150. löggjafarþing — 6. fundur
 17. september 2019.
störf þingsins.

[13:46]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag hefst í Hörpu þriggja daga alþjóðleg ráðstefna um #metoo undir yfirskriftinni „Moving Forward“ eða #églíka: Höldum áfram. Yfir 800 manns eru skráð til þátttöku og um 80 fyrirlesarar úr röðum fræðafólks, aktívista, stjórnmálamanna og sérfræðinga. Nú eru tvö ár frá því að byltingin hófst á samfélagsmiðlum þegar konur um allan heim greindu frá kynbundnu og kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem fólk hafði löngum leitt hjá sér, hunsað eða þaggað niður. Á Íslandi birtu konur í stjórnmálum áskorun til stjórnmálanna undir yfirskriftinni #ískuggavaldsins og í kjölfarið létu hinir ýmsu hópar kvenna í sér heyra. Þar afhjúpaðist kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi í öllum starfsstéttum, öllum aldurshópum og öllum landshlutum. Það er sannkallað þjóðfélagsmein.

Samkvæmt nýlegri rannsókn hefur ýmislegt breyst en margt er óunnið. Fyrirtæki hafa sett stefnu um að áreitni og einelti sé ekki liðið og verkferlar hafa verið skýrðir svo markvisst megi taka á málum. Á vinnustöðum hefur verið leitað til fagfólks, kannanir gerðar og haldin námskeið. Stjórnmálaflokkarnir settu á laggirnar samstarfsvettvang og hafa haldið fræðsluerindi og sameiginlega ráðstefnu.

Umræðan um kynferðislega áreitni og ofbeldi er opnari og frásögnum er frekar trúað. Nýjasta dæmið er tilkynning frá þjóðkirkjunni um bætta málsmeðferð slíkra mála og stöðu með þolendum. Á meðan umræðunni er haldið á lofti, og það verðum við að gera, er það ekki einungis hvatning um að koma fram og skila skömminni heldur um að bæta stöðugt vinnubrögð við úrlausn mála og setja og skýra viðmið í samskiptum.

Tilgangur umræðunnar er að halda áfram að breyta samfélagi og fækka gerendum sem virða ekki mörk.



[13:48]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Fyrir skömmu birti Hagstofa Íslands ágæta greiningu á störfum á vinnumarkaði og hvernig þróunin hefur verið þar á undanförnum árum. Hið jákvæða í þessari greiningu, þrátt fyrir að við séum tímabundið að glíma við samdrátt á vinnumarkaði þessi dægrin, er að frá því á hrunári, 2008, hefur störfum á vinnumarkaði fjölgað um 30.000. Auðvitað endurspeglar það þann þrótt sem verið hefur í hagkerfinu á þessum tíma.

Það sem veldur mér hins vegar miklum áhyggjum er að á sama tíma hefur fjöldi starfa í hugverkagreinum staðið algjörlega í stað. Þetta eru atvinnugreinarnar sem við tölum fjálglega um í þessum sal að eigi að bera uppi framtíðina fyrir okkur. Við tölum reglubundið um fjórðu iðnbyltinguna og öll þau tækifæri sem í henni felast en á rúmum áratug hefur ekkert gerst í þessum geira hjá okkur. Þess sjást líka merki þegar við horfum á útflutningstekjur hugverkagreina. Þær hafa að sama skapi meira og minna staðið í stað í rúman áratug.

Það er alveg ljóst hvert vandamálið er, það er sá óstöðugleiki sem íslenska krónan skapar þessum atvinnugreinum. Við ættum kannski að hlusta á greinina sjálfa, m.a. góðan forvígismann úr hópi þessara fyrirtækja, Hjálmar Gíslason, sem talaði um það á morgunverðarfundi í vor á vegum Viðskiptaráðs að við ættum kannski að hætta að ritskoða sjálf okkar þegar við tölum um samkeppnisstöðu og rekstrarskilyrði sem krónan skapi íslensku atvinnulífi — og atvinnulífið kannski sérstaklega. Þar horfir maður sérstaklega til hagsmunasamtaka í atvinnulífinu sem ég myndi segja að vegna mikilla áhrifa sjávarútvegs og annarra greina sem eru andvíg upptöku nothæfs gjaldmiðils hér á landi hefðu algjörlega þagnað um þetta mikilvæga mál.

Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir ríkisstjórn, þingheim og efnahagslífið í heild þegar jafn mikilvæg atvinnugrein hefur algjörlega staðnað í röskan áratug. Þetta er týndur áratugur hugverkagreinanna (Forseti hringir.) og ég held að við hljótum að þurfa að skoða vandlega hvað veldur.



[13:50]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti leyfir sér að grípa inn í umræðuna og upplýsa að áður fyrirhuguðum fundi um samgöngumál með þingmönnum höfuðborgarsvæðisins hefur nú verið frestað um ótilgreindan tíma fyrst um sinn meðan leitað verður að öðrum og heppilegri tíma. Geta þá allir tekið gleði sína.



[13:51]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Í gær var kynnt skýrsla um efnahagsmál á Íslandi sem OECD skilaði. Þar kennir ýmissa grasa en mig langar til að gera sérstaklega að umræðuefni það sem sagt er um opinbera innviði og opinberar fjárfestingar. Þar er á það bent að nauðsynlegt sé að beita mun ákveðnari vinnubrögðum þegar ákvarðanir eru teknar um opinberar fjárfestingar, hvernig þeim er fylgt eftir, hvernig eftirliti með þeim er háttað og tryggt sé að þær skili tilætluðum árangri. Sérstaklega eru nefnd til sögunnar tvö dæmi, annars vegar Vaðlaheiðargöng og hins vegar yfirstandandi bygging, endurnýjun Landspítalans.

Ég nefni þetta vegna þess að Alþingi samþykkti í apríl árið 2018 gagnmerka þingsályktunartillögu sem fjallaði einmitt um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Þar er gert ráð fyrir því að fjármálaráðherra skili tillögum um það hvernig betur megi standa sig fyrir 1. nóvember árið 2018. Það er sem sagt að verða ár síðan eindagi þessa máls rann út. Ég hef ekki orðið var við að neinni vinnu hafi verið skilað, nein nefnd sett í gang. Ég tel þetta grafalvarlegt vegna þess að hér er eftir mjög miklu að slægjast. Við erum e.t.v. að hefja mikið framkvæmdatímabil. Þess þarf í það minnsta. Við erum að ræða um stórar samgönguumbætur víða um land og þá er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að í gangi sé regluverk sem tryggi sem besta nýtingu fjármuna. Það regluverk er ekki til í dag.



[13:53]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ræddi í fyrirspurnatíma í gær við hæstv. heilbrigðisráðherra um vanda á bráðamóttöku Landspítalans. Það er ljóst í huga ráðherrans og okkar allra að þar er ærinn vandi, mikil þrengsli og skortur bæði á fólki og tíma. Það liggur fyrir að það tekur tíma að ljúka byggingu nýs sjúkrahúss sem mun í framtíðinni tryggja eðlilegra flæði sjúklinga en nú standa u.þ.b. 40 auð rými á Landspítalanum, aðallega vegna skorts á hjúkrunarfræðingum.

