150. löggjafarþing — 55. fundur
 30. janúar 2020.
áætlun um lausn Palestínudeilunnar.

[10:52]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nýlega hefur forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, og forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, opinberað það sem er kallað áætlun aldarinnar. Það er áætlun sem þessir tveir herramenn og þjóðarleiðtogar hafa ákveðið fyrir hönd tveggja þjóða, Ísraels og Palestínu, hvort tveggja þjóðir sem Ísland viðurkennir sem sjálfstæð ríki. Þessi áætlun er gerð í óþökk Palestínuhliðarinnar sem hefur hafnað áætluninni með mjög afdráttarlausum hætti. Áætlunin felur í sér það frekar tilætlunarsama markmið að ætla að úthluta Palestínu landsvæði sem Palestína sjálf sættir sig ekki við, þetta sjálfstæða ríki samkvæmt íslenskri utanríkisstefnu.

Ég velti því fyrir mér og langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst bregðast við þessu eða hvort hann hyggist bregðast við og þá hvernig, sér í lagi gagnvart bandamönnum okkar vestan hafs, í Bandaríkjunum. Ég velti fyrir mér hvernig Íslendingum myndi líða með það að annað ríki sem viðurkenndi sjálfstæði Íslands myndi bara þegja eða að gera ekkert í því eða finnast á einhvern hátt í lagi að annað ríki væri að útdeila landamærum okkar eða ákveða hvernig okkar landamæri ættu að vera án þess að tala við okkur og án þess að spyrja okkur einu sinni álits og jafnvel þó að við mótmæltum harðlega. Ég velti fyrir mér hvernig okkur myndi líða með það.

Það hvernig þessi áætlun virðist ætla að ganga í gegn, alfarið út frá hernaðarmætti Ísraels og Bandaríkjanna, er eitthvað sem Ísland ætti að mótmæla mjög harðlega. Palestína er þjóðríki sem við viðurkennum. Við hljótum að gera þá kröfu, sérstaklega á helstu bandamenn okkar, að þeir virði sjálfsákvörðunarrétt þeirra þjóða. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort og þá hvernig hann hyggist bregðast við þessari þróun.



[10:54]
utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og ætla ekki að endurtaka hana. Við erum að skoða þessa áætlun og höfum ekki fengið neina sérstaka kynningu á henni frá bandarískum stjórnvöldum. Því er of snemmt að meta einstaka þætti hennar. Eins og hv. þingmaður vísar til virðist hún vera sett án samráðs við annan deiluaðilann sem vekur undrun og fyrstu viðbrögð palestínskra stjórnvalda hafa verið neikvæð. Friðsamleg lausn þessarar deilu væri auðvitað kærkomin en á þessu stigi er ekki ljóst hvort áætlunin sé til þess fallin að stuðla að friði.

Hvað varðar afstöðu íslenskra stjórnvalda er hún óbreytt. Íslensk stjórnvöld hafa gagnrýnt ofbeldi á báða bóga og sömuleiðis landtöku Ísraela sem brýtur í bága við alþjóðalög. Íslensk stjórnvöld hafa um langt skeið kallað eftir tveggja ríkja lausn á deilunni og mest er um vert að friðsamleg lausn náist á grundvelli alþjóðalaga. Á þessu stigi vinnum við að því að greina þessa áætlun og getum því lítið getið okkur til um forsendur hennar en það vekur auðvitað furðu að ekki hafi verið haft samráð við annan deiluaðilann eins og hv. þingmaður vísaði til.



[10:55]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Það er gott og blessað að það sé óbreytt afstaða Íslands að við viljum að friðsamleg lausn náist. Þá hljótum við að vilja mótmæla þessari áætlun með einhverjum hætti. Ég er ósammála hæstv. ráðherra um að það sé eitthvað óljóst hvort þessi áætlun stuðli að friði eða ekki. Það er deginum ljósara að hún gerir það ekki, hún stuðlar að ófriði. Það er augljóst, bæði af svörum Palestínumegin og sömuleiðis af umfjöllun þeirra sem fjalla um málið. Þessi áætlun verður ekkert samþykkt friðsamlega, það liggur bara fyrir og er staðreynd hvað sem okkur finnst um það; hún mun ekki stuðla að friði, það þykir mér ljóst. Með hliðsjón af því, ef hæstv. ráðherra getur tekið undir það, hljótum við að vilja mótmæla þessari áætlun með einhverjum formlegum hætti sem þjóðríki sem viðurkennir tilvist og sjálfstæði hins þjóðríkisins, Palestínu, og vitaskuld Ísraels einnig.



[10:56]
utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Það er nú litlu við þetta að bæta. Afstaða okkar í þessu deilumáli er óbreytt og við munum halda þeirri stefnu áfram. Það er voða lítið annað um málið að segja á þessu stigi. Þar sem ekki er voðalega mikið um málið að segja á þessu stigi ætla ég heldur ekkert að gera það.