150. löggjafarþing — 56. fundur
 3. feb. 2020.
meðhöndlun lögreglu á fólki í geðrofi.

[15:17]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Undanfarna áratugi hefur lögreglan verið send út til að eiga við fólk í geðrofi. Ég þekki þessi mál af eigin raun en á sjö ára tímabili mínu sem lögreglumaður lenti ég í þeirri aðstöðu. Ég verð að viðurkenna að smiðsmenntun mín dugði skammt til að gera eitthvað í þeim málum. Það sem dugði mér langbest var að ég hafði lært í fjölda ára sjálfsvarnaríþróttir og gat þannig tekið á málunum eins og hægt var. En við vitum dæmi, mjög slæm dæmi, undanfarin ár þar sem lögreglan hefur verið kölluð út til að taka á fólki sem er þetta illa veikt og viðkomandi einstaklingar því miður orðið fyrir gífurlegum skaða. Það er auðvitað óásættanlegt, bæði fyrir lögreglu og viðkomandi veika einstaklinga, að vera í slíkum aðstæðum. Það þarf að gera eitthvað í þeim málum en það virðist ekkert vera gert. Sami hluturinn virðist endurtaka sig ár eftir ár, það er hringt og beðið um sjúkrabíl en lögreglan er send á viðkomandi einstakling sem er veikur.

Þess vegna spyr vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Eru einhver ferli í gangi hjá lögreglunni? Er verið að kortleggja þetta vandamál? Er verið að taka á þessu? Hvað er verið að gera? Eða er þetta bara eitthvað sem er svæft og ekkert er gert frá ári til árs? Það hlýtur að vera krafa um það, bæði hjá lögreglu og þessum einstaklingum, að tekið sé á þeim málum og fundin lausn og ekki sé verið að senda lögreglulið á fárveikt fólk og handtaka það á mjög grófan hátt, eins og það sé einhverjir algjörir glæpamenn, sem veldur því tjóni. Það verður að finna einhverja aðra lausn.



[15:19]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Eins og hann tók ég eftir umfjöllun um lögregluna og þessi mál sérstaklega. Það hefur verið kallað eftir því að verklag lögreglu sé skoðað. Það er auðvitað sjálfsagt og það er undir lögreglunni komið og nýtt lögregluráð sem tekur til starfa í næstu viku er tilvalinn vettvangur til að öll lögreglulið landsins og héraðssaksóknari geti rætt slíkar breytingar með ríkislögreglustjóra. Ég bind miklar vonir við að það samtal muni gagnast lögreglunni vel í hinum ýmsu málum. Lögreglumenn sinna auðvitað vandasömum verkefnum á hverjum degi og við eigum frábært lið lögreglumanna sem sinnir fjölmörgum útköllum þar sem fólk er aðstoðað sem glímir oft við andleg veikindi og misnotar fíkniefni o.fl. Þá er mikilvægt að lögreglan sé líka í stakk búin til að taka á þeim málum og þekki aðstæður og þekki einkenni og kalli til aðra viðbragðsaðila eins og hv. þingmaður nefnir, líkt og sjúkrabíla og aðra til aðstoðar sé þess þörf. Ég held að með breytingum í samfélaginu og meiri þekkingu á geðrænum vandamálum og þeim áskorunum færist það til betri vegar og að þekking og umræða sé bara til þess að bæta og vonandi endurskoða verklag sé þess þörf.



[15:20]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vona bara heitt og innilega að það verði eitthvað gert og við þurfum að gera eitthvað strax. Það þarf að auka menntun lögreglumanna á þessum sviðum og líka að sjá til þess að tekið sé á þeim einstaklingum sem lenda í svona aðstæðum á þann hátt að þeir eru veikir einstaklingar en ekki að fremja afbrot. Við eigum eftir að lenda í þessum aðstæðum og það virðist vera staðreynd að slíkum tilfellum sé að stórfjölga og við vitum af hverju það er. Ýmislegt í samfélaginu veldur því að það er að aukast að fólk fari í geðrof og hefur komið sérstaklega fram t.d. við fíkniefnaneyslu og annað. En þetta eru auðvitað mjög vandmeðfarin mál. Þetta eru bæði lögreglumál og heilbrigðismál og þarna þarf lögreglan og heilbrigðiskerfið að tala saman og sjá til þess að gera eitthvað í því núna. Það er of seint að gera eitthvað þegar einn enn lendir í því að verða fyrir skaða út af rangri handtöku.



[15:22]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að almennt mætir fjöldi nýrra áskorana lögreglunni og þær hafa breyst mjög hratt. Það er meiri þekking á geðrænum vandamálum og þar er mikilvægt að vinna með heilbrigðisyfirvöldum eins og í svo mörgu sem heyrir undir mitt ráðuneyti, hvort sem það er með fangelsismálayfirvöldum varðandi aukna þjónustu sálfræðinga, aukna þekkingu lögreglumanna á geðrænum vandamálum o.s.frv. Þarna er samstarf algjört lykilatriði eins og hv. þingmaður nefnir. Hann kemur líka inn á menntunarkröfur lögreglumanna og við sjáum árangur af því að hafa fært það nám upp á háskólastig, ekki bara í aukinni menntun og möguleikum á að þróa hana enn frekar eftir breyttu samfélagsmynstri heldur líka í fjölgun menntaðra lögreglumanna. Við fáum nú um 40 útskrifaða lögreglumenn á ári en áður voru þeir 20 annað hvert ár. Það mun auðvitað bæta mjög mikið möguleikana að hafa eingöngu menntaða lögreglumenn til að sinna þeim störfum sem löggæslan sinnir þótt þeir ómenntuðu hafi verið mjög mikilvægir út af þeirri fólksfjölgun sem hefur orðið með ferðamönnum undanfarin ár.