúnaðarmál eru annars vegar. Menn eru jafnvel farnir að nota hér Viðreisnarfrasana um að við verðum bara að gera þetta af því að við viljum vera svo góðir þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi. Við hljótum — þegar ég segi við á ég við okkur Miðflokksmenn og stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna, þingmenn þeirra — að vilja að það alþjóðlega samstarf sé með þeim hætti að við getum varið undirstöðuatvinnugreinar okkar Íslendinga, ekki hvað síst íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu. Af því að mikið er vísað til EES-samningsins í umræðu um málið má rifja upp að heilmikil umræða var um hvaða áhrif hann myndi hafa á annars vegar íslenskan sjávarútveg og hins vegar íslenskan landbúnað. En okkur Íslendingum var sagt að hafa engar áhyggjur vegna þess að þeir málaflokkar heyrðu ekki undir samninginn. Málsvarar Íslands í þeim málaferlum sem hafa verið nefnd í tengslum við þetta mál hafa bent á það, bæði á meðan á málaferlum stóð og eftir að þeim lauk, að málflutningur ESA og Evrópusambandsins í þessu máli hafi verið rangur. Stefán Már Stefánsson lögfræðingur lýsir niðurstöðu málsins sem rangri, ekki hvað síst vegna þess að þarna er Evrópusambandið og framlenging þess, ESA, að teygja sig umfram það valdsvið sem EES-samningurinn gerði ráð fyrir.

Þetta vekur spurningar um tvennt, annars vegar hvort íslensk stjórnvöld séu reiðubúin til að gera það sem þarf til að verja undirstöðuatvinnugreinar okkar og hins vegar hvort menn séu ekki reiðubúnir að gera neinar ráðstafanir til að bregðast við síaukinni ásælni Evrópusambandsins og stofnana sem tengjast því bandalagi gagnvart fullveldi þeirra þjóða sem þessar stofnanir hafa aðkomu að eða eitthvað um að segja. Þróunin er augljós. Menn færa sig sífellt upp á skaftið og þetta mál er eitt skýrasta dæmið um það. Ef við erum ekki tilbúin að bregðast við þegar um er að ræða þetta stórt hagsmunamál sem varðar ekki bara undirstöðuatvinnugrein heldur líka heilbrigði í landinu og erum ekki tilbúin að sýna neina mótspyrnu sem heitið getur gagnvart ásælni Evrópusambandsins í svona stóru máli hljótum við að þurfa að hafa áhyggjur af því sem er í vændum.

Það er ekki hægt annað, frú forseti, en að setja þetta í samhengi við annað stórt mál sem við höfum rætt hér á þinginu. Ég gerði það reyndar aðeins í síðari umr. en það er alveg tilefni til að rifja upp aftur hversu kaldhæðnislegt það er að á sama tíma og okkur þingmönnum er sagt að okkur sé alveg óhætt að samþykkja þriðja orkupakkann vegna þess að það séu til staðar einhverjir fyrirvarar eða fyrirvari. Leitin að þeim stendur enn þá yfir en okkur hefur verið sagt að þeir séu til, að til séu fyrirvarar sem gera okkur kleift að samþykkja það mál. Á sama tíma birtist ríkisstjórnin með þetta mál og viðurkennir að hún hafi haldið að við hefðum fyrirvara, raunverulegan lagalegan fyrirvara sem myndi halda en henni sé sagt að sú sé ekki raunin og þá verði hún bara að láta undan.

Hvað segir það okkur til að mynda um hvers kunni að vera að vænta varðandi orkupakkann ef þetta er viðhorfið þar sem þó voru raunverulegir lagalegir fyrirvarar, þar sem þó er um að ræða mál sem væru utan valdsviðs EES-samningsins? Á einhver að trúa því að ímyndaðir fyrirvarar, hugsanlega í greinargerð, hugsanlega í nefndaráliti, muni hafa eitthvað um það að segja hvernig orkupakkinn verður innleiddur til framtíðar?

Ég vil líka nefna annað atriði sem ég kom stuttlega inn á í 2. umr. um þetta mál og það er mikilvægi þessarar atvinnugreinar, landbúnaðar, fyrir aðrar atvinnugreinar og byggð í landinu. Ekki er hægt að líta á þetta sem einangrað tilfelli, eins og mönnum hættir stundum til og segja að það starfi einungis svo og svo margir við landbúnað, vegna þess að landbúnaður er undirstaða atvinnulífs og byggðar víða um land. Ef landbúnaðar nyti ekki enn við í þeim landshlutum þar sem landbúnaður er þó enn til staðar væri byggðin ekki bara fátæklegri, hún væri ekki til staðar á mörgum stöðum. Það er ekki bara spurning um þessa tilteknu atvinnugrein og það hversu mikilvægt það vissulega er að standa með þeirri grein, heldur er þetta spurning um byggðirnar hringinn í kringum landið.

Svo aðeins að neytendamálum, frú forseti. Það er með stökustu ólíkindum þegar menn leyfa sér annaðhvort beint eða óbeint að stilla íslenskri matvælaframleiðslu, íslenskum bændum, upp sem einhvers konar andstæðingum neytenda. Stuðningur ríkisins við íslenska matvælaframleiðslu, við íslenskan landbúnað, er neytendastuðningur. Hann er í raun líka á vissan hátt framlag til heilbrigðismála, framlag til efnahagsmála til að viðhalda hér og styrkja sjálfstætt og sterkt efnahagskerfi. Það að leyfa sér að slíta hlutina svona í sundur og reyna að etja einni stétt fólks á móti öðrum er afskaplega óheppileg pólitík, ég myndi kalla það popúlisma. Því miður er popúlismi af þessum toga allt of áberandi nú til dags og á greiða leið í tiltekna fjölmiðla og umræðu. Við sem metum mikilvægi landbúnaðar og fjölbreytts atvinnulífs á Íslandi verðum að reyna að spyrna við fótum gagnvart þessum vaxandi popúlisma.

