150. löggjafarþing — 5. fundur
 16. september 2019.
útboð á sjúkraþjálfun.

[15:02]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. 2017 voru gerðar breytingar á greiðsluþátttöku læknisþjónustu þannig að eldri borgarar og öryrkjar greiddu aldrei meira en 49.300 kr. á ári fyrir þá þjónustu og börn yngri en 18 ára borga ekkert. Sjúkraþjálfun var með þeirri aðgerð gerð aðgengileg fyrir alla. Þetta var frábært framtak og gaf veiku fólki sem hafði ekki efni á sjúkraþjálfun tækifæri til að fá þá þjónustu, langþráða þjónustu sem hefur gríðarleg áhrif og hefur stórfækkað nýgengi öryrkja, sérstaklega dró úr fjölgun ungs fólks inn í örorkukerfið.

Það hafði einnig góð áhrif á útstreymi af sjúkrastofnunum eftir aðgerðir, t.d. átak við að fækka veiku fólki á biðlistum, hafði einnig áhrif á líkamlegt ástand þeirra sem eru á endalausum biðlistum eftir aðgerðum. Ég væri ekki í þessum ræðustól ef ég hefði ekki aðgang að sjúkraþjálfun. Það er staðreynd.

Útboð á rekstri sjúkraþjálfunar er lausn Sjúkratrygginga Íslands og í boði heilbrigðisráðherra. Nýtt kvótakerfi þar sem veiðikvótinn er veikt fólk sem þarf nauðsynlega á sjúkraþjálfun og halda, sjúklingar gerðir að söluvöru sem ganga kaupum og sölum á sjúkraþjálfunarkvótamarkaði. Er það eitthvað sem við viljum, að sjúklingar séu söluvara og að sá sem býður ódýrt fái pakkann óháð gæðum? Gæðum er fórnað fyrir hagkvæmni og afleiðingarnar verða ekki góðar.

Það sem gleymist í því útboði er við áttum okkur á því hvernig þetta útboð á að fara fram. Sjúkraþjálfarar fá engar upplýsingar um það. Er höfuðborgarsvæðið eitt svæði? Verða hreppaflutningar ef öll útboð í sjúkraþjálfun verða boðin út í Reykjavík? Þurfa þá Hafnfirðingar, Mosfellsbæingar, Kópavogsbúar, allir að fara til Reykjavíkur til að fara í sjúkraþjálfun? Hvernig á að taka á þeim gífurlegu biðlistum sem eru nú þegar eftir sjúkraþjálfun? Hvaða áhrif mun það hafa á kerfið sem er nú þegar komið að þolmörkum?

Við vitum hvernig ástandið er á bráðamóttöku. Við vitum hvernig ástandið er á sjúkrahúsunum og ég spyr ráðherra: Á núna loks þegar sjúkraþjálfunarkerfið er komið í almennilegt ástand að rústa því?



[15:05]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Við höfum áður skipst á skoðunum um mikilvægi sjúkraþjálfunar og deilum þeirri skoðun að um gríðarlega mikilvægan þátt í íslenskri heilbrigðisþjónustu sé að ræða, ekki síður að því er varðar almennt stoðkerfisvandamál, möguleg tengsl við að draga úr nýgengi örorku, sem við höfum líka rætt, og ég tala nú ekki um samspil við neyslu verkjalyfja.

Ég vil hins vegar geta þess í þessari umræðu að við sem önnumst um kaup á heilbrigðisþjónustu í gegnum Sjúkratryggingar Íslands vinnum samkvæmt lögum. Þar erum við að tala um lög um Sjúkratryggingar Íslands, fjárlög og lög um opinber innkaup. Okkur eru því reistar töluverðar skorður þegar um er að ræða þjónustu sem fer umtalsvert fram úr því sem liðurinn hefur á fjárlögum.

Ég vil þess vegna segja að öllum má vera ljóst sem veita þjónustu á grundvelli slíkra samninga að þeir samningar eru gerðir á grundvelli laga sem eru samþykkt á Alþingi. Ég vil líka segja við hv. þingmann að það er rangt í málflutningi hans að til standi að kaupa bara magn sjúkraþjálfunar en ekki gæði hennar. Í útboðsgögnum og öllu sem lagt er til grundvallar í þeim efnum er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að um sé að ræða gæði og öryggi en ekki síst aðgengi þjónustunnar sem er það sem hv. þingmaður hefur líka áhyggjur af ef marka má orð hans varðandi aðgengi óháð búsetu.

Ég vil fullvissa hv. þingmann um að markmið okkar er að halda fjárlög, byggja á annarri löggjöf sem er í gildi í landinu og veita sem besta mögulegu þjónustu á sem hagkvæmastan hátt.



[15:07]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en hún svaraði því samt ekki hvernig kvótaskiptingin á að vera. Hvernig ætlar hún að tryggja að það verði sjúkraþjálfun á öllu höfuðborgarsvæðinu, í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ? Hvernig ætlar hún að tryggja að það verði ekki bara þeir sem bjóða ódýrast hvernig gæðin verða?

Síðan er annað grafalvarlegt. Sjúkraþjálfarar fengu ekki nema örfáar vikur, fjórar eða fimm, til að svara þessu og það á að vera búið að skila inn fyrir 1. október, eftir hálfan mánuð. Af hverju gefum við þeim ekki lengri tíma til að setjast niður með ráðherra og fá svör? Þeir eru ítrekað búnir að biðja um svör frá Sjúkratryggingum Íslands, en fá engin svör, ekki eitt einasta tíst. Þeir eiga bara að gjöra svo vel að rjúka í eitthvert útboð sem þeir átta sig ekki á nokkurn hátt á hvernig eigi að fara fram.



[15:08]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í mínu fyrra svari er í þessum útboðsskilmálum kveðið á um gæði, öryggi og aðgengi þjónustunnar. Það er auðvitað markmiðið að þjónustan sé eins góð og hægt er og að verið sé að veita þjónustuna þeim sem mest þurfa á henni að halda. Það verðum við að gera í allri heilbrigðisþjónustu. Það er auðvitað þeirra, hvort sem er hjá opinberum stofnunum eða þeim sem veita þjónustuna eftir öðrum leiðum, að tryggja að svo sé. Þegar Sjúkratryggingum Íslands er falið að ganga til samninga á grundvelli útboðs eru þeir samningar þannig hugsaðir að gætt sé að þessum þáttum. Um leið getur þjónustan ekki kostað meira en sem nemur þeim lið sem Alþingi hefur ákveðið á fjárlögum.