Virðulegur forseti. Í bráð getum við gert það meira aðlaðandi að sinna störfum í heilbrigðisþjónustunni. Það er okkar verkefni núna að bregðast skjótt við, stytta móttökutíma bráðamóttökunnar úr 22 klukkustundum í það sem algengt er erlendis, í 6–8 klukkustundir, en til þess þarf starfsfólk. Það þarf að bæta aðstöðuna eins og hægt er og fjölga starfsmönnum. Okkur vantar tugi, jafnvel 100 hjúkrunarfræðinga, til starfa til að gera þetta bærilegt þar til aðstaðan verður að fullu bætt. Við þurfum að kalla til þá hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða sem hafa horfið til annarra starfa og það gerum við aðeins með því að gera starfsumhverfið og launin meira aðlaðandi en þau hafa verið. Þetta þolir enga bið. Skórinn kreppir víða í rekstri í heilbrigðiskerfinu þrátt fyrir að við höfum spýtt inn milljörðum eftir milljarða ár eftir ár. Nú er bráðavandi á bráðamóttökunni og hann þarf að leysa strax. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:55]
Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Undanfarna daga og vikur hefur embætti ríkislögreglustjóra mikið verið í umræðunni og sitt sýnist hverjum. Það er mikilvægt að skoða málið frá öllum hliðum með það að markmiði að skapa traust innan lögreglunnar og umdæma hennar. Umdæmi lögreglunnar eru níu á landsvísu. Umdæmin eru fjölbreytt hvað stærð og íbúafjölda varðar. Sem dæmi má nefna að umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra eru 23.300 km² með liðlega 30.000 íbúa. Eðlilega starfa flestir lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu þar sem flestir íbúar landsins búa en á móti kemur að landsvæðið er ekki stórt miðað við stærð landsbyggðarumdæmanna. Starf lögreglumanna úti á landi er töluvert frábrugðið því starfi sem lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu sinna. Að þeirra sögn skortir verulega á skilning ríkislögreglustjóra á þeim fjölbreytileika sem starfið hefur upp á að bjóða hverju sinni. Eins og einn ágætur lögreglumaður sagði, með leyfi forseta: Bossinn horfir bara á tölfræði.

Notkun ökutækja er einn af lykilþáttum í framkvæmd löggæslu úti á landi. Þegar vel er að gáð er óhætt að segja að þau mál sé vert að endurskoða. Því hefur dómsmálaráðuneytið ákveðið að leggja niður bílamiðstöð ríkislögreglustjóra í núverandi mynd. Skipaður hefur verið starfshópur sem á að skoða framtíðarmöguleika í bílamálum lögregluembættanna um allt land. Ríkislögreglustjóri hefur rekið bílamiðstöð lögreglunnar og borið ábyrgð á rekstri, viðhaldi og endurnýjun allra ökutækja lögreglu ásamt öllum búnaði en lögregluembættin hafa leigt bílana af ríkislögreglustjóra.

Virðulegi forseti. Nú legg ég traust mitt á dómsmálaráðherra. Endurskoðunar er þörf.



[13:58]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hagsæld og lífsgæði á Íslandi eru mikil og það kemur skýrt fram í öllum alþjóðlegum mælikvörðum. Það er þó þannig að lífsgæðum er misskipt hér eins og annars staðar í heiminum. Í gegnum tíðina höfum við einblínt á hagvöxt og verga landsframleiðslu sem mælikvarða á gangverk þjóðfélaga. Þrátt fyrir mikilvægi þessara mælikvarða er einsýnt að hagsæld og lífsgæði verði ekki eingöngu mæld með þeim. Það eru nefnilega aðrir þættir sem hafa áhrif á daglegt líf fólks eins og heilsa, húsnæði, atvinna, menntun, tekjur, gæði lofts og gæði vatns, svo eitthvað sé nefnt.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var kveðið á um að setja á fót þverpólitískan hóp um þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði. Það ætti svo að auðvelda stjórnvöldum að fylgjast með þróuninni og breytingum í samfélaginu og styðja við stefnumótun og ákvörðunartöku. Ég tók þátt í þeirri vinnu og hópurinn hefur nú skilað af sér skýrslu sem m.a. var kynnt á fundi í gær. Við vonum að skýrslan nýtist við frekari þróun á mælikvörðunum og höfum sett upp eins konar mælaborð þar sem eru 39 mælikvarðar í þremur flokkum, þ.e. félagslegum, efnahagslegum og umhverfislegum þáttum.

Við könnuðum m.a. hug almennings til þátta sem skipta máli varðandi eigin lífsgæði svo og hvað einkennir gott samfélag. Við báðum þeim spurningum kom heilsa í fyrsta sætið en einnig voru ofarlega samskipti, húsnæði, menntun og afkoma. Sums staðar skortir okkur tilfinnanlega mælikvarða og er það sérstaklega í umhverfisvíddinni.