Að lokum, frú forseti, finnst mér tilefni til, af því að mikið er vísað til alþjóðasamstarfs í umræðu um þetta mál, að benda á þá staðreynd sem ég hefði talið augljósa, að ekki eru mörg lönd, ekki mörg þróuð ríki, sem sjá ekki ástæðu til að verja sína eigin matvælaframleiðslu með þeim tækjum sem kostur er á að nýta. Auðvitað snýst þetta allt um Evrópusambandið, frú forseti. Getum við ekki verið sammála um það? Evrópusambandið er tollabandalag sem reisir um sig tollamúra. Ísland er með mun frjálslegri viðskiptastefnu við önnur lönd en Evrópusambandið. Það eru fá ef nokkur lönd sem hafa gert fríverslunarsamninga við eins mörg lönd. Þvingandi tollar og gjöld eru hér almennt lægri en í Evrópusambandinu. Telja menn að Evrópusambandið beiti ekki vörnum fyrir sinn innri landbúnað, sína matvælaframleiðslu, þekkja menn hversu mikið evrópskir skattgreiðendur setja í að viðhalda landbúnaði þar, með reyndar alveg einstaklega óhagkvæmum aðferðum þar sem mönnum er jafnan greitt fyrir að framleiða ekki? Þær greiðslur renna yfirleitt ekki til fjölskyldubúa heldur til stórfyrirtækja, ekki bara verksmiðjubúa heldur stórfyrirtækjanna sem eiga þau. Þessi fyrirtæki fá greiðslur, ekki hvað síst fyrir að framleiða ekki verðmæti. Viljum við færast yfir í það fyrirkomulag? Viljum við vera opin fyrir því að hingað, á viðkvæma íslenska markaðinn, verði sturtað umframframleiðslu úr niðurgreiddum verksmiðjubúum Evrópu? Það getur ekki verið ásættanlegt fyrir okkur. Ef við erum sammála um það, sem ég vona að við getum verið, hljótum við að draga línu í sandinn og við þær aðstæður sem ég lýsti hér áðan, þar sem sótt er að íslenskum landbúnaði úr mörgum áttum samtímis, getum við ekki látið það viðgangast að mál eins og þetta renni hér í gegn með engu nema einhverjum almennum svokölluðum mótvægisaðgerðum sem við vitum ekki hverju muni skila. Við hljótum að nýta tímann sem gefst núna fram að áramótum til að meta hvort ekki kunni að vera leiðir, — ég tel að þær séu til, við munum auðvitað skoða þetta töluvert — til að sleppa úr þessu klandri. Þá gefst ríkisstjórninni — ég vona að ríkisstjórnin hafi einfaldlega frumkvæði að því sjálf — tækifæri til að koma með nýtt frumvarp á þing í haust sem afturkallar þau lög sem menn vilja að taki gildi samkvæmt frumvarpinu. Fái þau samþykki, sem ég óttast að verði raunin, gefst ríkisstjórninni tækifæri til að afturkalla þau lög og innleiða lausnir sem eru til þess fallnar að skila því markmiði að verja íslenskan landbúnað, íslenska matvælaframleiðslu, íslenskt efnahagslíf, matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar og þar með íslenskt samfélag.[17:52]
Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka síðasta ræðumanni, hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrir áhuga hans á þessu máli. Ég hefði viljað sjá áhuga Miðflokksmanna á þessu máli fyrr, ég varð lítið var við hann í undirbúningi málsins og ég held að fleiri hv. þingmenn sem komu að vinnu við málið séu mér sammála hvað það varðar. En betra er seint en aldrei og hv. þingmaður kom inn á margt áhugavert.

Í þessari stuttu ræðu ætla ég ekki að eyða tíma mínum í að ræða mikið um Miðflokkinn heldur velta fyrir mér hvernig ég sjái framtíðina fyrir mér með því frumvarpi og þeirri breytingartillögu sem hér liggur fyrir. Hvernig ég sjái framtíðina fyrir mér sem matvælaframleiðandi að lokinni gildistöku þessara laga og þegar virkni breytingartillögunnar verður komin.

Þetta hangir allt saman, frumvarpið og breytingartillagan. Þeir sem hafa horft á þá aðgerðaáætlun sem við ræddum áðan og greiddum atkvæði um vita að hér eru gríðarlega mörg og góð verkfæri sem í mínum huga gera ekkert annað en að styðja við íslenska framleiðslu og gera hana enn samkeppnishæfari en hún er í dag gagnvart þeim innflutningi sem von er á.

Af hverju segi ég það? Þegar maður ætlar að gera kröfur til einhverra annarra á maður alltaf að byrja á að gera mestar kröfur til sjálfs sín. Í þessu tilliti erum við að gera það varðandi íslenska matvælaframleiðslu. Ég ítreka líka að við erum ekki bara að tala um kjöt, við erum að tala um öll matvæli sem eru framleidd á landinu, þar með talið grænmeti. Þar eru gríðarleg tækifæri fyrir íslenska grænmetisframleiðendur til að blása til sóknar því að hingað til lands er flutt inn gríðarlegt magn af grænmeti. Tekin hafa verið sýni, svona slembiúrtak, úr þeim vörum sem hingað eru fluttar inn og það hefur fundist alls kyns óværa í þeim innflutningi. Með því frumvarpi sem við erum að ræða ætlum við að banna dreifingu á vörum sem innihalda tilteknar fjölónæmar bakteríur. Það er stórt skref en það er heldur ekki þar með sagt að við þurfum ekki öll — eins og staðan er í dag á Íslandi — að taka okkur verulega á líka. Það hefur verið í fréttum undanfarið að hér hafa fundist alls konar bakteríur, minni háttar bakteríur í vörum sem við erum að framleiða. En það er bara áskorun fyrir íslenska matvælaframleiðendur að takast á við það. Ég hef fulla trú á því að það sé hægt.

Það er töluverður misskilningur í gangi þegar við erum að ræða þetta. Menn tala í öðru orðinu um að hingað verði bara sturtað inn alls konar verksmiðjukjöti sem ekki sé af þeim gæðum sem við setjum okkur að hafa. En ég get ekki betur skilið þetta frumvarp og þá breytingartillögu sem við erum að ræða öðruvísi en svo að komið sé í veg fyrir það. Það verður ekki hægt að flytja hingað inn bara eitthvað. Við gerum kröfur til þeirra matvæla sem hingað koma.

