150. löggjafarþing — 16. fundur
 10. október 2019.
uppsagnir bankastarfsmanna og nýbygging Landsbankans.

[10:52]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Fjármálaþjónusta hefur breyst hratt á skömmum tíma. Áhrif fjártæknibyltingarinnar á fjármálageirann gætu orðið mjög djúpstæð fyrir bankastarfsemi. Samkeppni milli fyrirtækja mun aukast, verð á fjármálaþjónustu lækka og tími og fyrirhöfn vegna bankaþjónustu minnka. Hefðbundnir viðskiptabankar sem starfa á þeim grundvelli sem við þekkjum í dag munu þurfa að endurhugsa þjónustu- og viðskiptalíkön sín til að viðhalda starfsemi sinni.

Vegna þessa standa flestir bankar í umsvifamiklum aðgerðum til að lækka kostnað. Helstu leiðir sem farnar hafa verið í því eru uppsagnir starfsfólks, lokanir útibúa og þróun nýrra tæknilausna. Þetta kemur m.a. fram í hvítbók um fjármálakerfið. Uppsagnir starfsfólks í bönkunum hafa ekki farið fram hjá okkur. Arion banki sagði upp á dögunum 100 starfsmönnum, frá því í vor hefur Íslandsbanki sagt upp um 40 starfsmönnum. Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja segja að 150 félagsmenn hafi misst vinnuna í september. Hugur okkar er með þeim öllum á erfiðum tímum.

Forstjóri Vinnumálastofnunar segir að mikill samdráttur sé í starfsmannahaldi bankanna en víkjum þá að Landsbankanum sem er 98% í eigu ríkisins. Bankastjóri Landsbankans segir að bankinn sé í almennum hagræðingaraðgerðum og að starfsfólki hafi fækkað mjög mikið síðustu árin. Þrátt fyrir almennar hagræðingaraðgerðir, mikla fækkun starfsfólks og gjörbreytt starfsumhverfi stendur Landsbankinn í stórframkvæmd á Hafnartorgi upp á tæpa 17.000 fermetra og byggir nýjar höfuðstöðvar fyrir milljarða króna á einni dýrustu lóð landsins.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra í ljósi þess sem ég nefndi: Er þessi framkvæmd Landsbankans forsvaranleg og hvers vegna hafa fulltrúar eigenda ríkisins í stjórn bankans látið þetta viðgangast?



[10:54]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér ber upp spurningu þingmaður sem fyrir rúmu ári lagði til að ríkið myndi auka við hluti sína í fjármálafyrirtækjum. Þingmaðurinn taldi það glapræði af hálfu ríkisins að selja hluti í Arion banka vegna þess að verðið væri rangt. Þá sagði þingmaðurinn að ríkið væri að gefa hluti í Arion banka.

Hvað hefur markaðurinn sagt um þá fullyrðingu í millitíðinni? Markaðurinn virðist hafa sagt eitthvað þveröfugt. Ef við skoðum markaðsgengi Arion banka frá því að ríkið seldi hefur það komið vel út. Maður spyr einmitt í ljósi þeirra miklu breytinga sem þingmaðurinn talar um að séu að verða á umhverfi fjármálafyrirtækja, bæði kerfislega mikilvægra banka en líka annarra fjármálafyrirtækja, hvort ekki sé þeim mun brýnna að við mörkum skýra stefnu um að draga ríkið út úr slíkri starfsemi. Hér eru rakin dæmi um hvernig starfsmannafjöldi hefur þróast í einstaka viðskiptabönkum og það er rétt að þeir hafa allir dregið úr starfsmannafjölda og á tiltölulega skömmum tíma hefur orðið alveg stórkostleg fækkun útibúa í landinu. Það hefur gerst í skrefum en við horfum upp á alveg gjörbreytt umhverfi.

Það er síðan borið undir mig hvort ég telji það góða ráðstöfun hjá Landsbankanum að byggja sér nýjar höfuðstöðvar. Ég held að það sé góð ráðstöfun hjá bankanum að draga stórkostlega úr fermetrafjöldanum. Ég á hins vegar erfitt með að leggja mat á hvort fjárfestingin í sjálfu sér sé góð, en að sjálfsögðu hefur maður hugsað hvort það sé gott fyrir banka í ríkiseigu að binda jafn mikið fjármagn og mun þurfa í þá byggingu. Það sem ég sé málinu til framdráttar er að þetta verður eflaust góð eign (Forseti hringir.) og bankinn mun draga mjög verulega úr heildarnotkun fermetra eins og kynnt hefur verið fyrir Alþingi.



[10:56]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir útúrsnúninginn. Það kemur málinu ekkert við að ég hafi talað um að ríkið seldi hlut sinn í Arion banka á undirverði. Ég spurði að því hér og þingheimur tók eftir því hvort þetta væri forsvaranleg framkvæmd upp á 17.000 fermetra. Það að verið sé að fækka fermetrum, eins og hæstv. ráðherra segir, eru bara útúrsnúningar. Málið snýst einfaldlega um það að samdráttur er í þessum geira. Á meðan stendur Landsbankinn fyrir stórframkvæmd upp á milljarða sem hefði verið hægt að nýta í t.d. samgönguverkefni.

Ég lagði fram fyrirspurn í mars á þessu ári til hæstv. fjármálaráðherra um fyrirhugaða byggingu nýrra höfuðstöðva Landsbankans. Þetta er fyrirspurn til skriflegs svars upp á 11 spurningar. Þar spyr ég m.a. um markaðsvirði lóðarinnar, hvort byggingin sé skynsamleg og hvort til greina komi af hálfu ráðherra að falla frá umræddum byggingaráformum og selja lóðina. Það eru komnir sjö mánuðir, hvenær ætlar hæstv. ráðherra að svara þessari fyrirspurn?



[10:57]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn verður að þola að hans eigin orð séu rifjuð upp í þingsal. Þingmaðurinn hefur verið mjög áhugasamur um viðskiptabankastarfsemi í landinu. Hann stóð í þessum sal og talaði um að það væru góð viðskipti fyrir ríkið að auka hlut sinn í Arion banka, að það væri glapræði að selja hlutabréf í bankanum. (BirgÞ: Á undirverði.) — Á undirverði, sem hann kallar, en markaðurinn hefur svarað því hvert verðið er. Það hefur komið í ljós að þetta var algjör þvættingur í hv. þingmanni. Hann verður að þola að rifjað sé upp að það hefur komið afskaplega illa út fyrir hv. þingmann að hafa talað fyrir því (Gripið fram í: … fyrirspurnir.) að ríkið héldi á enn auknum hlut í Arion banka. Það hefur komið afskaplega illa út fyrir hann. Það var góð ráðstöfun hjá ríkisstjórninni að selja þá eignarhluti. (Gripið fram í: Gefa þá.) — Að gefa, kalla menn. Það er með ólíkindum að hlusta á þennan málflutning þegar ríkið losaði upp á milljarðatugi um eignarhluti sína í Arion banka.

Varðandi fyrirhugaðar nýjar höfuðstöðvar Landsbankans er fjármálaráðherrann ekki að byggja þær. (BirgÞ: Þú heldur á hlutabréfinu.) (Forseti hringir.) Þingið lagðist gegn því þegar ég lagði það til við þingið að við tækjum málefni Landsbankans og annarra fjármálafyrirtækja nær fjármálaráðuneytinu. Þá lagði þingið ofuráherslu á að halda því öllu saman í armslengd frá fjármálaráðuneytinu (Forseti hringir.) í Bankasýslunni. Landsbankinn mun veita svör og þau munu koma hingað til þingsins.