En vegna þess að heilbrigðismál hafa mikið verið til umræðu þá langar mig að nefna eitt dæmi sem sló mig í þeirri vinnu. Það er að þrátt fyrir að konur geti vænst þess að lifa lengur á Íslandi en karlar þá geta karlar vænst þess að eiga fleiri ár við góða heilsu. Samkvæmt nýjustu mælingum á lífslíkum við góða heilsu frá árinu 2015 geta konur fæddar það ár vænst þess að eiga 66,2 ár en karlar 71,5 ár (Forseti hringir.) við góða heilsu þótt að lífaldurinn segir til um annað. Þetta er eitt dæmi sem ætti að vekja okkur til umhugsunar um hvað það er sem við (Forseti hringir.) þurfum að gera í heilbrigðismálum til að bæta hag beggja kynjanna.



[14:00]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í fyrra bárust fréttir af því að vopnuðum útköllum sérsveitarinnar hefði fjölgað þannig að þau væru orðin þreföld. Það kom í kjölfar fyrirspurnar frá hv. þm. Smára McCarthy. Nýlegar fréttir hafa borist af ríkislögreglustjóra sem ég ætla ekki að tíunda hér enda nóg að tala um þar. Það er daglegt brauð að lögreglumenn hóti tilhæfulausum tilfærslum á fólki niður á stöð ef það samþykkir ekki líkamsleit og af og til berast fréttir af misnotkun viðkvæmra persónuupplýsinga sem væntanlega skánar þó með tímanum í kjölfar betri persónuverndarlöggjafar. Síðast en ekki síst benda skýrslur nefndar um eftirlit með lögreglu til þess að meira eftirlits sé þörf.

Lögreglumenn vilja njóta trausts, lögreglumenn vilja að ramminn sé skýr, lögreglumenn vilja að aðhald sé með störfum þeirra, í það minnsta þeir lögreglumenn sem ég hef talað við og meira að segja lögreglumenn sem hafa talað á þingi og skrifað greinar um það. Á sínum tíma lögðu Píratar fram þingsályktunartillögu um sjálfstætt eftirlit með störfum og starfsháttum lögreglu. Við biðum með að leggja það aftur fram þegar nefnd um eftirlit með störfum lögreglu var sett á fót vegna þess að við vildum sjá hvernig reynslan af þeirri nefnd yrði. Núna er sú reynsla komin, komnar tvær ársskýrslur, og við teljum ljóst af nýlegum fréttaflutningi sem og gömlum, sem og þeim skýrslum sem komu frá þeirri ágætu nefnd að þörf sé á sjálfstæðri stofnun til að hafa eftirlit með störfum og starfsháttum lögreglu.

Því munum við leggja málið aftur fram og höfum reyndar aftur lagt fram þessa þingsályktunartillögu sem ég vona að komist til umræðu hér á fimmtudaginn. Mig langaði að koma hingað upp og auglýsa þetta aðeins en líka til að undirstrika það alveg í byrjun að það er ekki áfellisdómur í sjálfu sér yfir lögreglumönnum. Lögreglumenn eru venjulegt fólk sem sinnir ákveðnu starfi með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir og það að hafa eftirlit með þeirri einu stofnun í landinu sem má beita líkamlegu valdi er spurning um hvernig við viljum hafa innviðina (Forseti hringir.) okkar, hvernig við viljum hafa rammann utan um þá mikilvægu stofnun sem lögreglan er.



[14:03]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir orð hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar áðan. Snemma árs fór fram í þingsal að minni beiðni sérstök umræða um bráðavanda Landspítala, sérstaklega vegna alvarlegrar stöðu á bráðadeild spítalans. Í umræðunni kom fram að gera átti stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma innan fárra mánaða sem átti að gjörbreyta stöðunni ásamt því að opnun sjúkrahótels átti einnig að létta á vandanum. Við þingmenn Miðflokksins greiddum ekki atkvæði með heilbrigðisstefnu hæstv. ráðherra sem samþykkt var á síðasta þingi þar sem stefnan hverfist að mestu leyti um starfsemi Landspítala, starfsemi sem nú virðist að einhverju leyti vera komin í öngstræti eins og fréttir undanfarið bera með sér. Talað hefur verið um að skipa þurfi stjórn yfir spítalanum og ég er því sammála. Ég segi líka að jafnvel þurfi að skipa neyðarstjórn. Það er spurning hvort rétt sé að hafa héraðssjúkrahús sem sinni 200.000 manns undir sama þaki og þjóðarsjúkrahús sem sinna á öllu landinu en fyrsta skrefið, það sem fyrst og fremst þarf að stíga, er að viðurkenna vandann og viðurkenna að aukið fjármagn til spítalans geri ekki mikið gagn á þessari stundu. Frekar ætti að auka fjármagn til annarra innan heilbrigðisþjónustunnar.