Virðulegur forseti. Þetta á víst að vera næstsíðasti dagur okkur á þingi. Væntanlega vilja fleiri taka til máls í þessari umræðu og ég ætla ekkert að orðlengja þetta miklu lengur en vil bara ítreka að íslenskir bændur óttast ekki samkeppni erlendis frá, þ.e. ef samkeppnin er á jafnréttisgrunni, það er lykilatriði. Allt tal um annað er bara rangt. Vissulega komu umsagnir á fyrstu stigum þessa máls sem voru frekar neikvæðar frá kollegum mínum og skil ég það vel en menn verða líka að hafa í huga að frumvarpið hefur tekið gríðarlegum breytingum í vinnslu atvinnuveganefndar, breytingum til hins betra.[17:58]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki hægt annað þegar forystumaður bænda tekur til máls með sína þekkingu, reynslu og yfirsýn — verandi í Framsóknarflokknum með alla sína sögu — en að hlusta. Það er fengur fyrir okkur þegar við ræðum um jafn mikilvæg mál og það sem hér um ræðir, hið svonefnda ferska kjöt, að heyra hvað hv. þingmaður hefur fram að færa.

Ég viðurkenni alveg eins og ég gat um áðan, verandi í atvinnuveganefnd, að ég var mjög tortryggin fyrst. Ég hélt að það væri verið að fara ýmsar leiðir til að koma í veg fyrir að við færum í raun eftir því sem bæði Hæstiréttur og samningurinn um EES hafa fram að færa í þessu máli. En ég er sannfærð um það, líkt og hv. þingmaður, að við höfum verið að stíga skynsamleg skref. Eðlilega höfum við farið yfir þá þætti sem hafa vakið okkur til umhugsunar. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að margir höfðu miklar efasemdir. Vinna þingsins gengur að mínu mati einmitt út á að fara málefnalega yfir hlutina og reyna að koma í veg fyrir að rangfærslur séu á yfirborðinu, eða hræðsluáróður, miklu frekar að við segjum: Við erum að taka rétt og skynsamlega á málum.

Það skiptir mig mestu máli að við erum með þessu að styðja íslenska landbúnaðarframleiðslu. Við erum að undirstrika að hún er og verður áfram undirstaða byggðar hér á landi. Hún styður ekki bara byggðina heldur líka aðrar atvinnugreinar, ferðaþjónustuna, og ég er sannfærð um að landbúnaðurinn verður eitt helsta hryggjarstykkið í sjálfri ferðaþjónustunni til skemmri og lengri tíma. Það verður að vera mikil samvinna þarna á milli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann tveggja spurninga. Hvernig sér hv. þingmaður þróast samvinnu landbúnaðarins og ferðaþjónustunnar? Og er ekki alveg ljóst að með þessari aðgerðaáætlun sem við samþykktum fyrr í dag (Forseti hringir.) erum við að styðja íslenska landbúnaðarframleiðslu þannig að þar verði ýmis sóknarfæri fram undan ef rétt er á málum haldið?[18:00]
Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka spurningar frá hv. þm. Þorgerði Katrínu. Þeim er kannski ekki auðsvarað á tveimur mínútum en ég skal leggja mig fram. Í samspili landbúnaðar og ferðaþjónustu eru vissulega gríðarleg tækifæri og þá getum við horft til þess sem menn eru sífellt að þróa, þ.e. Beint frá býli.

Síðan hvað varðar massatúrisma og stærri túrisma er það svo, og það þekki ég ágætlega sem fyrrverandi formaður sauðfjárbænda og það þekkir einnig hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem fyrrverandi ráðherra landbúnaðarmála, að farið var í verkefni tengt sauðfjársamningi þar sem var unnið með markaðssetningu sem eingöngu beindist að erlendum ferðamönnum. Þar á ég við verkefni sauðfjárbænda á veitingastöðum vítt og breitt um landið. Það verkefni skilaði okkur því að nú getum við, íslenskir neytendur, fengið okkur lambasteik á bestu veitingastöðum bæjarins. Því miður var það áður heilt yfir bara ekki hægt þannig að samspil allra þessara þátta hefur áhrif.

Vissulega er sú umgjörð sem við erum að skapa hérna í dag stuðningur við íslenskan landbúnað beint og óbeint. En við erum líka að gera kröfur til íslensks landbúnaðar. Við eigum alltaf að hafa það í huga að hér erum við líka að gera mestar kröfur til okkar bænda og okkar framleiðslu vegna þess að við ætlum að vera fremstir.[18:03]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég held einmitt að það sé nákvæmlega sá hugsunarháttur að við gerum sjálf til okkar kröfur, hvort sem er á sviði landbúnaðarmála eða á öðrum sviðum, sem er mikilvægur. Ég var að tala um fiskeldi áðan. Við þurfum sjálf að gera til okkar kröfur, hvort sem er á sviði umhverfisverndar eða annarra þátta sem tengjast atvinnugreininni. Þannig verðum við fremst í flokki.

Þegar ég segi að ég og við í Viðreisn og fleiri sjáum ótal tækifæri í landbúnaðinum er það einfaldlega af því að við erum með þannig afurð og landið okkar styður við þá ímynd okkar að við skilum til neytenda umhverfisvænni, góðri vöru, hvort sem það er lambakjöt, grænmeti eða önnur framleiðsla innan landbúnaðarins. Þess vegna verðum við að halda áfram að styðja við íslenska landbúnaðinn. Ég geri hins vegar líka kröfur til íslensks landbúnaðar. Hann verður og er sem betur fer að feta sig inn í annað umhverfi, að hluta til með þessu máli. En við þurfum auðvitað líka að veita líka íslenskum landbúnaði ákveðið svigrúm í tíma og svigrúm til að fara með réttum hætti inn í samkeppnina. Ég skil alveg ótta bændaforystunnar um að ekki sé hægt að fara í einu vetfangi inn í samkeppni en við megum samt ekki gefa afslátt af þeirri kröfu, fyrir framleiðsluna sjálfa, fyrir bændur og fyrir neytendur líka, að við förum inn í heilbrigt viðskiptaumhverfi sem tengist landbúnaði.

