150. löggjafarþing — 45. fundur
 13. desember 2019.
framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020–2023, síðari umræða.
stjtill., 102. mál. — Þskj. 102, nál. 695, breytingartillaga 696.

[16:07]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég fer yfir nefndarálit allsherjarnefndar um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2020–2023. Ýmsir gestir komu á fund nefndarinnar en þessi þingsályktunartillaga er lögð fram samkvæmt lögum um jafna stöðu og rétt kvenna og karla og er sjöunda framkvæmdaáætlunin í röðinni sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Í fyrsta sinn birtast núna í áætluninni aðgerðir sem snerta málefnasvið allra ráðuneyta. Þetta er að sönnu ekki tæmandi upptalning á verkefnum sem unnið er að í þágu jafnréttis en áherslur og forgangsröðun stjórnvalda birtast hér nokkuð skýrt.

Í umfjöllun hjá nefndinni var auðvitað lögð mikil áhersla á mikilvægi þess að til aðgerðanna sem hér eru undir yrði veitt nægilegt fjármagn. Að auki var rætt að stórum hluta aðgerða væri ætlað að rúmast innan ramma ráðuneyta sem bera ábyrgð á aðgerðunum. Þá telur nefndin tilefni til að fjalla um fjölþættar breytur jafnréttis. Í ljósi gildistöku laga um kynrænt sjálfræði taldi nefndin mikilvægt að taka fram að áætlun þessari er ætlað að taka til fólks af öllum kynjum þar sem við á. Heildarendurskoðun laga nr. 10/2008 er hafin og er það von nefndarinnar að við þá endurskoðun verði tekið tillit til fjölbreytileika kynjanna og kynvitundar. Enn fremur minnir nefndin á að þegar unnið er að jafnréttismálum er mikilvægt að hafa til hliðsjónar stöðu sérstaklega viðkvæmra hópa, til að mynda fatlaðs fólks og fólks af erlendum uppruna.

Að sjálfsögðu var ýmissa upplýsinga aflað við meðferð þessa máls í nefndinni, m.a. um starfshlutfall jafnréttisfulltrúa í ráðuneytunum. Það er misbrestur á því að það sé skilgreint hversu stórum hluta starfs síns viðkomandi starfsmenn verji til slíkra verkefna af því að jafnréttisfulltrúar innan ráðuneyta sinna mörgum öðrum verkefnum samhliða. Nefndin telur ástæðu til að ramminn sé skýr utan um störf jafnréttisfulltrúa og beinir því til ráðuneytanna að skilgreina hversu hátt hlutfall af starfi þess sem sinnir slíku hlutverki sé ætlað til þeirra verkefna sem þar eru undir.

Það komu líka fram sjónarmið að ákjósanlegt væri að fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga ættu sæti í stýrihópi Stjórnarráðsins um vottunar- og faggildingarmál sem fjallað er um í a-lið 8. verkefnis. Í hópnum sitja fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, forsætisráðuneytis og Jafnréttisstofu. Stýrihópurinn var stofnaður í kjölfar tilkomu lagaskyldu um jafnlaunavottun að ósk ráðherranefndar um jafnréttismál. Stýrihópnum var falið að skoða margvísleg álitamál sem kynnu að koma upp við innleiðingu á jafnlaunastaðlinum og vottun jafnlaunakerfa. Hópurinn hefur tekist á við ýmis álitamál og skilgreint viðmið og fyrirmæli um framkvæmd vottunar fyrir vottunaraðilum. Forsætisráðuneytið segir að þetta fyrirkomulag hafi gefist vel, þ.e. að hafa hópinn skipaðan fólki innan úr ráðuneytunum með sérþekkingu á jafnlaunavottun, og telur ekki ástæðu til að taka inn fleiri aðila að sinni. Það stendur yfir heildarendurskoðun jafnréttislaga þar sem m.a. er fjallað um jafnlaunavottun og er við hana að sjálfsögðu haft mikið samráð við hagsmunaaðila. Í þeim hópi sem fjallar um launajafnrétti og vinnumarkað sitja m.a. fulltrúar SA, BHM, ASÍ, BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Enn fremur hefur skrifstofa jafnréttismála gætt að samráði og samstarfi við helstu hagsmunaaðila um álitaefni tengd jafnlaunavottun, bæði við heildarendurskoðun á jafnréttislögum og í stýrihópnum, að það samráð sé í lagi. Nefndin ákvað að leggja ekki til breytingar að þessu sinni á skipan stýrihópsins.

