Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem lagt er fram af öllum þingmönnum Samfylkingarinnar og Pírata. Málið var fyrst lagt fram á 145. löggjafarþingi, þá á 149. þingi og loks núna. Málið náði ekki fram að ganga og er nú flutt óbreytt. Málið ætti í sjálfu sér ekki að þurfa að kynna mikið hér á þingi og heldur ekki fyrir almenningi í landinu. Fá mál hafa byggt á jafn mikilli þátttöku almennings og verið rædd jafn mikið í þinginu. Ég ætla því ekki að fara nákvæmlega í einstakar greinar frumvarpsins, enda ekki tími til þess, en vel er gerð grein fyrir þeim, tilurð þeirra og tilgangi í frumvarpinu sjálfu.
Það er hins vegar óhjákvæmilegt að fara örstutt yfir sögu málsins, enda felast í þeirri aðferð sem var beitt sterk rök fyrir því að málið verði rætt ítarlega, tekið alvarlega af Alþingi og afgreitt í lok kjörtímabilsins. Vissulega eru breytingar á stjórnarskrá ræddar á vettvangi formanna allra flokka og því kann einhver að spyrja: Af hverju er verið að leggja þetta heildarplagg fram nú? Því er til að svara að sú leið sem þar er farin er langt frá því sem gefin voru fyrirheit um á sínum tíma og miklu frekar afleiðing þess málþófs sem þáverandi stjórnarandstöðuflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, stóðu fyrir á vormánuðum 2013. Málið náði, eins og áður sagði, ekki fram að ganga þá, kom ekki einu sinni til atkvæðagreiðslu. Í kjölfarið var vinna aftur tekin inn á borð formanna flokkanna, eins og áður sagði, án þess að það hafi skilað umtalsverðum árangri enn þá. Það gerðist ekkert kjörtímabilin 2016 og 2017 en fyrir frumkvæði núverandi hæstv. forsætisráðherra héldu formenn vinnunni áfram.
Í minnisblaði ráðherra við upphaf vinnunnar segir að stefnt skuli að heildarendurskoðun á tveimur kjörtímabilum og hafa skuli hliðsjón af þeirri miklu vinnu sem lögð hefur verið í endurskoðun á undanförnum árum, samanber t.d. þjóðfund, stjórnlaganefnd og stjórnlagaráð, auk starfa stjórnarskrárnefndar 2005–2007 og 2013–2016; líka þeirri „miklu samfélagslegu umræðu sem átt hefur sér stað, umræðu og nefndavinnu á Alþingi auk afstöðu kjósenda að því marki sem hún hefur þegar komið fram“ eins og segir í minnisblaðinu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Pírata eiga sæti í formannanefnd forsætisráðherra um endurskoðun stjórnarskrárinnar og hafa þar nýtt sína aðild til að halda á lofti frumvarpi stjórnlagaráðs. Það var skýrt hjá hæstv. forsætisráðherra að enginn í nefndinni hefur neitunarvald. Vinnan mun fara fram óháð því hvort einn eða fleiri fulltrúar segja sig frá henni, enda sé rúmur meiri hluti fyrir því að halda áfram. Því væri óráðlegt að segja skilið við þá vinnu en um leið er minnt á að þetta viðhorf hæstv. forsætisráðherra veikir rök þeirra sem segja að tillaga eins og sú sem hér er mælt fyrir sé slæm því að nauðsynlegt sé að algjör eða sem mestur samhljómur sé um jafn mikilvægt mál.
Vissulega hafa átt sér stað ágætisskoðanaskipti og samhljómur er um nokkur atriði í formannanefndinni en það er ljóst og ætti hvorki að vera feimnismál né undrunarefni að viðurkenna að mikill skoðanamunur er á viðhorfum flokkanna til einstakra ákvæða. Enn er langt í land með að aðilar geti lagt fram tillögu sem nokkuð breið og góð sátt er um. Við erum líka, eins og áður sagði, komin ansi langt frá þeirri vinnu og hugsun sem lá að baki því að þetta ferli fór af stað fyrir tíu árum.
Þá virðist skilningurinn á því að formannavinnan núna feli í sér heildarendurskoðun eitthvað hafa skolast til, enda bókaði formaður Sjálfstæðisflokksins 8. október að hann teldi ekki þörf fyrir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar heldur væri ráð að vinna áfram með helstu ákvæði um auðlindir, umhverfi, þjóðaratkvæði og framsalsákvæði. Hann bætti að vísu við að hann bæri samt virðingu fyrir því að menn sæju þetta með mismunandi hætti en teldi að hópurinn væri kominn á kaf í umræðu um atriði sem séu fyrir utan það sem hann telji þörf á að ræða. Formaður Miðflokksins tók undir innihald bókunarinnar á næsta fundi.
Heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar var samt það sem hæstv. forsætisráðherra lagði til grundvallar við upphaf vinnunnar og kynnti mjög vel fyrir formönnum. Ég mun áfram taka þátt í störfum nefndarinnar en þar höfum við hins vegar ekki dagskrárvaldið. Frumvarpið sem hér birtist er einfaldlega sú leið sem við vildum helst fara. Þá er líka bent á að þjóðin sé búin að greiða atkvæði og samþykkja að tillaga stjórnlagaráðs sem þetta frumvarp byggir á verði lögð til grundvallar heildarendurskoðun. Ég held þess vegna að það sé gott að fá þetta frumvarp inn á þing núna til umræðu í sal og á nefndarfundum, svo ekki sé talað um að fá inn umsagnir og gesti til nefndarinnar. Fæstir af þeim sem sitja hér nú gerðu það kjörtímabilið 2009–2013 og okkur er hollt að fara vel yfir þessa tillögu og greiða loks atkvæði um hana að yfirferð lokinni. Í dag, fjórum dögum eftir að sjö ár voru liðin frá afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar, 20. október 2019, leggja Samfylkingin og Píratar því þetta frumvarp fram og leggja til að áfram verði haldið vinnu við setningu nýrrar stjórnarskrár þar sem frá var horfið vorið 2013.
Ég minni á að þjóðin er stjórnarskrárgjafinn. Þingmenn og leiðtogar þjóðarinnar verða og ættu a.m.k. að virða ákvörðun þeirra sem valdið hafa til að setja þeim leikreglur. Það er skylda kjörinna fulltrúa að leiða nýja stjórnarskrá í lög og virða þannig vilja þjóðarinnar í kosningum.
Við skulum þá vinda okkur aðeins í sögu málsins í mjög stuttu og brotakenndu máli. Árið 2010 lagði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur það til og fékk samþykkt á Alþingi að kosið yrði í almennum kosningum til sérstaks stjórnlagaþings sem ætlað var að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins. Stjórnlagaþingi var sérstaklega ætlað að taka til umfjöllunar undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar, skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra, hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins, sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds, ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan, lýðræðislega þátttöku almennings, framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála og einnig umhverfismál, þar á meðal eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda. Þrátt fyrir að þessir þættir skyldu koma til sérstakrar skoðunar var jafnframt kveðið á um að stjórnlagaþing ætti að geta fjallað um fleiri þætti.
Alþingi kaus auk þess sérstaka stjórnlaganefnd árið 2010 sem var ætlað að undirbúa og standa að þjóðfundi um stjórnarskrármálefni þar sem kallað yrði eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings um stjórnskipan landsins og stjórnarskrá og breytingar á henni. Stjórnlaganefnd skyldi vinna úr upplýsingum sem söfnuðust á þjóðfundinum og afhenda stjórnlagaþingi þegar það kæmi saman.
Þjóðfundur um stjórnarskrá Íslands var síðan haldinn í Laugardalshöll í Reykjavík laugardaginn 6. nóvember 2010. 950 manns af öllu landinu sóttu fundinn, fólk á aldrinum 18–91 árs. Kynjaskipting var nánast jöfn. Auk þess sáu um 200 aðstoðarmenn um framkvæmd fundarins. Með þjóðfundinum var ætlunin að fá fram meginsjónarmið og áherslur almennings varðandi stjórnskipan landsins og stjórnarskrá og breytingar á henni. Á fundinum ræddu fulltrúar um hugsjónir og gildi sem grundvöll nýrrar stjórnarskrár. Fram komu tillögur um inntak nýrrar stjórnarskrár. Fundurinn útbjó ábendingar, ráð og tilmæli til stjórnlagaþings, Alþingis, til fjölmiðla og annarra sem myndu halda áfram að fjalla um og ljúka vinnu við þessa nýju stjórnarskrá. 50 manna hópur vann með niðurstöðu fundarins og þær voru kynntar 7. nóvember 2010.
Kosningar til stjórnlagaþings fóru fram í kjölfarið, þann 27. nóvember 2010, og 522 einstaklingar buðu sig fram. Þetta var því flóknari kosning en Íslendingum er tamt og alls greiddi 83.531 kjósandi atkvæði í kosningum sem var u.þ.b. 36% kosningaþátttaka. Stjórnlagaþing endaði með ráðgefandi 25 manna stjórnlagaráði. Stjórnlagaráði var falið að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, í formi frumvarps til stjórnarskipunarlaga.
Stjórnlagaráð var formlega sett 6. apríl 2011 en við það tækifæri afhenti stjórnlaganefnd skýrslu sína. Í skýrslunni voru settir fram rökstuddir valkostir um breytingar á stjórnarskránni og fjallað um ýmis viðfangsefni sem koma þyrftu til skoðunar við þá vinnu. Eftir mikla vinnu, snarpa og frekar stutta, samþykkti stjórnlagaráð einróma frumvarp til stjórnarskipunarlaga og afhenti forseta Alþingis frumvarp sitt að nýrri stjórnarskrá 29. júlí 2011. Forsætisnefnd Alþingis lagði tillögur stjórnlagaráðs fyrir Alþingi í formi skýrslu 4. október 2011. Á tímabilinu frá 13. október 2011 til 20. febrúar 2012 voru tillögurnar og meðferð málsins ræddar á fundum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins. Fjölmargir aðilar sendu stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd umsagnir vegna málsins þar sem ýmist voru gerðar athugasemdir við efni frumvarpsins eða lýst stuðningi við að frumvarpið yrði lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Í kjölfar þess komu ýmsir sérfræðingar og ræddu um tillögur stjórnlagaráðs og svöruðu spurningum nefndarmanna. Þá voru fyrrverandi fulltrúar stjórnlagaráðs kvaddir saman til sérstaks fjögurra daga fundar og fór fundurinn fram 8.–11. mars árið 2012. Var fundinum ætlað að fjalla um spurningar og ábendingar nefndarinnar um hugsanlegar breytingar á frumvarpi ráðsins.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins fjallaði síðan um ýmis álitaefni og spurningar, t.d. varðandi auðlindaákvæðið, sér í lagi hugtakið fullt verð, um málskotsrétt forseta, hvort rétt væri að kosningakerfið væri bundið í stjórnarskrá og um hversu hátt hlutfall kosningarbærra Íslendinga gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu o.s.frv. Þann 20. mars 2012 lagði svo meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fram tillögu til þingsályktunar um að haldin yrði ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Tillagan var endanlega samþykkt á þingfundi 24. maí árið 2012.
Eins og alþjóð veit og áður hefur komið fram var síðan haldin ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla þann 20. október árið 2012, fyrir sjö árum, eftir þetta langa ferli við endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Meira en 114.000 Íslendingar tóku þátt í þessari atkvæðagreiðslu og niðurstaðan var býsna skýr, þ.e. meiri hlutinn vildi að þetta plagg yrði lagt til grundvallar við gerð nýrrar stjórnarskrár. Í upphafi sumars 2012 skipaði Alþingi sérfræðinefnd til að fara lagatæknilega yfir tillögur stjórnlagaráðs og hún skilaði af sér frumvarpi þann 12. nóvember 2012. Nefndin tók mið af niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og ritaði einnig heildstæða greinargerð með frumvarpinu á grundvelli skýringa stjórnlagaráðs.
Á vorþingi 2013 áttu sér stað margar, langar, miklar og harðar umræður um frumvarpið sem einkenndust ekki síst af málþófi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem létu einskis ófreistað til að stöðva málið, eins og áður er talið — og það tókst þeim. Hér erum við þess vegna núna án þess að hafa staðið undir væntingum og loforði við þjóðina.
Herra forseti. Það er nauðsynlegt að halda því til haga að stjórnarskrá er grundvallarplagg en kannski má segja að við séum að einhverju leyti enn að notast við hálfgert bráðabirgðaplagg. Við súpum stundum seyðið af því með ýmsu móti, eins og þekkt er, í óljósum heimildum, reglum og skorti á stjórnfestu. Það er algjörlega óþarft að hræðast þetta frumvarp. Ég gef ekki neitt fyrir áróðurinn um að hér sé verið að kollvarpa einhverju. Frumvarpið byggir á tillögum stjórnlagaráðs og er í rauninni aðeins endurskoðuð og uppfærð útgáfa af þeirri gömlu. Um 80% af gömlu stjórnarskránni er með einum eða öðrum hætti að finna í þeirri nýju auk þess sem hún inniheldur viðbætur til að færa íslensk lög inn í nútímann. Sem betur fer miðar mannkyninu talsvert áfram og því er nauðsynlegt að festa í sáttmálann ákvæði sem endurspeglar viðhorf og veruleika dagsins í dag. Það er meira að segja viðbúið að eitthvað hafi komið fram á allra síðustu árum sem krefjist þess að það komi viðbót við þetta frumvarp. Þá er það einfaldlega Alþingis að leiða það í ljós í meðförum þingsins og í samráði við almenning.
Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég því til að málinu verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til frekari umræðu og loks til afgreiðslu í þingsal. Mig langar þó fyrst að lesa aðfaraorð nýju stjórnarskrárinnar, með leyfi forseta:
„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.
Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.
Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.
Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.
Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“
Herra forseti. Fyrst vildi ég inna hv. þingmann aðeins nánar eftir því hvernig hann sjái fyrir sér framlagningu þessa frumvarps í samhengi við þá vinnu sem á sér stað af hálfu formanna stjórnmálaflokkanna. Ég heyrði að hv. þingmaður kom inn á hana áðan og auðvitað vitum við að flokkar nálgast þá vinnu með mismunandi hætti. En ef hægt er að skilja hv. þingmann með þeim hætti að hann leggi ofuráherslu á að málið fari í þann farveg sem þetta frumvarp og framlagning þess felur í sér myndi maður segja að hin vinnan ætti að vera óþörf. Eða hvað? Getur hv. þingmaður aðeins skýrt þetta nánar fyrir mér?
Hitt er annað að ég geri athugasemdir við ýmislegt í yfirferð hans um sögulegan bakgrunn málsins. Mér finnst nauðsynlegt að koma því á framfæri að sá ferill sem hann er að vísa í og endaði í því plaggi sem hér hefur verið endurprentað og dreift í þinginu var náttúrlega gríðarlega umdeildur, ekki bara hér innan þings heldur einnig úti í samfélaginu, og mjög mikil gagnrýni kom fram á þær tillögur sem þarna er að finna. Ágreiningur var bæði um málsmeðferð og um niðurstöðuna. Mér fannst líka þurfa að hafa í huga að það hefur allmikið gerst á síðustu árum frá því að þessar tillögur voru síðast til meðferðar hér á Alþingi. Það að koma með plaggið óbreytt frá vetrinum 2012–2013 tekur nú kannski ekki beinlínis mið af því að hér hefur ýmislegt gerst. Hér hefur t.d. þrisvar sinnum verið kosið til Alþingis, þrír mismunandi meiri hlutar hafa komið að málum og þess háttar. Þannig að það að ætla að skrúfa tímann einhvern veginn til baka er svolítið óraunsæi að mínu mati.
Herra forseti. Hér er ekki verið að gera neina tilraun til að skrúfa tímann til baka. Það væri hins vegar æskilegt ef það væri hægt að ná Sjálfstæðisflokknum inn í samtímann. Ég nefndi það í ræðunni áðan að nefndin sem nú er að störfum er á forræði forsætisráðherra. Henni er stillt þannig upp að enginn einn flokkur hefur neitunarvald. Það væri því mjög óráðlegt af mér sem fulltrúa að taka ekki þátt í þeirri vinnu. Sú vinna er hins vegar langt frá því að vera í takti við það sem lagt var upp með og þjóðin hefur ákveðið með margvíslegum hætti. Þá bendi ég líka á að á minnisblaði sem forsætisráðherra lagði fram í upphafi vinnunnar var talað um heildstæða endurskoðun á stjórnarskrá á tveimur kjörtímabilum. Engu að síður ákvað formaður Sjálfstæðisflokksins að bóka að hann teldi ekki þörf á því. Það má spyrja sig að því hvaða heilindi eru þar.
