150. löggjafarþing — 25. fundur
 24. október 2019.
bætur vegna ærumeiðinga, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 278. mál. — Þskj. 312.

[13:31]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég fagna því að frumvarpið sé komið fram. Þetta er partur af vinnu sem forsætisráðherra setti af stað um vernd og eflingu tjáningarfrelsis, fjölmiðlafrelsi, friðhelgi einkalífsins, vernd uppljóstrara o.s.frv. á grundvelli þingsályktunar sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir lagði fram, um að Ísland skapaði sér sérstöðu í þessum málum, sem Alþingi samþykkti samhljóða. Þetta er mjög ánægjulegt. Hvenær var það lagt fram? Mig minnir að þingsályktunin hafi verið samþykkt 2010. Þetta er búið að taka sinn tíma en sýnir enn og aftur að það skiptir máli að þeim sem stjórna landinu sé umhugað um málefnin. Þá fá þau brautargengi. Ég veit að hæstv. ráðherra er mjög umhugað um tjáningarfrelsið þannig að ég óska henni til hamingju með að leggja þetta fram.

Það sem kemur fram þarna eru atriði sem, eins og ráðherra fór yfir, er verið að taka út úr hegningarlögum; ærumeiðingar eru sem sagt ekki varðar lengur með því að æra manns sé það mikilvæg að ef einhver annar tjáir sig sé hægt að taka frelsi hans af honum. Við erum ekki með þannig samfélag lengur, sem betur fer, að ef maður tjáir sig um einhvern einstakling og jafnvel segir sannleikann, eins og er í lögunum í dag, sé hægt að setja mann í fangelsi. Með því að taka þetta út er verið að fella úr almennum hegningarlögum þessar varnir fyrir æruna og setja það inn að menn verði, að sjálfsögðu, samt sem áður, að standa reikningsskil á orðum sínum og ef þeir skaða æru annarra getur sá sem fyrir þeim skaða verður sótt miskabætur. Menn verða að standa reikningsskil en inn eru sett atriði sem mörg hver eru nú þegar í okkar réttargögnum en við fáum það skýrt inn í lögin, eins og segir í b-lið 1. gr., það sem verndar þann sem tjáir sig, ef sýnt hefur verið fram á að ummælin voru sannleikanum samkvæm. Sá sem segir sannleikann er alltaf 100% varinn ef einhver annar vill fara í mál við viðkomandi og sækja til hans miskabætur. Sá sem segir sannleikann er 100% varinn. Það er gríðarlega mikilvægt að fá þetta alveg skýrt inn í lög.

Við skulum fara aðeins yfir þær greinar sem eru felldar út úr almennum hegningarlögum. Ég ætla að lesa eina grein, hún er svolítið fyndin og sýnir hve mikið af þessu er orðið úrelt og nauðsynlegt að uppfæra. Í 237. gr. segir:

„Ef maður bregður manni brigslum án nokkurs tilefnis, þá varðar það sektum, þótt hann segi satt.“

Brigslin eru að ef maður segir um einhvern annan mann að háttsemi hans hafi verið einhvern veginn óæskileg o.s.frv. án nokkurs tilefnis varðar það sektum þótt hann segi satt. Síðasta mál sem fór fyrir dómstóla og var kært í á þessum grundvelli var þegar Þórbergur Þórðarson sagði um einhvern son einhvers ráðherra að hann hefði verið nasisti — en hann hafði verið nasisti og hafði verið í SS. Samt sem áður var hægt að saksækja Þórberg Þórðarsonar á þeim grundvelli — jafnvel þó að hann segði satt.

Aftur þakka ég þinginu sem samþykkti þingsályktunartillöguna í upphafi, ég held að það hafi verið árið 2010, ég þakka Birgittu Jónsdóttur sem lagði hana fram, forsætisráðherra fyrir að taka þetta saman á þeim grundvelli, stofna starfshóp, níu frumvörp tilbúin á þeim grunni að efla tjáningarfrelsi, fjölmiðlafrelsi, vernd uppljóstrara o.s.frv. sem tryggir að við getum fengið betri aðgang að upplýsingum, erum vernduð ef við eigum í málefnalegri og lýðræðislegri umræðu og að því sé algjörlega úthýst úr íslenskum lögum að hægt sé að setja fólk í fangelsi á þeim grundvelli.

Að sjálfsögðu þakka ég ráðherra aftur kærlega fyrir málið.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.