Í a-lið 9. verkefnis er kveðið á um að það eigi að kanna forsendur fyrir skipan samráðshóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði. Hópurinn sem hafði starfað á árunum 2012–2018 var í sjálfu sér var ekki lagður niður en fjaraði út þrátt fyrir að það væri almenn ánægja með starf hópsins og þeir sem þar sátu lýstu yfir vilja til að sitja í þessum nýja samráðshópi. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að það væri full ástæða til að skipa slíkan hóp að nýju og leggur því til að í áætluninni verði afdráttarlaust kveðið á um að skipa skuli hópinn.

Það komu líka fram sjónarmið um að innleiðing jafnlaunastaðals dygði ekki til að uppræta launamun kynjanna og nauðsynlegt væri að rannsaka orsakir hans betur. Nefndin telur starfshópinn tilvalinn vettvang fyrir slíkar rannsóknir og var bent á fjölda aðgerða í greinargerð. Jafnframt var rætt um þingsályktun um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta sem var samþykkt 11. júní 2018. Þar ályktaði Alþingi að fela fjármála- og efnahagsráðherra að efna til viðræðna við aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa sveitarfélaga um leiðir til að tryggja jafnræði við launasetningu ólíkra starfstétta hins opinbera. Það átti að ráðast í greiningu á launakjörum fjölmennra kvennastétta í samanburði við aðrar stéttir með sambærilega menntun og ábyrgð hjá hinu opinbera og gera í kjölfarið sérstakan kjarasamning um leiðréttingu á kjörum þessara stétta. Nefndin vekur athygli á að þessi vinna er ekki hafin og telur að verði framangreindur starfshópur, sá sem ég vakti athygli á áðan, settur á fót sé tilefni til að fela honum að annast framkvæmd ályktunarinnar um greiningu á launakjörum.

Töluverð umfjöllun var um lengingu fæðingarorlofs og nauðsyn þess að brúa bilið milli dagvistunar og orlofs. Það er auðvitað ánægjulegt að geta sagt frá því að það sé búið að mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof þar sem gert er ráð fyrir því að það verði lengt í skrefum. Það er á dagskrá síðar í dag þannig að við teljum að þessi áætlun „harmóneri“ ágætlega við það.

Í kafla C er nýmæli sem ástæða er til að benda á þar sem lagt er til að á framkvæmdatíma áætlunarinnar verði annars vegar unnið að stefnumarkandi landsáætlun um framfylgd Istanbúl-samningsins og hins vegar um ítarlegar rannsóknir á jafnrétti innan lögreglunnar og hvernig bæta megi hlut kvenna í stéttinni.

Við meðferð málsins komu ítrekað fram athugasemdir þess efnis að annar ábyrgðaraðili liðar 15,1, karlar og kennsla, samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda, hefði verið lagður niður en fyrirhugað væri að annað ráð tæki til starfa sem tæki við a.m.k. hluta verkefnanna. Nefndin leggur áherslu á við mennta- og menningarmálaráðuneytið að það verði eitt ábyrgt fyrir verkefninu en geti væntanlega eftir atvikum leitað til arftaka samstarfsráðsins um starfsþróun. Þá leggur nefndin jafnframt til í samráði við ráðuneytið að í d-lið verkefnisins verði lagt til að unnið verði úr fyrirliggjandi tillögum um hvernig auka megi gæði og samhæfingu starfsþróunar og bæta starfsumhverfi kennara til frambúðar.

Í lið 15,4 er fjallað um að jafna þurfi þátttöku kynja í öllum þáttum félagslífs framhaldsskóla auk nemenda af erlendum uppruna og fatlaðra nemenda. Þar er lögð áhersla á að þessar aðgerðir skuli móta í samvinnu við Samband íslenskra framhaldsskólanema. Í 16. verkefni er lagt til að jafnrétti og öryggi í skólum og íþrótta- og æskulýðsstarfi verði aukið með því að fræða og um leið uppræta kynbundna mismunun, kynferðislega áreitni, hótanir og ofbeldi. Það var afar góð umsögn Kennarasambands Íslands þar sem m.a. kom fram að skólakerfið væri tæki til að hafa áhrif á jafnréttisvitund almennings til hins betra og að nauðsynlegt væri að fræða nemendur sem og að menntun kennara yrði efld.

Í nefndaráliti sem tilheyrði áætluninni 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess teljum við löngu tímabært að efla kennslu um kynheilbrigði, kynhegðun, samþykki og mörk á öllum skólastigum. Við erum líka sannfærð um að það beri að athuga hvort kenna þurfi kynjafræði á öllum skólastigum. Það er mat nefndarinnar að aukin fræðsla í þessum efnum hafi jákvæð áhrif á jafnréttismál almennt og sé sérstaklega til þess fallin að draga úr kynbundinni mismunun og ofbeldi.