Af því að ég er að tala um viðskiptaumhverfið og það eru margir sem reyna að etja saman bændum og neytendum vil ég undirstrika að þeir eru alltaf í mínum huga hagsmunaaðilar sem eiga ríka hagsmuni saman. Við verðum að þora að segja: Já, við ætlum að halda áfram að styðja við íslenskan landbúnað. Ég er ófeimin við að segja að ég sé jafnvel tilbúin að styðja hann meira, svo lengi sem við höfum gegnsæjar reglur, styrkjum bændur en setjum ekki kraftinn (Forseti hringir.) fyrst og fremst í kerfið sjálft til að viðhalda milliliðum. Ég held að þetta þurfi að fara meira til bænda og minna í milliliðina og kerfið sjálft.[18:05]
Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir innlegg hennar. Þetta var svo sem kannski ekki bein spurning til mín en ég ætla aðeins að koma inn á samkeppni erlendis frá. Við þurfum að hafa í huga að við erum búin að vera í samkeppni erlendis frá í mörg ár. Þetta er ekki neitt nýtt sem er að gerast. Við ætlum bara að spila eftir öðrum leikreglum en við höfum gert hingað til. Það kemur ekki bændaforystunni neitt sérstaklega á óvart að það sé innflutningur líka. Það er gríðarlegur innflutningur nú þegar á hinum og þessum landbúnaðarvörum. En með því sem við erum að ræða núna, þessu frumvarpi og breytingartillögum, gerum við kröfur til vörunnar sem er flutt til landsins. Við erum ekki að gera neinar kröfur til þeirrar erlendu vöru sem er flutt til okkar í dag. Eftirlitið er lítið, merkingum er ábótavant o.s.frv. en með þessu erum við að stíga stórt skref til að vernda heilbrigði búfjárstofna, lýðheilsu Íslendinga og matvælaöryggi. Þetta eru lykilatriðin. Ég óttast þetta ekki. Framtíð íslensks landbúnaðar og matvælaframleiðslu er björt og ég hef fulla trú á því að þegar þetta verður allt komið til framkvæmdar verði bara sókn í íslenskum landbúnaði.[18:07]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Mig langar örstutt að koma inn á þetta mál, kannski af því að ég er þeirrar gerðar að ég vil gjarnan að við byggjum umræðu okkar og ákvarðanir á staðreyndum. Í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram hjá sumum hv. þingmönnum fyrr í dag finn mig knúinn til að rifja upp nokkrar óumdeildar staðreyndir en það er kannski tíska í dag í stjórnmálum að láta eins og staðreyndir séu ekki til, að láta eins og það sem gerst hefur hafi ekki gerst ef það hentar manns eigin málstað.

Hér hafa nokkrir hv. þingmenn lagt viðbrögð sem þessi aðgerðaáætlun er hluti af þannig upp að þetta snúist um einhverja sjálfstæðisbaráttu, einhverja vöðvahnyklun sannra Íslendinga gegn hinum vondu útlendingum sem ætla að knýja okkur til alls ills. Sömu hv. þingmenn minnast ekki einu orði á það að að baki þessu máli, þ.e. að afnema frystiskyldu sem þetta er andsvarið við, er hæstaréttardómur, dómur frá Hæstarétti Íslands. Einhvern veginn hentar það ekki málflutningi hv. þingmanna. Ég vona nú að þeir beri meiri virðingu fyrir dómum Hæstaréttar Íslands en öðrum dómum frá útlöndum sem hér hefur verið talað um. Þetta snýst ekki um það að berja sér á brjóst og segja: Ég er mesti Íslendingurinn, ég mun styðja og styrkja íslenskan landbúnað og íslenska bændur. Kjósið mig og hér verður allt hreint og fallegt. Við skulum sýna þessum vondu útlendingum í tvo heimana.

Það snýst ekki um það, það snýst um hvort við erum fólk sem bregst við dómum Hæstaréttar Íslands eða hunsum dóma Hæstaréttar Íslands.

Síðan snýst þetta einnig um samninga. Hér hefur verið farið háðulegum orðum um tollasamninga sem þetta er hluti af, ef svo má segja, í það minnsta innflutningur á búnaðarafurðum. Talað er um hina hræðilegu tollasamninga, um að varast að semja við hið hræðilega Evrópusamband, og það sett í samhengi við eitthvert allt annað mál, forseti, sem snýr að orku af því að það hentar að búa til þennan vef, af því það hentar þessum hv. þingmönnum að setja sig á þann stall. Hvaða tollasamningar eru þetta? Hvenær tókust þeir? Hvaða utanríkisráðherra var það sem sagði um umrædda tollasamninga, með leyfi forseta:

„Þetta er fagnaðarefni fyrir íslenska neytendur sem munu sjá þess stað í lækkuðu matvöruverði og útflytjendur sem munu vafalaust nýta sér þá möguleika sem í þessum samningum felast.“

Hvaða utanríkisráðherra var það sem sagði líka, með leyfi forseta:

„Samningurinn veitir ákveðin tækifæri fyrir landbúnað á Íslandi til að þreifa fyrir sér á markaði í Evrópu með nýjar vörur, eins og til dæmis í kjöti. Á sama tíma svarar samningurinn brýnni þörf fyrir auknar innflutningsheimildir til ESB fyrir skyr en einnig fyrir lambakjöt. Hvað varðar heimildir ESB til innflutnings til Íslands tel ég að umfang þeirra sé ekki með þeim hætti að landbúnaðurinn eigi að óttast það. Íslenskur landbúnaður er sterkari en svo.“

Þetta er djarflega mælt af þessum hæstv. utanríkisráðherra sem heitir Gunnar Bragi Sveinsson. Í hvað ríkisstjórn sat hæstv. þáverandi utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson? Jú, hann sat í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem lokaði þessum tollasamningum 17. september 2015 og lætur hér nú eins og þeir hafi einhvern veginn dottið úr loftinu í fangið á einhverjum linkum sem nú séu við stjórnvölinn og séu að bugast undan hinu erlenda valdi. Þetta er ekki hægt, forseti. Það er ekki hægt að tala þannig í þessari virðulegu stofnun eins og staðreyndir og raunveruleiki skipti bara engu máli lengur.