[14:04]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þegar núverandi ríkisstjórn er að spara í útgjöldum til heilbrigðiskerfisins, í kerfinu, með því t.d. að leggjast svo lágt að spara þvagleggi fyrir fólk í hjólastólum sem getur valdið þeim sýkingum, blóðeitrun og jafnvel nýrnabilun, er langt seilst. Það er viðvarandi alvarlegur lyfjaskortur og hallarekstur á Landspítalanum. Bráðadeildin er svo veik að hún er orðin gjörgæsluhæf með greiningu um að það geti brugðið til beggja vona um framhaldið.

Á sama tíma og sú grafalvarlega staða er uppi og niðurskurður í heilbrigðiskerfinu þenst báknið út. Eftirlitsstofnanir fara tífalt fram úr fjárlögum. Fjölmiðlanefnd var með 10 milljónir 2008, í fjárlögum 2018 með 56 milljónir. Frá 2018–2020 á hún að fara úr 56 milljónum í nær 500 milljónir. Frá 2010 hafa eftirlitsstofnanir hækkað um nær 9 milljarða eða úr 12 milljörðum í um 20 milljarða. Á sama tíma er ríkisstjórnin að setja sjúkraþjálfunarkerfið í uppnám vegna framúrkostnaðar sem er nauðsynlegur vegna þess að veikt fólk þarf á sjúkraþjálfun að halda. Athugið að á sama tíma og báknið þenst út um milljarða finnur núverandi ríkisstjórn nákvæmlega þá sem þarf að spara hjá, spara þvagleggi hjá fólki sem er í hjólastólum. Er hægt að leggjast lægra? Og ráðast á heilbrigðiskerfið, sjúkraþjálfun. Hvaða áhrif hefur það að ráðast á sjúkraþjálfunina? Jú, það mun hafa þau áhrif að það verða fleiri og fleiri sem þurfa að fara inn á sjúkrahúsin og stífla kerfið enn þá meira. Er það framtíðarsýn okkar?



[14:07]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég ætla að eiga orðastað við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson og vil byrja á því að þakka honum kærlega fyrir að verða við þeirri ósk minni. Hv. þingmaður ræddi um það í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra hve skynsemishyggja væri mikilvæg, ekki síst þegar kæmi að stjórnmálum, hve mikilvægt væri að við byggðum afstöðu okkar á vísindum. Nú hefur töluvert verið rætt um hlýnun jarðar, loftslagsvá, eða hvað við köllum það. Ansi hreint margir eru sammála í þeim efnum. Mig langar að nefna Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðaveðurfræðistofnunina, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, OECD, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna, Alþjóðabankann, Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, efnahags- og félagsmálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, stofnun ESB um veðurspár, Umhverfisstofnun Evrópusambandsins, Asíska fjárfestingarbankann, Englandsbanka, milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar, Veðurstofu Íslands. Þetta er engan veginn tæmandi listi en allar þessar stofnanir og vísindafólk hafa varað við hlýnun jarðar af mannavöldum og hvatt til þess að við bregðumst við.

Mig langar að spyrja hv. þingmann tveggja spurninga. Telur hv. þingmaður að hraðar loftslagsbreytingar af mannavöldum séu staðreynd eða er hann ósammála öllu ofangreindu vísindafólk? Hvað telur hv. þingmaður að eigi að gera til að sporna við umræddum loftslagsbreytingum, ef hann er þá sammála því að þær séu til staðar?



