150. löggjafarþing — 8. fundur
 23. september 2019.
samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[15:17]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra og vil byrja á að koma inn á að það verður varla boðað til mikils samráðs núna um miðjan dag á miðvikudaginn vegna samnings sem á að undirrita á fimmtudaginn, sérstaklega þegar menn hafa í huga þær hrakfarir sem samkomulagið virðist hafa orðið fyrir á undanförnum vikum, hvernig sem þær koma til. Það er mjög sérstakt að mati þess sem hér stendur að nú eigi að undirrita þetta samkomulag, væntanlega á grundvelli markmiðsgreinar í samgönguáætlun, þar sem ríkissjóður er bundinn með þeim hætti sem hér á að gera án þess að það komi heildstætt til umræðu í þinginu. Þetta eru verulegar upphæðir að því er manni sýnist af þeim skjáskotum sem maður hefur fengið að sjá, því að ekki hefur hv. umhverfis- og samgöngunefnd fengið sérstaka kynningu á þessu. Nú á að kynna þetta fyrir þingmönnum á miðvikudaginn.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann líti svo á að með undirritun sinni næsta fimmtudag, eins og nú hefur verið kynnt, hafi hann skuldbundið ríkissjóð um rúmlega 50 milljarða kr. gagnvart þessu verkefni, eða verður í samkomulaginu einhvers lags fyrirvari um sérstakt samþykki Alþingis?

Þessu til viðbótar langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig verði tekið á því í samningnum ef framkvæmdakostnaður verður meiri en nú er áætlað. Lendir sá kostnaður á sveitarfélögunum eða ríkissjóði? Það er auðvelt í dag og jafnvel með grátbroslegum hætti, því miður, að telja upp óteljandi verkefni sem hafa farið verulega fram úr hvað opinberar framkvæmdir varðar undanfarin misseri.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stóð á því að ekki var minnst einu orði á Sundabraut fyrr en í uppfærðum samningsdrögum sem send voru til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í liðinni viku? Þá er ég bara að vísa í fréttir af þessu máli. Mér finnst með ólíkindum ef það er búinn til pakki upp á vel á annað hundrað milljarða (Forseti hringir.) án þess að koma Sundabraut að með einu orði.



[15:19]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það verður vissulega ánægjulegt að geta rætt þetta samkomulag sem ríkið er að gera við sex sveitarfélög á grundvelli samþykktrar samgönguáætlunar og þeirra skýrslna og vinnu sem þar hefur verið unnin, öll kynnt fyrir þinginu og öllum aðgengileg. Allir vita í hvaða átt verið var að vinna og í hvaða tilgangi. Það verður einfaldlega mjög ánægjulegt að geta tekið þessa málefnalegu umræðu um samkomulagið í heild sinni og að sjálfsögðu, hv. þingmaður, er aldrei skrifað undir samning öðruvísi en að það sé með fyrirvara um samþykki Alþingis, t.d. um hvernig eigi að koma hlutunum þar í gegn. Það þarf að leggja fram frumvarp og lög, fjárheimildir og slíkt. Það liggur í hlutarins eðli og með sama hætti er það gagnvart sveitarfélögunum þannig að ég skil ekki alveg þessar spurningar. Hér er einfaldlega verið að gera samkomulag við sveitarfélögin um lausn á umtalsverðum vanda í umferðinni hér á höfuðborgarsvæðinu sem við þekkjum öll og viljum öll, held ég, leysa.

Samkomulag þetta hefur ekki lent í neinum ógöngum á nokkurn hátt. Það var einfaldlega verið að vinna það smátt og smátt, bæta í, vinna kynningarefni, ná fram sameiginlegum skilningi á orðanna hljóðan hverju sinni og síðan náðum við niðurstöðu í síðustu viku um að ganga frá þessu, undirrita og kynna á fimmtudaginn. Mér fannst mjög gott að geta kynnt þingmönnum það áður svo að þeir þurfi ekki að fylgjast með blaðamannafundi. Ef hv. þingmanni finnst það ekki vera vísbending um að menn vilji hafa þingið með, sem vissulega hefur umtalsvert um þetta að segja þegar málin koma hingað inn, annars vegar í samgönguáætlun og hins vegar í frumvörpum er lúta að því sem þarf til til að samkomulagið verði að veruleika, (Forseti hringir.) hefur hann annan skilning en ég á því hversu mikilvægt sé að eiga samtal við sem flesta.



[15:22]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið þó að spurningunum væri kannski ekki svarað en það er ágætt að þessi efnisatriði hafi komið fram. Nú hljómar þetta þannig að hér sé meira um viljayfirlýsingu að ræða en samning. Það er svo sem ágætt og á pari við það sem ég hefði sjálfur talið eðlilega hanteringu í þessum efnum.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga til viðbótar þó að svörin hafi ekki komið við þeim fyrri: Er ráðherra kunnugt um að á fyrri stigum hafi ráðherra í ríkisstjórn Íslands skuldbundið ríkissjóð um jafn háa upphæð og þarna kemur fram, sem er a.m.k. 50 milljarðar, án þess að málið hafi komið til sérstakrar afgreiðslu á Alþingi? Þarna er ég að undirstrika það að hér er meira um viljayfirlýsingu að ræða en eiginlegan samning miðað við fyrra svarið. Hin spurningin er: Verður þá slitið eða sagt upp svokölluðum stórframkvæmdasamningi frá 2012, þar sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gerðu samning við ríkissjóð um að 1 milljarður færi árlega til almenningssamgangna gegn því að ekki yrði farið (Forseti hringir.) í stórframkvæmdir, eða verður sá samningur virkur áfram?



[15:23]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Nei, þetta er ekki viljayfirlýsing. Þetta er samkomulag sem ríkið gerir við sex sveitarfélög og er alveg skýrt að það er með eðlilegum fyrirvörum um aðkomu Alþingis. Varðandi kynningu á því verkefni og hvort einhver ráðherra hafi skuldbundið ríkið með jafn miklum hætti við nokkurn hlut getum við bara bent á fjárlög, þau eru kynnt fyrir minni hlutanum líka eins og öðrum í þinginu og svo fara þau inn í þingið til umfjöllunar. Þetta er mjög stórt verkefni, það er af stærðargráðu sem við höfum sjaldan séð, enda verkefnið ærið til að leysa þennan vanda. Ég er einfaldlega mjög ánægður með hversu vel hefur tekist til. Af því að hv. þingmaður blandaði Sundabraut inn í málið er hún ekki hluti af þessu samkomulagi, þ.e. þeim verkefnum sem eru innan höfuðborgarsvæðisins og hv. þingmaður getur kynnt sér þegar þar að kemur. Hins vegar er hluti af þessu samkomulagi grundvöllur þess að við getum lagt Sundabraut. Það hefur aldrei staðið annað til en að það væri hinn sameiginlegi skilningur þessa hóps og þar af leiðandi kem ég því á framfæri.

Varðandi stuðning ríkisins var það samþykkt í samgönguáætlun á síðasta ári að þeim stuðningi (Forseti hringir.) upp á 1 milljarð yrði haldið áfram til 2033 og við hyggjumst standa við það.