150. löggjafarþing — 25. fundur.
bætur vegna ærumeiðinga, 1. umræða.
stjfrv., 278. mál. — Þskj. 312.

[12:42]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um bætur vegna ærumeiðinga en með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérstök lög um bætur vegna ærumeiðinga og samhliða því verði nánast öll ákvæði almennra hegningarlaga sem fjalla um ærumeiðingar felld á brott. Þá eru samhliða lagðar til breytingar á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og fjölmiðlalögum. Frumvarpinu var dreift á Alþingi á 149. löggjafarþingi en ekki mælt fyrir því. Það er nú lagt fram að nýju með einni breytingu sem nánar verður gerð grein fyrir á eftir.

Um ærumeiðingar er fjallað í XXV. kafla almennra hegningarlaga sem hefur að miklu leyti staðið óbreyttur frá lögfestingu fyrir tæplega 80 árum síðan. Síðan þá hafa aftur á móti margvíslegar aðrar breytingar verið gerðar á löggjöf sem tengjast ærumeiðingum og tjáningarfrelsi sérstaklega og ber þar hæst tjáningarfrelsið í stjórnarskránni, 73. gr. frá árinu 1995, og lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu árið 1994 en í 10. gr. þess sáttmála er að finna ákvæði sem sérstaklega fjallar um tjáningarfrelsi. Fyrir tilstilli framangreindra mannréttindaákvæða, sem og dómaframkvæmda Hæstaréttar Íslands og Mannréttindadómstóls Evrópu, hefur tjáningarfrelsi verulega vaxið fiskur um hrygg síðustu áratugi. Er nú svo komið að sumum ákvæðum hegningarlaga verður vart beitt lengur samkvæmt orðanna hljóðan án þess að í því fælist óheimil skerðing tjáningarfrelsisins. Þannig er til að mynda ljóst að það að dæma einstakling í eins árs fangelsi fyrir móðgun myndi ekki standast framangreind tjáningarfrelsisákvæði. Þau ákvæði hegningarlaga sem fjalla um ærumeiðingar endurspegla því hvorki raunverulega réttarframkvæmd né nútímaviðhorf um tjáningarfrelsi og ærumeiðingar sem refsiverðan verknað.

Hæstv. forseti. Ég mun nú gera grein fyrir meginefni frumvarpsins en með því er lagt til að sett verði ný stofnlög þar sem mælt verði fyrir um einkaréttarleg úrræði til að bregðast við ærumeiðingum. Þar er gert ráð fyrir tvenns konar úrræðum, annars vegar miskabótum og hins vegar bótum fyrir fjártjón. Þannig verði heimilað að láta þann sem með saknæmum og ólögmætum hætti meiðir æru einstaklings með tjáningu sinni greiða miskabætur til þess sem misgert er við sem og bætur fyrir fjártjón ef því er að skipta. Við beitingu framangreindra úrræða verði höfð hliðsjón af sök, efni tjáningar og aðstæðum að öðru leyti. Þá er gert ráð fyrir að ekki komi til bótaábyrgðar við tilteknar aðstæður sem nánar eru taldar upp í 1. gr. frumvarpsins, til að mynda ef sýnt hefur verið fram á að ummæli séu sannleikanum samkvæm eða ef um er að ræða gildisdóm sem settur er fram í góðri trú og hefur einhverja stoð í staðreyndum. Þá er lagt til að æruvernd nái einungis til einstaklinga en ekki lögaðila auk þess sem nákomnum aðstandendum verði veittur kostur á að krefjast miskabóta. Auk þess verði ómerking ummæla sem úrræði vegna ærumeiðinga afnumin sem og núgildandi heimild til að dæma fjárhæð til að standa straum af kostnaði við birtingu dóms. Þá er rétt að vekja sérstaklega athygli á því að með frumvarpinu er lagt til að 1. mgr. 12. gr. laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið verði felld á brott en samkvæmt því ákvæði má enginn óvirða þjóðfánann, hvorki í orði né verki, að viðlögðu fangelsi í allt að eitt ár. Lögin standa óbreytt að öðru leyti.

En að lokum er rétt að gera grein fyrir því að ein breyting hefur verið gerð á frumvarpinu frá því að því var dreift á Alþingi á síðasta löggjafarþingi, eins og áður var nefnt. Ekki er lengur lögð til sú breyting að 95. gr. almennra hegningarlaga falli brott en í því ákvæði er fjallað um sérstaka æruvernd erlendra ríkja, þjóðhöfðingja, þjóðfána og fleira. Að nánar athuguðu máli og með hliðsjón af þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins þykir ekki rétt að leggja slíka breytingu fram að svo komnu máli heldur þarfnist hún sérstakrar athugunar. Má nefna í því sambandi að þrátt fyrir ýmsar breytingar á Norðurlöndunum er enn á hinum Norðurlöndum mælt fyrir um slíka æruvernd þó að hún sé mismikil. Breytingar eru ekki útilokaðar á þessu ákvæði og mun það hljóta nánari skoðun í ráðuneytinu, eftir atvikum í samvinnu við utanríkisráðuneytið.