Í kafla E um karla og jafnrétti eru lögð til tvö verkefni, þ.e. vitundarvakning um ábyrgð og hlutverk karla í tengslum við #metoo og svo rannsókn á bágri notkun karla á Heilsuveru – rafrænni þjónustugátt. Við umfjöllun málsins var vakin athygli á að nauðsynlegt væri að karlar tækju þátt í jafnréttisbaráttu á sínum forsendum Nefndin tekur undir þau sjónarmið og hvetur til þess að sjónarhorn karla verði einnig skoðað í þeim verkefnum framkvæmdaáætlunarinnar þar sem það á við.

Í síðasta kafla er fjallað um alþjóðastarf og lögð áhersla á breytta neysluhætti með kynja- og umhverfissjónarmið að leiðarljósi, þátttöku karla í jafnréttismálum í alþjóðastarfi, innleiðingu jafnréttisvottunar í þróunarsamvinnu og jöfn tækifæri kynjanna í alþjóðaviðskiptum.

Virðulegi forseti. Að lokum lýsir nefndin yfir stuðningi við þessa framkvæmdaáætlun og telur að markmið hennar séu raunhæf og til þess fallin að bæta umhverfi jafnréttismála. Nefndin áréttar mikilvægi þess að hverri aðgerð verði tryggt nauðsynlegt fjármagn. Það eru tillögur til breytinga sem ég hef aðeins farið yfir í þessu nefndaráliti og svo eru tæknilegar breytingar sem koma fram á sérstöku skjali. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem þar er að finna.

Undir þetta rita hv. þingmenn Páll Magnússon sem var fjarverandi við afgreiðsluna en skrifar undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sem hér stendur, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Ármannsson, Guðmundur Andri Thorsson, Jón Steindór Valdimarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þórarinn Ingi Pétursson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.



[16:18]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Forseti. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns sem flutti nefndarálitið rétt áðan fór allsherjar- og menntamála nefnd nokkuð vel og ítarlega í gegnum þá framkvæmdaáætlun sem liggur nú fyrir. Þess má geta í byrjun að mig minnir að einn fundur allsherjar- og menntamála nefndar hafi aðeins verið skipaður körlum og þeir höfðu orð á því að þeir hefðu þrátt fyrir það staðið sig ágætlega í að koma málinu áfram. Það var svolítið skemmtilegt augnablik að heyra það.

Nefndin fékk fjölmarga gesti og nokkuð góðar umsagnir, ekki er hægt að segja annað. Hér liggur fyrir mjög stórt og viðamikið mál. Það er að verða breyting á því hvernig við fjöllum um jafnrétti. Það er ekki aðeins jafnrétti kynjanna, það er í miklu víðari skilningi sem við ræðum jafnrétti nú um stundir. Þar sem við stöndum frammi fyrir þessari miklu breytingu er alveg ljóst að við þurfum að sjá til þess að sannarlega verði til fjármagn og mannafli til að ráðast í þær aðgerðir sem þarf að ráðast í. Það er líka mikilvægt að við minnumst þess að hafa með í ráðum og í huga svokallaða minnihlutahópar, þá hópa sem við skilgreinum oft sem viðkvæma, til að mynda fatlað fólk og fólk af erlendum uppruna. Þetta er vel skilgreint í nefndarálitinu og afar vel með farið.

Mig langar aðeins, með leyfi forseta, að grípa niður í kafla sem fjallar um stjórnsýsluna:

„Við meðferð málsins aflaði nefndin upplýsinga um starfs hlutfall jafnréttis fulltrúa ráðuneyta og í ljós kom að mikill misbrestur er á því að skilgreint sé hversu stórum hluta starfs viðkomandi starfsmanns skuli varið til slíkra verkefna. Jafnréttis fulltrúar sinna allir öðrum störfum í ráðuneytum samhliða verkefnum jafnréttis fulltrúa sem hefur fjölgað umtalsvert. Í 3. verkefni [þessarar framkvæmdaáætlanir] er lagt til að starfsreglur og starfs áætlun jafnréttis fulltrúa verði endurskoðuð.“ — Því ber að fagna. — „Nefndin telur endurskoðunin brýna þar sem mikilvægt er að skýr rammi sé utan um starf jafnréttis fulltrúa og beinir því jafnframt til ráðuneytanna að skilgreina hversu hátt hlutfall af starfi þess sem sinnir hlutverki jafnréttis fulltrúa sé ætlað til þeirra verkefna.

