150. löggjafarþing — 21. fundur
 17. október 2019.
útgáfa á dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi í tilefni af aldarafmæli Hæstaréttar, fyrri umræða.
þáltill. forsætisn., 232. mál. — Þskj. 250.

[12:48]
Frsm. forsætisn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um útgáfu á dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi í tilefni af aldarafmæli Hæstaréttar. Flutningsmenn tillögunnar eru forsætisnefnd og áheyrnarfulltrúar í forsætisnefnd standa einnig að baki henni. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar í tilefni af aldarafmæli Hæstaréttar 2020 að fela forseta þingsins að ganga til samstarfs við Þjóðskjalasafn Íslands og Sögufélag um útgáfu á dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi. Alþingi samþykkir að styðja útgáfuna fjárhagslega um 10 millj. kr. árlega næstu 10 ár.“

Hæstiréttur Íslands verður eins og ráða má af þessu 100 ára á næsta ári, 2020. Ýmist má miða afmælisdaginn við gildistöku laga um Hæstarétt 1. janúar 1920 eða fyrsta dómþing sem var haldið 16. febrúar 1920. Rétturinn er stofnaður á grundvelli sambandslaganna frá 1918, upp á hver við héldum í fyrra, en samkvæmt þeim öðlaðist Ísland rétt til þess að kalla til sín æðsta dómsvald landsins sem áður var hjá Hæstarétti Danmerkur í Kaupmannahöfn um langt skeið. Stofnun Hæstaréttar Íslands, sem var ákveðin með lögum frá Alþingi, var stór atburður í sjálfstæðissögu landsins og fylgdi í beinu framhaldi af stofnun fullveldisins.

Það stendur engum öðrum nær en Alþingi að minnast afmælis Hæstaréttar í ljósi þess sögulega hlutverks sem Alþingi sjálft hafði gegnt í gegnum tíðina í dómsögu landsins. Þannig var það frá upphafi, eins og hv. þingmönnum er ugglaust öllum kunnugt, að á Alþingi voru bæði samþykkt lög og kveðnir upp dómar og þegar frá leið urðu dómstörfin í raun og veru aðalverkefni Alþingis á aldabili. Af þessu tilefni er gerð hér tillaga um að Alþingi styðji við útgáfu á dómum og skjölum Yfirréttarins sem var æðsti dómstóll landsins og starfaði á Alþingi á árunum 1563–1800. Með þeirri útgáfu verður fyllt inn í myndina af réttarsögu Íslands og bætt fyrir þá eyðu sem þar hefur verið og er enn til staðar. Dómar Hæstaréttar hafa verið gefnir út frá upphafi, frá 1920, og Sögufélag hefur gefið út dóma Landsyfirréttar sem var forveri Hæstaréttar Íslands á árunum 1800–1920. Þá hefur Sögufélag í samvinnu við Þjóðskjalasafn og með styrk frá Alþingi gefið út Alþingisbækur Íslands frá 1570–1800 sem eru að uppistöðu dómasafn Alþingis hins forna.

Lengi hafa verið uppi áform um að gefa út dóma og skjöl Yfirréttarins. Reyndar hófust áætlanir um slíkt strax árið 1991 en það var þó ekki fyrr en 20 árum síðar sem fyrsta bindi af dómum Yfirréttarins kom út og þá stóð Alþingi einmitt að þeirri útgáfu í samstarfi við Sögufélag og Þjóðskjalasafn líkt og hér er nú lagt til aftur.

Það færi mjög vel á því, herra forseti, að ljúka þessu verkefni sem er stórt og metnaðarfullt, tengja það 100 ára afmæli Hæstaréttar, eins og hér er lagt til, en ljúka því jafnframt á næstu 10 árum þannig að fyrir 1100 ára afmæli Alþingis verði þessu verki lokið. Því má í raun og veru segja að þetta verkefni megi tengja jafnt 100 ára afmæli Hæstaréttar og fyrirhuguðu 1100 ára afmæli Alþingis sem ég geri ráð fyrir að einhverjir verði til þess að halda eitthvað upp á.

Fyrir liggur heilmikil grunnvinna sem mun nýtast, sú vinna sem var unnin í aðdraganda þess að fyrsta bindið kom út. Þar verður í einu og öllu fylgt sömu fræðilegu vinnubrögðum og þá voru viðhöfð, þ.e. við útgáfu fyrsta bindis skjalanna. Gert er ráð fyrir að þetta verði átta bindi í viðbót við það sem komið er með dómum og skjölum og síðan verði tíunda og síðasta bindið helgað aukalögþingunum. Vonandi getur fyrsta bindið komið út árið 2021 eða 2022 ef undirbúningsvinna hefst strax af krafti á næsta ári. Þá ætti þetta að nást, miðað við þá verkáætlun og þá kostnaðaráætlun sem unnin hefur verið og er á bak við þá tillögu um að verja í þetta 10 millj. kr. árlega, á árinu 2030 eða jafnvel ári fyrr.

Hér er um allmikið verk að ræða því að gert er ráð fyrir því að hvert bindi verði um 500–700 síður. Þetta verður að sjálfsögðu einnig aðgengilegt samkvæmt nýjustu tækni og verður gagnlegt rit, bæði þeim sem vilja kynna sér réttarfar á þessum tíma og vera vel að sér um réttarfarssögu landsins en þetta er ekki síður merkilegur aldarspegill þar sem lesa má um aðstæður. Málsskjölin eru líka, ekki síður en dómarnir, stórmerkar heimildir um það sem við var að fást á þessum tímum í þjóðlífi landsmanna. Þar er ýmsum aðstæðum lýst, rök færð fyrir afstöðu réttarins og í úrskurðum þannig að málsskjölin eru, auk þess að vera beinar réttarfarsheimildir, heimildir um hugarfar, viðhorf, aðstæður, stéttaskiptingu, samgöngur, búskaparhætti og margt fleira.

Þau gögn sem þarna eru undir eru ekki öll varðveitt á einum stað og því þarf að leita fanga víða. Þau voru varðveitt af æðstu embættismönnum landsins á sínum tíma og voru í skjalasöfnum í umsjón höfuðsmanns, amtmanns og stiftamtmanns hvers tíma og eru núna varðveitt í nokkrum skjalasöfnum, aðallega þó í Þjóðskjalasafni Íslands, Stofnun Árna Magnússon í íslenskum fræðum og handritasafni Landsbókasafns – Háskólabókasafns.

Herra forseti. Ég fagna þeirri samstöðu sem tókst eftir nokkrar umræður í forsætisnefnd um flutning þessa máls. Ég tel afar vel til fundið að minnast afmælis Hæstaréttar með þessum hætti og að jafnframt sé sómi að því að Alþingi sem á hér mikla sögu að baki beiti sér með þessum hætti í málinu.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til síðari umr. en vandast nú málið, herra forseti, því að ég hafði ekki hugleitt nákvæmlega hvaða nefnd ætti að hljóta þann heiður að fá þetta mál í sínar hendur. Ég geri þó ráð fyrir að það sé eðlilegast að það sé allsherjar- og menntamálanefnd.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn. [Tillagan átti að ganga til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar; sjá leiðréttingu á 22. fundi.]