Sú ríkisstjórn sem nú situr við völd, ríkisstjórn þeirra þriggja flokka sem hana skipa, er með aðgerðum sínum að færa Ísland í fremstu röð hvað varðar það að berjast gegn einni mestu vá sem heimsbyggðin og heilbrigðisstofnanir um allan heim vara við, sýklalyfjaónæmi. Við erum að komast hér enn lengra, komast í fremstu röð og það er eitthvað sem aðrar ríkisstjórnir hefðu kannski átt að gera, til nánast hverrar einustu áætlunar í þessari aðgerðaáætlun hefði verið hægt að grípa, þar með talið af ríkisstjórn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Það var ekki gert. Það er hins vegar verið að gera það núna. Ég hélt og ég vonaði að við gætum rætt um þessa aðgerðaáætlun af sanngirni, kannski með smávon í brjósti, af því að hér er verið að stíga góð skref, að við nýttum ekki þetta mál hér sem sprek á okkar pólitíska bál til að hefja okkur sjálf upp því að þetta er gott mál, forseti. Ég held að allir í þessum sal geti sameinast um að þetta sé gott mál sem við hefðum þess vegna átt að geta afgreitt tiltölulega athugasemdalaust ef við værum sanngjörn. En við erum víst ekki öll sanngjörn.[18:14]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en komið aðeins hingað upp og rætt þetta mál vegna þess að það hefur verið rætt óbeint í samhengi við annað mál eins og hv. 3. þm. Norðaust. fór hér yfir áðan, þ.e. þriðja orkupakkann, sérstaklega fyrirvarana sem þar eru nefndir. Nú vona ég að hv. þingmenn sýni mér smáþolinmæði vegna þess að um er að ræða óskylt mál. Vandinn er sá að búið er að hringla þessum málum saman í umræðunni og mér finnst mjög mikilvægt, ekki bara vegna þriðja orkupakkans heldur líka vegna þessa máls, að sú flækja sé leyst. Það er í einu orði rangt að þarna sé um sama málið að ræða eða að það snúist um sömu atriðin og menn hafa að athuga við þriðja orkupakkann.

Í þriðja orkupakkanum er talað um fyrirvara og ég ætla að reyna að komast hjá því að fjalla um þá sérstaklega en þegar andstæðingar þriðja orkupakkans hafa talað á Alþingi vísa þeir í þetta mál, í frosnakjötsmálið eins og það er kallað, til að sýna fram á að það sé ekkert að marka neina fyrirvara, að fyrirvarar séu bara eitthvert bull út í buskann sem hafi enga þýðingu.

Í fyrsta lagi undirstrikar þetta misskilning hv. þingmanna á orkupakkanum sjálfum og eðli þeirra fyrirvara sem þar eru settir. Í öðru lagi eru þeir fyrirvarar sem þar eru settir á allan hátt frábrugðnir þeim sem varða þetta mál. Fyrirvararnir sem settir eru í þriðja orkupakkanum eru sagðir, af andstæðingum sem hér tala, vera þannig að EES eða ESB muni bara hunsa þá og muni ekkert láta þá sig varða, og misskilja auðvitað að það sé EES eða ESB að meta það þegar svo er ekki. Það er íslenskra dómstóla að meta það og varða þeir fyrirvarar stjórnarskrárlegt samhæfi ákveðinna greina sem fylgja ákveðnum gerðum þriðja orkupakkans.

Þær reglur sem voru settar til að hindra innflutning á frosnu kjöti voru ekki dæmdar ólögmætar vegna þess að EES eða ESB hafi hunsað fyrirvara af hálfu Íslands. Það er bara ekki þannig. Þær tímabundnu undanþágur sem Ísland fékk voru endurskoðaðar og fjarlægðar. Með öðrum orðum, Ísland skuldbatt sig til þess að fara eftir þeim ákvæðum sem gera það að verkum að hindranir á innflutningi frosins kjöts voru ekki lengur heimilar. Ísland samþykkti það, ríkisstjórnin samþykkti það, Alþingi samþykkti það. Það var ekki þannig að Alþingi ákveddi eitthvað annað og einhverjir vondir útlendingar sneru okkur einhvern veginn niður. Nei, samningaviðræður fóru í gang og eins og í öllum samningaviðræðum eru kostir og gallar, báðir þurfa að fórna einhverju og fá eitthvað í staðinn og í tilfelli Íslands var það metið þannig að það þjónaði hagsmunum Íslands að geta flutt út fisk til Evrópusambandsins á sömu forsendum, þ.e. þannig að aðrar þjóðir séu ekki með ómálefnalegum hætti að hindra aðgang okkar að þeirra markaði. Þannig virka samningar, virðulegi forseti. Þannig virkar EES og þess vegna er EES-samstarfið gott vegna þess að það fjarlægir ómálefnalegar hindranir á mörkuðum, tryggir aðgang annarra að okkar markaði alveg eins og okkar aðgang að þeirra markaði. Það er sanngjarnt, það er heilbrigt, þannig virka viðskipti. Mér finnst svo skrýtið hvernig það er einhvern veginn komið í tísku aftur, sér í lagi af hálfu hv. þingmanna Miðflokksins, að vera á móti frjálsum viðskiptum að því er virðist. Hvenær varð það allt í einu svona slæmt að vera í viðskiptum með vörur á milli landa? Hvenær varð það eitthvert tabú og eitthvað neikvætt eins og það sé eitthvert sjálfstæðisatriði fyrir Ísland að hingað sé ekki eitthvað flutt inn eða eitthvað flutt út? Auðvitað viljum við flytja inn og flytja út og það þýðir væntanlega að við viljum gera það á grundvelli einhverra sanngjarnra reglna sem allir viðskiptaaðilar geta sætt sig við og skilja á sameiginlegan hátt.

Um það snýst EES. Um það snýst líka þriðji orkupakkinn og um það snýst líka þetta mál. Mér finnst svolítið eins og hv. þingmenn Miðflokksins annaðhvort leggi sig ekkert fram við að hugsa eða hlusta á þessi mál eða hunsi vísvitandi þessi lykilatriði málsins. Ég veit ekki hvort er og það er ekki mitt að meta svo sem.

Annað sem ég vil líka nefna er að þessu er oft stillt upp þannig að það sé einhvern veginn Ísland á móti EES eins og íslenskir hagsmunir séu allir sameinaðir í orðræðu Miðflokksins eða annarra sem tala hvað hæst á móti þriðja orkupakkanum og sambærilegum málum. Það er ekkert þannig. Það voru íslenskir aðilar sem kvörtuðu til EES í þá daga vegna meintra samningsbrota. Það voru íslenskir aðilar og íslenskir hagsmunir sem kvörtuðu til EES og EES svaraði með að verja hagsmuni þeirra, hagsmuni þeirra Íslendinga í þeim íslensku stofnunum sem vildu fá að flytja inn frosið kjöt.

Sömuleiðis var það íslenskur aðili sem síðar meir vildi flytja inn frosið kjöt þegar það mál fór til Hæstaréttarins og Hæstiréttur dæmdi þeim Íslendingi í vil gegn íslenska ríkinu, þökk sé EES.

Hvað varðar það hvort hindra beri innflutning á frosnu kjöti býður EES-samningurinn algjörlega upp á að settar séu hömlur þegar málefnalegar ástæður eru fyrir hendi, svo sem í 13. gr. EES-samningsins sjálfs sem ég verð eiginlega að lesa hérna, virðulegi forseti, með leyfi:

„Ákvæði 11. og 12. gr. koma ekki í veg fyrir að leggja megi á innflutning, útflutning eða umflutning vara bönn eða höft sem réttlætast af almennu siðferði, allsherjarreglu, almannaöryggi, vernd lífs og heilsu manna eða dýra eða gróðurvernd, vernd þjóðarverðmæta, er hafa listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi, eða vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar og viðskipta. Slík bönn eða höft mega þó ekki leiða til gerræðislegrar mismununar eða til þess að duldar hömlur séu lagðar á viðskipti milli samningsaðila.“

Og það er heili punkturinn, að forðast gerræðislega mismunun eða duldar hömlur. Ef það kemur í ljós að einhverjar hömlur sem kannski er talað um að séu málefnalegar, svo sem að innflutningur á frosnu kjöti sé einhvern veginn hættulegur fyrir heilsu dýra og manna, þarf að leggja mat á hvort það mat sé rétt. Enn fremur þarf að leggja mat á það hvort ekki sé hægt að ná sama markmiði til að verja heilsu dýra og manna eftir öðrum leiðum. Niðurstaðan varð sú að það væri hægt og þess vegna væru þetta duldar hömlur og þar af leiðandi á skjön við EES-samninginn. Með öðrum orðum, við höfðum ekki nógu góðar ástæður til að beita þessum tilteknu hömlum. Þetta var ákveðið af Hæstarétti Íslands og EFTA af sömu ástæðu og við myndum vilja að dómstólar og EFTA kæmust að sömu niðurstöðu ef við værum látin lúta sambærilegum viðskiptahömlum við útflutning okkar á fiski sem dæmi, eða orku ef út í það er farið.

Ég vildi bara halda þessu til haga, virðulegi forseti. Frjáls viðskipti eru í eðli sínu góð. Þau eru ekki lausn á vandamálum alls heimsins. Þau eru ekki góð sama hvað en þau eru í meginatriðum í eðli sínu góð. Það er ekki ógn við sjálfstæði Íslands að hér sé hægt að flytja inn hluti og flytja þá út. Það er ekki heldur ógn við sjálfstæði Íslands að það séu sameiginlegar reglur á milli þeirra þjóðríkja sem taka þátt í viðskiptunum sem gilda um téða vöruflutninga og téð frelsi.

Það var einungis í ljósi ræðu hv. 3. þm. Norðaust. hér áðan sem mér fannst mér skylt að koma hingað upp og nefna þetta aðeins. Ég kynnti mér þetta mál fyrst og fremst vegna umræðunnar um þriðja orkupakkann þar sem ég taldi að ég hefði rekist á rangt mál vegna þess að það var svo algjörlega ósamhæft við orðræðuna frá hv. þingmanni um þriðja orkupakkann, algjörlega ósamhæft. Mér fannst ég hljóta að vera að lesa rangt mál en auðvitað var það rétta málið. Það voru bara hv. þingmenn Miðflokksins sem enn og aftur voru úti að aka í umræðunni.[18:23]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég sé að forseti úthlutar mér aðeins fimm mínútum. Það verður þá að duga þó að það mætti nota meiri tíma í að bregðast við þeim ræðum sem hafa verið fluttar hér á undan, nú síðast ræðu hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar sem einkenndist fannst mér svolítið af því yfirlæti sem Píratar eiga til að sýna í ræðustól en við erum svo sem orðin vön því.

Það sem ég vildi þó fyrst og fremst leggja áherslu á í þessari seinni ræðu minni við 3. umr. er að við megum ekki vera smeyk við það, eins og mér heyrist á sumum fyrri ræðumönnum í umræðunni, að verja íslenska hagsmuni og að menn rjúki þá hér upp og stilli málum upp þannig að með því sé verið að tala um að útlendingar séu vondir og einhver önnur eins della. Allar þjóðir meira og minna, held ég að megi segja, líklega allar, verja hagsmuni sína og í viðskiptum gera menn það, til að mynda í viðskiptum á grundvelli EES-samningsins verða menn að verja hagsmuni sína. Það er ekkert nema eðlilegt við það. Það að láta að því liggja að þegar við Íslendingar leyfum okkur að verja hagsmuni feli það í sér einhverja andúð á útlendingum, það er auðvitað algjörlega óboðleg umræða. Ef þetta yrði stefnan, ef þetta yrði ríkjandi viðhorf, sem maður óttast að geti orðið, verður litlum vörnum við komið vegna þess að aðrar þjóðir munu áfram verja sína hagsmuni og eru ósmeykar við það.