Jafnréttis fulltrúum ber samkvæmt 13. gr. jafnréttislaga að senda Jafnréttis stofu árlega greinargerð um stöðu og þróun jafnréttismála á málefnasvið viðkomandi ráðuneytis og er það hlutverk þeirra áréttað í framkvæmdaáætluninni. Við meðferð málsins óskaði Jafnréttis stofa eftir því að hlutverk stofnunarinnar við vinnslu skýrslunnar yrði skýrt. Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneyti er hlutverk Jafnréttis stofu eingöngu að sjá til þess að yfirliti sé skilað en það sé hlutverk þess ráðherra er fer með jafnréttismál að leggja mat á stöðu verkefna framkvæmdaáætlanir í jafnréttismálum samkvæmt 10. gr. jafnréttislaga. Þá sé það á höndum jafnréttis fulltrúa í samstarfi við starfsmann Jafnréttis stofu að fylgja eftir og tryggja framgang aðgerða í hverju ráðuneyti fyrir sig.“

Mér fannst mikilvægt að þetta kæmi hér fram. Við þurfum að huga vel að því hvernig starf Jafnréttis stofu á að þróast áfram með það að leiðarljósi að við erum að auka alla umgjörð er snýr að jafnréttismálum.

Í nefndarálitinu er einnig fjallað um vinnumarkað og launajafnrétti kynjanna og var töluvert rætt um það að á sínum tíma var stofnaður aðgerðahópur um launajafnrétti sem vann afar vel enda skipaður fagfólki í hverju horni. Afrakstur vinnu þessa hóps var m.a. jafnlaunastaðall stjórnarinnar. Það sem má segja í framhaldi gagnvart þeirri vinnu, af því að við erum að velta fyrir okkur hvernig við getum komist áfram, er að fram kemur í álitinu að gáfulegt væri að framlengja skipun þessa hóps, enda má segja að verkefnin séu ærin. Við erum núna með jafnlaunastaðal og jafnlaunavottun sem tekur á jöfnum launum innan stofnana og fyrirtækja. Það sem vantar upp á er að við getum farið að huga að því að hvernig sömu laun verði tryggð innan sambærilegra stofnana, ég nefni jafnvel Landspítala — og Sjúkrahúsið á Akureyri sem mér verður tíðrætt um. Kannski er niðurstaðan sú að það sé ekki hægt en gæti verið sjónarmið að velta því fyrir sér. Það á þá eins við um sveitarfélög, a.m.k. af svipaðri stærðargráðu.

Jafnlaunastaðallinn byggir á svokallaðri starfaflokkun þannig að það er flókið að finna út úr því þegar við ætlum að fara að innleiða jafnlaunavottun eftir því sem við förum neðar og niður í minni stofnanir og fyrirtæki því að það er býsna kostnaðarsamt að innleiða jafnlaunastaðalinn. Það verður fróðlegt að heyra hvernig það gengur.

Í nefndarálitinu er aðeins minnst á lengingu fæðingarorlofs og seinna í dag verður rætt frumvarp um að lengja það orlof í skrefum. Það er ágætt að minnast þess að í gær kom fram í fjölmiðlum umsögn Geðverndar sem tekur fram að fæðingarorlof eigi að taka til þess að tryggja hag barnsins. Það er líka snúið vegna þess að fæðingarorlof byggir á þörfum vinnumarkaðar þannig að þetta var ágætt innlegg í þá umræðu sem verður seinna í dag.

Það er einnig farið ítarlega í jafnrétti hvað varðar menntun og menningu, íþrótta- og æskulýðsstarf. Það er ánægjulegt að sjá að í framhaldinu fari fram vinna um aðgerðir sem á að móta í samvinnu við Samband íslenskra framhaldsskólanema. Það er ánægjulegt að sjá að haft skuli vera beint samráð við nemendur sjálfa og ég fagna því.

Í lokin vil ég aðeins nefna kafla er kallast Karlar og jafnrétti. Talað er um að auka þurfi vitund karla um ábyrgð sína og hlutverk. Það er sett í sambandi við #metoo eða #églíka og mér finnst það mjög gott ef við náum að taka þar einhver skref. Mér finnst jafnframt mjög gott að sjá að tekið er til þess að karlar eigi að taka þátt í jafnréttisbaráttunni á eigin forsendum. Það er mjög gott að sjá þetta þarna.

Að síðustu er fjallað um alþjóðastarf. Árið 2015 kom ég að skrifum skýrslu um jafnrétti á norðurslóðum sem var gerð í tíð þáverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, þar sem fjallað var um hvernig áhrif jafnrétti hefði á kynin á norðurslóðum. Það var býsna sláandi að sjá þann stóra mun sem allar þær breytingar sem við stöndum núna frammi fyrir höfðu á kynin.

Ég læt þetta duga að sinni og vona að málið fái góðan framgang á þingi.