150. löggjafarþing — 50. fundur
 21. janúar 2020.
staðan í heilbrigðiskerfinu.

[13:56]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég hef óskað eftir að eiga orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra um stöðuna í heilbrigðiskerfinu. Við erum í þessu saman en ekki er hægt að horfa fram hjá því að ráðherra málaflokksins ber ábyrgð á stöðunni og hefur völd til að bregðast við. Jú, það hefur eitthvað verið aukið við framlög til heilbrigðismála en við verðum að líta á staðreyndir. Samkvæmt skýrslu OECD setjum við mun lægri hluta vergrar landsframleiðslu til málaflokksins en samanburðarlönd og það breyttist ekki 2018 og 2019. Ríkisstjórnin hefur útskýrt þennan mikla mun með ungum aldri þjóðarinnar, með því að landsframleiðslan sé að aukast og að fleiri krónur séu settar í málaflokkinn en minnist ekkert á rúmlega 20% niðurskurð í hruninu sem enn er óbættur, læknasamninga 2015 sem einnig eru óbættir; minnist ekkert á fámenna og dreifða þjóð og há laun hér á landi sem eru milli 70 og 80% af útgjöldum í heilbrigðiskerfinu. Þetta, herra forseti, verður að taka með í reikninginn.

Ég vil biðja hæstv. ráðherra um að hlusta á raddir þeirra sem reka hjúkrunarheimilin, sem segjast þurfa að senda veikasta fólkið á Landspítala í sparnaðarskyni; hlusta á raddir forsvarsmanna heilbrigðisstofnana úti á landi sem þurfa, ef stjórnvöld bregðast ekki við, að loka á þjónustu og jafnvel loka skurðstofum og senda veikasta fólkið á Landspítala. Og loks horfa á ástandið á bráðamóttöku og öðrum deildum Landspítala og svara spurningunni: Er nóg gert? Þarf ekki að viðurkenna ástandið í heilbrigðiskerfinu og bregðast við af meiri alvöru?



[13:57]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og er sammála því sem kemur fram í hennar máli að við erum í þessu saman. Til þess að ræða um heilbrigðismál þarf maður að hafa í huga og í fyrirrúmi mikilvægi þess að það sé til stefna í málaflokknum. Það er sem betur fer þannig að það er til stefna sem var samþykkt á Alþingi í júní á síðasta ári og stefnan naut stuðnings þingflokks Pírata og þingflokks Samfylkingarinnar, þingmanna sem voru þeirrar skoðunar að heilbrigðismál væru málaflokkur sem væri ekki sérstaklega vel til þess fallinn að geyma í skotgröfum heldur væri betra að um hann gilti samstaða til lengri framtíðar.

Af því að hv. þingmaður nefnir svo tölur og aukið framlag inn í heilbrigðisþjónustuna þá er það svo að á mínum tíma í heilbrigðisráðuneytinu hefur verið aukið í þennan málaflokk um 34 milljarða. En það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að það er lægri hluti samkvæmt tölum sem eru frá 2017, í nýjustu tölum OECD sem eru í nýjustu skýrslunni frá 2019, þegar horft er til hlutfalls af vergri landsframleiðslu. Þegar horft er hins vegar til þess hversu mikið framlag fer á hvern íbúa erum við þar t.d. með meira en það sem Finnar setja í sitt kerfi þannig að það eru ýmsar leiðir til að horfa á þetta. Ég er hins vegar sammála því að það þarf að fjármagna þetta kerfi betur og það tekur langan tíma að koma okkur upp úr niðurskurðartímabilinu sem var því miður ekki bara eftir hrun heldur líka í aðdraganda þess.



[14:00]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er gott að hafa stefnu en við rekum ekki heilbrigðiskerfi með vanfjármagnaðri stefnu, því miður. Í kjölfar hruns, eins og áður hefur komið fram, var heilbrigðiskerfið skorið niður um 20%. Það eru margir milljarðar settir í heilbrigðiskerfið, það er alveg rétt. En við verðum að skoða upphafspunktinn og hvar verkefnastaðan er, hver verkefnastaðan er í dag. Við rekum ekki heilbrigðiskerfi á fornri frægð. Frá aldamótum hefur þjóðinni fjölgað um 25% og eldri borgurum á sama tíma um 60%. Raunaukning á framlagi til Landspítala milli áranna 2019 og 2020 er 1,7%, þrátt fyrir þessa sögu sem ég sagði hér í fyrri ræðu, að verkefnin af landsbyggðinni og verkefnin á hjúkrunarheimilum hrúgast inn á Landspítala vegna þess að þessir staðir eru vanfjármagnaðir.

Getur verið að hæstv. heilbrigðisráðherra þurfi að spyrna niður fæti gagnvart vinum sínum í Sjálfstæðisflokknum sem fyrst og fremst vilja einkavæða heilbrigðiskerfið og taka af skarið með það hver stjórnar ferðinni í heilbrigðisráðuneytinu (Forseti hringir.) þessa stundina og standa með fólki, bæði notendum heilbrigðiskerfisins og starfsfólki?



[14:01]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Af því að við erum að tala hér um tölur og að við lifum ekki á stefnunni einni saman, sem er rétt, þá endurspeglar aukning á fjármunum stefnuna líka. Á mínum tíma í heilbrigðisráðuneytinu hefur aukningin í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu verið 24% á föstu verðlagi. Það er til þess að styrkja og efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu og þar erum við auðvitað að leggja líka okkar af mörkum að því er varðar umhverfi Landspítala.

Hv. þingmaður hvatti mig til dáða í því að grípa til aðgerða varðandi stöðu á bráðamóttöku Landspítalans.Það var settur af stað átakshópur á föstudaginn var og hann hóf störf í morgun. Hann er settur saman úr sérfræðingum, bæði úr ráðuneytinu og af Landspítala, og er ætlað að leysa það vandamál sem hefur verið viðvarandi og komið sífellt upp aftur og aftur á bráðamóttöku Landspítala.