Að þessu loknu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr. í þinginu.



[12:47]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Ég tel almennt séð að þetta frumvarp sé til bóta og hlakka til að sjá hvernig því reiðir af í gegnum þingið og allsherjar- og menntamálanefnd. Ég verð þó að lýsa yfir ákveðnum vonbrigðum með að hér sé ekki verið að breyta eða fella út 95. gr. almennra hegningarlaga, þó svo að ég hafi heyrt það sem hæstv. ráðherra sagði um að enn þá sé verið að skoða þá grein. Ég hef nokkrum sinnum flutt frumvarp þessa efnis að 95. gr. verði hreinlega felld út úr almennum hegningarlögum og er enn þá þeirrar skoðunar að hún eigi ekki heima þar en get alveg fallist á að hugsanlega þurfi að styrkja ákvæði sem varða vernd erlendra þjóðhöfðingja annars staðar í lagasafninu. Ég tel hins vegar að það sem varðar æruna eigi ekkert heima þar, að enga sérstaka vernd þurfi fyrir æru erlendra þjóðhöfðingja.

Það skýtur auðvitað svolítið skökku við að verði lögin samþykkt mun fáni Sameinuðu þjóðanna og fáni Evrópuráðsins njóta meiri verndar en þjóðfáni Íslands. Þetta er atriði sem mig langar að skoða og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún geti farið aðeins dýpra í það hvaða vinna sé í gangi við að koma 95. gr. annaðhvort alveg út eða uppfæra hana og gera hana meira í takt við nútímann.



[12:50]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum meira sammála en minna um þetta ákvæði. En það byggist kannski fyrst og fremst á Vínarsamningi um stjórnmálasamband sem við erum aðili að og réttarvenjum og gagnkvæmnisreglu þjóðaréttar. Þar er bæði kveðið á um persónulega friðhelgi sendierindreka og almennt um að koma í veg fyrir hvers konar tilræði við persónu hans sem þarf aðeins að skoða í tengslum við ærumeiðingarnar. En þar sem þau atriði eru ekki í þessu frumvarpi mun ég setja vinnu af stað til að finna út hvort við getum takmarkað það að einhverju leyti því að mögulega getum við gengið of langt og gætum farið aðeins styttra með það. Það er mikilvægt að þjóðréttarskuldbindingar Íslands séu virtar í hvívetna. Það er auðvitað á sama tíma litið til þess að þegar Noregur fór í sams konar breytingar var einnig hinkrað með þá breytingu og er þetta eina refsiákvæðið sem er eftir varðandi móðganir í garð fulltrúa erlendra ríkja. Síkt er líka í löggjöf Danmerkur og Svíþjóðar. En þetta þarf athugunar við og ég tek undir með hv. þingmanni með það og mun setja þá vinnu af stað í ráðuneytinu og í samstarfi við utanríkisráðuneytið.



[12:51]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég held að það sé alveg rétt að við séum frekar sammála um að hér þurfi að gera breytingar. En þetta snýst um útfærslu á þeim og ég fagna því að sú vinna sé komin í gang og tel hana afar brýna því að líkt og hæstv. ráðherra fór í gegnum hafa lönd verið að gera breytingar á ákvæðum sem snúa að því að tala megi ansi frjálslega um þjóðhöfðingja annarra ríkja en vilja auðvitað halda vernd á embætti þeirra, ef svo má segja. Ég tek undir mikilvægi þess. Ég tel hins vegar að 95. gr. eins og hún stendur núna sé ákaflega afkáraleg og vona að um leið og allsherjar- og menntamálanefnd fer að vinna með þetta frumvarp verði hægt að gera breytingar á henni, til að mynda þeim ákvæðum sem lúta að því hvernig megi koma fram við fána Sameinuðu þjóðanna eða Evrópuráðsins, bara til að það sé ekki ríkari vernd á þeim en þjóðfána Íslendinga, af því að ég er mjög fylgjandi þeim breytingum sem hér eru lagðar til hvað varðar fánann okkar. Um leið og ég lýsi yfir ákveðnum vonbrigðum með að ekki sé gengið lengra í sambandi við 95. gr. fagna ég því að verið sé að vinna í málinu í ráðuneytinu og vona að allsherjar- og menntamálanefnd geti tekið einhver skref varðandi þetta ákvæði.