Í tilviki Evrópusambandsins, eins og ég ræddi áðan, er það tollabandalag sem leggur tolla og gjöld á vörur langt umfram það sem Íslendingar gera. Það tel ég ekki vera runnið undan rifjum einhverra sem hafi óbeit á öðrum Evrópubúum, enda er ég ekki hallur undir popúlisma eins og þann sem við höfum hlýtt á í ræðunum á undan. Það er eðlilegt að þjóðir verja hagsmuni sína og þess vegna þurfum við Íslendingar að gera það líka. Íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir því að vera í vörn, að honum er sótt úr ólíkum áttum, hvort sem það er vegna breyttra aðstæðna eða til að mynda vegna tollasamningsins sem ég nefndi áðan. Ég veit ekki hvort það var viljandi gert eða hvort hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé þekkti málið einfaldlega ekki, það hefur samt verið talsverð umræða um það í fjölmiðlum, að sá tollasamningur var ekki afgreiddur í ríkisstjórn á sínum tíma áður en hann var samþykktur. (Gripið fram í.) Hann var samþykktur af þáverandi landbúnaðarráðherra sem tilkynnti um málið í kvöldfréttum og þar heyrðu aðrir ráðherrar fyrst af þeim samningi, samningi sem hefur reynst okkur einstaklega óhagfelldur, enda er gert ráð fyrir að skipta þar á kílói á móti kílói, annars vegar 300.000 manna þjóðin og hins vegar 500 milljóna manna markaðurinn. Þar af leiðandi er eðlilegt að endurskoða þann samning.

Þó að ég eigi ekki nema innan við tvær mínútur eftir verð ég líka að nefna það sem kom fram áðan í umræðunni sem er svolítið í ætt við fullyrðingar um að þeir sem vilja verja íslenska hagsmuni séu á móti útlendingum, sem er þráhyggja sumra þingmanna varðandi EES-samninginn og að varla megi tala um hugsanlega galla á því samstarfi þó að það sé með það að markmiði að bæta samstarfið. Þannig var það nefnt í ræðu áðan sem sérstakt fagnaðarefni að íslenskir aðilar hefðu beitt þeim samningi til að krefjast bóta frá ríkinu, bóta sem námu meira en 3 milljörðum kr. Þetta voru ekki hvað síst íslenskir heildsalar. Hvernig var þessi upphæð fundin? Það skyldi þó ekki vera að menn hafi komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri sú upphæð sem þeir aðilar hefðu haft tækifæri til að ná, hagnaður sem þeir hefðu orðið af vegna þess að ekki hafi verið búið að innleiða það frumvarp sem við ræðum núna? Hvaðan hefði sá ávinningur komið? Frá íslenskum bændum, frá íslenskum matvælaframleiðendum. Við skulum forðast popúlískar upphrópanir, eins og við höfum heyrt frá fyrri ræðumönnum, og leyfa okkur að tala um mikilvægi þess að verja íslenska hagsmuni. Það gera aðrar þjóðir svo sannarlega og gera ráð fyrir að Íslendingar hljóti að gera slíkt hið sama fyrir sínar atvinnugreinar.[18:28]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að reyna að gera það ljóst hvers vegna fólk fær það á tilfinninguna að hv. þingmaður og flokkur hans líti svo á að þetta sé alltaf Ísland á móti einhverjum útlendingum. Ástæðan er einföld. Hv. þingmaður talar þannig. Hann setur samasemmerki á milli þess að nálgast málin frá sinni hlið og þess að verja íslenska hagsmuni.

Ég stóð hér í pontu og var að tala fyrir íslenskum hagsmunum en vegna þess að hv. þingmaður lítur ekki þannig á er hann svo fljótur að setja í sinn eigin vasa íslenska hagsmuni, eins og Ísland sé einhvern veginn hluti af hans sýn á EES-samstarfið og hans sýn á það hvernig alþjóðaviðskipti eiga að virka þegar það er einfaldlega ekki tilfellið. Hv. þingmaður viðurkennir á sama tíma og veit að það voru íslenskir aðilar og Íslendingar hverra réttindi voru brotin og varin af Hæstarétti og EFTA, en hann lætur eins og það séu íslenskir hagsmunir sem ekki séu varðir. Það er þessi tilhneiging til að setja alltaf hlutina upp góði kallinn andspænis vonda kallinum. Góði kallinn er auðvitað alltaf ég eða við, alltaf 1. persóna. Vondi kallinn er alltaf 2. persóna í eintölu eða fleirtölu. Þetta er ofureinföldun og ég veit að hv. þingmaður myndi aldrei taka undir slíka heimssýn. Hv. þingmaður talar samt þannig þegar hann lætur alltaf eins og hans nálgun sé íslensku hagsmunirnir en það að tryggja frjáls viðskipti milli landa, með þeim kostum og göllum sem samningum fylgja, sé einhvern veginn öndvert íslenskum hagsmunum.

Þetta er ástæðan fyrir því að fólk fær á tilfinninguna að hv. þingmaður og hans flokkur láti alltaf eins og útlendingar séu að reyna að grípa Ísland og taka það yfir eða ganga á hagsmuni Íslands þegar það er ekki tilfellið, eins og að við hér sem höfum talað líka séum ekki að verja hagsmuni Íslands. Þetta hljómar eins og útlendingafóbía. Þetta hljómar þannig. Hv. þingmaður mun koma hingað upp og segja að svo sé ekki. Gott og vel, en það hljómar þannig. Ég vona að hv. þingmaður skilji það.[18:30]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki mikið gert að því hvernig hlutirnir hljóma í höfði hv. þingmanns. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður leggur greinilega sinn skilning í lífið og tilveruna og það sem hann heyrir en hann getur ekki ætlast til þess að allir aðrir lagi sig að hugarheimi hans og tipli á tánum svoleiðis að hann fái ekki einhvern undarlegan skilning á því sem menn eru að segja. Hv. þingmaður kom hingað og sagðist vera að gæta hagsmuna Íslands eins og hann telur að þeir séu best varðir. Ekki dettur mér í hug að saka hv. þingmann um að vera andstæðingur útlendinga þó að hann komi hingað og viðurkenni að hann vilji gæta hagsmuna Íslands. Getum við þá ekki verið sammála um að við séum ekki sammála um hvernig það verði best gert? Það sem ég hef verið að benda á hér er að allar þjóðir, m.a. í viðskiptasamböndum, verja hagsmuni sína og við eigum ekkert að vera feimin við að segja að við viljum gera það líka. Allar þjóðir verja meira og minna sína atvinnuvegi og við eigum ekki að vera feimin við að segja að við viljum verja íslenska atvinnuvegi. Í því felst ekki að menn séu á móti viðskiptum milli þjóða.

