150. löggjafarþing — 5. fundur.
þverpólitískt samstarf í samgöngumálum.

[15:26]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar segir, með leyfi forseta:

„Allar áætlanir sem eiga að halda til lengri framtíðar þarf að gera í auknu samráði og með bættum samskiptum. Efla þarf samstarf milli flokka á Alþingi, styrkja sjálfstæði þingsins, umbúnað þess, faglegan stuðning og stöðu.“

Nú er hér í samfélaginu til umræðu risavaxið fjárfestingarátak í innviðum höfuðborgarsvæðisins, fjárfestingarátak upp á rúma 100 milljarða, að sagt er, átak sem felur í sér, að sagt er, 6 milljarða viðbótargjaldtöku á íbúa höfuðborgarsvæðisins fyrir notkun á vegakerfi höfuðborgarsvæðisins, að sagt er, því að þetta átak hefur ekki fengið neina opinbera kynningu.

Minni hlutinn er hér í á aðra viku að taka þátt í einhverri umræðu sem ekkert samráð hefur verið haft við minni hlutann um. Engin kynning fyrir minni hlutann hefur farið fram og það er vísað í kynningu fyrir sveitarstjórnarfulltrúa sömu flokka sem eru síðan bundnir trúnaði um innihald þeirrar kynningar. Er þetta dæmi um aukið samstarf og vandaðri vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar þegar ráðist er í verkefni sem lengi eiga að standa? Því að ég geri ráð fyrir því að liðlega 100 milljarða innviðaátak, að sagt er, hér á höfuðborgarsvæðinu, eigi að standa til nokkuð langs tíma.

Þessari ríkisstjórn verður tíðrætt um þverpólitískt samstarf en það verður auðvitað að gera þá kröfu að þegar hafa skal þverpólitískt samráð nái það samráð út fyrir raðir stjórnarflokkanna sjálfra.



[15:28]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Fyrst vil ég segja, af því að hv. þingmaður ræðir almennt um þverpólitískt samstarf, að ég er ekki í nokkrum vafa um að það hefur verið meira á þessu kjörtímabili en allan minn tíma á þingi sem er orðinn alllangur, 12 ár. Síðast í morgun var verið að kynna niðurstöður þverpólitísks hóps þar sem sátu bæði fulltrúar meiri hluta og minni hluta ásamt sérfræðingum um svokölluð velsældarmarkmið sem ég vona svo sannarlega að verði nýtt, ekki bara af minni ríkisstjórn heldur ríkisstjórnum framtíðar, við stefnumótun á vegum hins opinbera þar sem við horfum til miklu breiðari og fjölþættari mælikvarða en við höfum verið að gera hingað til þar sem við hverfum frá hinni einföldu mælingu um þjóðarframleiðslu, sem vissulega verður áfram mikilvæg, en horfum líka til efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta. Þetta er gott dæmi um þverpólitískt samstarf sem ég er mjög ánægð með og ég gæti nefnt mörg fleiri í þessum þingsal því að, eins og ég segi hér og stend við, hefur ekki verið meira um svona samstarf frá því að ég byrjaði á þingi.

Það sem hv. þingmaður vísar til tengist, alveg hárrétt, framkvæmdum í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins sem hafa ekki verið kynntar enn þá. Það er alveg rétt og kannski merkilegast að fylgjast með fréttaflutningi af einhverju sem ekki hefur verið kynnt enn þá. Ég hef fulla samúð með hv. þingmanni, og hv. þingmönnum stjórnarliðsins líka, því að það er í raun og veru óðs manns æði að tjá sig um eitthvað sem ekki er búið að kynna og ekki búið að taka endanlega ákvörðun um.

Ég finn til með hv. þingmanni og skil sársaukann. Þær áætlanir sem hafa verið til umræðu, vissulega á milli stjórnvalda og sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu, byggja hins vegar á því sem fram kom í nefndaráliti samgöngunefndar þegar samgönguáætlun var afgreidd fyrr á þessu ári þar sem sérstaklega var rætt um að byggja þyrfti á þeirri forgangsröðun sem unnin hefur verið fyrir höfuðborgarsvæðið þegar kemur að stofnframkvæmdum annars vegar og uppbyggingu almenningssamgangna hins vegar og rétt sé að skoða leiðir til að skoða breytta gjaldtöku á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta hefur verið til umræðu. (Forseti hringir.) Útfærsluna þarf að sjálfsögðu að kynna, ég tek undir með hv. þingmanni með það, en það er vissulega erfitt þegar málið er í raun og veru enn í vinnslu.



[15:30]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið og samkenndina. Það er vissulega erfitt að standa hér í myrkrinu. Þetta mál virðist samt hafa verið talsvert rætt og kynnt innan raða stjórnarflokkanna. Maður finnur það áþreifanlega að þegar maður mætir í umræðu um þetta mál eru fulltrúar stjórnarflokkanna einmitt ágætlega upplýstir um smáatriði þessa máls á meðan minni hlutinn hefur ekki fengið minnstu kynningu á því. Þetta er mikilvægt og veigamikið mál þar sem verið er að tala um 6 milljarða, að sögn, viðbótarálögur á íbúa höfuðborgarsvæðisins á ári hverju. Það er jafn mikið og öll þjóðin greiðir árlega í kolefnisgjöld, svo að dæmi sé tekið. Slík áform hljóta að krefjast víðtækara samráðs og kynningar en hér er á ferðinni og ég vona að áður en við sjáum einhver frumvörp koma fram um þetta mál sé þessi ríkisstjórn tilbúin að setjast niður og ræða þessi mál á breiðari grunni. Í hinu þverpólitíska samráði innan raða ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) virðist enda ekki vera neitt samkomulag um málið. Þá væri kannski ráð, áður en farið er lengra með málið, að taka það upp á yfirborðið og ræða það.



[15:32]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að þetta er stórmál og tengist ekki bara samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu heldur þeim orkuskiptum í samgöngum sem við erum búin að ákveða að ráðast í. Þau munu hafa áhrif á gjaldtöku af samgöngum. Það finnst mér vera stóra málið í allri þessari umræðu, sem hefur auðvitað verið dálítið út og suður, viðurkenni ég, og ég hef fylgst með henni svona eins og spennuþætti undanfarna daga.

Við þurfum að horfast í augu við það að ef við erum að fara í orkuskipti í samgöngum, sem er gríðarstórt loftslagsmál og líka gríðarstórt efnahagsmál, þurfum við að endurskoða hvernig við ætlum að setja gjöld á umferð. Það er mjög mikilvægt, að sjálfsögðu, eins og hv. þingmaður segir, að áður en frumvarp um slíkt er lagt fram eða ákvarðanir um slíkt eru teknar verði umræða innan þingsins. En það er líka eðlilegt að meiri hluti hverju sinni undirbúi mál, það er líka hluti af eðlilegum vinnubrögðum þegar við erum með meirihlutaríkisstjórnir. Það höfum við verið að gera. Við höfum verið að undirbúa þetta mál, eiga um það virkt samtal við sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu, því að þetta varðar þær svo sannarlega, (Forseti hringir.) en í þeim anda sem kveðið er á um í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar um síðustu samgönguáætlun. En vissulega þarf málið að fá sína eðlilegu umræðu á vettvangi þingsins.