150. löggjafarþing — 22. fundur
 21. október 2019.
ástandið á Landspítalanum.

[15:04]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Starfsmenn á Landspítalanum hafa lýst ástandinu á stofnuninni sem svo að þar ríki neyðarástand. Formaður hjúkrunarráðs spítalans segir að öryggi sjúklinga sé ógnað. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst ráðherrann bregðast við neyðarástandi á Landspítalanum? Ég spyr í öðru lagi sérstaklega að því hvort hæstv. ráðherra telji ekki orðið ljóst að það sé tímabært að hverfa frá þeirri stefnu að setja stöðugt fleiri verkefni inn á Landspítalann. Fylgt hefur verið samþjöppunarstefnu þar sem ýmis þjónusta er í auknum mæli flutt jafnvel utan af landi eða frá öðrum stofnunum og sett inn á Landspítalann. Er ekki orðið ljóst að þetta gerir spítalanum erfitt fyrir og nánast ómögulegt að sinna hinu sérhæfða hlutverki sínu? Er ekki orðið tímabært að hverfa frá samþjöppunarstefnunni á Landspítalanum og dreifa þjónustunni meira á aðrar stofnanir og víðar um land?



[15:05]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Sú stefna sem er í gildi núna um heilbrigðisþjónustu á Íslandi er heilbrigðisstefna til ársins 2030 sem var samþykkt með 45 atkvæðum á Alþingi. Hún snýr m.a. að því meginatriði, sem er gríðarlega mikilvægt í heilbrigðisþjónustunni og er ekki vanþörf á að skýra betur, hver gerir hvað í heilbrigðisþjónustunni. Hún snýst um að sú þjónusta sem veitt er á Landspítala sé sú sem þar á heima. Segja má að hún sé tvíþætt, annars vegar sú þjónusta sem kallast þriðja stigs þjónusta í heilbrigðisstefnu, er þjónusta háskólasjúkrahússins og endastöðin þegar flóknustu verkefnin rekur á okkar fjörur og svo er spítalinn héraðssjúkrahúsið á Suðvesturlandi.

Við höfum fjallað um það á Alþingi en líka hefur verið fjallað um það á vettvangi embættis landlæknis að við erum með tilvik þar sem verið er að veita þjónustu á Landspítala sem ætti sannarlega að veita annars staðar. Þá dettur mér fyrst og fremst tvennt í hug, annars vegar það sem lýtur að þeirri staðreynd að löngum hefur legið á Landspítala nokkur fjöldi aldraðra sem hafa verið með það sem kallað er færni- og heilsumat og ættu að vera á hjúkrunarheimilum. Þetta eru núna að jafnaði 40–50 manns þegar við erum búin að opna fleiri hjúkrunarrými. Við þurfum að gera betur þar. Hin tilvikin eru þau þegar fólk leitar til bráðamóttöku Landspítala þegar heilsugæslan ætti að sinna viðfangsefnunum. Þetta stendur allt saman til bóta með skýrari stefnumótun sem við höfum á okkar borði og með innleiðingu heilbrigðisstefnu ætti að vera enn skýrara að verkefni Landspítala verði unnin þar og að verkefni sem annars staðar eiga heima verði unnin annars staðar.



[15:08]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég hefði viljað fá skýrari svör um hvernig hæstv. ráðherra ætli að standa að því að færa þjónustu við sjúklinga á fleiri staði en nú er og ég hefði helst viljað heyra að hæstv. ráðherra vildi friðmælast við ýmis samtök og stofnanir sem sinna veigamiklum þáttum heilbrigðisþjónustunnar en eru í mörgum tilvikum fjársveltar og hafa, að því er virðist, liðið fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar um aukna samþjöppun og vægast sagt mjög vinstri sinnaða stefnu í heilbrigðismálum. En ég ætla ekki að spyrja um það heldur ítreka fyrri spurningu mína: Hvernig hyggst hæstv. ráðherra bregðast við neyðarástandinu sem nú er ríkjandi? Af fréttum að dæma virðist það ekki þola nokkra einustu bið. Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera til að bregðast við þessu ástandi strax?



[15:09]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þingmanni finnst það dálítið leiðinlegt en það gerðist nú hér í júní að 45 þingmenn greiddu atkvæði með nýrri heilbrigðisstefnu. Það var ekki akkúrat í þeim anda sem hv. þingmaður vill vinna, þ.e. að stuðla svona frekar að sundrung en samstöðu. 45 þingmenn þýðir þingmenn stjórnarflokkanna og þingmenn tveggja annarra stjórnmálaflokka á Alþingi, (SDG: Svaraðu spurningunni.) sem þýðir að það er víðtækur stuðningur við nýja heilbrigðisstefnu á Alþingi.

Þar sem hv. þingmaður spyr sérstaklega hvernig eigi að tryggja að þessir þættir séu unnir þar sem vera ber er það svo að við erum að fjölga hjúkrunarrýmum í stórkostlega mikilvægri uppbyggingu sem stendur yfir og að samstarf milli heilsugæslunnar og bráðamóttöku Landspítalans hefur leitt það af sér að komum á bráðamóttöku Landspítalans hefur fækkað um 10% og (Gripið fram í.) það fólk fer núna til heilsugæslunnar.