Hvort hlutir séu umdeildir? Vissulega eru þessir hlutir umdeildir eins og aðrir og þeir eru umdeildir í formannavinnunni en hlutir fá ekkert sérstaklega stimpilinn umdeildir bara ef Sjálfstæðisflokkurinn leggst gegn þeim. Ég býst við því að það sé bara frekar ríkur meiri hluti þjóðarinnar sem telur að það þurfi að ganga ansi langt í breytingum á auðlindaákvæði, umhverfisákvæði, þjóðaratkvæðagreiðslu, framsalsákvæði, umfram það sem heyrist, m.a. á þessum fundum, að Sjálfstæðisflokkurinn sé til í. Hvort vinna formannanna sé óþörf fyrst þetta plagg er komið fram? Ja, ef hinir formennirnir segja: Já, við skulum vinna með þetta frumvarp, laga það til og bæta, þá held ég að það sé betra að við séum að vinna með heildstæða stjórnarskrá en að gera þetta með brotakenndum hætti eins og nú er.
Herra forseti. Ég vek athygli á því að við eru með heildstæða stjórnarskrá og við getum nálgast breytingar á henni þannig að við bætum því við sem við teljum sérstaka þörf á eða breytum því sem við teljum að sé sérstök þörf á. Það er alveg óþarfi að gera eins og stjórnlagaráð gerði, að taka hverja einustu grein núgildandi stjórnarskrár, 79 greinar, og breyta þeim, í sumum atriðum mikið, í sumum atriðum lítið, og bæta svo við 35 nýjum greinum. Það er dálítið mikil breyting fólgin í því. Það er alveg rétt að það hefur verið mjög umdeilt hvort það ætti að fara út í það. Það eru ekki bara þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hafa lagst gegn því. Ég vek athygli á því að ekki á kjörtímabilinu 2009–2013 og ekki á tímabilinu 2013–2016 eða 2016–2017 eða á núgildandi kjörtímabili hefur Sjálfstæðisflokkurinn meirihlutastöðu hér í þinginu. Þannig að það er alveg ljóst að á þinglegum vettvangi dugar andstaða Sjálfstæðisflokksins ekki til.
Kannski er allt í lagi að geta þess hér, þar sem hv. þingmaður minntist á meint málþóf veturinn 2012–2013, sem Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, vitnaði í í grein, líklega á laugardaginn, og ágætur stjórnlagaráðsmaður, Illugi Jökulsson, kallaði „nærri vitfirringslegt málfþóf“. Menn hafa haft ýmis orð um það. Hvað ætli það málþóf hafi staðið í marga klukkutíma? Í 1. og 2. umr. í 40 klukkutíma. Það næði ekki inn á topp 15 listann af málþófsmálum síðustu ára hér í þinginu. Það var nú öll vitfirringin í því máli. Svo við höfum það bara á hreinu, það var ekkert um slíkt að ræða, þó að andstaðan væri mikil hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og þingmönnum Framsóknarflokksins og eiginlega meðal allra fræðimanna sem um þetta fjölluðu og skiluðu álitsgerðum. Það var gagnrýni úr ótalmörgum áttum og ég held að það hafi ekki síst verið þess vegna sem þáverandi ríkisstjórnarflokkar, Vinstri grænir og Samfylking, guggnuðu á því að reyna að keyra þetta mál í gegn 2012–2013.
Herra forseti. Það er alveg rétt að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið í meiri hluta og ég segi nú bara: Guði sé lof. En allt of lengi hefur þessi flokkur verið í þeirri stöðu og hagað sér með þeim hætti. Hann hefur haft völd langt út yfir það sem almenningur treystir honum fyrir. Ég held að það séu ákveðin vatnaskil núna þegar báðir vængir fálkans eru u.þ.b. að sljóvgast. Hann er að lækka flugið og við erum að horfa á hann sigla niður fyrir 20%. Ég held að við munum sjá það. Það eru breytingar.
Það er bara alrangt að verið sé að kollvarpa einhverri stjórnarskrá. Það er verið að gera orðalagsbreytingar. Það þýðir ekki nauðsynlega merkingarbreytingar. Það er verið að endurraða. Það er verið að setja hluti í samhengi. Að tala um heildstæða stjórnarskrá með þá stjórnarskrá sem við erum núna er svona svipað og tala þá um Sjálfstætt fólk og það vantar 7., 11., 13. og 25. kafla í bókina. Reyni menn að lesa hana sér til skemmtunar eftir það. Þannig að ég held að þetta sé mjög nauðsynleg vinna sem við erum að fara í. Mér væri það að meinalausu að vinna þetta inni á formannafundum ef farið væri eftir minnisblaði forsætisráðherra og allir einsettu sér að vinna að heildarendurskoðuninni og það væri verið að vinna í anda tillögu stjórnlagaráðs sem atkvæði voru greidd um í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki verið að gera það og því er þetta bara einfaldlega annar leikur sem við erum að tefla fram. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)
Forseti. Mig langar til þess að þakka hv. þm. Loga Einarssyni, 1. flutningsmanni frumvarpsins, fyrir ræðuna og fyrir að fara svona vel yfir söguna. En ég ætla samt sem áður að fara aftur aðeins yfir söguna því mér finnst það skipta máli upp á að setja þetta mikilvæga mál, sem er nýja stjórnarskráin, í samhengi. En ég ætla kannski ekki að fara jafn ítarlega í það.
Í kjölfar ákalls almennings um samfélagsbreytingar eftir hrun og þjóðfundarins 2009 sem fjallaði einmitt um þróun samfélagsins, þetta framtíðar Ísland sem var ákall eftir, setti Alþingi lög árið 2010 um stjórnlagaþing þar sem ákveðið var að kjósa ætti sérstakt stjórnlagaþing sem ætlað var að endurskoða stjórnarskrána. Með sömu lögum var sett á fót stjórnlaganefnd sem hélt annan þjóðfund árið 2010 þar sem fjallað var sérstaklega um nýju stjórnarskrána og endurskoðun hennar. Í raun var þetta visst áframhald samtalsins sem hófst 2009 enda ljóst að ný stjórnarskrá væri lykillinn að þeirri sameiginlegu framtíðarsýn sem varð til með þessu mikilvæga samtali. Úr stjórnlagaþingi varð til stjórnlagaráð sem vann frumvarp að nýrri stjórnarskrá og hvatti til þess að þjóðin yrði spurð álits með þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tók svo við málinu og fór þar fram mikil vinna, mikil vinna var lögð í þetta mál, þar sem brugðist var við málefnalegri gagnrýni sem hafði komið fram. Samkvæmt þingsályktun Alþingis fór fram, eftir þá vinnu sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kallaði eftir, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um nýju stjórnarskrána og var hún haldin 20. október 2012 þar sem tveir þriðju þeirra sem mættu á kjörstað sögðu að ný stjórnarskrá ætti að taka gildi á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs.
Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna voru ráðnir sérfræðingar til að fara yfir frumvarpið sumarið 2012. Sú nefnd gerði einhverjar breytingar og skrifaði heildstæða greinargerð á grundvelli skýringa stjórnlagaráðs. Málið var lagt fram á Alþingi í nóvember 2012 og var til umræðu þangað til í mars 2013. Meðan málið var til meðferðar Alþingis kallaði formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eftir áliti Feneyjanefndar, nefndar Evrópuráðsins um lýðræði með lögum. Nefndin gaf álit sitt á frumvarpinu og voru því gerð skil í framhaldsnefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en því fylgdu breytingartillögur sem uppfærðu frumvarpið í samræmi við athugasemdirnar sem komu þar. Það þarf að hafa í huga að þetta var síðasta löggjafarþingið fyrir kosningar 2013. Málið var tekið af dagskrá þegar meiri hlutinn stóð frammi fyrir málþófi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem leit út eins og það gæti tekið allan þann tíma sem eftir var af þinginu. Í raun og veru deyr málið þarna og er heldur ekki tekið upp almennilega, enda eru það þessir tveir flokkar sem taka við ríkisstjórnartaumum eftir kosningarnar 2013 og þá er málinu bara stungið ofan í skúffu.
Málið sem við leggjum fram núna, Samfylkingin og Píratar, felur í sér að frumvarpið sé lagt fram í þeirri mynd sem það var eftir vinnu stjórnlagaráðs, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og Feneyjanefndar. Við tökum málið upp eins og það var skilið eftir eftir 2. umr. árið 2013 og leggjum það fram í þeirri von að nú, árið 2019, verði haldið áfram með málið með það að markmiði að ljúka þessu ferli svo að íslenska þjóðin fái loksins samfélagssáttmálann sem hún krafðist eða kallaði eftir eftir hrun, eftir tvo þjóðfundi og þjóðaratkvæðagreiðslu.
Nýja stjórnarskráin endurskoðar alla mannréttindavernd á Íslandi, eflir og styrkir. Hún stendur mun betur vörð um réttindi borgaranna en gildandi stjórnarskrá. Hún kveður á um réttinn til lífs, rétt til að lifa með mannlegri reisn, bann við ómannúðlegri meðferð og vernd gegn ofbeldi. Persónufrelsi, friðhelgi einkalífs, tjáningarfrelsi og réttlát málsmeðferð eru allt borgararéttindi sem eru betur tryggð í nýju stjórnarskránni. En það er ekki það eina. Nýja stjórnarskráin færir nefnilega valdið til þjóðarinnar. Hún gefur þjóðinni vald til að grípa inn í þegar stjórnmálamenn misbeita valdi sínu. Þegar þingmenn og ráðherrar ætla að hlaupa af stað í einhverja vegferð í óþökk þjóðarinnar getur þjóðin stoppað þá af. 10% kjósenda geta kallað lög í þjóðaratkvæðagreiðslu með undirskriftalista og 2% kjósenda geta lagt fram sitt eigið þingmál og 10% geta lagt fram frumvarp sem verður að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu ásamt gagntillögu Alþingis.
Nýja stjórnarskráin tryggir líka betur gagnsæi í störfum stjórnvalda. Það er gríðarleg lýðræðisumbót sem ég skil ekki að nokkur maður geti sett sig gegn. Nýja stjórnarskráin setur umhverfisvernd í fyrsta sæti. III. kafli fjallar um samfélag og náttúru. Við fáum sérákvæði um náttúru Íslands og nýtingu náttúrugæða. Kveðið er á um virðingu og vernd náttúrunnar. Hún kveður á um sameiginlega og ævarandi eign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sem ekki eru í einkaeigu. Nýja stjórnarskráin afmarkar betur vald stjórnmálamanna, þingmanna og ráðherra. Hún er uppfærð miðað við núverandi raunveruleika. Hún tekur ekki mið af stjórnarskrá sem byggir á því að yfir Íslandi sé konungur. Nýja stjórnarskráin var skrifuð með aðkomu þjóðarinnar, bæði karla og kvenna. Gamla stjórnarskráin var skrifuð af dönskum körlum fyrir rúmri öld og hefur verið plástruð af og til. Nýja stjórnarskráin tekur mið af aðstæðum nútímans.
Forseti. Búsáhaldabyltingin var ákall um raunverulegar samfélagsbreytingar. Ríkisstjórnin féll, seðlabankastjóri vék og menningin breyttist að vissu leyti en krafan um nýja stjórnarskrá stendur eftir. Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn og krafan er skýr. Við sem leggjum þetta frumvarp fram erum að velja að virða vilja hennar og leggja til að Alþingi klári málið.
Hæstv. forseti. Ég fer alltaf í talsverða varnarstöðu þegar menn nota í málflutningi sínum: Þjóðin kallar eftir, þjóðin vill. Nýleg könnun sýnir að þjóðin hefur engan áhuga á nýju stjórnarskránni, (Gripið fram í: Rangt.) bara engan áhuga og þykir sú gamla skárri ef eitthvað er. Það er enginn að kalla eftir þessu.
Ég ætla ekki að fara að halda ræðu. Ég ætlaði aðeins að spyrja einnar spurningar af því að því er haldið fram hér að þetta frumvarp byggist á því að inni í því séu breytingar frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, meiri hluta hennar væntanlega, og ábendingar Feneyjanefndarinnar. Ég spyr hv. þingmann: Eru allar aðvaranir og ábendingar Feneyjanefndarinnar þarna inni eins og þær voru? Ég fullyrði að svo er ekki. Ég get í sjálfu sér ekkert ætlast til þess að hv. þingmaður viti það en að mínu viti, þegar verið er að breyta stjórnarskrá, ætti ekki að gera það á þann hátt sem það var gert við þær aðstæður í samfélaginu þar sem þjóðin var í áfalli. Það sem stjórnmálamönnum datt í hug og eyddu orkunni í á þeim tíma, í þeim hremmingum, var að gjörbreyta stjórnskipan Íslands, koma með nýja stjórnarskrá sem í grunninn er samin á einu sumri. Þótt reynt hafi verið að tjasla upp á hana og taka tillit til nokkurra athugasemda var það ekki gert nema að hluta.
Ég segi einu sinni enn: Ég varð aldrei var við að þjóðin hefði kallað eftir þessu. Þjóðin hefur auðvitað áhuga á ýmsum breytingum og í þeim hefur verið unnið. Það er ekkert óeðlilegt að færa stjórnarskrána meira til nútímans en hún er og ég er ekki á móti neinum breytingum. Það má breyta fullt af atriðum í stjórnarskránni.
Forseti. Það er ekkert nýtt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu andstæðingar nýrrar stjórnarskrár og þessa frumvarps sem við leggjum hér fram. Varðandi það hvort tekið hafi verið tillit til allra athugasemda er það væntanlega ekki svo, enda sagði ég það ekki í ræðu minni. Ég sagði að tekið hefði verið tillit til málefnalegrar gagnrýni sem kom fram og væntanlega einhverra tillagna. En ef hv. þm. Brynjar Níelsson er með tillögur að breytingum þá situr hann í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hlýtur að vera rétti vettvangurinn fyrir hann til að koma áhyggjum sínum á framfæri í þeirri áframhaldandi vinnu sem fer að öllum líkindum fram í nefndinni, af því að ég vænti þess að þetta frumvarp fari til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það hefur gríðarlega mikil vinna farið í þetta plagg og hv. þingmaður hlýtur að vera sammála því. Ég vona það.
Ég spyr, þótt það sé ekki hefðin að spyrja þegar maður situr sjálfur fyrir svörum, hvort hv. þingmaður sé ekki sammála því að ferlið við að skrifa nýja stjórnarskrá, með aðkomu þjóðarinnar og allri þeirri vinnu sem hefur farið fram hjá stjórnlagaráði og í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hjá nefnd sérfræðinga og öðrum þeim sem hafa komið að gerð plaggsins sem er til umræðu, sé ekki lýðræðislega en það ferli sem fór í gang þegar við tókum við stjórnarskrá frá Dönum.
Hæstv. forseti. Það má kannski segja að stjórnarskráin sem tók gildi hafi ekki farið í neitt sérstaklega lýðræðislegt ferli, við vorum ekki einu sinni sjálfstæð þjóð þegar við tókum hana upp, enda allar þessar stjórnarskrár í grunninn þær sömu og sama stjórnskipan. Ég er ekkert á móti breytingum en það skiptir mig miklu máli hvernig þær eru framkvæmdar og það er ekki við aðstæður eins og þær sem voru uppi þegar menn fóru í breytingarnar á sínum tíma, auðvitað bara með aðkomu þeirra sem höfðu áhuga á að breyta miklu og búa til nýja stjórnarskrá. Það endurspeglar ekki endilega þjóðina þó að þetta fyrirkomulag hafi verið haft á.
Það er rétt að lögð var heilmikil vinna í þetta, mjög mikil vinna, sérstaklega eftir að tillögurnar komu frá stjórnlagaráðinu. Það var lögð mikil vinna í þetta og farið yfir það af sérfræðingum og það er enn verið að gera það. Ég legg hins vegar miklu meiri áherslu á að þetta verði ekki gert á þann hátt að einhver hópur verði kosinn eða skipaður, eins og gert var með stjórnalagaráð, sem kemur svo hér og segir: Jú, þið megi kannski koma með einhverjar ábendingar og laga þetta en í grunninn er það svona. Fólk var ekkert að kjósa um það. Það sem fólkið í landinu hefur áhuga á er einkum tvennt, ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu og ákvæði um auðlindir. Að mínu viti hefur þjóðin ekki kallað eftir neinu öðru svo að áberandi sé. Þess vegna held ég að mikilvægt sé að allar breytingar verði unnar áfram, ég tala nú ekki um stórar breytingar og gjörbreytingar, að þær verði gerðar í sæmilegri sátt, þverpólitískri sátt. Annars verður þetta aldrei neitt sem við getum kallað samfélagssáttmála. Þá er bara meiri hlutinn að berja minni hlutann niður. Ég tel þá leið ekki skynsamlega sem reynt var að fara á árunum eftir hrun.
Forseti. Ég ætla bara að þakka hv. þingmanni fyrir að koma hingað upp og tjá skoðanir sínar á skoðunum íslensku þjóðarinnar og sínar túlkanir á vilja þjóðarinnar, sínar tilfinningar varðandi nýja stjórnarskrá og allt það. Það er bara fínt en ég er í grunninn ósammála hv. þingmanni, enda held ég að við séum hugmyndafræðilega séð algjörlega á öndverðum meiði hvað það varðar. (BN: Það er rétt.) Það er rétt.
Ég er þó ánægð með að hv. þingmaður sé sammála því að það hafi ekki verið lýðræðislegt ferli sem fór í gang á þeim tíma sem við tókum við stjórnarskránni frá Dönum. Mér þykir stórfurðulegt að tala um að það þurfi að vera þverpólitísk sátt. Ég hefði talið að það skipti mestu máli að þjóðin kæmi að gerð nýrrar stjórnarskrár, að þjóðin sem stjórnarskrárgjafinn kæmi að þessari vinnu. Það er það sem skiptir í grunninn mestu máli. Hv. þingmaður hlýtur að geta fagnað því að nú kemur stjórnarskráin til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og hann getur þá komið sínum skoðunum á framfæri í þeirri vinnu sem þar mun fara fram.
Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að setja á langar tölur. Hv. þm. Logi Einarsson rakti mjög vel aðdraganda þessa máls og sögu þess og ég ætla ekki að endurtaka það sem hann sagði. Ég ætla bara að minna á að þessi vinna fór í gang eftir að hér hafði orðið hrun, ekki bara efnahagslegt hrun og ekki bara bankahrun, ekki bara fjármálalegt hrun heldur var líka um að ræða menningarlegt hrun og siðferðilegt sjálfsmyndarhrun hafði átt sér stað. Fólki þótti sem undirstöður samfélagsins hefðu brostið og að mjög brýnt væri að finna samfélaginu undirstöður að nýju. Þess vegna var farið af stað í þá margháttuðu og miklu vinnu sem hófst eins og við munum með þjóðfundum.
Þetta mál var lagt fram í fyrra, líka af þingflokki Pírata, og þá varð hér nokkur og ágæt umræða um málið. Ég minnist þess að hv. þm. Helga Vala Helgadóttir gerði m.a. að umtalsefni, og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson líka, ef ég man rétt, 30. gr. núgildandi stjórnarskrár sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
„Forsetinn veitir, annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.“
Ég endurtek: Samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til. Hvaða reglum? Hefur verið farið eftir einhverjum reglum hingað til um undanþágur sem aldrei hafa verið veittar? Hvernig á að veita undanþágur eftir reglum sem farið hefur verið eftir hingað til ef þær hafa aldrei verið notaðar? Þarna er ekki nóg með að forsetinn geti veitt hvar og hvenær sem er undanþágur frá lögum heldur getur hann falið öðrum stjórnvöldum að veita slíkar undanþágur.
Þessi grein hefur aldrei verið virkjuð og kannski er hún dauður bókstafur eins og við héldum líka um 26. gr. sem raunar var virkjuð af fyrrverandi forseta Íslands. Svona grein er hins vegar stórhættuleg ef í embætti forseta Íslands veldist valdasjúkur einstaklingur með einræðistilburði sem sæi þarna leið til að komast hjá því að fylgja lögum eða þá frámunalega veikur forseti en mjög valdagráðug ríkisstjórn sem léti þann forseta fela sér að veita slíkar heimildir til að veita undanþágu frá lögum samkvæmt reglum sem farið hefur verið eftir hingað til.
Þessi grein er náttúrlega dæmi um það hversu vönduð ríkjandi stjórnarskrá er. Hér er lagagrein sem er óljós og torskilin, mjög teygjanleg og túlkanleg. Hún varðar hreinlega grundvallarvald þeirra sem eiga að fara með völdin hér á landi og getur í höndum einhverra snúist þannig að það sé jafnvel hætta á einhvers konar gerræði. Ég held að þessi grein sé, og þess vegna geri ég hana að umtalsefni, ágætt dæmi um þann vanda sem við stöndum frammi fyrir sem er ekki síst sá að ýmis ákvæði gildandi stjórnarskrár eru óljós, torræð og túlkanleg og hafa kannski leitt til þess stundum að lögmenn hafa getað túlkað lög af hugvitssemi og fimi sem hefur líka leitt til þess að það hefur verið erfitt að koma lögum yfir menn.
Stjórnarskráin nýja var unnin í löngu og góðu ferli og ég þarf ekki að minna þingheim á hvernig það fór fram. Þar var vandað til verka og unnið af heilindum og sáttfýsi á öllum stigum málsins fram undir það síðasta. En maður hafði engu að síður á tilfinningunni, eins og hefur raunar komið fram í umræðunni hér, að lögmönnum, lögspekingum, stjórnmálafræðingum og sumum alþingismönnum fyndist eins og hér væri kannski verið að hlutast til um þeirra mál. Það væri jafnvel verið að skipta sér af einhverju sem þeim einum kæmi við. Stjórnarskráin væri mál lögspekinga sem fást við að túlka hana og vinna með hana. En það er ekki svo, því miður. Stjórnarskrá verður að sjálfsögðu ekki búin til nema í miklu og nánu samráði við allt það fólk sem kann best til verka og það var líka gert. Hitt er þó algjört grundvallaratriði. Stjórnarskráin er ekki einkamál lögmanna og stjórnmálamanna. Hún varðar okkur öll. Stjórnarskráin snýst ekki bara um grundvöll samfélagsskipanarinnar heldur daglegt líf okkar allra og framtíð barnanna okkar. Þetta snýst um sjálfbærni, mannréttindi, lýðræði, valdið í samfélaginu. Þetta eru grunnlögin okkar allra.
Stjórnarskráin er aldrei alveg útrætt mál og allra síst með greinum eins og 30. gr. sem ég nefndi áðan. Stjórnarskráin er ekki háð náttúrulögmálum eða partur af þeim, hún er ekki eins og veðrið, fjöllin eða hafið. Hún er mannanna verk. Stjórnarskráin er ekki ytri aðstæður sem við höfum ekkert um að segja heldur er stjórnarskráin innri aðstæður samfélagsins sem við sjálf mótum saman. Það gerum við með því að gera sáttmála hvert við annað um ákveðnar grundvallarreglur í samskiptum okkar, grundvallarleikreglur í samfélaginu, grundvallarlög, enda heitir stjórnarskráin í nágrannalöndum okkar grunnlög, grundvallarlög. Hún er grundvöllurinn undir öllu, lifandi plagg.
Hver er nauðsyn á að breyta stjórnarskrá eða fá nýja stjórnarskrá? Margir spyrja sig þeirrar spurningar. Af hverju þurfum við að vera eitthvað að breyta þessu? Er þetta ekki bara ágætt eins og það er? Myndi ekki bara óvissa fylgja þessu? spyrja margir. Þá held ég að því sé til að svara að núgildandi stjórnarskrá fylgir óvissa. Manni finnst stundum þegar maður horfir á íslenskt samfélag í gegnum áratugina eins og það hafi stundum verið spunnið af fingrum fram af löggjafar- og framkvæmdarvaldi, það hafi verið „impróvíserað“ nánast dag frá degi af helstu valdamönnum sem hafa þá gripið til ýmiss konar lagaúrræða. Þessi nýja stjórnarskrá finnst mér vera viðleitni til að koma á meiri formfestu, meiri lögfestu í íslensku samfélagi sem ég tel fagnaðarefni.
Það hefur þráfaldlega komið fram hjá fræðimönnum að við lýðveldisstofnunina var almennt litið svo á meðal íslenskra ráðamanna að stjórnarskráin væri bráðabirgðaplagg og að hana yrði að endurskoða fyrr en síðar. Þeir skrifa um þetta hver af öðrum og það kom fram í umræðum á Alþingi. Einn þeirra fræðimanna sem hafa ritað um þetta og rakið þessa sögu vel er núverandi forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem starfaði á árum áður sem sagnfræðingur og skrifaði ágæta grein árið 2011 sem heitir „Tjaldað til einnar nætur“ og oft er vitnað til. Ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa, eins og ég gerði raunar í umræðum um málið í fyrra og ætla þá að endurtaka það, niðurlagsorð þeirrar ágætu greinar Guðna. Hann skrifar:
„Í skrifum um lýðveldisstjórnarskrána er stundum gert of lítið úr þeirri grundvallarstaðreynd að henni var aldrei ætlað að standa lengi í óbreyttri mynd. Málamiðlanir til bráðabirgða verða þannig að fyrirmyndarlausnum til framtíðar. Vera má að pólitísk viðhorf ráði einhverju um þetta. Sagan af aðdraganda lýðveldisstjórnarskrárinnar sýnir hins vegar svo ekki verður um villst að til urðu málamiðlanir sem áttu að vera tímabundnar. Þetta gildir ekki síst um ákvæði um skiptingu valds milli ráðamanna sem segja eitt en þýða annað í raun. Stjórnarskrár eiga að vera skýrar en þannig er bráðabirgðasmíðin frá 1944 ekki, enda hefur hún engum orðið fyrirmynd og engin áhrif haft annars staðar í heiminum.
Í aðdraganda lýðveldisstofnunar vildu ráðamenn á Alþingi réttilega stefna að einingu þjóðarinnar. Þeir vissu að samstaðan næðist ekki ef stjórnmálaflokkarnir tækjust á um nýja stjórnarskrá. Því var ákveðið að lögfesta lítt breytta stjórnarskrá til bráðabirgða en endurskoða hana svo við fyrsta tækifæri. Lýðveldið sem Íslendingar stofnuðu skyldi vara um aldur og ævi en stjórnarskráin ekki, enda mátti enn þá sjá að hún hafði að miklum hluta verið samin í danska kansellíinu eins og Jón forseti komst að orði á sínum tíma. Því má segja — með stjórnarskrána í huga — að 17. júní 1944 hafi Íslendingar tjaldað til einnar nætur á Þingvöllum, í gömlu dönsku tjaldi.“
Herra forseti. Ég ætla að staldra við kannski tvö atriði í máli hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar. Í fyrsta lagi er það að stjórnarskrá er, eins og hann bendir réttilega á, mannanna verk. Tillögur til breytinga á stjórnarskrá eru líka mannanna verk og ekki hafnar yfir gagnrýni, geta sætt breytingum og þess háttar. Það á líka við um tillögur þess ágæta hóps sem kenndur hefur verið við stjórnlagaráð og þess vegna held ég að við hljótum öll að áskilja okkur rétt til þess að hafa hvaða skoðanir sem er á þeim tillögum sem þar komu fram.
Hv. þingmaður vísar til þess, eins og oft hefur verið gert í umræðum, að lýðveldisstjórnarskráin hafi verið hugsuð til bráðabirgða. Það er vissulega rétt að í umræðum á þingi og í samfélaginu um það leyti var gert ráð fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ýmsar atlögur hafa verið gerðar að því og reyndar er það nú svo að stjórnarskránni hefur verið breytt sennilega í einum sjö áföngum frá því að lýðveldisstjórnarskráin var tekin upp og meiri hluti núgildandi ákvæða stjórnarskrárinnar eru breytt frá 1944, bara þannig að það sé haft í huga. Við erum ekkert með sama plaggið og við vorum með 1944, hvað þá 1874, líkt og stundum er látið í veðri vaka. Jafnvel þó að grunnurinn sé sá sami hafa orðið verulegar breytingar. Ég segi fyrir mitt leyti og kannski fyrir hönd míns flokks að við höfum ávallt léð máls á því að það væri ástæða til að taka einstök ákvæði stjórnarskrárinnar fyrir og breyta þeim, einstaka kafla. Við höfum ekki hafnað því að bæta við nýjum köflum eða fella út ákvæði eins og hv. þingmaður nefndi um forsetann. Við höfum bara ekki talið ástæðu til að fara í þá allsherjarumritun og endurskoðun sem þetta ágæta stjórnlagaráð gerði ráð fyrir.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar sitt. Já, já, það var fólk sem var í stjórnlagaráði og þar með eru tillögur þess ráðs mannanna verk, það er alveg rétt. Stjórnlagaráð fór hins vegar eftir ákveðnu ferli í vinnu sinni. Það var kosið til stjórnlagaráðs eftir ákveðnum reglum og síðan eftir dóm Hæstaréttar veitti Alþingi fulltrúum í stjórnlagaráði mjög eindregið og skýrt umboð til starfa sinna, sem þetta fólk vann síðan eftir og vann af miklum heilindum. Ég verð að segja að mér hefur þótt stundum að vinna stjórnlagaráðs mætti vera okkur á hv. Alþingi til fyrirmyndar um það hvernig hægt er að vinna saman og hvernig hægt er að leiða saman ólík sjónarmið. Þeim tókst með undraverðum hætti að búa til þetta plagg sem síðan kemur inn í þingið og þingið tekur svo að vinna við eftir þeim reglum sem gilda um þau mál sem koma hingað inn. Það tókst að lenda því með vandaðri og mikilli vinnu þar sem ekki var síst horft til þess sem fræðimenn höfðu fram að færa. Voru margir gagnrýnir á ýmislegt í tillögum stjórnlagaráðs sem tekið var mið af í vinnu þingsins svo að úr varð þetta vandaða og góða plagg sem við í Samfylkingunni og Píratar höfum leyft okkur að leggja fram hér á ný.
Hæstv. forseti. Það var auðvitað mikil vinna sem átti sér stað á vettvangi þingsins á þessum tíma en hins vegar var henni ekki lokið. Þáverandi meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði að vísu fram tillögur sínar en það er ekki hægt að líta svo á að því ferli hafi með neinum hætti verið lokið. Ég sat í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á sínum tíma þegar þessi málsmeðferð átti sér stað og mótmæli þeirri fullyrðingu að tekið hafi verið mikið mark á álitum þeirra fræðimanna sem um þetta fjölluðu. Það var komið til móts við ákveðnar og tiltölulega þröngar lagatæknilegar athugasemdir um hluti sem ekki gengu upp í tillögum stjórnlagaráðs en að mínu áliti var harla lítið hlustað á alvarlegar athugasemdir sem komu fram af hálfu bæði stjórnlagafræðinga, stjórnmálafræðinga, Feneyjanefndarinnar og fleiri aðila sem um þetta fjölluðu meðan á málsmeðferð stóð.
Það er síðan önnur saga og rétt að halda því til haga að það voru öll, a.m.k. flest, skref sem stigin voru í þessu ferli á árunum 2007–2013 mjög umdeild, enda var verið að fara í ákveðna tilraunastarfsemi fram hjá hefðbundnum farvegi stjórnarskrárbreytinga, fram hjá þeim farvegi sem stjórnarskráin sjálf kveður á um og það ferli lenti oft úti á túni eða úti í skurði eins og stundum er talað um.
Tökum eitt lítið dæmi. Það er efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem svarið er já eða nei. Það er spurt: Eiga tillögur stjórnlagaráðs að liggja til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? Á þeim tíma þegar þessarar spurningar er spurt í þjóðaratkvæðagreiðslu liggja ekki fyrir tillögur (Forseti hringir.) t.d. sérfræðinganefndar sem þáverandi meiri hluti á Alþingi hafði sett til verka til að fara yfir tillögurnar. Þetta var allt í miðju ferli (Forseti hringir.) þegar svona spurningar er spurt. Sspurningin er sú, hv. þingmaður, hvort bara slík einföld atriði í málsmeðferð veiki ekki (Forseti hringir.) skuldbindingargildi niðurstöðu atkvæðagreiðslu af þessu tagi.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir andsvarið. Ég held að það sé alveg ljóst að við séum ekki alveg á einu máli um þetta en samt tekur flokkur þingmannsins, Sjálfstæðisflokkurinn, væntanlega og vonandi af heilum hug, þátt í þeirri vinnu sem hæstv. forsætisráðherra hefur komið af stað við endurskoðun stjórnarskrárinnar.
Hv. þingmaður talaði um að það hefði verið farið — ég reyndi að hripa orðalagið niður hjá mér — fram hjá hefðbundnum farvegi stjórnarskrárbreytinga. Hann talaði um hefðbundinn farveg stjórnarskrárbreytinga og það held ég dálítið að sé kjarni málsins vegna þess að maður getur spurt: Hver var hefðbundinn farvegur stjórnarskrárbreytinga í íslenska lýðveldinu? Hann var sá að skipa nefndir sem hittust kannski einu sinni í mánuði og drukku kaffi, kannski heima hjá Gunnari Thoroddsen, og spjölluðu um stjórnarskrána og höfðu það notalegt og kannski býsnuðust dálítið yfir því að það væri ýmislegt sem þyrfti að lagfæra þegar betur stæði á (BÁ: Og skiluðu sér í slatta af stjórnarskrárbreytingum.) og skiluðu aldrei þeirri endurskoðun stjórnarskrárinnar sem ætlast var til að þeir skiluðu vegna þess að það var ævinlega skilningur þeirra sem tóku þátt í stofnun lýðveldisins Íslands að þessi gamla danska stjórnarskrá væri ekki sú stjórnarskrá sem íslenskt lýðveldi ætti að grundvallast á til langframa.
Virðulegur forseti. Heiðarleiki, virðing, réttlæti, jafnrétti. Þetta eru þau skýru sameiginlegu grunngildi sem yfir 1.200 manneskjur sammæltust um árið 2009 að hafa skyldi að leiðarljósi við vinnu þeirra að nýrri framtíðarsýn fyrir Ísland. Sú vinna fór ekki fram í tómarúmi. Hún var svar við ákalli þjóðarinnar um bætt samfélag fyrir alla, samfélag sem byggði á grunngildum sem markvisst hafði verið grafið undan í aðdraganda hrunsins. Þjóðfundurinn varð til vegna þess trúnaðarbrests sem varð milli þings og þjóðar í kjölfar bankahrunsins. Þá vöknuðu margir upp við vondan draum og sáu að stjórnmálamenn höfðu ekki farið vel með það umboð sem þeim hafði verið veitt til að starfa í þágu þjóðarinnar. Tengsl milli stjórnmálamanna og viðskiptalífsins voru of sterk og of vinaleg. Fjölmiðlar voru veikir og gátu illa sinnt starfi sínu. Eftirlitsstofnanir brugðust hlutverki sínu gagnvart bönkunum og ríkisstjórnin flaut sofandi að feigðarósi. Það má reyndar segja að sumir innan hennar hafi verið vakandi á þeirri vegferð en haldið að sér höndum í andstöðu við þjóðarhag.
Úr varð stjórnlagaráð sem færði Alþingi drög að nýrri stjórnarskrá, drög sem samþykkt voru með góðum meiri hluta atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir rúmum sjö árum síðan. Þetta er þjóðaratkvæðagreiðsla sem Alþingi Íslendinga hefur neitað að virða, hefur neitað að leita leiða í lög allar götur síðan.
Forseti. Flokkarnir sem mynda ríkisstjórn Íslands í dag hafa haft mislangan tíma til að tryggja að farið verði að vilja þjóðarinnar um innleiðingu nýrrar stjórnarskrár en allir hafa þeir haft tækifæri til þess. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn völdu að stinga stjórnarskránni ofan í skúffu þegar þeir tóku við stjórnartaumunum árið 2013. Vinstrihreyfingin – grænt framboð valdi svo árið 2017 að mynda ríkisstjórn með þessum flokkum sem hafa sýnt það í verki að þeir standa í vegi fyrir kröfu þjóðarinnar um nýjan samfélagssáttmála. Eflaust héldu margir að atkvæði til Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, atkvæði til hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur myndi leiða til þess að hún myndi beita sér fyrir því að lýðræðislegur vilji þjóðarinnar, stjórnarskrárgjafans okkar, yrði virtur. En því miður er staðan sú árið 2019 að meiri hluta þessa þings finnst ásættanlegt að geyma nýju stjórnarskrána áfram ofan í skúffu og semja frekar sín á milli um einstök ákvæði frumvarpsins. Því miður er staðan sú árið 2019 að við höfum forsætisráðherra sem situr í skjóli svikinna loforða, loforða sem hún gaf eigin kjósendum sem síst af öllu kusu hana til að gegna hlutverki öndunarvélar fyrir aðframkomið valdakerfi, forsætisráðherra sem talar fjálglega um samráð við almenning um úrbætur á stjórnarskrá en hunsar þó frumvarp stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár í nafni sátta og samráðs við Sjálfstæðisflokkinn, flokk sem ávallt hefur staðið gegn nýju stjórnarskránni, gert lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni og lýðræðislegum vilja þjóðarinnar sem þar birtist.
Forseti. Í besta falli lýsir þessi nálgun meiri hluta Alþingis grundvallarmisskilningi á eðli stjórnarskrárinnar sem samfélagssáttmála og þjóðinni sem stjórnarskrárgjafanum sem setur okkur, löggjafanum, leikreglur lýðræðisins. Í versta falli lýsir hún sjö ára djúpstæðri andstöðu valdhafa við lýðræðið og mikilli óvirðingu þingsins gagnvart því umboði sem þjóðin veitir því.
Forseti. Við sem hér störfum eigum að ganga fram með góðu fordæmi og taka ábyrgð, segja satt og rétt frá og standa við orð okkar, ekki fela okkur á bak við tæknilegt kjaftæði um að við höfum aldrei beinlínis lofað því að leiða ekki Sjálfstæðisflokkinn til valda. Ekki segjast fyrir kosningar styðja að frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá verði að lögum en segja svo eftir kosningar að stjórnarskrána megi búta í sundur og bixa með að vild.
Forseti. Mér líður pínu eins og bilaðri plötu því ég hef áður flutt þessa ræðu og aðra eins. Í umræðum um síðustu stefnuræðu forsætisráðherra reyndi ég við bjartsýni og vildi hvetja ríkisstjórnina til dáða með hugrekki og þor að leiðarljósi. Ég sagði að vissulega þyrfti hugrekki til að takmarka sitt eigið vald. Það þarf þor til að standa með vilja þjóðarinnar, jafnvel þó að hann kunni að skarast á við eigin hagsmuni. Það þarf bjartsýni til að takast á við þær breytingar sem ný stjórnarskrá hefur í för með sér, bjartsýni og bjargfasta trú á að þjóðin viti best hvernig landinu skuli stjórnað og hvernig takast skuli á við nýja tíma í óvissum heimi.
Þessi afstaða mín hefur ekki breyst, forseti. Og nú er lag fyrir hv. þingmenn meiri hlutans og hæstv. ríkisstjórn að bregðast við hvatningu minni. Það er að vísu vonbrigði að enginn hv. þingmaður annarra flokka og þá enginn hv. þingmaður meirihlutaflokkanna noti tækifæri til að halda ræðu, a.m.k. ekki að svo komnu máli. Koma vissulega upp í andsvör við okkur flutningsmenn en kjósa að deila ekki sinni sýn með þjóðinni, nú þegar við leggjum stjórnarskrána aftur fram, spyrja okkur út í tæknileg atriði í stað þess að deila sinni sýn í eigin ræðu.
Forseti. Tækifærið er enn til staðar. Við Píratar og Samfylkingin leggjum til að Alþingi virði vilja þjóðarinnar og leiði nýja stjórnarskrá í lög. Píratar lögðu frumvarpið fram á síðasta þingi í því horfi sem þingið skildi við það þegar því var stungið ofan í skúffu árið 2013. Samfylkingin hefur nú tekið við keflinu og flytur málið á þessu þingi. Með framlagningu frumvarpsins viljum við gefa öllum þjóðkjörnum þingmönnum hér tækifæri til að leiða lýðræðislegan vilja þjóðarinnar, stjórnarskrárgjafans, í lög. Ég vil hér með hvetja hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, til að víkja af þeirri braut að búta vilja þjóðarinnar niður og semja um hann við Sjálfstæðisflokkinn. Ég vil hvetja hana til að leggja okkur lið og að efna loforð sem hún hefur gefið og virða vilja stjórnarskrárgjafans á Íslandi og greiða götu þessa frumvarps í gegnum þingið.
Hæstv. forseti. Hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir lýsti sjálfri sér eins og bilaðri plötu þegar hún væri að fjalla um þessi mál. Ég get tekið undir það og snúið því upp á sjálfan mig líka vegna þess að auðvitað upplifi ég mig stundum eins og bilaða plötu í þessu sambandi. Hún lýsti eftir því í þessari umræðu að þingmenn aðrir en stuðningsmenn frumvarpsins gerðu grein fyrir sinni skoðun. Ég sé nú til hvað ég fer ítarlega í það. En það ætti hins vegar engum að koma á óvart sem hefur tekið þátt í umræðum um þessi mál á undanförnum árum að ég og minn flokkur höfum lýst okkur reiðubúna til að fara í afmarkaðar breytingar, lýst okkur reiðubúna til að taka ákveðna kafla og ákveðin atriði núgildandi stjórnarskrár til endurskoðunar. Ýmislegt hefur verið nefnt í því sambandi en m.a. er það forsetakaflinn þar sem menn hafa margir hverjir verið samstiga um að það væri eðlilegra að færa orðalag ákvæðanna til samræmis við veruleikann, ekkert endilega að fara í miklar efnislegar breytingar heldur að færa orðalag ákvæðanna til samræmis við veruleikann. Eins höfum við fallist á að taka þátt í vinnu sem hefur miðað að því að koma ákveðnum nýmælum inn í stjórnarskrá. Sjálfur átti ég þátt í starfi á árabilinu 2013–2016 þar sem sérstaklega var verið að skoða þrjú ný ákvæði um auðlindir, um umhverfismál og náttúruvernd og um þjóðaratkvæðagreiðslur. Mikil vinna fór í þessi nýju ákvæði á þeim tíma. Ég tek undir að það geti verið tilefni til þess að taka slíkar breytingar inn. En það er hins vegar alveg skýr afstaða af minni hálfu og míns flokks að við teljum ekki þörf á þeim víðtæku breytingum sem tillögur stjórnlagaráðs og þar af leiðandi þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Sú afstaða hefur alveg legið skýr fyrir.
Virðulegur forseti. Ég er kannski aðeins að reyna að átta mig á því hvers konar andsvar þetta var, nema hvað hv. þingmaður lýsir hér yfir að honum, rétt eins og mér, líði eins og bilaðri plötu í umræðum um þetta mál. Það er vissulega ágætt að við séum sammála um eitthvað þegar kemur að stjórnarskránni og umræðum um hana. Það sem ég var hins vegar að gagnrýna, virðulegur forseti, með ummælum mínum í ræðu minni var að hér erum við að ræða um nýju stjórnarskrána sem flokkur hv. þingmanns hefur staðið gegn og sá flokkur nýtir ekki tækifæri til þess að koma í ræðu og útskýra fyrir okkur hvers vegna hann standi gegn niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012, hvernig hann réttlæti að virða ekki vilja þjóðarinnar í þessu máli en tali svo um þjóðaratkvæðagreiðslur í öðru máli eins og þær eigi að skipta nokkru einasta máli í framhaldi þeirrar framkomu.
Hv. þingmaður tók til áðan að hann væri opinn fyrir því að skoða ákveðna kafla og ákveðin ákvæði í stjórnarskránni og endurskoða þau, væntanlega eftir hentugleika síns flokks og því sem honum þóknaðist. En það er ekki til umræðu hér. Það sem er til umræðu er frumvarp stjórnlagaráðs sem var lagt til grundvallar vinnu sem átti að snúa að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Það er flokkur hans sem einna helst hefur staðið gegn því að svo megi verða. Mér þætti því tilefni til þess að þingmenn úr flokki hv. þingmanns kæmu hingað og skýrðu hvers vegna þeir virða ekki vilja þjóðarinnar og hvers vegna þjóðin ætti nokkru sinni að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu aftur ef þetta er viðhorfið sem henni mætir í kjölfarið.
Hæstv. forseti. Ég gengst auðvitað við því að hafa ásamt flokki mínum staðið gegn því að tillögur stjórnlagaráðs væru lagðar til grundvallar breytingum á stjórnarskrá. Hins vegar höfum við, eins og ég kom að í fyrra andsvari, verið þeirrar skoðunar að það væri eðlilegt að taka ákveðin atriði til endurskoðunar og bæta við nýmælum, m.a. um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur í tilteknum tilvikum. Það liggur fyrir að þegar stjórnarskráin mælir fyrir um að þjóðaratkvæðagreiðslur, að tilteknum forsendum uppfylltum, séu bindandi stendur slík niðurstaða. Þjóðaratkvæðagreiðslan 2012 var mjög gölluð að mínu mati og get ég bara vísað til umræðna sem áttu sér stað á Alþingi í aðdraganda þeirrar lagasetningar þar sem afstaða mín í þeim efnum kom mjög skýrlega fram, að ég teldi mjög einkennilegt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu með mál sem væri í miðju ferli, ekki komið að endapunkti, spurningarnar væru óljósar og ómarkvissar og fleira í þeim dúr. Það lá því alveg fyrir að það var andstaða við þessa þjóðaratkvæðagreiðslu.
Síðan má geta þess að þjóðaratkvæðagreiðslan vakti nú ekki meiri stemningu í samfélaginu á sínum tíma en svo að það náðist ekki helmingur atkvæðisbærra manna á kjörstað til að greiða atkvæði. Það var hin gríðarlega þunga krafa þjóðarinnar sem birtist í því, (Gripið fram í.) með sama hætti og þegar kosið var til stjórnlagaþings í kosningum sem seinna voru úrskurðaðar ólögmætar vegna galla á framkvæmdinni, það var rétt rúmur þriðjungur atkvæðisbærra manna sem mætti til þess að kjósa í þeirri atkvæðagreiðslu. Það voru næstum því fleiri í framboði en mættu til að kjósa.
Virðulegur forseti. Hér kristallast kannski ástæðan fyrir gagnrýni minni á að hv. þingmaður komi ekki bara hingað upp í ræðu vegna þess að ég myndi vilja spyrja hann ótal spurningar á móti. Hvers konar staðla hefur hv. þingmaður fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi Íslendinga ber að taka mark á? Eru sumar betri en aðrar? Á hv. þingmaður sér uppáhaldsþjóðaratkvæðagreiðslu sem framkvæmd var með þeim stöðlum sem hann vildi óska? (BÁ: Sumar eru bindandi, aðrar ekki t.d.) Hv. þingmaður vísar hér úr salnum í bindandi og ekki bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur. En ég spyr hv. þingmann — og fæ náttúrlega ekki svar vegna þess að hv. þingmaður kemur í andsvar við mig en heldur engar ræður um þetta mál: Af hverju ætti þjóðin að halda að nokkurt mark verði tekið á henni aftur? Af hverju ættum við að komast einu sinni upp fyrir 50% í einni einustu þjóðaratkvæðagreiðslu eftir þessa, þegar það eina sem Alþingi Íslendinga gerir er að gefa frat í skoðanir þjóðarinnar? (Gripið fram í.)
Herra forseti. Það er ekki svo að áhugi á því að gera heildarendurskoðun á stjórnarskránni hafi vaknað eftir hrun heldur var búið að reyna að fara í þá vegferð mörgum sinnum og með alls konar tilbrigðum. Að öðrum ólöstuðum held ég að Jóhanna Sigurðardóttir hafi sem þingmaður verið ötul við að reyna að koma slíkum breytingum á.
Herra forseti. Hér hefur verið farið yfir söguna og vinnuna að því plaggi sem við ræðum. Ég ætla líka að gera það vegna þess að hún er merkileg, þessi saga, og ég held að það sé mjög mikilvægt að við höfum hana á takteinum og höfum á hreinu hvernig plaggið sem við ræðum var undirbyggt og af hverju það er mikilvægt að klára vinnuna.
Þegar Jóhanna Sigurðardóttir, sem þá var formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, mælti fyrir frumvarpi til laga um stjórnlagaþing árið 2010 sagði hún m.a. þetta, með leyfi forseta:
„Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um stjórnlagaþing sem lagt er fram í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Frumvarpið var lagt fram á 137. löggjafarþingi án þess að mælt væri fyrir því og er nú lagt fram að nýju án breytinga.
Frumvarpið felur í sér það nýmæli að sett verði á fót hér á landi stjórnlagaþing sem falið verði að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins. Frumvarpið var unnið í samráði við fulltrúa allra þingflokka.
Forsaga smíði þessa frumvarps er sú að á þarsíðasta löggjafarþingi lögðu þingmenn Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins fram frumvarp til breytinga á stjórnarskránni og því fylgdu drög að frumvarpi til laga um stjórnlagaþing. Frumvarpið til stjórnarskipunarlaga varð ekki útrætt. Þar sem ekki varð af þeim stjórnarskrárbreytingum sem þar voru ráðgerðar um stofnun stjórnlagaþings og að frumvarp þess efnis yrði lagt undir þjóðaratkvæði með bindandi niðurstöðu, er lagt til í frumvarpi þessu að stjórnlagaþingið verði ráðgefandi enda skortir heimild í stjórnarskrána til að fela stjórnlagaþingi bindandi ákvörðunarvald.“
Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram í umræðunni. Hvers vegna voru tillögur stjórnlagaráðs ráðgefandi en ekki bindandi? Það var einfaldlega af tæknilegum ástæðum, eins og Jóhanna lýsti svo ágætlega þegar hún mælti fyrir frumvarpi til laga um stjórnlagaþing.
Á grundvelli laga um stjórnlagaþing var í nóvember 2010 efnt til þjóðfundar tæplega 1.000 fulltrúa af landinu öllu sem valdir voru með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Þar voru fengin fram meginsjónarmið og áherslur almennings varðandi stjórnskipan landsins og breytingar á stjórnarskrá. Stjórnlaganefnd sem Alþingi kaus vann úr þeim upplýsingum sem þar komu fram og skilaði skýrslu um niðurstöður þjóðfundarins og hugmyndum um breytingar á stjórnarskrá. Síðar í sama mánuði var kosið til ráðgefandi stjórnlagaþings sem skyldi leggja fyrir Alþingi frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Ekki kom þó til þess að það yrði sett því að framkvæmd kosninganna var kærð. Hæstiréttur úrskurðaði þær ógildar í janúar 2011. Þess í stað skipaði Alþingi með þingsályktun, 24. mars 2011, 25 manna stjórnlagaráð til að gera tillögur um breytingar á stjórnarskránni.
Stjórnlagaráð samþykkti einróma frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem skilað var til forseta Alþingis í júlí 2011. Frumvarpið studdist m.a. við niðurstöður þjóðfundarins og tillögur frá stjórnlaganefnd og almenningi. Þar voru lagðar til margvíslegar réttarbætur, svo sem um náttúruvernd og þjóðareign á náttúruauðlindum, jafnt vægi atkvæða við kosningar til Alþingis og rétt almennings til að krefjast þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi samþykkir. Forsætisnefnd lagði tillögur stjórnlagaráðs fram á Alþingi í formi skýrslu í október 2011. Málið gekk til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fjallaði ítarlega um málið næstu mánuði með aðkomu ýmissa sérfræðinga. Til samræmis við þingsályktun frá 22. febrúar 2012 fundaði stjórnlagaráð að nýju í mars 2012 til að fjalla um spurningar og tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að mögulegum breytingum á frumvarpinu sem vörðuðu m.a. ákvæði um umhverfi og auðlindir, embætti forseta Íslands og þjóðaratkvæðagreiðslu. Ráðið afhenti nefndinni í kjölfarið svör sín með breytingartillögum.
Með þingsályktun 24. maí 2012 samþykkti Alþingi að tillögur stjórnlagaráðs skyldu bornar upp í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Auk þess skyldi spurt hvort í nýrri stjórnarskrá ætti að lýsa náttúruauðlindir, sem ekki væru í einkaeigu, þjóðareign, hvort þar ætti að vera ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi, hvort persónukjör í kosningum til Alþingis ætti að heimila í meira mæli en verið hefur, hvort þar ætti að vera ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vægju jafnt og hvort þar ætti að vera ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna gæti krafist þess að mál færu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram í október 2012. 116.069 manns greiddu atkvæði eða 49% fólks á kjörskrá. Ríflegur meiri hluti þeirra sem tóku afstöðu til þess, eða 66,9%, var hlynntur því að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Meiri hluti svaraði einnig hinum spurningunum játandi.
Hér hefur verið talað um að 49% kosningaþátttaka, að rúmlega 116.000 manns hefðu tekið þátt í kosningunni, hafi ekki verið nægileg. En það var þó svo að þeir sem vildu að auðlindirnar yrðu lýstar í þjóðareign í stjórnarskrá, þeir sem sögðu já við því, voru nægilega margir. Ef allir sem sátu heima hefðu sagt nei hefði ákvæðið samt sem áður verið samþykkt. Ég tala nú ekki um ef við myndum miða við kosningaþátttöku sem vanalega er við alþingiskosningar, þá er alveg augljóst mál að það var meiri hluti fyrir því að þetta ákvæði færi í stjórnarskrá.
Skrifstofa Alþingis réð að ósk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar nokkra sérfræðinga á sviði lögfræði til að skoða og fara lagatæknilega yfir tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Sérfræðihópurinn skilaði nefndinni tillögum að breytingum á frumvarpi stjórnlagaráðs í nóvember 2012. Í þeim fólst m.a. að kveðið var á um stöðu þjóðkirkjunnar til samræmis við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði í nóvember 2012 fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem byggði á frumvarpi til stjórnlagaráðs með breytingum samkvæmt tillögum sérfræðingahópsins. Málið gekk til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og lagði meiri hluti hennar til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Formaður nefndarinnar óskaði einnig eftir áliti nefndar Evrópuráðsins um lýðræði með lögum, svonefndri Feneyjanefnd, á frumvarpinu. Feneyjanefndin skilaði drögum að áliti í febrúar 2013 þar sem viðleitni Íslendinga til að bæta stjórnskipun Íslands var fagnað en gerðar athugasemdir við einstök ákvæði frumvarpsins. Þrátt fyrir mikla vinnu að málinu innan og utan þings tókst ekki að ljúka því fyrir þinglok 2013 og illu heilli var vinnunni ekki haldið áfram þaðan sem frá var horfið á kjörtímabilinu þar á eftir né þeim sem á eftir komu. Það eru svik við þjóðina, herra forseti.
Mér finnst mikilvægt og í samræmi við lýðræðisleg sjónarmið að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 með því að vinna áfram að breytingum á stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Eðlilegt er að halda áfram þaðan sem frá var horfið vorið 2013 og nýta þannig þá gífurlegu vinnu sem lögð hefur verið í endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það er ekki nægjanlegt, herra forseti, að mínu mati að Sjálfstæðisflokkurinn segist ekki vera hrifinn af þessum breytingum. Það er ekki nóg. Sjálfstæðisflokkurinn og hv. þingmenn þess flokks eru ekki með neitunarvald í þessu þingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þannig er það. Það er von mín að þetta mál verði tekið fyrir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Hún er veik samt sem áður þar sem of sterk öfl vilja ekki breytingar á stjórnarskrá vegna þess að mér sýnist að það þjóni ekki hagsmunum þeirra. En það mun þjóna hagsmunum fólksins í landinu að gera það.
Forseti. Með því frumvarpi sem hér er lagt fram af Samfylkingunni og Pírötum má strax halda áfram með það sem Vigdís Finnbogadóttir, okkar ástsæli forseti, útskýrði réttilega sem lýðræðislegasta starf að stjórnarskrárritun sem sagan kynni frá að greina.
Þjóðin hefur komið að gerð nýju stjórnarskrárinnar frá upphafi. Þjóðin mætti á þjóðfund 2010 og lagði til breytingar á stjórnarskránni. Þjóðin mætti á kjörstað sama ár og kaus sína fulltrúa á stjórnlagaþing. Þjóðin mætti síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 og kaus að grundvalla nýja stjórnarskrá á tillögum stjórnlagaráðs.
Ég var í hliðarherberginu með hv. þm. Birgi Ármannssyni og við fórum yfir það um hvað var nákvæmlega spurt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ég sagði: Það var kosið um að við ætluðum að fá nýja stjórnarskrá sem væri grundvölluð á frumvarpi stjórnlagaráðs. Þegar við fórum yfir það kom á daginn að það er nákvæmlega það sem spurt var um. Það er ekkert óljóst með það. Landsmenn voru spurðir hvort þeir vildu nýja stjórnarskrá sem yrði grundvölluð á frumvarpi stjórnlagaráðs. Tveir þriðju hlutar þeirra sem mættu á kjörstað sögðu já.
Í lýðræðislegum ríkjum er þjóðin stjórnarskrárgjafinn og íslenska þjóðin hefur ákveðið að gefa sjálfri sér nýja stjórnarskrá. Síðan hafa ríkisstjórnir Jóhönnu Sigurðardóttur, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar ekki getað eða viljað fara að vilja þjóðarinnar. Nú er boltinn hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Þetta frumvarp er það sem við í Samfylkingunni og Pírötum viljum að verði að nýrri stjórnarskrá eins og þjóðarviljinn segir. Við krefjumst þess að vilji kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 um nýju stjórnarskrána verði virtur. Við munum áfram leggja fram á Alþingi nýju stjórnarskrána sem inniheldur þá vinnu sem unnin var af þjóðinni og svo þinginu allt þangað til hún var sett ofan í skúffu 2013.
Ástæðan er einföld: Nýja stjórnarskráin stóreflir lýðræðið. Hún eflir rétt fólks til að taka þátt, til að hafa áhrif, til að draga ráðamenn til ábyrgðar. Og þörf er á. Svo eflir hún borgararéttindi okkar allra, tjáningarfrelsið, frelsi fólks til að taka við og miðla upplýsingum, rétt til aðgangs að internetinu, rétt til að fá upplýsingar frá stjórnvöldum, frelsi fjölmiðla, frelsi vísinda.
Það frumvarp sem við ræðum hér lögðu Píratar og Samfylkingin fram á síðasta þingi og leggja það fram aftur núna. Það verður lagt fram þegar ný ríkisstjórn tekur við að loknum kosningum sem verða líklega eftir eitt og hálft ár, vorið 2021. Þá er þetta frumvarp tilbúið og hægt að leggja það fram á fyrsta degi. Þá verður haldið áfram þaðan sem frá var horfið. Nýja stjórnarskráin er tilbúin fyrir ríkisstjórn sem er tilbúin að taka hana úr skúffunni, samþykkja hana á Alþingi og senda hana þjóðinni.
Virðulegi forseti. Í umræðunni hefur verið talað um þverpólitíska sátt. Mér finnst það áhugavert umræðuefni því að þverpólitísk sátt snýst ekki um að allir þurfi að vera sammála um efni máls og jafnvel ekki heldur um aðferðafræði. Þverpólitísk sátt snýst um það hvort breyta þurfi eða ekki. Miðað við þau skilaboð sem við höfum fengið í þjóðaratkvæðagreiðslu er tilefni til að breyta. Sumir vilja breyta einu í einu. Sumir vilja bara breyta ef þjóðin kallar eftir því með nægilega miklum hávaða eða meiri hluta. Sumir eru hins vegar konungssinnar og vilja halda aðalstign sinni og völdum samkvæmt því. Því að hvað er hægt að kalla þá sem vilja sem minnstu breyta í þeirri stjórnarskrá sem við fengum frá konungsvaldinu annað en konungssinna? Við glímum við áhugavert vandamál. Eftir allt þetta ferli eru hafðar í frammi ásakanir um að minni hlutinn sé að berja á meiri hlutanum. Í því stjórnkerfi sem við búum við er það gersamlega súrrealísk ásökun því að við erum allvön því að það sé einmitt meiri hlutinn sem er að berja á minni hlutanum og það eina sem minni hlutinn geti gert sé að reyna að veifa flöggum og mæta hér upp í ræðustól Alþingis til að halda aftur af valdamisnotkuninni þegar allt kemur til alls. Við lendum í því að málið er þæft með rökum sem ganga ekki upp við minnstu skoðun þegar verið er að spyrða saman tæknilega galla í kosningu til stjórnlagaþings og afurð stjórnlagaráðs og svo niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu.
Við erum að glíma við ákveðið vantraust í stjórnmálum eftir hrunið. Það er því mjög skiljanlegt, það er rosalega skiljanlegt, að þingið hafi ákveðið að setja frumvarpsgerðina í hendur annarra. Það er bara rosalega skiljanlegt og það er líka rosalega skiljanlegt að almenningur treysti þinginu ekki til að klára þetta verkefni. Ég skil það mjög vel. Það er því, finnst mér, augljóst að þingið ætti sem minnst að hafa puttana í þessu ferli af því að það er einmitt þjóðin, sem er stjórnarskrárgjafinn, sem er að reyna að hafa hemil á þeirri valdamisnotkun sem við höfum upplifað á undanförnum áratugum. Það er auðveldlega hægt að gefa mörg nýleg dæmi um það; Landsréttur er eitt, að stinga skýrslu undir stól er annað o.s.frv. Við búum enn við þessi vandamál sem margt í nýju stjórnarskránni lagar.
Hér hefur verið talað um sérfræðinga og sannfæringu, að ekki sé tekið mark á hinum og þessum sérfræðingum heldur á öðrum. Það var líka gert í orkupakkamálinu. Sérstaklega mikið mark var tekið á ákveðnum sérfræðingum en ekki hinum. Það er bara þannig sem sannfæring okkar virkar. Við skoðum málflutning allra, vegum og metum, og þegar tveir sérfræðingar eru ósammála, hvorum á ég að taka mark á? Ég verð að nota mína eigin sannfæringu. Ef ég á eitthvað erfitt með það leita ég væntanlega til fleiri aðila til að fá lánaða dómgreind.
Það er talað um að þetta frumvarp feli í sér víðtækar breytingar. Ég held því hins vegar fram að það sé ósatt. Það er beinlínis ósatt því að 80% af núverandi stjórnarskrá er að finna í nýju frumvarpi. Þetta eru nú ekki víðtækari breytingar en það. Aðalbreytingarnar eru viðbæturnar. Ekki er að finna víðtækar breytingar í frumvarpinu heldur víðtækar viðbætur. Það er ekkert óeðlilegt heldur því að stjórnarskrárfræðin hafa þróast mjög mikið á undanförnum áratugum og við erum komin í meira en 100 ár hérna. Víðs vegar um heiminn hafa bæst við stjórnarskrárréttindi og ýmsar greinar í stjórnarskrá sem loks er verið að taka upp núna í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Við erum loksins að uppfæra, við erum að hoppa úr stýrikerfi Windows 95 yfir í Linux. [Hlátur í þingsal.] Allt í lagi; úr Makka 2 yfir í Makka 10 eða eitthvað svoleiðis. Við erum að sleppa rosalega mörgum skrefum í stýrikerfisuppfærslum af því að við höfum hunsað það svo lengi að uppfæra. Ég get skilið að það sé mjög óþægilegt fyrir hina klassísku valdhafa í íslensku samfélagi sem hafa stjórnað kerfinu í áratugi og hafa hannað það eftir sinni hugsun, þeim finnst það að sjálfsögðu óþægilegt að ákveðnir veikleikar og brestir séu í því. Þeim finnst það sérstaklega óþægilegt ef breyta á einhverju í stjórnarskránni, konunglegu stjórnarskránni þeirra, sem styrkir vald þeirra svo rosalega mikið því að það er svo auðvelt að túlka það fram og til baka hvað hægt er að gera samkvæmt núgildandi stjórnarskrá. Við höfum séð það þegar undirskrift á lögum hefur verið neitað. Við höfum séð það þegar því hefur verið neitað að rjúfa þing. Það kemur bara hentugleikaskýring í hvert skipti sem er þá fordæmi til framtíðar, en sú ákvörðun hefur jafnvel gengið gegn túlkun fræðimanna fram að því. En það er enginn sem getur sagt neitt við þeirri túlkun. Það er þess vegna sem þarf að fara að breyta og grufla aðeins í þeim greinum sem oft er talað um að séu augljóslega gallaðar og geti boðið upp á gríðarlega valdmistnotkun.
Ég gerði samanburð á stjórnarskránni og frumvarpi stjórnlagaráðs árið 2016. Ég er aðeins að vinna í því að gera samanburð á stjórnarskránni og þessu frumvarpi. Það hefur komið fram að mjög lítill munur er þar á, enn eru um 80% af núverandi stjórnarskrá í frumvarpinu sem hér um ræðir. En þær greinar sem detta út, sem hverfa, sem eru ekki lengur til staðar, ef farið verður í þessar breytingar eru greinar um að forseti Alþingis stýri fundum þess, ef ágreiningur er á milli þeirra ræður meiri — nei, fyrirgefðu, ég er á röngum lista, nei, ég er á réttum lista — geymi Alþingi eitt skjal sem er með undirskrift að eiðstaf og Þjóðskjalasafn geymi hitt. Það eru ýmis svona ákvæði sem maður spyr, þegar maður skoðar þau betur, til hvers séu. Það er annað komið í staðinn sem er t.d. miklu nútímalegra. Forseti lýðveldisins hefur aðsetur í Reykjavík eða nágrenni. Til hvers þarf að hafa það í stjórnarskránni? Það voru nokkur ákvæði hér, ég tók þetta ekki alveg nógu vel saman áður en ég fór upp. Alþingi starfar í einni málstofu, allt í lagi.
Það er mjög margt sem við glímum við í samfélaginu í dag. Og já, það er hægt að taka eitt hænuskref í einu. En við höfum sleppt því að stíga þau hænuskref í áratugi. Í þeim aðstæðum horfum við upp á stjórnarskrána eins og hún lítur út núna og hún er í alvöru ekki vel skiljanleg. Hún er kannski skiljanleg einhverjum fræðimönnum en svo kemur bara forsetinn og ákveður eitthvað annað. Það er ekki stjórnkerfi sem við eigum eða getum sætt okkur við, alls ekki. Það eru allir kaflar stjórnarskrárinnar sem þurfa uppfærslu. Það eru ekki víðtækar breytingar, þetta er einföld uppfærsla. Það sem þarf að gera víðtækt er að bæta við öllum þeim réttindum sem hafa komið inn í stjórnkerfi heimsins á undanförnum árum og áratugum. Það er þar sem aðalviðbæturnar eru, ekki breytingarnar. Það er ekki breyting á stjórnarskrá að bæta við nýjum réttindum, alls ekki. Það er uppfærsla á réttindum. Við erum eftir á í réttindum miðað við aðrar þjóðir þannig að þau rök, sem ég hef heyrt frá þeim sem segja að við verðum að gera lítið í einu af því að víðtækar breytingar valdi öngþveiti, óreiðu, ringulreið eða kollsteypum, ganga einfaldlega ekki upp ef maður skoðar efni stjórnarskrárinnar og þess frumvarps sem liggur hér fyrir þinginu. Þau ganga ekki upp og mér þætti rosalega vænt um að fá fleiri en Sjálfstæðismenn í andsvör því að það eru fleiri flokkar í ríkisstjórn og það eru fleiri flokkar á þingi líka til að tala um stjórnarskrá Íslands sem hefur ekki verið uppfærð af neinni alvöru nema bara í þeirri neyð að bæta við mannréttindakaflann seint og síðar meir. Við erum langt á eftir öðrum. Ég kalla eftir þátttöku allra flokka í þessari umræðu til að útskýra það í skýru og ítarlegu máli fyrir landsmönnum hvers vegna í ósköpunum við eigum að vera svona eftir á í réttindum sem stjórnarskrá veitir.
Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að koma inn á alla þá þætti sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni. Vafalaust verður einhvern tímann tækifæri til að koma inn á þá seinna. Það er eitt atriði hins vegar sem ég staldra við sem mér finnst ástæða til að bregðast við í máli hv. þingmanns og það lýtur að umfangi þeirra breytinga sem tillögur stjórnlagaráðs fela í sér. Það er rétt að með einhverjum hætti má segja að 80% af núverandi stjórnarskrá endurspeglist í ákvæðum tillagna stjórnlagaráðs en það er þó allt með þeim formerkjum að í mörgum tilvikum er verið að breyta orðalagi ákvæða, stundum umtalsvert. Þó að það sé verið að fjalla um sama viðfangsefni er verið að breyta orðalagi og framsetningu ákvæða og það eitt og sér getur kallað á viðameiri breytingar eins og fram kom í álitum mjög margra sem um þetta mál fjölluðu þegar það var til umfjöllunar í þinginu 2012–2013. Þá getur þetta valdið því að fordæmi raskast, venjubundin framkvæmd getur raskast, það getur orkað tvímælis hvort eldri fordæmi um túlkun viðkomandi ákvæða gilda o.s.frv. þannig að með því að fara þá leið sem stjórnlagaráð gerði, að umorða og breyta framsetningu ákvæða, jafnvel þó að verið væri að fjalla um sama viðfangsefni, getur það valdið því sem ég hef heyrt fræðimenn kalla merkingarusla, þ.e. þó að það hafi kannski ekki endilega verið ætlunin getur merkingin breyst (Forseti hringir.) og áhrif viðkomandi ákvæða geta breyst í framkvæmd með því að farið er að hræra til í orðalagi og þar með raska fordæmum.
Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa ábendingu því að þetta er mjög mikilvægt atriði. Það er bara í fína lagi, þannig vinnum við. Þegar við breytum lögum erum við væntanlega að breyta fordæmi líka. Það er ekkert óeðlilegt við það ferli. Það sem mér finnst vera lykilatriðið hérna og er ákveðin breyting í frumvarpi stjórnlagaráðs sérstaklega er að verið er að reyna að setja stjórnarskrána fram á mannamáli. Ég er ötull stuðningsmaður þess að stjórnarskráin sé ekki á lögfræðimáli. Það er vandamál lögfræðinnar að túlka hana síðan yfir á lögfræðimál og fordæmin sín. Ég ber virðingu fyrir því vandamáli en mér finnst það ekki það alvarlegt að það verði að sleppa því að hafa stjórnarskrána á mannamáli þegar allt kemur til alls.
Það er mjög eðlilegt þegar gerð er breyting á atriði sem er í núverandi ástandi vafaatriði og til ákveðin túlkun á í lögfræðilegum skilningi að við viljum útrýma þeim vafa og gera atriðið skiljanlegt á mannamáli. Ef það breytir síðan lögfræðilegri túlkun í kjölfarið er það ekki vandamál mannamálsins, stjórnarskrárinnar sem slíkrar. Það er meira vandamál hins vegar í því að um mörg ákvæði stjórnarskrárinnar er sá vafi að það er ekki fordæmi. Það hefur ekki myndast fordæmi og þegar fordæmi er tekið eins og t.d. forseti hefur gert veldur það usla og það sem breytingarnar snúast að mestu leyti um er einmitt að laga þau vafaatriði til að koma í veg fyrir það lagalega orð sem hv. þingmaður notaði um þetta þennan misskilning.
Herra forseti. Orðið sem ég notaði er ekki lögfræðilegt hugtak heldur frekar heimspekilegt. Það er merkingarusli, þ.e. að með breytingunni sé verið að koma róti á merkingu hugtaka, orða og ákvæða sem hafa kannski fengið í langri framkvæmd eitthvert inntak, einhverja merkingu. Það er eiginlega hugmyndin sem ég er að reyna að koma orðum að í þessari umræðu.
Það að koma stjórnarskránni á mannamál er mjög huglægt og menn geta velt fyrir sér hvort tillögur stjórnlagaráðs eru á meira mannamáli en ýmis annar lagatexti sem við erum að vinna með. Það leiðir af sjálfu sér að þegar verið er að fjalla um hugtök sem í eðli sínu eru lögfræðileg eða stjórnskipuleg eða eitthvað skiptir máli að rétt hugtök séu notuð. Það skiptir líka máli í stjórnarskrá sem auðvitað hefur hlutverki að gegna sem grundvallarlög, sem grundvöllur annarrar lagasetningar, a.m.k. þarf merkingin að vera sæmilega skýr. Það sem ég held að sé mikilvægt að draga fram og var einmitt töluvert bent á í málsmeðferðinni á árunum 2012–2013 er að það kynni og það hefði ekki í raun verið metið með neinum hætti hvaða afleiddu áhrif yrðu af þeim breytingum sem verið var að leggja til þannig að menn lögðu í raun til breytingar á tilteknum ákvæðum án þess að hægt væri af einhverri skynsemi að segja fyrir um það (Forseti hringir.) hvaða áhrif breytingarnar hefðu.
Virðulegi forseti. Já, merkingarusli. Túlkun á milli tungumála, ég tel að við séum annars vegar með mannamál sem þróast, breytist með tíð og tíma og hins vegar lögfræðimálið. Ég skil þetta mjög vel því að í tölvunarfræðinni þaðan sem ég kem erum við með ýmislegt eins og fastayrðingar og viljum hafa hlutina mjög fasta yfir tíma sem slíka. En við glímum einmitt við það vandamál að mannamálið þróast og við þurfum að uppfæra þýðingarnar okkar reglulega. Lögfræðin hlýtur og verður að glíma við það vandamál líka því að við viljum væntanlega geta haft samskipti á hinu ónákvæma mannamáli þegar allt kemur til alls. Við erum ekki öll lögfræðingar, ekki geta allir verið lögfræðingar, ekki vilja allir vera lögfræðingar og það væri tvímælalaust hundleiðinlegt ef allir væru lögfræðingar. Við erum að glíma við að koma vilja okkar til skila með ónákvæmu tungumáli. Við reynum að vera eins nákvæm og við getum en það er erfitt sérstaklega með tíð og tíma þegar tungumálið breytist þannig að ég er einfaldlega mjög ósammála því að þetta valdi einhverjum merkingarusla því að alla jafna eru sem sagt orðalagsbreytingarnar sem verið er að gera til skýringar. Sú gagnrýni sem alla vega ég hef lesið um þennan merkingarusla o.s.frv. var ekki með neinum, alla vega ekki mörgum, haldbærum dæmum um það hvað nákvæmlega gæti valdið merkingarusla. Að því leyti til er ákveðinn strámaður inn í umræðuna frekar en uppbyggileg umræða eða gagnrýni á frumvarp stjórnlagaráðs og núverandi frumvarp eins og það liggur fyrir.
Virðulegi forseti. Ég ætla að gera heiðarlega tilraun til að fara í taugarnar á öllum, líka stuðningsmönnum frumvarpsins, vegna þess að þótt ég sé vissulega mjög dyggur stuðningsmaður þessa frumvarps finnst mér samt vera kominn tími til þess að aðeins sé litið yfir fortíðina og því velt fyrir sér hvað virkar og hvað virkar ekki og draga smálærdóm af því hvernig þessi rökræða, ef rökræðu skal kalla, hefur verið iðkuð frá því að starfið hófst sem leiddi af sér það plagg sem við ræðum hér í dag.
Fyrst vil ég benda á nokkur atriði, t.d. það að oft er talað um að sátt þurfi að vera um stjórnarskrána. Ég er alveg sammála því að sem mest sátt eigi að vera um gildandi stjórnarskrá hverju sinni. Málið er bara að það er ekki sátt um gildandi stjórnarskrá og ef litið er til skoðanakannana eða þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 er ljóst að það er miklu meiri sátt um frumvarpið sem við ræðum hér en um gildandi stjórnarskrá. Ég get því verið sammála því, en það er ekki sátt um gildandi stjórnarskrá, og eðlilega ekki, samanber sögu hennar sem hefur verið rakin hér ábyggilega hundrað sinnum, ef ekki oftar. Mér þótti forvitnilegt að heyra sér í lagi virðulegan forseta, sem er einnig hv. 5. þm. Reykv. s., Brynjar Níelsson, tala hér áðan um að hann væri alveg til í að breyta stjórnarskránni, að það mætti breyta ýmsu í henni. Mér finnst það svo skringileg ummæli vegna þess að það er eins og það megi breyta henni svo lengi sem henni er ekki breytt samkvæmt þessu frumvarpi. Þarna fer ég inn á gagnrýni sem á líka svolítið við fylgjendur þessa frumvarps. Einhvern veginn í ósköpunum — ég held að það hafi gerst mjög snemma á vegferðinni — var þetta mál gert flokkspólitískt og sett upp þannig að það væri ein hlið í samfélaginu með því og önnur hlið á móti. Þetta fannst mér óþarfi. Ég held að ekki sé neinum einum um að kenna, þetta bara gerðist. Ég ætla að sleppa því að fara út í einhverjar umkenningar um það, mér finnst það ekki skipta máli. Það sem mér finnst skipta máli er efni frumvarpsins sjálfs. Ég er ekki hlynntur þessu frumvarpi vegna þess að hér hafi orðið hrun. Ég er búinn að kvarta undan því að okkur vanti nýja stjórnarskrá frá táningsaldri, nánar tiltekið frá því að ég byrjaði að lesa hana. Ég er ekki hlynntur nýju stjórnarskránni vegna þess að Sjálfstæðismenn hafi verið á móti henni eða vegna þess að Samfylkingin og Vinstri græn hafi komið fram með hana. Ég er bara hlynntur þessu plaggi vegna þess að ég hef lesið það. Ég hef lesið gildandi stjórnarskrá og með því að vinna á þingi hef ég lært ýmislegt um lögfræði og hvernig stjórnarskráin virkar og hvernig hún virkar ekki. Ég er hlynntur þessu frumvarpi vegna þess sem stendur í því. Meðal háværustu fylgjenda þessa frumvarps finnst mér persónulega allt of mikið talað um það og allt of miklu púðri eytt í það hvað Sjálfstæðisflokkurinn sé vondur, mikið farið í forsöguna og fortíðina sem skiptir máli en er búið að nefna rosalega oft og rosalega mikið. Mér finnst vanta að við tölum meira um efnið. Mér finnst það vanta frá öllum hliðum. Ég skil alveg af hverju þetta er svona. Ég held ekki að það sé góð staða.
Þegar kemur að efnislegri gagnrýni hef ég tekið eftir því að það virðist vera áberandi meira þekkingarleysi á efni frumvarpsins meðal þeirra sem eru á móti frumvarpinu en þeirra sem eru hlynntir því. Í pontu er ítrekað sagt eins og víðar að þarna sé einhvern veginn verið að rífa allt stjórnkerfið upp með rótum eða gera einhverjar grundvallarbreytingar. Svo er einfaldlega ekki, virðulegi forseti. Þarna er aðdáunarvert magn af umbótum, þörfum umbótum sumum og einnig æskilegum umbótum. En það er einfaldlega ekki rétt að þarna sé verið að breyta einhverju grundvallaratriði um stjórnskipan landsins. Þetta frumvarp er byggt á því sem hefur gengið vel á Íslandi. Því er bætt við sem að mínu mati myndi augljóslega láta hlutina ganga enn betur. Það er ekki róttækt, virðulegur forseti, það er bara hluti af því að samfélag okkar breytist með tímanum og á að þróast og stjórnskipanin þar með.
Ég held að ég sé ekki sérstakur aðdáandi þess að gera tíðar stjórnarskrárbreytingar, frekar en flestir aðrir. Æskilegra er að taka það fyrir, við ákveðin tilefni jafnvel eða alla vega þegar það hlýtur að vera augljóst að samfélagið hafi breyst mjög mikið frá setningu gildandi stjórnarskrár, og velta fyrir sér hver séu grunngildin sem við viljum að endurspeglist í stjórnarskrá, hvað hafi gengið vel og hvað illa, og sett ný stjórnarskrá til langs tíma með þeim breytingum sem fyrirséð er að séu við hæfi á þeim tíma. Það er þetta plagg, virðulegi forseti, þetta frumvarp.
Það var vel staðið að því hvernig þetta frumvarp varð til. En látum það liggja á milli hluta vegna þess að, eins og ég segi, ég styð ekki frumvarpið á þeim forsendum að það hafi verið gert svona eða hinsegin heldur vegna þess sem stendur í frumvarpinu sjálfu. Hafi andstæðingar einhverjar hugmyndir um orðalagsbreytingar skal ég hlusta á þær. Það er ekkert víst að ég verði sammála þeim, en ég skal alveg hlusta á þær og reyna að sannfæra almenning og aðra fylgjendur þessa frumvarps um að þær orðalagsbreytingar séu góðar ef ég tel þær góðar. Það er ekkert að því heldur, enda hefur fullt af slíku verið gert nú þegar.
Það er annað sem mig langar að nefna: Þetta eru ekki drög stjórnlagaráðs, þetta er frumvarp sem er unnið úr þeim drögum. Þau drög voru unnin úr fyrri vinnu, umræðu sem hefur átt sér stað áratugum saman, t.d. um beint lýðræði, auðlindaákvæði, náttúruvernd, ákvæði til framsals valds samkvæmt fyrirframgefnum formerkjum. Það er líka hluti af vinnunni við þetta, virðulegi forseti, þannig að það er bara ekki hægt að vera endalaust að hjakkast í orðalagi sem er löngu búið að breyta við meðferð málsins eftir að stjórnlagaráð skilaði sínum góðu drögum. Það minnir mig á annað sem varðar umræðu sem átti sér stað áður en ég tók til máls um lagatexta og mannamál. Í almennu tali er talað eins og þetta séu tvö algjörlega ólík tungumál. Það mætti kannski kalla þetta ólíkar mállýskur, það má vera, en það er ekkert því til fyrirstöðu í langflestum tilfellum, og sér í lagi þegar um er að ræða grundvallaratriði stjórnskipunarinnar sjálfrar, að hafa lagatexta á þokkalegu mannamáli, eins og það er kallað. Ég skil mætavel að skattalöggjöf geti ekki verið á mannamáli vegna þess að fólk er almennt ekki að hugsa og tala í hugtökum sem varða tæknilegar útfærslur á skatti en hér erum við að tala um sáttmála samfélagsins alls. Það er sjálfsagt að sá tiltekni lagatexti sé á þokkalegu mannamáli. Það er ekkert hrikalega mikið vandamál, virðulegi forseti. Hvað varðar lagatæknilegar skýringar á einstaka hugtökum er hægt að koma þeim fyrir í greinargerð. Ég tel nokkuð víst að það dugi til að skýra hugtök fyrir utan það að langflest hugtökin sem er að finna í þessu frumvarpi eru nú þegar í gildandi stjórnarskrá og eiga sér langa forsögu, bæði hjá dómstólum og í umræðu um stjórnskipanina almennt í gegnum tíðina, t.d. það að stjórnarfarið hér sé skilgreint sem þingræðisstjórn en ekki þingbundin stjórn.
Virðulegur forseti. Svona orðalagsbreyting er ekki eitthvert stórslys. Það er ekki eins og hér komi einhver flóðbylgja af lögsóknum og dómsmálum sem muni velta á þessu og kollvarpa einhverju. Þetta er bara ekki þannig, þetta eru einfaldlega ekki það róttækar breytingar. Helstu breytingarnar eru viðbætur, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fór yfir. Það er enginn ágreiningur um að hafa Alþingi. Það er enginn ágreiningur um að hafa þrískiptingu valdsins. Það er enginn ágreiningur um að dómstólar skuli vera dómstólar, að Alþingi skuli vera löggjafinn og að ríkisstjórnin skuli vera framkvæmdarvaldið. Það er sátt um þessa hluti og það er þannig í þessu frumvarpi. Helsti ásteytingarsteinninn þar er sennilega sá sem er það með réttu að mínu mati og það er forsetaembættið en það er eins og það er og er náttúrlega sérstakt á margan hátt, hér sem annars staðar.
Mig langar líka að fjalla aðeins um áhugaverða gagnrýni, eða öllu heldur óáhugaverða gagnrýni, sem ég hef heyrt frá öðrum hv. þingmanni í blöðum. Það er þegar ástandinu í Venesúela af öllum stöðum er líkt við stjórnarskrárferlið hér. Í fyrsta lagi er ferlið einfaldlega ekki það sama en ég ætla að reyna að láta það liggja á milli hluta. Í öðru lagi er efnið einfaldlega ekki það sama. Stjórnarskrá Venesúela er ein lengsta og flóknasta stjórnarskrá í heiminum upp á u.þ.b. 350 ákvæði. Ég man ekki í fljótu bragði hvað gildandi stjórnarskrá er, hún er minna en 100 ákvæði. Þetta frumvarp er 116 ákvæði. Norska stjórnarskráin er 121 ákvæði. Þýska er 146 og hún þykir með þeim betri. Ítalska er 139 og spænska 169. Það er ekki hægt að taka frumvarp stjórnlagaráðs, slengja því fram sem einhvers konar stjórnarskrárbreytingu og segja þar af leiðandi: Venesúela. Þetta er fráleitur málflutningur, virðulegi forseti, og hann ber þess merki sem mér finnst einkenna umræðu um þetta mál, að það er farið í allt nema efnið, nema í innihald frumvarpsins, þar sem tekið er á stjórnskipuninni, þrískiptingu valdsins, á jákvæðan hátt, gagnlegan hátt, tekist á við spurningu um það hver í ósköpunum eigi að bera ábyrgð í ríkisstjórninni. Eins og við þekkjum núna, ef það er einn ráðherrann á að fara til formanns þess flokks og hann bendir á forsætisráðherra sem bendir á formann þess flokks eða hvernig svo sem það er, það er bara eftir hentugleika í umræðunni hverju sinni ef það er þá einu sinni það skýrt. Þetta er skýrt í frumvarpi stjórnlagaráðs og skýrt í þessu frumvarpi. Það er gott og þannig á það að vera. Það á að vera sem skýrast. Það þarf ekkert að vera á einhverju óskiljanlegu svokölluðu lagamáli til að vera skýrt, það er alveg hægt að hafa hvort tveggja. Ég hef ekki enn þá rekist á neitt í þessu frumvarpi sem mér þætti erfitt að skilja sem óbreyttur borgari, kannski eitt og eitt hugtak sem ég þyrfti aðeins að glugga í greinargerð til að öðlast djúpan skilning á, en þá bara gluggar maður í greinargerð til að öðlast djúpan skilning á því. Flóknara er það ekki. Ég treysti dómurum landsins alveg til að vera þess megnugir að kíkja í lögskýringargögn af og til þótt vissulega hafi mátt gera athugasemdir við reynsluna í þeim efnum af og til.
Ég vildi óska þess að við ræddum þetta með opnari huga. Mér finnst að það mætti hlusta og sýna meiri vilja til að hlusta á gagnrýni. Mér finnst að gagnrýnin ætti að vera efnislegri. Þetta mál, hvort sem okkur líkar betur eða verr, ber nefnilega með sér mjög sterkar tilfinningar úr hruninu þar sem voru tilfinningar, fólk sem vildi breyta öllu og fólk sem vildi einmitt halda í sem mest vegna þess að það sá samfélag sitt hrynja. Það vildi halda í stjórnarskrána þótt ekki væri annað. Ég skil það, ég deili ekki þeirri sýn á málið en ég skil hana og tel mig þá vera að enduróma það sem sumir andstæðingar þessa máls hafa sagt, að stjórnarskráin hafi verið meira eða minna það eina sem hélt í hruninu.
En aftur vil ég segja að ég er ekki hlynntur þessu frumvarpi út af hruninu. Ég er ekki hlynntur því út af því að það voru einhverjir meintir vondir bankakallar að gera hitt eða þetta. Ég er ekki einu sinni hlynntur þessu frumvarpi út af vitleysisganginum sem viðgekkst hér fyrir hrun hvað varðar stjórnsýslu og ábyrgðarleysi almennt í íslensku samfélagi, heldur vegna þess að ég las frumvarpið sjálft. Ég las gildandi stjórnarskrá og fyrir mér er augljóst hvort er betra.
Við þekkjum öll forsöguna að því hvernig gildandi stjórnarskrá kom til, a.m.k. sögu hennar í öllum meginatriðum, það hefur aðeins verið rætt hér í dag. Mig langar til að biðja hv. þingmenn sem eru á móti þessu frumvarpi að gefa því séns, ræða það efnislega, koma kannski í ræðu, taka fram hvað það er efnislega sem þeir hafa athugasemdir við og koma með tillögur að úrbótum, þótt ekki væri nema bara upp á gamanið, virðulegur forseti, vegna þess að ég held að jafnvel íhaldssömustu hv. þingmenn, sem vilja hafa hlutina eins og þeir eru, ættu að geta haft pínulítið gaman af umræðu um það þar sem þeir útskýra hvers vegna hlutirnir eigi að vera eins og þeir eru. Það er jákvætt að allir séu á sömu blaðsíðu með það hvernig sem það er. Mér þykir afskaplega vont hvernig þetta mál fær mikla athygli út frá öðrum hlutum en efni frumvarpsins sjálfs. Mér þætti rosalega vænt um það ef hægt væri að einblína svolítið á efnið, takast á um það eflaust. Það er allt í lagi að vera ósammála. Það má, það er bara þannig. Það þarf enginn að leyfa það, það er bara þannig hér og nú sem annars staðar og á öðrum tímum. En þá ættum við líka að finna okkur einhvern sameiginlegan farveg um það hvernig ætti að koma að því.
Hvað varðar eitt sem hv. 8. þm. Reykv. n., Birgir Ármannsson, nefndi áðan, hvað varðar ferlið í stjórnarskrárbreytingum, er náttúrlega bara ein leið í dag til að breyta stjórnarskrá og hún er sú að þingið samþykki breytingar og að loknum nýjum alþingiskosningum samþykki nýtt þing, Alþingi, sömu breytingar. Eitt sem væri hægt að gera og ég held að ætti að vera samstaða um er að setja í gildistökuákvæði að það þurfi líka að fara í gegnum bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar með er lýðræðislega umboðið komið sem væri þá skýrt og eftir það myndu flokkar fara pólitískt bundnir, myndi ég segja, til starfa vitandi það að almenningur hefði í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu samþykkt nýja stjórnarskrá. Það er hægt að gera svona hluti, það er engin ástæða til að gera þetta ekki. Tilefnið er ærið. Frumvarpið er gott. Ég vildi óska þess að við gætum rökrætt aðeins meira um það sem (Forseti hringir.) skiptir máli hvað varðar stjórnarskrána sem er innihald hennar.
Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðuna. Ég vildi kannski nefna tvö atriði. Mér fannst ágætt hjá honum og get alveg tekið undir það að tillögur stjórnlagaráðs verða ekki slegnar út af borðinu með tilvísun til Venesúela eða stjórnarskrárinnar þar. Það er auðvitað ekki þannig, ekki frekar en menn geta komið hér og sagt að núgildandi stjórnarskrá sé ómöguleg af því að hún eigi sér danskar rætur. Það er ekki efnisleg röksemd í málinu á hvorugan veginn, þannig að það sé sagt og ágætt að horfa á það.
Jafnvel þó að aðdragandinn og málsmeðferðin og annað skipti kannski máli um það hvernig við nálgumst viðfangsefnið held ég að við hljótum alltaf að taka fyrir hina efnislegu þætti, hinar efnislegu breytingar. Ég lít svo á að sú vinna sem nú á sér stað á vegum hæstv. forsætisráðherra, og formenn allra stjórnmálaflokka hafa tekið þátt í, miðist einmitt við að fara í efnislega umfjöllun um hina mismunandi kafla og ákvæði stjórnarskrárinnar til þess að komast að skynsamlegri niðurstöðu um það, bæði um núgildandi ákvæði og um nýmæli.
Ég hef sjálfur tekið þátt í vinnu sem hefur miðað að því að taka fyrir ákveðin ákvæði og reyna að ræða sig niður á niðurstöðu í þeim efnum. Þar hefur að einhverju leyti verið horft til tillagna stjórnlagaráðs en líka annarra tillagna sem hafa komið fram um svipuð efni.
Virðulegi forseti. Ég er í grunninn alveg sammála því að það er ekki sjálfkrafa tilefni til að endurskoða stjórnarskrá vegna þess eins að hún eigi sér konunglegar danskar rætur. Mér finnst það hins vegar sýna fram á þann punkt að það er hvergi nálægt því að vera róttæk hugmynd að endurskoða hana út frá því þeirri staðreynd að við höfum ákveðið að vera lýðveldi. Við erum samt sem áður lýðveldi sem á sér rætur ofboðslega djúpt í konunglegri hefð. Sú hefð er enn í gildandi stjórnarskrá, ekki jafn sterk og hún var, reyndar ekki í Danmörku heldur. Það er óumdeilt að árið 1944 hafi lýðveldisskipanin verið hugsuð þannig að við myndum setja okkur nýja stjórnarskrá, væntanlega grundvallaða á lýðveldishugsjóninni. Gildandi stjórnarskrá hefur tekið ákveðnum góðum breytingum, t.d. mannréttindakaflinn 1991, flott. En hún er enn á þessum gamla grunni og það endurspeglast í efninu sjálfu og það er vandinn sem ég vil leysa.
Forseti. Það þarf ekkert að rífa allt í tætlur og henda öllu út um gluggann til þess. Það er nóg að gera nokkrar skipulagðar og skýrar umbætur til þess. Ég skal nefna eitt atriði, bara mjög einfalt. Í 1. mgr. 92. gr. frumvarpsins segir: „Alþingi kýs forsætisráðherra.“ Er þetta eitthvað brjáluð breyting? Nei. Hún er miklu meira í anda lýðveldishugsjónarinnar en fyrirkomulagið sem við höfum núna sem byggt er á hefð sem stenst enga skoðun um leið og maður hefur tekið þátt í stjórnarmyndunarviðræðum einu sinni eða tvisvar. Þetta er svar mitt við því að dönsku ræturnar séu ekki sjálfkrafa ástæða þess að endurskoða stjórnarskrána heldur er það efnið sem er að finna í stjórnarskránni.
Valdið eins og það er hugsað er þannig að það byrjar hjá guði, bókstaflega, fer til konungs, niður til þings og þaðan til þjóðar. Lýðveldishugsjónin er þveröfug, valdið byrjar hjá almenningi. Það á að endurspeglast í hugsuninni á bak við stjórnarskrána. Það þarf ekkert, ég endurtek það, virðulegi forseti, að gera einhverjar brjálaðar breytingar til þess en það þarf að taka umræðuna um það. Ég væri rosalega til í að taka t.d. umræðu um þessa 1. mgr. 92. gr. frumvarpsins. En sú umræða á sér ekki stað vegna þess að fólk virðist vera fast í einhverjum skotgröfum út af hruninu.
Hæstv. forseti. Það er kannski ekki færi á því núna að fara í miklar og djúpar umræður um það. En það er vissulega breyting sem hv. þingmaður nefnir varðandi 92. gr. Ef við horfum á stjórnkerfisbreytingar eða breytingar á völdum eða áhrifum í samfélaginu, sem leiðir af tillögum stjórnlagaráðs, hugsa ég að meginbreytingin varði ekki forseta, ríkisstjórn, þing eða aðra slíka. Meginbreytingin er fólgin í því að gert er ráð fyrir mjög mörgum leiðum til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég held að það sé kannski það sem við getum kallað róttækast í þeim efnum.
Ég veit að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á því sviði, en ég velti fyrir mér hvort tillögur stjórnlagaráðs, og ég hef áður látið þau sjónarmið í ljósi, séu fullróttækar, að gera ráð fyrir jafn mörgum leiðum til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur og þar er gert ráð fyrir. Það skorti skýrari þröskulda gagnvart því að tryggt sé að ekki sé efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu nema tiltekinn hluti kjósenda geri þá kröfu og að áhrifin verði ekki bindandi nema tiltekinn hluti kjósenda annaðhvort samþykki það sem lagt er fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslunni, hafni því eða þá að farið sé út í beina þátttökuþröskulda, þannig að tryggt sé að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna um hin og þessi mál mótist af raunverulega ríkum vilja í samfélaginu en ekki, hvað á að segja, vilja tiltekins minni hluta sem getur skákað í skjóli áhugaleysis annarra.
Virðulegur forseti. Það fyrsta sem ég er ósammála hv. þingmanni um er það hvort nú sé tækifæri til að fara í djúpar umræður. Það er nefnilega hægt akkúrat núna og hvet ég hv. þingmann til að setja sig á mælendaskrá og taka þessa djúpu umræðu núna. Ég er til og ég veit að fleiri þingmenn eru til, þó að þetta sé bara hin svokallaða 1. umr. Þetta er stórt mál og það er alveg þess virði að ræða það almennilega við 1. umr. Ég hvet hv. þingmann til þess að taka djúpa umræðu um það.
Hvað varðar þessar mörgu leiðir, meintu, í frumvarpinu til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu þá kannast ég ekki við að þær séu margar. Það er ein sem hefur verið svolítið rædd, sem er málskotsréttur forseta. Til hvers er hann ef málskotsréttur kjósenda er til staðar hvort sem er? Það er umræða sem alveg má taka. Ég skil það ekki sjálfur, ég veit ekki af hverju forseti ætti að senda eitthvað í þjóðaratkvæðagreiðslu sem kjósendur geta sjálfir kallað fram með undirskriftum 10% kjósenda nema ef það ákvæði er þannig úr garði gert að það sé líklegt til að ýmist draga úr getunni til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur eða til að ómerkja þjóðaratkvæðagreiðslur sem yrðu haldnar.
Þar kem ég að síðasta punktinum sem hv. þingmaður nefndi sem varðaði það að gera skilyrði um þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég skil hvað hv. þingmaður er að fara. Það er hins vegar að mínu mati mjög hættuleg nálgun að ætla að setja slík skilyrði um þátttöku eða ákveðið hlutfall eða eitthvað því um líkt vegna þess að það hefur áhrif á þátttökuna sjálfa, það hefur áhrif á lýðræðislega umboðið sjálft. Með öðrum orðum, að með því að sniðganga þjóðaratkvæðagreiðslu eru kjósendur búnir að taka ákvörðun. Það finnst mér í grundvallaratriðum vera slæmt. Mér finnst að það eigi að vera ákvörðun að mæta á kjörstað og tjá vilja sinn, að það eigi ekki að vera ákvörðun að sitja heima, gera lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni, kvarta undan því hvað þessir og hinir eru miklir vitleysingar og halda partí á sama tíma. Mér finnst það ekki jákvætt. En það er eitthvað sem ég sé alveg fyrir mér að myndi gerast.
Við eigum að vilja hafa sem mesta þátttöku. Það þýðir, fólk á bara að vita það, að það skal bara mæta á kjörstað ef það vill að á sig sé hlustað. Hvað varðar 10%, (Forseti hringir.) nú hef ég því miður ekki meiri tíma, virðulegi forseti, hefur það sýnt sig, t.d. í umræðu um þriðja orkupakkann, að 10% eru ekki of lágt viðmið. Þetta er ágætisþröskuldur nú þegar. Þetta er ekkert róttækt. Þetta er ekkert flókið, þetta er ekkert vandamál.
Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur segir, með leyfi forseta:
„Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs. Nefnd um málið mun hefja störf í upphafi nýs þings og leggur ríkisstjórnin áherslu á að samstaða náist um feril vinnunnar.“
Nefnd skipuð formönnum flokka sem sæti eiga á Alþingi hefur nú fundað nokkrum sinnum á þeim tæplega tveimur árum sem liðin eru frá því að ríkisstjórnin tók við. Er sú vinna enn í gangi og allt gott og blessað með það og breytir framlagning þessa frumvarps engu þar um. Breytir minnisblað Bjarna Benediktssonar, hæstv. fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokks, heldur engu þar um. Í minnisblaðinu sem hann lagði fram á fundi umræddrar formannanefndar áréttar hann stefnu síns flokks sem flokksbróðir hans, hv. þm. Sjálfstæðisflokks Birgir Ármannsson, hefur margítrekað í dag, að Sjálfstæðisflokkurinn leggist eindregið gegn heildarendurskoðun á þessu bráðabirgðaplaggi sem danski konungurinn gaf okkur Íslendingum náðarsamlegast. Þetta frumvarp sem við fáum í hendur hér í þinginu og mun fara í vinnslu hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vinnur nefnilega ágætlega með vinnu formannanefndarinnar. Hvers vegna það? Jú, vegna þess að stjórnarskrárgjafinn er íslenska þjóðin. Þjóðin skal kjósa um stjórnarskrá en löggjafinn er Alþingi og það er okkar hér að vinna frumvörp til stjórnarskipunarlaga og klára málið. Hér gefst almenningi og félagasamtökum kostur á að senda inn umsagnir og mæta fyrir nefndir.
Þetta er gangur þingsins, herra forseti, og þess vegna gleðst ég yfir framlagningu þessa frumvarps í dag og vil þakka öllum þeim sem hafa tekið til máls. Þó verð ég að játa hvort tveggja fullkomið kæruleysi og barnaskap því að ég hef ekki, líkt og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kveðst hafa gert, barist fyrir nýrri stjórnarskrá frá því að ég byrjaði að lesa. Ég vissi ekkert af því að við ættum stjórnarskrá þegar ég byrjaði að lesa. Þá var ég bara að lesa bækur Guðrúnar Helgadóttur og Enid Blyton en las minna af stjórnarskipunarlögum eða öðrum lögum almennt og er ekki viss um að ég hafi vitað þegar ég byrjaði að lesa að til væri eitthvað sem héti almenn lög. Svona erum við ólík, fólkið sem starfar á Alþingi, og er það gott.
Mig langar af því tilefni að við ræðum þetta nýframlagða frumvarp um nýja stjórnarskrá að fara aðeins yfir sögu stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Hér hafa þingmenn farið nokkuð yfir söguna frá því að Jóhanna Sigurðardóttir, þá forsætisráðherra, setti stjórnarskrána aftur á dagskrá árið 2010 en það hafði hún áður, þá sem óbreyttur þingmaður, margsinnis gert í sinni tíð, svo jaðrar við þráhyggju og þakka ég henni mjög fyrir þá þráhyggju.
Mig langar að fara lengra aftur í tímann, aftur til þeirrar öldnu skrár sem enn er við lýði á Íslandi dagsins í dag, þeirrar stjórnarskrár sem okkur landsmönnum hefur verið kennt að Kristján IX. hafi afhent okkur, enda er stytta af afhendingunni beinlínis fyrir framan Stjórnarráðið. En það var ekkert Kristján IX. sem afhenti okkur plaggið, enda ku hann hafa haft álíka mikinn áhuga á þessum málefnum Íslendinga, þar með talið stjórnarskránni, og Sjálfstæðisflokkurinn hefur á stjórnarskránni í dag. Kristján þessi IX. kom í heimsókn til Íslands 1874. Stjórnarskráin barst hins vegar til Íslands 1904 og var send aftur utan 1928. Styttan góða fyrir framan Stjórnarráðið telst því vera sögufölsun, herra forseti, og er það miður.
Það er líka svolítið um sögufölsun í umræðu um nýju stjórnarskrána og farið mikinn, eða kannski ekki sögufölsun heldur meira söguskekkja eða tilraun til söguskekkju. Það hefur mjög mikið verið talað um að verið sé að kollvarpa núgildandi stjórnarskrá og eru það helst hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks og fylgitungl þeirra sem svo ræða í opinberri umræðu.
Frá árinu 1874–1942 voru lögð fram 36 mál á þingi til breytinga á stjórnarskránni. Fjórum sinnum náðu breytingar fram að ganga, þar á meðal þegar stofna átti lýðveldið Ísland. Þingmannanefnd skyldi smíða tillögur til breytinga á stjórnarskránni en skýrt var tekið fram að óheimilt væri að gera nokkrar aðrar breytingar á þeim tíma en þær sem beinlínis leiddu af sambandsslitunum við Danmörku og lýðveldisstofnun. Mikilvæg forsenda þeirrar samstöðu sem ríkti við afgreiðslu breytinganna 1944 var að þær náðu aðeins til afmarkaðra þátta í stjórnskipuninni en í áliti sagði að nefndin skyldi áfram undirbúa aðrar breytingar á stjórnskipulaginu. Felld voru út ákvæði um konunginn og innleidd ákvæði um forseta. Hlutverk forseta var að flestu leyti mjög sambærilegt við hlutverk konungs áður.
Að öðru leyti stóð stjórnarskráin óbreytt en frekari breytingar áætlaðar. 12 manna nefnd var skipuð til ráðgjafar eldri nefnd og enn var skipuð nefnd og aftur, tveimur árum síðar, enn nefnd vegna þess að fyrri nefnd hafði lognast út af. Á árunum 1944–2005 komu fram ítrekaðar tilraunir tillögur um skipan nefndar til heildarendurskoðunar á stjórnarskrá án nokkurs árangurs. Hef ég gantast með það hér að Sigurður Líndal hafi líklega setið í öllum stjórnarskrárnefndunum allt frá árinu 1874, enda var hann iðulega sá sem helst var og fyrstur var skipaður í nefndir um stjórnarskrá.
Einstaka breytingar hafa verið gerðar á öllum þessum tíma og þá aðallega er varða þingið sjálft þegar þingmenn hafa fundið sig knúna til að breyta kjördæmaskipan og afnám deildaskiptingar. Þar er eiginlega um að ræða eitthvað innan húss, vinnustaðapólitík. Þá fannst þeim alveg upplagt að breyta þessum samfélagssáttmála Íslendinga af því að það þurfti að ákveða hver ætti hvaða skrifborð inni á þingi. Þá mátti breyta stjórnarskránni. En þegar kemur að eigum Íslendinga eða mannréttindum eða lýðræði eða öðru, nei, þá er málið of umdeilt, í bullandi ágreiningi.
Í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins var samþykkt breyting á mannréttindakaflanum. Það virðist hafa verið í sátt Sjálfstæðisflokksins sem lagðist ekki í langt málþóf yfir breytingum á mannréttindakaflanum, enda fylgdi sú breyting aðild okkar að mannréttindasáttmála Evrópu. Lítið fer fyrir umræddri sátt í dag og að sögn hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins nauðsynlegri sátt. Þess vegna sitjum við enn þá uppi með samfélagssáttmála íslensku þjóðarinnar sem er bráðabirgðaplagg og að mörgu leyti úrelt.
Sú heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem átti að fara fram eftir að Ísland varð lýðveldi fór loksins af stað með skipun stjórnlagaráðs, 25 einstaklinga úr ýmsum áttum. Þetta var samþykkt á Alþingi árið 2010 með lögum um stjórnlagaþing og svo var kosin stjórnlaganefnd sem var falið að undirbúa þjóðfund og kosningu stjórnlagaþings. Það er búið að fara vel yfir allt það ferli í dag þannig að ég ætla ekki að þreyta hv. þingmenn með því að ítreka og endurtaka það sem hefur verið fjallað um frá árinu 2010. Þetta hefur verið reifað ítarlega m.a. af hv. flutningsmanni þessa frumvarps, Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, sem með flutningnum tekur við keflinu af fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar, Jóhönnu Sigurðardóttur. Saman munum við, með styrku liðsinni annarra þingmanna, halda því kefli á lofti enda verkinu við heildarendurskoðun á bráðabirgðaplagginu enn ólokið.
Nýja stjórnarskráin var samin, ritrýnd, unnin og lagfærð og um hana kosið í þjóðaratkvæðagreiðslu en þjóðarviljinn var og er enn virtur að vettugi af þingflokki Sjálfstæðisflokks og að mér sýnist annarra stjórnarflokka sem einhvern veginn hafa verið fjarverandi í umræðunni í dag. Þjóðarviljinn er virtur að vettugi vegna þess að hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, og mögulega annarra stjórnarflokka, finnst ekki tímabært að fara í heildarendurskoðun. Þar er bara meiri hluti almennings ósammála og var líka ósammála í fyrra þegar gerð var skoðanakönnun. Þá sagði einmitt meiri hluti þjóðarinnar að það ætti að ljúka þessari vinnu.
Hvar er þá ágreiningurinn? Er það enn einu sinni Sjálfstæðisflokkurinn versus þjóðin? Þar virðist ágreiningurinn liggja. Ég verð að hryggja hv. þm. Birgi Ármannsson, sem stendur hér vaktina fyrir ríkisstjórnina í dag og er að öðrum ólöstuðum öflugasti varðmaður gömlu bráðabirgðastjórnarskrárinnar, með því að ég held að hann verði á endanum undir í baráttu sinni fyrir langlífi og áframhaldandi lífi bráðabirgðaplaggs, enda tel ég íslensku þjóðina eiga það skilið að fá núna sinn eigin samfélagssáttmála.
Hæstv. forseti. Mér fannst sumt í sagnfræðilegri upprifjun hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur áhugavert og hefði viljað að hún færi aðeins nánar yfir þær breytingar sem hafa orðið á stjórnarskránni frá 1944. Hún gerði lítið úr þeim breytingum en engu að síður hefur stjórnarskránni verið breytt sjö sinnum frá lýðveldisstofnun. Ég man ekki hvort það eru 46 eða 48 af núgildandi ákvæðum sem hefur verið breytt frá þeim tíma. Það má auðvitað vera þeirrar skoðunar að það sé allt of lítið, en það er umtalsvert engu að síður.
Það þýðir líka að allt tal um heildarendurskoðun hefur annan blæ í dag en 1944. Heildarendurskoðun getur farið fram með ýmsum hætti. Hún getur farið fram með þeim hætti t.d. sem hæstv. forsætisráðherra hefur lagt upp með, að það sé farið í gegnum einstaka kafla og einstök ákvæði stjórnarskrárinnar og það rætt og metið og eftir atvikum lagt til að breyting verði gerð. Það er líka hægt að gefa sér fyrir fram að það verði að breyta sem mestu og þannig er nálgun stjórnlagaráðs.
Þegar vísað er til þess að hinn óbilgjarni þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi staðið gegn öllum breytingum verð ég að minna á að afstaða Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum hefur legið nokkuð skýr fyrir frá kjörtímabilinu 2009–2013. Alloft hefur verið efnt til kosninga í landinu frá þessum tíma. Alloft hafa komið fram flokkar sem hafa veifað því mjög í kosningabaráttunni að þeir legðu höfuðáherslu á það að koma tillögum stjórnlagaráðs í gegn. Það er ekki eins og (Forseti hringir.) kjósendur hafi ekki haft tækifæri á þessu sjö ára tímabili til að hafa með einhverjum hætti áhrif á atburðarásina í þessum efnum.
Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir andsvarið. Ég er reiðubúin að sýna og fara yfir allt sem hefur gerst á því tímabili frá því að við fengum stjórnarskrána til dagsins í dag enda hef ég tekið þetta saman og lúslesið og þess vegna gat ég t.d. á þessum stutta tíma nefnt hversu oft hefur verið gerð tilraun til breytinga o.s.frv. Á tíu mínútum er samt ansi flókið að fara djúpt ofan í allar tillögur sem allar þær fjölmörgu nefndir sem ég nefndi áðan, sem hafa verið settar saman til að breyta stjórnarskránni, hafa lagt til. Það er ógerningur á tíu mínútum. Ég er hins vegar fús til að taka þetta saman og ég er viss um að upplýsingasvið Alþingis er einnig tilbúið að taka saman þessar upplýsingar vegna þeirrar vinnu sem fram undan er í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Vegna orða hv. þingmanns um að heildarendurskoðun á stjórnarskrá hafi allt annan blæ í dag en árið 1944 verð ég eiginlega að velta fyrir mér hvers vegna hv. þingmaður haldi því fram. Ég leyfi mér að efast um að hann viti það endilega og sé með það á hreinu því að þrátt fyrir að hv. þingmaður hafi verið lengur á þingi en flestir og sé eldri en margir leyfi ég mér að efast um að hann hafi verið á þingi árið 1944 og geti því sagt til um það hvers konar blæbrigði hafi verið í umræðunni um heildarendurskoðun stjórnarskrár á þeim tíma.
Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, það er aðeins farið að fenna yfir það hjá mér sem við ræddum hér 1944. Ég verð þó að segja að ég hygg, án þess að ég vilji fullyrða of mikið, að þegar menn töluðu um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar 1944 hafi þeir haft afskaplega mismunandi hugmyndir um það á þingi hvað þeir áttu við. Ég held að það hafi líka endurspeglast í þeirri vinnu sem átti sér stað strax í kjölfar lýðveldisstofnunarinnar og fram á sjötta áratuginn. Margir töluðu um stjórnlagabreytingar, sumir um miklar breytingar, aðrir um litlar, og eins og oft og iðulega er hafa einstakir flokkar og einstakir menn mjög mismunandi viðhorf til þess hvernig þeir meta slíka hluti. Allt í góðu með það, við komumst ekki lengra með það.
Hv. þingmaður nefndi þær breytingar sem hafa orðið á stjórnarskránni á lýðveldistímanum og ég hygg að þetta sé einmitt til á heimasíðu Alþingis í samantekt efnis um stjórnarskrármál. Það er kannski ekki alveg aðgengilegt fyrir almenning að komast inn í það en með smáleit á heimasíðu Alþingis er hægt að komast í mjög viðamikið efni um stjórnarskrármál og þar á meðal um þetta og þá held ég að menn sjái eins og ég reyndi að koma að í fyrra andsvari mínu, að þrátt fyrir það sem sagt hefur verið hafa orðið umtalsverðar breytingar á stjórnarskránni á lýðveldistímanum í sex eða sjö lotum. Meiri hluti greinanna sem nú standa í stjórnarskránni er breyttur frá því sem áður var. Auðvitað getum við verið þeirrar skoðunar að það sé of lítið. Ég get verið þeirrar skoðunar, eins og margir í umræðunni í dag, að einstök ákvæði núverandi stjórnarskrár séu þannig að það sé ástæða til að breyta þeim. Ég er tilbúinn að samþykkja það (Forseti hringir.) en að það þurfi að henda út öllu hinu gamla og taka upp allt nýtt er ég ekki alveg tilbúinn að skrifa upp á. (Gripið fram í.)
Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir seinna andsvar. Það er þetta með skilning fólks árið 1944 á orðinu heildarendurskoðun. Söguritarar segja þó að við atkvæðagreiðsluna á þeim tíma hafi verið skýrt tekið fram að hér ætti eingöngu að greiða atkvæði um þennan þátt, þ.e. varðandi stofnun lýðveldis, vegna þess að hitt tæki of langan tíma. Það var ekki meiri misskilningur eða ólíkur skilningur á þessu en svo að sérstaklega var tekið fram að ekki ætti að fara í heildarendurskoðun þá og þess vegna væri bráðabirgðaplaggið látið duga. Nefnd var strax sett á laggirnar til að fara yfir þetta mál, þetta gamla plagg, og færa það til þess sem við Íslendingar viljum hafa sem okkar samfélagssáttmála.
Þetta hefur ekkert með einhvers konar þjóðernishyggju að gera. Mér er afskaplega hlýtt til Dana, dönsku drottningarinnar og alls hennar fólks. Hins vegar held ég að íslenska þjóðin eigi rétt á því að fá sinn eigin samfélagssáttmála. Ég held að það sé kominn tími á það.
Fjölmargar breytingar hafa verið gerðar, svo sem mannréttindakaflinn, en yfirleitt eru þetta orðalagsbreytingar, t.d. þegar efri og neðri deildum þingsins var breytt og þær settar saman í eitt þurfti að gera breytingu á stjórnarskránni vegna þess. Það þurfti að gera breytingar (Forseti hringir.) vegna kjördæma og ýmislegs annars sem ég næ ekki að fara yfir. Þetta eru þær breytingar sem hafa verið gerðar sem lúta ekki að þjóðareign eða lýðræðishlutum.
Virðulegi forseti. Ég hef ekkert efnislega að setja út á ræðu hv. þingmanns en vegna þess að hv. þingmaður nefndi mig sérstaklega á nafn langar mig að leiðrétta eitt sem misfórst aðeins. Ég las ekki stjórnarskrána þegar ég byrjaði að lesa heldur var á ég táningsaldri þegar ég las hana í fyrsta sinn ásamt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og annað efni sem gerir táning jafnan óþolandi eins og sá sem hér stendur var. Ég býst ekki við neinu svari frá hv. þingmanni. Mig langaði bara að þetta kæmi fram, mér fannst ekki við hæfi að bera af mér sakir vegna þess að þetta voru ekki miklar sakir, en mér fannst rétt að hafa þetta á hreinu.
Herra forseti. Ég biðst velvirðingar, ég skildi ræðu hv. þingmanns eins og hann væri að tala um að frá táningsaldri og allt frá því að hann fór að lesa, þannig að ég hélt að þetta væri frá því að hann lærði að lesa en ekki lesa stjórnarskrána. En aftur verð ég að viðurkenna barnaskap minn og kæruleysi. Ég var ekki svona ábyrgt ungmenni eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson. Þegar ég var unglingur var ég að dunda mér við annað en að lesa stjórnarskrána.
Frumvarpið gengur til 2. umr.
Frumvarpið gengur til stjórnsk.- og eftirln.