[14:09]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til að ræða þetta mikilvæga mál, eitt stærsta viðfangsefnið sem við stöndum frammi fyrir, ekki bara á Íslandi heldur í heiminum öllum, loftslagsbreytingar, umhverfismálin og hvernig við bregðumst best við þeim.

Svo ég vindi mér í að svara spurningum hv. þingmanns þá tel ég vissulega rétt að aukin losun gróðurhúsalofttegunda, koltvísýrings og annarra slíkra lofttegunda, hafi áhrif á loftslagið og ýti undir hlýnun jarðar. Þar sem við viljum helst hafa jörðina tiltölulega mikið eins og hún hefur verið á meðan við mannfólkið höfum dvalið þar þá viljum við stilla þeirri hlýnun í hóf.

Í öðru lagi tel ég, svo ég svari seinni spurningu hv. þingmanns, ákaflega mikilvægt að bregðast við af þeim sökum, en ítreka það sem ég hef sagt áður, að það verði ekki gert nema einmitt með því að byggja á staðreyndum og vísindum en ekki með sýndarmennsku. Það er það sem ég hef gert athugasemdir við í umhverfismálum og í loftslagsmálum ekki hvað síst, að mér finnst viðbrögðin byggjast allt of mikið á sýndarmennsku, aðgerðum sem eru ekki til þess fallnar að hafa raunveruleg áhrif. Ég nefni sem dæmi það sem virðist vera aðalviðbrögðin á Íslandi, að moka ofan í skurði, sem ég fæ ekki betur séð en að geti haft þveröfug áhrif með aukinni losun metans sem er 23 sinnum áhrifameiri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. Betra væri þá að rækta tré á þessum túnum. Allt snýst þetta um að aðgerðirnar séu til þess fallnar að virka og í samræmi við umfang vandans. Þess vegna var gaman að heyra hv. þingmann vísa t.d. í Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaveðurfræðistofnunina því að ég hef á undanförnum dögum tekið mjög undir áherslur framkvæmdastjóra Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar sem hefur einmitt verið að benda á þessa sömu hluti. (Forseti hringir.) Við verðum að nálgast þetta út frá vísindum og staðreyndum en ekki út frá ótta eða hræðsluáróðri.



[14:11]
Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Mig langar eiginlega að taka þátt í umræðunni sem var hér í gangi en ég ætla samt aðeins að ræða um störf þingsins. Á undanförnum árum hefur svokölluðum aukanefndum fjölgað mikið, bæði á vegum þingsins sem og ríkisstjórnarinnar sem þingmenn manna þó. Störf þessara nefnda eru mikilvæg leið fyrir þjóðkjörna fulltrúa til að koma að mikilvægri vinnu, stundum smáatriðavinnu sem annars yrði stundum ekki unnin eða stundum unnin með síður lýðræðislegum hætti. Þessari þróun fagna ég. Fjölgunin hefur skapað tímapressu á þingi sem er ekki stærra en þetta og ekki síst samkeppni um þá fáu tíma vikunnar sem falla ekki undir störf fastanefnda eða þingfundi. Við sáum dæmi um það bara rétt áðan.

Það er nauðsynlegt að þessar aukanefndir og alþjóðanefndir starfi en það er einnig nauðsynlegt að störf þeirra skarist ekki við önnur mikilvæg þingstörf. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé nauðsynlegt að búa til meira pláss og jafnvel fast pláss í dagskrá þingsins fyrir störf bæði aukanefnda og alþjóðanefnda en ekki bara að vona að þetta passi allt rétt fyrir hádegi á miðvikudögum og kannski þriðjudögum og svo alla föstudagana.

Kannski er einnig rétt að minnast á mikilvægi þess að þingmenn hafi líka tíma til að fara út í samfélagið og tala við fólk en séu ekki alltaf hér í Kvosinni.

Mikið hefur verið talað um að Alþingi fjalli lengur um mál að jafnaði en önnur þjóðþing. Ég segi lengur en ekki meira vegna þess að annars staðar er ferlið einfaldlega öðruvísi, jafnvel skilvirkara, það er oftast með áherslu á störf þingnefnda á kostnað svokallaðra „plenary“-funda, með leyfi forseta, þ.e. allsherjarfunda.

Ég nefni þetta sem persónulegt innlegg inn í þau störf sem eru fram undan við breytingar á þingsköpum í von um að skilvirkni aukist. Þetta er eiginlega tillaga um að við tölum minna og vinnum meira sem ég veit ekki hversu vel verður tekið í. Auðvitað vil ég ekki takmarka málfrelsi þingmanna en kannski getum við skapað einhvers konar menningu sem minnkar tjáningarþörfina.



[14:13]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að gera samspil loftslagsmála og mannréttinda að umtalsefni í dag, kannski ekki síst sem varaforseti Evrópuráðsþingsins, einnar öflugustu alþjóðastofnanir á sviði mannréttinda sem Ísland á aðild að, en þar eru loftslagsmálin að verða meira áberandi þingstörfum en áður. Í gær veittu mannréttindasamtökin Amnesty international Gretu Thunberg og loftslagsbaráttuhreyfingunni FridaysForFuture verðlaun fyrir það gríðarlega mikilvæga starf sem þau hafa unnið á aðeins einu ári til að vekja athygli á og krefjast þess að róttækari opinberar aðgerðir þarf til að koma í veg fyrir enn meiri hlýnun loftslagsins. Í gær á Íslandi á sama tíma veitti Íslandsdeild Amnesty fernum samtökum ungs fólks verðlaun fyrir baráttu þeirra fyrir róttækari aðgerðum gegn hamfarahlýnun. Óska ég þeim öllum innilega til hamingju með verðlaunin og hvatninguna.

Þessi verðlaun stórra alþjóðlegra mannréttindasamtaka sýna að loftslagsbreytingarnar eru nátengdar mannréttindum og baráttunni fyrir þeim. Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna og yfirmaður mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, fjallaði einmitt um náin tengsl loftslagsbreytinga og mannréttinda í opnunarerindi sínu á fundum ráðsins fyrir rúmri viku. Þar staðhæfði Bachelet að loftslagsógnin væri orðin mesta ógn við mannréttindi víða um heim og ein af mestu uppsprettum borgarastríða og átaka, réttindum frumbyggja til lífs og viðurværis væri ógnað með skógareldum í Amazon-skógum og bráðnun íss við norðurskautið. Umhverfissinnar þurfa að búa við ógnanir og jafnvel árásir, sérstaklega í Suður-Ameríku, og opinber umræða sem niðurlægir ungt fólk sem hefur áhyggjur af loftslaginu, framtíð sinni og komandi kynslóða er orðin algengari. Aukinn fjöldi fellibylja og aftakaveðra á borð við það sem gerðist á Bahamaeyjum drepur ekki bara íbúa heldur neyðir fólk til að flýja heimkynni sín. Þetta er líka staðreynd með hið víðáttumikla Sahel-steppusvæði Afríku.

Sú pólitík sem við þurfum á að halda til að taka á því hættuástandi er ekki til staðar í dag, sagði Greta Thunberg. Það er ástæða þess að hvert og eitt okkar verður að þrýsta á þá sem bera ábyrgðina frá öllum mögulegum stöðum og fá fólk til að bregðast við. Tökum þetta til okkar, stundum pólitík sem tekur á hættuástandinu og styðjum (Forseti hringir.) við kröfur ungs baráttufólks fyrir róttækari aðgerðum til að hindra enn frekari loftslagsbreytingar.



[14:16]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Á Íslandi er talið að um 20.000 manns þjáist af þunglyndi. Þar af er þunglyndi eldri borgara sérstakt vandamál. Vandamálið felst m.a. í því að það er að einhverju leyti falið og ógreint. Talið er að allt að helmingi hærra hlutfall eldri borgara sýni einkenni þunglyndis en almennt gerist hjá öðrum aldurshópum. Missir maka eftir langt hjónaband, einmanaleiki, verkefnaleysi, óvirkni, hreyfingarleysi, missir sjálfstæðis, stofnanavist, fjárhagsáhyggjur, félagsleg einangrun og jafnvel lífsleiði geta verið veigameiri orsök hjá eldri borgurum en hjá öðrum hópum. Þunglyndi getur verið lífshættulegur sjúkdómur en er oft læknanlegt. Þá er þunglyndi einn stærsti einstaki áhættuþátturinn hvað varðar sjálfsvíg. Þess vegna er mikilvægt að skoða tíðni sjálfsvíga og sjálfsvígstilrauna eldri borgara, en að sjálfsögðu ber að nálgast slíkt af mikilli varúð og nærgætni. Hins vegar, frú forseti, hefur sjálfsvígum eldri borgara fjölgað undanfarin ár. Þunglyndi eldri borgara hefur hins vegar ekki verið rannsakað nægilega hér á landi og höfum við í Samfylkingunni nú flutt tillögu hér á þingi til að bæta úr því. Rannsókna og aðgerða er þörf.

Frú forseti. Það er ljóst að þunglyndi eldri borgara og vanlíðan þeirra snertir ekki einungis þann hóp djúpt heldur einnig alla aðstandendur og fjölskyldur þeirra. Ég held að fá mál séu mikilvægari fyrir þingið til að sameinast um og samþykkja. Þunglyndi og einmanaleiki eiga ekki að vera eðlilegir fylgifiskar öldrunar. Pólitík á ekki síst að snúast um hvernig okkur líður.



[14:18]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Líkt og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir ætla ég að víkja nokkrum orðum að skýrslu um mælikvarða um hagsæld og lífsgæði sem kynnt var í gær en við þingmaðurinn áttum því láni að fagna að sitja bæði í starfshópnum sem vann þá vinnu. Það er kannski fyrst að segja að þetta er löngu tímabær vinna og það sést á viðbrögðunum sem skýrslan fær þar sem fólk á öllu litrófi stjórnmálanna er sammála um að hagvöxtur og landsframleiðsla séu gríðarlega ófullkomin mælitæki til að bera rekstur hins opinbera upp við, ef við ætlum að meta gæði hans.

Hér er genginn í salinn hæstv. fjármálaráðherra sem undirstrikaði þessa viðhorfsbreytingu í samfélaginu á ráðstefnu í gær þar sem þessir mælikvarðar voru kynntir.

Það er nefnilega þannig að þó að hagvöxtur geti verið að aukast í samfélaginu, þó að landsframleiðsla geti verið í hæstu hæðum, getur t.d. þeim sem neita sér um læknisþjónustu verið að fjölga, ójöfnuður getur verið að aukast í samfélaginu, löng vinnuvika getur hrjáð fjölda fólks. Þessir mælikvarðar eru meðal þeirra sem við leggjum til að verði í mælaborði sem stefnumörkun stjórnvalda byggi miklu frekar á til að sýna að samfélagið sé að þokast í rétta átt hvað varðar innvolsið í okkur öllum.

Ég hvet þingmenn til að kynna sér þetta en langar að nefna tvennt sem sló mig dálítið við þessa vinnu. Í fyrsta lagi að það hefur skort upplýsingar sem eru reglulega uppfærðar á tveimur grundvallarsviðum, annars vegar varðandi félagsauð og samspil vinnu og einkalífs og hins vegar varðandi umhverfismál. Þar eigum við ekki nógu tíðar mælingar til að setja inn í svona mælaborð eins og ég myndi vilja sjá. Þetta er eitthvað sem er verið að vinna að og verður unnið að í framhaldinu og er mjög mikilvægt. Í öðru lagi er það sem okkur tókst að gera í þessari skýrslu en það er að tengja neyslu ekki bara hinum meinta jákvæða hagvexti heldur líka umhverfismálum, (Forseti hringir.) vegna þess að það er einfaldlega svo að óheft hagvaxtarhyggja er bundin órofa böndum við hamfarahlýnunina sem við stöndum nú frammi fyrir. (Forseti hringir.) Ef við ætlum að ná tökum á hamfarahlýnun þurfum við að gera meira af þessu.