150. löggjafarþing — 52. fundur
 23. janúar 2020.
þriðja valfrjálsa bókunin við barnasáttmálann.

[10:59]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er gott að það er aðeins búið að hita ráðherra upp. Mig langar til að ræða við ráðherra um þriðju valfrjálsu bókunina við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem var samþykktur 2011, og snýst um kæruleið barna til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Í nefndri barnaréttarnefnd eru Íslendingar einmitt með fulltrúa en hins vegar leyfum við Íslendingum ekki að nýta þá kæruleið og leita til þessarar barnaréttarnefndar þrátt fyrir að við montum okkur af því að vera með fulltrúa þar. Ríkisstjórnin er einnig með barnamálaráðherra, sem ég spyr hér, og það gefur ákveðna vísbendingu um áherslu ríkisstjórnarinnar. Umboðsmaður barna mælir líka með samþykkt þessarar þriðju valfrjálsu bókunar við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar er t.d. bent á að ákveðinn skortur sé á innlendum leiðum í dómskerfinu sem barnasáttmálinn og þessi kæruleið vinnur að því að styrkja.

Með þessar áherslur ríkisstjórnarinnar í huga, að við erum með barnamálaráðherra, að við erum með fulltrúa í nefndinni sem bókunin vísar til, með stuðningi umboðsmanns barna og rétt er að nefna stuðning umboðsmanns barna annarra Norðurlanda, er ekki rétt að fara að hefja innleiðingu á þriðju valfrjálsu bókuninni, þó ekki nema bara til þess að klára að uppfylla þær leiðir sem við eigum að vera með hér innan lands í dómskerfinu fyrir börn?



[11:01]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og svarið við henni er einfalt: Jú. Ég ætla aðeins að útskýra betur í hvaða farvegi þetta er. Það er því miður ekki nema brot af þeim þjóðum sem hafa innleitt barnasáttmálann sem hafa innleitt þriðju valfrjálsu bókunina og ríkisstjórnin vinnur nú að því, bara svo að það sé sagt. Á síðasta ári var samþykkt tillaga sem ég lagði fram í ríkisstjórn um að fara í vinnu við að útfæra með hvaða hætti við gætum stóraukið þátttöku barna og möguleika barna til að leita réttar síns og láta raddir sínar heyrast. Í þeirri vinnu höfum við unnið með umboðsmanni barna og Landssambandi ungmennafélaga sem eru regnhlífarsamtök ungliðahreyfinga í landinu, hvort sem eru stjórnmálahreyfingar eða ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka eða íþróttastarfs eða annað. Samþykktin sem ríkisstjórnin gerði var að ráðuneytið átti að vinna um það áætlun hvernig við ætluðum að tryggja þessa aukna aðkomu. Við höfum verið að vinna að því og á næstu vikum munum við kynna tímasetta áætlun um það, ekki bara hvenær og hvernig við ætlum að innleiða þriðju valfrjálsu bókun Sameinuðu þjóðanna heldur hvernig við ætlum að stíga enn stærri skref í því að tryggja að raddir barna heyrist og fái að heyrast, bæði í tengslum við barnasáttmálann og hvernig við getum verið hvað fremst meðal þjóða hvað þetta snertir. Þriðja valfrjálsa bókunin er undir í þeirri vinnu. Ég vil þakka þingmanninum fyrir brýninguna og ég hlakka til þess þegar við kynnum þá tímasettu áætlun.



[11:03]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta svar gleður mig. Það er eitt sem mig langar til að bæta við þetta. Það er ákveðin áhersla núna á barnamál, barnaréttarmál, barnaverndarmál í þessari ríkisstjórn með tilkomu barnamálaráðherra en til þess að þetta mál lifi í rauninni af ríkisstjórnarskipti, það er ekkert rosalega mikið eftir af þessu kjörtímabili og hver veit hvað gerist í framhaldinu, væri ekki eðlilegt að þingið kæmi með ályktun um þessa bókun eða þetta ferli til þess að tryggja framhaldið í næstu ríkisstjórnum og það sé komið á formlegri stað heldur en bara innan ríkisstjórnarinnar þar sem það virðist vera núna?



[11:04]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Þingið getur auðvitað ályktað um allt sem það vill álykta um, það er ekki ráðherra sem stýrir því. Þriðja valfrjálsa bókunin er mikilvæg og hún er góð en ég held hins vegar að við þurfum að skoða þetta í víðara samhengi. Það sem við erum að vinna að núna er að skoða í víðara samhengi hvernig við ætlum að tryggja ekki bara að börn geti leitað réttar síns og skotið málum til barnaréttarnefndarinnar heldur hvernig við getum tryggt að kerfislega muni stjórnkerfið okkar, bæði sveitarstjórnarstig og landsstjórn, tryggja aukið samráð við börn og ungmenni. Þessi þriðja valfrjálsa bókun er í rauninni bara einn hluti af þeirri vinnu sem við erum með í gangi og það kann vel að vera að skynsamlegast sé þegar þetta kemur allt saman fram og verður kynnt að koma með það fyrir þingið og fá samþykki allra flokka til þess að þetta mál lifi. Það er það sem þessi málaflokkur á skilið, að við hefjum hann upp úr hinum daglegu pólitísku skotgröfum. Þessi mál verða að lifa á milli kjörtímabila og á milli ríkisstjórna. En þessi ríkisstjórn ætlar reyndar að halda áfram (Forseti hringir.) næsta kjörtímabil þannig að það skiptir ekki máli.