Hv. þingmaður nefndi frjáls viðskipti. Viðskipti eru reyndar ekkert almennt alveg frjáls á milli ríkja en menn semja sín á milli og annar aðilinn gefur eitthvað og hinn annað á móti. Viðskipti hafa reyndar ekki verið eins frjáls og þau voru árið 1913 þegar frelsi í viðskiptum milli landa náði hámarki. Þau hafa aldrei náð sama stigi og þá, en menn gera samninga og Ísland hefur gert fleiri samninga en líklega nokkurt annað land og er með frjálsari viðskipti við önnur lönd en flest önnur ríki, miklu frjálsari viðskipti en til að mynda Evrópusambandið. En við hljótum engu að síður að vilja (Forseti hringir.) verja þá hagsmuni sem við teljum að þeir samningar tryggi okkur og það var afstaða Íslands, íslenska ríkisins, að okkur bæri ekki að innleiða þau lög sem ríkisstjórnin er nú að reyna að koma í gegnum þingið.[18:32]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst hv. þingmaður bara undirstrika punkt minn. Það er engin feimni við það hér að segja að við eigum að verja hagsmuni Íslands. Það hefur enginn komið og mótmælt því. Það hefur enginn einu sinni mótmælt því að við segjum hátt og snjallt að við séum hingað komin til að þjóna og verja hagsmuni Íslands. Við erum öll komin til að gera það. Það er óumdeilt, það þarf ekki að taka debatt um það. Það er ljóst. En þegar hv. þingmaður setur sína afstöðu upp sem hagsmuni Íslands og aðra afstöðu sem eitthvað annað en hagsmuni Íslands þá hljómar það eins og hv. þingmaður líti svo á að hagsmunagæsla Íslands felist í ævarandi togstreitu milli þess að við fáum það sem við viljum og að aðrir fái það sem þeir vilja og að ekki sé hægt að vera í samstarfi við aðrar þjóðir, með þeim kostum og göllum sem fylgja öllum samningum, án þess að það sé einhvers konar yfirgangur af hálfu útlendinganna, ESB og EES á ég við, gagnvart Íslandi. Það er hvernig hv. þingmaður setur málið upp sem lætur það hljóma svona.

Ég skal verja hagsmuni Íslands og segi það hér hátt og snjallt og ég skal segja við hv. þingmann: Það hefur aldrei nokkurn tímann neinn vænt mig um að vera hræddur við útlendinga, aldrei nokkurn tíma. Ég á ekki við það vandamál að stríða. Af hverju ekki? Vegna þess að ég set hagsmuni Íslands ekki upp sem öndverða hagsmunum útlendinga eins og hv. þingmaður gerir hér ítrekað. Það eru hagsmunir Íslendinga að fá að flytja inn frosið kjöt. Það eru ekkert sjálfkrafa hagsmunir Íslendinga að mega það ekki.

Ég er að vona að þetta verði skýrt. Íslendingar eru ekki einhver sameinaður kjarni sem hafa allir nákvæmlega sömu hagsmuni og ekki útlendingar heldur. Ég get bara endurtekið mig og ætla að sleppa því, virðulegi forseti, og spara tímann, ég vona að þetta fari einhvern tímann að vera skýrt.

Hv. þingmaður, ég verð bara að segja: Ég á ekki við þau vandamál að stríða að það sé alltaf verið að misskilja mig eins og ég sé einhvern veginn rosalega hræddur við útlendinga. Ég hef aldrei átt við vandamál að stríða. Ég velti fyrir mér, virðulegur forseti, með hliðsjón af því að hér kem ég til að verja hagsmuni Íslands, hátt og snjallt: Hvers vegna ekki?[18:35]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg undrandi á því hvað hv. þingmaður er hræddur við útlendinga. (Gripið fram í.) Nú er einhver búinn að segja það. Er það þá orðinn sannleikur? Þetta eru náttúrlega eintóm dellurök sem hér eru fram færð. Það að menn verji hagsmuni sína í viðskiptum og að hagsmunir fara ekki endilega alltaf saman þýðir ekki að menn séu á móti viðskiptum við útlönd eða á móti útlendingum yfir höfuð. Hv. þingmaður nefndi áðan að í ljósi þess að Hæstiréttur hefði dæmt íslenskum aðilum í vil og þeir fengju þessa 3 milljarða eða hvað það nú er í skaðabætur væri verið að verja íslenska hagsmuni. Gott og vel, ákveðna íslenska hagsmuni. (Gripið fram í: Já.) Ég hugsa reyndar að hv. þingmaður og félagar hans og margir í öðrum flokkum, a.m.k. stjórnarandstöðunnar, myndu kalla það sérhagsmuni, íslenska sérhagsmuni. Hverjir eru það sem fengu þessar bætur? Eru það ekki fyrst og fremst íslenskir heildsalar? Ef ég þarf að velja á milli þess sem stjórnmálamaður að verja annaðhvort hagsmuni — það er ekki, eins og hv. þingmaður virðist halda, að hagsmunir allra fari alltaf saman — (Gripið fram í.) ef ég þarf að verja annaðhvort fyrst og fremst hagsmuni íslenskra heildsala eða fyrst og fremst hagsmuni íslenskra bænda og landbúnaðarframleiðenda og matvælaframleiðenda tel ég mikilvægara fyrir samfélagið að leggja áherslu á að verja hagsmuni bænda en að verja hagsmuni heildsala og fagna því sérstaklega að það hafi verið íslenskir heildsalar sem hafi fengið bætur á grundvelli EES-samningsins. Fyrir hvað? Fyrir að hafa ekki fengið að hagnast nógu mikið með því að ganga á íslenska matvælaframleiðslu. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Það hlýtur að vera augljóst að jafnvel þó að menn geti almennt tekið undir það og fallist á það, líklega allir á Alþingi, að viðskipti séu almennt af hinu góða verði menn að verja hagsmuni sína þegar kemur að því að gera samninga (Forseti hringir.) og að hagsmunir fara ekki endilega alltaf saman í öllum málum en þá leita menn leiða til þess að komast að niðurstöðu sem allir aðilar geta vel við unað.