[12:53]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og tek undir að með frumvarpinu er stigið mjög mikilvægt skref til að víkja frá refsingum varðandi ærumeiðingar yfir í bætur og einnig varðandi þjóðfána o.fl. í átt að auknu tjáningarfrelsi. Skoðun á þessu ákvæði þarf auðvitað að fylgja og ég fagna því að hv. allsherjar- og menntamálanefnd muni taka það til skoðunar en það þarf að gerast í samræmi við það að við ætlum að fullnægja þjóðréttarlegum skuldbindingum okkar á sama tíma. Að því sögðu vona ég að málið fái góða meðferð í nefndinni en að sama skapi mun ég einnig vinna það nánar í ráðuneytinu til að skoða hvernig breytingar við getum gert á þessu ákvæði svo það fullnægi áfram þeim skuldbindingum sem við höfum tekið á okkur.



[12:55]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp frá dómsmálaráðherra um bætur vegna ærumeiðinga og ég set svolítið spurningarmerki við það. Þegar um er að ræða ærumeiðingar eða brot gegn friðhelgi einkalífsins þurfa Íslendingar að leita til dómstóla. Fyrir tæpu ári síðan benti ég á að það væri ákveðin brotalöm í dómum Hæstaréttar þar sem hægt er að slá inn kennitölu, fá upp nafn, heimilisfang og persónuupplýsingar úr sjúkraskrám o.fl. Þetta er ekki í einu máli heldur mörgum. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál og ærumeiðing fyrir ákveðna hópa sem geta þar af leiðandi, eins og segir sig sjálft, farið í dómsmál og krafist bóta vegna brota Hæstaréttar eða dómstóla. Ég veit ekki hvaða vinna hefur farið fram í þessu máli og spyr mig að því. Ég veit að ekki er búið að vinna málið að fullu. Það er nú þegar hægt að fara inn á dóma Hæstaréttar og fá þar kennitölur, t.d. mína eigin kennitölu, heimilisfang, sjúkraskrá, allar upplýsingar, réttar og rangar. Það er enginn sem getur skorið úr um hvað er rétt og hvað er rangt. Þetta er grafalvarlegt mál. Síðan er enn þá alvarlegra að þarna geta líka verið undir upplýsingar frá mönnum sem eru kallaðir til sem vitni fyrir dómi. Þess vegna segi ég að við verðum að vanda okkur og byrja þarna. Annars getur ríkið lent í miklum skaðabótum. Er ráðherrann sammála því?



[12:57]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og tek auðvitað undir með honum að gæta þurfi að fullu að friðhelgi og persónuvernd við birtingu dóma. Það er önnur vinna sem er í gangi í ráðuneytinu. En það er ekkert sem breytist í þessu frumvarpi er varðar hegningarlög og annaðhvort friðhelgi eða persónuvernd. Það hefur verið unnið að því í ráðuneytinu og eitt frumvarp litið dagsins ljós til þess að breyta þeim lögum og gæta að persónuvernd. Þarna eru dæmi, eins og hv. þingmaður nefnir, en það eru líka fleiri dæmi er snúa að persónuvernd barna og fleiri sem brotaþola og birtingu dóma sem þarf að skoða. Ég mun leggja mig alla fram við að skoða þetta í ráðuneytinu og vinna að því koma í veg fyrir að svona geti gerst.



[12:58]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og vona heitt og innilega að þessi vinna fari í gang. En mér finnst alltaf einhvern veginn að við séum að byrja á öfugum enda. Ég held að þarna hefði verið betra að byrja á því að sjá til þess að þetta breyttist. Ég skil ekki af hverju er liðið heilt ár og ekkert breytist, ekki neitt.

Það er annað sem ég skil ekki sem er að það skuli vera til eignarhaldsfélag eins og Fons Juris. Þar er hægt að fara inn og ná í þessar upplýsingar, fara inn á kennitölu, á nafni, á heimilisfangi. Mér finnst það grafalvarlegt mál. Ég veit til þess að búið er að dæma í svona málum þar sem birtar voru persónuupplýsingar um einstakling sem var öryrki. Mér finnst að við hefðum átt að byrja þarna. Ég skil ekki af hverju þetta er ekki byrjað heldur förum við í staðinn að búa til lög um bætur vegna ærumeiðinga. Við ættum að byrja á því að koma í veg fyrir að fólk þurfi að leita sér bóta.



[12:59]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má vel hafa skoðun á því að þetta frumvarp hefði átt að koma á eftir einhverju öðru. Ég tel samt frumvarpið mjög tímabært, að fara úr því að refsa fyrir ærumeiðingar og hafa um þær hegningarlög sem stangast á við tjáningarfrelsið og yfir í að hafa sérlög um bætur vegna ærumeiðinga. Það þýðir ekki að það sé minna eða meira mikilvægt en eitthvað annað sem er í gangi í ráðuneytinu. Eins og ég sagði áðan skiptir persónuvernd miklu máli við birtingu dóma, bæði varðandi börn o.fl. sem hv. þingmaður nefnir, og ég mun skoða það. En það tengist þessu máli ekki beint þó að það sé engu að síður mikilvægt að koma því í lag.



[13:00]Útbýting: