150. löggjafarþing — 37. fundur
 28. nóvember 2019.
stofnun dótturfélags RÚV.

[10:59]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Ríkisútvarpið hafi ekki stofnað dótturfélög um annan rekstur en fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu þrátt fyrir lagalega skyldu þar um. Það er áhugavert að skoða þetta því að það er einnig sagt að óþarft sé að stíga þetta skref þar sem aðskilnaður í bókhaldi félagsins eigi að nægja til þess að halda þessum þáttum starfseminnar aðgreindum þar sem lagaákvæðið gangi lengra en Evrópureglur mæla fyrir um og óvíst hvort sé einhver ávinningur af stofnun dótturfélags, það gæti jafnvel leitt til óhagræðis fyrir félagið. Gildistökunni hefur verið frestað tvívegis, síðast til ársbyrjunar 2018, og núna er uppi það vandamál að fresturinn er ekki lengri og ríkisendurskoðandi segir bara berum orðum og bendir á að ekki sé valkvætt að fara eftir lögum.

Þetta er dálítið áhugavert vandamál þar sem það er í rauninni verið að leggja aukabyrði á RÚV án þess að það sé nauðsyn á því. Þá erum við að velja að fara í rauninni illa með almannafé þegar allt kemur til alls. Mig langaði að leita álits ráðherra á því. Er ekki gott að laga þetta vandamál, að hætta að fara illa með almannafé, og skýra betur hvað þarf og þarf ekki að gera?

Svona rétt að lokum, risastórt mál, það þyrfti kannski bara stutt svar við þeirri spurningu en það er staða fjölmiðlamanna á einkamarkaði. Þar er ákveðið vandamál með mörk þess hvað sé sjálfboðavinna og hvað yfirvinna. Ef maður vísar aftur í Ríkisendurskoðun, að það sé ekki valkvætt að fara eftir lögum, þá eru ákveðin lög um hvaða laun maður fái fyrir vinnu sína o.s.frv. Það eru náttúrlega kjaradeilur í gangi sem við skiptum okkur ekkert sérstaklega mikið af, en þarna er ákveðið vandamál sem þarf tvímælalaust að huga að, jafnvel hérna inni, þegar (Forseti hringir.) það er ekki verið að fara eftir lögum um greiðslur á launum.



[11:01]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er rétt að Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu á dögunum þar sem var farið yfir RÚV og m.a. fjallað um dótturfélagið. Það er rétt að það á að setja á laggirnar dótturfélag samkvæmt lögum og það er ekki valkvætt. Það kemur einnig fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, á bls. 21, að óhagræðið sem ýmsir hafa talið af því að setja á laggirnar dótturfélag telur Ríkisendurskoðun ekki fyrir hendi. Þess vegna var ekki verið að fresta þeirri gildistöku. Ég var ekki hrifin af allri þeirri frestunaráráttu sem virðist hafa einkennt þetta mál á sínum tíma og þess vegna tók ég af allan vafa um að það ætti að setja á dótturfélag. Mér finnst brýnt að setja á dótturfélag vegna þess að ég vil auka allt gagnsæi um allt sem við erum að gera varðandi fjölmiðlamarkaðinn. Þess vegna tel ég brýnt núna og stjórn RÚV hefur sagt að þeir muni setja á laggirnar dótturfélagið og hefur nú þegar hafist handa við að gera það og það er mjög gott.

Varðandi önnur fjölmiðlamál er það eins og alls staðar mjög brýnt að fara eftir kjarasamningum. Það er ekki valkvætt að fara eftir lögum og ráðherrann sem stendur hér er að sjálfsögðu sammála því. Við verðum líka að átta okkur á því að fjölmiðlamarkaðurinn er að breytast mjög hratt, ekki bara á Íslandi heldur alls staðar. Þess vegna þurfum við að hlusta á og taka mið af þeim breytingum og miða að því að rekstrarumhverfi fjölmiðla, hvort sem það er opinber fjölmiðill eða einkarekinn, geti verið í samkeppni við aðra og því þarf að styrkja umgjörðina. Það er einmitt verið að vinna að því núna.



[11:03]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ráðherra segir að ekki sé valkvætt að fara eftir lögum, alveg eins og Ríkisendurskoðun bendir á. Það var álit fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytis í samtölum við Ríkisendurskoðun að það væri einmitt óþarft að stíga þetta skref. Það var alla vega fyrra álit þannig að þarna er áhugaverð togstreita. Um það annars að ekki sé valkvætt að fara eftir lögum eru einmitt lög um opinber fjármál sem tengjast dálítið umræðu undanfarið þar sem ráðherra setur fram stefnu fyrir þau málefnasvið og málaflokka sem hann ber ábyrgð á. Hann skal lýsa áherslum og markmiðum, þar með talið gæða- og þjónustumarkmiðum, um fyrirkomulag, þróun og umbætur og gera grein fyrir hvernig þeim markmiðum verði náð, ábyrgðarskiptingu, tímasetningum og nýtingu fjármuna. Í stefnu stjórnvalda, eins og segir í frumvarpi til laga um opinber fjármál, á að vera formleg greining og mat á stöðu þjónustu og starfsemi á einstökum málefnasviðum, ákvörðun um hvaða leið skuli fylgt til að ná fram settum markmiðum þar sem þarf að huga að kostnaði, áhrifum og ávinningi hverrar leiðar og leggja fram áætlun um framkvæmd einstakra þátta stefnumótunar, tryggja samræmi og skýra forgangsröðun (Forseti hringir.) og skilgreina tímafresti og áætlaðan kostnað.

Er þetta gert á málefnasviðum ráðherra í þeim fjárlögum sem við samþykktum hérna í gær?



[11:05]
mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Já, við erum að gera þetta. Mig langar til að mynda að nefna eitt gott dæmi um það hvernig við erum að fara með opinbert fé. Þegar ég tek við embætti, eins og hv. þingmaður þekkir, er staðan sú að mikil kennaraþörf er samkvæmt færnispá árið 2032. Við hefjumst strax handa og förum í umtalsverðar aðgerðir með Sambandi íslenskra sveitarfélaga, kennaraforystunni og menntavísindasviði og setjum inn 220 milljónir næstu fimm árin. Það sem hefur gerst í kjölfarið er að í stað þess að vanta myndi um 1.500–2.300 kennara eftir tíu ár hefur sú þörf minnkað í 132 kennara eins og staðan er í dag. Þarna er alveg klárt að verið er að auka útgjöld og við fáum nákvæma mælingu á hvernig þetta breytist með færnispánni. (Forseti hringir.) Þannig að alla vega varðandi þennan málaflokk erum við svo sannarlega að gera það.